Hæstiréttur íslands
Mál nr. 205/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
|
|
Fimmtudaginn 12. apríl 2012. |
|
Nr. 205/2012. |
Ákæruvaldið (Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari) gegn X og (Óttar Pálsson hrl.) Y (Þórður Bogason hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjöl.
Sakborningarnir X og Y kröfðust þess að fá afhenta geisladiska með mynd- og hljóðupptökum af ákærðu og vitnum í máli sem höfðað hafði verið gegn þeim. Umræddir geisladiskar voru ekki taldir skjöl eða önnur gögn í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fram var komið í málinu að verjendum væri heimill aðgangur að upptökunum. Að auki lá fyrir að framburður á geisladiskunum hafði verið endurritaður orðrétt og höfðu endurritin verið lögð fram við þingfestingu málsins og þar með orðið hluti af gögnum þess. Kröfu um afhendingu geisladiskanna var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um afhendingu geisladiska með mynd- og hljóðupptökum af ákærðu og vitnum í málinu. Um kæruheimild er einkum vísað til c. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að sóknaraðila verði gert að afhenda verjendum þeirra afrit af geisladiskum með hljóð- og myndupptökum af skýrslutökum af vitnum og ákærðu í málinu, en til vara afrit af hljóðupptökum sama efnis.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómum Hæstaréttar í málum nr. 495/2009, 496/2009 og 497/2009, sem kveðnir voru upp 21. september 2009 í samkynja málum, var komist að þeirri niðurstöðu að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala eða annarra gagna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 og var af þeim sökum synjað um afhendingu þeirra á rannsóknarstigi máls. Þá leiðir af dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010, þar sem fjallað var um synjun lögreglu á afhendingu gagna samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, að sama gildir um aðgang verjenda sakaðra manna að slíkum upptökum eftir að mál hefur verið höfðað.
Fram er komið í málinu að verjendum er heimill aðgangur að upptökum af skýrslum lögreglu af varnaraðilum og vitnum samkvæmt fyrri málslið 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl., sem sett var að þessu leyti með stoð í 67. gr. laga nr. 88/2008. Þar að auki hefur framburður ákærðu og vitna hjá lögreglu verið endurritaður orðrétt samkvæmt b. lið 12. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Voru endurritin lögð fram við þingfestingu málsins og þau þar með orðin hluti af gögnum þess. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2012.
Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 14. desember 2011 og framhaldsákæru 28. febrúar 2012 er ákærðu, X og Y, gefið að sök umboðssvik, í störfum sínum fyrir A hf. með tilgreindri lánveitingu til einkahlutafélagsins B, sem talin eru varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Af hálfu varnaraðila, X og Y, er þess krafist aðallega, að sóknaraðila verði gert að afhenda verjendum varnaraðila afrit af geisladiskum með hljóð- og myndupptökum af skýrslutökum yfir vitnum og ákærðu í málinu, sbr. VI. kafla (bls. 2003-2020) í skjalaskrá. Til vara er þess krafist að sóknaraðila verði gert að afhenda verjendum varnaraðila afrit af hljóðupptökum af skýrslutökum yfir vitnum og ákærðu í málinu. Í báðum tilvikum krefjast varnaraðilar málskostnaðar.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfum varnaraðila verði hafnað.
I
Verjandi varnaraðila, X, sendi sóknaraðila bréf 2. mars 2012 með kröfu um að verjandanum yrði afhent afrit af hljóð- og mynddiskum með skýrslutökum af sakborningum og vitnum í málinu. Með bréfi 9. mars sl. hafnaði sóknaraðili kröfu verjandans. Í framhaldi óskuðu verjendur varnaraðila eftir því að dómurinn myndi úrskurða um skyldu sóknaraðila til að afhenda verjendum afrit af hljóð- og mynddiskum með skýrslutökum af sakborningum og vitnum í málinu. Var málið tekið fyrir á dómþingi 16. mars sl. um kröfu verjenda varnaraðila um afhendingu gagna og var málið tekið til úrskurðar að loknum málflutningi.
II
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að af meginreglum um réttláta málsmeðferð og jafnræði málsaðila leiði, eftir því sem kostur sé, að veita beri manni sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi sömu aðstöðu og ákæruvaldinu til þess að flytja mál sitt. Réttindi þessi leiði af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Aðgangur að gögnum máls sé mikilvægur þáttur meginreglunnar um réttláta málsmeðferð og reglunnar um jafnræði aðila. Af þeim leiði að útgangspunkturinn sé sá að gögn beri að afhenda ákærða og verjanda ef því verði við komið, nema lög mæli fyrir um sérstök frávik þar að lútandi.
Tiltekin ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, geri beinlínis ráð fyrir að ákærði og verjandi hans fái eintak af gögnum máls við þingfestingu þess. Í því efni sé vísað til ákvæða 154. gr. laganna er varði afhendingu sýnilegra sönnunargagna til héraðsdóms, 1. mgr. 158. gr. laganna er kveði á um að ákæra og önnur málsgögn skuli lögð fram á dómþingi, 163. gr. laganna er kveði á um að ákærða sé kynnt efni framlagðra gagna og 1. og 2. mgr. 47. gr. laganna er varði rétt réttargæslumanns til að fá aðgang að öllum göngum sem varði þátt skjólstæðings hans og heimild til að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af þeim.
Ákvæði 37. gr. laga nr. 88/2008, sem feli í sér takmarkanir á rétti sakbornings og verjanda til að fá aðgang að gögnum, eigi við á rannsóknarstigi máls. Þær takmarkanir styðjist við rannsóknarhagsmuni, öryggi ríkisins eða almennings, brýna einkahagsmuni annarra en sakbornings eða fyrirstöðu vegna samskipta við yfirvöld í öðrum ríkjum. Eftir að mál hafi verið höfðað með útgáfu ákæru, hafi lög nr. 88/2008 ekki að geyma nein lagaákvæði um takmarkanir á rétti hins ákærða til aðgangs að gögnum sem lögð séu fram í dómi.
Jafnvel þótt talið yrði að undantekningar frá meginreglunni væru til staðar eftir að mál sé komið af rannsóknarstigi þá beri samkvæmt viðurkenndum reglum við lögskýringar að túlka þær þröngt. Við bætist að af hálfu ákæruvalds hafi ekki verið sýnt fram á neina þá hagsmuni sem réttlætt geti synjum kröfu um afhendingu. Þá verði réttur til aðgangs að gögnum ekki takmarkaður á grundvelli 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009, sem skorti lagastoð um þetta atriði.
Tilgangur með því fyrir verjendur varnaraðila að fá í hendi geisladiska með hljóð- og myndupptökum sé að sannreyna endurritun af framburðum. Miklu skipti að endurritun sé nákvæm og rétt og þurfi verjendur að geta sannreynt það. Ekki sé nægjanlegt að verjendum sé boðin aðstaða á starfsstöð ákæruvaldsins til að hlýða á upptökur, heldur þurfi þeir að hafa óheftan aðgang að þessum upptökum á eigin starfsstöðvum. Engir brýnir einkahagsmunir réttlæti að varnaraðilum verði ekki afhent umrædd gögn. Í það minnsta hafi sóknaraðili ekki bent á neina slíka hagsmuni.
III
Sóknaraðili byggir á því að hvergi sé í lögum að finna skyldu fyrir sóknaraðila að afhenda varnaraðilum geisladiska með hljóð- og myndbandsupptökum af skýrslum sakborninga og vitna í málinu. Þá verði slík skylda ekki leidd af fordæmum Hæstaréttar. Afhending á þessum gögnum geti einungis farið fram á grundvelli skýrrar lagastoðar.
Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008 skuli það sem fram komi við skýrslutöku við rannsókn hljóðritað, tekið upp á myndband eða mynddisk eða ritað af þeim sem skýrslu taki. Umræddir hljóð- og mynddiskar hafi verið lagðir til dómsins ásamt ákæruskjali og skjallegum gögnum. Séu þeir eðli máls ekki hluti af skjölum sakamáls. Um þessi atriði sé nánar kveðið á um í reglugerð nr. 651/2009, sem sett hafi verið með heimild í 3. ml. 2. mgr. 28., 67. gr. og 4. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008. Í fyrsta málslið 18. gr. reglugerðarinnar sé skýrt kveðið á um að verjandi, sakborningur og réttargæslumaður eigi rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu. Í öðrum málslið segi að um aðgang að gögnum máls fari samkvæmt ákvæðum 37., og 47. gr. laga nr. 88/2008. Til að vanda sem mest til rannsóknar málsins hafi verið ákveðið að haga skýrslutökum við rannsókn málsins með þeim hætti að þær skyldu endurritaðar í samræmi við b lið 12. gr. reglugerðar nr. 651/2009. Hafi öll endurrit af upptökum af yfirheyrslum hjá lögreglu er málið varði verið afhent verjendum. Umrædd gögn teljist hvorki til sýnilegra sönnunargagna né heldur til skjala sakamáls í pappírsformi í skilningi laga nr. 88/2008, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 495/2009. Í samræmi við 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009 verði orðið við óskum verjenda um tíma og aðstöðu til þess að hlusta og horfa að vild á upptökur á skrifstofu embættis sérstaks saksóknara. Þá hafi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 614/2010 verið slegið föstu að sömu sjónarmið og liggi til grundvallar reglum 37. gr. laga nr. 88/2008 eigi einnig við eftir að ákæra hafi verið gefin út í máli.
Þá vísi sóknaraðili til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu og reglna um frjálst sönnunarmat dómara, enda ljóst að við aðalmeðferð málsins muni skýrslutökur af ákærðu og vitnum fara fram fyrir dómi við sönnunarfærslu. Sé jafnræði því hvergi raskað í málinu. Ef kröfur varnaraðila verði samþykktar kunni efni úr uppteknum lögregluyfirheyrslum að komast í hendur aðila sem upptökurnar eigi ekki erindi til. Geti það leitt til þess að þær birtist á veraldarvefnum.
Í ljósi þeirra reglna sakamálaréttarfars um að lögregla skuli afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og til að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi sem og þeirrar skyldu þeirra sem mál rannsaki að hið sanna og rétta komi í ljós og horfa jafnt til atriða sem horfa til sýknu eða sektar, verði ekki séð hver sé tilgangurinn með afhendingu upptökudiska þar sem allt efni þeirra hafi þegar verið endurritað. Margvíslegir og ríkir hagsmunir standi í vegi fyrir afhendingu upptökudiska.
IV
Um tvö álitaefni tengd hljóð- eða mynddiskum er hér skipta máli hefur þegar verið dæmt í Hæstarétti Íslands. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 495/2009, sem upp var kveðinn 21. september 2009, og tveim öðrum samkynja málum sem dæmd voru sama dag var slegið föstu, að eftirgerð af hljóð- eða mynddiskum teldist ekki til skjala eða annarra gagna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Tekið var fram að lög á sviði réttarfars hefðu að geyma fjölmörg ákvæði, þar sem með ýmsu móti væri kveðið á um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn og meðferð þeirra. Hefðbundin skýring á þessu sviði réttarfars væri sú að með skjölum væri átt við gögn í pappírsformi, en annað félli undir það að vera sýnileg sönnunargögn. Ekki væru efni til að telja annað eiga við um ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 að þessu leyti og breytti engu þótt þar væri rætt um önnur gögn, en ekki sýnileg sönnunargögn. Almenn málnotkun á orðinu styddi þessa skýringu.
Þá var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 614/2010, sem upp var kveðinn 1. nóvember 2010, slegið föstu að þó svo ekkert sambærilegt ákvæði væri að finna í lögum nr. 88/2008 eftir útgáfu ákæru, þá ættu sömu reglur að gilda þá og á rannsóknarstigi um heimild lögreglu til að synja um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum á grundvelli 3. mgr. 37. gr. laganna, stæðu brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings verjanda því í vegi. Að því verður að gæta að dómur þessi varðar ekki skýrslutökur af ákærða eða vitnum á hljóð- eða mynddiskum heldur myndir sem teknar höfðu verið af fáklæddum eða nöktum stúlkum í sturtu eða búningsklefum.
Í VIII. kafla laga nr. 88/2008, sem ber yfirskriftina skýrslutaka við rannsókn, er kveðið á um skýrslutöku lögreglu af sakborningum og vitnum. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laganna skal það sem fram kemur við skýrslutöku hljóðritað, tekið upp á myndband eða mynddisk, eftir því sem við verður komið, en annars ritað af þeim sem skýrslu tekur eftir nánari ákvörðun hans. Samkvæmt 67. gr. laganna skal ráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um málaskrá lögreglu, um skýrslur sem teknar séu og varðveislu skriflegra skýrslna, hljóðritana, myndbanda og mynddiska með framburði skýrslugjafa. Á grundvelli framangreindrar heimildar gaf dómsmálaráðherra 8. júlí 2009 út reglugerð nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Er í III. kafla reglugerðarinnar mælt fyrir um skýrslutöku og upptöku lögregluyfirheyrslna. Samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar er með upptökum átt við hljóðritun eða mynd- og hljóðritun. Samkvæmt 12. gr. skal fyrirkomulag við skráningu framburðar vera með einum eftirfarandi hætti: Samkvæmt a-lið samantekt sem byggð sé á upptökunni sem rituð sé eftir á sem skýrsla. Samkvæmt b-lið orðrétt endurrit upptöku skráð eftirá. Samkvæmt c-lið skýrsla sem skráð er því sem næst orðrétt samhliða upptöku. Í máli þessu liggur fyrir að framburðir ákærðu og vitna voru teknir upp á diska með mynd- og hljóðritun og skráðir orðrétt í endurrit samkvæmt b-lið 12. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 18. gr. reglugerðarinnar eiga verjandi, sakborningur og réttargæslumaður rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu. Samkvæmt ákvæðinu fer um aðgang að gögnum máls samkvæmt 37. og 47. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt 134. gr. laga nr. 88/2008 leggja aðilar fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Í 2. mgr. sama ákvæðis er tekið fram að ákærandi leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hafi verið við rannsókn og sönnunargildi hefðu að hans mati, þar á meðal þau sem hefðu að geyma framburð ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu. Samkvæmt 154. gr. laga nr. 88/2008 skal ákæra, ásamt þeim sýnilegu sönnunargögnum sem ákæruvald hyggst leggja fram í máli, send héraðsdómi eftir útgáfu hennar. Samkvæmt 1. mgr. 163. gr. laganna skal ákærði við þingfestingu máls spurður að því hvort hann játi efni ákæru rétt og skal honum kynnt efni framlagðra skjala ef hann er viðstaddur. Ella skal það gert í þinghaldi þegar ákærði kemur fyrst fyrir dóm eftir þingfestingu.
Af framangreindum dómum Hæstaréttar og tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 88/2008 verður ráðið að skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn liggi til grundvallar sókn og vörn í sakamáli. Mynd- eða hljóðupptaka af yfirheyrslu, hvort sem er yfir sakborningi eða vitni, telst ekki til slíkra gagna í sakamáli, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 495/2009. Með hliðsjón af því standa ákvæði laga ekki því í vegi að ráðherra sé heimilt að mæla fyrir um meðferð slíkra gagna í reglugerð, svo sem hann hefur gert í 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009. Þó svo ekki sé tekið fram í greininni að verjandi, sakborningur og réttargæslumaður eigi rétt á að hlýða eða horfa á upptöku á starfsstöð lögreglu leiðir það af eðli máls. Með hliðsjón af þessu verður bæði aðal- og varakröfu varnaraðila hafnað.
Tillit til einkahagsmuna þess sem skýrslu gefur styður einnig þessa niðurstöðu. Samkvæmt 4. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 er verjanda, þegar hann hefur fengið aðgang að gögnum máls, heimilt að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af þeim eða kynna honum þau með öðrum hætti. Á grundvelli þessa ákvæðis væri verjanda heimilt að afhenda skjólstæðingi sínum diska með mynd- og hljóðupptökum af ákærðu og vitnum eða diska með hljóðupptökum af sömu aðilum. Með því móti gætu upptökur þessar komist í hendur aðilum sem ekki tengjast málinu. Er um rafrænar upptökur að ræða sem auðvelt er að misfara með.
Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu varnaraðila, X og Y, um afhendingu geisladiska með mynd- og hljóðupptökum af skýrslutökum af ákærðu og vitnum í málinu er hafnað.
Kröfu varnaraðila, um afhendingu geisladiska með hljóðupptökum af skýrslutökum af ákærðu og vitnum í málinu er hafnað.