Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2009


Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Hótanir
  • Fyrning


Fimmtudaginn 11. febrúar 2010.

Nr. 424/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Ærumeiðingar. Hótanir. Fyrning.

X var ákærður fyrir hótanir og ærumeiðingar gagnvart A, starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur, með því að hafa sent smáskilaboð í síma eiginmanns hennar og í síma ólögráða sonar hennar. Í málinu var talið sannað að X hefði staðið að sendingu smáskilaboða á þeim tíma og í þá síma sem greint var frá í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að efni smáskilaboðanna hefðu verið með þeim hætti sem í ákæru greindi. A upplýsti að hún og eiginmaður hennar hefðu tekið símkort úr síma sonar þeirra, en í hann bárust þau skilaboð sem ákært var fyrir að frátöldum þeim sem greindi í 2. tölulið ákæru og bárust í síma eiginmanns hennar. Er eiginmaður A bar vitni fyrir dómi sýndi hann síma sinn og unnt var að staðreyna að skilaboðin í honum voru samhljóða þeim sem ákært var fyrir. Talið var að við rannsókn málsins hefði lögreglu borið að afla símkorta með þeim smáskilaboðum sem kæra laut að, enda kortin tiltæk við upphaf rannsóknarinnar. Með þeim hætti hefði verið unnt að staðreyna efni skilaboðanna. Gegn neitun X var ekki talið að fram væri komin sönnun um efni smáskilaboðanna, að frátöldum þeim sem greindi í 2. tölulið ákæru og bárust eiginmanni A.  Í málin var ekki var fallist á kröfu X um sýknu á grundvelli þess að sök hans væri fyrnd og X sakfellur fyrir brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing X var ákveðin 100.000 króna sekt í ríkissjóð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

I

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi á mál þetta rót sína að rekja til  smáskilaboða sem bárust frá 29. desember 2006 til 16. janúar 2007 í síma eiginmanns og barna eins starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur, sem hafði haft með málefni ákærða að gera í starfi sínu. Starfsmaðurinn kom á lögreglustöð 30. desember 2006 og tilkynnti um ónæði vegna smáskilaboða, sem þá höfðu borist. Starfsmaðurinn sendi einnig tilkynningu 3. janúar 2007 um ónæði vegna smáskilaboða á sérstöku eyðublaði til Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Málið var kært til lögreglu með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar 10. janúar 2007. Starfsmaðurinn gaf skýrslu hjá lögreglu 24. sama mánaðar. Í skýrslunni er meðal annars bókað að hún óski eftir að lögreglan taki málið til rannsóknar og upplýsi það. Er í skýrslunni vísað til þess að krafa um refsingu hins brotlega hafi þegar verið sett fram í nefndu bréfi velferðarsviðs og jafnframt bókað eftir starfsmanninum: ,,en því til viðbótar áskil ég mér allan rétt til að koma bótakröfu á framfæri á síðari stigum málsins.“

Er málið réttilega höfðað af ákæruvaldsins hálfu, sbr. 1. tölulið og c. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Í framangreindri lögregluskýrslu segir að sum smáskilaboðanna séu glötuð. Er jafnframt bókað eftir starfsmanninum: ,,Ég hef tekið saman þau skilaboð sem [ákærði] hefur sent börnum og eiginmanni mínum frá því þetta byrjaði en aðeins er um hluta þeirra skilaboða að ræða sem hafa komið frá honum vegna þess að kort annars sona minna glataðist.“ Í skýrslunni kemur fram að starfsmaðurinn afhenti lista með níu smáskilaboðum þar sem tilgreindur er tími þegar þau voru send, í hvaða símanúmer sent var og efni þeirra. Eru smáskilaboðin í ákæru tekin orðrétt eftir þessum lista. Af lögregluskýrslunni og skýrslu starfsmannsins fyrir dómi verður ráðið að hún hafi skráð skilaboðin sjálf af skjá símanna.

Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi staðið að sendingu smáskilaboða á þeim tímum og í þá síma sem í ákæru greinir. Ákærði hefur neitað því að smáskilaboðin, sem ákæra tekur til, hafi verið þess efnis sem þar greinir. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur upplýsti að hún og eiginmaður hennar hefðu tekið símkortin úr síma sonar þeirra, en í hann bárust þau smáskilaboð sem ákært er fyrir að frátöldum þeim sem greinir í 2. tölulið ákæru, er bárust í síma eiginmanns hennar. Er hann gaf skýrslu fyrir dómi sýndi hann símann og var unnt að staðreyna að skilboðin í símanum voru samhljóða þeim sem ákært er fyrir í þessum tölulið. Við rannsókn málsins bar lögreglu að afla símkorta með þeim smáskilaboðum sem kæra laut að, enda voru kortin tiltæk við upphaf rannsóknarinnar, sbr. 68. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, nú 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með þeim hætti hefði verið unnt að staðreyna efni skilaboðanna. Gegn neitun ákærða verður ekki talið að sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, sé fram komin um að efni smáskilaboðanna, að frátöldum þeim sem greinir í 2. tölulið, sé það sem í ákæru greinir. Verður ákærði af þessari ástæðu sýknaður af ákæruliðum 1 og 3 til 9.

Á hinn bóginn verður talið sannað að efni smáskilaboða í 2. tölulið ákæru sé eins og þar greinir og verður ákærði sakfelldur fyrir það. Brotið er réttilega heimfært til 235. gr. almennra hegningarlaga.

III

Ákærði hefur einnig reist sýknukröfu sína á því að sök hans sé, hvað sem öðru líði, fyrnd.

Refsing fyrir brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. þeirra laga fyrnist brot á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við því en eins árs fangelsi. Brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru var framið 29. desember 2006 og hófst  fyrningarfrestur þann dag, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Í 4. mgr. 82. gr. þeirra er mælt fyrir um að fyrningarfrestur rofni þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Þótt starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi, þegar hún kom á lögreglustöð 30. desember 2006 og tilkynnti um ónæði vegna smáskilaboðanna, bent á ákærða sem líklegan sendanda, verður ekki talið að rannsókn gegn honum sem sakborningi hafi hafist fyrr en ljóst var orðið að hann var skráður notandi að tölvu með því IP númeri sem smáskilaboðin voru send úr. Í framhaldi af því var hann 27. febrúar 2007 kvaddur bréflega á lögreglustöð til skýrslugjafar. Ákærði sinnti ekki kvaðningunni. Gögn málsins bera ekki annað með sér en að rannsókn lögreglu hafi stöðvast frá febrúarlokum 2007 og þar til 21. ágúst sama ár, en þann dag mætti ákærði samkvæmt kvaðningu til lögreglu og gaf skýrslu. Í febrúar 2008 voru skýrslur teknar af starfsmanninum, eiginmanni hennar og tveimur börnum. Ekki var aðhafst frekar fyrr en í nóvember 2008 en 18. þess mánaðar fékk lögregla dómsúrskurð um heimild til húsleitar hjá ákærða í því skyni að handtaka hann. Eftir handtöku 21. nóvember var aftur tekin af honum lögregluskýrsla. Þótt aðgerðir lögreglu í febrúar og ágúst 2007 gætu hafa rofið fyrningu sakar leiddi eftirfarandi aðgerðarleysi lögreglu, sem ákærða verður ekki einum kennt um, til þess samkvæmt 2. málslið 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga að fyrning var ekki rofin við þessi tímamörk.

Rannsókn lögreglu var á hinn bóginn fram haldið án óþarfa dráttar eftir að skýrsla var tekin af ákærða 21. nóvember 2008. Samkvæmt gögnum málsins lauk henni með skýrslu fyrrverandi sambýliskonu hans hjá lögreglu sama dag. Fyrning þess brots sem ákærði er sakfelldur fyrir var því rofin í síðasta lagi 21. nóvember 2008. Var sökin ófyrnd er málið var höfðað með útgáfu ákæru 13. febrúar 2009, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir brot samkvæmt 2. tölulið ákæru. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Er refsing hans hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, X, greiði 100.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Tómasar Hrafns Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur, og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.

                Mál þetta, sem dómtekið var 9. júní sl. er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 13. febrúar 2009 á hendur X, [...], fyrir hótanir og ærumeiðingar gagnvart starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur, A, kennitala [...], með því að hafa í desember 2006 og janúar 2007 sent smáskilaboð í síma eiginmanns hennar, B, kennitala [...], í farsímanúmer [...], og í síma ólögráða sonar hennar, C, kennitala [...], í farsímanúmer [...], með það fyrir augum að vekja hjá A ótta um velferð barna hennar og vegið að æru hennar. Eftirfarandi smáskilaboð voru send úr tölvu með IP tölu, sem skráð var á ákærða, af heimasíðunni www.siminn.is í farsímanúmerið [...] nema annað sé tekið fram.

1.        Þann 29. desember kl. 06:15:37: ,,Hvort er betra ad taka tvibura eda bara helminginn?“

2.        Þann 29. desember kl. 13:48 í farsímanúmer [...]: ,,Ert vonandi farinn ad sjá ad A heldur framhjá thér oft í viku B?“

3.        Þann 31. desember kl. 11:50:50: ,,Hvad skedur ef einn tviburi fær ovart rakettu framan I sig? Verdur hann tá ekki eins og brodirinn?“

4.        Þann 31. desember kl. 16:47:38: ,,Veistu Hvad A er buin ad drepa mörg börn i dag?“

5.        Þann 1. janúar kl. 08:50:48: ,,Passadi mamma tin sug æa ad tid sæud hana ekki meida og stela börnum sídasta dag ársins?????????“

6.        Þann 2. janúar kl. 15:14:49: ,,Veist thu hvad mamma thin er buin ad stela mörgum börnum i dag og selja tau?“

7.        Þann 6. janúar kl. 17:55:51: ,,Veistu hvad A lét stela mörgum börnum og lokadi inni i gær bara af tvi henni langadi I peninga?“

8.        Þann 7. janúar kl. 23:37:23: ,,Veistu virkilega ekkert hvad A hefur stoldi mörgum börnum ur skola og fengid pening fyrir??“

9.        Þann 16. janúar kl. 16:55:41: ,,Kannski fáid tid nytt barnakjör i matin ef A hefur slátrad einhverjum börnum i dag! Veistu had?“

                Er háttsemi samkvæmt 1. og 3. ákærulið talin varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en samkvæmt 2. og 4.-9. ákærulið við 235. gr. sömu laga.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að málsvarnarlaun verði ákvörðuð að mati dómsins og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Málavextir.

Með bréfi dagsettu þann 10. janúar 2007 barst lögreglu kæra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á hendur ákærða fyrir hótanir og áreiti í garð A, félagsráðgjafa og starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Í bréfinu kemur fram að borist hefðu sms-skilaboð frá ákærða í síma eiginmanns og barna A. Skilaboðin hefðu fyrst borist þann 29. desember 2006, en þann 3. janúar hefðu þau verið orðin um 15 talsins. Hefðu [...] tvíburasynir A fengið flest skilaboðanna. Segir í bréfinu að svo virðist sem sms-skilaboðin hafi verið send úr tölvu ákærða og feli þau í sér hótanir og áreiti sem að mati A og fjölskyldu hennar séu ógnandi og til þess fallin að raska hefðbundnu heimilishaldi verulega. Hafi skilaboðin haft mikil áhrif á börnin.

Á meðal gagna málsins er afrit dagbókarfærslu lögreglu frá 30. desember 2006, þar sem kemur fram að A hafi komið á lögreglustöð í þeim tilgangi að tilkynna um ítrekað ónæði sem hún og fjölskylda hennar hefði orðið fyrir daginn áður með sms-skilaboðum sem borist hafi óskráð um internetið. Hefði hana grunað ákærða um að standa að þessum skilaboðum. Kemur fram að A teldi að ákærði væri til alls vís og íhugaði hún að leggja fram formlega kæru ef þetta ónæði héldi áfram. Hafi verið ákveðið að lögreglumaður hefði samband við ákærða og í því skyni að tala um fyrir honum og fá hann til að hætta þessu ónæði. Í dagbókinni er því svo lýst að án árangurs hafi verið reynt að hafa uppi á ákærða næstu daga, en hann hafi hvorki svarað síma né komið til dyra á heimili sínu. Á gamlársdag hefðu enn borist nokkur skilaboð í síma barna og eiginmanns A.

                A gaf skýrslu hjá lögreglu þann 24. janúar 2007. Greindi hún frá því að hún hefði í starfi sínu fyrir Barnavernd Reykjavíkur farið með málefni barna ákærða. Sonur ákærða hefði verið í tímabundnu fóstri en það hefði verið með samþykki móður, sem færi með forsjá hans. Ákærði hefði hins vegar haft leyfi til að hitta son sinn undir eftirliti Barnaverndar. Hefði ákærði verið afar ósáttur við það skilyrði. Hinn 28. desember hefði föðurfjölskylda drengsins fengið að hitta hann í húsnæði á vegum Barnaverndar, en drengurinn hefði þá verið í vistun á heimili í [...]. Hefði heimsóknin farið fram án eftirlits. Ákærða hefði ekki verið boðið til fundarins þar sem hann þyrfti að sæta því að hitta drenginn undir eftirliti. Snemma morguns hinn 29. desember hefðu sms-sendingar tekið að berast í síma barna A og eiginmanns hennar. Hefðu skilaboðin öll verið sett fram sem spurningar og verið á þá leið að A væri barnaníðingur, þjófur og morðingi. Eiginmaður hennar hefði fengið skilaboð þess efnis að hún væri að halda fram hjá honum. Skilaboðin hefðu borist frá vefsíðunni siminn.is. Kvað A sig gruna að skilboðin kæmu frá ákærða þar sem hann hefði frá fyrsta degi verið mjög ósáttur við allar aðgerðir Barnaverndar. Gat hún þess einnig að ákærði hefði áreitt þann starfsmann sem fór með mál barna hans áður en hún tók við málinu. Kvaðst hún hafa fengið sms-skilaboð á tímabilinu 29. desember til 16. janúar 2007. Sum skilaboðin væru hins vegar glötuð þar sem símakort sonar hennar hefði glatast. Kvaðst A óttast um fjölskyldu sína og sagði börn sín lifa í stöðugum ótta.

Í skýrslunni kemur fram að A hafi tekið saman þau skilaboð sem börnum hennar og eiginmanni hefðu borist. Þó væri aðeins um hluta þeirra skilaboða að ræða, þar sem sum hefðu glatast. Meðfylgjandi lögregluskýrslunni eru endurrit af sms- skilaboðum ásamt upplýsingum um hverjum þau bárust og hvenær. Er um að ræða þau skilaboð sem ákæra lýtur að. Þann 3. apríl 2008 mætti A hjá lögreglu og framvísaði gsm-síma eiginmanns síns. Í símanum voru tvenn sms-skilaboð, önnur frá desember 2006 en hin síðari frá júlí mánuði 2007. Í því fyrra var þeirri spurningu beint að eiginmanni hennar hvort hann væri farinn að sjá að hún héldi fram hjá honum oft í viku og í því síðara var spurt að því hvað A væri að gera á einkamál.is.

                Þann 12. febrúar 2007 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð þess efnis að Símanum hf. yrði gert skylt að upplýsa um IP-tölu þeirrar tölvu eða þeirra tölva sem umrædd sms-skilaboð voru send úr af heimasíðu Símans. Reyndist umrædd IP-tala vera skráð á nafn ákærða hjá Og fjarskiptum ehf.   

                Ákærði var yfirheyrður af  lögreglu þann 21. ágúst 2007. Kvaðst hann aldrei hafa viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir í garð kæranda „nema það sem rétt er“. Kvaðst ákærði jafnframt hafa látið vita af því á fundum Barnaverndar að börnum hans hefði verið misþyrmt meðan þau voru í þeirra umsjá og hefði hann þar meðal annars nefnt A til sögunnar. Hefði Barnavernd í engu sinnt athugasemdum hans og hefði A átt þar hlut að máli. Kvað ákærði rangt að hann hefði ásótt A með hótunum og ærumeiðandi ummælum eða póstsendingum. Liti hann svo á að málið væri tilbúningur af hendi Barnaverndar með það fyrir augum að búa til mál á hendur honum.

Borin voru sérstaklega undir ákærða tiltekin sms-skilaboð frá tímabilinu 29. desember 2006 til 16. janúar 2007. Neitaði ákærði því að hafa sent skilaboðin. Er undir hann var borið að skilaboðin hefðu verið rakin til IP-tölu sem hann væri skráður fyrir kvaðst ákærði ekki kannast við tölurnar sem tilgreindar væru. Kvaðst hann hins vegar kannast við að vera í netviðskiptum við Og fjarskipti.

Meðal gagna málsins eru kvaðningar lögreglu þar sem kemur fram að ákærði hafi í þrígang verið bréflega kvaddur til að mæta á skrifstofu lögreglustjóra til viðtals hjá tilteknum rannsóknarlögreglumanni í þágu rannsóknar málsins. Eru kvaðningarnar dagsettar hinn 27. febrúar 2007, 27. júní 2008 og 29. september 2008.

                Ákærði var loks handtekinn þann 21. nóvember 2008 að fengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Í úrskurðinum er rakið að lögregla hafi ítrekað reynt að ná í ákærða með það að markmiði að yfirheyra hann í þágu rannsóknar málsins. Hafi hann þannig bréflega verið kvaddur til yfirheyrslu þann 27. júní 2008 og aftur 29. september 2008. Ákærði hafi hins vegar ekki sinnt kvaðningum. Þá hafi ákærði ekki heldur svarað símtölum lögreglu og ekki komið til dyra er lögregla hafi knúið dyra hjá honum. Ákærði hafi jafnframt verið eftirlýstur af lögreglu, en án árangurs og hann sé hvorki skráður á launaskrá né sem bótaþegi.

                Í yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði ekkert kannast við að hafa haft samband við kæranda á netinu. Kvaðst hann vita til þess að dóttur hans væri í nöp við kæranda. Hefði dóttirin haft aðgang að nettengingu á tölvu hans á þeim tíma sem rannsóknin beindist að. Væri honum hins vegar ekki kunnugt um að hún hefði sent sms-skilaboð eða önnur boð til kæranda.

Fyrir dómi kvaðst ákærði kannast við A vegna starfs hennar í Barnavernd, þar sem hún hefði haft með mál barna hans að gera. Hefðu börn ákærða verið tekin úr hans umsjá en hann fengið forsjá þeirra aftur með dómi. Hefði A farið fram á það að börnin yrðu vistuð utan heimilis. Ákærði gerði grein fyrir samskiptum sínum við A og kvað hana hafa ónáðað sig mikið með símtölum og tölvupósti. Hefði hann beðið hana um að hætta því en hún hefði ,,endalaust kallað hann á fundi sem væru til einskis“, þar sem hún hefði verið ,,búin að taka þær ákvarðanir sem hún tekur“. Spurður um þau sms-skilaboð sem liggja fyrir í málinu kvaðst ákærði ekki hafa sent þau og kvaðst aldrei hafa haft samband við A nema í gegnum vinnusíma. Kvaðst hann ekki hafa nein persónuleg símanúmer hjá henni. Ákærði kvaðst ekki kannast við þá IP-tölu sem skráð væri á hann, en ekki vefengja þær upplýsingar. Hann kvaðst hins vegar telja að hann hefði verið skráður hjá öðru símafyrirtæki á því tímabili er um ræðir í málinu. Ákærði sagðist einnig hafa verið með þráðlaust net á þessum tíma og því gæti í raun hver sem er tengst því neti, sem væri innan ákveðinnar fjarlægðar. Hann væri ekki með sérstaka læsingu á aðgangi sínum að netinu umfram það sem aðrir væru með. Sagðist ákærði telja líklegt að einhver annar hefði komist inn á netið. Sagði hann dóttur sína, barnsmóður og unnusta hennar mögulega hafa haft aðgang að netinu. Væri unnustinn ,,stöðugt í stigaganginum“ en ekki kvaðst ákærði vita hvort unnustinn hefði verið í sambandi við barnsmóður hans á þeim tíma er um ræðir. Ákærði kvað dóttur sína hafa búið hjá honum á þessum tíma. Dóttir hans og A væru engar vinkonur, en A hefði komið í skólann til dóttur hans og baktalað ákærða talsvert. Hefði A reynt að fá dóttur hans til að hætta að koma til hans. Spurður um það hvort hann bæri kala til A sagði ákærði svo ekki vera.

Ákærði var spurður að því hvort lögregla hefði reynt að hafa samband við hann áður en hann var handtekinn á heimili sínu þann 21. nóvember 2008 og sagði hann svo ekki vera, hann hefði ekki vitað hvort það væri lögregla eða einhver annar sem kom inn í íbúð hans á umræddum degi. Kvaðst hann engar kvaðningar hafa fengið frá lögreglu í tengslum við þetta mál, en taldi þó að hann hefði fengið kvaðningu í tengslum við nálgunarbannsmál sem var til meðferðar hjá lögreglu.

A kom fyrir dóminn. Kvaðst hún starfa sem félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur og vera félagsráðgjafi sonar ákærða. Sonurinn hefði á þessum tíma nýlega verið kominn í fóstur. Ekki hefði verið talið æskilegt að ákærði hefði umgengni við drenginn nema undir eftirliti. Hefði ákærða verið boðið að setja fram óskir um umgengni, en engar óskir hefðu borist af hans hálfu. Er nær dró jólum hefði föðurfjölskylda drengsins óskað eftir því að hitta hann. Hefði orðið úr að drengurinn fékk að hitta afa sinn og ömmu og fleira fólk á skrifstofu Barnaverndar. Hefði föðurnum ekki verið boðið enda hefði verið talið mikilvægt að það yrði þá undir ströngu eftirliti. Sms-skilaboðin hefðu svo tekið að berast á milli jóla og nýárs, til eiginmanns hennar og barna hennar þriggja. Fyrstu skilaboðin sem hún hefði orðið vör við voru þau sem eiginmaður hennar hefði fengið og lotið að því hvort hann gerði sér grein fyrir því að A héldi fram hjá honum oft í viku. Hefði hún í fyrstu ekki áttað sig á því hvað var á seyði. Hún hefði hins vegar orðið þess vör að sms-skilaboð voru að berast í síma sona hennar, en þeir hefðu ekki verið heima þegar þetta var. Hefði hún skoðað síma þeirra og séð skilaboð þar sem spurt var að því hvað mamma væri búin að drepa mörg börn í dag og hvað hún væri búin að ræna mörgum börnum. Dóttir hennar hefði fengið spurningu í sms-skilaboðum um hvað væri gert við dóttur sem ætti móður sem væri barnaníðingur. Hefðu skilaboðin verið að berast í kringum áramótin. Synir hennar hefðu orðið vitni að því þegar skilaboðin voru að berast ,,trekk í trekk“ og hefðu þeir séð skilaboðin, þrátt fyrir að þau hjónin hefðu reynt að hlífa þeim við þeim. Hefði hún lagt saman tvo og tvo og talið að skilaboðin hlytu að vera frá ákærða. Skilaboðin hefðu öll verið af sama toga og nefndi vitnið að spurt hefði verið að því hvað mamma ætlaði að ,,vera með í matinn í kvöld, kannski barnakjöt?“. Á gamlárskvöld hefði verið veisla heima hjá henni og hefði fjölskylda hennar verið hjá þeim. Þá hefðu símarnir hringt og fjölskyldan öll orðið vitni að skilaboðunum. Skilaboðin hefðu þá verið tengd gamlárskvöldi og synir hennar verið spurðir að því hvort það væri ekki gaman ef raketta kæmi inn um gluggann og í andlitin á þeim. Í þessum skilaboðum hefði verið falin bein ógnun. Synir hennar væru tvíburar og hefðu þeir fengið skilaboð þar sem spurt var að því hvað yrði um hinn tvíburann, ef annar færi á brennu og fengi rakettu í andlitið.

Vitnið kvaðst einnig hafa haft afskipti af dóttur ákærða. Gerði hún grein fyrir því að um hálfu ári áður en sms-skilaboðin tóku að berast hefði móðir barnanna fengið forsjá þeirra. Hefði dóttirin á þeim tíma verið mjög ósátt við föður sinn og ekki viljað vera hjá honum. Hefði dóttirin því ekki verið í neinum samskiptum við föður sinn, en sonur ákærða hefði hins vegar sótt í föður sinn. Á þeim tíma var ekki talin ástæða til að vista dótturina. Hefði dóttirin hins vegar farið að sýna af sér mjög óæskilega hegðun og farið á milli foreldra sinna. Kvaðst vitnið ekki getað svarað fyrir það hvar dóttirin hefði verið á því tímabili er um ræðir, þar eð hún hefði farið á milli foreldra sinna. Vitnið kvað samskipti við dótturina ekki hafa verið góð og sagði dótturina ekki hafa verið sátta við hennar störf.

Sérstaklega spurð um það hverju það sætti að hún hefði talið skilaboðin koma frá ákærða kvað vitnið ákærða eiga sér sögu um að ásækja starfsmenn Barnaverndar. Þannig hefði ákærði komið heim til fyrrverandi starfsmanns sem hefði farið með mál barna hans áður. Þá hefði ákærði hótað viðkomandi starfsmanni og fjölskyldu hans. Í hennar huga hefði enginn annar komið til greina. Vitnið sagði símanúmer sona sinna hafa verið í símaskrá og aðgengileg á netinu. Hið sama hefði átt við um símanúmer eiginmanns hennar. Spurð um áhrif þessara skilaboð kvaðst vitnið hafa óttast og ekki síst um börnin. Hefði þeim hjónum fundust óþægilegt að skilja börnin ein eftir og hefðu skilaboðin haldið áfram í nokkra daga eftir áramótin þegar skólinn var byrjaður. Hefði henni þótt óþægilegt að drengirnir gengju einir heim úr skóla og hefðu þau hjónin því skýrt fyrir drengjunum að þeir mættu ekki tala við neinn og ekki hleypa neinum inn. Hefðu skilaboðin haft áhrif á alla fjölskylduna og gamlárskvöld hefði verið undirlagt af ástandinu. Hefði þeim verið boðið í veislu um miðnætti og hefðu þau skroppið með börnunum, en beðið nágranna um að hafa auga með húsinu á meðan. Spurð um áhrif skilaboðanna á börnin sagði hún eldri börn sín hafa reiðst en tvíburarnir hefðu hins vegar orðið hræddir og sér í lagi annar drengjanna, sem hefði farið að sofa uppi í rúmi foreldra sinna á þessum tíma. Hefði hann farið að pissa undir í rúmið, þá að verða 12 ára gamall.

                Vitnið kvaðst hafa fundið fyrir mjög miklu áhugaleysi af hálfu lögreglu að skoða skilaboðin. Hefði fjölskyldan fengið ný símanúmer fyrir synina og hefðu símakortin glatast eftir því sem mánuðirnir liðu. Hins vegar hefðu skilaboð til mannsins hennar varðveist. Hefði dóttir hennar tekið síma sinn með sér til [...] þar sem hún stundaði nám. Vitnið kvaðst muna sum skilaboðin nákvæmlega en önnur myndi hún efnislega.  Hún kvaðst ekki muna hvenær hún sýndi lögreglu sms-skilaboð í símunum. Borið var undir vitnið endurrit af sms-skilaboðum sem fylgdi skýrslu sem tekin var af vitninu hinn 24. janúar 2007 og kvað vitnið endurritið innihalda skilaboðin sem og tímasetningar um það hvenær þau bárust. Væru skilaboðin og tímasetningar skráðar beint af símanum. Kvaðst vitnið minna að lögregla hefði ritað skilaboðin upp en kvaðst þó ekki viss um það.

                B, eiginmaður A, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa fengið fyrstu sms-skilaboðin sem um ræðir. Hefðu skilaboðin borist á milli jóla og nýárs 2006-2007. Svo hefðu börn hans fengið sms-skilaboð og hefðu skilaboðin orðið svæsnari eftir því sem á leið. Mest hefði borið á skilaboðum á gamlársdag og gamlárskvöld og hefði það valdið miklum kvíða í fjölskyldunni. Hefði kona hans verið vænd um mannát í skilaboðunum og fjölskyldunni verið hótað því að rakettu yrði skotið inn um gluggana. Annar tvíburasonur hans hefði fengið skilaboð þar sem stóð: ,,Hvað gerist ef annar tvíburinn fær rakettu í andlitið?“. Hefðu þau upplifað talsvert mikla ógn og til að mynda sleppt því að fara á brennu um kvöldið sakir þessa, eins og þau voru vön að gera. Hefðu þau beðið nágranna sína um að vakta hjá sér húsið þegar þau fóru í boð um miðnætti, ef ske kynni að raketta kæmi inn um glugga. Sagði vitnið að skilaboðin hefðu lamað gamlárskvöld hjá fjölskyldunni gjörsamlega. Hefðu hann og kona hans reynt að láta drengina sem minnsta vita af málinu, en annar þeirra hefði orðið hræddur og farið að koma upp í rúm foreldra sinna á nóttunni. Hefðu þau hjónin brugðið á það ráð að taka símana af bræðrunum, þannig að þeir yrðu ekki fyrir meiru ónæði.

Nánar spurður um efni skilaboðanna kvaðst vitnið muna eftir því að í einum skilaboðunum hefði verið spurt að því hvað mamma hefði drepið mörg börn í dag.

Vitnið sýndi í dóminum farsíma sinn sem hafði að geyma sms-skilaboð sem voru samhljóða því sem greinir í öðrum ákærulið. Tímasetning þeirra var 28. desember 2006 kl. 13.48.

Vitnið C, sonur kæranda, kom fyrir dóminn og greindi frá því að hafa fengið sms-skilaboð, m.a. þess efnis hvernig væri að fá flugeld inn um gluggann hjá sér og einnig spurningu um hvort til stæði að fara á brennu og hvernig væri að fá rakettu í andlitið. Einnig greindi hann frá því að hafa fengið sms- skilaboð þar sem stóð: ,,Hvað er í matinn í kvöld, kannski barnakjöt?“ og einnig: ,,Hvað myndi gerast fyrir einn tvíburann ef hinn myndi hverfa?“ Öll þessi skilaboð hefði hann fengið í sinn síma og kvaðst aðspurður hafa orðið hræddur. Hefði hann ekki þorað að vera einn á ferð á daginn og tvíburabróðir hans hefði farið að sofa uppi í hjá mömmu og pabba. Hefðu þeir báðir verið mjög hræddir um að maðurinn sem sendi skilaboðin myndi gera eitthvað. Hefði gamlárskvöld verið ónýtt af þessum sökum. Kvaðst vitnið einnig muna eftir því að pabbi hans hefði fengið skilaboð þar sem hann hefði verið spurður að því hvað konan hans hefði haldið fram hjá með mörgum í þessari viku.

                D, barnsmóðir ákærða, kom fyrir dóminn. Kvaðst hún hafa fengið forsjá barna þeirra ákærða í október 2006. Kvað hún dóttur þeirra hafa farið til föður síns á milli jóla og nýárs 2006 og 2007, en kvaðst þó ekki muna nákvæmar tímasetningar í því sambandi. Sérstaklega spurð hvar dóttirin hefði verið á gamlársdag og -kvöld kvaðst vitnið ekki muna það. Lýsti vitnið því að hún hefði sjálf orðið fyrir ónæði af hálfu ákærða, m.a. símaónæði sem hefði falist í sms- skilaboðasendingum. Borin var undir vitnið símaskýrsla sem lögregla tók af henni þann 21. nóvember 2008 þar sem haft var eftir vitninu að hún teldi útilokað að dóttir hennar hefði verið í heimsókn hjá ákærða á þessum tíma vegna þess að hún hefði þá ekki verið í neinu sambandi við hann og talaði ekki við hann. Kvaðst vitnið aðspurð kannast við þessi ummæli en kvaðst hins vegar ekki muna svo vel eftir þessu nú. Kvaðst hún sérstaklega spurð telja að hún hefði munað atvik betur er skýrslan var tekin af henni hjá lögreglu. Vitnið kvað ákærða hafa beitt dóttur sína ofbeldi og upp frá því hefði A komið að máli dóttur hennar sem félagsráðgjafi. Kvaðst hún ekki telja það geta staðist að dóttir hennar hefði verið að dreifa óhróðri um A, þrátt fyrir að dóttur hennar hefði ekki verið sérstaklega vel við Barnavernd.

                Þórður Geir Þorsteinsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Greindi hann frá því að kona, sem vinnur sem félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur hefði komið á lögreglustöð rétt fyrir áramót 2006 og 2007 og kvartað undan ónæði af sms- skilaboðum sem hún hefði fengið í gegnum internetið. Grunaði hana að ákveðinn aðili væri þar að verki. Hefði hann í fyrstu ákveðið að setja sig í samband við þann sem hún grunaði að stæði fyrir þessum hótunum til að tala um fyrir honum. Það væri almenna reglan, ef ekki væri ,,þeim mun meira í húfi“. Kæra væri ekki tekin niður fyrr en ,,þetta væri orðið ítrekað“. Hefði hann því farið á heimili hins grunaða í tvígang, reynt að hringja í hann og hafa samband við hann en án árangurs. Kvaðst hann einnig hafa rætt við móður ákærða með það fyrir augum að afla upplýsinga um hvernig hann gæti náð í ákærða. Hefði móðirin sagt að ákærði léti ekki ná í sig. Spurður um hvort eitthvað hefði komið fram um það að ákærði væri með barn hjá sér sagðist hann ekki muna til þess að svo hefði verið. Svo hefði konan hringt aftur og þá sagt að hún hefði fengið frekari skilaboð á gamlárskvöld og með því hefði aðkomu hans að málinu verið lokið. Brotin hefðu síðar verið kærð til lögreglu. Ekki kvaðst hann hafa séð skilaboðin en sagði að konan hefði lesið þau upp fyrir hann. Hefðu skilaboðin ekki verið ,,dramatísk“, engar líflátshótanir eða þvíumlíkt, og kvaðst hann hafa bókað málið sem kæru ef svo hefði verið. Einnig kvaðst vitnið hafa heyrt að ákærði hefði sent börnum hennar skilaboð. Hefði honum fundist sem konunni væri brugðið vegna skilaboðanna og langþreytt og hefði honum virst sem þetta hefði gerst áður. Hefði henni jafnframt virst nóg boðið er börnum hennar fóru að berast skilaboð.

Margrét Héðinsdóttir, starfsmaður Vodafone, kvaðst reglulega svara fyrirspurnum frá lögreglu um IP-tölur. Væri hún þá beðin um að greina lögreglu frá því hver væri skráður fyrir tiltekinni IP-tölu. Hins vegar gætu margir skráð sig inn á sömu IP-töluna. Varðandi þráðlaus net gætu margir skráð sig á mörgum þráðlausum kortum inn á sama netið en alltaf væri sami rétthafi að IP-tölunni. Staðfesti vitnið að ákærði hefði verið með umrædda IP-tölu á þeim tíma sem um ræðir í málinu.

E, dóttir ákærða, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hún dvaldist á heimili föður síns á þessum tíma. Hún kvaðst telja að hún hefði verið hjá ömmu sinni á gamlársdag 2006. Vitnið kvaðst ekki hafa notað tölvu föður síns til að senda sms-skilaboð. Hún notaði símann sinn til þess. Vitnið kvaðst ekki kannast við að hafa sent A og fjölskyldu hennar þau sms-skilaboð sem um ræðir. Hún myndi ekki eftir því og hefði örugglega ekki sent þau. Hún kvaðst ekki hafa verið í sambandi við fjölskyldu A á þessum tíma, aðeins A sjálfa og hefði hún rifist við hana augliti til auglitis. Hún sagðist ekki þekkja símanúmerin hjá eiginmanni A eða börnum hennar.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa sent þau smáskilaboð sem í ákæru greinir. Er því jafnframt haldið fram af hálfu ákærða að ósannað sé að A og fjölskyldu hennar hafi borist skilaboð þess efnis sem þar greinir.

Í dagbókarfærslu lögreglu frá 30. desember 2006 kemur fram að A hafi komið á lögreglustöð í þeim tilgangi að tilkynna ítrekað ónæði sem hún og fjölskylda hennar hafi orðið fyrir með sms-skilaboðum sem hafi borist óskráð um internetið. Voru símarnir sem um ræðir ekki skoðaðir af lögreglu. Þann 24. janúar 2007 gaf A skýrslu hjá lögreglu og kemur þar fram að hún hafi tekið saman hluta þeirra skilaboða sem börnum hennar og eiginmanni hefðu borist, en sum hefðu glatast. Kvað hún skilaboðin hafa verið rituð beint af símanum. Fylgja endurrit lögregluskýrslunni og eru þau skilaboð tekin upp í ákæru. Fyrir dómi kvaðst A ekki muna hvort hún hefði endurritað skilaboðin sjálf, eða hvort lögreglumaður ritaði þau eftir henni. Vitnin B og C báru um efni skilaboðanna sem bárust í síma þeirra og annarra í fjölskyldunni. Eru lýsingar þeirra efnislega samhljóða þeim skilaboðum sem að ofan greinir. Þá sýndi vitnið B í dóminum síma sinn sem innihélt skilaboð samhljóða þeim sem greinir í öðrum tölulið ákæru. Þykir vera leitt í ljós að þau skilaboð sem í ákæru greinir séu samhljóða þeim skilaboðum sem bárust í síma eiginmanns og barna A, eða a.m.k. að þau séu efnislega á sama veg.

Ákærði lýsti fyrir dóminum afskiptum A af málefnum barna hans, vegna starfa hennar fyrir Barnavernd Reykjavíkur. Af skýrslum ákærða hjá lögreglu og fyrir dóminum verður ráðið að ákærði beri óvild í garð A. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að ákærði var skráður fyrir IP-tölu tölvu sem notuð hafði verið til að senda skilaboð í símana sem um ræðir. Hefur ákærði bent á að fleiri en hann hafi haft aðgang að tölvunni og nefnt dóttur sína á unglingsaldri í því sambandi. Dóttir ákærða, E, kvaðst hvorki hafa notað tölvu föður síns til að senda sms-skilaboð, né kannast við að hafa sent A eða fjölskyldu hennar þau skilaboð sem um ræðir. Kvaðst hún ekki þekkja símanúmer þeirra. Þær skýringar ákærða að einhver utanaðkomandi aðili, svo sem íbúar eða gestkomandi í fjölbýlishúsinu þar sem hann býr, hafi hugsanlega tengst tölvu hans um þráðlaust net og sent skilaboðin með þeim hætti, þykja fjarstæðukenndar og að engu hafandi. Þykir lögfull sönnun komin fram fyrir því að ákærði hafi sent skilaboðin sem um ræðir úr heimilistölvu sinni, svo sem lýst er í ákæru.

Að framansögðu verður því slegið föstu að ákærði hafi sent þau skilaboð sem í ákæru greinir í síma eiginmanns og barna A. Þau skilaboð sem rakin eru í 2. og 4.-9. tölulið ákæru fólu í sér ærumeiðandi aðdróttanir í hennar garð, sem ákærði bar fram við fjölskyldu hennar, svo sem í ákæru greinir og er háttsemi ákærða samkvæmt þessum töluliðum ákæru rétt heimfærð til refsiákvæða. Samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga fyrnist sök á 2 árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi. Brot ákærða samkvæmt ofangreindum töluliðum voru samkvæmt ákæru framin frá 29. desember 2006 til 16. janúar 2007. Verður talið að fyrningarfrestur hafi rofnað samkvæmt 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga þegar Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði þann 12. febrúar 2007 að Símanum yrði gert skylt að upplýsa um IP-tölu tölvu, sem umrædd sms-skilaboð voru send úr af heimasíðu Símans, en í úrskurðinum er vitnað til kæruskýrslu A og kemur fram að rannsókn beinist að ákærða í máli þessu. Ákæra var gefin út á hendur ákærða þann 13. febrúar 2009, en sök ákærða var þá fyrnd samkvæmt framansögðu. Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn þess tafðist nokkuð þar sem ákærði sinnti ekki boðum lögreglu um að mæta til skýrslutöku. Þykir þó ekki unnt að beita ákvæði 3. málsliðar 5. mgr. 82. gr. og draga frá fyrningartíma þann tíma sem ákærði kom sér undan rannsókn, þar sem ráðið verður af gögnum málsins að rannsókn þess hafi verið að fullu lokið þann 21. nóvember 2008 og sök ákærða því ófyrnd á þeim tíma. Verður ákærði því sýknaður af refsikröfu vegna háttsemi sem lýst er í 2. og 4.-9. tölulið ákæru.

Skilaboð þau sem greinir í 1. og 3. tölulið ákæru og voru send í síma [...] sonar A voru ótvírætt til þess fallin að vekja hjá henni ótta um velferð barna hennar. Er um að ræða hótanir í skilningi almennra hegningarlaga. Hefur A lýst því að hún hafi óttast um börn sín eftir að skilaboðin bárust, einkum unga tvíburasyni sína. Í ákæru er því lýst að hótanirnar hafi beinst að A sem starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur og verður því slegið föstu samkvæmt því sem áður hefur verið rakið að þær hafi tengst störfum hennar þar. Er það mat dómsins að háttsemi ákærða samkvæmt nefndum töluliðum varði við 106. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem um hótunarbrot er að ræða verður ákærði þó sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga, en háttsemi ákærða er færð til þess refsiákvæðis í ákæru.  Ber því að sakfella ákærða samkvæmt 1. og 3. tölulið ákæru.

Ákærði er fæddur í [...] og hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að viðhafa hótanir gagnvart starfsmanni Barnaverndar. Var brot ákærða einkum ófyrirleitið þar sem hótanirnar beindust að barnungum tvíburasonum A og kom ákærði þeim á framfæri með smáskilaboðum sem hann sendi í síma annars þeirra. Hefur komið fram í málinu að hótanirnar vöktu ótta með A og fjölskyldu hennar og höfðu einkum áhrif á drengina tvo. Var um að ræða gróft brot gegn friðhelgi einkalífs A og fjölskyldu hennar. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tómasar Hrafns Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tómasar Hrafns Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur.