Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-333

Hallgrímur Hallgrímsson (Guðni Á. Haraldsson lögmaður)
gegn
Sævari Gesti Jónssyni og Önnu Grétu Sigurbjörnsdóttur (Sævar þór Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignakaup
  • Fyrning
  • Málamyndagerningur
  • Afsal
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 28. desember 2021 leitar Hallgrímur Hallgrímsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 17. sama mánaðar í máli nr. 470/2020: Sævar Gestur Jónsson og Anna Gréta Sigurbjörnsdóttir gegn Hallgrími Hallgrímssyni og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til kaupsamnings 15. febrúar 2005 um fasteign milli leyfisbeiðanda sem seljanda og gagnaðila sem kaupenda. Leyfisbeiðandi byggir á því að samningurinn hafi verið gerður til málamynda og krefst meðal annars ógildingar hans. Þá krefst hann þess að samningurinn verði afmáður úr veðmálabókum sýslumanns auk afléttingar tilgreindra veðbanda. Til vara krefst hann viðurkenningar á riftun kaupsamningsins.

4. Í dómi Landsréttar var ekki fallist á kröfur leyfisbeiðanda um ógildingu samningsins eða viðurkenningu á riftun. Því yrði að leysa úr kröfu gagnaðila í gagnsök um útgáfu afsals fyrir eigninni á þeim grunni að kaupsamningurinn væri gildur. Þá taldi Landsréttur að kaupverðið samkvæmt kaupsamningnum hefði verið greitt að öðru leyti en því sem næmi lokagreiðslu. Sú krafa hefði hins vegar verið fyrnd þegar málareksturinn hófst. Með vísan til dóms Hæstaréttar 17. apríl 2008 í máli nr. 473/2007 taldi Landsréttur að fyrning krafna um greiðslu kaupverðs jafngilti því að kaupandi hefði þar með efnt kaupsamninginn fyrir sitt leyti. Leyfisbeiðanda var því með vísan til 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup gert að gefa út afsal fyrir fasteigninni til gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um réttarstöðu aðila við fasteignakaup. Í því efni vísar hann til þess að hann sé þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar. Sem slíkur njóti hann eignarréttar, tryggingarréttar og kröfuréttar. Ekki hafi verið tekið tillit til þessara réttinda í dómi Landsréttar. Í öðru lagi byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og annarra í sambærilegri stöðu. Þannig telur hann að gagnaðilar hafi einungis greitt um helming af upphaflegu kaupverði eignarinnar en virði fasteignarinnar árið 2019 hafi verið 94.000.000 króna og því um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann meðal annars til þess að Landsréttur hafi beitt ákvæðum 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með röngum hætti.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.