Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Gjaldþrotaskipti
- Málskostnaður
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2012. |
|
Nr. 267/2012.
|
Össuklettur hf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Hótel Búðum ehf. (Ragnar Tómas Árnason hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Gjaldþrotaskipti. Málskostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H ehf. um að bú Ö hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ö hf. krafðist málskostnaðar í héraði úr hendi H ehf. Hæstiréttur vísaði til þess að samhliða þessu máli hefðu málsaðilar rekið annað mál sem leiddi til þess að bú Ö hf. var tekið til gjaldþrotaskipta og hafnaði kröfunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. apríl 2012 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að þeim verði hafnað. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Með bréfi 1. febrúar 2012, sem barst héraðsdómi 2. sama mánaðar, krafðist varnaraðili þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms, sem í beiðninni var sagt hafa farið fram 3. nóvember 2011 að kröfu Festa lífeyrissjóðs. Sóknaraðili andmælti þeirri kröfu og var því þingfest mál til að leysa úr þeim ágreiningi. Fyrst undir rekstri þess máls var lagt fram endurrit af fjárnámsgerðinni sem krafan var studd við, en gerðin fór fram fyrr en staðhæft var í skiptabeiðni eða 11. október 2011. Í kjölfarið var kröfunni hafnað með hinum kærða úrskurði þar sem beiðnin barst héraðsdómi eftir að þrír mánuðir voru liðnir frá því aðförin fór fram, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu var málskostnaður felldur niður. Samhliða þessu krafðist varnaraðili gjaldþrotaskipta á búi skuldara á grundvelli 5. töluliðar sömu málsgreinar og var sú krafa tekin til greina með úrskurði sem kveðinn var upp sama dag og hinn kærði úrskurður, sbr. dóm Hæstaréttar í dag í máli nr. 268/2012.
Krafa varnaraðila um frávísun er reist á því að málið sæti ekki kæru til Hæstaréttar þar sem úrskurðarorð hins kærða úrskurðar kváðu á um meira en aðeins það hvort greiða ætti málskostnað. Samkvæmt g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sæti kæru úrskurður héraðsdóms um ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurði. Þar sem 143. gr. laganna feli í sér tæmandi talningu á því sem sæti kæru leiði af gagnályktun að kæruheimild sé ekki fyrir hendi. Þetta eigi einnig við um úrskurði sem eru kæranlegir eftir 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 sæta kæru til Hæstaréttar úrskurðir og ákvarðanir héraðsdómara að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögunum. Þó verða ekki kærðir úrskurðir sem kveðnir eru upp eða ákvarðanir sem eru teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem rekið væri eftir almennum reglum. Hinn kærði úrskurður var ekki kveðinn upp undir rekstri málsins heldur fól hann í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið. Úrskurðurinn sætir því kæru og verður frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.
Með kröfu um gjaldþrotaskipti eiga að fylgja þau gögn sem krafa er studd við, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991. Svo sem áður greinir fylgdi ekki með kröfu varnaraðila endurrit af því árangurslausa fjárnámi sem krafan var studd við. Án þess að úr yrði bætt bar héraðsdómara að réttu lagi að vísa kröfunni á bug, sbr. 1. mgr. 67. gr. laganna. Að því gættu að samhliða þessu máli var, eins og áður segir, rekið annað milli aðila, sem leiddi til þess að bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta, eru ekki efni til að fallast á málskostnaðarkröfu sóknaraðila.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Kröfu sóknaraðila, Össukletts hf., um að varnaraðila, Hótel Búðum ehf., verði gert að greiða málskostnað í héraði er hafnað.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. apríl 2012.
Sóknaraðili, Hótel Búðir ehf., Búðum, Snæfellsbæ, krafðist þess með bréfi er barst dóminum 2. febrúar 2012 að bú varnaraðila, Össukletts hf., Tröðum, Snæfellsbæ, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var rekið ágreiningsmál þetta, sem var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 29. mars sl.
Varnaraðili krafðist þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krafðist hann málskostnaðar.
I.
Með bréfi er barst dómnum 2. febrúar 2012 fór sóknaraðili fram á að bú varnaraðila, Össukletts hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Össuklettur hf. gerði samning við sóknaraðila 9. janúar 2009 um leigu Össukletts hf. á Hótel Búðum og var samningurinn til 20 ára. Sóknaraðili kvað árangurslaust fjárnám hafa farið fram hjá varnaraðila vegna skulda hann 3. nóvember 2011. Í framhaldinu hafi sóknaraðili krafist betri trygginga fyrir greiðslum en höfðu verið lagðar fram. Einnig hafi greiðsla fyrir leigu í desember 2011 ásamt fasteignagjöldum talin gjaldfallin. Varnaraðili hafi ekki lagt fram betri tryggingar, eða getað sýnt fram á greiðslufærni og því fari sóknaraðili fram á að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var ágreiningsefnið tekið til úrskurðar hinn 29. mars sl.
II.
Sóknaraðili vísar til þess að í leigusamningi milli aðila er m.a. tekið fram að húsaleiga fyrir hvert ár skuli vera kr. 25.200.000 sem bundin er vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu í janúar 2009. Auk þess hafi leigutakið skuldbundið sig til þess að greiða virðisaukaskatt ofan á framangreinda fjárhæð. Húsaleiga fyrir desember, hvað varðar leiðréttingu á vísitölu sé ógreidd auk þess sem sóknaraðili hafi þurfti að greiða fasteignagjöld af fasteigninni hinn 24. janúar sl., þrátt fyrir að samningur kvæði á um að Össukletti bæri að standa straum af þeirri greiðslu. Bendir sóknaraðili á að það blasi við að greiðslufall verði í sumar þegar húsaleiga fyrir árið 2012 komi á gjalddaga.
Þar sem árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá Össukletti, ógreidd sé leiðrétting á vísitölu og húsaleigu fyrir desember 2011 sem og fasteignagjöld, auk þess sem engar tryggingar hafa verið lagðar fram af hálfu félagsins fyrir efndum samningsins og félagið hefur að öðru leyti ekki sýnt fram á að það sé allt að einu fært um að standa full skil á skuldbindingum samningsins þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms, ekki síst í ljósi viðvarandi tapreksturs, sé þess krafist að bú Össukletts hf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan sé studd við 1. tölul. 2. mgr. og 4. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991
III.
Varnaraðili heldur því fram að málsástæður sóknaraðila eigi ekki við rök að styðjast. Varðandi tryggingar þær sem getið er um í leigusamningi hafi í einu og öllu verið farið eftir þeim ákvæðum og skilmálum, sem þar eru og er því mótmælt að um nokkrar vanefndir sé að ræða af hálfu Össukletts ehf. þar að lútandi. Húsaleiga fyrir desember 2011 sem sóknaraðili heldur fram að sé ógreidd, sé greidd að fullu samkvæmt framlögðum gögnum og í raun hafi Össuklettur ehf. ofgreitt leigu á árinu 2011. Vegna fasteignagjalda heldur varnaraðili því fram að hann hafi greitt með skilum öll fasteignagjöld af fasteigninni eins og ákvæði leigusamnings bjóða.
Mótmælir varnaraðili því sem tilhæfulausu og röngu að greiðslufall blasi við þegar húsaleiga komi á gjalddaga enda séu engar forsendur fyrir slíkri ályktun. Össuklettur ehf. sé félag í fullum rekstri og blasi reyndar við að rekstrarhorfur eru með ágætum. Varnaraðili bendir á að nýting ársins 2011 sé staðreynd en nýting ársins 2012 sé frá 15.3.2012 og sýni verulega og væntanlega aukningu á árinu. Fyrir liggi að varnaraðili hafi staðið sóknaraðila full skil á öllum skuldbindingum sínum, húsaleigu og öðru og telur varnaraðili það ljóst, að aðrar ótilgreindar ástæður séu að baki framgöngu sóknaraðila. Heldur varnaraðili því fram að krafa sú er lá að baki árangurslausu fjárnámi hafi verið afturkölluð og gerð upp að fullu og öllu leyti. Þá sé ljóst af framlögðum gögnum að varnaraðili hafði samið um greiðslutilhögun varðandi kröfuna.
Mótmælir varnaraðili kröfufjárhæð þar sem hún sé að fullu greidd.
Í málinu er krafa gerðarbeiðanda reist á lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 og vísað til 1. tl. 2. mgr. 65 gr. laganna. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að heimfærsla undir þá grein geti ekki átt sér stað og engin rök séu til þess að fallast á kröfur sóknaraðila eins og þær liggja fyrir. Þá er einnig vísað til 4. mgr. 65.gr. en þau lagarök eiga ekki við, þar sem gerðarbeiðandi á enga kröfu á hendur gerðarþola en hið gagnstæða liggur fyrir að gerðarbeiðandi skuldar gerðarþola fé.
IV.
Í 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21, 1991 er kveðið á um heimild lánardrottins til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldara, ef fjárnám hefur verið gert hjá skuldaranum án árangurs að nokkru leyti eða öllu á síðustu 3 mánuðum fyrir frestdag.
Sóknaraðili lagði fram við munnlegan flutning málsins staðfest endurrit fjárnámsins. Skjalið bar með sér aðra dagsetningu en fram kemur í kröfu sóknaraðila eða 11. október 2011 en ekki 3. nóvember 2011 eins og stendur í kröfu sóknaraðila. Fjárnámsgerð sú, er sóknaraðili reisir kröfu sína á, fór því fram rúmum þremur mánuðum áður en krafa sóknaraðila barst dóminum 2. febrúar 2012.
Að ofangreindu virtu er það mat dómsins að skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65 gr. laga nr. 21, 1991 sé ekki fullnægt. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Við ákvörðun málskostnaðar er til þess að líta að samhliða máli þessu er rekið annað mál á milli sömu aðila þar sem krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila er tekin til greina. Verður málskostnaður á milli aðila því felldur niður.
Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Hótel Búða ehf., að bú varnaraðila, Össukletts hf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður á milli aðila fellur niður.