Hæstiréttur íslands
Mál nr. 544/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
|
|
Fimmtudaginn 30. janúar 2014. |
|
Nr. 544/2013.
|
Landsbankinn hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Hótel Húsavík ehf. (Einar Hugi Bjarnason hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Endurgreiðsla ofgreidds fjár.
H krafði L um endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt af fjórum lánssamningum sem L hafði eignast réttindi yfir. H hf. greiddi afborganir og vexti af lánunum til og með gjalddaga 20. júní 2008, en ágreiningur var um það hvort með réttu yrði litið svo á að vanefndir hefðu orðið á greiðslum eftir þann tíma. Voru lánin að fullu greidd af hálfu H á árinu 2010 með nýju láni frá L, en á grundvelli þess að í lánssamningunum hefði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu endurreiknaði L lánin á árinu 2011 og miðaði við að þau skyldu bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að almennar reglur um skilyrði fyrir endurheimt ofgreidds fjár stæðu því ekki í vegi að H leitaði úrlausnar um hvort L hefði beitt röngum aðferðum við útreikning vaxta við endurgreiðslu sína á árinu 2011 eða ranglega dregið frá óréttmæta viðbótarkröfu um vangreidda vexti af lánunum, sbr. dóma réttarins í málum nr. 463/2013 og 661/2013. Snerist ágreiningur aðila því um það hvort L hefði verið heimilt að krefja H um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum sem hann hafði þegar greitt af láninu og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Vísaði Hæstiréttur í því sambandi til dóms réttarins í máli nr. 661/2013 þar sem rakin hefðu verið skilyrði þess að kröfuhafi gæti haft uppi kröfu um viðbótargreiðslu úr hendi skuldara vegna lögskipta, sem þegar hefði verið lokið, sem og þeirra atvika sem valdið gætu því að slíkur réttur glataðist vegna fullnaðarkvittunar. Var það mat Hæstaréttar að ljóst væri að H hefði verið í góðri trú um að greiðslur hans hefðu verið fullnægjandi. Þá hefði aðstöðumunur verið með aðilum og því staðið L nær að gæta þess að lánssamningarnir hefðu verið í samræmi við ófrávíkjanlegar reglur laga nr. 38/2001. Á því tímabili sem H hefði staðið full skil á greiðslum samkvæmt lánssamningunum hefði verið komin festa á framkvæmd allra samninganna samanlagt. Hefði viðbótarkrafa L verið veruleg hvort sem tekið væri tillit til lánstímans eins og hann varð í reynd eða eingöngu væri horft til þess tíma er lánin hefðu verið í skilum. Þótt H hefði þegar greitt viðbótarkröfuna með því að fjárhæð hennar rann inn í skuld samkvæmt nýjum lánssamningi milli sömu aðila stæði sú skuld enn ógreidd að talsverðu leyti. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að þrátt fyrir að L hefði haft viðbótarkröfu sína uppi tímanlega, fengi það því ekki breytt að skilyrði stæðu að öðru leyti til þess að hann yrði bundinn af fullnaðarkvittunum til H og hefði hann þar með glatað rétti til að hafa uppi viðbótarkröfuna. Tækju kvittanirnar á hinn bóginn aðeins til tímabilsins til og með greiðslu 20. júní 2008, en engin festa hefði verið á framkvæmd lánssamninganna upp frá því. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að L bæri að endurgreiða H þá fjárhæð sem félagið hafði greitt vegna viðbótarkröfu L fyrir tímabilið fram til 20. júní 2008.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara lækkunar á þeirri fjárhæð, sem gagnáfrýjanda var dæmd í héraði. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. október 2013. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 81.559.720 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júlí 2010 til 25. september 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta á rætur að rekja til fjögurra samninga, sem gagnáfrýjandi gerði um töku lána hjá Landsbanka Íslands hf., en aðaláfrýjandi hefur tekið við réttindum þess síðarnefnda samkvæmt samningunum. Sá fyrsti var gerður 6. janúar 2006 um lán að fjárhæð 130.000.000 krónur, sem endurgreiða átti á fimm árum með mánaðarlegum afborgunum, sem skyldu vera jafnar að öðru leyti en því að 121/180 hlutar af skuld gagnáfrýjanda áttu að greiðast á lokagjalddaga 20. janúar 2011, en hún var bundin við vísitölu neysluverðs og bar nánar tilgreinda vexti. Fyrir liggur að samningi um þetta lán var breytt 21. apríl 2006 á þann veg að fjárhæð skuldarinnar yrði upp frá því bundin við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla og var ákvæði um vexti breytt því til samræmis. Annar samningurinn var einnig gerður 6. janúar 2006 og tók til verðtryggðs láns að fjárhæð 30.000.000 krónur, sem átti að endurgreiða á sama hátt og skuld samkvæmt fyrstnefnda samningnum, en skilmálum þessa samnings var jafnframt breytt 21. apríl 2006 þannig að skuldin var upp frá því bundin við gengi erlendra gjaldmiðla og bar vexti í samræmi við það. Þriðji samningurinn var gerður 15. maí 2006 og tók til láns að fjárhæð 30.000.000 krónur, sem átti að endurgreiða á fimmtán árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Skuld gagnáfrýjanda samkvæmt þessum samningi var upphaflega bundin við vísitölu neysluverðs og bar vexti því til samræmis, en 18. september 2007 mun þeim skilmálum hafa verið breytt þannig að skuldin væri upp frá því bundin við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla og bæri vexti eftir því. Þá var gerður viðauki við þennan samning 3. apríl 2009, en með honum var lánstíminn styttur þannig að á lokagjalddaga, sem yrði 20. september 2012, yrðu greiddir 105/144 hlutar skuldarinnar. Loks var fjórði samningurinn gerður 22. janúar 2007 og tók til láns að fjárhæð 15.000.000 krónur. Skuldin var bundin við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla og bar vexti, sem tóku mið af svonefndum LIBOR vöxtum með 3% álagi, en hana átti að endurgreiða á fimmtán árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Til tryggingar þessum skuldum stóð handveðréttur, sem gagnáfrýjandi hafði veitt lánveitandanum 5. janúar 2006 í greiðslum samkvæmt tilteknum húsaleigusamningi og innstæðu á tilgreindum bankareikningi.
Óumdeilt er að gagnáfrýjandi greiddi afborganir og vexti af þessum lánum til og með gjalddaga 20. júní 2008, en aðilana greinir á um hvort með réttu verði litið svo á að vanefndir hafi orðið á greiðslum upp frá því. Að undangengnum breytingum á ákvæðum samninganna um greiðslu skulda gagnáfrýjanda, sem aðilarnir sömdu um 3. apríl og 30. júní 2009, gerðu þeir samning 13. september 2010 um nýtt lán til 25 ára að fjárhæð 296.000.000 krónur, sem gagnáfrýjandi tók hjá aðaláfrýjanda. Ágreiningslaust er að 273.166.790 krónum af þeirri fjárhæð hafi verið varið til að gera upp skuldir gagnáfrýjanda samkvæmt fyrrnefndum fjórum lánssamningum.
Með bréfi 10. október 2011 tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda að hann hafi vegna ákvæða laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, endurreiknað skuld gagnáfrýjanda samkvæmt lánssamningunum fjórum, sem lýst var hér að framan, enda hafi samningarnir haft að geyma ákvæði um að lánin væru bundin „ólögmætri gengistryggingu.“ Við þennan útreikning hafi aðaláfrýjandi lagt til grundvallar að skuld gagnáfrýjanda hefði borið „lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir“ í stað þess að hún væri bundin við gengi erlendra gjaldmiðla og bæri vexti því til samræmis, en niðurstaða þessa útreiknings hafi orðið sú að gagnáfrýjandi ætti inni hjá aðaláfrýjanda 34.161.084 krónur. Í framhaldi af þessari tilkynningu mun þeirri fjárhæð hafa verið ráðstafað sem innborgun á skuld gagnáfrýjanda samkvæmt lánssamningi aðilanna frá 13. september 2010.
Gagnáfrýjandi beindi 7. september 2012 áskorun til aðaláfrýjanda, þar sem hann krafðist þess að fá greiddar 100.427.913 krónur til að leiðrétta uppgjör á skuld samkvæmt áðurnefndum lánssamningum. Bar gagnáfrýjandi því við að óheimilt hafi verið að krefja sig um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af skuldinni, svo sem aðaláfrýjandi hafi gert í endurreikningi á henni, enda hafi verið gefnar fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu afborgana og vaxta, sem aðaláfrýjandi væri bundinn af. Ekki varð aðaláfrýjandi við þessari áskorun og höfðaði gagnáfrýjandi af því tilefni mál þetta.
II
Gagnáfrýjandi leitar í málinu endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt aðaláfrýjanda vegna ólögmætra ákvæða um bindingu fjárhæðar skulda sinna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla í lánssamningunum við Landsbanka Íslands hf., sem áður er lýst. Þessi lán voru sem fyrr segir endurgreidd að fullu 13. september 2010 og var skuldasambandi aðilanna á grundvelli samninganna þar með lokið. Að því verður þó að gæta að aðaláfrýjandi átti frumkvæði að því að taka skuldasamband þeirra upp að nýju með því að endurgreiða gagnáfrýjanda 10. október 2011 fjárhæð, sem hann taldi nema inneign þess síðarnefnda vegna ólögmætra ákvæða um gengistryggingu í samningunum, og viðurkenna þar með í verki að gagnáfrýjandi ætti rétt á endurheimt ofgreidds fjár. Almennar reglur um skilyrði fyrir endurheimt ofgreidds fjár geta þannig ekki staðið því í vegi að gagnáfrýjandi leiti nú úrlausnar um hvort aðaláfrýjandi hafi beitt röngum aðferðum við útreikning vaxta við þá endurgreiðslu eða ranglega dregið frá óréttmæta viðbótarkröfu um vangreidda vexti af lánunum, sbr. dóma Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013 og 16. janúar 2014 í máli nr. 661/2013. Ágreiningur aðilanna snýst að þessu virtu í eðli sínu um hvort aðaláfrýjanda hafi eftir almennum reglum kröfuréttar verið heimilt að krefja gagnáfrýjanda um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem hann greiddi af lánum í íslenskum krónum með ólögmætum ákvæðum um gengistryggingu, og þeim vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þessi ágreiningur er því hliðstæður þeim, sem kom til úrlausnar í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 16. janúar 2014 og þeim dómum, sem þar var vísað til.
Í síðastnefndum dómi Hæstaréttar voru rakin skilyrði þess að kröfuhafi geti haft uppi kröfu um viðbótargreiðslu úr hendi skuldara vegna lögskipta, sem þegar hefur verið lokið, svo og þau atvik, sem geta valdið að réttur kröfuhafa til slíkrar greiðslu glatist vegna fullnaðarkvittunar hans til skuldara. Þegar þau atriði eru metin með tilliti til þessa máls eru ekki efni til annars en að byggja á því að gagnáfrýjandi hafi verið í góðri trú um að greiðslur sínar væru fullnægjandi á þeim tíma, sem þær voru inntar af hendi, enda ljóst að aðilarnir gengu út frá því að ákvæði samninga þeirra um gengistryggingu höfuðstóls skulda gagnáfrýjanda væru gild. Þótt fyrir liggi að fyrirsvarsmaður gagnáfrýjanda hafi búið yfir verulegri reynslu af viðskiptum verður að líta til þess að lánveitandinn var fjármálafyrirtæki, sem hafði yfirburðastöðu gagnvart gagnáfrýjanda, sem starfaði eftir gögnum málsins við það eitt að leigja út fasteign, sem heiti hans ber með sér. Það stóð því Landsbanka Íslands hf. nær að gæta að því að ekki væru í samningum þeirra ákvæði, sem stönguðust á við ófrávíkjanlegar reglur laga nr. 38/2001. Fyrir liggur að á tímabilinu, sem gagnáfrýjandi stóð full skil á greiðslum af skuldum sínum samkvæmt lánssamningunum, hafði hann greitt 26 af 60 afborgunum eftir samningunum tveimur frá 6. janúar 2006, 9 af 49 afborgunum samkvæmt lánssamningi 15. maí 2006 eins og honum mun hafa verið breytt 18. september 2007 og 17 af 180 afborgunum samkvæmt lánssamningi 22. janúar 2007. Verður að líta svo á að festa hafi að þessu samanlögðu verið komin á framkvæmd allra samninganna fjögurra. Óumdeilt er að viðbótarkrafa aðaláfrýjanda vegna mismunar á vöxtum, sem hann reiknar samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af skuld samkvæmt öllum fjórum lánssamningunum annars vegar, og þeim vöxtum, sem gagnáfrýjandi greiddi hins vegar, nemi 81.559.720 krónum ef tekið er tillit til lánstímans alls eins og hann varð í reynd, en 58.809.238 krónum ef eingöngu er horft til tímabilsins frá gerð lánssamninganna til og með gjalddaga 20. júní 2008. Á hvorn veginn sem er verður að telja viðbótarkröfuna verulega, hvort sem þessar fjárhæðir eru bornar saman við upphaflegan höfuðstól skuldanna eða vextina, sem gagnáfrýjandi greiddi. Þótt gagnáfrýjandi hafi þegar greitt viðbótarkröfu aðaláfrýjanda með því að fjárhæð hennar rann inn í skuld samkvæmt nýjum lánssamningi þeirra 13. september 2010 stendur sú skuld enn ógreidd að talsverðu leyti. Aðaláfrýjandi hafði viðbótarkröfu sína uppi tímanlega, en það getur ekki fengið því breytt að skilyrði standa að öðru leyti til þess að hann verði bundinn af fullnaðarkvittunum til gagnáfrýjanda og hafi þar með glatað rétti til að hafa uppi viðbótarkröfu. Slíkar kvittanir taka á hinn bóginn aðeins til tímabilsins til og með greiðslu gagnáfrýjanda á gjalddaga 20. júní 2008, auk þess sem engin festa var á framkvæmd lánssamninganna upp frá því. Að því gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að taka til greina varakröfu gagnáfrýjanda.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um vexti af kröfu gagnáfrýjanda.
Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi, Landsbankinn hf., greiði gagnáfrýjanda, Hótel Húsavík ehf., samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2013.
Mál þetta er höfðað með stefnu þingfestri 25. september 2012 og dómtekið 22. apríl 2013 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Hótel Húsavík ehf., Ketilsbraut 22, Húsavík. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði, aðallega, dæmdur til að greiða stefnanda 81.559.720 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júlí 2010 til þingfestingardags. Jafnframt „að kröfufjárhæðin beri vexti frá 20. júlí 2010 samkvæmt kjörvaxtaflokki 1 hjá stefnda og sé verðtryggð með grunnvísitölu í júlí 2010, 365,3 stig, til greiðsludags“. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði sömu fjárhæð með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. júlí 2010 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Málsatvik
Málsatvik eru í meginatriðum ágreiningslaus.
Stefnandi og stefndi gerðu með sér fjóra lánssamninga á árunum 2006 til 2007 að heildarfjárhæð 205 milljónir íslenskra króna sem hér segir:
1. Lánssamningur 6. janúar 2006 nr. 4884 að fjárhæð 130 milljónir króna: Samkvæmt gr. 2.1 samningsins skyldi greiða lánið að fullu á næstu fimm árum með 60 afborgunum þannig að á fyrstu 59 afborgunargjalddögum, hverjum um sig, átti að greiðast 1/180 hluti lánsfjárhæðarinnar og á lokagjalddaga, 20. janúar 2011, átti að greiðast 121/180 hluti lánsfjárhæðarinnar. Í gr. 4.1 samningsins var að finna heimild til að myntbreyta samningnum yfir í aðrar myntir. Að ósk stefnanda var lánssamningnum myntbreytt í eftirfarandi myntir og hlutföll 21. apríl 2006: kanadadalir 15%, evrur 30%, japönsk jen 20% og svissneskir frankar 35%. Hinn 20. mars 2007 var kanadadölum og evrum breytt í japönsk jen.
2. Lánssamningur 6. janúar 2006 nr. 4887 að fjárhæð 30 milljónir: Samkvæmt gr. 2.1 samningsins skyldi lánið greiðast að fullu á næstu fimm árum með 60 afborgunum, þannig að á fyrstu 59 afborgunardögunum, hverjum um sig, átti að greiðast 1/180 hluti lánsfjárhæðarinnar og á lokagjalddaga hinn 20. janúar 2011 áttu að greiðast 121/180 hluti lánsfjárhæðarinnar. Í gr. 4.1 samningsins var að finna heimild til að myntbreyta samningnum yfir í aðrar myntir. Að ósk stefnanda var samningnum myntbreytt í eftirfarandi myntir 24. apríl 2006: kanadadalir 15%, evrur 30%, japönsk jen 20% og svissneskir frankar 35%. Hinn 20. mars 2007 var kanadadölum og evrum breytt í japönsk jen.
3. Lánssamningur 15. maí 2006 nr. 9465 að fjárhæð 30 milljónir króna: Samkvæmt gr. 2.1 bar stefnanda að greiða lánið að fullu á næstu fimmtán árum með 180 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti. Í gr. 4.1 var að finna heimild til að myntbreyta samningnum yfir í aðrar myntir. Að ósk stefnanda var lánssamningnum myntbreytt í 75% japönsk jen og 25% svissneska franka 18. september 2007. Samhliða myntbreytingunni var lánstími samningsins styttur úr 15 árum í 5 ár.
4. Lánssamningur 22. janúar 2007 nr. 6718 að fjárhæð 15 milljónir króna: Lánssamningurinn var um „fjölmyntalán“ í eftirfarandi myntum og hlutföllum: svissneskir frankar 35%, japönsk jen 35%, evrur 15% og bandaríkjadalir 15%. Samkvæmt gr. 2.1 bar stefnanda að greiða lánið að fullu á næstu fimmtán árum með 180 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti. Stefnandi óskaði eftir að lánið yrði greitt til hans 24. janúar 2007. Hinn 20. mars 2007 var kanadölum og evrum breytt í japönsk jen að beiðni stefnanda.
Í öllum framangreindum samningum var kveðið á um vexti sem skyldu vera breytilegir og jafnháir LIBOR vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 3% vaxtaálags. Vextir skyldu greiðast mánaðarlega út lánstímann, en stefnanda var heimilað að stytta lánstímann samkvæmt nánar tilgreindum skilmálum. Í samningnum var kveðið á um heimild stefnda til að breyta vaxtaálagi að undangenginni tilkynningu. Þá sagði að notfærði lántaki sér heimild til myntbreytingar í íslenskar krónur skyldi miðað við REIBOR-vexti auk vaxtaálags sem aðilar yrðu ásáttir um. Í samningnum kom einnig fram að lánið skyldi bundið vísitölu neysluverðs ef um væri að ræða lán í íslenskum krónum. Ágreiningslaust er að framangreind lán fólu í sér ólögmæta gengistryggingu láns í íslenskum krónum.
Samkvæmt stefnu hætti stefnandi að greiða af framangreindum samningum 20. júní 2008. Stefnandi telur hins vegar að stefnanda hafi borið að ráðstafa greiðslum af tilteknum reikningi sem settur hafði verið stefnda að handveði til tryggingar skulda hans við stefnda. Skilmálum lánssamningana var breytt 3. apríl 2009 og enn á ný 30. júní 2009. Í viðaukunum 3. apríl 2009 voru vanskil stefnanda tilgreind og kveðið á um að þau yrðu greidd upp við undirritun. Einnig var kveðið á um breyttan lánstíma og að næsti gjalddagi afborgana samkvæmt breyttum skilmálum yrði 20. júní 2009. Í viðaukunum 30. júní 2009 var hins vegar kveðið á um breytingar á endurgreiðsluferli og vaxtaálagi samningsins.
Hinn 13. september 2010 gerðu aðilar nýjan lánssamning að fjárhæð 296 milljónir til 25 ára með fyrsta gjalddaga 20. sama mánaðar. Í útborgunarbeiðni, dagsettri sama dag, kemur fram að útborgunarfjárhæðinni eigi að ráðstafa til uppgreiðslu þeirra lána sem áður eru rakin, auk uppgreiðslu á tilteknum veltureikningi, og skuli uppgreiðsla miðast við 20. júlí 2010. Í stefnu segir að sá hluti lánsins sem ráðstafað hafi verið til uppgreiðslu umræddra lána hafi numið 273.166.790 krónum. Tekið er fram í útborgunarbeiðninni að greiðslan sé með fyrirvara um endurkröfu vegna ólögmætrar gengistryggingar samninganna. Samkvæmt stefnu var samningurinn niðurstaða viðræðna stefnanda við stefnda og byggður á svokallaðri 25% leið, þ.e. að stefndi lækkaði kröfur sínar samkvæmt framangreindum lánasamningum um 25%.
Með bréfi 10. október 2011 tilkynnti stefndi stefnanda að framangreindir fjórir lánssamningar féllu undir ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fylgdi bréfinu endurútreikningur miðað við þær forsendur að lánin hefðu borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá lántökudegi. Samkvæmt endurútreikningi stefnda átti stefnandi inneign hjá stefnda samanlagt að fjárhæð 34.952.487 krónur vegna lánssamninga nr. 4884, 6718 og 9465. Stefnandi stóð hins vegar í skuld við stefnda vegna lánssamnings nr. 4887 að fjárhæð 791.404 krónur. Inneign stefnanda eftir endurútreikninginn var því talin 34.161.084 krónur. Við útgreiðslu fékk stefnandi þó greiddar 35.743.892 krónur. Segir í stefnu að í stað þess að áðurnefndum 791.404 krónum hafi verið skuldajafnað við inneign stefnanda hafi fjárhæðin verið greidd honum. Stefnandi hafi því fengið 1.582.808 krónur umfram það sem honum bar.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 15. febrúar 2012 í málinu nr. 600/2011 taldi stefnandi að ekki hefði verið rétt staðið að endurútreikningi lánasamninga sinna og höfðaði loks mál þetta.
Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi vísar til fyrrgreinds fordæmis Hæstaréttar og byggir aðallega á því að ekki hafi verið heimilt að breyta með afturvirkum hætti þeim vaxtakjörum sem giltu samkvæmt hinum umþrættu samningum, sbr. meðal annars af ákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og meginreglum kröfu- og samningaréttar. Forsendur réttarins í fyrrgreindu máli eigi við um stefnanda þessa máls. Stefnandi hafi verið í góðri trú um lögmæti skuldbindingar sinnar og talið greiðslur fela í sér fullar og réttar efndir. Skuldbindingar stefnanda hafi verið til langs tíma eða 5-15 ára, fjárhæð ofgreiðslu af upphaflegum höfuðstól hafi verið veruleg, eða 40% af upphaflegum höfuðstól, og stefnandi hafi ávallt staðið í skilum með greiðslur af hinum umþrættu samningum. Stefndi hafi á gjalddögum skuldfært nánar tilgreinda reikninga í eigu stefnanda fyrir greiðslu höfuðstóls og vaxta og ávallt hafi verið næg innistæða til greiðslu á gjalddögum.
Jafnframt er á því byggt að stefndi sé fjármálafyrirtæki sem samið hafi alla skilmála samninganna einhliða og því sé rétt að stefndi beri áhættuna af hinum ólögmætu ákvæðum og þeim vaxtamun sem af þeim ákvæðum hlaust. Sú háttsemi stefnda að bjóða viðskiptamönnum sínum upp á lán, sem innihéldu skilmála sem starfsmenn stefnda vissu eða máttu vita um að væru ólögmætir, stangist í öllum aðalatriðum á við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þar sem segi að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Því standi það stefnda nær að bera vaxtamun þann sem af hinum ólögmæta skilmála hlýst.
Séu lánasamningar aðila reiknaðir með þeim hætti að miða við að fullnaðaruppgjör vaxta hafi farið fram með greiðslu á gjalddögum og verði ekki leiðrétt nema til framtíðar sé ljóst að stefnandi ofgreiddi, miðað við uppgjör dagsett 20. júlí 2010, samtals 118.184.112 krónur sem skiptist þannig:
Vegna samnings nr. 4884 70.980.226 kr.
Vegna samnings nr. 4887 11.023.188 kr.
Vegna samnings nr. 6718 10.904.024 kr.
Vegna samnings nr. 9465 25.276.634 kr.
Samtals 118.184.112 kr.
Frádregin endurgreiðsla -35.743.892 kr.
Samtals ofgreitt 82.440.220 kr.
Aðalkröfu sína byggir stefnandi á meginreglum kröfu og samningaréttar auk 18. gr. laga nr. 38/2001. Fjárhæð kröfunnar byggist á því að fullnaðaruppgjör vaxta hafi þegar farið fram og því verði ekki breytt. Því sé fjárhæð upphaflegs höfuðstóls hvers samnings dregin frá heildargreiðslum stefnanda inn á höfuðstól samninganna og myndi samtala þessara fjögurra fjárhæða, að frádreginni endurgreiðslu bankans, endanlega kröfufjárhæð.
Stefnandi lítur svo á að vextir og verðbætur af þeim hluta lánasamnings nr. 0106-74-14784 sem hann hafi ofgreitt séu hluti ofgreiðslunnar og stefndi megi ekki hagnast á því að hafa oftekið fé af stefnanda og því beri, auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, að reikna vexti og verðbætur á hina ofteknu fjárhæð á sama hátt og samningur nr. 14784 kveður á um. Með vísan til þess að um sé að ræða óréttmæta auðgun stefnda standi öll rök til þess stefndi endurgreiði stefnanda þá fjarhæð sem hann þannig hefur innheimt, með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda krefst hann þess að sú fjárhæð sem hann ofgreiddi beri vexti frá uppgjörsdegi hinna umþrættu samninga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir sýknukröfu sína aðallega á því að samkvæmt fordæmum Hæstaréttar skuli lán, með ólögmæta gengistryggingu, bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 allt frá upphafsdegi þess en ekki umsamda vexti. Stefndi vísar einnig í þessu sambandi til reglna um brostnar forsendur og 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi hafnar því að víkja beri frá þessari reglu með vísan til sjónarmiða um fullnaðarkvittanir. Sú regla eigi einungis við þegar lánveitandi endurkrefji skuldara. Hér sé hins vegar um það að ræða að skuldarinn endurkrefji lánveitandann um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Sá dómur Hæstaréttar sem stefnandi vísi til eigi því ekki við í málinu.
Stefnandi rökstyður einnig að reglan um fullnaðarkvittanir eigi ekki við í málinu samkvæmt efni sínu, en túlka verði allar undantekningar frá meginreglunni um endurgreiðslu ofgreidds fjár þröngt. Stefndi byggir þannig í fyrsta lagi á því að stefnandi geti ekki talist hafa verið í góðri trú um að greiðslur hans af lánunum væru fullnaðargreiðslur þegar hann innti þær af hendi. Stefnanda hafi ekki getað dulist við myntbreytingarnar að forsenda fyrir því að hann væri að greiða svo lága vexti sem raun ber vitni væri sú að hann tæki á sig gengisáhættu. Öll samskipti aðila hafi byggst á þessari grundvallarforsendu og beri gögn málsins vitni um að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi verið meðvitaður um að vaxtakjör væru háð gengi erlendra gjaldmiðla.
Stefndi byggir í öðru lagi á því að það hafi staðið stefnanda nær en stefnda að bera hallann af því að greiðslur reyndust vera of lágar í sumum tilvikum. Í því samhengi skipti engu máli hvor aðilanna framkvæmdi þá útreikninga sem greiðslurnar byggðust á. Stefnandi vísar þessu til stuðnings til framangreindrar vitneskju stefnanda um vaxtakjör og myntbreytingar sem gerðar voru að beiðni stefnanda. Hann rekur einnig í þessu sambandi að umrædd vaxtakjör hafi verið ákvörðunarástæða fyrir stefnanda við lánveitinguna til stefnanda og honum mátt vera þetta ljóst.
Stefndi vísar til þess, í þriðja lagi, að ekki hafi verið festa í endurgreiðslu lánssamninganna. Lánin hafi verið tekin á árunum 2006 og 2007 og stefnandi því aðeins greitt af lánunum í skamman tíma áður en hann hætti að greiða af þeim í júní 2008. Einnig er bent á að lánssamningnum hafi verið myntbreytt á þessu tímabili 2006-2007 og þar með hafi allar forsendur afborgana breyst. Stefnandi hafi ekki staðið í skilum við gerðar skuldbindingar og aðilar gert með sér samkomulag um skilmálabreytingar.
Stefnandi vísar til skilmálabreytinga á umræddum lánum. Með síðari skilmálabreytingunum hafi greiðsluskilmálum verið breytt á þann veg að á tímabilinu 20. júní 2009 til 20. maí 2010 hafi stefnandi átt að greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af lánssamningunum án þess að tilgreint væri hvernig skipta ætti fjárhæðinni á milli vaxtagreiðslna annars vegar og afborgana höfuðstóls hins vegar. Frá og með 20. júní 2010 hafi stefnandi svo átt að hefja aftur að greiða af lánssamningunum í samræmi við skilmála þeirra. Stefnandi hafi ekki greitt umsamdar afborganir og samningarnir ekki verið greiddir upp fyrr en 20. júlí 2010.
Stefndi telur engan aðstöðumunur hafa verið á milli aðila. Forsvarsmaður stefnanda sé lögfræðingur og rekstrarhagfræðingur að mennt og hafi mikla reynslu af alþjóðlegum viðskiptum og gengismálum. Stefnandi vísar þessu til stuðnings til nánar tiltekinna atvika við myntbreytingar lána sem hann telur sýna sérþekkingu stefnanda í þessu efni. Þá hafnar stefndi því að krafa stefnda geti valdið röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda. Greiðsla lánanna 20. júlí 2010 hafi verið með fyrirvara um endurkröfu vegna ólögmætrar gengistryggingar. Eftir dóm Hæstaréttar hafi stefndi svo brugðist við og endurreiknað skuldir stefnanda. Stefndi bendir á að í tilviki eins samnings hafi stefndi átt viðbótarkröfu gegn stefnanda en í tilviki annars samnings hafi viðbótarkrafa stefnanda aðeins numið 738.071 krónu eða 2,4% af upphaflegum höfuðstól, miðað við 20. júlí 2010 sem er sá dagur sem vextir á lánssamningi nr. 14784 reiknast frá (dskj. nr. 27). Sé ótvírætt að sú leiðrétting sem hafi farið fram gagnvart stefnanda geti ekki á nokkurn hátt talist hafa í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu hans.
Telji dómarinn að miða eigi þessa útreikninga við stöðuna áður en uppgreiðsla lánssamninganna fór fram byggir stefndi á því að slíkur mælikvarði sé ekki tækur í máli þessu. Stefndi vísar til þess að lánssamningarnir voru allir í langvarandi vanskilum eftir 20. júní 2008 og þær greiðslur sem bárust frá stefnanda á þeim tíma voru ýmist innborganir sem tóku mið af greiðslugetu hans hverju sinni eða byggðust á sérstökum úrræðum. Á tímabilinu 22. júní 2009 til 20. maí 2010 hafi stefnandi þannig greitt fasta krónutölu án þess að tilgreint væri hvernig greiðslur skiptust á milli höfuðstóls og vaxta. Verði því að finna annan mælikvarða til að meta hvort um viðbótarkröfu í málinu sé að ræða eða ekki.
Stefndi mótmælir því að það að bjóða viðskiptamönnum sínum upp á lán sem innihéldu skilmála um ólögmæta gengistryggingu hafi brotið gegn fyrrnefndri 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og því standi það stefnda nær að bera vaxtamun sem leiði af ólögmætinu. Vísar stefndi til þess að hér sé vísað til háttsemi starfsmanna LBI hf. sem sé annar og sjálfstæður lögaðili. Þá hafi stefndi ekki haft neinn sérstakan hag af gengistryggingu með hliðsjón af því að hann gat lánað út í erlendri mynt.
Stefndi telur að stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði sér tiltekna fjárhæð með tvöföldum vöxtum, þ.e. annars vegar samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. júlí 2010 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, en hins vegar samkvæmt kjörvaxtaflokki 1 hjá stefnda og vísitölu neysluverðs. Stefndi telur ekki fyllilega ljóst hvort krafan um verðtryggingu kröfufjárhæðarinnar leiði til þess að vextirnir skv. 4. gr. l. nr. 38/2001 reiknist einnig af uppreiknuðum höfuðstól hverju sinni eða hvort stefnandi geri ráð fyrir að vextirnir séu reiknaðir af tveimur mismunandi höfuðstólum. Stefndi hafnar hins vegar með öllu að sjónarmið um óréttmæta auðgun geti leitt til þess að stefnandi eigi rétt til tvöfaldra vaxta í ljósi þess að uppgreiðsla lánssamninganna var fjármögnuð með nýju láni frá stefnda. Vextir af fjárkröfum eigi að bæta kröfuhafa það tjón sem hann verður fyrir við það að geta ekki ávaxtað fjármuni sína. Þar sem stefnandi hafi tekið lán til að greiða lánin upp sé ljóst að hann hafi ekki tapað neinni ávöxtun á fé sitt. Vaxtakrafa stefnanda feli í sér að hann nái fram óréttmætri auðgun, verði á hana fallist.
Stefndi styður kröfu sína um lækkun þeim rökum að líta beri svo á að stefnandi hafi einungis fullnaðarkvittun í höndum til 20. júní 2008 og geti stefnandi ekki borið fyrir sig sjónarmið um fullnaðarkvittanir eftir það tímamark. Stefnandi áréttar í þessu sambandi að í útreikningi hans um lækkun sé litið svo á að vextir hafi verið greiddir að fullu fyrir 20. júní 2008 þótt þeir hafi verið lægri en vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Kvittanir eftir langvarandi vanskil geti ekki haft þau áhrif að ýta til hliðar meginreglu kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Ekki getur talist sama festa í framkvæmd þegar losarabragur er á því hvenær lántaki greiðir af láni sínu. Er þess því krafist að dómkrafa stefnanda verði aldrei hærri en 58.809.238 krónur.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og vísar því til stuðnings til 18. gr. laga nr. 38/2001 sem kveði á um að nota skuli vexti skv. 1. málslið 4. gr. laganna við endurreikning lánssamninga. Hér sé um að ræða sérákvæði sem gengur framar almennu ákvæði 5. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að þau fjögur lán, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, fólu í sér gengistryggingu sem braut gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu samkvæmt ítrekuðum fordæmum Hæstaréttar Íslands. Með vísan til umræddra fordæma, sbr. einnig 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 eins og málsgreininni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, bar við þessar aðstæður að líta með öllu fram hjá ólögmætum ákvæðum samninga um vaxtahæð og verðtryggingu og miða samningsvexti þess í stað við þá vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður, með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Er í málinu ágreiningslaust að stefnandi eigi enga frekari endurgreiðslukröfu gegn stefnda ef lánin eru endurreiknuð á þessum grundvelli frá upphafi lánstímans til þess tíma sem þau voru greidd upp að fullu hinn 20. júlí 2010. Ef á hinn bóginn er við það miðað að óheimilt sé að endurreikna vexti lánsins með vísan til þess að stefnandi teljist að fullu hafa lokið greiðslu samningsvaxta á lánstímanum, er ekki um það deilt að stefnandi eigi kröfu til frekari endurgreiðslu úr hendi stefnda sem nemur stefnufjárhæð. Snýst efnislegur ágreiningur aðila samkvæmt þessu einkum um það hvort stefnda sé heimilt að endurreikna samningsvexti lánanna frá upphafi eða hvort reglur um fullnaðarkvittanir standi slíkri kröfugerð fyrir dyrum að hluta eða í heild.
A
Af dómum Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 verður dregin ályktun um að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu vegna ofgreidds fjár hafnað með vísan til reglna um fullnaðarkvittanir. Svo að téð undantekningarregla eigi við verður þannig að liggja fyrir að skuldari hafi með réttu mátt treysta því að greiðsla hans væri fullnaðargreiðsla og krafa um viðbótargreiðslu feli í sér umtalsverða röskun á fjárhagslegum hagsmunum hans. Er þannig ljóst að reglan um fullnaðarkvittanir miðar fyrst og fremst að því að vernda skuldara, sem réttilega hefur efnt skuldbindingu sína samkvæmt greiðslufyrirmælum kröfuhafa, gagnvart viðbótarkröfum þess síðarnefnda. Hér verður þó að hafa í huga að samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 18. október 2012 er óheimilt að taka tillit til þess hvort skuldari á sjálfur viðbótarkröfu gegn kröfuhafa vegna ofgreidds höfuðstóls. Verður þannig að meta endurgreiðslukröfu stefnda gegn stefnanda vegna vaxta án tillits til þeirrar endurgreiðslu sem stefnandi kann að eiga rétt á vegna of hárra greiðslna af höfuðstóli.
Af forsendum fyrrgreindra hæstaréttardóma er ljóst að við mat á þeirri röskun sem endurgreiðsla hefur í för með sér fyrir skuldara ber að hafa í huga lengd þeirrar skuldbindingar sem um er að ræða og hversu stór hluti hennar hefur þegar verið efndur. Við mat á væntingum skuldara ber að líta til stöðu hans gagnvart lánveitanda svo og annarra atvika við samningsgerðina og framkvæmd samnings. Ber að meta öll þessi atriði heildstætt þegar skorið er úr um hvorum aðila samnings það standi nær að bera það tjón sem leiðir af muni á þegar greiddum samningsvöxtum og fyrrgreindum vöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands.
Að mati dómsins eru atvik málsins að meginstefnu sambærileg þeim sem skorið var úr í framangreindum dómum. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að reglur um fullnaðarkvittanir eigi einungis við þegar lánveitandi krefur skuldara um viðbótargreiðslur. Veltur úrlausn málsins samkvæmt þessu á því hvernig hvernig framangreind viðmið fordæmisréttar horfa við sakarefni málsins.
B
Samkvæmt gögnum málsins hætti stefnandi að greiða af fyrrgreindum lánum 20. júní 2008. Af hálfu stefnanda er á því byggt að þessi vanskil stefnanda hafi verið á ábyrgð stefnanda málsins þar sem hann hafi átt handveð í tilteknum bankareikningi stefnanda og verið heimilt að skuldfæra afborganir lánanna á reikninginn. Í málinu hafa hins vegar ekki verið lögð fram gögn um að nægt fé hafi verið lagt inn á umræddan reikning til að fullnægja þeim skuldbindingum stefnanda við stefnda, sem vísað er til í veðsamningnum, eða með öðrum hætti gert líklegt að stefndi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við ráðstöfun þess fjár sem var á hinum veðsetta reikningi. Í samræmi við almennar reglur ber skuldari sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi greitt kröfu með fullnægjandi hætti, en eins og atvikum málsins er háttað eru engin efni til þess að víkja frá þessari meginreglu. Ber stefnandi því hallann af skorti á sönnum um þetta atriði. Verður þar af leiðandi að leggja til grundvallar að lán stefnanda hafi verið í vanskilum frá og með 20. júní 2008.
Samkvæmt framangreindu er hvorki hægt að fallast á að stefnandi hafi í höndum fullnaðarkvittanir vegna afborgana téðra lána til 20. júní 2008 né að stöðu hans verði jafnað til þess að hann hafi fengið í hendur slíkar kvittanir. Þvert á móti verður að miða við að umrædd lán hafi verið vanskilum þar til þeim var skuldbreytt á árinu 2009 og þau loks greidd upp með nýju láni með uppgreiðsludegi 20. júlí 2010. Einkenndust lögskipti aðila eftir 20. júní 2008 því af ítrekuðum vanskilum stefnanda svo og viðræðum aðila og samningum um uppgjör þessara vanskila. Skortir því bersýnilega á að fullnægt sé skilyrðum samkvæmt fyrrgreindum fordæmum Hæstaréttar til þess að víkja frá meginreglunni um endurgreiðslu ofgreidds fjár á grundvelli fullnaðarkvittana eða sambærilegra atvika fyrir tímabilið eftir 20. júní 2008. Verður því lagt til grundvallar að stefnanda hafi verið heimilt fyrir þetta tímabil að endurkrefja stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr. laganna eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010.
C
Í málinu liggur fyrir að stefnandi var í skilum við stefnda með lán sitt frá 6. janúar 2006, að höfuðstól 160 milljónir króna, í tæplega tvö og hálft ár eða nær helming lánstímans. Þá var stefnandi í skilum með lánið frá 15. maí 2006, að höfuðstól 30 milljónir króna, í rúmlega tvö ár og með lánið frá 22. janúar 2007, að höfuðstól 15 milljónir, í meira en eitt ár, en af öllum lánum var greitt mánaðarlega, þ. á m. samningsvextir. Þegar lánin og afborganir af þeim eru virt í heild verður að fallast á að festa hafi verið í framkvæmd afborgana yfir umtalsverðan tíma og hafi þessar afborganir numið verulegu hlutfalli lánanna. Verður jafnframt að gera ráð fyrir því að stefnandi hafi á þessu tímabili fengið í hendur fullnaðarkvittanir fyrir hverri og einni greiðslu og hafi þannig mátt treysta því að hver og ein afborgun fæli í sér fullnaðargreiðslu samningsvaxta samkvæmt útsendum greiðsluseðlum.
Með vísan til fyrrgreindra fordæma Hæstaréttar verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi verið í góðri trú um lögmæti þeirra skuldbindinga sem hann hafði gengist undir gagnvart stefnda. Var misskilningur stefnanda um þetta atriði því afsakanlegur. Verður ekki á það fallist að stefnandi hafi haft slíka sérþekkingu á fjármálaviðskiptum eða verið í annarri slíkri stöðu gagnvart stefnda að þýðingu hafi við mat á væntingum hans í þessu efni. Hins vegar verður litið til þess að stefndi er fjármálafyrirtæki sem á lánamarkaði bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör og hafði allar forsendur til að ganga úr skugga um lögmæti þeirra við gerð staðlaðra samningsskilmála sinna.
Þegar allt framangreint er virt þykir það standa stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu þar til stefnandi hætti að greiða af lánum sínum 20. júní 2008. Með vísan til ítrekaðra fordæma Hæstaréttar verður fyrrgreindum lögum nr. 151/2010, sem breyttu 18. gr. laga nr. 38/2001, ekki veitt afturvirk áhrif þannig að þessari niðurstöðu verði haggað.
Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir sameiginlega af hálfu málsaðila að viðbótarendurgreiðslukrafa stefnanda nemi 58.809.238 krónum við þær aðstæður að stefnda sé aðeins heimilt að endurreikna vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna greiðslna sem gjaldféllu eftir 20. júní 2008. Samkvæmt þessu er ekki uppi tölulegur ágreiningur um höfuðstól endurgreiðslukröfu stefnanda að fenginni þessari niðurstöðu.
D
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 38/2001 skal því aðeins greiða almenna vexti af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Þá er einnig ljóst af ákvæðum 14. gr. laganna að verðtrygging kröfu verður að styðjast við heimild í samningi. Krafa stefnanda um að endurgreiðslukrafa hans beri vexti „samkvæmt kjörvaxtaflokki 1 hjá stefnda og sé verðtryggð með grunnvísitölu í júlí 2010, 365,3 stig, til greiðsludags“ styðst hvorki við samning aðila, né verður henni fundin stoð í 18. gr. laga nr. 38/2001 eða öðrum ákvæðum laga sem mæla fyrir um sérstakar heimildir til töku vaxta. Hið sama á við um varakröfu stefnanda þess efnis að endurgreiðslukrafa hans beri vexti samkvæmt 4. gr. laganna frá 20. júlí 2010 til þingfestingardags. Er krafa stefnanda um þessa vexti og verðtryggingu því haldlaus, en í málinu hefur því ekki verið hreyft að stefnandi kunni að eiga rétt á vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eða fyrir lögjöfnun frá því ákvæði, sbr. einnig til hliðsjónar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eins og síðastnefndu lögum var breytt með 1. gr. laga nr. 131/2002.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2010 sem breyttu téðri 18. gr. laga nr. 38/2001 bar stefnda skylda til þess að eiga frumkvæði að endurreikningi ólögmætra gengislána, svo sem þeirra sem um ræðir í máli þessu, og tilkynna hlutaðeigandi skuldara um endurútreikning. Fyrir liggur að stefndi tilkynnti stefnanda um endurútreikning 10. október 2011 eða röskum 10 mánuðum eftir að fyrrgreind lög nr. 151/2010 tóku gildi og tæplega 16 mánuðum eftir að dómur Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010 hafði verið kveðinn upp. Samkvæmt stefnu var það þó ekki fyrr en eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 að stefnandi leitaði til stefnda um frekari leiðréttingu og hafði uppi þær efniskröfur sem mál þetta lýtur að. Í málinu liggur ekki fyrir að stefnandi hafi skorað á stefnda að greiða tiltekna viðbótarkröfu þannig að fullnægt hafi verið 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Hefur stefnandi og aðeins uppi kröfu um dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 verður fallist á kröfu stefnanda um dráttarvexti, en fullyrðingu stefnda um að heimild skorti til að krefja um dráttarvexti af kröfunni vegna sérákvæða 18. gr. laganna er hafnað.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hans sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Elísabet Guðbjörnsdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Gunnar Viðar hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Hótel Húsavík ehf., 58.809.238 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. september 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.