Hæstiréttur íslands

Mál nr. 806/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber málsmeðferð
  • Þinghald
  • Brotaþoli
  • Vitni


Miðvikudaginn 8. janúar 2014.

Nr. 806/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Víðir Smári Petersen hdl.)

Kærumál. Opinber málsmeðferð. Þinghald. Brotaþoli. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að þinghöld í máli ákæruvaldsins gegn honum yrðu lokuð. X var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa hrist 5 mánaða dóttur sína og A svo harkalega að stúlkan hafi hlotið margvíslega áverka og látist af völdum þeirra nokkrum klukkustundum síðar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði. Í dóminum sagði m.a. að þótt það væri yfirleitt þungbært fyrir ákærða og aðra þá sem mál varðaði að þinghöld í sakamálum væru háð fyrir opnum tjöldum nægði það ekki eitt og sér til þess að þeim yrði lokað, heldur yrði eitthvað meira til að koma svo að það yrði gert. Hafnaði Hæstiréttur því þeirri kröfu að þinghöld málsins skyldu háð fyrir luktum dyrum. Á hinn bóginn féllst dómurinn á að skýrslutaka af vitninu A, móður hinnar látnu stúlku, skyldi fara fram fyrir luktum dyrum samkvæmt a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þinghöld í málinu yrðu lokuð. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að þinghöld málsins verði lokuð.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að þinghöld málsins verði lokuð, en til vara að þinghald verði háð fyrir luktum dyrum meðan vitnið A gefur skýrslu fyrir dómi.

A kærði málið fyrir sitt leyti 20. desember 2013. Hún krefst þess aðallega að þinghöld málsins verði lokuð, en til vara að þinghald verði háð fyrir luktum dyrum meðan hún gefur skýrslu fyrir dómi og einnig á meðan réttarmeinafræðingur gefur þar skýrslu.

Í ákæru er varnaraðila gefin að sök stórfelld líkamsárás með því að hafa hrist dóttur sína og A, B, sem þá var 5 mánaða, svo harkalega að stúlkan hafi hlotið margvíslega áverka og látist af völdum þeirra nokkrum klukkustundum síðar. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008 er brotaþoli sá maður sem kveðst hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots. Ennfremur sá maður sem telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af refsiverðri háttsemi, enda hafi hún beinst að honum sjálfum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna var tekið fram að gagnálykta mætti frá málsgreininni á þann veg að aðrir en þeir, sem afbrot hefur beinlínis beinst að, yrðu ekki taldir brotaþolar í skilningi laganna, svo sem nánustu aðstandendur þess sem brot hefur beinst að. Af þeim sökum telst A sem móðir stúlkunnar ekki vera brotaþoli í málinu.

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt að dómþing skuli háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta, til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði verða að vera fyrir hendi ríkar ástæður til að vikið verði frá fyrrgreindri meginreglu stjórnarskrárinnar um að þinghöld í dómsmálum skuli vera opin. Þótt það sé yfirleitt þungbært fyrir ákærða og aðra þá sem mál varðar að þinghöld í sakamálum séu háð fyrir opnum tjöldum nægir það eitt og sér ekki til þess að þeim verði lokað, heldur verður eitthvað meira til að koma svo að það verði gert, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. apríl 2002 í máli nr. 179/2002 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 1406. Samkvæmt því er þeirri kröfu hafnað að þinghöld málsins skuli háð fyrir luktum dyrum.

Af hálfu vitnisins A er á því byggt að hún muni þurfa við skýrslutöku fyrir dómi að skýra frá síðustu stundunum í lífi dóttur sinnar, sambandi sínu við varnaraðila, fyrrum sambýlismann sinn, og öðrum afar persónulegum og viðkvæmum atriðum. Með skírskotun til þess er á það fallist með vitninu og sóknaraðila að samkvæmt a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 skuli skýrslutaka af henni fara fram fyrir luktum dyrum.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur, að öðru leyti en því að skýrslutaka af vitninu A skal fara fram fyrir luktum dyrum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur, að öðru leyti en því að skýrslutaka af vitninu A skal fara fram fyrir luktum dyrum.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013.

                Ákærða er gefin að sök stórfelld líkamsárás með því að hafa hrist dóttur sína svo harkalega 17. mars 2013 að hún hlaut mikla áverka og lést í kjölfarið. Hann neitar sök. Verjandi ákærða hefur krafist þess að þinghöld verði lokuð. Vísar hann til a liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 til stuðnings kröfunni. Réttargæslumaður brotaþola tók undir kröfuna. Báðir telja þeir nauðsynlegt að hlífa þeim, sem upp eru taldir í nefndu ákvæði. Sækjandinn tók einnig undir kröfuna þótt hann telji ekki nauðsyn bera til að hlífa ákærða.

Krafan var sett fram við þingfestingu málsins 16. desember og hafnaði dómarinn henni. Málflytjendur kröfðust þess að úrskurðað yrði um kröfuna. Var krafan tekin til úrskurðar eftir að þeir höfðu tjáð sig um hana.

                Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar skulu dómþing háð í heyranda hljóði. Frá þessari meginreglu má þó víkja, sbr. nefnt ákvæði sakamálalaganna. Það þurfa þó að vera ríkar ástæður til þess að víkja frá meginreglunni um að þinghöld í sakamálum séu opin. Nær öllum sakborningum er það erfitt, og sumum mikil raun, að sitja í þinghaldi þar sem fjallað er um ákærur á hendur þeim. Hið sama á við um brotaþola og aðra sem tengjast honum og ákærða. Þótt ákærði sé ákærður fyrir mjög alvarlegan glæp er það út af fyrir sig ekki næg ástæða til að loka þinghaldinu. Ekki verður séð af gögnum málsins að fyrir hendi séu einhver önnur atriði sem ættu að valda því að hlífa ætti ákærða um fram aðra sakborninga sem þurfa að sæta því að sitja í opnum þinghöldum þar sem fjallað er um mál þeirra. Hið sama á við um brotaþola og aðra sem tengjast henni og ákærða. Samkvæmt þessu er því hafnað að loka þinghöldum við meðferð málsins.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Hafnað er kröfu um að þinghöld í málinu verði lokuð.