Hæstiréttur íslands
Mál nr. 565/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Brot gegn 221. gr. almennra hegningarlaga
|
|
Miðvikudaginn 8. maí 2013. |
|
Nr. 565/2012.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Ragnari Andra Hlöðverssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Brot gegn 221. gr. almennra hegningarlaga.
R var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á A sem talin var varða við 2. mgr. 218. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fyrir brot á 1. mgr. 220. gr. sömu laga. Í héraði var R sakfelldur, m.a. á grundvelli framburðar meðákærða Y hjá lögreglu, fyrir að hafa tekið A hálstaki, sparkað í eða trampað á höfði hans en sýknaður af því að hafa kýlt A í kviðinn og valdið þeim áverkum á höfði hans sem fram komu í ákæru. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að ekki væri mark takandi á skýrslu Y fyrir dómi þar sem hann féll frá fyrri framburði sínum hjá lögreglu. Vegna þess hve hættuleg sú aðferð R var að sparka í eða trampa á höfði A þar sem hann lá varnarlaus var jafnframt fallist á að verknaðurinn varðaði við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Þá var með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest að brot R yrði ekki heimfært undir 1. mgr. 220. gr. laganna heldur 1. mgr. 221. gr. þeirra þar sem R var sýknaður af ákæru að hafa valdið A tilteknum áverkum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara refsimildunar. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu brotaþola, A, verði vísað frá dómi.
Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hans.
Samkvæmt 1. lið ákæru er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás aðfaranótt 27. febrúar 2012, meðal annars með því að hafa sparkað í eða trampað á höfði brotaþola þar sem hann lá á stigapalli fjöleignarhússins við [...] í Reykjavík. Við skýrslutöku hjá lögreglu að kvöldi sama dags greindi Y, annar meðákærðu í héraði, svo frá að brotaþoli hafi verið liggjandi þegar ákærði sparkaði í höfuðið á honum og traðkaði á því. Kvaðst meðákærði hafa heyrt þegar eitthvað small í höfðinu á brotaþola. Þegar lögregla tók skýrslu af meðákærða á meðferðarheimilinu [...] 29. mars 2012 og bar undir hann þær ásakanir, sem fram höfðu komið hjá ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu, að hann væri að ljúga upp á sig kvaðst meðákærði ekki vilja breyta fyrri framburði sínum. Tók hann svo til orða við þetta tækifæri að ákærði hafi „stappað á höfðinu“ á brotaþola. Í ljósi þessa er fallist á með héraðsdómi að ekki sé mark takandi á skýrslu meðákærða fyrir dómi þar sem hann hvarf frá áðurgreindum framburði sínum hjá lögreglu. Af þeim sökum er staðfest sú niðurstaða dómsins að sakfella beri ákærða fyrir þær sakargiftir, sem að framan greinir, á grundvelli framburðar meðákærða hjá lögreglu sem styðjist við þann vitnisburð Reginu Preuss, réttarmeinafræðings, fyrir dómi að för á andliti brotaþola gætu verið eftir sóla á skóm ákærða umrætt sinn. Vegna þess hve hættuleg sú aðferð var að sparka í eða trampa á höfði brotaþola þar sem hann lá varnarlaus er jafnframt fallist á að verknaðurinn varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest að ákærði hafi gerst sekur um brot á 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga með þeirri háttsemi sem vísað er til í 2. lið ákæru.
Að teknu tilliti til 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningaralaga, sbr. 71. gr. þeirra, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er ennfremur staðfest ákvæði hans um refsingu ákærða, einkaréttarkröfu brotaþola og sakarkostnað í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ragnar Andri Hlöðversson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 303.767 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2012.
Málið, sem dómtekið var 18. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. maí 2012 á hendur „Ragnari Andra Hlöðverssyni, kennitala [...], [...], [...], Y, kennitala [...], [...], [...], og Z, kennitala [...], [...], [...].
1. Á hendur ákærða Ragnari Andra,
fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar 2012 í íbúð á [...] hæð og í stigagangi fjölbýlishússins við [...], Reykjavík, slegið A, kennitala [...], eitt högg í kviðinn inn í íbúðinni, tekið hann hálstaki og dregið hann niður tröppur í stigagangi af fjórðu hæð hússins, uns A tók að blána í framan, og hafa þá ofan við stigapall á annarri hæð, losað takið með þeim afleiðingum að A féll niður tröppurnar og hafa, þar sem hann lá á stigapallinum, sparkað í, eða trampað á, höfði hans með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega höfuðáverka, höfuðkúpubrot, blæðingu undir höfuðkúpubroti, glóðarauga á vinstra auga, auk minni áverka.
Brot ákærða Ragnars Andra telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Á hendur ákærðu öllum,
fyrir að hafa látið farast fyrir að koma manni til bjargar, með því að hafa, að framangreindri atlögu ákærða Ragnars Andra yfirstaðinni, flutt A út úr stigaganginum og yfirgefið hann ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan á gangstétt utan við húsið, án þess að koma honum til hjálpar.
Brot ákærða Ragnars Andra telst varða við 1. mgr. 220. almennra hegningarlag nr. 19/1940 og brot ákærðu Y og Z telst varða við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er gerð krafa um að ákærða Ragnari Andra Hlöðverssyni verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 27. febrúar 2012 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða Ragnari Andra verði gert að greiða A þjáningabætur að fjárhæð kr. 87.800, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 27. febrúar 2012 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að Ragnari Andra verði gert að greiða A bætur vegna kostnaðar af lögfræðiaðstoð við gerð bótakröfu og gagnaöflunar kr. 75.000, auk virðisaukaskatts að fjárhæð kr. 19.278, samtals kr. 94.878.“
Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði Ragnar Andri krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
II
Tilkynning barst lögreglunni klukkan 2:41 aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar 2012 um að meðvitundarlaus maður lægi á gangstétt við [...]. Á vettvangi sáu lögreglumenn „hvar maður lá á bakinu og sneri hann með höfuðið til vesturs og fæturnir til austurs. Hann var með meðvitund og hægri höndin lá meðfram síðu hans en vinstri höndin lá upp fyrir höfuð. Maðurinn var blóðugur í munni og á nefi. Hann var með kúlu á enninu og það kurraði í honum svo hann gat ekkert tjáð sig. Þegar sjúkraflutningamenn ætluðu að setja hann á bakbretti tók hann á móti með vinstri hendi svo hann virtist geta hreyft hana. Mikinn áfengisþef lagði frá vitum hans.“ Maðurinn var fluttur á sjúkrahús. Síðar kom í ljós að hann var brotaþoli. Lögreglumenn gátu ekki rætt við hann en teknar voru myndir af honum. Þá segir í skýrslunni að hann hafi verið með far í andlitinu, sem líktist skófari, og hafi rendur verið í andlitinu.
Á vettvangi var kona, sem kvaðst hafa komið að brotaþola og hringt í Neyðarlínuna. Hún bjó að [...] og skýrði lögreglumönnum frá því að blóð væri í innganginum inn í húsið og í stigahúsinu. Í skýrslu lögreglu er vettvangi lýst svo að þegar komið sé inn um aðaldyr hússins [...] við [...] liggi stigagangur þaðan og upp á [...] og eins liggi stigagangur niður í bílakjallara. Stigagangurinn er lagður svörtum flísum og er málmhandrið á innri hlið stigahússins í kviðhæð. Stigapallar eru með reglulegu millibili frá bílakjallaranum og upp á 4. hæð. Við aðalmeðferð gekk dómari, málflytjendur og ákærðu á vettvang og sannreyndu þessa lýsingu á staðháttum. Í skýrslunni segir að sjá hafi mátt blóðdropa milli lyftuops og póstkassa við inngang hússins. Eins hafi mátt sjá blóðdropa þegar gengið var gegnum millihurð, sem lokar af íbúðirnar á hæðunum frá innganginum. Engar frekari blóðleifar fundust ofar í stigahúsinu. Í skýrslu tæknideildar lögreglunnar segir í samantekt um leit að blóði á vettvangi að þótt „blóð hafi fundist á fyrsta stigapalli í stigaganginum og á þrepum er liggja frá honum að útgangi þá er blóðið í svo litlu magni að ekki er hægt að álykta með vissu að brotaþoli hafi hlotið áverkana þar. Auk þess sem lögun blóðdropanna er sambærileg við blóðdropa sem myndast við lóðrétt fall það er blæðingu frá þegar fengnum áverka. Engir blóðdropa fundust sambærilegir að lögun við þá sem myndast við högg.“ Í íbúð ákærða Ragnars á [...] hússins fannst ekki blóð og þar voru engin merki um átök segir í skýrslunni.
Lögreglan handtók ákærðu á vettvangi og yfirheyrði. Verður nú gerð grein fyrir því sem þeir báru við yfirheyrslur hjá lögreglu. Ákærði Ragnar kvaðst hafa verið heima hjá sér ásamt gestum þegar brotaþoli hefði komið ásamt öðrum manni. Brotaþoli hafi verið með leiðindi, tekið áfengi ófrjálsri hendi og þegar hann hafi reynt að stela hlut kvaðst ákærði hafa fengið sig fullsaddan og ákveðið að vísa honum út. Síðan segir orðrétt: „Ég var að labba með hann út eða hjálpa honum út en hann streittist á móti. Hann kippti sig síðan við sjálfur og datt niður tröppurnar. Hann var með rænu og það var hægt að tala við hann eitthvað. Ég vissi að hann væri sprautufíkill og vildi ekki hafa hann í húsinu. Ég dró hann síðan út úr húsinu og fór með hann út og talaði við hann. Hann var með rænu þegar ég skildi við hann. Það var ekki eins og hann þyrfti sjúkrabíl þegar ég fór, það virtist sem hann hafi verið að ranka við sér. Síðan fórum við upp.“ Nánar spurður um fall brotaþola kvað ákærði hann hafa slitið sig lausan þegar hann var leiddur niður tröppurnar og „hrunið niður“ eins og ákærði orðaði það. Ákærði kvað meðákærðu hafa hjálpað sér við að vísa brotaþola út. Ákærði kvaðst hafa haldið í hendi brotaþola með annarri hendinni, en með hinni hafi hann haldið í bakið á honum. Brotaþoli hefði verið hálfhrasandi alla leiðina, enda mjög drukkinn. Við yfirheyrslu síðar neitaði ákærði að hafa kýlt brotaþola í kviðinn eða tekið hann hálstaki og því síður traðkað á höfði hans. Hann ítrekaði að hann og meðákærðu hefðu verið að fylgja brotaþola út og stutt hann, en hann hefði slitið sig lausan og dottið í stiganum. Ákærða var sýnt myndband úr eftirlitsmyndavél að [...] og kvaðst hann þekkja sig á myndinni vera að draga brotaþola afturábak.
Ákærði Y kvaðst við yfirheyrslu hjá lögreglu hafa verið á heimili meðákærða Ragnars þessa nótt og þar hefði brotaþoli einnig verið. Ákærði kvað brotaþola hafa verið til vandræða og hefði meðákærði reynt að koma honum út. Síðan er haft eftir ákærða orðrétt: „Ragnar og A fara að rífast þarna inni í íbúðinni sem endar með því að Ragnar kýldi A í kviðinn. Ragnar var að reyna að fá A út og þá kom A með viðmót á móti Ragnari. Ég var í sófanum, nær svalahurðinni, þegar Ragnar kýldi A í kviðinn. A stóð beint fyrir framan mig þegar hann fékk höggið og hneig aðeins niður í framhaldi af því. Að því liðnu tók Ragnar A hálstaki með hönd um háls hans. Mér fannst þetta fulllangt gengið og það var ástæðan fyrir því að ég og Z fórum með Ragnari fram. Ragnar var með A fyrir framan sig þegar hann fór með hann fram á gang. Við fórum fram ganginn og löbbuðum niður stigaganginn. Ég tók eftir því að A blánaði nokkrum sinnum á leiðinni niður og hélt Ragnar honum í kverkataki mestan hluta af leiðinni niður. Á einum stigapallinum fékk A kast, byrjaði allur að sveiflast eins og hann væri að berjast fyrir lífinu. Svo þegar við fengum Ragnar til að losa um hálsinn á honum þá féll A niður milli stigapalla fyrir framan lyftuna á annarri hæð. A var liggjandi þar þegar sparkað var í höfuðið á honum. Ragnar sparkaði í höfuðið á honum. Hann traðkaði á höfðinu á A. Ég heyrði þegar það small eitthvað í höfðinu á honum. A var með meðvitund allan tímann. Eftir að Ragnar var búinn að traðka á hausnum á A þá hjálpuðumst ég, Z og Ragnar við að halda á A niður og út á [...], við hornið á sama húsi og við komum út úr.“ Ákærði var spurður hvort brotaþoli hefði verið með meðvitund þegar hann var skilinn eftir og hann svaraði. „Hann andaði allavega.“
Ákærði Z bar við yfirheyrslu hjá lögreglu að brotaþoli hefði verið með leiðindi í íbúðinni og meðákærði Ragnar hefði viljað fá hann út. Meðákærði hefði byrjað „að tala við hann í góðu en A var með læti og byrjaði að rífa í hillu og þá var hann tekinn hálstaki. Síðan var hann færður fram á gang og leiddur niður. Þegar við vorum á leiðinni með hann niður byrjaði hann að sparka í vegginn og vera með læti og þá datt hann fram fyrir sig. Þarna var ekkert blóð eða neitt, ekki einn einasti blóðdropi frá íbúðinni, við erum að tala um 5 hæðir og að útidyrunum, ekki einn blóðdropi. Ég snerti manninn ekki neitt nema að halda hendinni á honum fyrir aftan bak. Við settum hann svo út á [...] þar sem sæist til hans.“ Síðar í skýrslunni kvað ákærði meðákærða Ragnar hafa tekið brotaþola hálstaki, það er tekið utan um hálsinn á honum en hann hafi ekki blánað við það. Nánar útskýrði ákærði þetta þannig að meðákærði Ragnar hefði sett „aðra höndina utan um hálsinn á A og hina um bringuna á honum, svo hélt ég í hægri höndina á A og Y hélt í vinstri höndina á A. Það var enginn að meiða A, heldur bara að koma honum út.“ Síðan segir ákærði: „Við gengum ganginn frá íbúð Ragnars og þegar við komum að lyftunni og vorum að labba með manninn niður þá byrjaði hann að spyrna með báðum löppum og hrista sig til og öskra og svo bara datt hann. Hann datt ekki fram fyrir sig kylliflatur beint á kollinn, hann féll einhvern veginn á hlið. Hann var með meðvitund, hann var ekkert rotaður eða slíkt. Það blæddi ekkert úr honum við tékkuðum á því. Við lyftum honum síðan upp. Ég og Raggi héldum á honum niður og Y líka. Ég og Y héldum í hendurnar á honum, ég hélt í hægri höndina og Y í vinstri og svo hélt Raggi í lappirnar á honum. Við bárum hann þannig að maginn vísaði upp. Við lyftum honum upp og bárum hann niður. Ég hélt útihurðinni, ég fór ekki einu sinni út úr blokkinni. Ég horfði svo á Ragga og Y bera manninn út að horni og komu svo strax aftur.“ Ákærði var spurður um meðvitundarstig brotaþola og svaraði: „Hann var vankaður þannig séð, það heyrðust í honum hljóð þegar við fórum með hann niður. Það var ekkert blóð á honum eða neitt.“ Hann kvað brotaþola hafa muldrað en ekki hafi verið hægt að skilja hann. Ákærði kvað það ekki rétt að meðákærði Ragnar hafi tekið brotaþola hálstaki og hann hafi blánað. Þá kvað hann það heldur ekki rétt að meðákærði hefði traðkað á höfði hans.
Brotaþoli var fluttur á slysadeild og í vottorði Harðar Ólafssonar læknis segir að hann hafi verið meðvitundarskertur en búi til óhljóð og svari sársauka. Við fyrstu skoðun á höfði sést lítil kúla og skrapsár er á enni vinstra megin. Blóð er í kringum nef og munn en engir áverkar sjást á munni. Eftir að hafa lýst rannsóknum á brotaþola segir í vottorðinu að hann hafi verið greindur með utanbastsblæðingu, áverkainnanbastsblæðingu, brot annarra kúpu- og andlitsbeina, yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs og yfirborðsáverka á efri útlim. Eftir skoðun á deildinni var brotaþoli fluttur á gjörgæsludeild.
Á gjörgæsludeild var tekin tölvusneiðmynd af brotaþola og samkvæmt vottorði Sigurjóns Arnar Stefánssonar komu í ljós menjar um gamla aðgerð framan til hægra megin. Nýir áverkar voru sem hér segir: „Höfuðkúpubrot framan til hægra megin, brotalína teygir sig fram á við að orbita og aftur í höfuðkúpubotn. Blæðing undir höfuðkúpubroti framan til hægra megin. Subarachnoidal blæðing temporalt vinstra megin (contre coup) og subdural blóð. Sennilega örlitlar lágþéttnibreytingar temporalt í heila og contusinoir neðan til temporalt. Blóð í báðum frontal sinusum. Intracranial loftbólur vegna brota inn í frontal sinusa. Lágþéttnibreyting framarlega í lifur, hugsanlega contusion.“
Þá er meðal gagna málsins vottorð Reginu Preuss læknis um líkamlega rannsókn á brotaþola 2. mars 2012. Í upphafi segir að brotaþoli sýni varla nokkur merki um viðbrögð þegar hann sé ávarpaður en virðist þó skilja fyrirmæli. Hann geti þó aðeins fylgt þeim með aðstoð. Þá er lýst áverkum brotaþola í andliti og því slegið föstu að blæðing í kringum augun stafi af höfuðkúpubroti. Síðan segir: „Ofan við bringubein fyrir miðju var húðin gullit sem bendir til blæðingar sem er að ganga niður. Út frá tíma er unnt að sjá samhengi á milli litarins af völdum blæðingarinnar og tímans þegar áverkinn átti sér stað. Við röntgenmyndatöku greindist bólga í miðmæti (mediastinum) í brjóstholi sem passar við þessa greiningu. Enn fremur kom fram á röntgenmyndum kviðlæg (ventral) þéttleikabreyting í lifur sem gæti bent til þess að lifrin hafi marist. Ætla má að bæði þessi tilvik stafi af ytri áverkum þótt ekki sé unnt að draga af því ótvíræðar ályktanir um atburðarásina. Við ytri skoðun var ekki (lengur) unnt að greina ummerki eftir þá hluti sem ollu áverkunum. Hugsanlegt er að fatnaður hafi komið í veg fyrir sjáanleg för eftir hlutinn sem olli áverkunum. Hugsanlegar orsakir áverkans eru fall, högg eða spark.“ Þá segir í vottorðinu: „Við röntgenmyndarannsókn greindust tvær brotalínur í höfuðkúpu hægra megin og ganga þær út frá eldri skemmd á höfuðkúpu (eftir bílslys árið 2003 þegar bein var fjarlægt tímabundið við aðgerð (craniotomy) sem er u.þ.b. 4x2,5 cm að stærð. Einnig greindist hægra megin epidural blæðing við brotalínurnar. Vinstra megin á höfuðkúpunni greindist subdural og subarachnoidal blæðing og blæðing eftir mar (contusion).
Þrjár ólíkar skýringar koma til greina til að útskýra tilurð áverkanna:
1. Fyrst var sparkað í andlitið/höfuðið vinstra megin. Höggið olli subdural blæðingunni. Við fallið í kjölfar sparksins kom til subarachnoidal blæðingin, sem orsakast af því að heilinn kastast til og æðar rifna. Við fallið á harðan flöt (jörð/hlut) brotnaði höfuðkúpan og í kjölfarið átti sér stað epidural blæðing. Gamla skemmdin á höfuðkúpunni gerði að verkum að hún var viðkvæm fyrir því að brotna. Ætla má að blæðingarnar vegna marsins, þ.e. svokallaður coup contrecoup áverki, hafi orsakast þegar líkaminn skall á jörðina.
2. Maðurinn lá þegar á jörðinni en gat þó lyft höfðinu og fékk þá spark í andlitið/höfuðið vinstra megin sem leiddi til þess að höfuðið skall í jörðina. Atburðarásin hefur þá verið eins og lýst var undið lið 1 en úr minni hæð.
3. Tvíþætt atburðarás þar sem fyrst kom högg á höfuðið hægra megin sem orsakaði beinbrot og síðan kom spark í andlitið/höfuðið vinstra megin og síðan fall á harðan flöt.
Unnt er að staðfesta að beinbrotin hægra megin geta stafað af beinu eða óbeinu höggi og að epidural blæðingin sé afleiðing beinbrotanna, subdural blæðingin vinstra megin hafi einnig orsakast af ytri áverka, subarachnoidal blæðingin komi helst heim og saman við snögga hröðun höfuðsins og rifnar æðar í kjölfarið, og að kontusion blæðingarnar bendi til þess að fall höfuðsins hafi stöðvast skyndilega. Þegar höfuð er kyrrt geta ekki átt sér stað neinir coup contrecoup áverkar.
Höfuðáverkarnir voru, hver um sig, lífshættulegir. Höfuðhögg eins og hér um ræðir getur alltaf haft í för með sér að æðar rifna sem getur leitt til dauða, intracranial blæðingarnar geta aukið þrýsting á heilann, klemmt inni heilastofninn og þannig lamað öndunarstöðvarnar. Loft í sinusoid getur leitt til loftstíflu og heilablóðfalls. Til lengri tíma litið getur áverki á æð leitt til myndunar æðargúlps (aneurysma) sem jafnvel löngu síðar getur rifnað.
Það má heita svo gott sem öruggt að A hefði ekki lifað áverkana af án læknismeðferðar.“
Til viðbótar við framangreint vottorð bar læknirinn saman myndir af skópari ákærða Ragnars og mynd af brotaþola sem lögreglan tók strax eftir að hann var fluttur á sjúkrahús. Í niðurstöðu vottorðsins segir að samanburður „á máli skósólanna og áverkanna gefa til kynna að áverkarnir hafa sama form og skósólarnir þegar tekið hefur verið tillit til hreyfanleika húðarinnar og tvívíddar myndanna. Einnig koma bilin milli áverkanna heim og saman við form skósólanna. Möguleg staða, eins og sést á mynd nr. 3, væri snerting táar vinstri skósins í átt að munninum og hælsins í átt að hvirfli. Í þessari stöðu mætti rekja öll áverkasvæði til aðeins einnar snertingar með skónum. Aðrar stöðu væru örugglega einnig hugsanlegar. Þannig má telja næstum öruggt að umræddir skór komi til greina sem hluturinn sem verknaðurinn var framinn með. Gera verður ráð fyrir DNA-viðloðun á skósólunum. Við samanburð á stöðu skós og andlits má gera ráð fyrir að um aðeins eina snertingu hafi verið að ræða. Óyggjandi merki um að oftar hafi verið stigið á andlitið eru þannig ekki fyrir hendi.“
Í vottorði Elfars Úlfarssonar, heila- og taugaskurðlæknis, segir að tölvusneiðmynd af höfði brotaþola hafi sýnt höfuðkúpubrot hægra megin. Þá hafi verið blóð undir ystu heilahimnunni, utan á heilanum sem hafi þrýst á hann. Heilamar hafi sést vinstra megin í gagnaugablaði heilans og blóð í þunnu lagi undir og utan á þessum hluta heilans. Blóð hafi líka sést í báðum ennisholum. Þá er í vottorðinu gerð grein fyrir bata brotaþola og að hann hafi útskrifast af endurhæfingardeild.
Elfar gaf annað vottorð um áverka sem brotaþoli fékk í bílslysi í september 2003. Þá fékk hann 10 cm langt höfuðsár hægra megin með undirliggjandi innkýldu höfuðkúpubroti ásamt slæmu sári á hægra eyra og broti á fyrsta hálshryggjarlið. Tölvusneiðmynd af heilanum sýndi hins vegar engar blæðingar eða merki um heilaskaða. Þá kemur fram í vottorðinu að brotaþoli hafi leitað alls 8 sinnum til slysadeildar á árunum 2000 til 2005 vegna áverka á höfði fyrir utan áverkana af bílslysinu.
III
Við aðalmeðferð skýrði ákærði Ragnar Andri frá því að á heimili hans hefði verið samkvæmi í umrætt sinn. Þangað hefði komið maður sem hann þekkti ekki, en hefði komið með meðákærða Y. Maðurinn hefði verið drukkinn og dópaður og verið með leiðindi, meðal annars tekið fullan landabrúsa og þambað hann í einum teyg. Hann hefði síðan stolið ýmsum hlutum og var því ekki annað til ráða en að vísa honum út. Ákærði kvaðst hafa sett aðra hönd sína yfir öxl mannsins og hina um magann á honum og haft hann fyrir framan sig. Meðákærðu hefðu tekið hvor í sína hönd mannsins og þannig hefðu ákærðu leitt manninn út, en hann hefði verið svo drukkinn að hann hefði dottið utan í húsgögn í íbúðinni. Á leiðinni niður stigann neðarlega hefði maðurinn orðið reiður og slitið sig lausan frá ákærðu sem voru með hann í áður lýstum tökum. Þeir hefðu þá ekki náð að styðja hann lengur og hefði maðurinn dottið niður hálar marmaratröppurnar með þeim hávaða sem því fylgdi. Ákærði kvaðst hafa farið niður að líta eftir manninum sem hafi verið með meðvitund en mjög vankaður. Ákærði kvaðst hafa reynt að reisa manninn við, en hann hafi illa haldið jafnvægi. Hann hafi þó sagt við sig að hann væri að fara. Tal hans hefði verið mjög óskýrt, en það hefði einnig verið það í íbúðinni. Ákærði kvaðst hafa tekið undir hendur mannsins og dregið hann út á [...], enda kvaðst ákærði telja að hann myndi rata þaðan. Ákærði kvaðst ekki hafa talið að maðurinn væri slasaður, enda hefði hann þá komið honum til hjálpar. Hann tók fram að þetta hefði verið slys en hann hefði ekki veitt manninum áverkana. Ákærði neitaði alfarið að hafa kýlt brotaþola í kviðinn eða tekið hann hálstaki svo að hann blánaði. Hann kannaðist við að eiga skó sem myndir voru teknar af við rannsókn málsins. Þær myndir höfðu verið bornar saman við rendur á andliti brotaþola eins og að framan greinir.
Ákærði Y bar við aðalmeðferð að brotaþoli hefði komið með sér í samkvæmi hjá meðákærða Ragnari. Hann hafi verið með mikil læti heima hjá meðákærða og meðal annars verið að stela. Ákærði kvað alla ákærðu hafa sameiginlega fært hann út úr húsinu. Þegar þeir skildu við hann hefði hann legið á gangstéttinni og kvaðst hann ekki hafa vitað betur en að hann hefði getað bjargað sér sjálfur, en hann hafi þó verið vel drukkinn. Hann kvað engu ofbeldi hafa verið beitt og þegar honum var bent á framburð sinn hjá lögreglu kvaðst hann hafa verið haldinn miklum ranghugmyndum og ofskynjunum á þessum tíma vegna of mikillar neyslu fíkniefna. Framburður hans hjá lögreglu hafi þess vegna verið um það sem hann hefði haldið á þeim tíma sem hann var gefinn. Ákærði kvaðst því ekki hafa séð meðákærða Ragnar kýla brotaþola í kviðinn og heldur ekki taka hann hálstaki og draga hann fram ganginn og niður stigann. Hann kvað meðákærða heldur ekki hafa látið brotaþola detta niður á milli stigapalla og traðkað á höfði hans. Ákærði kvað brotaþola hafa verið mjög drukkinn og taldi hann hafa misstigið sig í stiganum og dottið við það en ákærðu hefðu ekki haft hendur á honum þegar það gerðist. Ákærði kvað brotaþola hafa verið færðan í tökum úr íbúðinni en kvaðst ekki geta lýst þeim nánar. Sjálfur kvaðst hann hafa haldið í hönd hans og eins hefði meðákærði Z haldið í hönd hans, en vissi ekki hvar meðákærði Ragnar hefði haldið, en taldi að hann hefði haldið lauslega í öxl hans. Ákærði kvað sig minna að meðákærði Ragnar hefði dregið brotaþola út úr húsinu og hann og meðákærði Z hefðu aðstoðað hann við það. Ákærði kvað brotaþola ekki hafa verið meðvitundarlausan þegar þeir skildu við hann en hann hefði þó ekki talað, bara bablað eitthvað. Hann hefði verið með opin augu og andað. Ákærði kvað það ekki rétt að þeir ákærðu hefðu sammælst um að búa til sögu um að brotaþoli hefði fallið af slysni.
Ákærði Z bar að hafa verið á heimili meðákærða Ragnars þegar brotaþoli hafi komið. Brotaþoli var ölvaður og til vandræða og var því vísað á dyr. Hann hefði brugðist illa við þessu og streist á móti. Ákærði kvaðst hvorki hafa séð meðákærða Ragnar slá brotaþola í kviðinn né taka hann hálstaki, en hann hefði tekið utan um hann með báðum höndum. Ákærði og meðákærði Y hefðu haldið í hendur brotaþola og þannig hefðu þeir fært hann út úr íbúðinni. Þegar þeir voru komnir eitthvað niður stigann hefði brotaþoli farið að öskra og ekki viljað fara. Eftir að komið var á annan stigapall að neðan hefði brotaþoli fallið en þangað til hefðu þeir leitt hann. Brotaþoli hefði slitið sig frá þeim áður en hann féll. Eftir það hefðu þeir borið hann út og var hann frekar vankaður en einnig mjög drukkinn. Þá hefði brotaþoli ekki viljað fara út. Þeir hefðu farið með hann út á [...] og skilið hann þar eftir liggjandi, en ákærði kvaðst ekki telja að brotaþoli hafi þá verið ósjálfbjarga. Ákærði kvað meðákærða hvorki hafa sparkað í brotaþola né traðkað á höfði hans. Ákærði var spurður um framburð sinn um að meðákærði Ragnar hefði tekið brotaþola hálstaki og kvaðst hann ekki hafa séð það en gat ekki skýrt af hverju hann hefði borið á þennan hátt hjá lögreglu. Hann neitaði þó ekki að hafa gefið skýrsluna hjá lögreglu. Ákærði kvað rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu um fall ákærða og hvernig þeir ákærðu báru hann út á eftir.
Brotaþoli kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás þessa nótt en ekki muna til að greina frá atvikum. Hann kvaðst muna óljóst eftir samkvæminu og kvað sig ráma í að sér hafi verið vísað út. Hann gat þó ekki skýrt frá því hverjir hefðu verið þar að verki. Hann kvað sig þó ráma í að hann hefði verið laminn að aftan með hlut sem hann gat ekki lýst nánar. Þá rámaði hann og í að hafa dottið í stigaganginum en kvaðst hafa verið sauðdrukkinn og muna allt mjög óljóst. Hann mundi ekki eftir hálstaki eða höggi í kviðinn, en mundi eftir höggi á höfuðið, mjög óljóst þó. Hann kvaðst hvorki muna eftir sér á gangstéttinni né eftir sjúkraflutningamönnunum.
B var í samkvæminu heima hjá ákærða Ragnari umrædda nótt. B kvaðst þekkja ákærðu og brotaþola. Brotaþoli hefði komið í samkvæmið með ákærða Y og öðrum manni. Brotaþoli hafi verið orðinn mjög ölvaður og leiðinlegur og verið beðinn um að fara en hann hafi ekki viljað það. Þegar svo brotaþoli var farinn að taka hluti og setja í vasann hafi átt að vísa honum út en hann brugðist illa við. B kvaðst ekki hafa séð ákærða Ragnar slá brotaþola í kviðinn. Hann kvaðst hafa séð ákærða Ragnar taka utan um brotaþola með báðum handleggjum og ákærði Z hefði fylgt þeim eftir, en brotaþoli hafi látið mjög illa. Ekki kvaðst hann hafa séð brotaþola tekinn hálstaki og ekki hafi verið um ofbeldi að ræða heldur var verið að vísa brotaþola út. Hann kvað ákærðu ekki hafa rætt um slys eða annað í þeim dúr þegar þeir komu til baka.
C var í samkvæminu en kvaðst ekki hafa orðið vitni að átökum í íbúðinni. Brotaþoli hefði hins vegar orðið uppvís að því að stela áfengi og verið beðinn um að fara en fór ekki. Ákærðu hefðu þá leitt hann út. Ákærði Ragnar hefði staðið fyrir aftan brotaþola og tekið utan um hann báðum höndum, en hann hefði ekki tekið hann hálstaki. Brotaþoli hefði svo verið leiddur út en ekki kvaðst C vita hvað gerðist fyrir utan íbúðina.
D var einnig í samkvæminu. Hann kvaðst þekkja ákærðu og brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við ofbeldi en brotaþoli hafi hagað sér illa og verið að stela hlutum. Ákærði Ragnar hafi vísað honum út og síðan fylgt honum út og hefðu meðákærðu farið með. Brotaþoli hefði eitthvað streist á móti og kvaðst D hafa kallað á þá að taka hann ekki hálstaki því hann hefði hálsbrotnað áður og hefði ákærði Ragnar jánkað því. D kvaðst ekki hafa séð ákærða Ragnar kýla brotaþola í kviðinn eða taka hann hálstaki. D kvaðst ekki kannast við að ákærðu hefðu rætt eitthvað saman um brotaþola eftir að þeir komu aftur. Það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu um þetta var borið undir hann og kvaðst hann þá hafa verið spurður leiðandi spurningar. Nánar spurður sagði D að þegar ákærðu komu aftur inn í íbúðina hafi þeir sagt frá því að A hefði dottið í stiganum og þetta gæti litið illa út fyrir þá, en ekki hafi verið um það að ræða að verið væri að samræma framburð. Hann tók þó fram að hann hefði verið undir miklum áhrifum eiturlyfja í þetta sinn.
E bjó að [...] á þessum tíma. Hún kvaðst hafa vaknað við hávaða um nóttina og hefði það verið eins og einhverju væri slegið utan í handrið. Hún kvaðst ekki hafa heyrt í fólki.
F bjó að [...] á þessum tíma. Hún kvaðst hafa komið heim um miðnættið og ekki orðið vör við mannaferðir eða heyrt í nokkrum manni. Hún kvaðst hafa verið vakandi og verið að læra. Milli klukkan tvö og þrjú hefði hún heyrt mikinn hávaða og vakið föður sinn sem hefði ekki viljað aðgæta hvað um væri að vera. Þetta hafi verið langt sársaukaóp og hurðarskellur. Síðan hafi hún ekki heyrt meira en hún kvað sig ráma í að hafa heyrt hávaða frá járnhandriði.
G bjó á þessum tíma að [...] og hún kom að brotaþola þar sem hann lá á gangstéttinni. Hún kvaðst hafa farið út í búð og hefði maðurinn þá ekki legið á götunni en verið þar þegar hún kom aftur um tuttugu mínútum síðar. Hún kvaðst ekki hafa heyrt hávaða eða annað í húsinu áður en hún fór út. Hún kvað brotaþola hafa verið hálfmeðvitundarlausan. Hann hafi verið með lokuð augu og ekki hafi verið hægt að tala við hann. Þá hafi hann allur verið blóðugur og hefði hún strax hringt á lögregluna.
H bjó á [...] á þessum tíma. Hann kvaðst hafa heyrt hljóð eins og verið væri að hlaupa og síðan öskur eins og einhverjir erfiðleikar eða átök hafi orðið eins og hann orðaði það. Hann kvaðst ekki hafa veitt þessu mikla eftirtekt en þetta hafi verið á milli hálfþrjú og þrjú.
Regina Preuss læknir staðfesti framangreind vottorð sín. Hún kvaðst hafa fundið rauðar rákir í andliti brotaþola vinstra megin sem voru formaðar og með sama bili á milli. Hún kvað sér hafa verið sýnd mynd af skósóla og hún spurð hvort sólinn gæti hafa orsakað rákirnar í andlitinu. Hún kvaðst hafa borið saman mælingar á skósólanum og farið í andliti brotaþola og komist að því að mynstrið á skósólanum gæti passað við það sem var í andlitinu. Þá kvaðst hún hafa komist að því að aðeins hefði verið um eitt spark að ræða eða að aðeins hefði einu sinni verið trampað á andlitinu, en hún kvaðst ekki geta sagt hversu miklu afli hefði þurft að beita til að farið myndaðist. Þá kvað hún mynstrið ekki alveg passa saman við farið á húðinni, en það gæti stafað af teygjanleika húðarinnar. Hún kvað áverkana á höfði brotaþola hafa verið vinstra megin, en hægra megin hafi verið blæðingar að utanverðu. Hún kvað um þrjá möguleika að ræða til að skýra hvernig brotaþoli hafi getað fengið áverkana. Í fyrsta lagi að sparkað hefði verið í vinstri hlið andlitsins sem hefði orsakað framangreind för og blæðingar að innanverðu. Við sparkið hefði brotaþoli getað dottið og þá fengið áverkana hægra megin. Þá tók hún fram að brotaþoli hefði borið merki um gamlan áverka á höfuðkúpu, sem hann hefði fengið í umferðarslysi 2003. Þessi gamli áverki hafi örugglega valdið því að bein brotaþola brotnuðu frekar en ella. Í öðru lagi gæti brotaþoli hafa legið á gólfinu, en að öðru leyti hefði verið sparkað í hann eins og lýst var hér að framan. Í þriðja lagi gæti það verið að blæðingarnar hefðu ekki orðið á sama tíma, en þá hefði tíminn á milli verið mjög stuttur. Lækninum voru sýndar myndir af vettvangi og hún spurð hvort áverkarnir gætu hafa orsakast af því að falla niður tröppurnar. Hún kvað rauðu rákirnar ekki hafa getað komið af slíku falli. Höfuðkúpubrotið gæti hins vegar hafa orsakast af fallinu. Þá var hún spurð hvort orsök áverkanna hefði verið fall, högg eða spark. Hún kvaðst ekki geta svarað þessu beint nema hvað áverkinn hægra megin í andlitinu hefði orsakast af falli og blæðingar undir heilahimnu gætu hafa orsakast af höggi eða sparki. Blæðingar undir mýkri hlutum heilahimnu hefðu orsakast af hröðum snúningi höfuðsins. Þá hefðu blæðingar við augu orsakast af höfuðkúpubrotinu. Þá tók hún fram að það hafi takmarkað rannsókn á áverkunum að ekki var hægt að ræða við brotaþola.
Elfar Úlfarsson, heila- og taugaskurðlæknir, staðfesti vottorð sín. Hann kvað brotaþola hafa komið meðvitundarlausan á sjúkrahús og verið fluttan á gjörgæsludeild þar sem honum hafði versnað. Blæðingar hafi myndast utan á heilanum hægra megin og voru þær alvarlegar og kröfðust bráðrar aðgerðar. Einnig hafi sést heilamar vinstra megin. Í kjölfar þess hafi máttur brotaþola minnkað og hann átt auk þess erfitt með mál. Brotaþoli hefði síðar vistast á Grensásdeild og þar hefði komið í ljós minnistap og að hann átti erfitt með mál en skildi ágætlega. Elfar kvaðst ekki tengja eldri áverka ákærða við áverkana sem hann fékk nú. Hann kvað áverkann núna hafa verið lífshættulegan.
Sigurjón Örn Stefánsson læknir staðfesti bráðabirgðavottorð sitt frá 27. febrúar. Hann kvaðst hafa séð brotaþola þegar hann kom á gjörgæsludeildina. Við komuna þangað hefði hann verið í „stabílum“ lífsmörkum sem þýðir að blóðþrýstingur og púls voru í lagi. Einnig hafi öndunartíðni verið í lagi. Hann hafi hins vegar verið með minnkaða meðvitund.
Hörður Ólafsson læknir staðfesti framangreint vottorð sitt. Hann var sérfræðingur á slysa- og bráðadeild þegar brotaþoli kom þangað. Hann kvað brotaþola hafa opnað augun en hafi ekki vitað hvar hann var og hann hafi ekki talað heldur umlað. Hann kvað brotaþola hafa borið einkenni manns sem hefði fengið höfuðhögg.
Davíð Þór Valdimarsson sjúkraflutningamaður kom á vettvang til að sækja brotaþola. Brotaþoli hefði legið á bakinu meðvitundarlaus með lokuð augu og gat ekki talað, en svaraði sársaukaáreiti. Það hafi blætt úr vitum hans en aðrir áverkar voru ekki sjáanlegir. Nánar spurður kvað Davíð manninn ekki alveg hafa verið meðvitundarlausan þar eð hann svaraði sársaukaáreiti.
Björn Ingi Guðjónsson sjúkraflutningamaður kom með Davíð á vettvang til að sækja brotaþola. Hann kvað brotaþola hafa legið á bakinu og virst vera meðvitundarlaus, en hann hafi svarað sársaukaviðbragði og reynt að bera fyrir sig hendur. Einnig hafi hann umlað. Björn kvaðst fyrst hafa gert ráð fyrir að maðurinn væri drukkinn. Maðurinn hafi ekkert geta tjáð sig og lítið getað hreyft sig. Hann hafi verið með lokuð augu.
IV
Ákærði Ragnar Andri hefur frá upphafi neitað að hafa ráðist á brotaþola og veitt honum áverka eins og honum er gefið að sök í 1. lið ákæru. Þessi ákæruliður byggist annars vegar á framburði meðákærða Y hjá lögreglu, sem rakinn var í II. kafla hér að framan og hins vegar á læknisfræðilegum gögnum sem gerð var grein fyrir í sama kafla. Framburður meðákærða fyrir dómi var hins vegar allt annar en hjá lögreglu eins og rakið var.
Af framburði ákærðu og vitna má ráða að brotaþola, sem var mjög ölvaður eða undir miklum áhrifum fíkniefna, hafi verið vísað út úr íbúð ákærða Ragnars Andra vegna hegðunar hans. Brotaþoli vildi ekki fara og tók ákærði þá utan um hann og færði úr íbúðinni. Ákærði hefur neitað að hafa kýlt brotaþola í kviðinn í íbúðinni og styðst sá þáttur ákærunnar ekki við annað en framburð meðákærða Y hjá lögreglu. Gegn eindreginni neitun ákærða Ragnars Andra er því ósannað að hann hafi kýlt brotaþola í kviðinn og verður hann sýknaður af þessum þætti ákærunnar. Af framburði ákærðu og vitna má ráða að þeir hafi tekið á brotaþola og fært hann út úr íbúðinni. Ekkert vitnanna bar fyrir dómi að ákærði Ragnar Andri hefði tekið hann hálstaki eins og það tak er venjulegast skilgreint. Hins vegar var því lýst fyrir dómi af ákærðu og vitnum hvernig taki ákærði hefði tekið brotaþola og líktist það óneitanlega því sem nefnt er hálstak. Hjá lögreglu neitaði ákærði Ragnar Andri að hafa tekið brotaþola hálstaki, en kvaðst hafa haldið í hönd hans og bak. Meðákærði Y bar hins vegar hjá lögreglu að ákærði hefði tekið brotaþola hálstaki og haldið honum síðan í kverkataki mestan hluta leiðarinnar niður stigana. Meðákærði Z bar hjá lögreglu að ákærði hefði tekið brotaþola hálstaki, það er sett aðra höndina utan um hálsinn á honum og haldið hinni um bringu hans. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að nægilega sé sannað með framburði meðákærðu hjá lögreglu og lýsingu ákærðu og vitna fyrir dóminum að ákærði Ragnar Andri hafi tekið brotaþola hálstaki. Hins vegar er ósannað, gegn neitun hans, að afleiðingarnar hafi verið þær að brotaþoli blánaði og verður ákærði því sýknaður af ákærunni hvað það varðar. Rétt er og að geta þess að af læknisfræðilegum gögnum málsins verður ekki ráðið að brotaþoli hafi borið merki um að hafa verið kýldur í kviðinn eða tekinn hálstaki.
Þá er ákærða Ragnari Andra gefið að sök að hafa, ofan við stigapall á annarri hæð, losað takið á brotaþola með þeim afleiðingum að hann féll niður tröppurnar. Þegar hér er komið sögu eru ákærðu einir til frásagnar um það sem gerðist. Hjá lögreglu báru ákærði Ragnar Andri og meðákærði Z að brotaþoli hafi streist á móti og látið illa þegar ákærðu voru að færa hann niður stigana. Afleiðingin hafi verið sú að hann hafi losnað úr tökum þeirra og fallið niður á stigapallinn. Meðákærði Y kvað brotaþola hins vegar hafa blánað vegna taksins, sem ákærði Ragnar Andri hélt um háls hans. Brotaþoli hafi svo byrjað að sveiflast til eins og hann væri að berjast fyrir lífinu og hefðu meðákærðu þá fengið ákærða til að losa takið og er hann gerði það hefði brotaþoli fallið niður milli stigapalla. Fyrir dómi bar ákærðu saman um að brotaþoli hefði, fyrir eigin tilverknað, losnað úr tökum þeirra og fallið í framhaldinu. Samkvæmt þessu er ekki ljóst hvort ákærði Ragnar Andri losaði takið á brotaþola með þeim afleiðingum að hann féll eða hvort brotaþoli losnaði úr tökum fyrir eigin tilverknað. Vafann um þetta atvik verður að skýra ákærða í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 og er það mat dómsins að ekki hafi verið færð fram nægileg sönnun þess að ákærði hafi losað takið á brotaþola með þeim afleiðingum að hann féll, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga og verður ákærði Ragnar Andri sýknaður af ákærunni hvað þetta varðar.
Loks er ákærða Ragnari Andra gefið að sök að hafa sparkað í eða trampað á höfði brotaþola þar sem hann lá á stigapallinum eftir fallið. Meðákærði Y bar fyrir lögreglu að ákærði hefði sparkað í höfuð brotaþola og traðkað á því. Þessu neitaði ákærði og meðákærði Z bar ekki um að hafa séð hann gera þetta. Fyrir dómi neitaði ákærði þessu og meðákærðu kváðust ekki hafa séð hann gera þetta. Hér að framan var gerð grein fyrir því að lögreglumenn tóku mynd af höfði brotaþola eftir að hann hafði verið fluttur á sjúkrahús og eins var lagt hald á skó ákærða Ragnars Andra. Þá var einnig gerð grein fyrir því að farið á höfði brotaþola var borið saman við myndina sem sýndi mynstrið á skósóla ákærða. Með vísun til þess, framburðar meðákærða Y hjá lögreglu og framburðar læknisins, sem rannsakaði og bar saman farið og myndina, telur dómurinn sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði Ragnar Andri hafi sparkað í höfuð eða trampað á höfði brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Hins vegar verður ekki ráðið, svo óyggjandi sé, af framangreindum læknisvottorðum og framburði læknis hvort hinir lífshættulegu áverkar, sem brotaþoli bar, hafi stafað af atlögu ákærða eða falli brotaþola í stiganum. Þessi vafi veldur því að sýkna verður ákærða af því að hafa valdið brotaþola þessum áverkum. Ákærði hefur hins vegar verið sakfelldur fyrir að sparka í höfuð eða trampa á höfði brotaþola en sú aðferð hans var sérstaklega hættuleg þótt ekki verði slegið föstu að aðrir áverkar hafi hlotist af en far það sem brotaþoli bar í andliti. Ákærði Ragnar Andri verður því sakfelldur fyrir að hafa með því brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í ákærunni.
Ákærðu öllum er gefið að sök að hafa flutt brotaþola út úr stigaganginum og yfirgefið hann ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan á gangstétt án þess að koma honum til hjálpar. Hér að framan var þess getið að samkvæmt samhljóða framburði ákærðu og vitna var brotaþoli mjög ölvaður í íbúðinni þessa nótt og var honum af þeim sökum vísað út. Eftir að hann hafði fallið og ákærði Ragnar Andri sparkað í hann var hann vankaður samkvæmt framburði ákærðu og gátu þeir ekki talað við hann. Á myndbandi sést hvernig ákærði Ragnar Andri dregur hann út um dyr hússins og eftir húsasundi og sjást meðákærðu einnig á myndbandinu. Verður ekki annað séð af myndbandinu en brotaþoli sé algerlega hreyfingarlaus þegar hann er dreginn eftir húsasundinu. Brotaþoli var svo lagður á gangstétt við Laugaveg þar sem G fann hann og hringdi á lögreglu. Ákærðu öllum hlaut að vera ljóst eftir að brotaþoli hafði fallið í stiganum og gat hvorki gengið né tjáð sig að hann væri staddur í lífsháska, sérstaklega eftir að þeir höfðu borið hann út úr húsinu og lagt hann á gangstétt. Verður hér að hafa í huga að þetta gerist að nóttu til um miðjan vetur og myndir bera með sér að það hafi verið rigning. Ákærðu var í lófa lagið að koma brotaþola til hjálpar og án þess að stofna sjálfum sér í minnstu hættu. Samkvæmt þessu verða ákærðu sakfelldir fyrir það sem þeim er gefið að sök og varðar verknaður þeirra allra við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru er brot ákærða Ragnars Andra talið varða við 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur verið sýknaður af ákæru af því að hafa valdið brotaþolum áverkum. Af því leiðir að brot hans verður ekki heimfært undir þessa grein heldur þá hina sömu og brot meðákærðu. Heimilt er að hafa þennan hátt á, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 þótt málflytjendum hafi ekki verið sérstaklega gefinn kostur á að tjá sig um þetta, enda hefur vörn ákærða í engu orðið áfátt.
Ákærði Ragnar Andri var dæmdur í skilorðsbundna refsingu fyrir þjófnað 2003 og 2004. Hann var dæmdur í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, 2006 fyrir líkamsárásir og umferðarlagabrot. Refsing hans nú verður ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfileg 18 mánaða fangelsi. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði greinir.
Ákærði Y var dæmdur í 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir meiri háttar líkamsárás 2006. Árið 2007 var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir fíkniefnalagabrot og árið 2009 í 6 mánaða fangelsi fyrir minni háttar líkamsárás og var skilorðsdómurinn frá 2007 dæmdur með. Eftir þennan dóm hefur hann tvívegis verið sektaður fyrir umferðarlagabrot. Refsing hans nú er hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi.
Ákærði Z var tvívegis dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 2005 fyrir hegningar- og umferðarlagabrot. Þá hefur hann alls níu sinnum verið sektaður fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, síðast 28. febrúar 2012. Refsing hans nú verður ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfileg 6 mánaða fangelsi.
Skaðabótakrafa brotaþola á hendur ákærða Ragnari Andra sundurliðast eins og að framan greinir nema að við aðalmeðferð var fallið frá kröfu um lögfræðikostnað en þess í stað krafðist réttgæslumaður brotaþola þóknunar. Hér að framan var ákærði sýknaður af því að hafa valdið brotaþola öðrum áverkum en fari í andliti og verður ákærða því ekki gert að greiða honum þjáningabætur. Ákærði var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa sparkað í höfuð brotaþola og er fallist á með honum að dæma beri ákærða til að greiða honum miskabætur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eru þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan við þingfestingu málsins 25. maí 2012 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Loks verða ákærðu dæmdir til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjenda sinna að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Ragnar Andri Hlöðversson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 28. febrúar 2012.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði, Ragnar Andri Hlöðversson, greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga frá 27. febrúar 2012 til 25. júní 2012 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærðu skulu greiða óskipt 403.179 krónur í sakarkostnað.
Ákærði, Ragnar Andri Hlöðversson, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 1.255.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 376.500 krónur.
Ákærði, Y, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Hjálmars Blöndal hdl., 627.500 krónur.
Ákærði, Z, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Reynis Loga Ólafssonar hdl., 627.500 krónur.