Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2001


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Íþrótt
  • Vélknúið ökutæki
  • Umferðarlög
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 181/2001.

Akureyrarbær og

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Aðalheiði Ingadóttur

(Þorsteinn Júlíusson hrl.)

 

Skaðabótamál. Líkamstjón. Íþróttir. Vélknúið ökutæki. Umferðarlög. Gjafsókn.

AI varð fyrir slysi við skíðaiðkun. Lítill snjór var í fjallinu í umrætt sinn og aðeins ein braut opin, en snjólitlir móar beggja vegna. Var AI á leið niður fjallið er hún sá skyndilega vélsleða koma á móti sér. Henni var brugðið og skrikaði til með þeim afleiðingum, að hún lenti út af brautinni og út í móa, þar sem hún fór margar veltur áður en hún stöðvaðist. Krafði hún VÍS hf. og sveitarfélagið A um bætur samkvæmt 88. gr. og 90. gr., sbr. 91. umferðarlaga nr. 50/1987. Til vara krafði hún A um bætur samkvæmt almennum skaðabótareglum. Við úrlausn málsins var litið til þess að AI var alvön skíðakona og þekkti vel allar aðstæður í fjallinu. Nægilegt rými hefði verið fyrir hana til að mæta snjósleðanum í brautinni, sem var um 10 m á breidd, en snjósleðanum var ekið upp brautina í jaðri hennar. Talið var, að röng viðbrögð AI hefðu valdið slysinu en ekki akstur vélsleðans eða notkun hans. Engin raunveruleg hætta hefði stafað af sleðanum og tjón AI væri því ekki sennileg afleiðing af hættueiginleikum og notkun vélsleðans í skilningi 1 mgr. 88. gr. umferðarlaga. A og VÍS hf. voru því sýknuð af aðalkröfu AI. Þá var A einnig sýknað af varakröfu AI, þar sem ekki var á það fallist að óforsvaranlegt hefði verið að hafa skíðasvæðið opið þótt snjólítið hafi verið utan brauta. Skíðamenn verði sjálfir að meta aðstæður og taka áhættu af því að vera á skíðum, þegar þannig stendur á. Auk þess var ekki talið að starfsmenn A hefðu átt sök á slysinu. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 25. maí 2001. Þeir krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að sök verði skipt, kröfur stefndu lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess, að áfrýjandanum Akureyrarbæ verði gert að greiða sér hinar dæmdu fjárhæðir samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og málskostnað fyrir Hæstarétti. Stefnda hefur fengið gjafsókn fyrir Hæstarétti.

 

 

I.

Eins og frá greinir í héraðsdómi varð stefnda fyrir slysi, er hún var við skíðaiðkun í Hlíðarfjalli á Akureyri 14. janúar 1996. Lítill snjór var í fjallinu og aðeins ein braut opin, en snjólitlir móar beggja vegna. Stefnda var á leið niður fjallið, er hún sá skyndilega vélsleða koma á móti sér. Henni var brugðið og skrikaði til með þeim afleiðingum, að hún lenti út af brautinni og út í móa, þar sem hún fór margar veltur áður en hún stöðvaðist.

Í máli þessu krefur stefnda áfrýjendur um bætur samkvæmt 88. gr. og 90. gr., sbr. 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Telur hún tjón það, sem hún beið við slysið, vera beina afleiðingu notkunar vélsleðans í merkingu 1. mgr. 88. gr. laganna. Til vara krefst hún bóta úr hendi áfrýjandans Akureyrarbæjar samkvæmt almennum skaðabótareglum, þar sem óforsvaranlegt hafi verið að hafa skíðasvæðið opið vegna snjóleysis og ámælisvert að hafa vélsleða vegna þjónustu og eftirlits með brautunum án nokkurra aðvörunarmerkja.

Áfrýjendur telja, að slys stefndu hafi ekki hlotist af notkun vélsleðans í skilningi 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987. Þá telja þeir, að slysið hafi ekki heldur hlotist af gáleysi starfsmanna áfrýjandans Akureyrarbæjar, en sé eingöngu um að kenna stórkostlegu gáleysi stefndu sjálfrar.

II.

Í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 segir, að sá, sem beri ábyrgð á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki, skuli bæta það tjón, sem hlýst af notkun þess, enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Orsakatengsl þurfa að vera milli notkunar ökutækisins og þess tjóns, sem það veldur, og verður tjón að stafa af hættueiginleikum ökutækis til þess að hin hlutlæga ábyrgðarregla umferðarlaga eigi við.

Fyrir liggur, að lítill snjór var í Hlíðarfjalli er slysið varð og aðeins unnt að skíða í troðinni braut. Veður var gott þennan dag, hálfskýjað og úrkomulaust. Stefnda var alvön skíðakona og hafði stundað skíði frá unglingsaldri. Hún var búin að fara nokkrar ferðir í brautinni, þegar slysið varð, og hún hafði einnig verið í fjallinu deginum áður. Hún sagði í lögregluskýrslu, sem tekin var þremur vikum eftir slysið, að hún hefði alveg vitað hvernig brautin var, en hún hefði verið ágæt og færi gott. Kristinn Gunnar Sigurðsson, ökumaður vélsleðans, og Örn Jóhannsson, sem var að skíða í sömu braut og stefnda, sögðu brautina hafa verið í kringum 10 m á breidd. Töldu þeir, að nægt rými hafi verið til að mætast og engin hætta á árekstri. Guðmundur Björnsson, sem var fótgangandi í fjallinu, taldi brautina hafa verið innan við 10 m á breidd, en hún hefði verið nógu breið til þess, að stefnda hefði getað mætt sleðanum.

Í Hlíðarfjalli var alvanalegt, að starfsmenn skíðasvæðisins væru á ferð á snjósleðum, og bar stefnda fyrir dómi, að hún hefði séð snjósleða starfsmanna aka um í fjallinu „í gegnum árin annað slagið.“ Þegar slysið varð var Kristinn Gunnar Sigurðsson, starfsmaður skíðasvæðisins á leið upp fjallið á snjósleða til að gera við bilaða lyftu. Fáir voru í fjallinu þennan dag, en Kristinn sagðist hafa séð fólk frekar til vinstri í brautinni, það er nær nyrðri jaðri brautarinnar. Hann hafi því verið sunnan megin í brautinni og haldið sig við jaðar hennar. Honum hafi ekki fundist nein hætta vera á ferðum, er hann sá stefndu koma niður brautina og taldi að hún myndi skíða fram hjá honum. Þá hafi hún allt í einu beygt til hægri á brautinni fyrir framan sleðann og farið út af henni. Svo mikið bil hafi verið á milli þeirra, þegar hún beygði fyrir framan sleðann, að þau hefðu bæði getað stöðvað og engin hætta hefði verið á árekstri. Ekki hefði skapast nein hætta hefði hún farið beint áfram en ekki beygt.

Vitnið Guðmundur Björnsson sagðist hafa tekið eftir vélsleðanum, er hann fór frá skíðahótelinu og upp brautina. Hann sagði, að sleðinn hefði verið nyrst í brautinni „alveg úti í kanti eins og hann gat verið“, en stefnda hefði verið hinum megin. Vitnið Örn Jóhannsson var á niðurleið í brautinni, er hann sá til ferða snjósleðans, sem var ekið upp eftir fjallinu á móti honum.  Rétt áður en slysið varð hefði stefnda rennt sér fram úr honum. Hún hefði rennt sér í „bruni“ og verið á „þó nokkurri ferð“, rennt sér beint niður. Hann hefði átt von á, að hún myndi mæta sleðanum í brautinni eins og hann ætlaði að gera, en nægt rými hefði verið til að mætast. Hann hefði hins vegar ekki séð, er slysið varð.

Stefnda sagði, að í umrætt sinn hafi hún farið með stólalyftu upp í Strýtu og þaðan með T-lyftu upp á topp. Hún hafi síðan farið í bruni niður brautina og staðið upprétt á skíðunum. Hún hafi verið í brautinni norðan við Hjallalyftuna, þegar hún sá allt í einu snjósleða koma á móti sér á „góðri ferð“.  Hún gat ekki gert sér grein fyrir því hvar hún sjálf eða sleðinn voru staðsett í brautinni. Henni hafi brugðið mjög við að sjá sleðann og sveigt aðeins til vinstri til að komast fram hjá honum, en þá hafi ökumaður sleðans sveigt í sömu átt og hún því sveigt aftur til hægri og við það farið út úr brautinni. Spurð að því fyrir dómi, hver væri ástæða þess, að hún hefði ekki séð sleðann á leið sinni niður fjallið, svaraði stefnda: „Ég er ekkert að skima langar leiðir.“

 

 

III.

Samkvæmt skíðareglum á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli eiga skíðaiðkendur að haga hraða sínum í samræmi við aðstæður og getu og er allt brun stranglega bannað í skíðabrekkum. Skíðaiðkandi, sem er ofar í brekku, skal gæta varúðar gagnvart þeim, sem neðar eru. Ætlast verður og til þess af skíðamanni, að hann fylgist með því, sem fram undan er og sé fær um að bregðast við hindrunum um leið og þær verða sýnilegar.

Eins og að framan greinir var stefnda alvön skíðakona og þekkti vel allar aðstæður í Hlíðarfjalli. Nægilegt rými var fyrir hana til að mæta snjósleðanum í brautinni, sem var um 10 m á breidd, en snjósleðanum var ekið í syðri jaðri hennar. Ósannað er, að ökumaður vélsleðans hafi beygt í sömu átt og stefnda, þegar hún ætlaði að skíða framhjá honum, en stefnda ber sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni. Stefnda var að koma úr brattri brekku á hraðri ferð niður. Hún átti að hafa vald á því að stjórna ferð sinni, er hún sá sleðann, sem hún hafði ekki veitt eftirtekt. Með eðlilegri aðgát hefði hún átt að taka eftir ferðum sleðans mun fyrr. Ekkert bendir til þess, að stefnda hafi verið þvinguð til að fara út af brautinni til að afstýra yfirvofandi hættu af völdum vélsleðans. Verður því að telja, að röng viðbrögð hennar hafi valdið slysinu en ekki akstur vélsleðans eða notkun hans. Engin raunveruleg hætta stafaði af sleðanum og er tjón stefndu því ekki sennileg afleiðing af hættueiginleikum og notkun vélsleðans í skilningi 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987. Eru áfrýjendur því sýknaðir af aðalkröfu stefndu.

IV.

Varakrafa stefndu byggir á sök starfsmanna áfrýjandans Akureyrarbæjar. Ekki er fallist á það, að óforsvaranlegt hafi verið að hafa skíðasvæðið opið, þótt snjólítið hafi verið utan brauta. Skíðamenn verða sjálfir að meta aðstæður og taka áhættu af því að vera á skíðum, þegar þannig stendur á. Þótt vélsleðaakstur sé bannaður á skíðasvæðinu, þykir það ekki eiga við um akstur rekstraraðila í sambandi við þjónustu. Það er alvanalegt, að starfsmenn á skíðasvæðinu aki á vélsleðum á jaðri brauta, þegar snjólítið er utan þeirra, og er það eðlilegt. Sleðinn, sem hér um ræðir, var rauður á lit og með ökuljósum og átti ekki að leynast stefndu með eðlilegri aðgát. Verður ekki talið, að starfsmenn áfrýjandans Akureyrarbæjar hafi átt sök á slysinu, og verður einnig sýknað af varakröfunni.

Rétt þykir að fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Akureyrarbær og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af kröfu stefndu, Aðalheiðar Ingadóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þorsteins Júlíussonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. apríl s.l., er höfðað með stefnu birtri 2. nóvember s.l.

Stefnandi er Aðalheiður Ingadóttir, kt. 090159-4299, Oddagötu 3b, Akureyri.

Stefndu eru Akureyrarbær, kt. 410169-6229, Geislagötu 9, Akureyri og Vá­trygg­inga­félag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 4.206.578 ásamt dráttarvöxtum frá 9. nóvember 1998 til greiðslu­dags og málskostnað samkvæmt reikningi að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.  Til vara gerir stefnandi þær kröfur að stefnda Akur­eyrarbæ verði gert að greiða stefnanda kr. 4.206.578 ásamt ásamt dráttarvöxtum frá 9. nóvember 1998 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt reikningi að við­bætt­um virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefnandi fékk gjaf­sókn í málinu með bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 5. janúar 2000.

Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hennar að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að 22. janúar 1996 sneru foreldrar stefnanda sér til rann­sókn­ar­deildar lögreglunnar á Akureyri og spurðust fyrir um það hvort lögreglurannsókn hefði farið fram á slysi sem stefnandi hefði lent í við skíðaiðkun í Hlíðarfjalli á Akur­eyri sunnudaginn 14. janúar sama ár.  Sögðu þau stefnanda hafa verið að renna sér á skíð­um niður þrönga snjórennu er vélsleða hafi verið ekið á móti henni með þeim af­leið­ingum að hún fipaðist og lenti utan brautar.  Hafi hún verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild FSA og hafi komið í ljós að hún var hryggbrotin.  Engar upplýsingar höfðu þá borist lögreglu um atvikið.

Stefnandi skýrði svo frá hjá lögreglu 8. febrúar sama ár að hún hafi komið í fjallið á hádegi umræddan dag og kvaðst hún hafa verið búin að fara nokkrar ferðir þegar slysið varð.  Kvaðst hún því hafa vitað hvernig brautin var, en hún hafi verið ágæt og skíða­færi gott.  Þá kvaðst hún hafa skíðað daginn áður og farið all margar ferðir í sömu braut.  Hún kvaðst hafa stundað skíði frá unglingsaldri og mikið stundað fjallið vet­urinn á undan.  Stefnandi kvað brautina hafa verið mjórri en vanalega og hafi það staf­að af því að lítill snjór var í fjallinu.  Stefnandi kvaðst hafa farið með stólalyftunni upp í Strýtu og þaðan með T-lyftunni upp á topp.  Þaðan kvaðst hún hafa rennt sér eftir braut sunnan við T-lyftuna og síðan til norðurs fram hjá Strýtu og niður fjallið eftir braut norðan við Hjallalyftuna.  Þegar hún hafi verið í brautinni norðan við neðanverða Hjalla­lyftuna hafi hún allt í einu séð snjósleða koma á móti sér í brautinni.  Hún gerði sér ekki grein fyrir því hvar sleðinn var í brautinni, en hann hafi komið á móti henni á góðri ferð.  Hún hafi verið í bruni og staðið upprétt á skíðunum og verið á góðri ferð en ekki geta gert sér grein fyrir því hvar hún var í brautinni.  Hún kvaðst ekki hafa séð til ferða sleðans áður og hafi henni því brugðið við að sjá hann beint á móti henni og hafi hún þá sveigt til vinstri til að komast fram hjá sleðanum.  Þá hafi ökumaður sleðans sveigt í sömu átt og því hafi hún sveigt aftur til hægri.  Við það hafi hún skrikað til í brautinni og lent suður úr henni og út í móa.  Hafi hún dottið þar mjög illa og farið margar veltur áður en hún stöðvaðist.

Ökumaður sleðans, Kristinn Gunnar Sigurðsson, kt. 220948-4479, skýrði svo frá hjá lögreglu 2. febrúar sama ár að hann hafi átt erindi að efri enda Hjalla­braut­ar­lyft­unn­ar sökum þess að lyftan hafði stöðvast.  Kvaðst hann því hafa ekið á snjósleða Skíða­staða, BR-691, upp eftir skíðabrautinni og kvaðst hann hafa séð að fólk var á leið niður brautina á móti honum, en tiltölulega fáir hafi verið í brautinni þennan dag.  Hafi fólkið verið nær nyrðri kanti brautarinnar og því hafi hann fært sig nær syðri kant­inum.  Hafi verið frekar lítill snjór í fjallinu og brautin rétt um 10 metra breið.  Kristinn kvaðst ekki hafa ekið hratt, enda sé sleðinn fyrst og fremst dráttarsleði.  Hann kvaðst hafa verið kominn ofan í botn á gili því sem sé á brautinni fyrir neðan þann stað sem slysið varð og rétt byrjaður að fara upp brekkuna þegar hann sá stefnanda koma á móti honum.  Á þessum stað hafi verið blindhæð á brautinni sem þó hafi náð yfir stutt svæði.  Kristni fannst engin hætta vera á ferðum og taldi hann að stefndi myndi skíða fram hjá honum á hægri hönd.  Stefnandi hafi þá allt í einu beygt til hægri á brautinni fyrir framan sleðann og farið út úr brautinni og fallið þar.  Hann taldi það mikið bil hafa verið á milli þeirra að engin hætta hafi verið á árekstri og hefði stefnandi stöðvað í brautinni hefði hann getað stöðvað án þess að lenda á henni og þá hefði hann einnig getað sveigt suður úr brautinni.

Guðmundur Björnsson, kt. 100365-3089, skýrði svo frá hjá lögreglu 30. janúar sama ár að hann hefði verið fótgangandi í fjallinu umræddan dag.  Kvaðst hann hafa verið staddur því sem næst mitt á milli brauta sem kallaðar séu Hjallabraut og Hóla­braut.  Kvaðst hann hafa séð að starfsmaður hafi farið frá skíðahótelinu á vélsleða til þess að koma lyftu í gang sem hafði stöðvast.  Hafi sleðanum verið ekið upp eftir Hjalla­brautinni og var lítill snjór í fjallinu.  Kvað hann sleðanum hafa verið ekið rösk­lega upp eftir og þegar hann hafi verið kominn upp fyrir efri enda Hólabrautarinnar og sé norðan við Hjallabrautina hafi hann þurft að aka niður í hvilft sem þar hafi verið, en þarna sé gildrag.  Þarna hafi því verið blindhæð og því hafi slysið orðið.  Sleðinn hafi verið á leið upp brekkuna úr hvilftinni þegar stefnandi hafi skíðað á móti honum.  Þar sem lítill snjór hafi verið þarna hafi einungis verið hægt að skíða á nokkurra metra breiðri rennu, en beggja vegna rennunnar hafi verið því sem næst auðir móar og þýft land.  Að sögn Guðmundar hafi stefnanda að öllum líkindum brugðið við að sjá sleð­ann koma á móti henni og hafi hún þá sveigt örlítið til hægri.  Þar sem rennan hafi verið svo mjó hafi hún verið komin út í móa um leið.

Örn Jóhannsson, kt. 051153-3329, skýrði svo frá hjá lögreglu 30. janúar sama ár að hann hafi verið á skíðum umræddan dag og verið á leið niður Hjallabrautina.  Kvaðst hann hafa séð til ferða snjósleða sem ekið hafi verið upp eftir fjallinu á móti honum.  Kvaðst hann hafa skíðað rólega, enda hafi hann verið með ungan son sinn með sér.  Hann kvað stefnanda hafa rennt sér fram úr honum og kvað hann hana hafa verið í bruni og staðið upprétt á skíðunum en þó verið á nokkurri ferð, en ekkert hafi verið óeðlilegt við hraða hennar miðað við aðstæður.  Slysið hafi síðan orðið nokkrum metrum fyrir framan hann en að hans mati var nægilegt svigrúm í brautinni til að mæta sleðanum.  Örn kvaðst hafa litið til hliðar og það næsta sem hann sá var að stefnandi hafði farið út úr brautinni og dottið.  Hann kvaðst ekki hafa séð þegar stefnandi lenti út úr brautinni.  Hann kvað sleðanum hafa verið ekið eins og búast hafi mátt við miðað við aðstæður og hafi honum ekki fundist neitt óeðlilegt við hraða hans.  Hann kvað að rétt neðan við slysstaðinn sé gil sem fólk renni sér yfir og hafi stefnandi ekki verið komin að gilinu þegar slysið varð, en þarna sé hálfgerð blindhæð.

Samkvæmt upplýsingum úr veðurathugunarbók lögreglunnar á Akureyri var veður á hádegi umræddan dag þannig að hiti var 2.2°C, hálfskýjað og mjög hæg vest­læg átt, úrkomulaust.  Klukkan þrjú var hiti 1.2°C, hálfskýjað og mjög hæg austlæg átt, úrkomulaust.  Mun hafa verið óskað eftir sjúkrabifreið kl. 13:40 umræddan dag, en lög­reglu var ekki tilkynnt um slysið.

Lögreglan tók myndir af vettvangi 31. janúar sama ár en snjó mun eitthvað hafa tekið upp eftir slysið, enda mun hafa hlánað í fjallinu.

Í ljós kom að stefnandi var með samfallsbrot í II. lendhryggjarbol.  Var hún flutt á Land­spítalann þar sem I. og II. lendarliðir voru spengdir saman.  Mun aðgerðin hafa tekist vel og greri spengingin á eðlilegum tíma.  Stefnandi hefur hins vegar haft við­var­andi bakverki í kjölfar slyssins og skerta hreyfigetu í hryggnum. 

Ragnar Jónsson, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, hefur metið örorku stefn­anda og segir svo meðal annars í vottorði hans dagsettu 9. júní 1997:  „Um var að ræða samfallsbrot á öðrum lendhryggjarliðnum og var talsverð kryppumyndun og hliðar­skekkja um brotstað.  Gerð hefur verið aðgerð þar sem notuð var innri festing til að rétta upp brotið og þar sem gerð var spenging frá fyrsta til þriðja lend­hryggjar­liðarins.  Í fyrirliggjandi gögnum er taugaskoðun lýst sem eðlilegri og þannig virðist ekki hafa verið um að ræða áverka á mænu eða taugar.  Eftir aðgerðina komu legusár á báða hæla, sem virðist hafa lengt talsvert batatímann.  Í vottorði Magnúsar Ólafssonar læknis er lýst talsverðum bakeinkennum, þreytu og verkjum í mjó­baki eins og algengt er eftir slík brot.  Einnig er lýst sársaukafullri hreyfi­skerð­ingu í mjóhrygg.  Þrátt fyrir umfangsmikla sjúkraþjálfun og einnig beltismeðferð hefur Aðalheiður enn talsverð einkenni.  Líklegt er að þessi einkenni séu nú stöðug og vart að vænta frekari bata en orðið er.  Í fyrirliggjandi gögnum kemur ekki fram hvort Aðalheiður hefur einkenni frá hælum vegna fylgikvillans (sára) sem hún fékk á hæl­ana.  Einnig eru ekki fyrirliggjandi gögn sem sýna tímalengd óvinnufærni eftir áverkann”.  Læknirinn mat tímabundna læknisfræðilega örorku stefnanda 100% í sex mán­uði og varanlega læknisfræðilega örorku taldi hann vera 20%.

Örorkunefnd fjallaði um mál stefnanda og í álitsgerð hennar dagsettu 4. ágúst 1998 segir svo m.a.:  „Tjónþoli hefur haft viðvarandi verki í baki í kjölfar slyssins og veru­lega minnkað stöðu- set- og gönguþol.  Tjónþoli, sem er matreiðslumaður að mennt, hafði starfað sem yfirmaður mötuneytis Hlíðar á Akureyri frá árinu 1982, en varð að láta af þeim störfum vegna afleiðinga slyssins.  Hún hefur gert ítrekaðar til­raunir til þess að starfa við matreiðslu eftir það og einnig verið aðstoðarmaður í mötu­neyti Menntaskólans á Akureyri, en kveðst ekki treysta sér lengur til slíkra starfa og hefur í hyggju að leita sér að léttu hlutastarfi.  Hún hefur verið metin til meira en 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. október 1996.  Skoðun leiðir í ljós tals­verða hreyfiskerðingu í mjóhrygg og talsverð eymsli yfir brot- og speng­ing­ar­svæð­inu en auk þess minnkaðan hælreflex í vinstri ganglim.  Örorkunefnd telur, að eftir 1. júlí 1997 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleið­ing­um slyssins frá 14. janúar 1996.  Að öllum gögnum virtum telur nefndin var­an­legan miska tjónþola vegna afleiðinga slyss þessa hæfilega metinn 20% - tuttugu af hundraði.  Tjónþoli var 37 ára gömul og starfaði sem matreiðslumaður eins og áður hefur verið rakið.  Eftir slysið hefur hún reynt fyrir sér við slík störf en ekki ráðið við þau og þess vegna leitað að léttari störfum sem um leið eru verr launuð.  Örorkunefnd telur því ljóst að afleiðingar slyssins dragi talsvert úr getu tjónþola til öflunar vinnu­tekna í framtíðinni.  Er varanleg örorka tjónþola vegna afleiðinga slyssins metin 33% - þrjátíu og þrír af hundraði.”

Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, hefur reiknað út varanlegt tekjutap stefn­anda og telur hann að stefnanda beri bætur vegna þjáninga, miska og örorku, sam­tals kr. 5.889.267 miðað við útreikningsdag 9. október 1998.  Byggir trygg­inga­fræð­ingurinn útreikning á þjáningabótum á því að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í 20 daga en veik en á fótum í 514 daga.  Þessu er mótmælt af hálfu stefndu og segja þeir mat á veikindatímabili stefnanda ekki liggja fyrir.  Samkvæmt örorkumati Ragnars Jónssonar hafi stefnandi verið óvinnufær í 6 mánuði eða 180 daga og sé lengra veikindatímabil ósannað.  Þá sé lengri rúmlega en 10 dagar ósönnuð.  Stefnandi segist hafa fengið greiddar kr. 1.682.689 í bætur frá hinu stefnda vátryggingafélagi vegna slysatryggingar launþega og sé þessi fjárhæð dregin frá útreiknaðri kröfu Jóns Erlings.

Upplýst hefur verið að umræddur vélsleði er í eigu stefnda Akureyrarbæjar og tryggð­ur lögboðnum tryggingum hjá hinu stefnda vátryggingafélagi.  Þá mun stefndi Akur­eyrarbær vera með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá meðstefnda sem taki til annarra þeirra tjóna sem stefndi Akureyrarbær kunni að bera ábyrgð á.

Samkvæmt gögnum málsins er vélsleðaumferð bönnuð á skíðasvæðinu.  Þá hafa verið lagðar fram í málinu reglur sem gilda um skíðaiðkun í Hlíðarfjalli.  Þar kemur m.a. fram að allt brun sé stranglega bannað í skíðabrekkum.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að enginn vafi leiki á því að slysið megi alfarið rekja til þess að vélsleðanum BR-691 var ekið í troðinni braut í Hlíðarfjalli þrátt fyrir að vitað væri að skíðafólk væri  í brautinni.  Hafi það verið með öllu óverjandi og stórkostlegt gá­leysi af hálfu stjórnanda sleðans að aka honum eins og gert var á móti umferð skíða­manna í þröngri braut sem þar að auki hafi verið þannig að í henni myndaðist blind­hæð vegna gils sem brautin lá yfir.  Stefnandi hafi engan veginn mátt búast við neinni umferð á móti sér í brautinni en umferð vélsleða sé sérstaklega bönnuð á skíða­svæð­inu.  Þá sé það mjög aðfinnsluvert að sleðinn var ekki búinn neinum var­úð­ar­merkjum, hvorki varúðarljósi né hljóðútbúnaði sem hafi gefið ferð hans til kynna.  Hafi það því verið sleðinn og notkun hans sem var orsök þess að hún fipaðist er hún reyndi að koma í veg fyrir árekstur við hann og rann út úr brautinni með þeim af­leið­ing­um að hún stórslasaðist.  Stefnandi verði ekki sökuð um gáleysi enda þótt hún hafi ekki komið auga á sleðann þar sem ekki mátti búast við honum, en honum hafi verið ekið án viðvörunarljósa eða viðvörunarhljóða á góðri ferð eins og vitni hafi borið, ofan í gil í skíðabrautinni sem hafi valdið því að stefnandi sá hann ekki fyrr en skyndilega rétt fyrir framan sig vegna blindhæðar.

Ljóst sé að orsakatengsl þurfi að vera milli notkunar ökutækis og þess tjóns sem það veldur til þess að bótaskylda teljist vera fyrir hendi, en ekki sé að mati fræðimanna nauð­synlegt að tjón sé afleiðing beinnar snertingar við ökutæki.  Hafi þessi regla verið lögfest með 13. gr. laga nr. 21/1914 um notkun bifreiða, en samkvæmt þeirri laga­grein var sá, sem bar ábyrgð á bifreið, skaðabótaskyldur hlytist slys eða tjón af notkun bifreiðar, annað hvort beinlínis af akstri hennar eða af því að hestur vegfaranda fæld­ist eða á annan svipaðan hátt.  Þetta lagaákvæði hafi verið fellt niður en að mati stefn­anda sé ástæðan sú að það hafi verið talið óþarft en ekki hafi verið ætlunin að þrengja bótaregluna.  Þá bendir stefnandi á dóm Hæstaréttar Íslands frá árinu 1947 á bls. 168 í dómasafni, en í því máli hlupu kálfar á undan bifreið og fram af klettum og drápust, en bifreiðarstjórinn var talinn bera ábyrgð á tjóni eiganda kálfanna.  Byggir stefnandi á því að stefndu beri ábyrgð á tjóni hennar samkvæmt 88. og 90. gr., sbr. 91. gr. umferðarlaga þar sem tjónið verði beinlínis rakið til notkunar vélsleðans.

Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið byggir stefnandi á því að stefndi Akur­eyrarbær beri fulla ábyrgð á tjóninu á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.  Hafi leikið á því mikill vafi að forsvaranlegt hafi verið að hafa skíðasvæðið opið eins og ástandið var en nánast enginn snjór hafi verið í fjallinu utan troðinna brauta og því mikil hætta á meiðslum ef skíðamenn af einhverjum ástæðum rynnu út úr braut.  Þá sé það stórlega ámælisvert að útbúa vélsleðann ekki með hljóð- og ljósmerkjum, en slík var­úðarljós sé skylt að hafa á vinnuvélum, en einnig sé tekið fram í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 411 frá 11. október 1993 að ökutæki, sem ætluð séu til neyð­ar­aksturs, megi hafa tveggja tóna sjálfvirkan hljóðmerkisútbúnað sem skipti stöðugt milli tveggja aðskilinna fastra tónhæða með svipaðri tónlengd.  Að mati stefnanda verði að jafna notkun sleðans til notkunar vinnuvélar eða ökutækis sem notað sé í neyð­artilvikum þar sem akstur vélsleðans hafi tengst því er skíðalyfta bilaði.  Þar sem svo lítill snjór hafi verið í fjallinu verði að gera þá lágmarkskröfu að sleðinn sé búinn þeim varúðartækjum sem skíðamenn kæmust ekki hjá að verða varir við með nægum fyrir­vara.   Telur stefnandi því að samkvæmt almennum skaðabótareglum beri stefndi Akur­eyrarbær fulla ábyrgð á tjóni stefnanda.  Þá vísar stefnandi til húsbóndaábyrgðar þessa stefnda vegna starfsmanna skíðasvæðisins og ökumanns sleðans.  Stefnandi vísar einnig til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi reisir kröfur sínar á framangreindum útreikningi Jóns Erlings Þorláks­sonar, en samkvæmt því gerir hún kröfu til þjáningabóta í 20 daga meðan hún hafi verið rúmliggjandi, eða kr. 28.590, kr. 395.648 í þjáningabætur vegna 514 daga er hún hafi verið veik en á fótum, kr. 879.707 í miskabætur kr. 4.274.596 í örorkubætur og kr. 310.725 í vexti, eða 2% frá slysdegi til 9. október 1998, en þann dag var tjónið reiknað út.  Samtals geri þetta kr. 5.889.267, en frá dragist greiðsla frá hinu stefndu vá­trygg­ingafélagi kr. 1.682.689.

Stefnandi styður dráttarvaxtakröfur við III. kafla vaxtalaga og málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að slys stefnanda hafi hvorki hlotist af notkun snjósleðans í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga né sé slysið sennileg af­leið­ing af notkun hans.  Þá hafi slysið ekki hlotist af gáleysi starfsmanna stefnda Akur­eyrarbæjar, heldur vegna stórkostlegs gáleysis stefnanda sjálfrar.

Stefndu byggja á því að sönnunarbyrðin fyrir öðru hvíli óskipt á stefnanda.  Sé ljóst af framburði vitna hjá lögreglu að ekkert slys hefði orðið hefði stefnandi haldið óbreyttri stefnu er hún sá snjósleðann í stað þess að beygja að nauðsynjalausu.  Hafi engin hætta verið á árekstri í 10 metra breiðri brautinni og viðbrögð stefnanda því röng og tilefnislaus.  Þá hafi stefnandi verið í bruni, sem sé stranglega bannað á skíða­svæð­inu og á góðri ferð.  Hafi verið sérstaklega ámælisvert af stefnanda að vera í bruni eins og á stóð, þar sem snjólítið var á svæðinu utan skíðabrautanna og því stórhætta á meiðslum fyrir brunmann ef hann lenti út úr brautinni.  Þá hafi stefnandi vanrækt að fylgjast með umferð fyrir neðan í brekkunum, þar sem hún tók ekki eftir sleðanum fyrr en raun bar vitni, en vitni hafi borið að sleðinn hafi verið sýnilegur langar leiðir.  Það af­saki ekki aðgæsluleysi stefnanda að á leiðinni upp brekkuna hafi sleðanum verið ekið niður í hvilft, þar sem það hafi aðeins tekið örskotsstund og sleðinn ekki úr aug­sýn nema eitt augnablik.  Hafi stefnandi því með framangreindu atferli sínu sýnt af sér stór­kostlegt gáleysi og þar með orðið frumvöld að slysinu.

Stefndu byggja á því að því fari fjarri að gálaust hafi verið að hafa skíðasvæðið opið enda þótt snjólítið væri milli brauta, en skíðabrautirnar hafi verið það breiðar að hættu­laust var að skíða þar og hverfandi líkur á því að lenda út úr braut ef skíðafólk sýndi eðlilega aðgát og tók ekki óþarfa áhættu eins og að fara í brun, sem hafi verið strang­lega bannað.  Sé alvanalegt að hafa skíðasvæði opin við slíkar aðstæður og þekki skíðafólk það vel og hagi sér í samræmi við það. 

Þá byggja stefndu á því að ekki hafi verið um saknæmt gáleysi að ræða að aka snjó­sleðanum upp eftir hlíðinni eftir 10 metra breiðri skíðabraut þeirra erinda að koma skíðalyftuni í gang án þess að hafa á sleðanum hljóð- og ljósabúnað til neyð­ar­aksturs eða vinnuvélaljós.  Snjósleðinn hafi hvorki verið vinnuvél né neyðarfaratæki, heldur einungis torfærutæki til að komast á milli staða.   Ekki hafi verið þörf sérstaks merkja­búnaðar enda hafi vitni borið að sést hafi vel til sleðans í brekkunni.  Hafi verið alvanalegt að starfsfólk Skíðastaða færu um skíðasvæðið í ýmsum erinda­gjörðum og átti það ekki að koma skíðamönnum á óvart að sjá til ferða snjósleða í brekkum og brautum á skíðasvæðinu.  Þá hafi brautin verið það breið að engin hætta hafi verið á árekstri þótt honum væri ekið upp brautina á móti umferð, en vegna snjó­leysis hafi verið óhægt um vik að aka utan brauta.

Þá byggja stefndu á því að slys stefnanda hafi ekki hlotist af notkun sleðans í skiln­ingi sérreglunar í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og sé slysið ekki sennileg af­leið­ing notkunar snjósleða.  Stefnandi hafi ekki verið í neinni hættu af akstri sleðans og hafi ekki þurft að forða sér undan honum út af brautinni.  Þess sé ekki að vænta að menn verði fyrir tjóni eða þeim bregði við það eitt að sjá ökutæki á ferð, sem þeim stafi ekki hætta af.  Sé því ekki grundvöllur fyrir bótakröfum stefnanda.

Stefndu byggja varakröfu sína á því að skipta beri sök í málinu og lækka skaða­bætur í hlutfalli við eigin sök stefnanda á slysi sínu á stórkostlegu gáleysi stefnanda.  Er lögð á það áhersla  að stefnandi hafi sýnt stórkostlegt gáleysi með því að vera í bruni, með því að taka ekki eftir sleðanum fyrr en hún gerði og með því að grípa til rangra og óþarfra viðbragða, er hún tók eftir sleðanum.

Stefndu gera ekki athugasemdir við einstaka liði skaðabótakröfunnar en mótmæla þján­ingabótakröfu sem of hárri.  Að mati stefndu er lengra veikindatímabil en sex mán­uðir ósannað og þá sé óvíst um lengd rúmlegu en um gæti verið að ræða tíu daga.

Stefndu mótmæla dráttarvöxtum frá fyrri tíma er uppsögudegi dóms í málinu.

Skýrslugjöf fyrir dómi.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að aðeins ein braut hafi verið opin í fjallinu og að hennar mati var snjór það lítill að það væri jafnvel var­huga­vert að hafa skíðasvæðið opið.  Hún kvað að mjög fáir hafi verið í fjallinu og kvaðst hún ekki hafa séð sleðann fyrr en hann birtist skyndilega fyrir framan hana.  Hún kvaðst hafa skíðað upprétt beint niður brekkuna, sem var ekki brött og mat hún það ekki svo að hún hefði verið í bruni, en hún kvaðst ekki hafa rennt sér í svigi.  Hún átt­aði sig ekki á því hversu langt var í sleðann þegar hún sá hann.

Kristinn Gunnar Sigurðsson skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi ekið sleðanum bestu og stystu leið á móti skíðaumferðinni.  Hann kvaðst hafa séð fólk í brautinni og því hafi hann haldið sig í suðurjaðri brautarinnar.   Hann kvaðst hafa séð þegar stefn­andi kom á móti honum, en ekki hafi verið margt fólk í brautinni.  Hann taldi ákveðna árekstr­arhættu hafa verið fyrir hendi og því kvaðst hann hafa stöðvað sleðann.  Að hans mati hefði árekstur ekki orðið hefði stefnandi haldið beint áfram.  Kristinn mundi ekki eftir því að hafa beygt í veg fyrir stefnanda.

Guðmundur Björnsson skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið á göngu á svæð­inu og kvaðst hann hafa séð vélsleðann aka upp brautina.  Hann kvaðst jafnframt hafa séð stefnanda og efaðist hann um að hún hefði séð sleðann vegna blindhæðar.  Hann kvað sleðanum ekki hafa verið ekið hratt en hann gat ekki sagt til um hraða stefnanda.

Örn Jóhannsson skýrði svo frá fyrir dómi að stefnandi hefði skíðað fram úr honum rétt áður en óhappið varð.  Hann kvað stefnanda hafa verið á eðlilegri ferð í bruni þannig að hún renndi sér beint niður.  Hann kvað ekkert óeðlilegt við skíðalag hennar.  Hann kvaðst hafa séð sleðann allan tímann en hann kvað skyggni hafa verið vont og þá hafi verið snjóblinda.  Að mati Arnar var sleðanum ekið eðlilega og þá taldi hann ljóst að stefnandi hefði ekki séð sleðann fyrr en um seinan.  Hann taldi að góður skíða­maður hefði getað stöðvað eða skíðað meðfram sleðanum.  Þá taldi hann greini­legt að sleðinn hefði fipað stefnanda.  Hann taldi á mörkunum að forsvaranlegt hefði verið að hafa skíðasvæðið opið fyrir óvant skíðafólk.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort hin hlutlæga ábyrgðarregla 88. gr. umferðarlaga eigi við um slys stefnanda.  Verði ekki talið að stefnandi geti byggt bóta­rétt sinn á þeirri reglu er ágreiningur um það hvort stefnandi geti byggt kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni.  Byggir stefnandi kröfur sínar að því leyti á því að for­svarsmenn skíðasvæðisins hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að hafa skíða­svæðið opið með hliðsjón af snjóleysi og þá hafi snjósleðinn ekki verið búinn sér­stökum viðvörunarmerkjum vinnuvéla eða ökutækja til neyðaraksturs.  Jafnframt byggir stefnandi á því að stjórnandi sleðans hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er hann ók sleðanum á móti umferð skíðamanna í þröngri skíðabraut.

Ekki er um það deilt í máli þessu að vélsleðinn BR-691 er skráningarskylt vél­knúið ökutæki í merkingu umferðarlaga og er stefndi Akureyrarbær skráður eigandi hans og þá er hann ábyrgðartryggður hjá meðstefnda, sbr. ákvæði 90. gr. og 91. gr. um­ferðarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga skal sá sem ábyrgð ber á skrán­ing­ar­skyldu vélknúnu ökutæki bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.  Hér er því lögfest hlut­læg bótaregla sem verður virk þegar rekja má tjón til notkunar ökutækis og telja megi tjónið sennilega afleiðingu af notkuninni.  Í máli þessu voru atvik með þeim hætti að árekstur varð ekki með stefnanda og vélsleðanum en því er haldið fram af hálfu stefn­anda að hún hafi fipast er hún sá vélsleðann skyndilega aka á móti sér þar sem hún renndi sér niður skíðabrekku.  Hafi afleiðingin orðið sú að hún lenti utan brautar og hlaut þau líkamslemstur sem rakin hafa verið og ekki er ágreiningur um.  Stefnandi hefur borið fyrir dómi að hún hafi ekki séð sleðann fyrr en hann birtist skyndilega fyrir framan hana.  Þessi framburður stefnanda fær stoð í framburði vitnisins Arnar Jóhanns­sonar en hann taldi greinilegt að sleðinn hefði fipað stefnanda.   Þá telst nægi­lega upplýst að sleðanum hafi verið ekið niður í hvilft rétt áður en slysið varð og þá ber þeim sem gáfu skýrslu í máli þessu saman um það að þarna hafi verið blindhæð.  Ekki hefur tekist að upplýsa hversu mikið bil var á milli sleðans og stefnanda þegar hún kom auga á hann en að mati Kristins og Arnar hefði stefnandi átt að hafa ráðrúm til að stöðva eða skíða fram hjá sleðanum.

Þegar það er virt að snjósleðanum er ekið upp u.þ.b. 10 metra breiða skíðabraut á móti umferð skíðamanna og stefnandi fipast þegar hún sér sleðann birtast nærri sér þegar hann er nýkominn yfir blindhæð, leikur ekki á því vafi að mati dómsins að tjón stefn­anda verði rakið til notkunar sleðans í merkingu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga.  Ber þegar af þeirri ástæðu að fallast á að stefndu beri in solidum ábyrgð á tjóni stefn­anda samkvæmt hinni hlutlægu ábyrgðarreglu umferðarlaga.

Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi hafi sýnt af sér slíkt gáleysi að lækka beri bætur til hennar af þeim sökum.  Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga má lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjón­inu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.  Af hálfu stefndu er á því byggt að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að vera í bruni í brekkunni, með því að taka ekki eftir sleðanum fyrr en hún gerði og með því að grípa til rangra og óþarfra við­bragða.  Því hefur verið lýst, m.a. hefur stefnandi tekið svo til orða, að hún hafi verið í bruni í brekkunni.  Stefnandi hefur fyrir dómi skýrt þetta nánar og segist ekki hafa verið í svigi, en rennt sér beint niður brekkuna í uppréttri stöðu, en brekkan hafi ekki verið brött.  Þá kemur fram hjá vitninu Erni að ekkert hafi verið óeðlilegt við skíðalag stefnanda, en hún mun hafa farið fram úr honum í brekkunni.  Þá hefur stefn­andi borið að blindhæð hafi byrgt henni sýn og sé það skýring þess hvers vegna hún tók ekki eftir sleðanum fyrr en raun bar vitni.   Stefnandi hefur einnig lýst viðbrögðum sínum eftir að hún tók eftir sleðanum, en hún segir ökumann hans hafa beygt í sömu átt og hún þegar hún hugðist skíða fram hjá honum.  Hefur þessi fullyrðing stefnanda ekki verið hrakin.  Að mati dómsins er því fráleitt að stefnandi hafi sýnt af sér stór­kost­legt gáleysi í merkingu 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og verður því ekki fallist á kröfu stefndu um lækkun fébóta af þeim sökum.

Útreikningur stefnanda á kröfum sínum hefur ekki sætt andmælum að öðru leyti en því að kröfu um þjáningabætur er mótmælt sem of hárri.  Fallast ber á það með stefndu að ósannað sé að stefnandi hafi verið óvinnufær lengur en í 180 daga og þá verður að telja lengri rúmlegu en 10 daga ósannaða.  Verða kröfur stefnanda því teknar til greina að öðru leyti en því að þjáningabætur ákveðast kr. 152.848 í stað kr. 424.238.  Nið­urstaða málsins verður því sú að stefndu verða dæmdir in solidum til að greiða stefn­anda kr. 3.935.187 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 9. nóvember 1998 til greiðsludags, en þá var liðinn mánuður frá því útreikningur Jóns Erlings lá fyrir.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.  Gjafsóknarkostnaður stefn­anda skal samkvæmt gjafsóknarleyfi hennar greiðast úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ingsþóknun lögmanns hennar, Þorsteins Júlíussonar, hrl., kr. 700.000 að með­töld­um virðisaukaskatti.  Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður kr. 88.215.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Akureyrarbær og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefn­anda, Aðalheiði Ingadóttur, kr. 3.935.187 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxta­laga frá 9. nóvember 1998 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda samkvæmt gjaf­sókn­ar­leyfi hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þorsteins Júlíussonar, hrl., kr. 700.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.