Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-292

A (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Hæfi dómara
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Með beiðni 25. október 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. sama mánaðar í málinu nr. 373/2019: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur leggst gegn beiðninni.

Að efni til lýtur mál þetta að kröfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að leyfisbeiðandi verði sviptur forsjá sonar síns á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur féllst á að skilyrðum greinarinnar væri fullnægt og tók til greina kröfu gagnaðila um að svipta leyfisbeiðanda forsjá barnsins. Leyfibeiðandi áfrýjaði málinu til Landsréttar og krafðist aðallega ómerkingar héraðsdóms, meðal annars vegna ætlaðs vanhæfis dómara málsins, en til vara krafðist hann sýknu. Landsréttur hafnaði kröfu leyfibeiðanda um ómerkingu héraðsdóms og staðfesti niðurstöðu hans um sýknu af dómkröfu leyfisbeiðanda.

Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína hér fyrir dómi einkum með vísan til þess að meðferð málsins í héraði hafi verið stórlega ábótavant þar sem í dóminum sé að finna rangar og meiðandi fullyrðingar um ætlað brot lögmanna aðila málsins á siða- og lagareglum, en það gefi tilefni til að draga óhlutdrægni dómara í málinu í efa. Leyfisbeiðandi hafi því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Að því leyti hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi. Einnig vísar hann til þess að málið varði sérstaklega mikilsverða hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að meðferð þess fyrir héraðsdómi hafi verið stórlega ábótavant, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er því ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda er svo einnig ástatt endranær í málum sem varða forsjá barna og önnur skyld málefni þeirra. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.