Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Faðerni
  • Vefenging
  • Börn
  • Mannerfðafræðileg rannsókn


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. apríl 2007.

Nr. 204/2007.

A

B

C

D

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

E

(Erlendur Gíslason hrl.)

 

Kærumál. Faðerni. Vefenging. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn.

A, B, C og D kröfðust þess að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á lífssýnum úr E, látnum föður þeirra F, G og eftir atvikum þeim sjálfum, vegna sönnunarfærslu í máli sem þau reka á hendur E til vefengingar á faðerni G. Fyrir lá að F og E voru í hjúskap á getnaðartíma og við fæðingu G. F hafði getið G sérstaklega sem sonar síns í erfðaskrá. Í málinu lá fyrir vottorð gefið út af stjórnvöldum í X-landi um að á nánar tilteknum degi árið 1994 hefði F og E fæðst sonurinn G. Talið var að A, B, C og D hefðu ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeim fullyrðingum að fæðingarvottorðið væri falsað og að E hefði ekki verið barnshafandi þegar hún og F fóru til X-lands árið 1994. Þau hefðu að öðru leyti ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að ástæða kynni að vera til að draga skráð faðerni G í efa. Samkvæmt því var kröfu A, B, C og D hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á lífsýnum úr varnaraðila, látnum föður sóknaraðila F, G og eftir atvikum sóknaraðilum, vegna sönnunarfærslu í máli, sem sóknaraðilar reka á hendur varnaraðila til vefengingar á faðerni G. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðilar krefjast þess að hin mannerfðafræðilega rannsókn fari fram. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í úrskurði héraðsdóms. Þar kemur fram að faðir sóknaraðila og varnaraðili voru í hjúskap á getnaðartíma og við fæðingu G. Þá hefur faðir sóknaraðila með erfðaskrá sýnt í verki að hann hafi litið á G sem son sinn. Í 1. mgr. 21. gr. barnalaga er þess sérstaklega getið að þegar skráður faðir barns er látinn sé erfinga hans, er gengur jafnhliða eða næst barninu að erfðum, unnt að höfða mál til vefengingar á faðerninu. Samkvæmt 22. gr., sbr. 15. gr. sömu laga, getur dómari, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og því barni sem í hlut á og ennfremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir, til sönnunarfærslu í dómsmáli til vefengingar á faðerni barns. Þegar svo hagar til sem í þessu máli verður að gera þá kröfu að sýnt sé fram á að ástæða kunni að vera til að vefengja skráð faðerni barnsins.

Í málinu liggur fyrir vottorð 22. nóvember 1994, sem hefur verið gefið út af stjórnvöldum í [...] í X-landi, þar sem fram kemur að F og varnaraðila hafi 17. nóvember 1994 fæðst sonur, G. Hinn 11. október 2006 var gefið út fæðingarvottorð þjóðskrár samkvæmt áðurnefndu vottorði frá X-landi. Sóknaraðilar hafa ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að fæðingarvottorðið sé falsað og að varnaraðili hafi ekki verið barnshafandi þegar hún og F fóru til X-lands 1994. Sóknaraðilar hafa að öðru leyti ekki lagt fram nein gögn til stuðning því að ástæða kunni að vera til að draga skráð faðerni G í efa. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A, B, C og D, greiði óskipt varnaraðila, E, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2007.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu hinn 15. janúar 2007.

          Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að faðir þeirra, F, kt. [...], er lést hinn [...] 2001, og var þá til heimilis að [...] í Reykjavík, sé ekki faðir skráðs sonar hans og stefndu, E, G, kt. [...], [...] og að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnendum málskostnað.

          Dómkröfur stefndu eru þær, að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda og stefnendur verði in solidum dæmd til þess að greiða henni málskostnað að skaðlausu og við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til að greiddur sé virðisaukaskattur af málflutningsþóknun.

          Í þinghaldi hinn 9. mars sl. kröfðust stefnendur þess að mannerfðafræðileg rannsókn, DNA-rannsókn, í samræmi við 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, skuli fara fram á lífssýnum úr stefndu, E, meintum syni hennar og F, G, og föður stefnenda, F, og, ef þörf krefur, stefnendum, A, B, C og D, eða öðrum þeim einstaklingum sem nauðsynleg kunni að vera rannsóknarinnar vegna.  Þá krefjast stefnendur þess að stefnda verði úrskurðuð til að greiða stefnendum málskostnað, að mati dómsins, í þessum þætti málsins.

          Stefndi krafðist þess að synjað yrði kröfu stefnenda um að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn úr lífssýnum stefndu og syni hennar, G.  Auk þess krafðist hún málskostnaðar óskipt úr hendi stefnenda í þessum þætti málsins. 

II

          Stefnda, E, sem er frá [...], og F gengu í hjónaband [...] 1990.  Þau fóru til [...] í nóvember 1994.  Að sögn stefnenda var stefnda þá ekki barnshafandi.  Þau komu til baka til Íslands í janúar eða febrúar 1995 með drenginn G, þá nokkurra vikna gamlan.  Stefnendur eru börn F af fyrra hjónabandi.  Stefnendur segja að faðir þeirra, F, hafi tjáð þeim að hann hafi látið það eftir stefndu að fá drenginn á heimilið, en hann væri sonur frænku stefndu eða úr fjölskyldu hennar.  Stefnda hafi sett honum það skilyrði fyrir áframhaldandi sambúð þeirra að hún ættleiddi drenginn.  Hann hafi því látið það eftir stefndu að fá pappíra í [...] sem sýndu að hún hefði fætt drenginn, en ekki verið sáttur við það sjálfur.  Drengurinn hafi verið skráður sonur þeirra í [...].

          Stefnendur halda því fram að G sé hvorki sonur F né stefndu.  Skráning faðernis G í Þjóðskrá Íslands sé því reist á röngu eða fölsuðu fæðingarvottorði, dagsettu [...].

          Stefnendur kveðast hafa af því brýna hagsmuni og eiga til þess lögvarinn rétt, sem málsaðilar samkvæmt barnalögum, að F föður þeirra látnum, og þar sem þau gangi jafnhliða G að erfðum eftir hann, að fá úr því skorið með dómi hvort faðir þeirra sé réttur og raunverulegur blóðfaðir nefnds G.  Til þess að svo verði gert sé nauðsynlegt að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á stefndu, syni hennar, og föður stefnenda sem og stefnendum sjálfum í samræmi við 15. gr. barnalaga nr. 76/2003.

          Stefnda hafnar því að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn, eins og krafist er af stefnendum.  Ljóst sé af fyrirliggjandi fæðingarvottorði, að barnið G, sé bæði sonur stefndu og F.  Engin gögn hafi verið lögð fram, sem sanni eða geri það líklegt að vottorðin séu röng eða fölsuð, en sönnunarbyrðin um það hvíli alfarið á stefnendum.  Ekki sé hægt að leggja sögusagnir þær, sem málatilbúnaður stefnenda byggi á, til grundvallar niðurstöðu málsins, eða líta svo á að þær einar nægi til að fallast megi á kröfu þeirra um að fram fari blóðrannsókn og aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir (DNA-rannsóknir).  Frásagnir stefnenda sjálfra um það hvað F eigi að hafa sagt þeim á sínum tíma hafi ekkert gildi í þessu sambandi, enda verði að hafa í huga að um sé að ræða frásagnir aðila máls þessa, sem hafi auk þess ríka fjárhagslega hagsmuni af því að barnið G teljist ekki sonur F.  Þá verði að hafa í huga að á getnaðartíma barnsins og við fæðingu hans hafi stefnda og F verið í hjúskap auk þess sem gögn málsins bendi til að F hafi ávallt litið svo á og viðurkennt að G væri sonur sinn.  Ljóst sé því að ekkert tilefni sé til að verða við kröfum stefnenda í máli þessu, hvort sem um sé að ræða dómkröfur eða kröfu um að fram fari blóðrannsókn eða aðrar sérfræðilegar kannanir.

          Um lagarök vísar stefnda til barnalaga, nr. 76/2003 og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

III

          Með málssókn þessari freista stefnendur þess að hnekkja faðerni sonar föður þeirra og stefndu, G.  Til þess neyta þau heimildar 1. mgr. 21. gr. laga nr. 76/2003, sem veitir erfingjum föður barns, að honum látnum, heimild til að höfða dómsmál til vefengingar á faðerni. 

          Stefnendur byggja kröfu sína á því, að faðir þeirra, F, hafi sagt þeim, að hann væri ekki faðir drengsins og stefnda ekki móðir hans.  Hafi hann látið það eftir stefndu, að fá falsaða pappíra frá [...], sem sýndu að hún hefði fætt drenginn.  Hins vegar hafi hann aldrei verið sáttur við þetta sjálfur. 

          Mannerfðafræðileg rannsókn samkvæmt 15. gr. barnalaga getur farið fram til að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið er til vefengingar barns.  Með 1. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003, er erfingjum veitt heimild til höfðunar vefengingarmáls, þó aðeins að föður látnum. 

          Fyrir liggur að F og stefnda voru í hjónabandi er sonur þeirra, G fæddist, [...].  Samkvæmt pater est reglunni telst G því sonur F á grundvelli fæðingarvottorðs, en fullyrðingar stefnenda um að það sé falsað hafa ekki verið studdar haldbærum rökum.  Þá liggur fyrir að árið 1997 gerði F erfðaskrá, þar sem hann arfleiddi stefndu að 1/3 eigna sinna, sem renna skyldi til sonar þeirra, G, ef stefnda félli fyrr frá. 

          Við úrslausn þess hvort beita eigi heimildarákvæði 15. gr. barnalaga og heimila mannerfðafræðilega rannsókn þykir verða að horfa til þess, að samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu, og að framan hefur verið lýst, virðist F hafa litið á G sem sinn son.  Liggur ekkert fyrir um að F hafi aðhafst nokkuð í þá veru að vefengja faðerni G, þrátt fyrir fullyrðingar stefnenda um að F hafi ætíð haft vitneskju um að hann væri ekki faðir barnsins.  Þá styrkir gerð erfðaskrárinnar þann vilja hans að vera faðir drengsins.  Verður því að líta svo á að það hafi ekki verið vilji hans að vefengja faðernið.  Með því að stefnendum er fengin þessi málshöfðunarheimild að föður þeirra látnum þykir verða að horfa til þessa og samkvæmt því sem að framan er rakið verður að ætla að krafan sé í andstöðu við vilja F.  Geta stefnendur því ekki nú, að föður sínum látnum, gert þessa kröfu, sem ætla má að gangi þvert gegn vilja hins látna.  Gegn andmælum stefndu verður því hafnað kröfu um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum málsaðila í því skyni að skera úr um faðerni barnsins G.

          Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.

          Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

          Hafnað er kröfu stefnenda, A, B, C og D, um að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífssýnum úr stefndu, E, föður stefnenda, F, G og stefnendum sjálfum.

          Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.