Hæstiréttur íslands

Mál nr. 506/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás
  • Barnavernd


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. janúar 2009.

Nr. 506/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Líkamsárás. Barnavernd.

X var ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart tveimur drengjum. Hann var jafnframt ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 fyrir að hafa ráðist á C og barið hana ítrekað með beltisól. Ekki var talið sannað að X hefði áreitt drengina kynferðislega og var háttsemi hans því ekki heimfærð til 1. mgr. 202. gr. hegningarlaganna. Þá var 1. mgr. 217. gr. laganna ekki talin eiga við í þessu tilfelli. Tekið var fram í dómi Hæstaréttar að ekki hefði tekist að sanna að háttsemi X hefði  farið út fyrir mörk 1. mgr. 99. gr. barnverndaralaga. Ekki var heldur talið sannað að X hefði haft ásetning til að slá C umfram það sem samþykki hennar hefði staðið til. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu X af kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.  

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 

Með 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er ekki lagt fortakslaust bann við því að foreldri eða annar maður með samþykki þess beiti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð, heldur er refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að gerðir hans séu til þess fallnar að skaða barnið andlega eða líkamlega. Ekki hafa verið færðar sönnur fyrir að háttsemi ákærða, sem 1. liður ákæru tekur til, hafi farið út fyrir þau mörk, sem þetta ákvæði felur í sér. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður að staðfesta niðurstöðu hans.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur áfrýjunarkostnaður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

 Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, X, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2008.

 

Mál þetta, sem var dómtekið 19. júní sl., höfðaði ríkissaksóknari hér fyrir dómi þann 3. apríl sl., gegn X, kt. [...] , [heimilisfand];

„fyrir eftirfarandi brot gegn almennum hegningarlögum, sumarið 2006, að Akurgerði 3b, Akureyri:

1.                       Aðallega fyrir kynferðisbrot og líkamsárás, en til vara brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa, tvisvar til þrisvar sinnum rassskellt A, þá 6 ára og B, þá 4 ára, á beran rassinn, með þeim afleiðingum að þeir hlutu roða á rassinn, og fyrir að hafa að því loknu borið olíu á rassinn á þeim.

2.                       Fyrir líkamsárás, með því að hafa, ráðist að C og ítrekað barið hana á beran rass og ber læri með beltisól með þeim afleiðingum að hún hlaut mar, rispur og eymsli á rass og aftanverð læri.

Telst brot ákærða samkvæmt 1. ákærulið aðallega varða við 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en til vara við 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og brot ákærða samkvæmt 2. ákærulið við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa.

Af hálfu C, kennitala [...], er krafist bóta að fjárhæð kr. 1.399.000 auk vaxta samkvæmt 8., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. júlí 2007 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa er kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.“

Skipaður verjandi ákærða krefst fyrir hans hönd aðallega sýknu af báðum ákæruliðum en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann gerir kröfu um að bótakröfum verði vísað frá, til vara að sýknað verði af bótakröfunum, til þrautavara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa á rannsóknar- og dómstigi að mati dómsins.

I.

Ákærði og C munu fyrst hafa kynnst í kringum mánaðamótin maí-júní 2006 á internetspjallrásum og byrjað að hittast í júnímánuði. Sambandi þeirra lauk haustið 2006. C er fráskilin, móðir tveggja drengja, A og B, sem búa hjá föður sínum en dvöldu á því tímabili sem hér um ræðir hjá henni þrjár helgar í hverjum mánuði. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri tók þann 4. júlí 2007 við kæru frá C á hendur ákærða. Sama dag var hann handtekinn og gerð húsleit að fenginni heimild héraðsdómara á heimili hans, vegna gruns um hann hefði barnaklám í vörslum sínum. Ekki liggur fyrir að neitt hafi fundist við þá leit sem leiddi til að sá grunur teldist á rökum reistur.

II.

C ber hér fyrir dómi að eftir að hún kynntist ákærða vorið 2006 hafi hann sýnt áhuga á að hitta syni hennar og talað um að það ætti að refsa þeim með flengingum ef þeir væru óþekkir. Hann hafi viljað fá að vita um hvert einasta skipti sem þeir gerðu eitthvað af sér. C kveðst hafa orðið við þessu og gert ákærða aðvart ef drengirnir höfðu verið óþekkir. Þegar hann kom heim til hennar hafi hann þá farið með annan drenginn í einu inn í herbergi og rassskellt hann. Hann hafi viljað hafa drenginn einan hjá sér inni í herbergi og ekki viljað hafa hana viðstadda. Hún hafi verið frammi í stofu á meðan. Hún hafi vitað af því að ákærði ætlaði að rassskella þá og samþykkt það. Henni hafi þó ekki fundist rétt að gera þetta. Hafi hún síðar farið að leyna því fyrir ákærða þótt drengirnir hefðu verið óþægir. Það hafi hún gert til að vernda drengina. Ákærði hafi látið það gott heita. Hún hafi tekið þá ákvörðun að hann kæmi ekki meira nálægt drengjunum, alla vega þannig að þeir yrðu aldrei einir með honum.

C kveðst aldrei hafa beðið ákærða að rassskella drengina.

C kveðst hafa verið viðstödd í eitt skipti þegar ákærði rassskellti drengina. Hann hafi flengt þá á beran rassinn, en ákærði hafi sjálfur verið fullklæddur. Hún kveðst ekki muna til þess að hafa sjálf tekið föt niður um drengina. Höggin hafi ekki verið föst og hún hafi ekki séð neina áverka á drengjunum á eftir. Hún kveðst ekki vita hve höggin voru mörg. Hún telur að þeir hafi einnig verið naktir þegar ákærði rassskellti þá inni í herbergi, þar sem bæði ákærði og drengirnir hafi sagt að svo hafi verið.

C ber að drengjunum hafi verið gert ljóst af hverju verið væri að flengja þá.

C kveður samskipti ákærða við drengina hafa verið góð. Þeir hafi ekki verið hræddir við hann, þvert á móti hafi þeim hafi líkað ágætlega við hann. Þeir hafi ekki kvartað undan flengingunum.

C segist ekki muna eftir að hafa séð ákærða bera olíu á rassinn á drengjunum, en hafa séð að hann hafi verið með olíu. Þessi olía hafi verið geymd heima hjá henni.

Ákærði ber að hann hafi hneigð til flenginga í kynlífi, en segir flengingar á drengjunum sumarið 2006 alls ekki tengjast þeim áhuga. Hann beri enga kynferðislega girnd til barna. Hann kveðst ekki hafa sóst eftir að beita drengina líkamlegum refsingum. Þau móðirin hafi rætt sérstaklega hvernig hentugast væri að refsa drengjunum. Hann segist ekki hafa haft mikil samskipti við þá þar sem þeir hafi búið hjá föður þeirra. Hann kveðst hafa flengt drengina í eitt skipti eftir að móðir þeirra bað hann um það, þar sem þeir hefðu verið óstýrilátir. Hann kveðst ekki vita hvort drengjunum hafi verið gerð grein fyrir því af hverju var verið að refsa þeim. Hann lýsir flengingunum svo að móðir drengjanna hafi tekið föt niður um þá og síðan hafi hann lagt þá á hné sér og rassskellt þá með flötum lófa. Móðir þeirra hafi verið í sama herbergi. Hann hafi ekki beitt þá neinu ofbeldi við að leggja þá á hné sér. Á eftir hafi hann borið olíu, sem hann hafi tekið með sér, á rassinn á þeim. Hann hafi ekki séð neina áverka á drengjunum. Þeir hafi ekki meitt sig og ekki kveinkað sér eða grátið. Samskipti hans við þá hafi verið góð eftir þetta atvik.

Drengirnir voru yfirheyrðir fyrir dómi þann 27. ágúst 2007. Liggur endurrit skýrslna þeirra frammi í málinu, svo og myndbandsupptaka af yfirheyrslunni. Í skýrslu eldri drengsins kemur fram að ákærði hafi rassskellt hann tvisvar eða þrisvar sinnum. Hann sagði að ef þeir bræður væru óþekkir strákar þá ætlaði ,,X“ að rassskella þá, en samt væri hann góður við þá. Sagði hann að ,,X“ rassskellti þá aðeins fastar og fastar. Honum hafi fundist það vont. Hann væri með eitthvað krem sem hann bæri á rassinn til að laga. Hann bæri kremið í kringum rassinn. Hann hafi verið rassskelltur á beran rassinn. Hann hafi sjálfur farið úr fötunum en X hafi ,,fattað“ upp á því. Hann segist hafa verið kyrr og ekki sagt neitt og ekki grátið. Bróðir hans hafi líka verið rassskelltur í sömu skipti. Móðir hans hafi alltaf verið viðstödd og hún hafi sagt ,,X“ að gera aðeins fastar. Aðspurður sagði hann að ,,X“ hafi ekki snert hann annars staðar á líkamanum.

Yngri drengurinn skýrði frá því að ,,X“ hafi rassskellt hann og bróður hans tvisvar eða þrisvar sinnum. Hann sagði það hafa verið sárt og hann hafi meitt sig. Hann hafi verið á nærfötunum. Mamma hans hafi verið þar líka. ,,X“ hafi svo sett krem á rassinn á eftir.

Vitnið D, faðir drengjanna, kveðst hafa verið að hátta drengina eitt kvöld og sá yngri hafi verið með óþekkt. Hann hafi byrst sig við drenginn og hann þá sagt við sig: ,,Af hverju rassskellir þú okkur ekki bara?“ Hann hafi svarað að hann gerði ekki svoleiðis og það ætti ekki að rassskella lítil börn. Þá hafi drengurinn svarað: ,,Já, en X rassskellti okkur.“ Vitnið kveðst aldrei hafa heyrt talað um X. Hann kveðst hafa haft samband við móður drengjanna og borið þetta undir hana. Hún hafi sagst ekki vita um að drengirnir hefðu verið rassskelltir. Hún hafi lofað að tala um þetta við ákærða. Vitnið kveðst síðan ekki hafa heyrt meira um málið fyrr en haustið 2007 þegar teknar voru af honum lögregluskýrslur. Hann hafi þá gengið á eldri drenginn og spurt hann hvort eitthvað fleira hefði gerst. Hann hafi sagt að þetta hefði gerst í tvö til þrjú skipti, en ákærði hafi einungis rassskellt þá. Yngri drengurinn hafi sagt honum að ákærði hefði síðan borið olíu á rassinn á þeim.

Í málinu liggur frammi texti sem C afhenti lögreglu og ber með sér að vera texti netspjalls. Hefst hann á ávarpi frá netfangi sem ákærði kannast við, með orðunum ,,falleg mynd af drengjunum með þér“. Samtalinu lýkur nánast undir eins, en hefst aftur þar sem C er ávörpuð af ,,haha“ og síðar af ,,life“. Ákærði kveðst ekkert kannast við þetta samtal. Í samtalinu biðst viðmælandinn meðal annars afsökunar á ,,þessu í gær“ og segir að það eigi að refsa sér með nauðgun og hýðingum. Síðar segir hann að myndirnar sem hann hafi sent séu ,,ekki af strákunum“. Samtal þetta eða samtöl eru ódagsett og ótímasett. Verður ekki talið alveg víst gegn neitun ákærða að hann sé þessi viðmælandi. Ekki er upplýst að ákærði hafi tekið myndir af drengjunum og framburður þeirra hljóðar um að svo hafi ekki verið. Þykir ekkert verða á þessu samtali byggt í málinu.

III.

Ákærða er í fyrri lið ákæru gefið að sök að hafa rassskellt drengina tvisvar til þrisvar á beran rassinn, með þeim afleiðingum að þeir hlutu roða á rassinn og að hafa borið olíu á rassinn á þeim. Þetta er aðallega talið varða við 2. mgr. 202. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Með framburði ákærða er nægilega sannað að hann hefur einu sinni rassskellt drengina á beran rassinn og borið olíu á þá að því búnu. Í skýrslum drengjanna kemur fram að þetta hafi gerst tvisvar til þrisvar sinnum og framburður móður þeirra hljóðar einnig um fleiri skipti en eitt. Með tilliti til þess að þetta kemur bæði fram í framburði drengjanna og móðurinnar, þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að um a.m.k. tvö skipti hafi verið að ræða. Ákærði og móðir drengjanna eru ekki samsaga um tildrög þess að ákærði rassskellti drengina. Kveður hann hana hafa beðið sig um það, en hún kveður hann hafa sóst eftir að flengja þá og spurt eftir því hvort þeir hefðu verið óþægir. Hvernig sem því er varið verður ekki annað lagt til grundvallar en að ákærði hafi því aðeins rassskellt drengina að móðir þeirra samþykkti það. Gegn neitun ákærða verður heldur ekki lagt til grundvallar að hann hafi flengt þá í einrúmi, enda fær það ekki stoð í framburði drengjanna.

Samkvæmt þessu verður talið upplýst að ákærði hafi í tvígang flengt drengina á beran rassinn að móður þeirra viðstaddri og borið olíu á þá að því búnu. Þá verður að miða við það að tilefni flenginganna hafi verið að drengirnir höfðu verið óþekkir, enda kemur fram í framburði þeirra og skýrslu föður þeirra að þeir hafi tengt flengingarnar við það að þeir hefðu verið óþægir.

Þegar litið er til þess að ekki verður annað lagt til grundvallar en að ákærði hafi flengt drengina að móður þeirra viðstaddri og frásagnar hennar um atvik að þeirri flengingu sem hún kveðst hafa verið viðstödd, verður ekki talið sannað að ákærði hafi áreitt drengina kynferðislega með því að rassskella þá. Verður háttsemi hans því ekki heimfærð til 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Almennt séð varðar það við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga að slá mann nauðugan á rassinn með flötum lófa svo að undan roðnar. Til þess er hins vegar að líta að hugsanlega tíðkast eitthvað, eða hefur tíðkast, að flengja börn. Verður að gæta að því að ekki verður öðru vísi litið á en að ákærði hafi flengt drengina með samþykki móður þeirra, í tilefni af því að þeir höfðu sýnt af sér óþekkt, þótt ekki liggi fyrir í hverju hún hafi falist. Hversu óviðurkvæmilegt sem það kann að virðast nú á tímum að flengja börn fyrir óþægð þykir ekki verða kveðið á um það hér að það varði refsingu, ef uppalandi barns tekur á því ábyrgð með samþykki sínu og nærveru, þegar til þess er litið að skilja verður ákvæði 1. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002 svo að ekki sé þar lagt algert bann við því að börn séu beitt refsingum og líkamlegar refsingar þar ekki undanskildar, sbr. hins vegar a-lið 3. mgr. 82. gr. laganna, sem leggur bann við því að börn sem dveljast á heimili eða stofnun skv. 79. gr. séu beitt andlegum og líkamlegum refsingum.

Til vara er háttsemi ákærða heimfærð til nefnds ákvæðis 1. mgr. og einnig 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt 1. mgr. varðar það hvern sem beitir barn refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega, sektum eða fangelsi allt að þremur árum og samkvæmt 3. mgr. hvern sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Í þessu máli liggur ekkert mat fyrir á því að refsing sem ákærði beitti drengina með samþykki móðurinnar og að henni viðstaddri hafi verið til þess fallin að skaða þá andlega eða líkamlega. Ekkert liggur heldur fyrir um það að drengirnir hafi orðið fyrir slíkum skaða. Þótt það sé skoðun dómara að það sé óheppilegt og óæskilegt að flengja börn, er varhugavert að slá því föstu hér að það falli ætíð undir það að vera yfirgangur, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi í skilningi nefnds ákvæðis. Verður því ekki fallist á að verknaður ákærða verði heimfærður til ákvæða 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins að því er varðar 1. tl. ákærunnar.

IV.

Í 2. tl. ákæru er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa sumarið 2006 ráðist að C og ítrekað barið hana á beran rass og ber læri með beltisól með þeim afleiðingum að hún hlaut mar, rispur og eymsli á rass og aftanverð læri.

C ber fyrir dómi um þetta atvik að það hafi líklega gerst um verslunarmannahelgina. Hún hafi samþykkt að ákærði slægi hana með belti, þar sem hún lá nakin á rúmi. Hafi ákærði kropið við hlið hennar og slegið hana með beltinu. Hún hafi síðan beðið ákærða að hætta, en hann hafi sagt að ef hún héldi áfram að biðja hann að hætta fengi hún fleiri högg. Hann myndi ákveða hvenær hann hætti og haldið áfram að berja hana með beltinu. Hún viti ekki hve höggin voru mörg, en henni hafi fundist þetta standa lengi yfir. Hún hafi grátið, en ekki þorað að standa upp, því hún hafi verið sannfærð um að þá myndi ákærði berja hana meira. Aðspurð segir hún að aldraður faðir hennar hafi verið heima við, en útilokað sé að hann hafi getað heyrt það sem fram fór. Eftir barsmíðarnar hafi hún verið marin frá mjöðmum og niður að ökklum. Hún kveður þetta eina tilvikið þar sem hún hafi samþykkt einhverskonar högg af hálfu ákærða og þetta hafi verið eina skiptið sem flengingar hafi átt sér stað í þeirra sambandi. Ákærði hafi beðið hana að rassskella sig en hún neitað því.

C kveður þau ákærða ekki hafa haft samfarir eftir að bar­smíð­unum lauk, en ákærði hafi þó reynt að hafa samfarir við hana í endaþarm. Hún hafi stöðvað hann en hann hafi þá haldið áfram að berja hana. Eftir að atvikinu lauk hafi hún grátið en ákærði reynt að hugga hana. Hún kveðst hafa farið til vinkonu sinnar, daginn eftir að hana minnir og sagt henni frá atvikinu.

C kveður sambandi þeirra ákærða hafa lokið á tímabilinu september til nóvember 2006. Hún hafi verið í tölvusamskiptum við ákærða eftir að sambandinu lauk. Hún kveðst ekki viss um að þau hafi lifað kynlífi eftir atvikið um verslunar­mannahelgina. Hún hafi slitið sambandinu. Aðspurð kveðst hún ekki minnast þess að hafa beðið ákærða að flytja til sín.

C kveður sambandið við ákærða hafa haft þau áhrif á sig að hún hafi fallið í þunglyndi og hætt að fara út úr húsi, því henni hafi fundist ákærði vera alls staðar. Hún hafi verið hrædd og fengið kvíðaköst. Hún hafi ekki getað unnið áfram og þurft að hætta starfi sínu.

Ákærði kveðst kannast við að þau C hafi farið í kynlífsleiki með samþykki beggja aðila. Þeir hafi m.a. snúist um flengingar en ákærði neitar því að um ofbeldisleiki hafi verið að ræða. Ákærði kveðst hafa sérstakan áhuga á flengingum og bindileikjum (BDSM) í kynlífi. Ákærði segir að C hafi viljað prófa og samþykkt leikina, en ef hún vildi ekki eitthvað hafi hann hætt. Hann hafi ekkert endilega átt frumkvæðið, þar sem hún hafi viljað prófa líka. Hann kannast við að hafa flengt C með belti í tvö skipti.

Ákærði kveðst muna eftir því atviki sem hann er ákærður fyrir en það atvik sé honum ekki minnisstæðara en önnur skipti þegar þau voru í kynlífsleikjum. Hann lýsir því svo að þau hafi bæði verið uppi í rúmi. Höggin hafi verið í kringum 20-30, ekki mjög föst.

Ákærði neitar því að C hafi verið því mótfallin að taka þátt í leiknum. Hún hafi hvorki kveinkað sér né beðið hann að hætta. Hún hafi samþykkt athafnirnar. Hann kveðst ekki hafa orðið var við neina áverka á C eftir að hann rassskellti hana. Húð hennar hafi þó roðnað undan höggunum. Hann ber að C hafi einnig flengt hann í kynlífi þeirra, en ekki með neinum tækjum. Þau C hafi hist daginn eftir þetta atvik og þá hafi hún ekki látið í ljós að neitt amaði að. Hann kveður þau hafa verið í miklum samskiptum í tvo mánuði eftir þetta. Þau hafi m.a. lifað kynlífi á þeim tíma. Hann kveður C hafa haft áhuga á að hann flytti inn til hennar. Þau hafi síðan hætt að hittast einhvern tíma í september. Hann hafi slitið sambandinu. Eftir að flosnaði uppúr sambandinu hafi þau verið í tölvusambandi í marga mánuði.

Vitnið E er vinkona C. Hún ber að C hafi skýrt sér frá atvikinu um tveimur vikum eftir að það gerðist. C hafi sagt henni að ákærði hafi barið sig með belti til að refsa henni. Hann hafi ekki hætt er hún bað hann um það. Vitnið kveðst hafa séð smá áverka en langur tími hafi verið liðinn. Hún hafi séð marbletti frá baki og niður.

Vitnið F er systir C. Hún kveðst hafa séð áverkana á C eftir að atvikið varð. Hún hafi séð marbletti aftan á líkama hennar frá mitti og niður á ökkla. Vitnið kveður C hafa sagt sér að ákærði hafi verið með belti í hendi og slegið hana með því. Hún hafi þurft að grúfa sig niður og grátið.

Vitnið G er vinkona C. Vitnið kveður C hafa komið til sín daginn eftir atburðina og fallið saman. Vitnið kveðst hafa gengið á hana og hún þá sýnt því áverka sem hún hafi sagt að væru eftir ákærða. Áverkarnir hafi verið skelfilegir, mar frá rassi og niður á kálfa. C hafi sagt að ákærði hafi slegið sig með belti. Vitnið kveður C hafa sýnt sér sms-skilaboð þar sem ákærði hafi sagt henni hvernig hún ætti að klæðast. Vitnið kveðst hafa hringt í ákærða og rætt framkomu hans við C. Vitnið kveðst hafa séð skilaboð frá ákærða sem hann hafi sent C um netið. Það hafi verið hótanir gagnvart börnunum hennar og annað. Vitnið segir að þetta mál sé búið að vera mikið  tilfinn­inga­legt áfall fyrir C, hún sé búin að missa vinnu, sé hrædd um börnin sín og við að fá börnin til sín. Hún hafi misst sjálfstraust eftir árásina og orðið mjög hrædd eftir að hótanirnar gagnvart strákunum byrjuðu. Vitnið kveðst hafa hvatt C til að kæra til lögreglu.

Við aðalmeðferð málsins var lögð fram skrifleg greinargerð Þuríðar Hjálm­týsdóttur, sálfræðings og fjölskylduráðgjafa. Þuríður kom fyrir dóm til skýrslugjafar. Hún ber að C hafi leitað til sín til að vinna sig út úr þeim atburðum sem hér um ræðir, fyrst þann 18. júní 2007. Vitnið álítur að hún hafi upplifað mikinn kvíða og mikil þunglyndiseinkenni. Hún hafi flosnað upp úr starfi vegna mikils vinnuálags. Vitnið telur að hennar varnarhættir séu orðnir svo veikir eftir atburðina að hún hafi ekki þolað það álag sem er í vinnunni og flosnað upp úr starfi eftir það. Vitnið segir að fyrir þennan atburð hafi C verið að ná sér á strik eftir skilnað og erfiða lífreynslu sem honum fylgdi. Eftir að hún hafi orðið fyrir þessu áfalli hafi hún aftur sokkið niður í þetta mikla þunglyndi og erfiðleika, og þá t.d. ekki getað unnið lengur. Sambandið hafi haft slæm áhrif á C. Það hafi leitt til kvíða, þunglyndis og þess að hún hrökklaðist úr starfi.

V.

Ákærða og C ber saman um að ákærði hafi slegið hana með belti. Þá ber þeim einnig saman um það að þetta hafi verið þáttur í kynlífsathöfn og C samþykkt að ákærði slægi hana með þessum hætti. Þau greinir hins vegar á um það hvort ákærði hafi gengið lengra en samþykki C stóð til og neitað að hætta er hún bað hann um það.

Lýsingar vitna benda til þess að áverkar hafi verið sýnilegir á C sem hún hafi lýst að ákærði hafi valdið með því að slá hana. Hún leitaði ekki til læknis og liggur því ekkert fyrir um eðli áverkanna annað en lýsingar hennar og vitna á þeim. Eru þær lýsingar ekki jafn traust sönnunargagn um það hvers eðlis áverkarnir voru og ef vottorð læknis lægi fyrir um þá. Verður að hafa það í huga við mat á því hvort sannað þyki að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás eins og honum er gefið að sök í ákæru.

Samkvæmt ákvæði 2. ml. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 verður ekki refsað fyrir brot gegn 217. gr. sömu laga, þegar samþykki liggur fyrir. Fyrir liggur að C samþykkti að ákærði slægi sig með belti. Ákærði neitar að hafa slegið hana umfram það sem hún samþykkti sjálf. Eins og fyrr segir er ekki alveg ljóst hversu mikla og alvarlega áverka hún hlaut. Hér að framan er rakin frásögn vitna af því hvernig C lýsti háttsemi ákærða við þau og bendir hún eindregið til þess að C hafi þegar eftir atvikið lýst því á sambærilegan hátt og hér fyrir dómi. Til hins verður þó einnig að líta að samband hennar og ákærða stóð áfram í eina tvo mánuði eftir þetta atvik og langur tími leið uns kæra kom fram. Hér að framan er rakinn framburður Þuríðar Hjálmtýsdóttur um að C hafi átt í erfiðleikum eftir að sambandi hennar við ákærða lauk, en því þykir ekki verða slegið föstu að þeir erfiðleikar verði raktir til áfalls vegna þess atviks sem hér um ræðir. Þegar þetta er allt virt er ekki alveg ljóst hversu langt samþykki hennar til árásar ákærða náði. Verður að virða ákærða þann vafa í hag. Er ekki nægilega sannað að hann hafi haft ásetning til að slá C umfram það sem samþykki hennar stóð til. Ber samkvæmt því að sýkna hann af sakargiftum í 2. tl. ákæru.

Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Eftir þeirri niðurstöðu ber að vísa bótakröfu C frá dómi.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar hdl., ákveðast 311.250 krónur. Réttargæslulaun Elísabetar Sigurðardóttur hdl., sem var tilnefnd réttargæslumaður C á rann­sóknarstigi málsins, ákveðast 99.600 krónur og réttargæslulaun Ólafs Rúnars Ólafs­sonar hdl., sem tók við þeim starfa í lok rannsóknar og á dómstigi ákveðast 149.400 krónur. Réttargæslulaun Arnars Sigfússonar hdl., sem var réttargæslumaður drengj­anna A og B á rannsóknar- og dómstigi ákveðast 186.750 krónur. Þar af hefur lögmaðurinn þegar fengið greiddar 55.029 krónur. Virðis­auka­skattur er innifalinn í greindum fjárhæðum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, skal vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Bótakröfu C er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar, hdl., 311.250 krónur, réttargæslulaun Elísabetar Sigurðardóttur hdl., 99.600 krónur, Ólafs Rúnars Ólafssonar, hdl., 149.400 krónur og Arnars Sigfússonar hdl., 186.750 krónur, greiðast úr ríkissjóði.