Hæstiréttur íslands

Mál nr. 551/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinghald


Þriðjudaginn 28. september 2010.

Nr. 551/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Örn Hilmarsson hdl.)

Kærumál. Þinghald.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu X um að þinghöld yrðu háð fyrir luktum dyrum í máli ákæruvaldsins gegn henni. Meðal gagna málsins voru myndbandsupptökur sem sýndu nekt X. Var fallist á varakröfu hennar um að loka þinghaldi þegar umræddar myndbandsupptökur yrðu sýndar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2010, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þinghöld verði háð fyrir luktum dyrum í máli sóknaraðila gegn henni. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að þinghöld í málinu verði háð fyrir luktum dyrum en til vara að þeim verði lokað meðan á sýningu myndbanda stendur.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Meðal gagna málsins munu vera myndabandsupptökur sem sýna nekt varnaraðila. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 er dómara heimilt að taka ákvörðun um lokun einstaks þinghalds. Fallist er á með varnaraðila, að samkvæmt a. og d. liðum 1. mgr., sbr. 2. mgr., 10. gr. laga nr. 88/2008, standi rök til að loka þinghaldi þegar umræddar myndbandsupptökur verða sýndar. Verður því fallist á varakröfu varnaraðila.

Dómsorð:

Þinghaldi í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðila, X, skal lokað meðan á sýningu á fyrirliggjandi myndbandsupptökum stendur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2010.

Verjandi ákærðu hefur krafist þess með vísan til a- og d-liða 10. gr. laga um meðferð sakamála þinghöld í málinu fari fram fyrir luktum dyrum til hlífðar ákærðu og tveimur börnum hennar, 13 og 16 ára.  Krafan er rökstudd með því að málið sé neyðarlegt fyrir ákærðu sökum þess að hún hafi verið drukkin og í uppnámi þegar atburður málsins gerðist auk þess sem henni sé gefið að sök að hafa ráðist gegn valdstjórninni með brjóstahaldara sínum.  Þá hafi tilteknir fjölmiðlar sýnt málinu áhuga og birt um það fréttir.  Séu því töluverðar líkur á því að þeir fjalli frekar um það og alls kostar óvíst að aðrir fjölmiðar gæti nafnleyndar sem þó hafi verið gert fram að þessu.  Ennfremur byggi ákæruvaldið saksóknina að verulegu leyti á myndbandsupptöku sem sýni ákærðu nakta og í verulegu uppnámi.  Slíkar myndir eigi ekki erindi við almenning.  Loks sé til þess að líta að brotin sem ákærðu eru gefin að sök séu smáfelld og sú refsing sem á hana yrði lögð með opinberri umfjöllun um málið og nafnbirtingu í ósamræmi við ætluð brot hennar.

Ekki er ástæða til efa það að opinber umfjöllun um mál þetta kunni að valda ákærðu og börnum hennar hugarangri.  Í 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála kemur fram sú meginregla íslensk réttarfars að þinghöld í dómsmálum skuli almennt fara fram í heyranda hljóði.  Af þessu leiðir að þeir sem riðnir eru við dómsmál og vandamenn þeirra verða almennt að sætta sig við að fjallað sé um þau opinberlega, þótt það sé fallið til þess að valda þeim angri.  Dómurinn fær þó ekki séð að atvik þessa máls séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé að víkja frá þessari mikilsverðu lagareglu.  Þá er á það að líta að samkvæmt 15. og 16. gr. sakamálalaganna er ekki heimilt að veita óviðkomandi mönnum aðgang að skjölum eða myndefni sem lagt er fram í sakamáli.  Ber samkvæmt þessu að synja kröfu ákærðu um það að þinghöld í málinu skuli háð fyrir luktum dyrum.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu ákærðu í málinu, X, um það þinghöld í málinu skuli háð fyrir luktum dyrum.