Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-89
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 26. mars 2021 leitar ríkissaksóknari fyrir hönd ákæruvaldsins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. febrúar sama ár í málinu nr. 102/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var hnekkt niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu gagnaðila fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola, með því að stinga fingrum inn í leggöng hennar, og notfæra sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga.
4. Í dómi Landsréttar er meðal annars rakið að gagnaðili hafi verið stöðugur í þeim framburði sínum að brotaþoli hafi vaknað eða tekið við sér þegar hann hafi hvíslað nafn hennar og hún þá brugðist harkalega við. Þá hafi hann gengist við því að hafa verið að strjúka kynfæri hennar. Jafnframt beri gagnaðila og brotaþola saman um að við mótmæli hennar hafi hann umsvifalaust hætt tilraunum sínum til kynferðislegra atlota, beðist afsökunar og vísað til þess að „hann hefði langað í konuna sína“. Þá beri þeim saman um að atvikið hafi gerst fimm til tíu mínútum eftir að brotaþoli kom upp í rúm og lagðist við hlið gagnaðila. Er það mat Landsréttar að ekki verði byggt á að gagnaðila hafi mátt vera ljóst að brotaþoli væri afhuga kynlífi með honum umrætt kvöld og að tilraunir til kynferðislegra atlota væru þar af leiðandi án hennar samþykkis. Sömuleiðis væri ekki fram komið að gagnaðila hafi verið ljóst að brotaþoli gæti ekki spornað við öðrum kynferðismökum vegna svefndrunga og ákveðið að nýta sér það ástand til að koma þeim fram gegn vilja hennar. Landsréttur taldi því ekki sannað svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að gagnaðili hefði haft ásetning til þess að hafa önnur kynferðismök við brotaþola gegn vilja hennar og var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Einkaréttarkröfu brotaþola var vísað frá dómi.
5. Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Í dóminum sé hvorki tekin afstaða til þess hvort sú háttsemi sem ákært sé fyrir teljist sönnuð né til sönnunargildis framburðar gagnaðila og brotaþola um ætlað kynferðisbrot. Þá leggi Landsréttur til grundvallar að gagnaðili hafi ekki þurft samþykki áður en hann stofnaði til kynferðismaka heldur hafi verið nægilegt að hann hætti „umsvifalaust“ eftir að brotaþoli mótmælti kynferðislegri háttsemi hans. Af dóminum megi ráða að athafnaleysi brotaþola dugi sem samþykki þegar hann er í hjúskap með geranda. Leyfisbeiðandi telur að sú niðurstaða Landsréttar að gagnaðila hafi ekki mátt vera ljóst að brotaþoli væri afhuga kynlífi með honum umrætt kvöld og jafnframt að tilraunir hans til kynferðislegra atlota væru þar af leiðandi án hennar samþykkis, fari gegn sjónarmiðum um samþykki, sjálfsákvörðunarrétt og kynfrelsi brotaþola, sem sé grundvöllur þeirra réttinda sem 194. gr. almennra hegningarlaga sé ætlað að vernda. Hann telur mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um það atriði hvort önnur viðmið gildi en endranær hvað varðar kynfrelsi fólks þegar gerandi og brotaþoli eru hjón eða sambúðarfólk.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram þær dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Á samningu hins áfrýjaða dóms eru þeir annmarkar að ekki er með skýrum hætti fjallað um sönnunargildi framburðar ákærða og brotaþola. Þessir annmarkar eru þó ekki slíkir að dómurinn verði talinn bersýnilega rangur að efni eða formi, sbr. 3. málsliður 4. mgr. sömu lagagreinar. Þá er niðurstaða Landsréttar um sýknu byggð að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.