Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2008
Lykilorð
- Flutningssamningur
- Skaðabætur
- Fyrning
- Málskostnaður
Reifun
|
|
Fimmtudaginn 25. september 2008. |
|
Nr. 45/2008. |
Inter Medica ehf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) gegn Íslandspósti hf. (Andri Árnason hrl.) |
Flutningssamningur. Skaðabætur. Fyrning. Málskostnaður.
IM flytur inn og selur lækningavörur til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, þar á meðal ósæðarstoðnet frá fyrirtækinu M í Svíþjóð. IM samdi við M um að þeir fengju að senda út nokkra kassa af ósæðarstoðneti sem var að fara að renna út gegn afhendingu á sömu vöru með lengri gildistíma. Umrædd vara sem er notuð við skurðaðgerðir og er mjög viðkvæm barst M í slæmu ástandi og taldi M sig ekki geta tekið við vörunni. IM krafði Í, sem sá um að flytja vöruna til Svíþjóðar, um bætur vegna þess tjóns sem félagið varð fyrir og rekja má til þess að vörurnar komu ekki til viðtakandi í nægilega góðu ástandi. Deila málsaðila snýr að því hvort komist hafi á samningur milli þeirra um að Í hafi tekið að sér að pakka vörunni fyrir IM sem flytja átti til Svíþjóðar. Með vísan til tölvubréfs starfsmanns Í taldi Hæstiréttur sannað að komist hafi á bindandi samningur um að Í tæki að sér að pakka umræddum vörum fyrir flutning þeirra. Ekki var fallist á að fyrningarregla 4. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu ætti við í þessu tilviki enda er gildissvið laganna bundið við póstþjónustu en ekki um pökkunarsamninga. Þá var heldur ekki fallist á að ábyrgðartakmörkun í stöðluðum skilmálum í fylgibréfi takmarkaði ábyrgð Í þar sem þeir eiga efni sínu samkvæmt ekki við um pökkun vöru. Í framburði fyrirsvarsmans IM fyrir dómi kom fram að ekki hefði eingöngu verið beðið um að vörunum yrði pakkað inn í plast enda væri það ekki alltaf nóg. Varan þyrfti að vera í ,,karbon pakkningum”. Gegn andælum Í taldi Hæstiréttur að ekki hafi tekist sönnun um að beiðni IM um pökkun hafi falið í sér annað og meira en að kössunum yrði pakkað inn í plastfilmu. Sönnunarbyrðin var því lögð á IM að sanna að kassarnir hefðu komist í nægilega góðu ástandi til móttakanda hefði þeim einungis verið pakkað inn í plastfilmu. Sú sönnun tókst ekki og varð IM því að bera fjártón sitt sjálfur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. desember 2007, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. janúar 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi á ný 29. janúar 2008. Hann krefst greiðslu á 2.075.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 6. september 2007.
Áfrýjandi flytur inn og selur lækningavörur til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, þar á meðal stent-grafts eða svonefnd ósæðarstoðnet frá fyrirtækinu Medtronic í Svíþjóð sem notuð eru í skurðaðgerðum. Um mitt ár 2004 kveðst áfrýjandi hafa samið við fyrirsvarsmenn Medtronic um að þeir myndu skipta út átta kössum af ósæðarstoðnetum gegn afhendingu á sömu vöru með lengri gildistíma. Í útskýringum áfrýjanda fyrir Hæstarétti kom fram að ósæðarstoðnetum væri pakkað inn í tvöfaldar umbúðir, annars vegar innri kassa til að verja innsigli ósæðarstoðnetanna sem heldur þeim dauðhreinsuðum og hins vegar flutningsumbúðir utan um þá. Þar sem flutningsumbúðum hafði verið hent hafi áfrýjandi óskað eftir því við stefnda að hann pakkaði kössunum inn og flytti þá til Medtronics í Svíþjóð. Hafi Ótthar Edvardsson þjónustustjóri TNT fallist á þetta erindi og þar með komist á samningur um pökkun á kössunum og flutning þeirra. Stefndi hafi hins vegar vanrækt að pakka kössunum inn eins og lofað hefði verið. Þegar þeir bárust viðtakanda hafi þeir verið blautir og skemmdir en í því ástandi taldi Medtronics sig ekki geta tekið við þeim. Innri kassar utan um ósæðarstoðnet megi ekki blotna þar sem þá sé hætta á að innsiglið eða límið sem heldur ósæðarstoðnetunum dauðhreinsuðum eyðileggist og séu þau þá ónothæf þar sem hætta sé á að bakteríur hafi borist í þau. Krefur áfrýjandi stefnda um bætur fyrir tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna brota á samningi um pökkun kassanna sem hann beri ábyrgð á. Nemi krafan þeirri fjárhæð sem hann hafi orðið að greiða Medtronics fyrir ósæðarstoðnetin eða 200.000 sænskar krónur 21. apríl 2006 sem jafngilda 2.075.000 íslenskum krónum miðað við gengi þann dag.
Stefndi mómælir því að hafa gert sérstakan samning við áfrýjanda um pökkun umræddra kassa. Í því sambandi telur hann að ekki verði byggt á tölvupósti þjónustustjóra TNT 22. september 2004 til starfsmanns áfrýjanda en hann endurspegli ekki raunveruleg samskipti aðila. Verði talið að komist hafi á samningur um pökkun hafi hann ekki falið annað og meira í sér en að plastfilma yrði sett utan um kassana en þá sé krafa áfrýjanda á hendur honum hvað sem öðru líður fyrnd á grundvelli 46. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu. Stefndi ber einnig fyrir sig að á bakhlið fylgibréfs með sendingunni, sem áfrýjandi hafi séð um að láta fylla út, séu staðlaðir skilmálar þar sem stefndi takmarkar ábyrgð sína á tjóni á vörum sem hann flytur við 20 dollara fyrir hvert kíló. Þá hafi áfrýjandi tilgreint verðmæti sendingarinnar á fylgibréfi einungis sem 4000 sænskar krónur. Stefndi byggir ennfremur á því að þótt sett hefði verið plastfilma utan um kassanna hefðu þeir engu að síður skemmst. Í fyrsta lagi þar sem settur hefði verið merkimiði á kassanna í samræmi við venjubundið verklag en upplýst sé í málinu að það hefði ekki fullnægt kröfum Medtronics. Í öðru lagi þar sem einfaldlega hefði þurft að búa miklu betur um kassanna svo þeir kæmust óskemmdir á áfangastað. Af hálfu stefnda var upplýst að hann sé umboðsmaður TNT á Íslandi en fyrirtækið annist hraðflutninga.
II
Málsaðilar deila um hvort komist hafi á samningur um að stefndi tæki að sér að pakka átta kössum fyrir áfrýjanda sem stefndi tók að sér að flytja til Svíþjóðar. Í framburði starfsmanns áfrýjanda, Árna Hauks Árnasonar, fyrir héraðsdómi 29. ágúst 2007 kom fram að hann hefði haft samband við Ótthar Edvardsson þjónustustjóra hjá TNT um pökkun kassanna og hafi það verið fyrir milligöngu hans sem þetta var samþykkt. Í gögnum málsins liggur fyrir tölvubréf frá Ótthari til Árna Hauks 22. september 2004, eða fimm dögum eftir að varan var send, þar sem hann staðfestir að TNT hafi tekið að sér að pakka kössunum inn í plastfilmu enda þótt fyrirtækið taki almennt ekki að sér slíka þjónustu. Upplýsingar um þetta hafi hins vegar ekki borist þeim sem undirbúið hafi flutning á vörum þennan dag. Harmað sé að vörurnar hafi ekki borist á áfangastað í góðu ástandi.
Þar sem stefnda hefur ekki tekist sönnun um að pökkunarsamningurinn, sem TNT hafði gert við áfrýjanda samkvæmt framangreindu tölvubréfi, hafi verið málamyndagerningur verður á því byggt að komist hafi á bindandi samningur um að stefndi tæki að sér að pakka umræddum kössum fyrir flutning þeirra til Svíþjóðar fyrir áfrýjanda.
Ekki er fallist á að fyrningarregla 46. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu taki til þessa sérstaka pökkunarsamnings í ljósi eðlis hans og umfangs, enda er gildissvið laganna bundið við póstþjónustu, sem felst í móttöku eða söfnun, flokkun, flutningi og skilum á póstsendingum gegn greiðslu og starfsemi sem þessu tengist, sbr. 1. gr. laganna. Þá er heldur ekki fallist á með stefnda að ábyrgðartakmörkun í stöðluðum skilmálum í fylgibréfi takmarki ábyrgð stefnda enda eiga þeir efni sínu samkvæmt ekki við um pökkun vöru.
Í kössum þeim, sem áfrýjandi óskaði eftir að pakkað yrði inn, voru eins og áður segir afar viðkvæmar dauðhreinsaðar lækningavörur. Í málinu liggja fyrir tölvubréf frá Medtronic þar sem fram kemur að ekki megi skrifa neitt á innri umbúðirnar og að ekki sé hægt að selja vörurnar hafi innri umbúðir orðið fyrir einhverjum skemmdum. Í framburði Kristjáns Zophoníassonar fyrirsvarsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að ekki hefði eingöngu verið beðið um að vörunum yrði pakkað inn í plast enda væri það ekki alltaf nóg. Varan þyrfti að vera í „karbon pakkningum“. Gegn andmælum stefnda verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist sönnun um að beiðni hans um pökkun hafi falið í sér annað og meira en að kössunum yrði pakkað inn í plastfilmu. Áfrýjanda var ljóst hvaða kröfur hinn sænski viðsemjandi hans gerði til pökkunar vörunnar við flutning milli landa. Pökkunin sem samkvæmt framansögðu er sannað að áfrýjandi hafi óskað eftir við stefnda uppfyllti ekki þessar kröfur. Við þessar aðstæður verður sönnunarbyrði lögð á hann fyrir þeirri staðhæfingu að innri kassar, sem höfðu að geyma ósæðarstoðnet, hefðu komist heilir á leiðarenda í Svíþjóð hefði þeim verið pakkað inn í plastfilmu. Sú sönnun hefur honum ekki tekist og verður hann því að bera ábyrgð á fjártjóni sínu sjálfur.
Þar sem telja verður að veruleg vafaatriði hafi verið í máli þessu, og fyrir liggur að stefndi efndi ekki þann samning um pökkun vörunnar sem að framan er talið sannað að komist hafi á milli aðila, verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af rekstri þess í héraði og fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Stefndi, Íslandspóstur hf., skal vera sýkn af kröfum áfrýjanda, Inter Medica ehf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. september 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. ágúst 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Inter Medica ehf., kt. 630792-2079, Hæðarsmára 6, Kópavogi, á hendur Íslandspósti hf., kt. 701296-6139, Stórhöfða 29, Reykjavík, með stefnu sem birt var 22. febrúar 2007.
Dómkröfur stefnanda eru að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 2.075.000 kr., ásamt dráttarvöxtum frá 30. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara að það verði eingöngu dæmt til að greiða stefnanda USD 217,20. Til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins. Til var er þess krafist að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst á þann veg að Inter Medica ehf. hafi flutt inn og selt lækningavörur til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Félagið hafi m.a. keypt vörur fyrir sjúkrahús frá fyrirtækinu Metronic í Svíþjóð.
Greint er frá því að stefnandi hafi samið við forsvarsmenn Metronic á árinu 2004 að Metronic tæki aftur við átta kössum frá stefnanda af svokölluðu stentgrafts, sem notað er í skurðaðgerðum, og afhenti stefnanda í staðinn stentgrafts með lengri gildistíma. Samið hefði verið um að skipti færu fram þremur mánuðum áður en gildistími stentgrafts hjá stefnanda rynni út, en byggt var á því að Metronic gæti komið efninu í verð og notkun á sjúkrahúsum í Svíþjóð innan þriggja mánaða.
Sagt er að stefndi hafi tekið að sér að flytja kassana til Svíþjóðar ásamt því að pakka kössunum inn fyrir flutninginn. Stefndi hafi náð í kassana hjá stefnanda og tekið við þeim án umbúða. Er Metronic hafi síðan fengið kassana í hendur, hafi engar umbúðir verið utan um þá og kassarnir blautir og þvældir eftir flutninginn. Af hálfu Metronic hafi því þá verið hafnað að taka við farminum í þessu ástandi og því borið við að varningurinn væri ekki lengur nothæfur til áframhaldandi sölu þar sem strangar kröfur væru gerðar um meðferð og umbúnað á lækningavarningi. Minnsti grunur um að raki hefði komist í stentgrafts gerði efnið ónothæft til lækninga.
Þá segir að stefnandi hafi framsent tölvupóst til stefnda í september 2004 frá Metronic, þar sem ástandi varningsins við móttöku í Svíþjóð var lýst, og óskað eftir skýringum stefnda. Í tölvupósti hinn 22. september 2004 hafi starfsmaður hjá stefnda gefið þá skýringu að varningurinn hefði verið móttekinn án umbúða og stefndi beðinn um að pakka honum í plast fyrir sendingu. Þetta væri ekki þjónusta, sem stefndi almennt veitti, en undantekning hefði verið gerð í þessu tilviki. Starfsmaður stefnda, sem undirbjó varninginn til flutnings, hefði ekki fengið fyrirmæli um pökkun fyrir sendingu og þætti stefnda leitt að varningurinn skyldi ekki hafa borist á áfangastað í góðu ástandi.
Greint er frá því að Metronic hafi krafið stefnanda um 370.000 sænskar krónur fyrir umrætt stentgrafts. Samkomulag hafi orðið í desember 2005 um að stefnandi greiddi 200.000 sænskar krónur og hafi stefnandi greitt þær hinn 21. apríl 2006. Vísað var til þess að á genginu 10,375 væri um 2.075.000 íslenskar krónur að ræða. Og með bréfi hinn 30. júní 2006 hafi stefnandi krafið stefnda um þessa fjárhæð ásamt dráttarvöxtum og kostnaði vegna málsins.
Varðandi aðild stefnda tjáir stefnandi að stefndi sé umboðsaðili fyrir flutningafyrirtækið TNT International Express á Íslandi og sjái um dreifingu og móttöku sendinga fyrir fyrirtækið undir nafninu TNT hraðflutningar.
Af hálfu stefnda er því ekki neitað að stefndi hafi tekið að sér flutning á varningi fyrir stefnanda til Svíþjóðar, en hann gerir þær athugsemdir við málavaxtalýsingu stefnanda að ekki liggi fyrir að stefndi hafi tekið að sér að pakka og flytja varninginn með öðrum hætti en gert var. Stefnandi hafi tekið fram að verðmæti varningsins væri 4.000 sænskar krónur og ekki óskað eftir að sendingin yrði tryggð hjá stefnda. Stefndi hafi afhent stefnanda varninginn til flutnings í kössum sem voru með öllu óvarðir.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að aðilar hafi samið um að stefndi sæi um pökkun og flutning á vörum stefnanda frá Íslandi til Svíþjóðar. Stefndi hafi tekið þetta að sér gegn greiðslu. Upprunalegar umbúðir vörunnar hefðu orðið fyrir verulegu hnjaski í flutningnum vegna þess að stefndi hefði ekki pakkað vörunni inn eins og um hefði verið samið. Með því hafi samningur aðila verið vanefndur og beri stefnda því að bæta tjónið með greiðslu skaðabóta.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér gáleysi við frágang vörunnar fyrir flutning. Skilaboð um hvernig ætti að ganga frá vörunni hafi misfarist milli starfsmanna stefnda og valdið því að vörunni var ekki pakkað inn eins og um var beðið. Þessi vanræksla hafi valdið stefnanda tjóni sem stefndi beri ábyrgð á sem vinnuveitandi.
Stefnandi vísar til þess að bótafjárhæðin sé tölulega sama fjárhæð og stefnandi greiddi Metronic.
Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að krafa stefnanda hafi fyrnst, enda hafi stefnandi ekki krafist bóta innan sex mánaða frá því að viðkomandi póstsending var afhent stefnda til flutnings, sbr. 46. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.
Þá byggir stefndi á því að hann hafi ekki samið við stefnanda um að stefndi tæki að sér að pakka viðkomandi póstsendingu. Í greinargerð stefnda er það rökstutt þannig:
Af stefnu málsins verður ráðið að hafi stefnandi sett fram kröfur varðandi meðferð umræddrar sendingar fór hann þess einungis á leit við stefnda að stefndi myndi sækja vörurnar til sín og setja plastfilmu utan um sendinguna. Ekki hafi þannig aðrar kröfur verið settar fram af hálfu stefnanda, hvorki við hina upphaflegu pöntun né þegar vörurnar voru sóttar til stefnanda, en stefnandi fyllti þá út sérstaka verkbeiðni án frekari tilgreiningar. Tók stefnandi jafnframt fram að verðmæti sendingarinnar væri einungis 4000 sænskar krónur. Möguleg beiðni stefnanda gat því, þ.m.t. með hliðsjón af því hvernig hún hefur þá verið sett fram skv. stefnu málsins og öðrum gögnum, aldrei skilist sem beiðni um annað og meira en að um kassana yrði vafin plastfilma og þeim þannig haldið saman sem einni sendingu, ... . Með hliðsjón af framangreindu telur stefndi engan veginn hægt að líta svo á að sérstakur „pökkunarsamningur“ hafi stofnast með aðilum samhliða samningi aðila um að stefndi tæki að sér flutning viðkomandi vara [sic.]. Plöstunin var einfaldlega liður í umræddri sendingu. Stefndi bendir hér jafnfram á að aldrei var samið um sérstaka þóknun til handa stefnda fyrir umrædda plöstun, en slíkt styður ótvírætt að ekki hafi stofnast samningur um sérstakt viðbótarverk, þ.e. pökkun, milli aðila.
Stefndi byggir einnig á því að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu ekki uppfyllt. Starfsmenn hans hafi ekki hegðað sér á neinn hátt svo saknæmt geti talist gagnvart stefnanda.
Þá vísar stefndi til þess að ósannað sé að meðferð hans á umræddri sendingu hafi valdið fjártjóni stefnanda sem stefndi beri ábyrgð á. Bótakrafa stefnda verði rakin til einhliða ákvörðunar sænska félagsins Medronic um að umræddar vörur hefðu eyðilagst sökum þess að pappakassar utan um þær hefðu orðið fyrir hnjaski. Hins vegar liggi ekki fyrir matsgerð eða viðlíka sönnun í þá veru og verði stefnandi að bera hallann af því.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að sérstakir skilmálar hafi gilt um ábyrgð stefnda í viðskiptum aðila er takmarki ábyrgð stefnda. Ábyrgðarskilmálar kveði á um að ábyrgð flytjanda takmarkist við u.þ.b. 20 USD fyrir hvert kíló. Fyrir liggi að umrædd sending var 10,88 kíló. Ætlaðar skaðabætur úr hendi stefnda til stefnanda geti því ekki numið meira en 217,20 USD.
Þrautavarakröfu byggir stefndi á því að stefnandi verði að sæta sakarskiptingu vegna eigin sakar „meðal annars með vísun til þess að pöntunarbeiðnin, eins og hún var fram sett, hafi hún á annað borð verið sett fram, var í engu samræmi við eðli og þær kröfur sem gera þurfti til viðkomandi sendingar“. Þá er jafnframt byggt á því að stefnandi hafi ekki gert fullnægjandi reka að því að takmarka tjón sitt, svo sem með því að leysa til sín hlutaðeigandi vörur og koma þeim sjálfur í umferð.
Kristján Zophoníasson, framkvæmdastjóri stefnanda, gaf símleiðis skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að starfsemi stefnanda væri fólgin í innflutningi á lækningavörum til landsins. Stefnandi hafi haft viðskipti við TNT frá því um vorið 1999 og haft viðskipti við TNT síðan. Samskipti stefnanda við TNT væru mjög góð.
Kristján sagði að algengt væri að samið væri um skilarétt í viðskiptum með lækningavörur. Stöðugt væri verið að senda þær fram og til baka. Stentgrafts væri vara, sem höfð væri á lager hjá stefnanda, til að bregðast við óvæntum atvikum. Vissar stærðir af stentgrafts kynnu að liggja ónotaðar á lager hjá stefnanda svo árum skipti. Þegar líftíma vörunnar væri að ljúka, væri hún send af landi brott til afnota í fjölmennara umhverfi, svo að hún kæmi að notum.
Spurt var, hvers vegna þörf hefði verið á því að biðja stefnda um pakkningu á stentgrafts í því tilviki sem hér um ræðir. Kristján sagði að stefnandi og Metronic hefðu samið um að stefnandi ætti með Landspítalanum stóran lager af stentgrafts. Um væri að ræða þjónustu sem Metronic veitti út um allan heim. Sjúkrahúsið hefði hent upprunalegri flutningspakkningu utan af þessum stentgrafts. Þegar efnið fór að nálgast fyrningu, sex mánuði í fyrningu, þá hafi verið ákveðið að senda það út. Pakkningarnar hefðu þá ekki verið lengur til. Stefnandi hefði þá orðið að leita úrræða til að koma efninu úr landi án þess að það yrði fyrir hnjaski. Hafi þá verið skoðað hvort TNT veitti þá þjónustu að pakka inn vörum til útflutnings. Af hálfu TNT hafi því verið játað og hafi það verið ástæða þess að stefnandi bað um það, en ekki væri óalgengt að flutningafyrirtæki tækju að sér að pakka vörum.
Kristján kvaðst hafa haft samband við tryggingafélag vegna tjónsins sem hér um ræðir. Af hálfu tryggingafélagsins hafi málið verið vandlega skoðað. Niðurstaðan var að frágangi pökkunar á vörunni hefði verið ábótavant og næði tryggingin því ekki til tjónsins samkvæmt skilmálum.
Vísað var til dskj. nr. 8, sem er tölvupóstur frá forsvarsmönnum Metronic til Kristjáns. Bent var á að þar væri verið að upplýsa hann um sértækar kröfur um umbúðir á umræddri sendingu og spurt var, hvort honum hefðu verið ljósar þessar sértæku kröfur. Kristján sagði að hann hefði áður vitað um þessar kröfur á umbúðum vörunnar.
Spurt var hvers vegna stefnandi hefði eingöngu farið fram á að sendingin yrði „plöstuð“. Kristján sagði að ekki hefði eingöngu verið farið fram á það. Það eina sem stefnandi hefði farið fram á hefði verið að vörunni væri pakkað þannig að hún kæmist heil á áfangastað. Hefði hún verið „plöstuð“ hefði það dugað, því þá hefði bleyta ekki komist að henni. Vel gæti verið að flutningsaðilar hefðu fyrir misskilning ætlað að „plöstun“ væri nægileg en þeir hafi vitað það jafnvel og hann að stundum væri ekki nægilegt að „plasta vöru“. Varan þyrfti að vera í hörðum „kartonpakkningum“. Best hefði verið að setja kassa utan um kassann sem varan var í.
Vísað var til þess að í verkbeiðni (dskj. nr. 3) hafi ekki neitt verið ritað undir fyrirsögninni Special Deliver Instructions. Kristján sagði að þegar svona vara væri send til útlanda þá fyllti starfsmaður flutningsaðilans út blaðið þegar hann kæmi að sækja vöruna. Í þessu tilfelli hafi hann og Árni staðið hvor sínum megin við drenginn meðan hann var að fylla þetta út. Hvers vegna ekkert var skráð undir fyrirsögninni Special Deliver Instructions geti hann ekki sagt neitt um. Hann kvaðst heldur ekki vita ástæðuna fyrir því að verðmæti vörunnar í verkbeiðninni er skráð 40.000 kr.
Vísað var til þess að þegar sendingin var sótt til stefnanda í sendibíl hefði legið fyrir að pappakassarnir, sem eru utan um lækningaumbúðirnar, voru algjörlega óvarðir þrátt fyrir að þeir gátu klárlega blotnað og beyglast í flutningi með sendibílnum og spurt var, hvers vegna kassarnir hefðu verið óvarðir þegar þeir fóru frá stefnanda. Kristján sagði að beðið hefði verið um að flutningafyrirtækið pakkaði vörunni. Samið hefði verið við flutningsfyrirtækið að varan kæmi til stefnanda frá dyrum til dyra. Varan kæmi inn á gólf til stefnanda. Í þessu tilfelli hefði sjálfsagt verið reiknað með að varan yrði sótt frá dyrum til dyra og pakkað frá dyrum til dyra.
Agnar Þorláksson, vörustjóri böggla hjá TNT og deildarstjóri, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann var spurður hvort hann gæti staðfest að af hálfu stefnandi hafi TNT verið beðið um að „plasta“ tiltekna sendingu, sem hér um ræðir og hann kannist við, og hvort hann gæti staðfest að hafa vitað af þessum ætluðu fyrirmælum um „plöstun“. Agnar neitaði því og sagði að TNT væri ekki pökkunarfyrirtæki og tæki ekki að sér að pakka vörum fyrir aðra og hefði aldrei gert. Kvaðst hann hafa starfað við þetta í fimmtán ár og aldrei tekið að sér að pakka vörum. Þá kvaðst hann hafa farið sérstaklega yfir skráningu á því þegar varan var sótt, en þá væru gerðar athugsemdir væru einhverjar óskir um vöruna. Fram hefði komið að það hefði ekki verið gert í þeirri skráningu.
Hann sagði m.a. að hann hefði síðar skoðað myndir af umræddum kössunum sem fluttir voru fyrir stefnanda. Um hafi verið að ræða hefðbundna sendingu sem TNT taki að sér daglega að merkja og flytja.
Lagt var fyrir Agnar dskj. nr. 3, sem áður er getið. Agnar sagði að verkbeiðnin hefði ekki verið fyllt út af starfsmönnum TNT. Þarna væri um að ræða „partnershipprógram“ sem stefnandi væri með í tölvukerfinu hjá sér og fylli út og láti fylgja sendingu eða þá að TNT hafi forprentað [eyðublöð] og sent til stefnanda. Allar upplýsingar á verkbeiðninni hefðu komið frá stefnanda. Agnar benti á að flutningabílstjórinn hefði ekki kvittað fyrir móttöku samkvæmt skjalinu.
Ótthar Edvardsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði verið þjónustustjóri hjá TNT. Starfið hefði falið í sér þjónustu við þá viðskiptavini sem höfðu samband við fyrirtækið, aðallega símleiðis. Hann hafi verið staðsettur á öðrum stað en þjónustumiðstöðin, pósthúsið.
Lagt var fyrir Ótthar dskj. nr. 6, sem er tölvupóstur milli Árna Hauks Árnasonar og Ótthars. Hann kvaðst kannast við að hafa gefið þær yfirlýsingar er þar er getið að hann hafi látið frá sér fara.
Ótthar sagði að ástæðan fyrir því að hann skrifaði umrætt bréf hafi verið að Árni hefði haft símsamband við hann og sagt honum að endursending hefði skemmst í flutningum sökum þess að „plöstun“ á vörunni, sem Árni vildi meina að hann hefði beðið um, hefði verið vanrækt. Ótthar kvaðst þó ekki hafa heyrt neitt um það. Árni hefði beðið hann um að skýra birgjunum úti frá því, hvernig hefði staðið á því, og hafi hann orðið við því. Hann hafi þó ekki litið á það sem yfirlýsingu um ábyrgð gagnvart stefnanda. Raunar hefði hann einungis verið að aðstoða Árna í samskiptum Árna við birgjana úti. Hann geti ekki staðfest að umrædd beiðni um „plöstun“ á vörunni hefði borist stefnda eða TNT frá stefnanda.
Árni Haukur Árnason gaf skýrslu símleiðis fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann starfaði hjá stefnanda sem lagerstjóri og umsjónamaður um allt lagerhald. Á þeim tíma sem hann hefði starfað hjá stefnanda hafi umrætt tilvik verið eina skiptið sem stefnandi hefði beðið um pökkun á vöru fyrir félagið. Umræddar vörur hefðu verið á lager á Landspítalanum. Starfsmenn spítalans hefðu hent upprunalegum umbúðum. Leitað hefði verið til TNT um hvort fyrirtækið gæti séð um að pakka þessum vörum fyrir stefnanda og koma þeim úr landi. Forsvarsmenn TNT hefðu fallist á það.
Árni Haukur kvað stefnanda ekki hafa sett fram ákveðna kröfu um pökkun, en tekið hefði verið fram, að um viðkvæma og dýra vöru væri að ræða og þörf væri á að pakka henni inn á þann hátt að hún kæmi heil til skila. Árni Haukur kvaðst hafa talað við Ótthar hjá TNT í þessu sambandi.
Ályktunarorð:
Stefndi byggir kröfu um sína um sýknu í fyrsta lagi á því að skaðabótakrafa stefnanda sé fyrnd. Er þar vísað til 46. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sbr. 3. gr. laga nr. 136/2002, en þar segir, að skylda til greiðslu skaðabóta falli niður sé þeirra ekki krafist innan sex mánaða frá því að viðkomandi póstsending var afhent til flutnings.
Ráðið verður af dagsetningu umræddrar verkbeiðni, dskj. nr. 3, og framburði Kristjáns, framkvæmdastjóra stefnanda, að póstsendingin hafi verið afhent starfsmanni í þjónustu stefnda til flutnings, hinn 17. september 2004. Með bréfi, dags. 30. júní 2006, er stefndi, Íslandspóstur hf., hins vegar fyrst krafinn um skaðabætur samkvæmt gögnum málsins. Þegar af þessari ástæðu verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði segir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Íslandspóstur hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Inter Medica ehf.
Stefnandi greiði stefnda 340.000 krónur í málskostnað.