Hæstiréttur íslands
Mál nr. 835/2014
Lykilorð
- Skuldabréf
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 7. maí 2015. |
|
Nr. 835/2014.
|
Dró ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Skuldabréf. Gengistrygging.
D ehf. krafðist viðurkenningar á því að skuldabréf Í hf. og DR ehf. hefði verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í heiti viðkomandi skuldabréfs kæmi fram að um væri að ræða skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, auk þess sem lánsfjárhæðin væri fyrst tilgreind í tveimur erlendum gjaldmiðlum og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Þá væru vextir tilgreindir Libor vextir og hefði, við áritun bréfsins um skuldaraskipti, eingöngu verið getið fjárhæðar þess í hinum erlendu gjaldmiðlum. Með vísan til þessa var talið að um væri að ræða skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að skuldabréf 8. ágúst 2007, útgefið af Birki Leóssyni, sem Drómundur ehf. gerðist skuldari að með skuldskeytingu 15. október sama ár, hafi verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst hann málskostnaðar til handa þrotabúi Drómundar ehf. í héraði en sér fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af kröfu Drómundar ehf. um að viðurkennt yrði að fyrrgreint skuldabréf hefði verið um lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Eftir að málið var dómtekið í héraði 16. september 2014 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. sama mánaðar. Samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra 10. desember 2014 var tekin sú ákvörðun af hálfu búsins að áfrýja ekki málinu. Aftur á móti hefur áfrýjandi, sem lýst hefur kröfu í búið, áfrýjað dóminum í eigin nafni á grundvelli heimildar í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Koma önnur atriði við lánveitinguna ekki til álita ef textaskýring tekur af skarið um efni skuldbindingarinnar að þessu leyti.
Við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum er í fyrsta lagi að líta til heitis skuldabréfsins en fyrirsögn þess er: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Í öðru lagi að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í tveimur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum og japönskum yenum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt skuldabréfinu til samræmis við að um erlent lán sé að ræða tilgreindir Libor vextir. Í fjórða lagi var í áritun um skuldaraskipti 15. október 2007 eingöngu getið fjárhæðar bréfsins í hinum erlendu gjaldmiðlum, en með árituninni gekkst Drómundur ehf. undir skuldbindingu samkvæmt bréfinu. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Dró ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2014.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 2. apríl 2013 og dómtekið 16. september sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Drómundur ehf., Fannafold 176, Reykjavík. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að skuldabréf útgefið af Birki Leóssyni 8. ágúst 2007, sem stefnandi gerðist skuldari að fyrir skuldskeytingu 15. október sama ár, hafi verið lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Málinu var úthlutað til dómara 12. maí sl. og fór aðalmeðferð málsins fram tveimur dögum síðar. Málið var endurflutt 16. september sl. og dómtekið að nýju. Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.
Málsatvik
Ágreiningur aðila lýtur einvörðungu að því hvort lán sem Birkir Leósson, stjórnarmaður og eini hluthafi stefnanda, tók með útgáfu skuldabréfs til Glitnis banka hf. 8. ágúst 2007 hafi verið lán í íslenskum krónum, bundið ólögmætri gengistryggingu, eða hvort um hafi verið að ræða lögmætt erlent lán. Ekki er um það deilt að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum lánveitanda samkvæmt skuldabréfinu.
Umrætt skuldabréf var auðkennt „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum”. Þá sagði að undirritaður útgefandi viðurkenndi með undirritun sinni að skulda bankanum „eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum.“ Því næst voru tilgreindar fjárhæðirnar 289.631 svissneskir frankar og 28.636.884 japönsk jen. Jafnvirði í íslenskum krónum hinn 3. ágúst 2007 var feitletrað 30 milljónir í tölustöfum og bókstöfum. Í reitum á skuldabréfinu voru tilgreindir bankareikningar til ráðstöfunar og skuldfærslu. Er ekki um það deilt að reikningur sem tilgreindur var til skuldfærslu var í íslenskum krónum. Þá er þar að finna tilvísun til LIBOR-vaxta af framangreindum myntum og fast vaxtaálag sem og vegna meðalvexti. Fram kemur að afborgun sé ein, vaxtagjalddagar sex og lánstími 36 mánuðir. Í skilmálum skuldabréfsins koma fram nánari ákvæði um vexti, breytingar á vöxtum og afborganir. Í 7. tölulið segir að lánveitandi geti leyft færslu skuldarinnar yfir á aðra gjaldmiðla og/eða breytt skiptingu á milli þeirra síðar á lánstíma. Í 8. tölulið var fjallað um framkvæmd myntbreytingar og meðal annars kveðið á um að við umreikning í aðra mynt skyldi taka mið af kaup- og sölugengi samkvæmt síðustu almennu gengisskráningu bankans á íslensku krónunni miðað við þá mynt/þær myntir sem myntbreyting tæki til. Í 10. tölulið var að finna heimild lánveitanda til gjaldfellingar vegna vanskila og tekið fram að við þær aðstæður væri honum heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi bankans.
Í málinu liggur einnig fyrir lánsumsókn Birkis Leóssonar auk tölvupóstsamskipta hans við bankann vegna lántökunnar. Í tölvupósti 26. júlí 2007 er rætt um „körfulán í CHF og JPY”. Í svari starfsmanns bankans 31. sama mánaðar segir að beiðni um lánveitingu hafi verið samþykkt og er þar rétt um „30.000.000 IKR” í fyrrgreindri myntsamsetningu. Í lánssamningi kemur fram upphæð í íslenskum krónum og skipting í erlendar myntir. Þá kemur fram eftirfarandi texti: „Lántaki hefur leitað sér ráðgjafar og gerir sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta getur haft á höfuðstól og greiðslubyrði.“ Ágreiningslaust er að þótt að á lánsumsókn og skuldabréfi hafi tiltekið reikningsnúmer verið tilgreint sem ráðstöfunarreikningur var lánið í reynd verið greitt inn á reikning lántaka í bandaríkjadölum.
Hinn 15. október 2007 samþykkti Glitnir banki hf. skuldaraskipti á láninu þannig að stefnandi yrði skuldari. Skilmálum skuldabréfsins þar að lútandi var breytt með skjalinu „Áritun um skuldaraskipti“, þar sem koma fram upphaflegar fjárhæðir í svissneskum frönkum og japönskum jenum og eftirstöðvar þess miðað við 12. október 2007 í sömu fjárhæðum.
Í gögnum málsins er gerð grein fyrir ágreiningi aðila um gildi handveðsetningar á verðbréfaeign sem stóð til tryggingar framangreindu skuldabréfi og lyktaði með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 207/2012. Með hliðsjón af því að aðilar eru sammála um að sá ágreiningur hafi ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins er ekki ástæða til að gera sérstaka grein fyrir þessu atriði.
Samkvæmt stefnu greiddi stefnandi skilvíslega vexti af bréfinu 19. nóvember 2007, 19. maí 2008 og 17. nóvember þess árs, en hætti að greiða bréfinu vegna þess ágreinings aðila sem lauk með fyrrnefndum hæstaréttardómi. Í framhaldi af dómi Hæstaréttar var bréfið hins vegar greitt að fullu samkvæmt útreikningum stefnda með þremur nánar tilteknum greiðslum með fyrirvara um réttmæti kröfu stefnda og rétt stefnanda til endurgreiðslu.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að taka beri viðurkenningarkröfu hans til greina vegna þess að ógild sé skuldbinding Birkis Leóssonar um að lánsfjárhæð sú sem upphaflega var tekin að láni hjá Glitni banka hf. eigi að taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi svissneskra franka og japanskra jena. Skuldbindingin hafi verið ógild við undirritun skuldabréfsins hinn 8. ágúst 2007 með vísun til ófrávíkjanlegra ákvæða 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, eins og þau hafi verið skýrð með dómum Hæstaréttar. Á því er því byggt að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum, sem bundið var gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, og ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 eigi því við.
Stefnandi vísar til þess orðalags í skuldabréfinu þar sem skuldari viðurkenni að skulda „eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum“ og „Jafnvirði í íslenskum krónum“. Einnig vísar hann til þess að fjárhæð bréfsins í íslenskum krónum, þrjátíu milljónir, hafi verið bæði feitletruð og með stærri leturgerð en annar texti. Þá hafi vextir verið tilgreindir jöfnum höndum Libor, Eurobor og Reibor.
Vísað er til tölvupóstsamskipta við aðdraganda lánsumsóknar og texta lánsumsóknarinnar sjálfrar þar sem rætt sé um upphæð í íslenskum krónum og ákveðna skipingu lánsins í erlenda mynt. Þá geri umsóknin ráð fyrir því að lánið verði greitt út í íslenskum krónum inn á reikninga lántaka. Það hafi því aldrei staðið til að neinar greiðslur yrðu í svissneskum frönkum eða japönskum jenum. Þá er vísað til þess að í umsókn segi skýrum stöfum að lántaki hafi „leitað sér ráðgjafar og gerir sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta getur haft á höfuðstól og greiðslubyrði.“ Þetta ákvæði samræmist því aðeins að um hafi verið að ræða gengistryggt lán enda geti „þróun gengis“ aðeins haft áhrif við þær aðstæður að svo sé.
Byggt er á að í skuldabréfi sé höfuðstóll alltaf nefndur í eintölu, t.d. í 1. og 3. tölulið. Niðurstaðan sé skýr um að hér sé um að ræða einn höfuðstól í íslenskum krónum. Einnig er vísað til 7. og 8. töluliða í skuldabréfi þar sem kveðið sé á um heimild til að breyta gjaldmiðlum. Af ákvæðunum verði dregin sú ályktun að gjaldmiðlar hafi verið til viðmiðunar um höfuðstól skuldarinnar í íslenskum krónum enda hafi við breytingar borið að miða við kaup- og sölugengi á íslensku krónunni. Ljóst sé að ekki hafi verið gert ráð fyrir raunverulegum gjaldeyrisviðskiptum, heldur einungis færslu, breytingu, myntbreytingu og umreikning sem taka hafi átt mið af gengi viðkomandi gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Þarna sé því ekki verið að tala um að einn gjaldmiðill sé keyptur fyrir söluandvirði annars gjaldmiðils eins og þegar um raunveruleg gjaldeyrisviðskipti er að ræða. Við myntbreytingu hefði sami skuldari skuldað, eftir sem áður, lánið á nýjum lánsnúmerum með nýjum útgáfudegi og nýjum skráðum myntum. Á greiðsluskjölum hefði staðið „myntbreyting“, „umreikningur í aðra mynt“ eða eitthvað álíka án nokkurra raunverulegra peningalegra hreyfinga.
Vísað er til 10. töluliðar skuldabréfs þar sem lánveitanda er heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi hans á þeim myntum sem skuldin er skráð gengistryggð við hverju sinni. Strax þar á eftir segi í greininni að greiða beri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndarálag sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxtarákvæðið gildi þannig einungis um skuldina í íslenskum krónum, enda hafi aldrei annað staðið til en að skuldin væri í íslenskum krónum. Greiðslufjárhæð allra gjalddaga skuldabréfsins hafi verið reiknaðar í íslenskar krónur á gjalddaga og ekki breyst eftir það. Það sé nákvæmlega hið sama og gildi um verðtryggð lán og sýni að skuldabréfið hafi verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Allar greiðslur vaxta og afborgana af láninu hafi verið í íslenskum krónum í reynd.
Stefnandi telur að áðurgreint yfirlit 8. janúar 2011 sýni að skuldin hafi verið í íslenskum krónum og tekið breytingum í samræmi við breytingar á gengi erlendra mynta. Á yfirlitinu komi fram „Gengismunur“ á afborgun og einnig vextir (af uppreiknuðum gengistryggðum höfuðstól hverju sinni), dráttarvextir og annar kostnaður og að lokum samtala. Þetta sé nákvæmlega sama meðferð og framsetning og á verðtryggðu láni, með því smávægilega fráviki að rætt sé um „gengismun“ í stað „verðbóta“. Tilvísun til gengismunar og grunngengis sýni að um sé að ræða gengistryggt lán.
Stefnandi vísar til þess að umrætt skuldabréf eigi túlka með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. a. og b., eins og lögunum hefur verið síðar breytt. Hann vísar auk þess til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá hefur stefnandi vísað til ýmissa dóma Hæstaréttar við reifun málsins.
Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefnandi sérstaklega fullyrðingum stefnda um að þegar hefði verið fjallað um sambærilegt lánsform í dómum Hæstaréttar, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Einnig mótmælti hann því að reglur um viðskiptabréf hefðu þýðingu um úrlausn málsins.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða. Hann vísar til heitis skuldabréfsins og þess að höfuðstóll hafi verið sérstaklega tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum. Telur stefndi að samkvæmt fordæmum Hæstaréttar leiði þetta til þess að skuldbindingin teljist vera í erlendum myntum. Þá vísar stefndi til þess að í tilteknum dómum Hæstaréttar hafi verið fjallað um sambærilegt lánsform og hér um ræðir. Er einkum vísað til dóms Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011. Stefndi telur það gæti ekki haft þýðingu þótt lánið hefði verið greitt út í íslenskum krónum en svo hafi þó ekki verið. Hins vegar breyti engu þótt greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum.
Stefndi vísar sérstaklega til þess að við útgreiðslu lánsins hafi andvirði hinnar erlendu lánsskuldbindingar verið greitt út í bandaríkjadölum til samræmis við gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í skuldabréfinu. Hins vegar hafi ekki verið miðað við gengi íslenskrar krónu.
Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi tekið yfir skýra skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum með yfirlýsingu um skuldaraskipti. Hann hafnar því að ákvæði skuldabréfsins um vexti gefi til kynna að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Stefndi hafnar því einnig að yfirlýsing á lánsumsókn sé til marks um þetta. Það orðalag sem stefnandi vísi til hafi það að markmiði að vekja athygli lántaka á þeirri áhættu sem fylgi lántöku í erlendum gjaldmiðlum og því að áhrif gengisbreytinga geti haft áhrif á lánsfjárhæð og greiðslubyrði lánsins ef miðað er við jafnvirði íslenskra króna, enda sé ekki annað vitað en að lántaki hafi haft tekjur í þeirri mynt. Stefndi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu að það hafi þýðingu að orðið ,,höfuðstóll“ sé í upphafi skuldabréfsins notað í eintölu í skuldabréfinu. Þá er mótmælt hugleiðingum stefnanda um að ákvæði um myntbreytingar gefi vísbendingu um að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Sama eigi við um heimild lánveitanda til þess að reikna skuldina í íslenskar krónur við gjaldfellingu og beita íslenskum dráttarvöxtum. Að mati stefnda er þetta ákvæði þvert á móti til frekari stuðnings á því að lánið sé raunverulega í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum, enda væri engin þörf á því að umreikna eða breyta skuldinni úr erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur ef lánið væri frá öndverðu í íslenskum krónum og eingöngu bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Að því er varðar yfirlit yfir stöðu lánsins sem stefnandi hefur vísað til bendir stefndi á að um sé að ræða yfirlit sem sé kallað fram úr lánakerfi stefnda og ekki sent lántökum nema samkvæmt sérstakri beiðni. Umrætt lánakerfi stefnda sé þannig úr garði gert að sérstaklega þurfi að óska eftir því að yfirlitið sé kallað fram úr kerfinu í íslenskum krónum en mögulegt sé að kalla fram slík yfirlit í jafnvirði íslenskra króna eða í þeim gjaldmiðlum sem lánið raunverulega samanstendur af. Einnig er bent á að lánið hafi verið gjaldfallið þegar yfirlitið var gert og þá búið að umreikna það í íslenskar krónur.
Tilvísun stefnanda til 36. gr. a. og b. laga nr. 7/1936 er mótmælt sem þýðingarlausri í málinu. Þá verði jafnframt í þessu tilliti að líta til þess að um sé að ræða viðskiptabréf sem hafi að geyma geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kunna að vera. Telji dómurinn lánssamninginn ekki vera lán í japönskum jenum og svissneskum frönkum telur stefndi að miða eigi við að lánið hafi verið í bandaríkjadölum.
Niðurstaða
Í samræmi við þau viðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í dómum Hæstaréttar er í máli þessu fyrst til þess að líta að heiti áðurlýsts skuldabréfs bendir til þess að um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Í annan stað eru fjárhæðir í erlendum myntum tilgreindar í meginmáli bréfsins en jafnvirði þessara fjárhæða í íslenskum krónum. Í þriðja lagi samrýmast vaxtaákvæði bréfsins því að um lán í erlendum myntum sé að ræða, þ.á m. ákvæði sem gera ráð fyrir REIBOR-vöxtum í því tilviki að lán eða hluti láns sé í íslenskum krónum. Að mati dómara benda skilmálar skuldabréfsins, svo sem heimildir til skuldfærslu afborgana í aðra gjaldmiðla, ákvæði um mynbreytingar og umreikning í íslenskar krónur við gjaldfellingu, ekki til þess að um hafi verið að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Á það verður fallist að gögn vegna umsóknar lántaka um téð lán hafi ekki verið fyllilega skýr um það hvort um var að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum. Einnig liggur fyrir að greitt var af láninu í íslenskum krónum og það tilgreint í íslenskum krónum á stöðuyfirliti sem gefið var út eftir lokagjalddaga þess. Þessi atriði nægja þó ekki til þess að líta beri á lánið sem gengistryggt lán þegar efni skuldabréfs er fortakslaust, svo sem hér um ræðir. Í því máli sem hér um ræðir fær sú niðurstaða enn frekari stoð í því að umrætt lán var greitt út í bandaríkjadölum og var því aldrei um það að ræða að íslenskar krónur skiptu um hendur við afgreiðslu lánsins til lántaka.
Að öllu virtu er það álit dómsins að atvik málsins séu í reynd efnislega sambærileg atvikum þess máls sem skorið var úr með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og laut að skuldabréfi með samskonar orðalagi. Í ljósi síðari dómaframkvæmdar Hæstiréttur, sbr. t.d. dóma 5. desember 2013 í máli nr. 446/2013, 19. desember 2013 í máli nr. 499/2013 og 27. mars 2014 í máli nr. 750/2013, getur fordæmisgildi dómsins fyrir úrlausn málsins ekki orkað tvímælis. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.
Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Þór Árnason hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Magnús Fannar Sigurhansson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Drómundar hf.
Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.