Hæstiréttur íslands
Mál nr. 48/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Miðvikudaginn 25. janúar 2006. |
|
Nr. 48/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði bönnuð för úr landi um nánar tilgreindan tíma á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 110. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2006, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi meðan máli hans er ólokið, þó ekki lengur en til föstudagsins 3. mars 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu um farbann verði hafnað, en til vara að því verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar er tekið fram að beðið sé matsgerðar vegna hins haldlagða efnis, sem talið er vera amfetamín, en fyrir liggi matsniðurstaða varðandi hið haldlagða hass.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2006.
Héraðsdómi Reykjavíkur hefur borist krafa lögreglunnar í Reykjavík þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], verði áfram bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 3. mars 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsakar meint fíkniefnabrot kærða sem varði innflutning á 994,94 g af amfetamíni og 3.802,26 g af hassi sem falin hafi verið í bifreið sem flutt var til landsins frá Danmörku með ferjunni Norrænu um Seyðisfjörð þann 13. þ.m. Fíkniefnin séu talin hafa átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Kærði hafi verið handtekinn þann 15. sama mánaðar í bifreið í Breiðholti en meiri hluti fíkniefnanna hafi fundist þá í bifreiðinni auk fíkniefna sem hafi fundist síðar um kvöldið í húsnæði í Hafnarfirði. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 16. til 23. sama mánaðar, en frá þeim tíma farbanni.
Kærði hafi játað tiltekna aðild að innflutningi fíkniefna sem lúti að milligöngu um flutning efnanna til landsins fyrir annan ónafngreindan vitorðsmann, móttöku efnanna hér á landi og vörslur þeirra í því skyni að afhenda efnin umræddum vitorðsmanni. Skv. framansögðu og með vísan til gagna málsins þyki fyrir hendi sterkur rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem kunni að varða fangelsisrefsingu ef sök sannist. Rannsókn málsins sé langt komin en beðið sé gagna frá fjármálastofnunum og niðurstöðu rannsóknarstofu H.Í. sem taki til nákvæmrar greiningar á hinum haldlögðu fíkniefnum. Að lokinni rannsókn verði málið sent til ríkissaksóknara til viðeigandi ákærumeðferðar. Við rannsókn málsins hafi komið fram að kærði ætli að flytja til Danmerkur á næstunni, hann hafi leigt þar húsnæði auk þess sem sonur hans sé búsettur í Danmörku. Möguleg brottför kærða af landinu gæti torveldað frekari rannsókn málsins og því sé nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða með farbanni á meðan málið sætir áframhaldandi rannsókn og þar til ákvörðun um saksókn liggi fyrir. Um rannsóknar- og saksóknarhagsmuni í fíkniefnamáli sem grundvöll fyrir farbanni íslensks ríkisborgara er vísað til dóms Hæstaréttar nr. 97/2003.
Sakarefnið er talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til farbanns er vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Með vísan til framanritaðs, sem og með hliðsjón af rannsóknargögnum, þykir kominn fram rökstuddur grunur um, að kærði hafi framið það brot, sem hann er grunaður um. Komið hefur fram að kærði hafi leigt húsnæði í Danmörku en kvaðst nú fyrir dóminum hættur við þær fyrirætlanir að flytjast þangað. Hann hefur þó sagst þurfa að fara þangað á næstunni til að ganga frá málum sínum þar. Þá liggur fyrir að rannsókn málsins er ekki lokið og er fallist á það með lögreglustjóranum að brottför kærða af landi brott gæti torveldað frekari rannsókn og málssóknina og því sé nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða meðan máli hans er ólokið. Með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er því fallist á kröfuna, en ekki þykja efni til að marka farbanninu skemmri tíma.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, [kt.], er áfram bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 3. mars 2006, kl. 16:00.