Hæstiréttur íslands
Mál nr. 278/2001
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Greiðsludráttur
- Riftun
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2002. |
|
Nr. 278/2001. |
A. Jörgensen ehf. (Pétur Þór Sigurðsson hrl.) gegn SJ sf. Sigurði H. Jóhannessyni og Jóhannesi Sigurðssyni (Sigurmar K. Albertsson hrl.) |
Fasteignakaup. Greiðsludráttur. Riftun. Kröfugerð.
SJ sf. seldi A ehf. eignarhluta í fasteign ásamt rekstri og búnaði knattborðsstofu, sem rekin var í húsnæðinu. Kaupverð var 23.600.000 krónur og skyldi það annars vegar greitt með 7.556.407 króna útborgun í formi afhendingar á fimm tilgreindum bifreiðum og hins vegar með yfirtöku tveggja áhvílandi veðskulda samtals að fjárhæð 16.043.593 krónur. Nálægt þriðjung vantaði upp á að A ehf. hefði staðið SJ sf. skil á umsömdu verðmæti bifreiðanna og þar með umsaminni útborgun samkvæmt kaupsamningi aðila. Með hliðsjón af atvikum málsins og því að ákvæði kaupsamningsins varðandi bifreiðarnar þóttu bersýnilega miða að því að þær yrðu þegar eftir afhendingu söluhæfar í hendi SJ sf., var talið að félaginu hefði verið rétt að rifta kaupum aðila vegna verulegrar vanefndar A ehf. og var á það fallist með SJ sf., S og J, að riftun umrædds kaupsamnings hefði farið fram. Hluti kröfugerðar A ehf. var ekki tækur til efnisdóms þar sem ekki var að því leyti fullnægt meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð, sbr. d. lið 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2001. Hann krefst þess aðallega að stefnda SJ sf. verði gert að afhenda sér 2. hæð hússins nr. 10 við Trönuhraun í Hafnarfirði ásamt rekstri og öllum búnaði Billiardstofunnar og gefa út afsal til sín, allt í samræmi við kaupsamning áfrýjanda við SJ sf. 24. mars 2000. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér skaðabætur vegna afhendingardráttar að fjárhæð 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum af 250.000 krónum frá 1. júní 2000 til 1. júlí sama árs, af 500.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama árs, af 750.000 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, en af 1.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi skaðabóta að fjárhæð 250.000 krónur fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir 1. október 2000 þar til hið selda hefur verið afhent, auk dráttarvaxta af þeim fjárhæðum frá hverjum mánaðamótum til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til greiða sér 7.556.407 krónur með dráttarvöxtum frá 24. mars 2000 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi vísar varðandi fjárhæð kröfu til atvika, sem síðar kunna að koma fram, með því að krefjast 250.000 króna í bætur vegna afhendingardráttar fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir 1. október 2000 þar til afhending hins selda hefur farið fram. Kröfugerð hans fullnægir að þessu leyti ekki meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og er þannig andstæð d. lið 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa hans um bætur vegna afhendingardráttar eftir 1. október 2000 er vegna þessa annmarka ekki tæk til efnisdóms.
II.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi seldi stefndi SJ sf. áfrýjanda með kaupsamningi 24. mars 2000 eignarhluta í fasteigninni Trönuhrauni 10 í Hafnarfirði ásamt rekstri og búnaði knattborðsstofu, sem rekin var í húsnæðinu. Greinir aðila á um hvort vanefndir áfrýjanda á greiðslu kaupverðsins hafi heimilað stefnda SJ sf. riftun á kaupunum. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi eignin afhent 1. apríl 2000, en afsal gefið út 3. sama mánaðar. Kaupverð var 23.600.000 krónur og skyldi það annars vegar greitt með 7.556.407 króna útborgun í formi afhendingar á fimm tilgreindum bifreiðum og hins vegar með yfirtöku tveggja áhvílandi veðskulda samtals að fjárhæð 16.043.593 krónur. Bifreiðarnar fimm átti að afhenda nýskoðaðar og skyldi ástandsskoðun Frumherja hf. fylgja þeim. Afsöl, veðbókarvottorð og útskrift á áhvílandi lánum fyrir hverja bifreið skyldi liggja fyrir við útgáfu afsals.
Í kaupsamningnum var andvirði bifreiðanna fimm, sem afhentar skyldu sem útborgun, ekki sundurliðað. Það var hins vegar gert í kauptilboði áfrýjanda 17. mars 2000, sem stefndi SJ sf. samþykkti samdægurs, en á því var kaupsamningurinn reistur. Í tilboðinu var tilgreint varðandi hverja bifreið verðmæti hennar, þær skuldir er á henni skyldu hvíla og andvirði hennar að frádregnum áhvílandi skuldum. Samkvæmt því var matsverð bifreiðanna samtals 12.900.000 krónur, áhvílandi skuldir samtals 5.300.000 krónur og útborgun því 7.600.000 krónur.
Ekki er ágreiningur um að áfrýjandi afhenti stefnda SJ sf. bifreiðarnar fimm fyrir 1. apríl 2000. Stefndu telja hins vegar að svo verulega hafi skort á að framangreindum ákvæðum kaupsamnings og tilboðs varðandi ástand bifreiðanna og vottun þess, afsöl fyrir þeim og fjárhæð áhvílandi skulda hafi verið fullnægt að riftun kaupsamningsins hafi verið heimil.
Fyrir héraðsdómi héldu stefndu því fram að það væri vanefnd af hálfu áfrýjanda að fjórar bifreiðanna voru fyrir afhendingu í eigu annarra en hans. Frá þessari málsástæðu hafa stefndu fallið fyrir Hæstarétti. Afsöl vegna þriggja af bifreiðunum voru gefin út fyrir 1. apríl 2000, en afsöl vegna tveggja þeirra voru dagsett 10. þess mánaðar.
Samkvæmt kaupsamningnum skyldi afhenda bifreiðarnar nýskoðaðar og skýrslur frá Frumherja hf. um ástand þeirra fylgja þeim. Meðal gagna málsins eru ástandsskoðunarskýrslur frá Frumherja hf. vegna tveggja bifreiðanna dagsettar 28. febrúar 2000, þar sem fram koma allnokkrar athugasemdir um ástand þeirra. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að stefnda SJ sf. hafi verið afhentar slíkar skýrslur varðandi hinar bifreiðarnar þrjár, en þó liggur fyrir í málinu yfirlýsing frá PSS bifreiðaþjónustu 28. apríl 2000 þess efnis að skoðunarskýrsla frá Frumherja hf. um tvær þeirra hafi fylgt bifreiðunum þegar þær komu á verkstæðið til lagfæringar vegna athugasemda, sem þar komu fram. Þá gerði stefndi athugasemdir varðandi ýmis atriði er hann taldi bifreiðunum áfátt með símbréfi, sem Örn Héðinsson, einn af forsvarsmönnum áfrýjanda, staðfesti í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hafa veitt viðtöku 2. eða 4. apríl 2000. Eru athugasemdirnar í þrem til átta liðum um hverja bifreið og eru þær flestar, en þó ekki allar, smávægilegar.
Í málinu liggja fyrir gögn um stöðu áhvílandi skulda á bifreiðunum. Miðast þau við byrjun apríl 2000 varðandi tvær þeirra en fyrri hluta maí sama árs varðandi hinar þrjár. Samkvæmt þessum gögnum námu áhvílandi skuldir samtals 7.666.786 krónum eða 2.366.786 krónum umfram það, sem um hafði verið samið milli aðila í áðurgreindu tilboði og kaupsamningi.
Samkvæmt framansögðu vantaði nálægt þriðjung upp á að áfrýjandi hafi staðið stefnda SJ sf. skil á umsömdu verðmæti bifreiðanna að frádregnum áhvílandi skuldum og þar með umsaminni útborgun samkvæmt kaupsamningi aðila. Við mat á því hvort þessi vanefnd teljist veruleg verður að hafa í huga að umræddar bifreiðar voru eina greiðsla stefnda fyrir hina seldu eign fyrir utan yfirtöku áhvílandi veðskulda, sem og að þessi greiðsla skyldi innt af hendi í einu lagi samtímis útgáfu afsals fyrir hinni seldu eign. Þá ber að líta til þess að ekki lágu fyrir umsamdar ástandsskýrslur varðandi þrjár bifreiðanna og stefndi gerði samkvæmt framansögðu ýmsar athugasemdir um ástand þeirra. Þetta allt leiddi til þess að stefndi gat ekki fénýtt sér bifreiðarnar án tafar eftir afhendingu þeirra, en framangreind ákvæði kaupsamnings aðila varðandi bifreiðarnar miðuðu bersýnilega að því að þær yrðu þegar eftir afhendingu söluhæfar í hendi stefnda SJ sf., enda var ekki samið um útborgun peninga í viðskiptum aðila. Þegar framangreind atriði eru virt í heild verður að telja að stefnda SJ sf. hafi verið rétt að rifta kaupum aðila vegna verulegrar vanefndar áfrýjanda.
Aðila greinir á um hvenær stefndi SJ sf. hafi lýst yfir riftun á kaupsamningnum. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi sendi SJ sf. yfirlýsingu 7. apríl 2000 um að kaupunum yrði rift 11. þess mánaðar ef áfrýjandi hefði þá ekki uppfyllt ákvæði kaupsamningsins. Ekki er ágreiningur um að yfirlýsing þessi barst forráðamönnum áfrýjanda. Stefndu halda því fram að þegar þessi frestur hafi liðið án athafna af hálfu áfrýjanda hafi kaupunum verið rift með símtali fasteignasala þess, sem milligöngu hafði við kaupin. Fyrir héraðsdómi bar fasteignasalinn að hann hafi að beiðni forráðamanna stefndu SJ sf. hringt í Agnar Agnarsson, sem kom fram við kaupin af hálfu áfrýjanda, og tilkynnt honum að seljendur væru ákveðnir í að rifta kaupunum. Fasteignasalinn gat ekki sagt hvaða dag þetta hafi gerst. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kannaðist Agnar við að hafa átt slíkt símtal við fasteignasalann og komið skilaboðum um efni þess til foráðamanna áfrýjanda, en kvaðst ekki muna hvaða dag það hafi verið. Verður á grundvelli þessa að telja sannað að yfirlýsing um riftun hafi borist áfrýjanda og að það hafi gerst 11. apríl 2000 eða næstu daga þar á eftir.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á með stefndu að riftun kaupsamnings stefnda SJ sf. og áfrýjanda 24. mars 2000 hafi farið fram. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.
Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, A. Jörgensen ehf., greiði stefndu SJ sf., Sigurði H. Jóhannessyni og Jóhannesi Sigurðssyni, samtals 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 20. þ.m. er höfðað með stefnu birtri 18. september 2000.
Stefnandi er A. Jörgensen ehf. kt. 571285-0379, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefndu eru Sigurður H. Jóhannesson, kt. 100370-4259, Jakaseli 10, Reykjavík og Jóhannes Sigurðsson, kt. 230133-2399, Reyrengi 26, Reykjavík báðir persónulega og f.h. SJ sf., kt. 450382-0279, Jakaseli 10, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að hinu stefnda félagi SJ sf. verði gert að afhenda stefnanda 2. hæð hússins nr. 10 við Trönuhraun í Hafnarfirði, ásamt öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber ásamt rekstri og öllum búnaði Billiardstofunnar, og gefa út afsal til stefnanda allt í samræmi við kaupsamning dagsettan 24. mars 2000 milli stefnda SJ sf. og stefnanda.
Þá er jafnframt krafist skaðabóta af öllum stefndu vegna afhendingardráttar 1.000.000 króna auk dráttarvaxta af 250.000 krónum frá 1. júní 2000 til 1. júlí 2000, en af 500.000 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2000, en af 750.000 krónum frá þeim degi til 1. september 2000 en af 1.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags, þannig að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn hinn 1. júní 2001. Þá er krafist 250.000 króna á mánuði fyrir hvern mánuð eftir 1. október 2000 þar til afhending hefur átt sér stað á hinu selda auk dráttarvaxta af þeim fjárhæðum frá hverjum mánaðamótum til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi í aðalsök þá kröfu, að stefndu verði gert að greiða stefnanda 7.556.407 krónur auk dráttarvaxta frá 24. mars 2000.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu.
Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum og án tillits til úrslita máls er krafist málskostnaðar stefndu til handa, úr hendi stefnanda, að skaðlausu að mati dómsins.
Með gagnstefnu birtri 13. október 2000 höfðuðu stefndu í aðalsök gagnsök á hendur stefnanda.
Dómkröfur stefnenda í gagnsök eru þær að gagnstefndi verði dæmdur til að þola riftun á kaupsamningi milli aðila sem framkvæmd var þann 11. apríl 2000. Jafnframt að stefnda í gagnsök verði gert að afturkalla þinglýsingu kaupsamnings dagsetts 24. mars 2000 á eignina Trönuhraun 10 í Hafnarfirði, ehl. 02.01., að stefnda í gagnsök verði gert að veita viðtöku bifreiðunum SZ-339, IM-886, AY-369, MV-347 og YR-350 gegn greiðslu kostnaðar af geymslu og varðveislu þeirra. Loks er gerð krafa um að stefndi í gagnsök verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda í gagnsök eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda að skaðlausu að mati dómsins.
Hinn 17. mars 2000 gerði stefnandi stefndu tilboð í 441,2 fm. iðnaðarhúsnæði á efri hæð hússins að Trönuhrauni 10 í Hafnarfirði ásamt rekstri og öllum búnaði Billiardstofunnar sem rekin var í húsnæðinu. Samkvæmt tilboðinu var kaupverðið 23.600.000 krónur og skyldi greiðast með afhendingu 5 bifreiða að nettóverðmæti 7.600.000 krónur og með yfirtöku áhvílandi skulda á eigninni að fjárhæð 16.000.000 króna.
Tilboði þessu var tekið samdægurs af stefnendum án fyrirvara.
Hinn 24. mars 2000 var undirritaður kaupsamningur milli aðila og samkvæmt honum voru yfirteknar skuldir 16.043.593 krónur og matsverð bifreiðanna 7.556.407 krónur, eða samtals 23.600.000 krónur. Afhending hins selda skyldi vera hinn l. apríl 2000 og afsal skyldi gefa út hinn 3. apríl 2000. Bifreiðar þær sem stefnandi skyldi afhenda sem greiðslu í viðskiptum aðila voru verðlagðar af stefnanda á 12.856.407 krónur en þeim skyldu fylgja áhvílandi veðskuldir að fjárhæð 5.300.000 krónur sem stefndu áttu að yfirtaka.
Þann 21. mars 2000 var stefndu afhent bifreiðin SZ-339. Var bifreiðin eign stefnanda, en áhvílandi veðskuldir voru nokkru hærri en um hafði verið samið. Stefndu tóku við bifreiðinni en gerðu athugasemdir við ástand bifreiðanna eða nánar tiltekið skort á ýmsum aukahlutum og afhentu lista um það sem þeir töldu áfátt og lagður hefur verið fram í máli þessu. Kveðast stefndu hafa gengið út frá því að stefnandi myndi lagfæra það áður en viðskiptum aðila yrði lokið.
Aðrir bílar stefnanda voru svo afhentir stefndu einn af öðrum fram í lok mars. Skömmu fyrir mánaðamótin mars/apríl voru stefndu síðan afhent sölugögn vegna bifreiðanna MV-347 og YR-350, en sölugögn vegna bifreiðanna IM-886 og AY-369 voru ekki afhent stefndu fyrr en eftir 8. apríl 2000 en þann dag eru þau dagsett. Stefnandi var einungis eigandi einnar af bifreiðum þeim sem getið var í kaupsamningi þ.e.a.s. SZ-339. Voru bifreiðarnar í eigu aðila sem stefndu kveðast hvorki hafa þekkt né vitað nokkur deili á. Sölugögn hafi ekki borið með sér umboð stefnanda til að nota bifreiðarnar í viðskiptunum. Telja stefndu að ráð hafi verið fyrir því gert að stefnandi ætti sjálfur þær bifreiðar sem nota átti í viðskiptunum og gengið hafi verið út frá því í kaupsamningi aðila. Gerðu stefndu þegar athugasemd við þetta og kröfðust úrbóta af hálfu stefnanda. Því er einnig haldið fram að ástand bifreiðanna hafi verið langt frá því að vera í lagi. Tóku stefndu saman áðurnefndan lista með athugasemdum um ástand bifreiðanna og sendu stefnanda 2. apríl 2000. Þá hafi stefndu orðið þess áskynja eftir að hafa veitt bifreiðunum móttöku að ein þeirra, bifreiðin IM-886, hafi verið tjónabifreið sem hefði sjáanlega lent í miklu tjóni og því verið talsvert verðminni er ráð var fyrir gert.
Þá voru skuldir sem hvíldu á bifreiðunum hærri en miðað var við í kauptilboði stefnanda og byggt er á í kaupsamningi. Áhvílandi skuldir voru þannig í heild á þessum tíma um 2,3 milljónum króna hærri að sögn stefndu en ráðgert var. Gerðu stefndu athugasemdir vegna þessa.
Stefnandi var boðaður til vörutalningar á lager stefndu þann 28. mars 2000 og fór sú vörutalning fram þann 30. mars 2000. Af hálfu stefnanda var ekki mætt við vörutalningu þess. Ekki er deilt um það að húsnæði stefndu hafi verið tilbúið til afhendingar á afhendingardegi en í framburði vitnisins Arnar Héðinssonar er því haldið fram að samkomulag hefði verið um að afhending færi fram síðar svo og að stefnendur hefðu lengri tíma til að ganga frá lánum sem þeir yfirtóku vegna þess að tímafrekara reyndist en ráð hefði verið gert fyrir að ganga frá gögnum vegna skulda á bifreiðum og afsölum þeirra og enn fremur að lán í Landsbanka Íslands sem stefnandi átti að yfirtaka varð ekki yfirtekið með sömu kjörum. Ekki var mætt af hálfu stefnanda til fundar sem halda átti til frágangs kaupum á fasteignasölu þeirri er gekk frá skjölum vegna kaupanna. Stefndu kveða viðtökudrátt stefnanda hafa leitt til þess að stefndu hafi orðið að opna reksturinn á ný þann 2. apríl, enda ljóst að umtalsverðir hagsmunir hafi verið fólgnir í því fyrir alla aðila að rekstur í húsnæðinu héldist áfram.
Í byrjun apríl 2000 var staða veðskulda á bifreiðum óbreytt og gögn varðandi skuldskeytingu þeirra ekki komin fram, stefnandi hafði ekkert hafst að í því skyni að lagfæra ástand bifreiðanna og ekki var komið til móts við stefndu vegna minnkaðs verðgildis bifreiðarinnar IM-886. Þá höfðu stefndu, á þessum tíma, ekki verið afhent sölugögn vegna bifreiðanna IM886 og AY-369, og ekki voru fyrirliggjandi umboð frá eigendum bifreiðanna. Enn fremur hafði ekki verið gengið frá yfirtöku áhvílandi skulda á hinni seldu fasteign.
Með því að stefndu töldu um að ræða vanefndir hjá stefnanda var send tilkynning um riftun þann 7. apríl 2000. Ekki er ágreiningur um að tilkynning þessi barst stefnendum. Yfirlýsingin hljóðar svo:
“Með vísan til Kaupsamnings um Trönuhraun 10 og Billiardstofu Hafnarfjarðar, undirritaðan 24.03. ´00 gerir seljandi SJ sf kt: 450382-0279 hér með kunnugt að ef kaupandi, A. Jörgensen kt: 571285-0379, hefur ekki uppfyllt samningsákvæði fyrir þann 11.04 ´00 mun kaupsamningnum rift.”
Að liðnum fresti tilkynnti vitnið Ægir Breiðfjörð, löggiltur fasteignasali, Agnari Agnarssyni, sem komið hafði fram fyrir stefnanda við kaupin ásamt vitninu Erni Héðinssyni, að stefndu riftu kaupunum. Vitnið Agnar Agnarsson bar fyrir dómi að Ægir hefði tilkynnt honum þetta.
Þegar eftir að kaupsamningi var rift var stefnanda gefinn kostur á að nálgast þær bifreiðar sem afhentar höfðu verið. Stefnandi veitti bifreiðum þessum ekki viðtöku þrátt fyrir ítrekuð tilmæli og áskoranir.
Stefnandi hafði engin samskipti við stefndu frá fyrrnefndum degi, 11. apríl, þar til á fundi með stefnanda þann 19. apríl til að fara yfir uppgjör milli aðila. Á þeim fundi, sem haldinn var á fasteignasölunni Borgum, kom í ljós að stefnandi hafði þinglýst kaupsamningi sínum á eignina þann 18. apríl. Kveðast stefndu hafa gert athugasemdir við þetta og krafist aflýsingar en án árangurs. Jafnframt hafi stefnendur hafnað riftuninni og gert kröfu um efndir in natura. Þá lögðu stefndu fram á fundi þessum eyðublað vegna skuldskeytingar þeirra veðskulda sem þeir áttu að yfirtaka þann 1. apríl 2000 samkvæmt kaupsamningi. Þau gögn bera ekki með sér að samþykki viðkomandi lánastofnunar lægi fyrir vegna skuldskeytingarinnar. Stefndu höfnuðu alfarið umleitunum stefnanda um skuldskeytingu vegna riftunarinnar.
Þann 15. maí 2000 tók gildi reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Voru breytingar á vörugjaldi að hluta til afturvirkar til 6. apríl 2000. Breytingar í kjölfar reglugerðarinnar leiddu til þess að verð á stærri bifreiðum lækkaði nokkuð. Hafði þetta áhrif til lækkunar á verðmæti þeirra bifreiða sem stefnandi hafði afhent sem greiðslu í viðskiptum aðila.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi byggir kröfu sína því að hann hafi að fullu staðið við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum frá 24. mars 2000 og því beri stefndu að efna samninginn in natura, þannig að stefnanda verði fengin umráð hins selda og að stefnda, SJ sf. verði gert að gefa út afsal fyrir eigninni.
Kröfuna um efndir in natura byggir stefnandi á lögjöfnun frá 1. mgr. 21. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup og ber einnig fyrir sig dómvenju.
Kröfu sína um skaðabætur vegna afhendingardráttar byggir stefnandi á almennum reglum kröfu- og kauparéttar og krefst andvirði leigugreiðslna vegna húsnæðis og rekstursins frá og með afhendingardegi og krefur um 250.000 krónur á mánuði auk dráttarvaxta.
Verði ekki hægt að afhenda hið selda í sama eða jafn góðu ásigkomulagi og við kaupsamningsgerð, krefst stefnandi uppbótargreiðslu (endurgreiðslu) sömu fjárhæðar og verðmæti þeirra eigna sem hann afhenti skv. kaupsamningnum, eða 7.556.407 krónur auk dráttarvaxta frá kaupsamningsdegi.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum 9., 10. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Krafan um málskostnað styðjist við 129., 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.
Stefndu byggja á því að riftun þeirra á kaupsamningi, sem framkvæmd var þann 11. apríl 2000, að undangenginni áskorun um réttar efndir sem send var þann 7. apríl 2000, sé fullkomlega lögmæt og framkvæmd stefndu að skaðlausu. Í þessu sambandi byggja stefndu á því að stefnandi hafi sjálfur vanefnt kaupsamning aðila verulega í öllum atriðum og með hegðan sinni hafi stefnandi valdið algerum trúnaðarbresti í samningaferli aðila.
Stefndu mótmæla varakröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða honum fjárhæð samsvarandi því sem stefnandi lagði til stefndu í viðskiptunum. Í fyrsta lagi liggi fyrir, verði aðalkröfu stefnanda hafnað með dómi, að riftun stefndu á kaupsamningi hafi verið lögmæt og þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af varakröfu stefnanda. Í öðru lagi liggi fyrir að stefndu hafi varðveitt bifreiðarnar, sem stefnandi hafi afhent og hafi margsinnis boðið stefnanda að taka aftur við bifreiðunum. Í þriðja lagi sé ljóst að verði fallist á riftun stefndu með dómi beri stefnandi sjálfur ábyrgð á hugsanlegri verðrýrnun bifreiðanna og á engan hátt sé hægt að gera stefndu ábyrga gagnvart stefnanda vegna hennar.
Stefndu byggja á því að athafnir stefnanda eftir riftunardag, þann 11. apríl 2000, og tilraunir hans til að bæta úr vanefndum sínum eftir að stefndu höfðu rift kaupsamningnum breyti engu um réttmæti riftunarinnar. Raunar liggi fyrir að stefnandi hafi enn ekki efnt að fullu skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og þegar af þeirri ástæðu séu engin rök til þess að taka kröfur stefnanda til greina. Tímamark það sem miða eigi við um mat á vanefndum stefnda sé tímabilið frá því að fyrstu vanefndir stefnanda koma fram til 11. apríl 2000 er kaupsamningi var rift.
Byggt sé á því að vanefndir stefnanda verði að teljast verulegar eins og málum er háttað. Skortur stefnanda á yfirtöku veðskulda sem á hinni umdeildu eign hvíldu skipti miklu máli, enda um verulegar skuldir að ræða sem stefndu hafi þurft að greiða af og halda í skilum meðan vanefndir stefnanda héldust. Þá byggja stefndu á því að vanefndir stefnanda verði einnig að teljast verulegar með hliðsjón af viðtökudrætti enda hafi stefnandi verið að kaupa fyrirtæki í rekstri og mikilvægt fyrir stefndu, ekki síður en stefnanda sjálfan, að rekstur í húsinu stöðvaðist ekki um lengri tíma. Stefnandi hafi vitað eða mátt vita að stefndu yrðu að halda rekstri áfram meðan samningurinn var ekki efndur. Að síðustu benda stefndu á að allar tafir stefnanda á afgreiðslu málsins og efndum kaupsamnings hafi getað leitt til verulegs tjóns fyrir stefndu, enda ljóst að verðmæti þeirra bifreiða sem stefnandi notaði í viðskiptunum gat minnkað eða rýrnað verulega hvenær sem var. Vanefndir stefnanda hafi leitt til þess að stefndu hafi verið ómögulegt að koma bifreiðunum í verð sem fyrst, og sé raunar ómögulegt enn þann dag í dag, sé litið til áhvílandi veðskulda á bifreiðunum, ástands þeirra og stöðu viðskiptanna í heild.
Stefndu byggja loks á því að stefnandi hafi í viðskiptunum veitt rangar upplýsingar um veigamikil atriði, t.d. stöðu veðskulda sem hvíldu á bifreiðunum og ástand þeirra. Þessar rangfærslur stefnanda, sem jafna megi við svik, leiði til þess að riftun stefndu sé lögmæt, hvernig sem öðrum þáttum málsins sé háttað. Einnig beri að taka tillit til þess að riftun hafi falið í sér litla röskun á hagsmunum stefnanda. Þá hafi stefndu ekki átt annan kost, í ljósi umfangs og eðlis vanefnda stefnanda, en að rifta. Að síðustu byggja stefndu á því að stefnandi hafi, með munnlegum hætti þann 11. apríl, samþykkt riftunina og sé bundinn af því.
Stefndu vísa til almennra reglna fjármunaréttarins, kröfuréttar, samningaréttar og meginreglna um fasteignakaup. Þá byggja þeir á ákvæðum laga nr. 39/1922 og 7/1936. Um málskostnað í málinu vísa þeir til ákvæða XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129., 130. og 131. gr. þeirra laga.
Í gagnsök byggja stefnendur á því að riftun þeirra á kaupsamningi aðila, sem fram hafi farið 11. apríl 2000 sé lögmæt og réttilega fram komin vegna verulegra vanefnda stefnda í gagnsök á ákvæðum kaupsamnings. Um nánari upptalningu á vanefndum stefnda í gagnsök og málsástæður stefnenda í gagnsök samkvæmt því er vísað til greinargerðar stefndu í aðalsök.
Stefnendur í gagnsök byggja kröfur sínar á almennum reglum fjármunaréttarins; kröfuréttar, samningaréttar og meginreglum um fasteignakaup. Þá byggir stefndi kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 39/1922 og 7/1936. Um höfðun gagnsakar byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 91/1991, einkum 28. gr. þeirra laga. Um málskostnað í málinu byggir stefndi á ákvæðum XXI. kafla sömu laga, einkum 129., 130. og 131. gr. þeirra laga.
Gagnstefndi byggir kröfu sína um sýknu á þeirri staðreynd að gagnstefnandi hafi ekki rift kaupsamningi dags. 24. mars 2000 með formlegum hætti, hvorki hinn 7. apríl 2000 né síðar. Þá er einnig á því byggt að gagnstefnandi hafi ekki haft lögmætar forsendur til að rifta framangreindum samningi hvorki þegar tilkynning dags. 7. apríl 2000 barst, né síðar. Til stuðnings framangreindu vísar gagnstefndi til almennra reglna fjármuna- og kröfuréttar og meginreglna um fasteignakaup.
Krafan um málskostnað styðst við 129., 130 . og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.
NIÐURSTAÐA
Samkvæmt kaupsamningi aðila var kaupverð eignarhluta þess að Trönuhrauni 10, sem stefndi seldi stefnanda, 23.600.000 krónur. Stefnandi skyldi greiða kaupverðið annars vegar með því að yfirtaka áhvílandi veðskuldir að fjárhæð 16.043.593 krónur og afhenda 5 bifreiðar sem metnar voru á 7.556.407 krónur í kaupunum. Samkvæmt kaupsamningi skyldu bílar skilast nýskoðaðir og þeim fylgja ástandsskoðun frá Frumherja. Þá segir í kaupsamningi um greiðslutilhögun útborgunar:
“1. Með afsali fyrir eftirtöldum bifreiðum: Kia Clarus árg. 2000, Toyota Lexus LS 400 árg. 1993, Mercedes Bens 230c árg., 1996, BMW árg. 1994 og BMW 7301 árg. 1994. Afsöl, veðbókarvottorð og útskrift á áhvílandi lánum fyrir hverja bifreið liggi fyrir við afsal.”
Samkvæmt þessu skyldu sölugögn vegna hinna fimm bifreiða liggja fyrir á afsalsdegi, þ.e. 3. apríl 2000. Svo var ekki og kemur fram í málinu að gögn vegna tveggja bifreiða voru ekki tilbúin fyrr en 18. maí 2000. Þá kemur fram á lista sem stefndu sendu stefnanda 2. apríl 2000 að stefndu töldu ástandi bifreiðanna áfátt í ýmsum efnum. Af hálfu stefnanda hafa verið lögð fram gögn sem bera það með sér að það var fyrst 18. apríl sem gögn vegna yfirtöku á áhvílandi veðskuldum á húseigninni, samtals að fjárhæð 16.043.593 krónur, voru frágengin skriflega en ekki kemur fram í gögnum málsins hvort Landsbanki Íslands sem er skuldareigandi hefði samþykkt breytingu þessa. Þá er þess að geta að fram kom í skýrslu vitnisins Arnar Héðinssonar að seljendur, þ.e. stefndu í aðalsök, lögðu áherslu á að kaupin gengju fljótt fyrir sig. Samkvæmt þessu skorti verulega á að stefnandi hefði staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt kaupsamningi aðila á afsalsdegi og er fallist á það með stefnda í aðalsök að vanefndir hans hafi verið verulegar og að skilyrði riftunar hafi verið fyrir hendi er forsvarsmaður hans sendi frá sér yfirlýsingu dagsetta 7. apríl sem gerð er grein fyrir hér að framan enda ekki sýnt fram á að samkomulag hafi orðið með aðilum um breytta afhendingu greiðslna.
Í skýrslum vitnanna Ægis Breiðfjörðs fasteignasala og Agnars Agnarssonar kom fram að hinn fyrrnefndi hafði samband við Agnar og tilkynnti honum að stefndu vildu rifta kaupsamningi. Þá kemur fram að forsvarsmönnum stefnda varð þetta kunnugt í framhaldi af samtali þessu. Af yfirlýsingu stefndu frá 7. apríl, athugasemdum sem fram höfðu komið af þeirra hálfu vegna ástands bifreiða og þeirrar staðreyndar að ekki hafði verið gengið frá gögnum vegna yfirtöku áhvílandi veðskulda máttu forsvarsmenn stefnanda gera ráð fyrir því að boðuð riftun kæmi til framkvæmda. Verður því fallist á það með stefnda að tilkynning vitnisins Ægis Breiðfjörð um að seljendur riftu kaupum sé fullnægjandi og að kaupum aðila hafi þar með verið rift. Fram kemur í gögnum málsins að stefndi bauð stefnanda að taka við bifreiðum þeim sem stefndi hafði fengið við kaupin en stefnandi hlutaðist ekki til um það.
Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu stefnda í aðalsök um sýknu en afstaða til málskostnaðarkröfu hans í aðalsök verður tekin í lok þessarar úrlausnar.
Svo sem hér að framan segir um kröfur í aðalsök og rökstuðning sýknu er sýnt fram á það að stefndu hafi rift kaupum þeim sem gerð voru með kaupsamningi dagsettum 24. mars 2000 um fasteign að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. Verður því fallist á það með stefnanda í gagnsök að riftun hafi farið fram og verður krafa gagnstefnanda, um það að gagnstefnda verði gert að þola riftun kaupsamnings og að afturkalla þinglýsingu á kaupsamningi, tekin til greina. Í gagnstefnu er þess krafist að gagnstefndu verði gert að veita viðtöku tilteknum bifreiðum gegn greiðslu kostnaðar af geymslu og varðveislu þeirra. Krafa um greiðslu kostnaðar vegna geymslu og varðveislu bifreiðanna er ekki studd gögnum sem byggt verði á um kostnað og fullnægir því ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð og verður þessum hluta kröfugerðar vísað frá dómi.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi í aðalsök og stefndi í gagnsök dæmdur til að greiða stefnendum í gagnsök og stefndu í aðalsök 350.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu í aðalsök, Sigurður H. Jóhannesson og Jóhannes Sigurðsson persónulega og f.h. SJ sf., skulu sýknir af kröfum stefnanda í aðalsök, A. Jörgensen ehf.
Stefndi í gagnsök, A Jörgensen ehf. þoli riftun kaupsamnings aðila frá 24. mars 2000 um eignarhluta stefnenda í gagnsök í fasteigninni nr. 10 við Trönuhraun í Hafnarfirði. Stefndi í gagnsök afturkalli þinglýsingu á greindum kaupsamningi.
Kröfu gagnstefnenda um greiðslu fyrir geymslu og varðveislu 5 bifreiða er vísað frá dómi.
Stefnandi í aðalsök og stefndi í gagnsök A. Jörgensen ehf. greiði stefndu í aðalsök og stefnendum í gagnsök, Sigurði H. Jóhannessyni, Jóhannesi Sigurðssyni og SJ sf., 350.000 krónur í málskostnað.