Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. ágúst 2005.

Nr. 339/2005.

K

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

M

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.

M og K deildu um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða, en þau höfðu farið sameiginlega með forsjánna, umgengni við hana og greiðslu meðlags. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum þeirra um forsjá stúlkunnar til bráðabirgða og að hún ætti áfram lögheimili hjá M. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt K við stúlkuna og greiðslu meðlags.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júlí 2005, þar sem skorið var úr ágreiningi aðilanna um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða, lögheimili hennar, umgengni við hana og greiðslu meðlags með henni. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að henni verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða en til vara „að hafnað verði kröfum varnaraðila um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár á meðan forsjármálið er rekið“ og að lögheimili barnsins verði hjá henni. Jafnframt er þess krafist að varnaraðila verði gert skylt að greiða meðlag með barninu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að sameiginleg forsjá verði felld niður og honum verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðila verið gert að greiða varnaraðila einfalt meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þess. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Framangreindar kröfur hans um breytingar á hinum kærða úrskurði komast þegar af þeirri ástæðu ekki að hér fyrir dómi.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júlí 2005.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. júlí sl. um kröfu um bráðabrigðaforsjá stúlkunnar A, er höfðað með stefnu K á hendur M, útgefinni 12. maí 2005.

Í stefnu, sem þingfest var 19. maí sl., gerir stefnandi, varnaraðili þessa þáttar málsins, m.a. þær dómkröfur að fellt verði niður samkomulag aðila um sameiginlega forsjá sem staðfest var hjá sýslumanninum í Borgarnesi þann 20. júní 2001 og að henni verði falin forsjá barnsins.

Af hálfu sóknaraðila var greinargerð lögð fram í þinghaldi þann 2. júní sl.  Gerir hann þar þær kröfur að dómkröfum varnaraðila verði hafnað og dæmt verði að samningur aðila um sameiginlega forsjá dóttur þeirra verði felldur úr gildi og honum verði dæmd forsjá hennar til 18 ára aldurs.

Í nefndri greinargerð gerir sóknaraðili, M, ennfremur kröfu um að honum verði með úrskurði falin forsjá dóttur málsaðila til bráðabrigða þar til endanlegur dómur gengur í forsjármálinu.  Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða til bráðabrigða einfalt meðlag með stúlkunni þar til endanlegur dómur gengur.  Loks krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur varnaraðila í þessu þætti málsins eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.  Hún gerir og kröfu um að kveðinn verði upp úrskurður um að hún fari með forsjá stúlkunnar þar til fyrir liggur endanlega ákvörðun um forsjá, og við munnlegan flutning gerði hún og þá kröfu að sóknaraðila verði gert að greiða meðlag.  Varnaraðili gerir þá kröfu, verði ekki fallist á aðalkröfu hennar, að umgengni barnsins við hana verði þannig:  Frá 6. júlí til 20. ágúst auk einnar viku í vetrarleyfi stúlkunnar í skóla og tveggja vikna jólaleyfi.  Loks krefst hún málskostnaðar að mati dómsins.

II.

Við meðferð málsins var af hálfu sóknaraðila lögð fram skýrsla um afskipti sálfræðings af dóttur málsaðila í janúar og febrúarmánuði sl., er hún dagsett 9. maí sl., en einnig lagði hann fram umsögn umsjónarkennara í [...]skóla, sem dagsett er 5. maí sl.

Með vísan til 42. gr. barnalaga nr. 76, 2003 var því beint til málsaðila að afla gagna frá félagsmálayfirvöldum um heimilisaðstæður þeirra á X og í Y svo og umsögn um skólavist stúlkunnar í Z.  Varnaraðila tókst ekki að afla gagna frá félagsmálayfirvöldum í Y, en lagði í þess stað fram yfirlýsingar frá aðilum sem þekkja til heimilis hennar í Z.  Verður litið á yfirlýsingarnar í því ljósi

Í samræmi við ákvæði 43. gr. barnalaga var dóttur málsaðila gefin kostur á að tjá sig einslega um málefni sín við dómara, en auk þess gáfu skýrslur við aðalmeðferðina málsaðilar og vitnin, [...] kennari í [...]skóla og Jiri J. Berger sálfræðingur.

III.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins hófu málsaðilar sambúð árið 1992, en ári síðar fæddist þeim dóttirin A.  Þau gengu í hjúskap árið 1996.  Árið 1999 bjuggu þau á X í skamma hríð en fluttu síðan til bæjarins Þ í Norður- Y.  Árið 2001 slitu þau samvistum, þá búsett í Y, og 20. júní það ár fengu þau leyfi til lögskilnaðar hjá sýslumanninum í [...].  Í skilnaðarleyfinu er tiltekið að þau fari sameiginlega með forsjá dóttur þeirra, en að hún skuli eiga lögheimili hjá varnaraðila og að sóknaraðili greiði einfalt meðlag.

Fyrir liggur að eftir skilnaðinn héldu málsaðilar áfram búsetu í Þ og héldu heimili við sömu götu þar í bæ.  Af framburði þeirra verður ráðið að sóknaraðili hafi haft umgengni við stúlkuna aðra hvora helgi, en jafnframt að nokkuð frjálsræði hafi verið þar á  þrátt fyrir að aðilar deili nokkuð um þann þátt.  Upplýst er að eiginlegar meðlagsgreiðslur voru ekki inntar af hendi og leystu þau þá skyldu með öðrum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins flutti sóknaraðili til X vorið 2003 og hóf hann nokkru síðar sambúð með núverandi sambýliskonu og dóttur hennar, fæddri 1993.  Halda þau nú heimili í tvíbýlishúsi að [...].  Varnaraðili hélt áfram búsetu í Þ en fluttist síðar á árinu 2003 til sambýlismanns síns, til bæjarins Z í Norður Y, ásamt dóttur málsaðila.  Heldur hún nú heimili með fjölskyldu sinni í einbýlishúsi sambýlismanns síns þar í bæ.

Samkvæmt gögnum málsins hóf stúlkan A skólagöngu sína í Þ, en eftir búferlaflutning varnaraðila árið 2003 hóf hún nám í [...] í Z þá um haustið.

Ágreiningslaust er að sumrin 2002 og 2003 svo og um jólin 2003 dvaldi stúlkan á heimili sóknaraðila á X.

Nokkur ágreiningur er með málsaðilum um forsögu þess að stúlkan flutti á heimili sóknaraðila í ágústmánuði 2004, en upplýst er að samhliða því var lögheimili hennar fært á heimili hans.  Hún var við nám í [...]skóla skólaárið 2004/2005.

 

Málástæður sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að hagsmunir stúlkunnar séu best tryggðir haldi hún áfram búsetu hjá honum.  Hann hafi allt frá fæðingu hennar tekið jafnan hátt í uppeldi hennar og umönnun.  Tengsl stúlkunnar og hans séu því mikil og góð og ekki síðri en við varnaraðila.  Frá skilnaði málsaðila hafi stúlkan dvalið langdvölum hjá honum þ.á.m. í sumarleyfum.  Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt skilnaðarleyfi fari málsaðilar sameiginlega með forsjá stúlkunnar.  Á árinu 2004 hafi orðið að samkomulagi að stúlkan flytti á heimili hans þá um haustið.  Sóknaraðili andmælir því að einungis hafi verið samið um að stúlkan byggi á heimili hans í eitt ár, það hafi átt að ákveða síðar, m.a. með hliðsjón af vilja og líðan stúlkunnar.

Sóknaraðili staðhæfir að stúlkunni hafi farnast vel eftir að hún flutti á heimili hans á X.  Skólagangan hafi gengið mjög vel og stúlkan aðlagast fljótt bæði í leik og starfi.  Hún sé virk í tómstundastarfi og hafi eignast góðar vinkonur.  Heimilisaðstæður hans séu traustar og staðhæfir hann að gott samband hafi myndast milli stúlkunnar og sambýliskonu hans og stjúpdóttur, jafnaldra.

Af hálfu sóknaraðila er því andmælt að hann hafi dregið stúlkuna inn í deilu aðila, þvert á móti er því haldið fram að það hafi valdið stúlkunni togstreitu er varnaraðili ræddi búsetumál hennar, ekki síst er hún dvaldi á heimili hennar um síðustu jól.  Vegna líðan stúlkunnar hafi hann leitað til sálfræðings er hafi lagt á það áherslu að blanda henni ekki inn í deilur málsaðila.

Af hálfu sóknaraðila var því lýst yfir við skýrslugjöf fyrir dómi að hann vildi veita varnaraðila ríflega umgengni við stúlkuna.

Um lagarök vísar sóknaraðili til 35. gr. barnalaga nr. 76, 2003, en um meðlag til 4. mgr. 34. gr. sbr. 53., 57. sbr. 55. gr. laganna.  Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91, 1991.

 

Málsástæður varnaraðila.

Varnaraðili byggir kröfu sína um bráðabrigðaforsjá á því að það sé stúlkunni fyrir bestu að hún fari með forsjá hennar.  Hún hafi annast barnið mun meira en sóknaraðili frá fæðingu og séu því tengsl hennar og barnsins meiri.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hún hafi gert samkomulag við sóknaraðila við skilnað  um að stúlkan myndi búa hjá henni og hafi stúlkan í samræmi við það búið á heimili hennar í Y meiri hluta ævi sinnar.  Hún hafi hins vegar samið um það við sóknaraðila í ágúst 2004 að stúlkan færi til hans í einn vetur en kæmi síðan aftur á heimili hennar.  Þetta síðara samkomulag hafi sóknaraðili nú rofið.  Varnaraðili byggir kröfu sína á því að engar forsendur séu til staðar til að fela sóknaraðila forsjá barnsins til bráðabrigða þar sem fyrir liggi umrætt samkomulag um að stúlkan eigi að búa hjá henni.  Liggi heldur ekki annað fyrir en að stúlkunni hafi liðið vel hjá varnaraðila, þar eigi hún heimili sem hún þekki vel, félaga og vini og náið kunningjanet.  Þá hafi öll skólaganga stúlkunnar verið í Y að undanskildum síðasta vetri.  Hagsmunum stúlkunnar sé því best gætt með því að raska ekki aðstæðum hennar eins og þær voru ákveðnar við skilnað aðila meðan á forsjármálinu stendur.

Af hálfu varnaraðila er vísað til þeirra almennu sjónarmiða, sem hún staðhæfir að byggt hafi verið á við ákvörðun forsjár til bráðabrigða, þ.e. að forsjármál foreldra skapi eins lítið rask fyrir barn eins og mögulegt er.  Af þeim sökum eigi ekki að breyta högum barns nema staðfest sé með óyggjandi hætti að það sé í hættu þar sem það er.  Áréttað er að stúlkan hafi alist upp hjá varnaraðila og hún eigi að búa þar samkvæmt samkomulagi aðila.  Sé því óeðlilegt að breyta því á meðan á forsjármáli stendur.  Þá byggir varnaraðili á því að stúlkan vilji frekar vera hjá henni, þ.e. koma aftur til Y eins og gert hafi verið ráð fyrir í upphafi þegar hún fór til sóknaraðila.

Af hálfu varnaraðila var því lýst yfir fyrir dómi að hún myndi stuðla að ríkri umgegni sóknaraðila við stúlkuna yrði henni úrskurðuð forsjá hennar.

Um lagarök vísar varnaraðili til 35. gr. barnalaga nr. 76, 2003 svo og greinargerðar með sömu lögum og eldri barnalögum nr. 20, 1992.  Varðandi málskostnað er vísað til 129.  og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða.

Fyrir liggur að aðilar sömdu um sameiginlega forsjá dóttur sinnar við skilnað árið 2001.  Verður ráðið af þeim takmörkuðu gögnum sem nú liggja fyrir svo og skýrslum aðila fyrir dómi að samskipti þeirra eftir skilnaðinn um málefni hennar hafi gengið allvel miðað við aðstæður, ekki síst meðan þau bjuggu bæði í bænum Þ, en einnig eftir að sóknaraðili flutti til X og varnaraðili til bæjarins Z í Norður Y.  Frá árinu 2003 hafa aðstæður málsaðila nokkuð breyst, en bæði hafa þau m.a. hafið sambúð að nýju.

Ágreiningsmál um forsjá stúlkunnar er nú rekið milli aðila.  Liggur fyrir að leitað verður álits sérfróðra aðila um forsjárhæfi og aðrar aðstæður málsaðila áður en það mál verður til lykta leitt, verði málið ekki leyst með öðrum hætti.

Í máli þessu liggur ekki annað fyrir en að tengsl stúlkunnar A við málsaðila séu góð og að allar ytri aðstæður hennar séu með ágætum.  Að áliti dómsins er hins vegar augljóst að ágreiningur málsaðila hefur valdið stúlkunni vanlíðan og streitu.  Í viðræðum við dómara lét hún ekki með skýrum hætti uppi vilja sinn til búsetu, en lýsti þess í stað áformum sínum annars vegar ef hún byggi hjá sóknaraðila og hins vegar hjá varnaraðila.  Þá kom skýrt fram einlægur vilji hennar til að hafa sem mest samskipti við það foreldri sem að hún hefði ekki fasta búsetu hjá.

Í 35. gr. barnalaga nr. 76, 2003 er mælt fyrir um heimild dómara til að úrskurða í forsjármáli til bráðabrigða hvernig fara skuli með forsjá barns.  Áskilið er að málsaðilar geri kröfu um slíkt líkt og hér liggur fyrir.  Grundvallarsjónarmið um slíka ákvörðun er ávalt það hvað barni sé fyrir bestu.  Ákvæði greinarinnar lúta einnig að því m.a. að koma í veg fyrir það að annar aðili í forsjármáli geti skapað sér betri rétt með því að fá forsjá barns til bráðabrigða meðan að forsjármálið er rekið fyrir dómstólum.

Að áliti dómsins liggur ekki annað fyrir en að málsaðilar séu báðir færir um að annast dóttur sína og fara með forsjá hennar.

Að virtum þeim gögnum sem nú liggja fyrir og því sem að ofan er rakið fær dómari ekki séð að brýna nauðsyn beri til að fella niður sameiginlega forsjá aðila, meðan ágreiningsmál þeirra er til meðferðar fyrir dómi.  Kröfum aðila, hvorum um sig, um forsjá stúlkunnar A til bráðabrigða er því hafnað.

Eins og áður er rakið búa málsaðilar í sitt hvoru landinu, sóknaraðili á X, en varnaraðili í Z í Y.  Liggur fyrir að búi stúlkan á heimili varnaraðila í Z mun hún hefja skólagöngu nú í haust í nýjum skóla ásamt skólafélögum sem hún var með skólaárið 2003/2004.  Veldur það henni ekki áhyggjum eða togstreitu.  Búi stúlkan hins vegar á heimili sóknaraðila heldur hún áfram skólavist í Brekkuskóla á X ásamt skólafélögum á síðasta skólaári.  Þá mun hún jafnframt halda áfram tómstundastarfi sínum frá fyrra vetri sem hún hefur haft ánægju af, en hún verður 12 ára nú í september.

Af gögnum verður ráðið að stúlkan hafi haft nokkur samskipti við ættingja sína hér á Íslandi, í móður- og föðurlegg, síðustu misserin.  Ættingjarnir búa þó ekki í bæjarfélagi sóknaraðila.  Af framburði varnaraðila verður ráðið að hún eigi ekki ættingja í Y en hins vegar kunningja- og vinahóp.

Að öllu ofangreindu virtu og með vísan til 2. mgr. 35. gr. barnalaga er það ákvörðun dómsins að stúlkan A skuli halda áfram að eiga lögheimili hjá sóknaraðila.  Á hinn bóginn verður fallist á kröfu varnaraðila um rétt til umgengni við stúlkuna í sumarleyfi hennar og skal sú umgengni standa samfleytt frá uppkvaðningu þessa úrskurðar til 20. ágúst n.k.  Jafnframt er fallist á kröfu varnaraðila um rétt til umgengni við stúlkuna í jólaleyfi í tvær vikur, frá 20. desember til 3. janúar n.k., auk einnar viku í vetrarfríi  Að þessu virtu verður fallist á þá kröfu sóknaraðila að varnaraðili greiði meðlag með stúlkunni sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma, en rétt þykir að sú ákvörðun gildi frá 1. september n.k.  Að öðru leyti verður köfum málsaðila hafnað.

Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í forsjármáli aðila.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum aðila, hvors um sig, um forsjá stúlkunnar A, til bráðabrigða er hafnað.

A skal eiga lögheimili hjá sóknaraðila, M.

Umgengni varnaraðila, K við stúlkuna skal hefjast eigi síðar en við uppkvaðningu úrskurðar og standa til 20. ágúst n.k.  Varnaraðili á rétt á því að barnið dvelji hjá henni í jólaleyfi frá 20. desember til 3. janúar n.k., auk einnar vikur í vetrarfríi.

Varnaraðili, K, skal greiða meðlag með stúlkunni frá 1. september n.k., sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma.

Ákvörðun um málskostnað bíður dóms í forsjármáli málsaðila.