Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2016
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Sjúklingatrygging
- Sjúkrahús
- Fyrning
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2016. Hann krefst þess að stefnda Sjúkratryggingum Íslands verði gert að greiða sér 9.962.945 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. október 2007 til 15. apríl 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefnda íslenska ríkinu verði gert að greiða sér 10.437.946 krónur með sömu vöxtum og áður greinir. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi Sjúkratryggingar Íslands krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi íslenska ríkið krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
I
Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda var hann í orlofsferð á eyjunni Sardiníu við Ítalíu þegar hann fann 21. ágúst 2003 fyrir máttleysi í hægri fæti, sem hafi þó liðið hjá. Daginn eftir hafi hann verið mjög þreyttur og legið fyrir, en á þriðja degi hafi eiginkona hans veitt því athygli að hann hafi beitt hægri hendi sérkennilega og þau því leitað á læknavakt. Þaðan hafi hann verið sendur á sjúkrahús og greining leitt í ljós að hann hafi orðið fyrir heilablóðfalli. Þar hafi hann dvalið uns hann var sendur til Íslands með sjúkraflugi 31. sama mánaðar. Engin gögn munu hafa fylgt áfrýjanda hingað um læknismeðferð eða dvöl hans á sjúkrahúsi á Sardiníu og hefur engra slíkra gagna verið aflað síðan, en í skýrslu erlends læknis, sem sinnti honum í sjúkraflugi, sagði meðal annars samkvæmt framlagðri þýðingu: „Lagður inn á sjúkrahús 27/08/03 með helftarslekju hægra megin sem þróaðist smám saman tvo daga á undan. Sneiðmyndataka staðfesti blóðþurrðarheilablóðfall vinstra megin (því miður fengust myndirnar ekki afhentar af sjúkrahúsi). Flogaveikikast einu sinni, á innlagningardegi, meðhöndlað með „Gardenale“. Háþrýstingur skráður ... Eiginkona fékk stutta læknaskýrslu frá ítalska sjúkrahúsinu“.
Eftir komu hingað til lands var áfrýjandi fluttur á Landspítala og látinn þar rakleitt í einangrun í samræmi við reglur spítalans um sjúklinga, sem kæmu beint af erlendu sjúkrahúsi, vegna hættu á að þeir bæru með sér fjölónæma sýklastofna. Í tengslum við það munu strax hafa verið tekin sýni til ræktunar á rannsóknarstofu, en mistök verið gerð við það og því þurft að endurtaka rannsóknina, sem hafi leitt til þess að áfrýjandi hafi verið í einangrun um tvöfalt lengur en annars hefði orðið. Þegar eftir innlögn á Landspítala 31. ágúst 2003 mun sérfræðingur í taugalækningum hafa rætt við áfrýjanda og var sá læknir eftir gögnum málsins skráður í skýrslum vegna áfrýjanda sem ábyrgur sérfræðingur þótt þær virðist engar hafa stafað frá honum, en annars læknis var síðan getið í þessu hlutverki frá 3. september sama ár. Á hinn bóginn mun deildarlæknir strax í byrjun hafa átt viðtal við áfrýjanda og skráði læknirinn í skýrslu að áfrýjandi hafi tíu dögum fyrr fengið í stutta stund dofa hægra megin í líkamanum, sem fljótlega hafi gengið alveg til baka. Að kvöldi sama dags hafi áfrýjandi aftur fundið fyrir dofa ásamt máttleysi og legið síðan inni á sjúkrahúsi á Sardiníu í tíu daga þar til hann hafi verið fluttur til Íslands í sjúkraflugi. Við komu á sjúkrahúsið ytra hafi áfrýjandi fengið krampa, dofi hafi liðið hjá eftir tvo til þrjá daga en máttleysið ekki. Án frekari skýringa var einnig tekið fram að áfrýjanda hafi versnað á þriðja degi vistarinnar á erlenda sjúkrahúsinu. Þar hafi tvívegis verið tekin sneiðmynd af höfði áfrýjanda, í fyrra skiptið við komu á sjúkrahúsið, og var haft eftir eiginkonu hans að sú mynd hafi leitt í ljós stóra heilablæðingu. Í lok þessarar skýrslu var greint frá ástandi áfrýjanda við skoðun og meðal annars tekið fram að máttur hans hafi minnkað meira í handlegg en fæti hægra megin, en viðbrögð hafi verið lífleg og snertiskyn ásamt sársaukaskyni eðlilegt. Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla á eyðublaði frá Landspítala fyrir skráningu hjúkrunar og var þar meðal annars ritað við dagsetninguna 31. ágúst 2003: „Kemur á deild kl. 18.30 í fylgd sjúkrabíls og eiginkonu. Kemur frá Sardiníu m. sjúkraflugi v. stroke en eiginkona segir lækna úti hafa séð heilablæðingu á CT ... Segist ekki hafa fengið blóðþynningu úti. Fékk líka Grand Mal krampa við innlögn á spítalann í Sardiníu, er á Fenemal við því og verið að trappa hann niður. Er með partial hæ. paresu en getur lyft fæti + hendi hálfa leið ... Getur borðað og kyngt án erfiðleika.“ Næsta dag var tekið fram í skýrslunni að áfrýjandi hafi haldið til í rúmi og látið vel af sér, en það væri „beðið með uppvinnslu rannsóknir þar til einangrun verður aflétt.“ Þá var þess getið 3. september 2003 að aftur hafi þurft að taka sýni og væri áfrýjandi „svekktur yfir framlengingu“ á einangrun, en næsta dag að þess væri vænst að einangrun lyki degi síðar og hafi verið sótt um dvöl fyrir áfrýjanda til endurhæfingar á tveimur stöðum.
Fyrir liggur að áfrýjandi hafi verið færður úr einangrun að morgni 5. september 2003 og sneiðmynd þá verið tekin af höfði hans. Hún hafi sýnt „tvö heildrep í vinstra heilahveli“, svo sem komist var að orði í yfirmatsgerð, sem nánar verður getið hér síðar. Í framhaldi af þeirri myndatöku mun áfrýjandi hafa gengist undir sjúkraþjálfun og verið látinn gera æfingar, en fengið síðan skyndilega einkenni um enn eitt heilablóðfall. Hafi hann fengið alvarlega lömun í hægri hlið líkamans, meira í fæti en hendi, skerðingu á talskilningi og „ruglástand“, eins og sagði í yfirmatsgerð. Sneiðmynd mun aftur hafa verið tekin af höfði áfrýjanda, en hún hvorki leitt í ljós blæðingu né nokkuð annað, sem ekki hafi sést á fyrri myndinni sama dag. Taltruflanir áfrýjanda munu hafa gengið til baka á meðan hann lá inni á taugalækningadeild Landspítala, en þaðan var hann fluttur 18. september 2003 á endurhæfingardeild. Í bréfi frá þeim degi, sem sérfræðingur á taugalækningadeild gerði í tengslum við þann flutning, kom meðal annars fram að við innlögn á sjúkrahúsið hafi verið spurning hvort áfrýjandi „hefði fengið heilavefsblæðingu og var hann því ekki settur á Magnýl fyrr en síðar“. Jafnframt sagði eftirfarandi: „Haldinn var fjölskyldufundur 09.09.03. Fjölskyldan mjög óánægð með meðferð bæði hér heima og úti. Henni fannst óþarfa dráttur vera á uppvinnslu og meðferð.“
Landlæknir lét frá sér fara álitsgerð 1. mars 2004 í tilefni af því að dóttir áfrýjanda hafi 29. september 2003 ritað honum bréf, þar sem óskað hafi verið „athugunar á þeirri meðferð“ sem áfrýjandi hafi fengið á taugalækningadeild Landspítala „í kjölfar heilablóðfalls.“ Í málinu liggur það bréf ekki fyrir og heldur ekki greinargerð sérfræðings á taugalækningadeild, sem vísað var til í álitsgerðinni. Í henni voru fyrrgreind atvik rakin stuttlega, en síðan voru í sérstökum kafla gerðar ýmsar athugasemdir við færslu sjúkraskrár áfrýjanda, þar á meðal um að „engin góð lýsing“ hafi verið gerð um skoðun á honum við komu, upplýsingar hafi stangast á um lyfjagjöf á þeim tíma og ekki hafi verið gerð „grein fyrir áhættuþáttum.“ Í framhaldi af því sagði meðal annars: „Hér verður einkum svarað þeirri spurningu, hvort meðferð hafi dregist óeðlilega og hvaða afleiðingar það kunni að hafa haft fyrir gang sjúkdómsins. Kröftugri blóðþynningarmeðferð er eingöngu beitt þegar meðferð getur hafist innan nokkurra klukkustunda, en um 10 dagar höfðu liðið frá byrjun einkenna þar til sjúklingurinn komst til meðhöndlunar á Landspítala. Tími til að hefja slíka meðferð var því liðinn. Meðferð með acetylsalicylsýru (Magnyl) er notuð til að freista þess að hindra frekari áföll í framtíðinni, fremur en að um bráðameðferð sé að ræða. Vegna lélegrar sjúkraskrár er ekki gott að sjá hvenær slík meðferð var hafin og reyndar verður að teljast ólíklegt að hún hefði haft afgerandi áhrif á framvindu sjúkdómsins, sem þó er ógerningur að segja til um. Ekki er heimilt að víkja frá reglum um ræktanir frá sjúklingum sem koma erlendis frá nema fyrirsjáanlegt sé að um líf og dauða sé að tefla að meðferð verði hafin, sem ekki er í tilvikum eins og því sem lýst er hér ... Um er að ræða 58 ára gamlan mann, sem leggst inn á taugalækningadeild í kjölfar legu á sjúkrahúsi á Sardiníu eftir heilablóðfall ... en upplýsingar skorti frá því sjúkrahúsi. Vegna svokallaðrar MOSA-ræktunar dróst uppvinnsla og ekki var vitað með vissu um eðli heilablóðfallsins. Vegna reglna sjúkrahússins um sýklaræktanir frá þeim sem koma frá sjúkrahúsum erlendis var um töf á fullkominni greiningu og meðferð að ræða og varð töfin lengri vegna mistaka við sýnistöku. Vegna þess tíma sem liðið hafði frá áfallinu var ekki upp á sérhæfða meðferð að bjóða, en þessar aðstæður munu hafa leitt til þess að fyrirbyggjandi meðferð dróst og sjúklingur fékk aukin einkenni um heilablóðfall, sem þó verður að teljast ólíklegt að hægt hefði verið að komast hjá ... Að svo miklu leyti sem hægt er að miða við sjúkraskrána hefur ekki verið nægileg festa í meðferðinni og átelja verður þann drátt á árvekni að einangrun skuli dragast vegna rangrar sýnatöku. Óánægja ættingja er skiljanleg ... og ættingjar fá þá mynd að slapplega hafi verið staðið að verki, þótt færa megi að því rök að ólíklegt sé að það hefði breytt framgangi mála að öðru leyti.“
Af gögnum málsins virðist mega ráða að áfrýjandi hafi legið inni á endurhæfingardeild Landspítala fram til 5. nóvember 2003, en upp frá því verið svonefndur dagsjúklingur uns hann útskrifaðist 19. maí 2004. Eftir það hafi hann verið „áfram í ambulant sjúkraþjálfun þrisvar í viku“, svo sem sagði í bréfi sjúkrahússins til tryggingayfirlæknis 30. september 2004, en þar var einnig tekið fram að áfrýjandi hafi verið „í stöðugri en hægri framför“.
Með bréfi 3. júlí 2008 leitaði áfrýjandi bóta á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Þar var meðal annars byggt á því að „margt hefði betur mátt fara við greiningu og meðferð“ á taugalækningadeild Landspítala og kynni það að hafa valdið áfalli áfrýjanda 5. september 2003. Stefndi Sjúkratryggingar Íslands hafnaði bótaskyldu 19. janúar 2009 á þeim grunni að krafa, sem áfrýjandi kynni að hafa átt, væri fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000, en fjögurra ára fyrningartími eftir því ákvæði hafi í síðasta lagi byrjað að líða þegar landlæknir lauk álitsgerð sinni 1. mars 2004. Áfrýjandi óskaði eftir því við stefnda Sjúkratryggingar Íslands 23. janúar 2009 að hann endurskoðaði þessa afstöðu, en hún var áréttuð í bréfi hans til áfrýjanda 18. febrúar sama ár.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 5. október 2011 og krafðist þess að viðurkennd yrði annars vegar „bótaskylda stefnda Sjúkratrygginga Íslands úr sjúklingatryggingu“ vegna meðferðar, sem áfrýjandi hafi fengið í framhaldi af blóðtappa í heila, og hins vegar að stefndi íslenska ríkið bæri „bótaábyrgð“ vegna sömu meðferðar. Í stefnunni var meðal annars byggt á því að áfrýjandi ætti rétt til bóta frá stefnda Sjúkratryggingum Íslands, bæði vegna læknismeðferðar á Sardiníu og á Landspítala eftir að hann var fluttur hingað, en í stefnunni var krafa hans á hendur stefnda íslenska ríkinu nefnd varakrafa.
Samkvæmt beiðni áfrýjanda 17. apríl 2012 voru 5. september sama ár dómkvaddir tveir menn, annars vegar heila- og taugaskurðlæknir og hins vegar hæstaréttarlögmaður, til að meta tjón áfrýjanda, sem rekja mætti til ófullnægjandi læknismeðferðar á sjúkrahúsi á Sardiníu og Landspítala í ágúst og september 2003. Laut beiðnin nánar tiltekið að mati á því hvenær heilsufar áfrýjanda hafi orðið stöðugt, hversu lengi hann hafi verið tímabundið óvinnufær og hvert væri tímabil til þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt hver varanlegur miski hans væri og varanleg örorka og hvort hann þyrfti í framtíðinni að gangast undir sjúkraþjálfun og taka lyf vegna heilsubrests, sem rekja mætti til þessarar meðferðar, og þá í hvaða mæli. Í matsgerð 20. febrúar 2013 var talið að upplýsingar skorti um meðferð áfrýjanda á sjúkrahúsi á Sardiníu, en með þeim fyrirvara að hann hafi þar verið greindur með blóðtappa í heila var lýst því áliti að þegar hefði átt að hefjast handa við að gefa honum lyfið aspirin eða acetylsalicylsýru til að draga úr hættu á að blóðtappi myndaðist á ný. Þetta hafi hvorki verið gert á sjúkrahúsinu ytra né eftir að áfrýjandi var lagður inn á Landspítala. Það væri „afar erfitt að svara til um hvort Asperin meðferð hefði komið í veg fyrir versnun einkenna“, en „verulegar líkur“ væru fyrir því að hún „hefði dregið úr hættu á frekari blóðtappamyndunum í heila.“ Á sjúkrahúsi á Sardiníu hafi verið byrjað að gefa áfrýjanda lyf með heitinu Lasix, sem væri vatnslosandi, og hafi eiginkona hans sagt hann hafa fengið það „sem eins konar bjúgmeðferð vegna blóðtappans“, en þetta teldu matsmenn ekki eiga „stoð í nútíma læknisfræði“. Áfrýjanda hafi þó áfram verið gefið þetta lyf á Landspítala eftir komu þangað 31. ágúst 2003. Í gögnum um innritun áfrýjanda á Landspítala hafi ýmist verið rætt um að hann hafi fengið blóðtappa í heila eða blæðingu, en í stað þess að taka sneiðmynd af höfði til að ganga úr skugga um greiningu hafi hann verið settur í einangrun „með óstaðfesta sjúkdómsgreiningu.“ Þótt áfrýjandi hafi komið af erlendu sjúkrahúsi hafi ekkert komið í veg fyrir sneiðmyndatöku hefði sérfræðingur talið hana nauðsynlega, en mikilvægi hennar mætti ráða af því að á meðan áfrýjandi hafi verið hafður í einangrun hafi þrisvar verið bókað „í fyrirmælum“ um hann að taka ætti slíka mynd. Vegna „vankunnáttu“ hafi verið staðið ranglega að töku sýnis í tengslum við varnir Landspítala gegn fjölónæmum sýklum og hafi áfrýjandi verið hafður í einangrun í fimm daga í stað tveggja eða þriggja, en „ábyrgður sérfræðingur“ hafi ekki sinnt áfrýjanda meðan hann sætti einangrun fyrr en frá 3. september 2003. Blóðprufur, sem fyrst hafi verið teknar 1. þess mánaðar, hafi sýnt að áfrýjandi væri „þurr, í hlutfallslegum vatnsskorti og blóð hans var með verulega hækkað seigjugildi“, sem væru „staðfestir áhættuþættir heilablóðfalla.“ Mætti hugsanlega rekja þetta til þess að áfrýjanda hafi verið gefið lyfið Lasix, sem áður var getið. Matsmenn teldu engan veginn unnt að fullyrða að áfrýjandi hefði náð fullum bata ef staðið hefði verið á annan hátt að meðferð hans og væri því „eðlilegt að miða við það að helmingur einkenna af völdum blóðtappa í heila sé vegna ófullnægjandi meðferðar.“ Ekki yrði greint milli afleiðinga þeirrar meðferðar á Sardiníu annars vegar og Landspítala hins vegar, en til hennar mætti rekja tímabundna óvinnufærni í fimm mánuði, sex mánaða tímabil þjáninga, þar af þrjá mánuði rúmliggjandi, 20 stiga varanlegan miska og 25% varanlega örorku. Heilsufar áfrýjanda hafi orðið stöðugt 31. ágúst 2004 og þyrfti hann einhverja sjúkraþjálfun áfram eftir það, en ekki lyf af þessum sökum.
Að fenginni þessari matsgerð höfðaði áfrýjandi framhaldssök í málinu 19. apríl 2013 og gerði þar sömu kröfur um greiðslu úr hendi stefndu og hann gerir nú fyrir Hæstarétti samkvæmt áðursögðu. Af sjálfu leiðir að áfrýjandi féll með þeim dómkröfum frá upphaflegum kröfum sínum á hendur stefndu um viðurkenningu á bótaskyldu þeirra gagnvart sér.
Stefndi íslenska ríkið krafðist þess í þinghaldi 25. júní 2013 að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn. Við þeirri kröfu varð héraðsdómur 7. apríl 2014 með því að dómkveðja sérfræðing í heila- og taugasjúkdómum, sérfræðing í almennum lyf- og gigtlækningum og hæstaréttarlögmann. Yfirmatsmenn luku störfum með matsgerð 16. janúar 2015 og var þar meðal annars fjallað í sérstökum kafla um hvort meðferð áfrýjanda á Landspítala hafi verið ábótavant og hvort rekja mætti heilsutjón hans til þess og þá í hvaða mæli, en jafnframt hverjar afleiðingar hafi orðið af meðferð á sjúkrahúsi á Sardiníu. Töldu yfirmatsmenn að annmarkar hafi verið á meðferð áfrýjanda á Landspítala að því leyti að í fyrsta lagi hafi ekki verið reynt að afla upplýsinga frá sjúkrahúsi á Sardiníu „ef ekki á komudag þá a.m.k. næsta dag“, enda hafi þá aðeins legið fyrir það eitt samkvæmt bréfi læknis, sem fylgdi áfrýjanda í sjúkraflugi, að hann hafi fengið „heiladrep í vinstra heilahveli“. Í öðru lagi hefði verið eðlilegt að fá svo fljótt sem auðið væri sneiðmynd af höfði áfrýjanda til að staðfesta ástand hans og greiningu, en einangrun, sem hann hafi verið settur í, hefði „ekki átt að koma í veg fyrir nauðsynlegar rannsóknir“ í því skyni. Hafi því ekki legið fyrir staðfestar upplýsingar um sjúkdómsgreiningu á tímabilinu frá 31. ágúst til 5. september 2003 og hafi það leitt til tafa á viðeigandi meðferð. Í þriðja lagi væri athugavert að ekki hafi verið skráður sérfræðingur fyrir meðferð áfrýjanda fyrr en 3. september sama ár. Í fjórða lagi hafi á sjúkrahúsi á Sardiníu verið hafin meðferð með lyfinu Lasix, sem væri ætlað að vinna gegn bjúg og háum blóðþrýstingi, en ekkert lægi fyrir um að bjúgur hafi gert vart við sig og hafi blóðþrýstingur áfrýjanda í sjúkraflugi og við innlögn á Landspítala verið eðlilegur. Væri ekkert vitað um ástæðu þess að byrjað hafi verið að gefa áfrýjanda þetta lyf. Ekki væri „talið æskilegt að lækka blóðþrýsting mikið eftir blóðtappa til að viðhalda blóðflæði til heilans“. Þá væri ofþornun þekkt aukaverkun af þessu lyfi og hafi einnig komið fram í sænskri sérlyfjaskrá að það gæti blóðtappi einnig verið. Við rannsókn á blóðsýni úr áfrýjanda við innlögn á Landspítala hafi verið merki um þurrð og enn frekar að morgni 5. september 2003. Hefði því átt að hætta þessari lyfjagjöf. Í fimmta lagi hefði átt að hefja meðferð með lyfinu aspirin við innlögn á sjúkrahús á Sardiníu, en erfitt væri að fullyrða hvort dregið hefði úr líkum á endurteknu áfalli ef sú meðferð hefði byrjað við innlögn á Landspítala. Það hafi þó verið gert eftir áfall áfrýjanda 5. september 2003 og hafi dráttur á því að minnsta kosti svipt áfrýjanda „þeim möguleika að með því mætti draga úr hættu á og alvarleika síðara áfalls“, þannig að eðlilegt hefði verið að hefja slíka meðferð þegar við innlögn á Landspítala. Teldu yfirmatsmenn samkvæmt þessu að meðferð áfrýjanda á báðum sjúkrahúsum „hafi að nokkru verið ábótavant“ og skipti þar mestu að „blóðflöguhemjandi meðferð“ hafi ekki byrjað fyrr en 5. september 2003 eftir endurtekið áfall áfrýjanda. Væru „meiri líkur en minni til þess að með blóðflöguhemjandi meðferð hefði mátt draga úr líkum á því áfalli eða a.m.k. umfangi þess.“ Jafnframt væru meiri líkur en minni á því að ófullnægjandi meðferð, sem hafi falist í öllu framangreindu, hafi „leitt til þess að heilsufarslegar afleiðingar eru meiri en ella.“ Væri rétt að skipta þessum afleiðingum þannig að helmingur þeirra stafaði af ófullnægjandi meðferð. Aðgreining afleiðinga ófullnægjandi meðferðar milli sjúkrahúss á Sardiníu og Landspítala gæti „aldrei orðið annað en matskennd“, en með því að rekja mætti „stærstan hluta aukinna afleiðinga“ til sjúkrahússins ytra væri „að álitum“ rétt að telja þær að ¾ hlutum stafa af meðferð þar og að ¼ af meðferðinni á Landspítala. Yfirmatsmenn töldu heilsufar áfrýjanda hafa orðið stöðugt 21. ágúst 2004, en vegna afleiðinga ófullnægjandi læknismeðferðar hafi hann samanlagt verið tímabundið óvinnufær í sex mánuði frá sama degi, hann hafi að því er varðar þjáningabætur verið veikur jafn langan tíma, þar af rúmliggjandi í 128 daga, varanlegur miski hans af þessum sökum væri 20 stig og varanleg örorka 25%. Þá mætti ætla að áfrýjandi þyrfti í framtíðinni á sjúkraþjálfun að halda fimmtán skipti á ári og yrði sú þörf að helmingi rakin til ófullnægjandi meðferðar á sjúkrahúsunum tveimur, en hún hefði á hinn bóginn ekki valdið aukinni þörf á lyfjum um ókominn tíma.
II
Samkvæmt málflutningi áfrýjanda fyrir Hæstarétti á að skilja dómkröfur hans svo að hann krefjist bóta að höfuðstól samtals 10.437.946 krónur. Af þeirri fjárhæð krefji hann stefnda Sjúkratryggingar Íslands um 9.962.945 krónur, sem svari að mati hans til framreiknaðrar fjárhæðar hámarksbóta úr sjúklingatryggingu samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, en stefnda íslenska ríkið um mismuninn. Verði sá fyrrnefndi dæmdur til að greiða lægri fjárhæð eða enga verði sá síðarnefndi dæmdur til að greiða að sama skapi hærri fjárhæð eða hana alla.
Í málatilbúnaði áfrýjanda er framangreind heildarkrafa hans sundurliðuð þannig að í fyrsta lagi krefst hann bóta á grundvelli 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga vegna kostnaðar af sjúkraþjálfun til frambúðar. Þann kröfulið reiknar áfrýjandi þannig að samkvæmt matsgerð muni hann þurfa slíka þjálfun fimmtán sinnum á ári, en helminginn af þeirri þörf megi rekja til afleiðinga læknismeðferðar á sjúkrahúsi á Sardiníu og Landspítala. Á þeim grunni og samkvæmt útreikningum á lífslíkum íslenskra karla muni kostnaður áfrýjanda af þessu nema samkvæmt verðskrá stefnda Sjúkratrygginga Íslands frá 1. janúar 2013 samtals 284.548 krónum. Í öðru lagi krefst áfrýjandi greiðslu á 2.025.057 krónum vegna tímabundins atvinnutjóns í sex mánuði, sem samkvæmt matsgerð megi rekja til afleiðinga meðferðar á sjúkrahúsunum tveimur. Taki þessi liður í kröfu áfrýjanda mið af samanlagðri fjárhæð hreinna tekna hans af eigin atvinnurekstri á árinu 2002 og reiknuðu endurgjaldi til hans úr þeim rekstri, en hann segir tekjur sínar næstu tvö árin á undan hafa verið „sambærilegar“. Í þriðja lagi gerir áfrýjandi kröfu um 441.350 krónur í þjáningabætur og kveðst hann reikna þá fjárhæð eftir ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga á þeim grundvelli að hann hafi verið veikur af völdum meðferðarinnar á báðum sjúkrahúsunum samtals í sex mánuði, þar af rúmliggjandi helming þess tíma. Í fjórða lagi krefst áfrýjandi 1.750.500 króna í bætur vegna varanlegs miska, en sú fjárhæð er reiknuð eftir ákvæðum 4. gr. skaðabótalaga og miðast við að miskinn nemi 20 stigum, sem eftir matsgerð verði rakinn til meðferðar á sjúkrahúsunum. Loks er í fimmta lagi gerð krafa um greiðslu á 5.936.491 krónu í bætur vegna varanlegrar örorku og er þar lagt til grundvallar að hún sé eftir niðurstöðu matsgerðar 25% vegna afleiðinga meðferðar á sjúkrahúsunum, en fjárhæð þessa kröfuliðar sé reiknuð eftir framreiknuðum meðaltekjum áfrýjanda árin 2000, 2001 og 2002.
III
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 eiga sjúklingar, sem verða fyrir tjóni hér á landi vegna sjúkdómsmeðferðar á sjúkrahúsi, rétt til bóta eftir nánari fyrirmælum laganna. Frá þeirri meginreglu þessa ákvæðis, að réttur til bóta sé bundinn við tjón af meðferð hér á landi, er gerð sú undantekning í 2. mgr. sömu lagagreinar að sjúklingi er veittur sams konar bótaréttur ef brýna nauðsyn hefur borið til að vista hann á sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðisstofnun erlendis og meðferð þar hefur valdið honum tjóni. Um nauðsyn á slíkri vistun er í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000, eins og henni var breytt með 61. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, vísað til 23. gr. síðarnefndu laganna, en fram að þeirri breytingu var þar vísað til 35. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 112/2008, sem í meginatriðum svarar efnislega til eldri fyrirmæla í 35. gr. laga nr. 117/1993, eru ákvæði um greiðslu úr sjúkratryggingum á kostnaði af alþjóðlega viðurkenndri læknismeðferð erlendis handa sjúkratryggðum manni, sem brýn nauðsyn er á, ef ekki er unnt að veita slíka aðstoð hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 112/2008 ákveður sjúkratryggingastofnun hvort skilyrði fyrir þessu séu uppfyllt og hvar sá sjúkratryggði skuli fá meðferð, en sama hlutverk hafði sérstök nefnd á hendi eftir 35. gr. laga nr. 117/1993, sem átti við á þeim tíma sem áfrýjandi lagðist inn á sjúkrahús á Sardiníu í ágúst 2003. Áfrýjandi leitaði eftir gögnum málsins sjálfur á það sjúkrahús og var vist hans þar á engan hátt komin til eftir reglum 35. gr. laga nr. 117/1993, hvorki að því er varðar ástæðu fyrir henni né aðdraganda hennar. Af þessum sökum getur áfrýjandi ekki krafið stefnda Sjúkratryggingar Íslands um bætur vegna tjóns, sem rekja mætti til meðferðar hans á sjúkrahúsi á Sardiníu. Kröfu um bætur fyrir slíkt tjón verður enn síður beint að stefnda íslenska ríkinu á grundvelli almennra reglna um sakarábyrgð starfsmanna Landspítala og vinnuveitandaábyrgð þessa stefnda á þeim. Kemur því ekki annað hér til frekari skoðunar en hvort áfrýjandi geti átt rétt til bóta vegna tjóns af meðferð, sem hann fékk á Landspítala frá 31. ágúst til 5. september 2003.
Áfrýjandi reisir kröfu sína gagnvart stefnda Sjúkratryggingum Íslands einkum á ákvæði 1. töluliðar 2. gr. laga nr. 111/2000, þar sem mælt er fyrir um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu vegna meðferðar á sjúkrahúsi ef að öllum líkindum megi ætla að komast hefði mátt hjá tjóni hefði rannsókn eða meðferðinni við fyrirliggjandi aðstæður verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Í lögskýringargögnum eru þessi skilyrði meðal annars sögð fela í sér að könnun á atvikum þurfi að leiða í ljós að líklegra sé að tjón stafi af meðferð en öðrum orsökum. Verði niðurstaðan sú að eins líklegt sé að tjón sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.
Í málinu liggja annars vegar fyrir matsgerð tveggja dómkvaddra manna og hins vegar yfirmatsgerð þriggja matsmanna, en hér að framan hafa helstu niðurstöður þeirra verið raktar. Í matsgerðunum var talið að ýmis mistök hafi verið gerð við meðferð áfrýjanda frá því að hann var lagður inn á Landspítala 31. ágúst 2003, þar á meðal að ekki hafi verið gætt að því að afla upplýsinga frá erlenda sjúkrahúsinu, sem hann kom af, um greiningu á sjúkdómi hans og meðferð þar, en í gögnum frá fyrstu dögum dvalar hans á Landspítala hafi ýmist verið talið að um væri að ræða heilablæðingu eða blóðtappa í heila. Ekki hafi verið bætt úr þessu með viðhlítandi rannsóknum á Landspítala, meðal annars með töku sneiðmyndar af höfði áfrýjanda, heldur hafi hann án staðfestrar sjúkdómsgreiningar verið settur í einangrun vegna smithættu, sem hafi vegna mistaka orðið lengri en átt hefði að vera, og þessi einangrun að auki ranglega verið látin standa slíkum rannsóknum í vegi. Á sjúkrahúsinu ytra hafi áfrýjanda verið gefið lyfið Lasix, sem almennt sé ætlað að vinna gegn myndun á bjúg og lækka blóðþrýsting, en ekkert yrði séð um ástæðu til þeirrar meðferðar. Hún hafi verið í ósamræmi við viðurkenndar aðferðir og leitt af sér vökvatap úr líkama áfrýjanda, sem hafi verið staðfest með greiningum á blóðsýnum á Landspítala, en af þessu hafi aukist hætta á að hann fengi á ný blóðtappa í heila. Þrátt fyrir þetta hafi áfrýjanda áfram verið gefið þetta lyf eftir að hann var fluttur hingað til lands. Þá hafi ekki verið gætt að því að hefja á Landspítala svonefnda blóðflöguhemjandi meðferð með því að gefa áfrýjanda lyfið aspirin fyrr en eftir að hann hafði fengið aftur blóðtappa í heila á sjúkrahúsinu 5. september 2003. Tóku yfirmatsmenn sérstaklega fram sem fyrr segir að þeir teldu meiri líkur en minni á því að ófullnægjandi meðferð á Landspítala hafa leitt til þess að afleiðingar áfalla áfrýjanda fyrir heilsufar hans hafi orðið meiri en ella. Stefndu hafa hvorki aflað viðhlítandi gagna til að hnekkja framangreindum niðurstöðum dómkvaddra matsmanna um að mistök hafi verið gerð á Landspítala við meðferð áfrýjanda né gert sennilegt að orsakir heilsutjóns hans verði ekki að hluta raktar til þeirra mistaka. Þótt tveir læknar hafi gegnt störfum meðdómsmanna í héraði geta þær röksemdir, sem færðar eru fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að ósannað sé að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af meðferðinni á Landspítala, ekki haft slíkt vægi að þær fái þessu breytt. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að uppfyllt hafi verið skilyrði 1. töluliðar 2. gr. laga nr. 111/2000 til að áfrýjandi öðlaðist rétt til bóta úr sjúklingatryggingu. Í samræmi við yfirmatsgerð verður jafnframt lagt til grundvallar að þessi bótaréttur áfrýjanda hafi verið bundinn við það hlutfall af heildartjóni hans, sem þar var talið að rakið yrði til meðferðar á Landspítala á umræddu tímabili.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 fyrnist krafa um bætur eftir lögunum þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Áfrýjandi krafðist eins og áður kom fram bóta úr sjúklingatryggingu með bréfi 3. júlí 2008 og vefengir stefndi Sjúkratryggingar Íslands ekki að með því hafi verið rofin fyrning á hugsanlegri kröfu áfrýjanda, hafi hún ekki þá þegar verið fallin niður fyrir fyrningu. Sú afmörkun á fyrningarfresti í þessu lagaákvæði, að hann byrji að líða þegar tjónþoli fær eða má hafa fengið vitneskju um tjón sitt, verður eðli máls samkvæmt að taka mið af vitneskju um tjón af völdum atvika, sem varðað geta bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000, en ekki vitneskju um tjón af undirliggjandi sjúkdómi, sem vegna mistaka hefur ekki tekist að ráða fulla bót á. Þessu til samræmis gat fyrningartími kröfu áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna ekki byrjað að líða við það eitt að honum hafi orðið eða mátt verða ljóst að blóðtappar, sem hann fékk í heila, hafi valdið honum tímabundnu og varanlegu heilsutjóni, heldur þurfti hann í þessu skyni að vita eða mega vita að mistök hafi verið gerð við meðferð hans á Landspítala og að þau hafi sérstaklega leitt til tjóns. Þegar dóttir áfrýjanda ritaði landlækni bréf 29. september 2003, sem virðist hafa geymt kvörtun vegna meðferðar áfrýjanda á Landspítala, lá hann enn á taugalækningadeild sjúkrahússins og var alls óljóst hvort heilablóðföll hans myndu hafa varanlegar afleiðingar. Af álitsgerðinni, sem landlæknir ritaði af þessu tilefni 1. mars 2004, verður ekki ráðið hvort því hafi verið haldið fram í kvörtuninni að mistök hafi verið gerð við meðferðina, hvort heldur á Sardiníu eða hér á landi, en hvað sem því líður liggur fyrir að landlæknir taldi í álitsgerðinni ólíklegt að hugsanleg mistök hafi „breytt framgangi mála“. Af þessu verður ekki leitt að fyrningartími kröfu áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 hafi tekið að líða á þessu tímamarki. Stefndi Sjúkratryggingar Íslands hefur ekki vísað til nokkurra sérstakra atvika, sem gerst hafi að öðru leyti á tímabilinu fram til 3. júlí 2004 og haft gætu slík áhrif. Verður því að hafna málsvörn þessa stefnda á grundvelli fyrningar.
Hér áður var lýst sundurliðun á höfuðstól fjárkröfu, sem áfrýjandi hefur gert í málinu og nemur 10.437.946 krónum. Komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi eigi rétt til bóta frá stefnda Sjúkratryggingum Íslands að því leyti, sem tjón hans verði rakið til mistaka við meðferð á Landspítala á tímabilinu 31. ágúst til 5. september 2003, það tjón svari á grundvelli yfirmatsgerðar til fjórðungs af heildartjóni áfrýjanda og krafa hans um bætur vegna þessa sé ekki fallin niður fyrir fyrningu. Samkvæmt þessu getur krafa áfrýjanda á hendur stefnda Sjúkratryggingum Íslands ekki orðið hærri en sem nemur fjórðungi framangreindrar fjárhæðar eða 2.609.487 krónum. Þessi síðastnefnda fjárhæð er innan hámarks bóta úr sjúklingatryggingu samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Eftir málatilbúnaði áfrýjanda leiðir af þessu að stefndi íslenska ríkið verður sýknaður af kröfu hans. Ekki eru næg efni til að taka að einhverju leyti eða öllu til greina röksemdir, sem stefndi Sjúkratryggingar Íslands færði fram í héraði til stuðnings því að fjárhæð kröfu áfrýjanda yrði lækkuð, en að því verður jafnframt að gæta að þessi stefndi getur ekki skírskotað fyrir Hæstarétti í þessu skyni til röksemda, sem stefndi íslenska ríkið hélt einn fram í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi. Stefndi Sjúkratryggingar Íslands verður því dæmdur til að greiða áfrýjanda 2.609.487 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Í héraði naut áfrýjandi gjafsóknar, sem háð var 600.000 króna hámarki. Með hinum áfrýjaða dómi var málskostnaður felldur niður, en áfrýjanda dæmd þessi fjárhæð í gjafsóknarkostnað vegna málflutningsþóknunar lögmanns síns. Fyrir Hæstarétti leitar áfrýjandi endurskoðunar á ákvæði héraðsdóms um málskostnað. Eftir úrslitum málsins verður stefndi Sjúkratryggingar Íslands dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir, en ekki er ástæða til að dæma þennan stefnda að auki til að greiða í ríkissjóð málskostnað sem svarar gjafsóknarkostnaði áfrýjanda í héraði. Stefndi Sjúkratryggingar Íslands verður á hinn bóginn dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem segir í dómsorði. Málskostnaður verður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti milli áfrýjanda og stefnda íslenska ríkisins.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður látið standa óraskað, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti, sem ekki hefur verið bundin tiltekinni hámarksfjárhæð í gjafsóknarbréfi innanríkisráðuneytisins, fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi Sjúkratryggingar Íslands greiði áfrýjanda, A, 2.609.487 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. október 2007 til 15. apríl 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi Sjúkratryggingar Íslands greiði áfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði. Þá greiði sami stefndi 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda íslenska ríkisins af kröfu áfrýjanda. Málskostnaður milli þeirra í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 6 október sl.var höfðað 5. október 2011 af A, kt. [...], [...], [...], gegn Sjúkratryggingum Íslands, Laugavegi 114-118, 150 Reykjavík og íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 7, 101 Reykjavík. Framhaldsstefna var síðan gefin út í málinu 30. apríl 2013.
I.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði bótaskylda stefnda, Sjúkratrygginga Íslands, úr sjúklingatryggingu vegna meðferðar sem stefnandi hlaut í kjölfar blóðtappa í heila.
Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að stefndi, íslenska ríkið, beri bótaábyrgð vegna meðferðar sem stefnandi hlaut á Landspítala ‒ háskólasjúkrahúsi í kjölfar blóðtappa í heila.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því, að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Í framhaldsstefnu er þess krafist að stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.962.945 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. október 2007 til 15. apríl 2013, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Þess er krafist að stefndi, íslenska ríkið, verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.437.946 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. október 2007 til 15. apríl 2013, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda málskostnað.
Þess er krafist að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu fyrir allt að 600.000 kr.
Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í framhaldssök krafðist stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, þess að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Stefndi gerir þær kröfur til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefndi gerir ráð fyrir því að stefnandi muni falla frá dómkröfu sinni er fram kemur í stefnu, um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda úr sjúklingatryggingu.
Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Til vara krefst stefndi íslenska ríkið þess, ef viðurkennt verður að krafa á stefnda Sjúkratryggingar Íslands sé fyrnd og ef fallist verður á að íslenska ríkið beri bótaábyrgð vegna meðferðar sem stefnandi hlaut á Landspítala í kjölfar blóðtappa í heila, að aðeins verði viðurkennd bótaábyrgð á því sem er umfram þá fjárhæð sem stefnandi hefði fengið úr Sjúkratrygginum Íslands hefði krafan ekki fyrnst, þar með talið þeir vextir sem hann hefði átt rétt á, og í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.
Í framhaldssök krefst stefndi íslenska ríkið þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Enn fremur er krafist málskostnaðar.
Til vara gerir stefndi íslenska ríkið kröfu um að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður milli aðila falli niður.
Í upphafilegri kröfugerð íslenska ríkisins var gerð krafa um frávísun málins en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. desember 2013 var frávísunarkröfu hafnað.
Dómari lætur þess getið að hann hafi í september 2013 tekið við málinu af dómara sem var að láta af störfum.
II.
Málsatvik
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu, að þann 21. ágúst 2003, þegar hann hugðist standa upp frá borði á veitingastað á Sardiníu, hafi hann fundið fyrir máttleysi í hægri fæti. Máttleysið hafi lagast við hreyfingu en daginn eftir hafi hann verið þreyttur og legið fyrir. Þann 23. ágúst s.á. tók eiginkona hans eftir því, að hann beitti hægri hendi sérkennilega án þess að hann tæki eftir því sjálfur. Stefnandi hafi leitað til læknis, verið lagður inn á sjúkrahús og eftir sneiðmyndatöku verið greindur með hægri helftareinkenni vegna blóðþurrðarslags í heila. Stefnandi fékk einnig flog og var settur á flogameðferð. Þegar var hafist handa við að fá hann fluttan til Íslands. Stefnandi var ekki meðhöndlaður með blóðþynnandi meðferð á sjúkrahúsinu á Sardiníu og meðan hann beið heimferðar héldust einkenni hans óbreytt.
Stefnandi var fluttur með sjúkraflugi til Íslands 31. ágúst 2003 og lagður inn á taugalækningadeild Landspítala ‒ háskólasjúkrahúss. Ekki fylgdi læknabréf með stefnanda frá sjúkrahúsinu í Sardiníu, en í læknabréfi frá aðila sem flutti hann heim kom fram að sneiðmynd hafi staðfest blóðþurrðarfall í heila. Í innlagningarnótu á taugalækningadeild Landspítala er lýst hægri helftarlömun. Stefnandi var settur í einangrun vegna hættu á MÓSA-smiti. Einangrunin dróst um tvo daga vegna mistaka við sýnatöku, en hann reyndist ekki bera MÓSA-bakteríu.
Stefnandi var fimm daga í einangrun og meðferð fólst í því að hann var settur á blóðþrýstingslækkandi lyf og þvagræsilyf. Að einangrun lokinni þann 5. september 2003 var stefnandi sendur í æfingar með sjúkraþjálfara og í kjölfarið í sneiðmyndatöku. Þá hafi hann verið mjög þreyttur. Eftir myndatökuna hneig stefnandi niður og fékk annað og alvarlegra áfall með meiri einkennum, m.a. mikla lömun í hægri hluta líkamans, sem ekki hafi gengið til baka. Hann hafi átt erfitt með að tala, var illa áttaður og minnisleysi gerði vart við sig.
Með bréfi, dags. 29. september 2003, kvartaði dóttir stefnda til embættis landlæknis vegna meðferðar stefnanda á Landspítala ‒ háskólasjúkrahúsi og skilaði landlæknisembættið álitsgerð um málið 1. mars 2004. Þar voru gerðar athugsemdir við vinnslu sjúkraskrár, hún sögð ófullkomin og að engin góð lýsing hafi verið á skoðun við komu. Ýmsar fleiri athugasemdir voru gerðar, m.a. var talið óviðunandi að ekki skyldi hafa verið gerð grein fyrir áhættuþáttum á taugalækningadeild sjúkrahúss sem annaðist heilablóðfallssjúklinga.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 3. júlí 2008, til Tryggingastofnunar ríkisins var sótt um bætur úr sjúklingatryggingu f.h. stefnanda. Umsókninni var hafnað með bréfi stefnda Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. janúar 2009, þar sem byggt var á því að krafan væri fyrnd samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um sjúkratryggingu.
Með bréfi, dags. 23. janúar 2009, óskaði lögmaður stefnanda eftir endurupptöku málsins fyrir hönd stefnanda. Með bréfi stefnda Sjúkratrygginga Íslands, dags. 18. febrúar 2009, var lögmanni stefnanda tilkynnt að málið hefði verið endurupptekið og fyrri niðurstaða staðfest.
Stefna í máli þessu var þingfest 13. október 2011 og framhaldsstefna síðan þingfest 30. apríl 2013.
Þann 5. september 2012 voru B, heila- og taugaskurðlæknir, og C hrl. dómkvaddir skv. beiðni stefnanda til að leggja mat á meinta ófullnægjandi læknismeðferð á sjúkrahúsi á Sardiníu og á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í ágúst og september 2003. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna samkvæmt matsgerð, dags. 20. febrúar 2013, var sem hér segir:
a) Heilsufar stefnanda stöðugt 31. ágúst 2004.
b) Tímabundin óvinnufærni stefnanda 6 mánuðir.
c) Tímabil þjáninga 6 mánuðir og þar af 3 mánuðir rúmliggjandi.
d) Varanlegur miski stefnanda 20 stig.
e) Varanleg örorka 25%.
Þann 7. apríl 2014 voru, samkvæmt beiðni stefnda íslenska ríkisins, dómkvaddir yfirmatsmenn, þau D taugalæknir, E, lyf- og gigtarlæknir, og F hrl., til að meta nánar tilgreind atriði vegna læknismeðferðar stefnanda.
Niðurstaða yfirmatsmanna samkvæmt matsgerð, dags. 16. janúar 2015, var sem hér segir;
A. Vegna ófullnægjandi læknismeðferðar á sjúkrahúsinu á Sardiníu.
1. Stöðugleikapunktur 21. ágúst 2004.
2. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.: 75% af 6 mánaða tímabili.
3. Þjáningabótatímabil skv. 3. gr.: 75% af 6 mánaða þjáningabótatímabili, þar af rúmliggjandi
128 daga.
4. Varanlegur miski skv. 4. gr.: 15 stig.
5. Varnaleg örorka skv. 5. gr. 18,75%.
6. Þörf á sjúkraþjálfunarmeðferð í framtíðinni: Já, sbr. forsendur.
7. Þörf á töku lyfja í framtíðinni: Nei, sbr. forsendur.
B. Vegna ófullnægjandi læknismeðferðar á Landspítala.
1. Stöðugleikapunktur 21. ágúst 2004.
2. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.: 25% af 6 mánaða tímabili.
3. Þjáningabótatímabil skv. 3. gr.: 25% af 6 mánaða þjáningabótatímabili, þar af rúmliggjandi
128 daga.
4. Varanlegur miski skv. 4. gr.: 5 stig.
5. Varnaleg örorka skv. 5. gr. 6,25%.
6. Þörf á sjúkraþjálfunarmeðferð í framtíðinni: Já, sbr. forsendur.
7. Þörf á töku lyfja í framtíðinni: Nei, sbr. forsendur.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því, að hann hafi ekki verið settur á acetýlsalicýlsýru við innlögn á Landspítalann og í raun ekki fyrr en við seinna áfallið, en slík meðferð sé sjálfsögð. Í niðurstöðum landlæknisembættisins hafi þess verið getið, að ekki hafi verið nægileg festa í meðferðinni og dráttur á einangrun vegna rangrar sýnatöku verið átalinn.
Stefnandi byggir á því, að komast hefði mátt fyrir síðara áfallið ef rétt hefði verið staðið að meðferð hans. Með bréfi, dags. 3. júlí 2008, hafi stefnandi gert kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu úr hendi stefnda, Sjúkratrygginga Íslands, og með bréfi stefnda, dags. 19. janúar 2008, hafi umsókn hans verið hafnað á þeim grundvelli að krafan hafi verið fyrnd þegar krafan var sett fram þann 3. júlí 2008. Nokkur samskipti hafi átt sér stað í kjölfarið milli lögmanns stefnanda og stefnda, Sjúkratrygginga Íslands, án þess að fallist væri á kröfur stefnanda.
Kröfur sínar á hendur stefnda, Sjúkratryggingum Íslands, byggir stefnandi á lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000. Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, annist sjúklingatryggingu fyrir sjúkrahús, sem ekki kaupa sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélagi, sbr. 14. gr. og e-lið 9. gr. laganna.
Stefnandi mótmælir því sem stefndi Sjúkratryggingar Íslands byggir á að upphaf fyrningar skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 skuli miðað við 29. september 2003, einungis nokkrum vikum eftir að hann fékk heilablóðfallið, eða í síðasta lagi þegar álitsgerð Landslæknis lá fyrir þann 1. mars 2004. Kröfur um bætur fyrnist skv. 19. gr. laganna þegar fjögur ár séu liðin frá því tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Enn fremur segi í 2. mgr. greinarinnar að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar liðin séu tíu ár frá tjónsatvikinu. Samkvæmt orðanna hljóðan sé upphaf fyrningarfrestsins þegar tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjónið en ekki þegar tjónþola var ljóst að um sjúklingatryggingaratburð gæti verið að ræða.
Stefnandi vísar í þessu sambandi til athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum nr. 111/2000, en þar segi að ákvæðið um upphaf fjögurra ára fyrningarfrests geti leitt til þess að sjúklingur haldi kröfu sinni miklu lengur en í fjögur ár frá því tjónsatvik bar að höndum því að fyrningarfrestur byrji ekki að líða fyrr en tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt.
Stefnandi byggir á því að hann hafi fengið alvarlegan sjúkdóm sem hafi umturnað lífi hans, hann hafi unnið markvisst að endurhæfingu í a.m.k. eitt og hálft ár eftir heilablóðfallið og endurhæfingin hafi skilað nokkrum bata. Ástand stefnanda hafi ekki verið orðið stöðugt fyrr en í fyrsta lagi að lokinni endurhæfingu á árinu 2005. Fyrr en þá hafi honum ekki verið ljóst eða mátt vera ljóst að varanlegar afleiðingar voru af atburðunum. Þá fyrst hafi stefnandi getað haft nokkra vitneskju um tjón sitt en þó ekki um varanlegar afleiðingar þess. Stefnandi hafi síðan lent í fleiri áföllum í kjölfar heilablóðfallsins, lærbrotnað í mars 2005, fengið gallsteinakast í október 2006 og gengist undir aðgerð og síðan hafi hann gengist undir kviðslitsaðgerð á árinu 2007. Þetta hafi leitt til þess að endurhæfingu hans hafi seinkað og þar með því að hann gæti gert sér grein fyrir því hvert tjón hans væri af völdum hinnar röngu meðferðar 2003. Með vísan til þessa standist ekki það sem stefndi Sjúkratryggingar byggi á um upphafi fyrningarfrestsins. Þá verði að gera greinarmun á því hvenær sjúklingi megi vera ljóst að eitthvað hafi misfarist við læknismeðferð og hvenær hann eigi möguleika á að fá vitneskju um tjón sitt. Tilgangur laga um sjúklingatryggingu hafi verið að auka rétt sjúklinga sem verði fyrir tjóni í kjölfar meðferðar á heilbrigðisstofnunum. Sjúklingar geti orðið fyrir heilsutjóni í tengslum við læknismeðferð án þess að skilyrði bótaréttar eftir almennum skaðabótareglum séu fyrir hendi. Oft sé sök augljóslega ekki orsök tjóns en í öðrum tilvikum bendi líkur til sakar án þess að unnt sé að sanna að svo sé. Það sé því í andstöðu við tilgang laganna að bætur úr sjúklingatryggingu fyrnist áður en hugsanleg skaðabótakrafa vegna sama tjónsatburðar fyrnist. Skaðabótakröfur vegna líkamstjóns fyrnist á tíu árum og upphaf fyrningar samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 miðist við þann tíma þegar kröfuhafi fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið. Þannig sé það í miklu ósamræmi við tilgang laganna um sjúklingatryggingu að kröfur úr henni hafi annan og fyrri upphafstíma en kröfur á grundvelli almennra bótareglna. Krafa stefnanda sé því ekki fyrnd.
Varðandi kröfu vegna meðferðar á sjúkrahúsi á Ítalíu byggir stefnandi einnig á því sem sjálfstæðri málsástæðu og til stuðnings framangreindum málsástæðum að 2. mgr. 1. gr. laganna eigi einnig við um hana, samanber 1. málslið 1. mgr. 23. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Stefnandi hafi fengið blóðtappa við heila á ferðalagi í kringum eyjuna Sardiníu á Ítalíu og því verið brýn nauðsyn að vista hann á sjúkrahúsi þar til hann yrði fluttur með sjúkraflugi til Íslands. Um hafi verið að ræða alvarlegan og lífshættulegan sjúkdóm sem nauðsynlegt hafi verið að meðhöndla og fylgjast með. Skilyrði greinarinnar sé því uppfyllt þar sem ekki verið hafi kostur á að veita honum aðstoðina hér á landi. Stefnandi hafi sætt slælegri meðferð á sjúkrahúsinu á Sardiníu sem m.a. hafi falist í því að hann hafi ekki verið meðhöndlaður með acetýlsalicýlsýru meðan hann dvaldist á sjúkrahúsinu. Ef það hefði verið gert hefði það dregið úr líkum á enduráföllum.
Kröfu sína vegna meðferðar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi byggir stefnandi á 2. gr. laga um sjúklingatryggingu og telur að tjón sitt verði rakið til atriða í 1. og 3. tölulið greinarinnar. Meðferð stefnanda á taugalækningadeild sjúkrahússins hafi verið ábótavant, hann hafi ekki verið skoðaður og greindur við komu á deildina. Þá hafi hann ekki verið settur á meðferð með acetýlsalicýlsýru en slík meðferð fyrirbyggi frekari áföll. Þá hafi sjúkraskrá verið illa unnin. Meðferðin hafi ekki verið í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Ef rannsóknir hefðu verið gerðar á stefnanda eins og aðstæður hans gáfu tilefni til hefði verið unnt að staðfesta að um blóðtappa var að ræða en ekki blæðingu og beita hafi átt blóðþynnandi meðferð til að koma í veg fyrir frekari áföll. Þá sé sjúkdómsgreining í sjúkraskrá ekki rétt og vísar stefnandi í því sambandi til 3. gr. laga nr. 111/2000, sbr.1. tl. 2. gr. laganna. Því sé ljóst að um bótaskyldan atburð sé að ræða samkvæmt lögunum sem stefndi Sjúkratryggingar Íslands beri ábyrgð á.
Varakröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu á hendur stefnda íslenska ríkinu vegna meðferðar stefnanda á Landspítala – háskólasjúkrahúsi byggir stefnandi á reglunni um vinnuveitandaábyrgð, en stefnandi telur að læknar og starfsfólk taugalækningadeildar Landspítala ‒ háskólasjúkrahúss hafi sýnt af sér gáleysi, sem hafi leitt til þess að hann fékk annað og verra áfall sem hafi haft alvarleg einkenni í för með sér. Þá byggir hann sérstaklega á reglum um sérfræðiábyrgð. Óumdeilt sé að stefnandi hafi ekki verið meðhöndlaður með acetýlsalicýlsýru til þess að draga úr líkum á nýju áfalli og einnig sé óumdeilt, að ræktum vegna MÓSA-smits hafi verið ófullnægjandi og að tafir hafi orðið á sneiðmyndatöku vegna þess.
Heimild til að framhaldsstefna fyrir kröfum sínum byggir stefnandi á 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þann 20. febrúar 2013 hafi legið fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna á afleiðingum tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna ófullnægjandi læknismeðferðar á Landspítala ‒ háskólasjúkrahúsi og sjúkrahúsi á Ítalíu. Þá fyrst hafi verið hægt að reikna út kröfur vegna líkamstjóns stefnanda. Kröfurnar séu allar samrættar í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna segi um afleiðingar stefnanda af ófullnægjandi meðferð:
f) Heilsufar stefnanda stöðugt 31. ágúst 2004.
g) Tímabundin óvinnufærni stefnanda 6 mánuðir.
h) Tímabil þjáninga 6 mánuðir og þar af 3 mánuðir rúmliggjandi.
i) Varanlegur miski stefnanda 20 stig.
j) Varanleg örorka 25%.
Kröfur stefnanda á grundvelli matsins nema samtals 10.437.946 krónum vegna sjúkrakostnaðar, tímabundins tekjutaps, þjáninga, varanlegs miska og varanlegrar örorku. Dómkröfur sínar á hendur stefndu skýrir stefnandi þannig að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, sé hámark bótafjárhæðar fyrir einstakt tilvik samkvæmt lögunum 5.000.000 króna, en sú fjárhæð breytist miðað við 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. Uppreiknuð hámarksfjárhæð sé 9.962.945 krónur m.v. 1. janúar 2013 og sé stefnda, Sjúkratryggingum Íslands, stefnt til greiðslu þeirrar bótafjárhæðar. Verði stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar standi eftir 475.001 kr., sem þá sé krafist úr hendi íslenska ríkisins. Verði stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, dæmdur til að greiða stefnanda lægri fjárhæð en þá sem krafist er, hækki bótakrafan á hendur stefnda, íslenska ríkinu. Af þeim sökum sé óumflýjanlegt að krefjast þess að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda 10.437.946 krónur ef svo ólíklega vill til að stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1003 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og vaxta er krafist frá 13. október 2007 eða fjórum árum fyrir birtingu stefnu. Dráttarvaxta er krafist frá 15. apríl 2013, frá birtingu framhaldsstefnu til greiðsludags.
Við aðalmeðferð var lýst yfir af hálfu stefnanda að kröfugerð væri óbreytt þrátt fyrir mismun í matsgerðum varðandi tímabundna óvinnufærni.
Málsástæður og lagarök stefnda Sjúkratrygginga Íslands
Stefndi Sjúkratryggingar Íslands byggja í fyrsta lagi á því að hafi stefnandi einhvern tímann átt kröfu á hendur stefnda, sé hún fyrnd. Í öðru lagi er byggt á sjónarmiðum um tómlæti stefnanda. Þessar málsástæður eru jafnframt hafðar uppi gagnvart þeim dómkröfum er koma fram í framhaldsstefnunni. Varðandi mat á upphafi fyrningarfrests, skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 þá byggir stefndi á því að ekki eigi að miða við stöðugleikapunkt, enda hafi stefnandi getað gert sér grein fyrir tjóni sínu miklu fyrr.
Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að lög um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 taki ekki til tjóns sem stefnandi varð fyrir á Ítalíu og í fjórða lagi að skilyrði 2. gr. laganna séu ekki uppfyllt. Lög um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 taki einungis til tjóns hér á landi, skv. 1. mgr. 1. gr. þeirra. Vísun stefnanda til 2. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 og 23. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 eigi ekki við í þessu máli, enda einungis um þau tilvik að ræða þegar sjúklingar eru sérstaklega sendir utan í læknismeðferð.
Af þessum sökum skipti öllu að greint sé á milli þess tjóns sem stafaði af rangri sjúkdómsmeðferð á Sardiníu annars vegar og þess tjóns sem meint mistök á Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) orsökuðu hins vegar. Í undirmatsgerð sé í engu reynt að greina þarna á milli þrátt fyrir að í matsbeiðni hafi komið fram ósk um það og því ekki hægt að sjá af henni hversu stór hluti af því tjóni sem þar er talið að stafi af ófullnægjandi meðferð sé vegna tjónsatvika sem kynnu að eiga undir 2. gr. laga nr. 111/2000. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að verulegar líkur séu á komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð á LSH hefði verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði, sbr. 1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000. Þá leiði matsgerðin ekki í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða tækni sem völ var á á LSH, og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings, sbr. 3. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000.
Í niðurstöðum matsgerða komi fram fullyrðingar um að meðferð á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi hafi verið ábótavant en þar er talið að hefja hafi átt aspirínmeðferð strax eftir komu á sjúkrahúsið, að verulegar líkur séu á því að það hefði dregið úr hættu á frekari blóðtappamyndunum í heila og að ástand stefnanda samkvæmt niðurstöðum úr blóðrannsókn hefði hugsanlega verið afleiðingar af Lasix-meðferð sem hafin var á sjúkrahúsi á Sardiníu og haldið áfram á taugalækningadeild en slík meðferð hafi verið í ósamræmi við nútímalæknisfræði.
Af matsgerðinni og öðrum gögnum í málinu, s.s. dskj. 22, 23 og 25, sé ljóst að aspirínmeðferð eftir slag er lang mikilvægust á fyrstu 48 klukkustundunum en hefur minni þýðingu, ef nokkra, ef hún er hafin nokkrum dögum seinna. Þekkt sé að meðferð með aspiríni strax eftir slag er ráðlögð við blóðtöppum í heila. Rannsóknir hafi einnig sýnt að það að hætta meðferð með aspiríni hjá sjúklingum með aukna áhættu á blóðtöppum í heila leiðir til hættu á nýjum blóðtappa þegar nokkuð er liðið frá því að gjöf lyfsins er hætt. Ekki sé fyllilega ljóst hvort stefnanda var gefið aspirín á sjúkrahúsinu á Sardiníu og hvort hann hafði þar af leiðandi verið að taka það við komu á Landspítala – Háskólasjúkrahús. Þetta ráði þó engum úrslitum hvað varðar orskök áfallsins er hann varð fyrir á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Hafi stefnandi ekki verið að taka lyfið við komuna þangað er ljóst að það hefði ekki verið farið að hafa tilskilin áhrif þann 5. september þótt það hefði verið gefið frá því stefnandi kom á sjúkrahúsið. Þá var einnig löngu liðið það 48 stunda tímamark frá fyrra áfallinu sem miðað er við þegar metið er hvort aspirínmeðferð hafi þýðingu, samanber umfjöllun að ofan. Hafi stefnandi verið að taka lyfið og lyfjagjöf verið hætt hefði lyfið þrátt fyrir það enn verið virkt á þeim tíma er áfallið varð. Því er ljóst að þó að meðferð með aspiríni hefði verið hafin við komuna á LSH hefði það líklega ekki breytt nokkru um tjón stefnanda.
Stefndi byggir á því að stefnanda beri að sýna fram á að meiri líkur en minni séu á því að sú meðferð sem hann hlaut á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hafi orsakað tjón hans. Það hafi honum ekki tekist og því beri að sýkna stefnda, Sjúkratryggingar Íslands, af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir fjárhæð kröfu stefnanda og byggir á því að verði talið að meðferð stefnanda á LSH hafi átt þátt í tjóni hans, sé ljóst að sá þáttur sé minni háttar miðað við þau mistök sem kunna að hafa verið gerð á sjúkrahúsinu á Sardiníu. Er varðar einstaka liði fjárkröfu stefnanda vill stefndi taka eftirfarandi fram:
Krafa um kostnað vegna sjúkraþjálfunar er lítt rökstudd. Ekki er rökstutt hvers vegna meðferðartímabil er talið 15 skipti. Bætur vegna sjúkrakostnaðar eru reiknaðar miðað við að stefnandi nái meðaltalsaldri íslenskra karlmanna, sem er 79,5 ár samkvæmt framhaldsstefnu. Stefndi mótmælir þessu og bendir á að fráleitt sé að álykta að stefnandi, sem hafi bæði fengið heilablóðfall, er með háþrýsting og þjáist af Parkinsonsjúkdómi, nái meðaltalsaldri.
Krafa um þjáningabætur sé of há þar sem fjárhæð bóta fyrir hvern dag í rúmlegu sé einungis 3.140 kr. miðað við janúar 2013.
Krafa vegna tímabundins atvinnutjóns er of há og ekki studd viðhlítandi gögnum. Engar upplýsingar um tekjur ársins 2003 liggi fyrir þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að stefnandi hafi stundað starf sitt það ár fram til þess að hann veiktist í ágúst. Viðmiðunarfjárhæð sem notuð er, þ.e. samanlögð fjárhæð reiknaðs endurgjalds og hreinna tekna af atvinnurekstri, sé of há þar sem hreinar tekjur af atvinnurekstri gefi ekki rétta mynd af þeirri fjárhæð sem stefnandi bar úr býtum vegna rekstrarins fyrir viðkomandi ár. Upplýsingar úr skattframtölum séu ófullkomnar.
Krafa vegna varanlegrar örorku er einnig of há og ekki studd viðhlítandi gögnum. Gildir hið sama um viðmiðunarfjárhæð og tiltekið er að framan um kröfu vegna tímabundið atvinnutjón. Ekkert liggi fyrir um hvort stefnandi greiddi í lífeyrissjóð og sé því viðmiðunarfjárhæð mótmælt að því leyti einnig.
Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 sé kveðið á um að hámarksfjárhæð fyrir einstakt tjónsatvik skuli vera 5.000.000 kr. Sú fjárhæð breytist miðað við 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. Lögin hafi tekið gildi 1. janúar 2001, sbr. 22. gr. þeirra. Hámarksfjárhæðin hafi því verið 5.550.889 kr. í september 2003 þegar stefnandi var lagður inn á Landspítala – Háskólasjúkrahús. Stefnandi miði hins vegar við vísitölu hinn 1. janúar 2013 og krefjist bóta úr hendi stefnda, Sjúkratrygginga Íslands að fjárhæð 9.962.945 kr. Stefndi telur að miða beri við tjónsdag við ákvörðun hámarksfjárhæðarinnar. Stefndi lítur svo á að með því að tiltaka hámark bóta vegna tjónsatviks miðað við vísitölu sem breytist árlega sé því í raun slegið föstu að miða eigi bótafjárhæð við þann dag sem tjón verður (tímamark tjónsatviks) en ekki síðari tíma, svo sem þegar tjón er gert upp. Þá túlkun leiði m.a. af eðli máls. Það væri t.d. í hæsta máta óeðlilegt ef tjónþoli sem slasaðist á tilteknu ári öðlaðist betri rétt með því að bíða fram yfir áramót með að setja fram kröfur sínar. Þar með væri það að einhverju leyti á færi tjónþola að ákvarða hver réttur hans væri úr tryggingunni, með því að hafa kröfur sínar uppi á einum tíma fremur en öðrum. Stefndi bendir á að í þessu máli hafi liðið nærri fjögur ár frá því heilsufar stefnanda var orðið stöðugt í ágúst 2004 þar til sótt var um greiðslu bóta úr sjúklingatryggingu í júlí 2008. Ekki hafi verið óskað dómkvaðningar matsmanna fyrr en í apríl 2013.
Þá telur stefndi að taka verði mið af því að skaðabótakröfur falla í gjalddaga þegar tjónsatburður verður og kröfurnar beri almennt vexti frá því að tjón varð, sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Útreikningur bóta miðist því almennt við þann dag og óeðlilegt væri ef lögbundið hámark bóta miðaðist við annan dag. Með því væru þær stærðir sem lögbundið er að bornar skuli saman, orðnar ósambærilegar.
Stefndi vísar til þess að greiðsla vaxta tryggi ávöxtun bótafjárhæðar frá þeim tíma þegar tjónsatvik verður og hið lögbundna hámark skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 taki ekki til vaxta af kröfunum. Þannig sé gert ráð fyrir ávöxtun bótanna og með því ættu þær alla jafna að halda verðgildi sínu. Með því fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur ákvarðað sé gætt jafnræðis milli þeirra sem lenda í sjúklingatryggingaratburði á sama árinu, þannig að þeim er tryggt að hámarksfjárhæð sjúklingatryggingarinnar sé hin sama.
Stefndi telur að með tilgreiningu á lágmarki og hámarki bótafjárhæðar í 5. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 hafi bótafjárhæðin verið afmörkuð sem summutrygging þótt ákvæðið geri ráð fyrir skaðatryggingu sem rúmist innan hámarks og lágmarks. Allt frá því að lög nr. 111/2000 tóku gildi hafi Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingar Íslands miðað við að ákvörðun hámarksfjárhæðar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 miðist við tjónsár, þ.e. það ár þegar sjúklingatryggingaratburður verður. Sú framkvæmd sé einnig í samræmi við framkvæmd allra vátryggingafélaga sem veita sams konar sjúklingatryggingu fyrir þá sem falla utan gildissviðs Sjúkratrygginga Íslands. Með því fyrirkomulagi sem stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, viðhefur, og leiðir af lögum og eðli máls, sé gætt jafnræðis milli þeirra sem eiga bótarétt hjá vátryggingafélagi og þeirra sem eiga slíkan rétt hjá Sjúkratryggingum Íslands.
Stefndi telur að ekki sé ljóst hvers vegna stefnandi byggi á því að hámarksfjárhæð skuli vera sú fjárhæð er gilti í janúar 2013 og þetta sé hvergi rökstutt af stefnanda. Stefndi tekur sérstaklega fram, þrátt fyrir að stefnandi hafi ekki sérstaklega vísað til 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að það ákvæði eigi við um það álitaefni sem hér er uppi. Í 1. mgr. 15. gr. sé kveðið á um að tilteknar fjárhæðir bóta skuli breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verði á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Þær bætur sem um ræðir séu nánar tiltekið þjáningabætur (sbr. 3. gr. laganna), bætur fyrir varanlegan miska (sbr. 4. gr.), lágmarksfjárhæð árslauna (sbr. 3. mgr. 7. gr.) og lágmarksfjárhæð bóta fyrir missi framfæranda (sbr. 13. gr.) Augljóslega verður að líta svo á að þau efnisatriði sem ákvæðið tekur til séu þar tæmandi taldin. Í 2. mgr. 15. gr. er mælt fyrir um að bætur skv. 1. mgr. ákvæðisins skuli ákvarða á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin. Ef ákvæði 15. gr. hefðu ekki verið lögfest yrði að líta svo á að bótafjárhæðirnar skyldu ákvarðaðar miðað við tímamark tjónsatburðar. Ekki er að finna sambærilegt ákvæði í lögum um við hvaða tímamark skuli miða ákvörðun hámarksfjárhæðar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Tilvísun 1. mgr. 5. gr. laganna til skaðabótalaga breytir engu þar um enda er ekki kveðið á um hámarksfjárhæðir bóta í skaðabótalögum eins og gert er í lögum um sjúklingatryggingu. Verði því að líta svo á að ákvæði 15. gr. skaðabótalaga eigi ekki við og því sé rétt að miða útreikning hámarksfjárhæðarinnar við þann dag þegar tjónið varð.
Stefndi byggir jafnframt á því að jafnvel þótt 15. gr. skaðabótalaga ætti við sé síður en svo hægt að slá því föstu að breyta skuli fjárhæðum til samræmis við vísitölu á þeim tíma þegar tjónið er gert upp fremur en þeim tíma þegar tjón verður. Það helgast m.a. af því að dagurinn „þegar bótafjárhæð er ákveðin“, sbr. orðalag 2. mgr. 15. gr., er breytilegur eftir því hvaða tegund bóta um er að ræða. Auk þess skiptir samspil 15. gr. skaðabótalaga við önnur lagaákvæði einnig verulegu máli. Til marks um það eru t.d. dómur Hæstaréttar frá 4. mars 2004 í máli nr. 363/2003 og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. júlí 2009 í máli nr. 28/2009 þar sem stuðst var við fordæmið úr nefndum dómi Hæstaréttar. Í þessum dómum var niðurstaðan sú að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga væri tímamarkið til ákvörðunar lágmarkslauna, skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, dagurinn þegar heilsufar tjónþola væri orðið stöðugt eftir slys en ekki uppgjörsdagur. Niðurstaðan í umræddum dómum hafi verið þessi þrátt fyrir að 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé, sem fyrr segir, eitt þeirra ákvæða sem vísað er til í 2. mgr. 15. gr. laganna. Það sé því síður en svo einhlítt að ákvæði 2. mgr. 15. gr. sé túlkað á þann veg sem stefnandi byggir á, jafnvel í þeim tilvikum þegar um er að ræða samspil við önnur ákvæði sem þar er beinlínis vísað til.
Stefndi bendir á að sú leið sem stefnandi byggi á að notast eigi við þegar hámarksfjárhæð bóta er ákvörðuð myndi leiða af sér óeðlilegt réttarástand. Með þeim hætti gætu þeir sem fengið hefðu hámark bóta úr sjúklingatryggingu alltaf krafist viðbótar á bótafjárhæð ár hvert, svo fremi að vísitala neysluverðs hefði hækkað frá fyrra ári. Í því sambandi er einnig rétt að benda á að með 7. gr. laga nr. 111/2000 er lögbundið að skaðabótakrafa verður ekki gerð á hendur neinum sem bótaskyldur er samkvæmt reglum skaðabótaréttar nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt skv. 5. gr. og þá einungis um það sem upp á vantar. Af því leiði að tjónþola beri fyrst að tæma rétt sinn til bóta úr sjúklingatryggingunni. Ef túlkun stefnanda á 2. mgr. 5. gr. er rétt sé vandséð að tjónþoli gæti nokkru sinni tæmt þann rétt, þar sem hann ætti að jafnaði rétt á frekari bótum þaðan ár hvert. Tjónþoli gæti þá aldrei haft uppi skaðabótakröfu á hendur hinum bótaskylda, þar sem ekki væri unnt að uppfylla skilyrði 7. gr. laga nr. 111/2000.
Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands, telur að sú dagsetning sem stefnandi miðar ákvörðun hámarksfjárhæðar við, skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, sé án lagastoðar og illframkvæmanlegt að taka tillit hennar auk þess sem hún gangi gegn jafnræðisreglum og jafnvel einnig rétti einstaklinga til að bera mál sín undir dómstóla, þar sem tæming réttar úr sjúklingatryggingunni er forsenda þess að geta sótt skaðabótakröfuna á hendur hinum bótaskylda. Verði stefndi dæmdur til að greiða stefnanda bætur yrði hámark þeirrar fjárhæðar sem greiða ætti 5.550.889 kr.
Um lagarök vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993, laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og almennra reglna skaðabótaréttar og kröfuréttar.
Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins
Stefndi íslenska ríkið mótmælir því að skilyrði séu til að viðurkenna skaðabótaskyldu stefnda samkvæmt reglunni um vinnuveitendaábyrgð, almennu skaðabótareglunni, reglum um sérfræðiábyrgð eða á öðrum reglum. Því er mótmælt að læknar og annað starfsfólk Landspítala, þ.m.t. taugalækningadeildar, hafi sýnt af sér gáleysi sem hafi leitt til þess að stefnandi fékk annað og verra áfall sem hafi haft mjög alvarleg einkenni í för með sér, eins og segir í stefnu. Framangreint sé ósannað með öllu.
Stefndi vísar til bréfa frá læknunum G og eitt frá H, þar sem brugðist sé við þeirri skoðun stefnanda, sem fram hafði komið í bréfi lögmanns hans, að sjúkraskýrsla hafi verið mjög illa unnin. Eitthvað sé fjallað um þetta í málavaxtalýsingu í stefnu en ekki byggt á þessu sem málsástæðu og verður því að mati stefnda að líta fram hjá þessu atriði við úrlausn málsins. Ef dómurinn er ekki sammála því sjónarmiði stefnda þá er á því byggt að ekkert hafi verið athugavert við sjúkraskýrslu stefnanda hjá stefnda og fullyrðingum í málavaxtalýsingakafla stefnu mótmælt sem röngum. Í þessu sambandi er á það bent að G svarar þessu í bréfi sínu 14.6.2010 og er ósammála því að sjúkraskýrsla sé mjög illa unnin
Í bréfi H 1.7.2010 komi fram að læknabréf hafi ekki fylgt stefnanda frá sjúkrahúsinu á Sardiníu en í læknabréfi frá Senator Aviation Charter, project ambulance service, komi fram að sneiðmynd staðfesti blóðþurrðaráfall í heila en að ekki hafi verið hægt að láta myndir fylgja stefnanda. Í bréfinu komi fram að deildarlæknirinn á taugadeild Landspítala sem tók á móti stefnanda 31. ágúst 2003 hafi handskrifað góða, vel læsilega innlagnarnótu þar sem lýst sé m.a. hægri helftarlömun sbr. bls. 1. Á bls. 2 í þessu bréfi kemur fram að framangreind innlagnarnóta sé vel skrifuð og fari ekki á milli mála að stefnandi var við komu með hægri helftarlömun. Þá er á því byggt af hálfu stefnda að það að þessi nóta sé handskrifuð hafi engu breytt um þá grunnmeðferð sem stefnandi fékk. Ekkert orsakasamband sé á milli þessa atriðis og þeirra atriða sem stefnandi byggir kröfu sína á.
Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki verið meðhöndlaður með acetýlsalicýlsýru en slík meðferð tíðkist í sambærilegum tilvikum og tilviki stefnanda. Meðferðin dragi úr líkum á enduráföllum og sé þess vegna alltaf beitt í tilvikum eins og tilviki stefnanda. Stefndi bendir á í þessu sambandi að stefnandi lagðist inn á taugadeild 31.8.2003, 10 dögum eftir að hann fékk blóðþurrðarslag á ferðalagi á Sardiníu, með dofa og máttleysi í hægri hlið. Stefnandi hafði fengið kippi í hægri hlið án þess að missa meðvitund og hafi því verið settur á Fenemal. Heilsufarssaga stefnanda hafi verið markverð fyrir háþrýsting og kæfisvefn. Vegna hugsanlegrar smithættu þótti rétt að bíða með myndatöku þar til ljóst var að stefnandi bæri ekki MÓSA-sýkla. Þetta var gert samkvæmt reglum sjúkrahússins um sjúklinga sem koma frá öðrum stofnunum.
Stefndi vísar til þess að almennt sé mælt með því að sjúklingar sem fá blóðþurrðaráfall í heila séu settir á aspirín eins snemma og hægt er og innan 48 klukkutíma. NICE og fleiri mæla með því að aspirínmeðferðin standi að lágmarki tvær vikur og flestir mæla með langtíma aspirínmeðferð sé þess kostur. Minna sé vitað um hvað heppilegast sé ef viðkomandi er ekki settur á meðferð innan 48 klukkutíma og engar skýrar reglur séu fyrirliggjandi um hvaða meðferð sé heppilegust ef aspirínmeðferð er ekki hafin innan viku vegna blóðþurrðaráfalls í heila.
Í stefnu sé byggt byggt á því að þann 5.9.2003 hafi stefnandi fengið annað áfall og á því sé byggt af hálfu stefnanda að ljóst sé að hann hafi ekki fengið viðunandi meðferð því að rannsóknir hafi tafist vegna mistaka við sýnatöku vegna hugsanlegs MÓSA-smits.
Deildarlæknirinn á taugalækningadeild Landspítala sem tók á móti stefnanda 31.8.2003, hafi handskrifað góða, vel læsilega innlagnarnótu þar sem lýst er m.a. hægri helftarlömun. Gerðar hafi verið nauðsynlegar áætlanir um framhaldsmeðferð, m.a. var stefnandi hafður í einangrun vegna hættu á að sjúklingar sem hafa verið meðhöndlaðir á sjúkrastofnun erlendis beri með sér fjölónæma sýklastofna. Tekin hafi verið strok í ræktanir frá stefnanda en ræktun reyndist ófullnægjandi og þurfti að endurtaka hana. Af þeim sökum hafi einangrun orðið lengri en ella og tafið um líklega tvo daga að gerð var ný sneiðmyndarannsókn af heila stefnanda á Landspítala. Sneiðmyndin hafi verið tekin að morgni 5.9.2003 og leiddi enga blæðingu í ljós, en „tvö, nokkuð afmörkuð lágþéttnisvæði sjást í vinstri hemispheru, annað mælist ríflega 2 cm og er hátt frontalt. Hitt staðsett hátt parietalt og mælist rúmlega 2 cm að stærð. Líta út fyrir að vera a.m.k. nokkurra daga gamlir infarctar en sá sem liggur frontalt virðist vera aðeins nýrri“. Stefnandi hafi fengið aukin helftareinkenni skömmu síðar og ný sneiðmynd sem tekin var tæpum þremur tímum eftir fyrri sneiðmyndina leiddi í ljós óbreytta niðurstöðu frá því fyrr um morguninn. Meðferðin sem stefnandi hlaut eftir að hann lagðist inn á taugalækningadeild Landspítala 31. ágúst 2003, var að mati stefnda, að öllu leyti rétt. Sérfræðingurinn á bakvakt taugalækningadeildar hafi ekki gert athugasemdir við eða breytt þeirri meðferð sem deildarlæknirinn lagði fyrir um. Engar skýrar reglur séu til um hvað sé best ef aspirínmeðferð vegna heilablóðþurrðar er ekki hafin innan 48 klukkutíma og alls ekki ef liðin er meira en ein vika frá því að einkenni hófust. Ræktanir geti verið ófullkomnar. Í tilviki stefnanda reyndist MÓSA-ræktun ófullkomin og var endurtekin.
Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að mistök hafi verið gerð á einhverju stigi meðferðar stefnanda hjá Landspítala.
Stefndi vísar til þess að árið 2003 hafi ekki verið til skriflegar heildarleiðbeiningar á Landspítala um meðferð sjúklinga sem fengu blóðþurrðarslag í heila, heldur hafi verið stuðst við bestu vitneskju á hverjum tíma. Leiðbeiningar NICE og SIGN um greiningu og meðferð sjúklinga með blóðþurrðarslag í heila séu frá árinu 2008 og 2010.
Fram komi í bréfi h að útskriftargreining-kóðun sérfræðingsins hefði mátt vera nákvæmari. Hún hafi verið slag, ekki tilgreind sem blæðing eða fleygdrep skv. alþjóðlegri tölfræðilegri flokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, ICD 10, I 64. Greiningin-kóðunin hafi verið ónákvæm en ekki röng. Greiningin hafi engu breytt um heildarútkomuna.
Stefndi byggir á því að Landspítali hafi greint og meðhöndlað hægri helftarlömun stefnanda á eðlilegan og réttan hátt þegar hann lagðist inn. Ekki hafi verið sjálfsagt að setja inn aspirínmeðferð meira en viku eftir að einkenni stefnanda byrjuðu. Bent er á að í bréfi G frá 6.1.2009 komi m.a. fram að stefnandi fór í ítarlegar rannsóknir (hálsæðaómun, hartaómun og hjartasírita (Holter rannsókn)) sem voru neikvæðar. Blóðþurrðarslag A hafi verið af óþekktum toga. Greiningin hafi því ekki verið röng.
Stefnandi telji í stefnu að þær ströngu reglur sem gildi um sérfræðiábyrgð leiði til þess að stefndi beri ábyrgð á afleiðingum síðara áfalls stefnanda og byggir á því að ljóst sé að meðferð stefnanda hafi verið áfátt. Hann hafi fengið aukin einkenni helftarlömunar sem hefði mátt koma í veg fyrir með fullnægjandi meðferð, svo sem kröftugri blóðþynnandi meðferð. Stefndi mótmælir þessum málsástæðum sem röngum og ósönnuðum.
Verði fallist á kröfu stefnanda gagnvart íslenska ríkinu þá verði stefndi aðeins gerður ábyrgur fyrir læknismeðferð hér á landi og þá þurfi að greina á milli tímabila í sjúkdómi stefnanda. Stefndi verði ekki gerður ábyrgur fyrir sjúkdómi stefnanda eða því sem gerðist á Ítalíu, þ.m.t. læknismeðferð þar.
Stefnandi segi að óumdeilt sé að hann hafi ekki verið meðhöndlaður með acetýlsalicýlsýru. Að mati stefnda sé þetta ekki rétt og vísar stefndi í því sambandi til lyfjablaða sem fylgja gögnum málsins.
Þá komi eftirfarandi fram í stefnu á bls. 2: „Upplýsingar um ástand A frá Ítalíu voru takmarkaðar og ekki var ljóst hvort um hægfara heilablæðingu eða blóðtappa væri að ræða ...“ Í bréfi sínu 6.1.2009, á bls. 3, segir G um sömu sjónarmið sem áður höfðu verið sett fram: „Einnig gætir smá ónákvæmni hjá lögmanni. Hún talar um hægfara heilablæðingu. Undirritaður hefur fengist við heilæðasjúkdóma í yfir 10 ár og hefur enn ekki kynnst hægfara heilablæðingum. Heilablæðingar koma skjótt fram. Þær geta stækkað fyrsta á fyrsta sólarhring en fáttítt að það blæði aftur.“
Stefnandi byggi á því að hann eigi rétt á bótum úr sjúklingatryggingu vegna slælegrar meðferðar á sjúkrahúsinu á Sardiníu. Þessu og fullyrðingum stefnanda sé mótmælt. Stefnandi byggi á því að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hin meinta ófullnægjandi meðferð hafi leitt til aukinnar helftarlömunar stefnanda þann 5. september 2003. Stefndi mótmælir þessu.
Stefndi telur að ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir viðurkenningarkröfu um bótaskyldu. Ekki sé orsakasambandi milli athafna og eftir atvikum meintu athafnaleysi starfsmanna sjúkrahúss og meints tjóns stefnanda og ekki heldur að meint tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af athöfnum, atvikum eða meintu athafnaleysi starfsmannanna. Þá sé heldur ekki fullnægt skilyrðum sakarreglunnar eða annarra bótareglna um sök og ólögmæti o.fl.
Varðandi þá fullyrðingu um að beita hefði átt blóðþynnandi meðferð til að koma í veg fyrir frekari áföll vísar stefnandi til bréfs G í bréfi dags. 14.6.2010. Því megi ljóst vera að þessi ávinningur sé óverulegur.
Stefndi byggir á því að engin sönnun liggi fyrir um að tjón stefnanda sé að rekja til læknismeðferðar sem hann fékk á Landspítala. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að koma hefði mátt í veg fyrir slagið sem hann fékk hér á landi.
Verði að einhverju leyti fallist á dómkröfur stefnanda þá verði gerð krafa um það við uppgjör að frá bótakröfu stefnanda dragist allar greiðslur sem stefnandi hefur fengið eða kann að fá frá þriðja aðila vegna ástands síns þ.m.t. frá meðstefnda Sjúkratryggingum Íslands og sé þá einnig áskilinn réttur til að hafa uppi frekari andmæli við kröfugerð stefnanda. Stefndi sé ósammála mati landlæknis á sjúkraskrám, sbr. álitsgerð hans, dags. 1.3.2004. Stefndi sé ósammála því sem landlæknir segir undir liðnum álit á greiningu og meðferð um sjúkraskrá. Landlæknir bendi einnig á að ekki sé heimilt að víkja frá reglum um ræktanir frá sjúklingum sem koma erlendis frá nema í aðstæðum sem ekki eigi við um stefnanda. Landlæknir telji að sjúkraþjálfun virðist hafa verið við hæfi. Fram komi hjá landlækni undir liðnum samantekt að ekki hafi verið vitað með vissu um eðli heilablóðfallsins. Stefndi er ósammála þessu. Stefndi telur ósannað að mistök hafi verið gerð við sýnatöku en verði talið að svo hafi verið sé á því byggt að það hafi engu breytt í málinu. Í þessum kafla hjá landlækni segir: „Vegna þess tíma sem liðið hafði frá áfallinu var ekki upp á sérhæfða meðferð að bjóða, en þessar aðstæður munu hafa leitt til þess að fyrirbyggjandi meðferð dróst og sjúklingur fékk aukin einkenni um heilablóðfall, sem þó verður að teljast ólíklegt að hægt hefði verið að komast hjá.“
Stefndi er ósammála landlækni að ekki hafi veri nægileg festa í meðferðinni. Þá kemur þar fram að átelja verði drátt á árvekni og að einangrun skyldi dragast vegna rangrar sýnatöku. Stefndi sé ósammála þessu.
Stefndi mótmælir öllum rökum og málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Varakröfu styður stefndi öllum sömu rökum og byggir m.a. á því að það sé eigin sök stefnanda að hafa ekki haldið kröfu sinni réttilega fram gagnvart Sjúkratryggingum Íslands. Stefnandi ber sjálfur ábyrgð á þessu og fráleitt sé að stefnandi geti þá krafið íslenska ríkið um kröfuna í heild.
Í greinargerð vegna framhaldsstefnu vísaði stefndi til krafna, málsástæðna, sjónarmiða og lagaraka í fyrri greinargerð sinni. Stefndi mótmælti matsgerð að öllu leyti og áskildi sér rétt til að leggja fram yfirmatsgerð síðar, sem hann og gerði. Stefndi krafðist þess að litið yrði fram hjá undirmatsgerð þar sem hún væri haldin verulegum göllum. Í matsgerð hafi matsmenn farið langt út fyrir þær spurningar sem fyrir þá voru lagðar. Gagnrýni þeirra á störf starfsmanna Landspítala sé mótmælt. Þá sé stórfelldur galli á matsgerð þar sem að í matinu virðist ekki vera litið til þeirrar staðreyndar að veikindi stefnanda hófust á Ítalíu og matsmenn geri ekki greinarmun á dvöl stefnanda og upphafi veikinda á Ítalíu og dvöl stefnanda á Landspítala.
Stefndi vísar til greinargerðar sinnar varðandi sýknukröfu. Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að dæma bætur fyrir: greiðslu sjúkrakostnaður skv. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, tímabundið tekjutap skv. 2. gr. skaðabótalaga, þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga, varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga, varanlega örorku skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga eða aðrar kröfur. Kröfum stefnanda er mótmælt að öllu leyti.
Þá byggir stefnandi á því að krafa á íslenska ríkið geti aðeins orðið til vara en fallist dómurinn á kröfugerð stefnanda gagnvart Sjúkratryggingum Íslands er líklegt að krafa stefnanda verði að fullu greidd. Í þessu felist þó engin viðurkenning af hálfu íslenska ríkisins.
Varðandi varakröfu um verulega lækkun vísar stefndi til þess að stefnandi hafi veikst erlendis og verið þar fyrstu 10 dagana. Stefndi verði ekki gerður ábyrgur fyrir veikindum stefnanda og veikindum hans og meðferð á Ítalíu. Sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda. Verði fallist á kröfu stefnanda að einhverju leyti er gerð krafa um að frá þeirri kröfu dragist allar greiðslur sem hann kann að fá frá Sjúkratryggingum Íslands m.a. á grundvelli stefnukrafna á hendur stofnuninni.
Verði fallist á að krafa stefnanda á Sjúkratryggingar Íslands sé fyrnd og verði fallist á bótaskyldu íslenska ríkisins að einhverju leyti þá gerir stefnandi kröfu um að aðeins verði fallist á bótaábyrgð sem er umfram þá fjárhæð sem stefnandi hefði fengið úr Sjúkratryggingum Íslands, ef krafa hans nær þeirri fjárhæð að mati dómsins, hefði krafan ekki fyrnst, þar með talið þá vexti sem hann hefði átt rétt á. Í því tilviki sé gerð krafa um að málskostnaður verði felldur niður. Stefndi telur að virða verði stefnanda til eigin sakar ef krafa sem hann hefði átt rétt á úr Sjúkratryggingum Íslands hefur eyðilagst í höndum hans og eigi krafa hans að sæta þeim frádrætti.
Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði til að taka til greina fyrsta kröfulið stefnanda um sjúkrakostnað skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Engin gögn um útlagðan kostnað liggi fyrir í málinu, en stefnandi virðist byggja á einhliða útreikningum um fjölda skipta í sjúkraþjálfunarmeðferð og virðist krafan öll byggjast á áætluðum kostnaði til framtíðar. Spám um lífslíkur sé mótmælt og öllum forsendum og útreikningum stefnanda, þ.m.t. varðandi verð. Fallist dómurinn að einhverju leyti á þessa kröfu er þess krafist að hún verði lækkuð verulega og aðeins byggð á raunverulegum útlögðum kostnaði.
Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði til að taka til greina kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið tekjutap skv. 2. gr. laga nr. 50/1993 og byggir á því að viðmiðunarfjárhæð launa sé of há. Eðlilegt sé að miða við tekjur þriggja ára á undan atviki. Þá mótmælir stefndi öllum forsendum og útreikningum samkvæmt þessum lið. Ósannað sé að stefnandi hefði haft sambærilegar tekjur árin 2003 og 2004. Stefndi gerir fyrirvara vegna reiknaðs endurgjalds (að það geti endurspeglað réttar tekjur) og einnig við liðinn hreinar tekjur af rekstri. Þá sé viðmiðunartímabil óvinnufærni of langt. Þá krefst stefndi þess að frá skaðabótum dragist þeir liðir sem nefndir séu í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993.
Stefndi mótmælir kröfum um þjáningabætur skv. 3. gr. laga nr. 50/1993. Verði þær dæmdar séu þær of háar og krafist sé lækkunar þeirra. Stefndi mótmælir forsendum og útreikningi þeirra. Um frádrátt vísar stefndi til lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1993 og til 2. mgr. 3. gr. s.l.
Stefndi mótmælir kröfum um varanlegan miska skv. 4. gr. laga nr. 50/1993 en ef dæma á bætur sé á því byggt að miskastig sé of hátt. Að auki mótmælir stefndi forsendum og útreikningum á þessum kröfulið. Miskafjárhæð sé ekki rétt reiknuð út í stefnu miðað við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993 og krefst stefndi lækkunar í samræmi við ákvæðið að teknu tilliti til aldurs stefnanda. Þá vísar stefndi til lækkunarákvæða 4. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993.
Stefndi mótmælir kröfum um bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr. laga nr. 50/1993 en ef dæma á bætur samkvæmt ákvæðunum sé á því byggt að varanleg örorka sé of hátt metin og sé henni mótmælt. Stefndi mótmælir forsendum og útreikningi bóta og telur tekjur of hátt metnar í útreikningum stefnanda. Stefndi mótmælir því að forsendur séu til að bæta við 6% framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð. Þá gerir stefndi kröfu um að allar kröfur stefnanda sæti frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 og gerður er fyrirvari vegna allra útreikninga stefnanda, m.a. um að aldursstuðull skv. 6. gr. sé réttur.
Stefndi mótmælir vaxtakröfum og dráttarvaxtakröfum. Viðurkenningarkrafa rjúfi ekki fyrningu og vextir frá fyrri tíma en fjórum árum frá birtingu framhaldsstefnu séu fyrndir með vísan til fyrningarlaga nr. 14/1905 og laga nr. 150/2007. Dráttarvaxtakröfu er mótmælt. Verði fallist á hana telur stefndi að reikna eigi dráttarvexti mánuði eftir þingfestingu stefnu í framhaldssök.
Stefndi byggir á því að ekki séu skilyrði til að dæma stefndu óskipt til að greiða málskostnað og er því mótmælt.
IV.
Niðurstaða
Stefndu í máli þessu byggja báðir á því að krafa stefnanda sé fyrnd og verði ekki fallist á þá kröfu þá byggja stefndu á því að hún hafi fallið niður fyrir tómlæti. Þá telja stefndu að skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 um að tjónið verði rakið til rannsóknar eða sjúkdómsmeðferðar hér á landi séu ekki uppfyllt varðandi það tjón sem stefnandi kunni að hafa orðið fyrir vegna rannsóknar og meðferðar á Ítalíu.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 segir m.a. að rétt til bóta samkvæmt lögunum eigi sjúklingar, sbr. 2. gr. laganna, sem verði fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun. Í 2. gr. laganna er fjallað um tjónsatvik sem lögin taka til. Segir þar að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika sem þar eru rakin í 4 töluliðum. Segir í 1. tl., sem ætla verður að byggt sé á af hálfu stefnanda, án þess að það komi skýrt fram í málatilbúnaði hans, að bætur skuli greiða ef ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
Hinn 3. júlí 2008 lagði lögmaður stefnanda fram umsókn um bætur úr sjúkratryggingu samkvæmt lögum 111/2000 vegna tjóns sem hann hefði orðið fyrir „vegna slælegra vinnubragða starfsfólks taugalækningasdeildar“. Kröfu stefnanda var hafnað með bréfi, dags. 19. janúar 2008 (röng dagsetning á bréfi, 19. janúar 2008), þar sem krafan væri fyrnd samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 11/2000. Málið var endurupptekið hjá stefnda og með bréfi, dags. 18. febrúar 2009, var stefnanda tilkynnt sú niðurstaða að umsókninni væri synjað með vísan til framangreindra ákvæða.
Í 19. gr. laga nr. 111/2000 segir að kröfur um bætur skv. lögum þessum fyrnist þegar fjögur ár eru liðin frá því tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Í álitsgerð landlæknisembættisins, dags. 1. mars 2004, kemur fram að óánægja ættingja með meðferð sé skiljanleg þar sem þeir fái þá mynd að slapplega hafi verið staðið að verki þó að ólíklegt sé að það hefði breytt framgangi mála að öðru leyti. Fallast verður því á þá málsástæðu stefnda, Sjúkratrygginga Íslands, að á þessum tíma hafi stefnanda verið ljóst að hann hefði orðið fyrir tjóni, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2000. Með þessu áliti landlæknis er ítrekað að stefnanda mátti vera ljóst að hann hefði orðið fyrir tjóni sem honum og fjölskyldu hans eins og fram kemur í bréfi G taugalæknis, dags. 18. september 2003.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda Sjúkratryggingar Íslands af kröfum stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda íslenska ríkinu á reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Starfsfólk taugalækningadeildar hafi sýnt af sér gáleysi sem leitt hafi til þess að stefnandi fékk annað og verra áfall sem hafði mjög alvarleg einkenni í för með sér. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda.
Fyrir lág að um blóðþurrðarslag var að ræða skv. upplýsingu í læknabréfi sjúkraflutingarþjónustunnar sem flutti stefnanda frá Sardiníu á Landspítala. Það liggur ekki fyrir að stefnandi hafi verið settur á acetylsalisýlsýrumeðferð þar. Rök fyrir því að hefja slíka meðferð á Landspítala við komu á sjúkrahúsið voru þannig ekki afdráttarlaus. Hirðuleysi um að afla gagna frá Sardiníu hefði mögulega en ólíklega getað breytt framgangi og horfum tjónþolans. Þá er ekki ljóst að meðferð með þvagræsilyfi hafi breytt ferlinu, en hvorki, Landspítali né matsmenn í undir- og yfirmati hafa aflað upplýsinga um hvers vegna sú meðferð var hafin. Því er ekki hægt að segja neitt um hvort sú meðferð hafi verið rétt eða röng.
Í þessu máli er ekki um ranga greiningu að ræða, blóðþurrðarslag, en uppvinnslan dregst úr hófi, m.a. vegna tafa í MÓSA-greiningu. Þá er skráning aðila í sjúkraskrá ekki eins og best verður á kosið fyrstu dagana eftir að tjónþoli kemur á Landspítala. Ekki verður séð að þessi umsýsla hafi valdið tjóni, öðru en því að erfiðara er fyrir aðila máls að átta sig á sjúkrasögu stefnanda.
Byggt á þessu þykir ekki sannað að sú meðferð sem stefnandi hlaut á Landspítala hafi valdið honum tjóni.
Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda íslenska ríkið af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.
Stefnandi fékk hinn 30. mars 2012 gjafsókn, sem takmörkuð var við rekstur málsins fyrir héraðsdómi og takmörkuð við 600.000 kr. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 600.000 kr., greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Hildar Ýrar Viðarsdóttur hdl., 600.000 kr.
Dóminn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari ásamt sérfróðu meðdómendunum þeim Kristni Tómassyni lækni og Sigurði Árnasyni lækni.
Dómsorð:
Stefndu, Sjúkratryggingar Íslands og íslenska ríkið, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Hildar Ýrar Viðarsdóttur hdl., 600.000 kr.