Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-193

A (Ásgeir Jónsson lögmaður)
gegn
B, C og D (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Lögræði
  • Fjárræði
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 29. maí 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 16. sama mánaðar í málinu nr. 277/2019: A gegn B, C og D, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B, C og D leggjast gegn beiðninni.

Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem leyfisbeiðandi var svipt fjárræði í fimm ár. Leitar hún kæruleyfis til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni, er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögræðislögum nr. 71/1997 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um lögræðissviptingu. Þá kemur fram í 3. málslið 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga að aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 verði ekki kærðir til Hæstaréttar. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.