Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Málskostnaðartrygging


                                     

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 224/2012.

Fasteignafélagið Fjörður ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Leigubæ ehf.

(Gunnar Magnússon framkvæmdastjóri)

Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis

(Stefán Bjarni Gunnlaugsson hrl.)

Verði tryggingum hf.

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

(enginn)

Norðurþingi

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Málskostnaðartrygging.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að F ehf. yrði gert að setja tryggingu fyrir hugsanlegum málskostnaði L ehf., S og V hf., að fjárhæð 150.000 krónur hvers um sig í máli F ehf. gegn L ehf., S, V hf., VÍ hf. og N.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. mars 2012, þar sóknaraðila var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilum til ógildingar á nauðungarsölu nánar tilgreindra fasteigna. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og varnaraðilum gert að greiða sér kærumálskostnað.

Varnaraðilarnir Leigubær ehf., Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og Vörður tryggingar hf. krefjast þess hver fyrir sitt leyti að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Vátryggingafélag Íslands hf. og Norðurþing hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilunum Leigubæ ehf., Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og Verði tryggingum hf. hverjum fyrir sig kærumálskostnað eins og segir í dómsorði, en að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að tveggja vikna frestur sóknaraðila, Fasteignafélagsins Fjarðar ehf., til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar hefst við uppsögu þessa dóms.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum Leigubæ ehf., Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og Verði tryggingum hf. hverjum fyrir sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. mars 2012.

Mál þetta barst dómnum 13. desember sl. Það var þingfest 28. febrúar 2012.

Sóknaraðili er Fasteignarfélagið Fjörður ehf., kt. 510806-0770, til heimilis að Miðvangi 41, Hafnarfirði.

Varnaraðilar eru Leigubær ehf., kt. 581207-2200, Barónsstíg 5, Reykjavík, Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis, kt. 610269-2659, Fjarðarvegi 5, Þórshöfn, Vörður tryggingar hf., kt. 441099-3399, Borgartúni 25, Reykjavík, Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, og sveitarfélagið Norðurþing, kt. 640169-5599, Ketilsbraut 7-9, Húsavík.

Efnislega varðar málið kröfu sóknaraðila um að ógiltar verði nauðungarsölur á 11 eignarhlutum í fjölbýlishúsi við Aðalgötu 67-69, Raufarhöfn. Lauk þeim öllum með uppboðum 16. nóvember sl. Eiga sömu málsástæður við um hverja sölu fyrir sig og er málið rekið í einu lagi hér fyrir dómi. Telur sóknaraðili að beiðni um nauðungarsölu hafi í öllum tilvikum verið áfátt, annars vegar vegna þess að greiðsluáskorun hafi ekki verið réttilega birt og hins vegar vegna þess að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir útreikningi kröfu samkvæmt skuldabréfi, sem sé gengis­tryggt.

Í þessum þætti málsins krefjast varnaraðilarnir Leigubær ehf., Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og Vörður tryggingar hf. þess að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Voru þær kröfur hafðar uppi við þingfestingu. Sóknaraðili krefst þess að þeim verði hafnað, en ella verði tryggingarfjárhæðum stillt í hóf.

Samkvæmt 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, verður al­menn­um reglum um meðferð einkamála í héraði beitt að öðru leyti við meðferð mála samkvæmt XIV. kafla laganna en þar greinir sérstaklega. Leiðir af þessu að heimilt er að gera kröfu um tryggingu fyrir málskostnaði, ef skilyrði 133. gr. laga nr. 91/1991 eru uppfyllt. Er af hálfu varnaraðila byggt á því að uppfyllt sé skilyrði b-liðar 1. mgr. þeirrar greinar, sem hljóðar um að slíka kröfu megi hafa uppi ef leiða megi líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.

Til stuðnings fullyrðingum sínum um að líkur standi til þess að sóknaraðili sé ekki fær um greiðslu málskostnaðar vísa varnaraðilarnir Leigubær ehf., Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis og Vörður tryggingar hf. til þess að árangurslaust fjárnám var gert hjá sóknaraðila hjá sýslumanninum í Reykjavík, þann 10. maí 2011 að kröfu Íslandsbanka hf., sem reyndi fjárnám til tryggingar kröfu, samtals að fjárhæð 10.151.471 króna, samkvæmt skuldabréfi. Þá vísa þeir til þess að sóknaraðili hefur ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2008-2011. Einnig hafa verið lögð fram gögn um stöðu tveggja inn­heimtu­mála, þar sem kemur fram að kröfu hefur verið lýst í andvirði tiltekinnar fasteignar við nauðungarsölu í skjóli veðskuldabréfa. Inn á þessar kröfur, sem hljóða samtals um  rúmar 19 milljónir króna, hafa greiðst í október sl. um 1,7 milljónir króna.

Þótt nokkuð sé liðið síðan framangreint árangurslaust fjárnám var gert hjá sóknaraðila, verður að fallast á að af því verða leiddar verulegar líkur á því að hann sé ekki fær um greiðslu hugsanlegs málskostnaðar. Rýrir það ekki sönnunargildi gerðar­innar að ekki var mætt af hálfu varnaraðila við hana. Þá benda nauðungarsölur, bæði þær 11 sem þetta mál er risið af, svo og sú sem fyrrnefnd innheimtumál varða, til þess að honum sé ekki unnt að standa í skilum. Þrátt fyrir þær líkur sem af þessu verða leiddar, hefur sóknaraðili ekki leitast við að hnekkja þeim með framlagningu gagna sem gætu bent til þess að fjárhagur hans sé betri en þessi gögn benda til. Eftir þessu verður að fallast á það að uppfyllt sé framangreint skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, þess að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir hugsanlegum málskostnaði. Verður honum gert að setja slíka tryggingu að fjárhæð 150.000 krónur til hvers þeirra varnaraðila um sig sem hafa uppi kröfur í þessum þætti málsins, með peningum eða óskilyrtri bankaábyrgð, innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar, að því viðlögðu að málinu verði ella vísað frá dómi, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson, héraðsdómari. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sóknaraðili, Fasteignafélagið Fjörður ehf., skal setja tryggingu fyrir hugsan­leg­um málskostnaði varnaraðilanna Leigubæjar ehf., Sparisjóðs Þórshafnar og ná­grenn­is og Varðar trygginga hf., 150.000 krónur vegna hvers um sig, samtals 450.000 krónur, með peningum eða óskilyrtri bankaábyrgð, innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.