Hæstiréttur íslands
Mál nr. 145/2013
Lykilorð
- Vopnalagabrot
- Ölvunarakstur
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2013. |
|
Nr. 145/2013.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl.) |
Vopnalagabrot. Ölvunarakstur.
X var sakfelldur fyrir ölvunarakstur og brot gegn vopnalögum. Var refsing hans ákveðin 400.000 króna sekt í ríkissjóð auk þess sem hann var sviptur ökurétti í átta mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af II. og III. kafla í ákæru, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir vopnalagabrot í níu liðum og ölvunarakstur, en ákærði var með dóminum sýknaður af broti samkvæmt I. kafla ákæru. Niðurstaða dómsins um sýknu er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Í h. lið í II. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum hníf með 18 sentimetra löngu blaði, sem fannst í ólæstri kistu á heimili hans. Fyrir dómi bar ákærði að hann notaði hníf þennan mikið til sjós þar sem hann hentaði vel í ,,saltið og slorið og slabbið“. Við skýrslutöku hjá lögreglu 21. júní 2012 kvaðst ákærði hafa notað hníf þennan við veiðar, en ákærði mun vera sjómaður. Því er ekki ósamræmi í framburði ákærða fyrir lögreglu og fyrir dómi um notkun hnífsins. Ljósmynd af hnífnum er ekki meðal gagna málsins, en nauðsyn hefði borið til þess svo að unnt væri að leggja mat á skýringar ákærða á notkun hans við sjósókn og veiðar. Samkvæmt framangreindu er ekki fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi er greinir í þessum ákærulið og verður hann sýknaður af henni.
Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákvæði hans staðfest um sakfellingu ákærða varðandi háttsemi þá sem greinir í a. til g. liðum og i. lið II. kafla ákæru og III. kafla hennar. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að brot samkvæmt b. lið í II. kafla ákæru varðar við 4. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. sem sett er með stoð í 39. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Refsingu ákærða ber að tiltaka samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en hún þykir hæfilega ákveðin 400.000 króna sekt sem greiðist í ríkissjóð og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins. Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, greiði 400.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði samtals 279.697 krónur í áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Þyríar H. Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 8. október 2012 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjanesbæ, nú búsettum í [...], fyrir eftirtalin brot:
I.
Líkamsárás, með því að hafa, miðvikudaginn 1. febrúar 2012, á heimili sínu að [...], 260 Reykjanesbæ, slegið A, kt. [...], einu sinni með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut nefbrot.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
II.
Brot á vopnalögum þann 10. apríl 2012, í herbergi á 3. hæð heimilis síns að [...], 260 Reykjanesbæ:
a.
Hafa eigi geymt Stevens 311 haglabyssu, eintaksnr. [...], í læstri hirslu, sérútbúnum vopnaskáp, og þannig ekki ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu ekki til hennar en haglabyssan fannst í byssutösku á gólfinu í herberginu.
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998 sbr. 1., 2. og 5. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
b.
Hafa haglabyssu þá sem nefnd er í lið a í sínum vörslum til viðgerðar án þess að vera með skriflega lánsheimild en jafnframt fyrir að hafa ekki tilkynnt lögreglustjóra um móttöku vopnsins.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 20. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 2., 4. og 5. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
c.
Hafa eigi geymt Henry HOO4V riffil, eintaksnr. [...] , og 4 stk. af 17 kalibera skotfærum í riffilinn í aðskildum og læstum hirslum, sérútbúnum vopnaskáp, og þannig ekki ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu ekki til þeirra en riffillinn fannst á gólfinu í herberginu og skotfærin fundust í litlu boxi ofan á skáp í seilingarfjarlægð frá rifflinum.
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1., 2. og 5. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
d.
Hafa geymt 3 stk. af 22 kalibera skotfærum í skotgeymi sem fundust ofan á skáp í herberginu og því eigi geymt skotfærin í læstri hirslu og þannig eigi ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu ekki til skotfæranna.
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1. og 2. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
e.
Hafa í vörslum sínum rafmagnsvopn, rafstuðbyssu, sem fannst inni í læstu innra hólfi í byssuskáp í herberginu.
Þetta er talið varða við c-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
f.
Hafa eigi geymt Ruger Mark 1, skammbyssu, eintaksnr. [...] , og skotgeymi, hlaðinn 8 skotfærum fyrir Ruger Mark 1 skammbyssu, í aðskildum og læstum hirslum en skammbyssan og skotfærin voru óaðskilin í læstum skáp í herberginu.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 2. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
g.
Hafa geymt 1345 stk. af virkum skotfærum í ólæstri kistu á gólfinu í herberginu og því eigi geymt skotfærin í læstri hirslu og þannig eigi ábyrgst að óviðkomandi aðilar næðu ekki til skotfæranna.
Þetta er talið varða við 1. og 2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1. og 2. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
h.
Með því að hafa í vörslum sínum hníf með 18 cm löngu blaði, sem fannst í ólæstri kistu í herberginu.
Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
i.
Með því að hafa selt tvær haglabyssur Benelli Nova, eintaksnr. [...] , og Remington 1187, eintaksnr. [...], án þess að fyrir lægi kaupheimild frá lögreglustjóra.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 19. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 30. gr. reglugerðar nr. 787/1998.
Varða liðir a-i við 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 59. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
III.
Umferðarlagabrot, með því að hafa, þann 10. maí 2012, ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,00) frá [...], Reykjanesbæ, að lögreglustöðinni í Keflavík, Hringbraut 130, Reykjanesbæ.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði ekki gerð refsing. Til þrautavara er þess krafist að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður greiðist af ríkissjóði.
I. Ákæruliður. Líkamsárás 1. febrúar 2012.
I.
Hinn 1. febrúar 2012 barst lögreglu tilkynning um ölvaðan ökumann á leið frá [...], Reykjanesbæ. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar lögregla kom á vettvang hafi A, eiginkona ákærða, og sonur hennar, B, verið fyrir utan húsið og blætt hafi úr nefi hennar. A hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis og ekki verið hægt að ræða við hana vegna tungumálaörðugleika. Jafnframt hafi A verið í talsverðu uppnámi. B hefði skýrt frá því að ákærði væri inni í húsinu og hann hefði lagt hendur á A. B hefði hins vegar ekki orðið vitni að því. Þá segir í frumskýrslu að lögregla hafi farið inn og rætt við ákærða sem hefði skýrt frá því að þau hjónin hefðu neytt áfengis og farið að rífast. Hann hefði flúið inn í herbergi og lokað á eftir sér. Þegar hann hafi svo ætlað að fara fram hafi A haldið um hurðarhúninn og hann ekki komist út. Enginn hurðarhúnn hafi verið að innanverðu og hann því notað skrúfjárn til að opna og er dyrnar hafi opnast hafi A komið inn með hurðinni og væntanlega rekist í hana því hún hafi haldið um nefið og fengið blóðnasir. Ákærði hefði tekið tusku og fjarlægt blóðdropa á gólfinu, eftir að hann hefði hlaupið út á eftir henni þar sem hann hefði talið að hún ætlaði að fara á bifreiðinni.
A mætti hjá lögreglu 2. febrúar 2012 vegna meintrar líkamsárásar ákærða deginum áður. Greindi hún frá því að hafa drukkið Tequila kvöldinu áður og hún og eiginmaður hennar hefðu byrjað að rífast. Hún hefði svo fengið högg í nefið frá honum. Hún hefði hlaupið í annað herbergi og hann farið á eftir henni og þau hefðu slegist. Hún hefði komist út úr herberginu og læst ákærða inni í herberginu, en hann hefði náð að brjóta lásinn og komið fram. B hefði þá komið að og spurt hvort hann væri að berja mömmu sína. Ákærði hefði sagt að hún hefði dottið. Hann hefði verið með skrúfjárn í hendi þegar hann sagði þetta. Við skýrslutökuna var A ekki kynntur réttur til að skorast undan því að gefa vitnaskýrslu þar sem hún væri maki ákærða, sbr. a-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Hinn 29. maí 2012 var A aftur yfirheyrð hjá lögreglu og kvaðst hún ekki vilja fylgja málinu eftir og vildi hún ekkert tjá sig um málið.
B mætti samkvæmt boðun hjá lögreglu 26. apríl 2012, en hann skoraðist undan því að gefa vitnaskýrslu, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008.
Í læknabréfi Andra Heide, dags. 15. maí 2012, segir að A hafi komið á Heilsugæslu Keflavíkur að kvöldi 1. febrúar 2012 í fylgd tengdamóður sinnar. Frásögn A hafi verið eilítið óljós og flöktandi, en henni hafi klárlega verið brugðið og mikið niðri fyrir. Hún hafi greint frá því að hún og eiginmaður hennar hefðu setið við drykkju þegar hann hefði lamið hana skyndilega í andlitið með krepptum hnefa, hótað henni með skrúfjárni og ætlað að drepa hana með því. Þau hefðu svo tekist á og hann náð með báðum höndum um háls hennar og þrengt að. Hann hefði því næst hrint henni niður stiga og hún fengið sár á hægri fót. Við skoðun hafi sést mar yfir nefi og hliðrun verið á nefbeini til hægri. Einnig hafi hún verið með 5x5 cm svöðusár aftan á kálfa hægra megin, rétt ofan við hásin. Einnig hafi verið tveir roðablettir á hálsi, við rætur snúningsvöðva og hægra megin ávalt/sporöskjulaga far um 1x2 cm. Vinstra megin hafi verið um 3 cm og um 22 mm djúp rispa. Í bréfi læknisins, dags. 2. ágúst 2012, segir að A hefði ekki sinnt boðun um að mæta í myndgreiningu vegna sterks gruns um nefbrot. Hún hefði hins vegar læknisfræðilega (kliniskt) verið greind með nefbrot, en forsendur þess sé hliðrun á nefbeini. Þó beri að taka fram að ekki sé hægt að sýna fram á óyggjandi sönnun þess nema með myndgreiningu. Mat læknisins um að hún hafi nefbrotnað við árásina stæði þó.
II.
Ákærði sagði fyrir dómi að hann og eiginkona hans hefðu lent í rifrildi umrætt kvöld og komið hefði til átaka. Hann hefði farið inn í herbergi og lokað sig af, en hún hefði elt hann og haldið hurðinni, þ.e. haldið hurðarhúninum uppi. Hann hefði svo náð að brjóta hurðarhúninn með skrúfjárni og hún hefði „hrunið“ á hurðina. Ákærði kvaðst hafa verið hinum megin við hurðina og því ekki séð hvað gerðist, þ.e. hvernig hún hefði lent á hurðinni. Hún hefði verið með blóðnasir, farið út úr húsinu og ætlað burt á bílnum með börnin og hann hefði þá hringt á lögregluna. Ákærði kvaðst hafa þurrkað upp blóðdropa á gólfinu með tusku, sem voru fyrir framan hurðina. Spurður af hverju hann hafi opnað dyrnar fyrst hann var að flýja undan A sagði ákærði að hann hafi ekki ætlað að vera í herberginu alla nóttina. Nánar um atvik við hurðina sagði ákærði að dyrnar opnist inn í herbergið og brotaþoli hefði legið á hurðinni. Þegar dyrnar hefðu allt í einu opnast hefði A dottið inn. Ákærði neitaði því að hafa kýlt A, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Jafnframt sagði ákærði að A hefði verið í miklu uppnámi umrætt sinn. Nánar um átök ákærða og A áður en hann fór inn í herbergið sagði ákærði að inni í stofu hefði A slegið hann og hann hefði haldið henni frá sér. Hann hefði svo farið inn í herbergið, hún hefði elt hann og hann hefði ýtt henni frá sér og lokað. Spurður um samband sitt við B sagði ákærði að hann væri búinn að vera til mikilla vandræða á heimilinu og hann ætti erfitt með að greina á milli ímyndunar og raunveruleika.
Vitnið A sagði fyrir dómi að hún og ákærði hefðu neytt áfengis umrætt kvöld og farið að rífast. Vitnið kvaðst hafa rekist á hurð og verið í miklu sjokki og í fyrstu hefði vitnið haldið að ákærði hefði kýlt það. Jafnframt sagði vitnið að það hefði einnig meitt sig í stiganum. Nánar um það hvernig vitnið hefði meitt sig á hurð sagði vitnið að þegar það hefði rifist við ákærða hefðu þau verið sitt hvorum megin við hurðina og þau hefðu haldið í hurðarhúninn og togast á, hvort á móti öðru. Hurðarhúnninn hefði brotnað og hurðin farið í andlit vitnisins, þegar ákærði hefði sleppt hurðinni augnablik. Vitnið sagði jafnframt að það væri ekki rétt að ákærði hefði slegið það. Einnig sagði vitnið að það hefði komið til átaka milli þess og ákærða fyrir atvikið með hurðina. Það hefðu ekki beint verið slagsmál og það hefði verið vitnið sem hefði átt upptökin. Fram kom hjá vitninu að það hefði tvisvar áður nefbrotnað, fyrst þegar það var sex ára og svo þegar það var þrettán eða fjórtán ára.
Vitnið Andri Jón Heidi læknir skýrði frá því fyrir dómi að A hefði verið með „klínískt nefbrot“ og hún hefði verið með mar yfir nefi og hliðrun til hægri. Einnig hefði hún verið með grunn svöðusár á kálfanum. Vitnið útskýrði að með klínísku nefbroti væri átt við það að nefbeinið væri fært til hliðar, en þá væri það „klinískt brotið“ vegna þess að bein geti ekki færst til nema það sé brotið. Jafnframt sagði vitnið að oftast þurfi ekki myndgreiningu, nema kannski þegar um litla hliðrun væri að ræða. Í tilviki A hafi ekki þurft að taka mynd. Þá sagði vitnið að nefbrot hennar gæti komið heim og saman við það að hún hafi verið kýld. Vitninu var kynntur vitnisburður A um að hún hefði nefbrotnað þegar hún hefði togast á við ákærða um hurð og kvaðst vitnið telja það ólíklegt, nema viðkomandi væri með beinsjúkdóm, enda þurfi átak til að bein brotni. Þá taldi vitnið að það væri ólíklegt að vitnið hefði verið að greina eldra nefbrot þar sem brot með hliðrun væri almennt lagað. Jafnframt sagði vitnið að einstaklingur sem hefði eitt sinn nefbrotnað væri ekki líklegra en aðrir til að nefbrotna. Vitnið kvaðst vera sannfært um að A hefði verið nefbrotin. Spurt hvort hugsanlegt væri að A hefði nefbrotnað af öðrum orsökum en þeirri að hún hafi verið kýld sagði vitnið að nefbrot gæti komið til af hundrað þúsund mismunandi ástæðum. Kenningin um hurðina væri hins vegar ólíkleg.
III.
Af hálfu ákærða var lögð fram skrifleg greinargerð, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, vegna ákæruliða I og II.
Í greinargerðinni segir að ákærði byggi sýknukröfu sína í I. ákærulið á því að áverkar brotaþola séu ýmist tilkomnir vegna hennar eigin æsings eða óhappatilviks. Þá er byggt á því að bæði brotaþoli og vitni hafi skorast undan því að gefa skýrslu hjá lögreglu á grundvelli 117. gr. laga nr. 88/2008. Skýrsla brotaþola frá 2. febrúar 2012 verði ekki lögð til grundvallar í málinu þar sem brotaþoli hafi síðar skorast undan því að gefa skýrslu, en henni hafi ekki verið kynntur réttur til að skorast undan vitnaskyldu. Engin önnur vitni séu að atburðum.
Þá segir í greinargerð ákærða að málsgrundvöllur ákæruvaldsins virðist byggður á bréfi Andra Heide læknis, dagsettu 15. maí 2012, og 2. ágúst 2012, en þar vitni læknirinn um afskipti sín við brotaþola og lýsi hann vitnisburði brotaþola sem óljósum og flöktandi. Það sé í samræmi við framburð lögreglumanna sem fyrstir komu á vettvang, að erfiðlega hafi gengið að eiga samskipti við brotaþola vegna áberandi ölvunar og tungumálaörðugleika. Brotaþoli tali ekki góða íslensku og hafi verið stuðst við túlk við skýrslutöku hjá lögreglu. Ekki liggi fyrir að læknirinn tali pólsku eða að túlkur hafi verið á staðnum til að þýða frásögn brotaþola. Lýsing í bréfum læknisins sé því í besta falli skynjun hans á aðstæðum út frá brotakenndri og bjagaðri frásögn brotaþola.
Hvað áverka brotaþola varðar sé skýrsla læknis um nefbrot aðeins byggð á frumskoðun, án frekari upplýsinga eða rannsókna og því í raun ósannað að brotaþoli hafi verið nefbrotin. Ekki sé tekið tillit til þess við mat læknis að A hafi nefbrotnað tvisvar sinnum áður og hvort hliðrun á nefbeini sé til komin af þeim sökum. M.ö.o. hvort hliðrun á nefbeini hafi verið til staðar fyrir atburði 1. febrúar 2012.
Það sé því ósannað að ákærði hafi kýlt brotaþola einu höggi með krepptum hnefanum. Ákærði byggir á því að án frekari gagna teljist ákæruvaldið ekki hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á það er lagt samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008.
Til vara er byggt á því að heimfærsla til 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé röng. Ósannað sé að brotaþoli hafi nefbrotnað og falli ryskingar ákærða og brotaþola því ekki undir skilyrði ákvæðisins.
IV.
Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag og verður að skýra skynsamlegan vafa ákærða í hag, sbr. 109. gr. sömu laga.
Eins og rakið hefur verið var A, brotaþola málsins, ekki kynntur hjá lögreglu réttur til að skorast undan því að gefa skýrslu þar sem hún væri maki ákærða, sbr. a-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Í máli þessu verður því ekki byggt á skýrslu A hjá lögreglu, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 323/2005, 280/2012 og 258/2012. Fyrir dómi staðhæfði A að ákærði hefði ekki kýlt hana, heldur hefði hún slasað sig á hurð, sem hún og ákærði hefðu togast á um, og er ekki hægt að útiloka að brotaþoli hafi skollið á hurðina þegar hurðarhúnninn hafi brotnað og dyrnar skyndilega opnast. Gegn neitun ákærða og fullyrðingu brotaþola sjálfs, um að ákærði hafi ekki kýlt hana, verður sakfelling hans ekki byggð á því sem brotaþoli á að hafa sagt við lækni, um að ákærði hafi kýlt hana, eða á því að læknir telji ólíklegt að hún hafi nefbrotnað með því að rekast á hurð. Með vísan til alls framangreinds ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
II. ákæruliður. Vopnalagabrot 10. apríl 2012.
I.
Að kvöldi 10. apríl 2012, kl. 22:13, fékk lögregla tilkynningu um að aðili að [...] í Reykjanesbæ hefði hótað því að fremja sjálfsvíg með skotvopni. Fram kom að tilkynnandi væri sonur þess sem ætlaði að fremja sjálfsvíg. Í lögregluskýrslu segir að lögreglumenn hefðu farið á vettvang og beðið fyrir utan húsið þar til sérsveit frá ríkislögreglustjóra barst. Tilkynnandi hafi verið búinn að taka útidyrahurðina úr lás og lögreglan því getið gengið hljóðlega inn í húsið og komið aðilanum á óvart í stofunni, ákærða í máli þessu. Eiginkona ákærða, A, hafi verið heima og hún hefði sagt lögreglu að hún kannaðist ekki við að ákærði hefði hótað sjálfsvígi. Hún hefði hins vegar skýrt frá því að ákærði væri þunglyndur og hann stæði í forræðisdeilu við barnsmóður sína. Fyrr þennan dag hefði hann fengið þau tíðindi að hún væri að öllum líkindum að fara með börnin úr landi.
Ákærði var handtekinn og samtals 22 skotvopn og skotfæri á heimilinu voru haldlögð. Tekið var blóðsýni úr ákærða og var niðurstaða rannsóknar á því sú að vínandamagn í blóði hans hefði verið 1,90.
Í lögregluskýrslu, dags. 11. apríl 2012, segir að ákærði hafi við yfirheyrslu hjá lögreglu neitað því að hann hefði hótað því að fremja sjálfsvíg og sagt að hann gæti ekki gefið neinar skýringar á því af hverju B, fóstursonur hans hefði hringt í lögregluna. Spurður um riffil sem var á stofugólfinu hafi ákærði sagt að hann hefði verið að sýna bróður sínum riffilinn fyrr um daginn þar sem hann hafi viljað selja honum riffilinn. Jafnframt hafi ákærði sagt að hann gangi frá vopnum sínum jafnóðum, en af einhverjum orsökum hefði hann stillt rifflinum upp við vegg en ekki sett hann inn í skápinn. Þá hafi ákærði sagt að kista með skotfærum hefði verið ólæst þar sem hann hefði verið að sýna bróður sínum skotin í riffilinn. Þá hafi ákærði sagt að hann hefði verið að gera upp tvíhleypu fyrir félaga sinn og hann hafi verið búinn að gera byssuna tilbúna til afhendingar. Um tvær skammbyssur hafi ákærði sagt að þær væru eftirlíkingar.
Tekin var skýrsla af A hjá lögreglu 14. apríl 2012. Hún greindi frá því að bróðir ákærða hefði verið í heimsókn hjá honum um daginn og þeir hefðu verið inni í herbergi þar sem byssurnar væru geymdar, en sjálf hefði hún verið í eldhúsinu. Bróðirinn hefði svo farið um klukkan fimm og ákærði þá byrjað að neita áfengis. Einhver æsingur hefði hlaupið í ákærða um kvöldið, en hann hefði fengið slæm tíðindi frá lögfræðingi fyrr um daginn vegna forræðisdeilu hans við barnsmóður sína og einnig vegna fjárhagsvandræða. B hefði komið og ætlað að leika sér í tölvunni en hún hafi beðið hann um að fara fram. Hann hefði ekki verið sáttur við það en gert það. Vitnið hefði svo rætt við ákærða og hann hefði grátið. Lögreglan hefði svo komið og vitninu brugðið mjög. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hefði ekki gefið í skyn að hann væri í sjálfsvígshugleiðingum. Ákærði hefði talað um að yfirgefa svæðið eða fara út, þ.e. viljað vera út af fyrir sig, og hann hefði farið inn í herbergið þar sem skotvopnin væru geymd og lokað að sér. Hún hafi svo gengið á eftir honum og fengið hann til að spjalla við sig.
Hinn 26. apríl 2012 gaf vitnið B skýrslu hjá lögreglu og kvaðst það hafa gert of mikið úr því sem gerðist umrætt kvöld. Móðir vitnisins og ákærði hefðu rætt saman á ensku og sjálft kunni vitnið ekki mikið í ensku. Ákærði hefði verið grátandi og miður sín og vitnið hefði sennilega misskilið það sem móður vitnisins og ákærða fór á milli. Þá kvaðst vitnið ekki hafa heyrt ákærða hóta sjálfsvígi en talið að svo gæti farið. Jafnframt sagði vitnið að það hefði gert mistök með því að hringja í lögregluna, en það hefði misskilið ástandið sem hefði komið upp. Vitnið hefði beðið móður sína og ákærða afsökunar á því og það vildi einnig biðja lögregluna afsökunar.
Ákærði var yfirheyrður aftur hjá lögreglu 21. júní 2012, og verður vísað til framburðar hans síðar eftir því sem ástæða er til.
III.
Í greinargerð sinni byggir ákærði sýknukröfu sína, hvað varðar liði a, c, d, f og g, á þeim rökum að varsla skotvopna og skotfæra hafi verið með því móti að tryggt hafi verið að óviðkomandi aðili næði ekki til þeirra, sbr. 1. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Vopnin hafi þannig ýmist verið í notkun eða hann átt eftir að ganga frá þeim.
Í 1. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998 segi að eigandi eða vörsluaðili skotvopns og skotfæra skuli ábyrgjast vörslu þeirra með þeim hætti að óviðkomandi aðili nái ekki til þeirra. Í athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til vopnalaga nr. 16/1998 komi fram að í 1. mgr. sé að finna varúðarreglu sem leggi þá skyldu á eigendur eða umráðamenn skotvopna að þeir varðveiti skotvopn með þeim hætti að tryggt sé svo sem kostur er að óviðkomandi aðilar nái ekki til þeirra. Segi síðan í greinargerðinni að um vörslu skotvopna og skotfæra sé fjallað nánar í 2. mgr. 23. gr. Í því ákvæði segi að þegar skotvopn og skotfæri séu ekki í notkun skuli skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum. Meðan skotvopn sé í notkun sé ekki skylda að geyma það í læstum hirslum.
Tilgangur laganna sé að tryggja að óviðkomandi aðili nái ekki til skotvopna. Með vísan til tilgangs laganna verði að gefa eiganda eða vörsluaðila það svigrúm að á meðan tryggt sé að óviðkomandi komist ekki í skotvopnin, m.a. þar sem eigandi eða vörsluaðili sé á vörslustað, sé það ekki brot á lögunum að ekki sé búið að ganga frá skotvopnunum inn í læsta skápa. Verði að telja nægjanlegt að eigandi eða vörsluaðili tryggi að aðstæður séu með því móti að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Af sama meiði sé skylda eiganda eða vörsluaðila að ganga frá skotvopni sem var í notkun, með tryggum hætti, ekki þrengri en svo að vörsluaðili skuli ganga frá skotvopni inn í læstan skáp innan eðlilegs tímamarks. Slíkt tímamark sé í hlutfalli við aðstæður hverju sinni. Því tryggari sem aðstæður séu og ólíklegra sé að utanaðkomandi aðili geti komist í skotvopnin því lengra svigrúm verði að heimila eiganda eða vörsluaðila til að ganga frá skotvopnunum.
Fyrir liggi að ákærði hafi verið heima, vakandi og aðeins átt eftir að ganga frá þeim skotvopnum sem ekki voru inni í læstum skápum eða voru í röngum skápum. Skotvopnin og skotfærin hafi verið í herbergi inn af eldhúsi á efstu hæð að heimili ákærða, útidyr verið læstar og ákærði ennþá vakandi í næsta herbergi. Því hafi verið tryggt að enginn óviðkomandi kæmist í skotvopnin. Aðstaða ákærða sé að öllu leyti til fyrirmyndar.
III.
Ákærði sagði fyrir dómi að stofan hefði allt í einu fyllst af lögreglumönnum, hann verið handtekinn og byssurnar haldlagðar. Ástæða þess að lögreglumenn hefðu ruðst inn hefði verið sögð sú að tveir skothvellir og neyðaróp hefðu heyrst. Daginn eftir hefði svo komið í ljós að það hefði verið B, fóstursonur ákærða, sem hefði hringt í lögreglu, en hann hefði verið ósáttur við að honum hefði verið bannað að fara í tölvuleik. Borin var undir ákærða niðurstaða rannsóknar á blóðsýni sem tekið var af ákærða og sýndi að áfengismagn í blóði hans hefði verið 1,90 og vefengdi hann ekki niðurstöðuna.
Ákærði sagði um a- og b-lið í umræddum ákærulið, Stevens 311 haglabyssu, sem fannst í byssutösku á gólfi í herberginu, að hann hefði verið nýbúinn að lakka hana og stinga henni í tösku og hún hafi verið klár til að fara inn í skáp en hann hafi viljað láta lofta aðeins lengur um hana. Eigandi byssunnar hafi ætlað að sækja hana morguninn eftir. Spurður af hverju byssan hafi verið í tösku ef hún hefur verið nýlökkuð sagði ákærði að það væri ekki gott að setja hana í lokaðan skáp. Inntur eftir því af hverju hann var með byssuna í vörslum sínum til viðgerðar án skriflegrar lánsheimildar og án þess að tilkynna lögreglu um hana sagði ákærði að hann hefði ekki verið með hana til viðgerðar. Hann hefði pússað viðinn á henni og lakkað hann og blámað en það teljist ekki viðgerð. Þá sagði ákærði að vinnureglur hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum væru þær að ef maður væri með byssu aðeins í örfáa daga þyrfti ekki lánsheimild. Jafnframt sagði ákærði að hann hefði margreynt að leggja inn lánsheimildir en það ekki verið tekið við þeim nema lánið væri til lengri tíma. Enn fremur sagði ákærði að hann hefði ekki getað lagt inn lánsheimild þar sem þetta hafi verið um páskahelgi.
Um Henry riffil, sbr. c-lið, sagði ákærði að hann hefði verið að sýna bróður sínum hann, en hann hefði komið í heimsókn fyrr um kvöldið eða seinni partinn og haft hug á að kaupa riffilinn og skot í hann. Ákærði hefði því opnað kistu þar sem hann geymi veiðihnífa sína og skotfæri. Þeir hefðu spjallað saman og farið inn í stofu og ákærði átt eftir að ganga frá þeim fyrir nóttina þegar lögregla kom. Ákærði kvaðst hafa verið í hrókasamræðum við bróður sinn en þeir hittist sjaldan.
Hvað varðar 3 stk. af 22 kalibera skotfærum, sem fundust ofan á skáp, sbr. c-lið, sagði ákærði að þau hefðu verið í bakpoka sem hefði verið í kistunni.
Ákærði kvaðst hafa notað rafstuðbyssuna sem greinir í e-lið sem vasaljós, hent henni inn í skáp og gleymt henni og hann hefði svo afsalað sér henni hjá lögreglu. Ákærði sagði að hann hefði fengið rafstuðbyssuna sem tryggingu frá stúlku fyrir mörgum árum, en hann hefði lánað henni fyrir leigubíl.
Um skammbyssu og skotfæri, sem lýst er í f-lið, sagði ákærði að hann hefði ekki verið með lyklana að kistunni þar sem hann geymi skotfæri á sér þegar hann hafi verið að ganga frá magasíni einhvern tímann þegar hann hafi verið að koma af skotsvæði og sett þessa muni óaðskilda í læstan skáp.
Hvað varðar skotfæri í ólæstri kistu, 1345 stk., sbr. g-lið, sagði ákærði að lásinn hefði legið við hliðina á kistunni en hann hefði opnað kistuna þegar hann sýndi bróður sínum skotin.
Um hníf með 18 cm löngu blaði, sbr. h-lið, sagði ákærði að hann hefði notað hann til sjós, en hann væri sjómaður.
Varðandi lið i, þar sem ákærða er gefið að sök að hafa selt tvær haglabyssur án þess að fyrir lægi kaupheimild frá lögreglustjóra, sagði ákærði að kaupin á byssunum hefðu gengið til baka þar sem bróðir hans hafi ekki verið búinn að endurnýja byssuleyfi sitt og frændi hans hefði hætt við að kaupin. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu, um að hann hefði verið búinn að selja C aðra byssuna og bróður sínum hina og að ákærði gerði sér grein fyrir því að þessi afgreiðsla væri ekki samkvæmt reglum, sagði ákærði að byssurnar hefðu aldrei verið seldar og hann hefði ekki vitað við yfirheyrslu hjá lögreglu að bróðir hans hefði ekki verið búinn að endurnýja byssuleyfið. Það hafi því verið ómögulegt fyrir ákærða að selja byssurnar.
Þá sagði ákærði að hann skilji aldrei eftir skotfæri og vopn ófrágengin yfir nótt og hann hefði gengið frá þeim fyrir nóttina ef lögreglan hefði ekki komið á staðinn. Einnig sagði ákærði að enginn hefði getað komist í vopnin og skotvopnin og átt við þau án vitundar hans.
Vitnið Ragnar Guðmundsson lögreglumaður sagði fyrir dómi að það hefði borist tilkynning um að maður í umræddu húsi hygðist svipta sig lífi með skotvopni. Tilkynningin hefði borist frá fóstursyni mannsins, sem hefði verið staddur í húsinu ásamt móður sinni og systkinum. Lögreglumenn hefðu farið vopnaðir á vettvang og beðið eftir sérsveit lögreglustjóra. Á meðan hefði verið tilkynnt að fóstursonurinn væri búinn að taka úr lás og sérsveitin síðan getað læðst inn í húsið og ákærði verið handtekinn. Rætt hefði verið við eiginkonu ákærða og hún sagt að ákærði hefði verið langt niðri og þau hefðu verið að ræða málin þegar lögreglan kom. Þá sagði vitnið að skotvopn hefðu verið geymd í litlu herbergi á þriðju hæð og riffill legið á miðju gólfinu. Skotfæri í riffilinn hefðu legið ofan á skáp og haglabyssa verið í poka upp við skáp. Einnig hefði verið í herberginu ólæst kista full af skotfærum. Ákærði hefði verið handtekinn í ljósi ófullnægjandi frágangs skotvopnanna á heimilinu og þar sem hann hefði verið ölvaður, til að tryggja öryggi á vettvangi.
Vitnið Eiríkur Guðni Ásgeirsson lögreglumaður greindi frá því fyrir dómi að á heimili ákærða hefði verið riffill á gólfi og skot í honum verið stutt frá, uppi á skáp. Þá hefði haglabyssa í byssutösku staðið upp við vegg og kista með skotfærum og hnífum verið ólæst. Einnig hefði fundist rafstuðbyssa og skammbyssa og hlaðinn skotgeymir í sama skáp. Þá hefði ákærði ekki verið með lánsheimild fyrir einni byssu sem þar var og hann hefði ekki haft kaupheimild vegna annarrar byssu. Þá kom fram hjá vitninu að ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis.
Vitnið A, eiginkona ákærða, sagði fyrir dómi að ákærði gengi vel um skotvopn. Allt væri læst og enginn mætti fara inn í herbergið þar sem þau væru geymd. Vitnið færi hins vegar stundum í herbergið, t.d. til að prenta eitthvað. Innt eftir því hvort það væri mögulegt að óviðkomandi aðili hefði getað komist í skotvopnin umrætt sinn sagði vitnið að það hefði verið mögulegt en það hefði ekki séð neinn.
IV.
Hvað varðar liði a, c, d, f og g byggir ákærði sýknukröfu sína á því að vopnin hafi ýmist verið í notkun eða hann átt eftir að ganga frá þeim og að gefa verði honum svigrúm til þess, enda hafi verið tryggt að enginn óviðkomandi kæmist í skotvopnin. Í þessu sambandi bendir ákærði á að hann hafi verið heima við og því hafi enginn óviðkomandi getað komist í vopnin.
Vandséð er að vopnin hafi verið í notkun umrætt sinn og ákærði hafði enga réttlætanlega ástæðu til að ganga ekki frá umræddum vopnum og skotfærum með tilskildum hætti. Þannig getur ákærði t.d. ekki, hvað varðar a-lið, borið fyrir sig að viðurinn á byssunni hafi verið nýlega lakkaður, í ljósi þess að hann var orðinn nægilega þurr til að geta verið í byssutösku. Þá er ekki unnt að fallast á það með ákærða að það dugi til að tryggja ábyrga vörslu skotvopnanna og skotfæranna að ákærði var heima við, einkum með hliðsjón af því að á heimilinu voru börn. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefið að sök í liðum a, c, d, f og g. Brot ákærða eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Sýknukrafa ákærða hvað varðar b-lið virðist byggð á því að hann hafi ekki verið með byssuna til viðgerðar þar sem pússun og lökkun viðar og blámun geti ekki talist viðgerð og að hann hafi ekki getað skilað lánsheimild til lögreglu. Samkvæmt almennri málnotkun var um viðgerð að ræða og bar ákærða samkvæmt 2. mgr. 20. gr. vopnalaga nr. 16/1998 að vera með skriflega lánsheimild frá eiganda byssunnar, en hann var ekki með slíka heimild. Þá bar ákærða að tilkynna lögreglu um móttöku og afhendingu vopnsins og hefur á engan hátt verið sýnt fram á að honum hafi verið það ómögulegt. Ákærði hefur því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í b-lið. Brot ákærða varðar við 2. mgr. 20. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1., 2. og 5. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl.
Samkvæmt c-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 var ákærða bannað að hafa í vörslum sínum rafstuðbyssu, eins og honum er gefið að sök í e-lið, og breytir engu í því sambandi hvort hann hafi í raun notað hana sem vopn eða ekki. Þá breytir engu um brot ákærða þótt hann hafi afsalað sér vopninu eftir að upp komst um brot hans. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn c-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Þegar ákærði var við yfirheyrslu hjá lögreglu spurður út í „kafarahníf“, sbr. h-lið, sagði ákærði að hann hefði keypt hnífinn af fóstursyni sínum sem hefði fundið hnífinn og ákærði hefði notað hann við veiðar. Ákærða var þá bent á að samkvæmt lögum væru bannaðar vörslur á bitvopni með blaði lengra en 12 cm, sem ekki væri ætlað til heimilishalds eða atvinnu, og kvaðst ákærði ekki vera kafari. Ákærði sagði ekki að hann notaði hnífinn á sjó í atvinnuskyni, eins og hann gerði fyrir dómi, og er þetta misræmi í framburði hans til þess fallið að gera skýringu hans um að hann noti hnífinn til sjós ótrúverðuga. Verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Í i-lið er ákærða gefið að sök að hafa selt tvær haglabyssur, Benelli Nova og Remington, án þess að fyrir lægi kaupheimild lögreglustjóra. Fram kemur í gögnum málsins að upp hafi komist um brot ákærða þar sem hann hafi verið skráður fyrir vopnunum en þau ekki verið á heimilinu. Hjá lögreglu kvaðst ákærði vera búinn að selja byssurnar fyrir stuttu og það væri ekki búið að skrá þær á nýja eigendur. Þá kvaðst ákærði gera sér grein fyrir því að þessi afgreiðsla væri ekki samkvæmt reglum. Fyrir dómi bar ákærði á annan veg og virðist hann byggja sýknukröfu sína í þessum lið á því að kaupin hafi gengið til baka, en annar aðilinn hafi ekki verið búinn að endurnýja byssuleyfi sitt og hinn hafi hætt við kaupin. Með vísan til framburðar ákærða hjá lögreglu um sölu á byssunum og að hann hefði gert sér grein fyrir því að hann hefði brotið reglur verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í i-lið. Brot ákærða varðar við 1. mgr. 19. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 30. gr. reglugerðar nr. 787/1998.
III. ákæruliður. Umferðarlagabrot 10. maí 2012.
I.
Að morgni fimmtudagsins 10. maí 2012 kom ákærði á lögreglustöðina við Hringbraut í Reykjanesbæ og vildi fá að ræða við Maríu Pálsdóttur lögreglukonu um afhendingu á haldlögðum munum, sbr. II. ákærulið. Klukkan var þá 09:19. Í frumskýrslu lögreglu segir að fundist hafi áfengislykt af ákærða og hann verið spurður hvort hann hefði komið akandi og hann svarað því játandi. Ákærði hafi verið beðinn um að gangast undir öndunarpróf og niðurstaða þess verið 0,90. Ákærði hafi þá verið handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur. Hann hefði skýrt frá því að hann hafi verið að koma frá lögreglustöðinni á Brekkustíg í Reykjanesbæ og ekið beina leið á lögreglustöðina við Hringbraut og hann hefði ekki fundið til áfengisáhrifa.
Tekin voru tvö blóðsýni úr ákærða og var niðurstaða rannsóknar sú að samkvæmt fyrra sýninu var vínandamagn í blóði ákærða 1,10 og í því seinna 0,80.
Í upplýsingaskýrslu Arnars Más Jónssonar lögreglumanns, dagsettri sama dag, 10. maí, segir að við leit lögreglu í bifreið ákærða af áfengisumbúðum hafi hann viðurkennt að hafa komið akandi á lögreglustöðina við Hringbraut en fyrst hefði hann farið á lögreglustöðina á Brekkustíg. Jafnframt hafi hann sagt að honum fyndist þetta vera kaldhæðni þar sem hann hefði ekið á milli tveggja lögreglustöðva. Ákærði hefði svo þurft að hafa samband við eiginkonu sína þar sem hún hafi þurft að koma að sækja bifreiðina og hún hafi þurft bifreiðina til að komast í verslun.
Í upplýsingaskýrslu Sigvalda Arnars Lárussonar lögreglumanns kemur fram að í samræðum hans við ákærða hefði hann sagt að þetta hlyti að vera gríðarlega einbeittur brotavilji hjá sér, að aka ölvaður frá einni lögreglustöð á aðra.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu kl. 13:16 sama dag, 10. maí. Ákærði var spurður hvort það væri rétt að hann hefði svarað því játandi þegar María Pálsdóttir spurði hvort hann hefði komið akandi að lögreglustöðinni. Ákærði svaraði að það væri rétt þar sem hann hefði það nú fyrir reglu, eftir leiðindasamskipti við hana, að segja henni helst aldrei satt. Hann kvaðst ekki hafa komið akandi að lögreglustöðinni. Um áfengisdrykkju sína sagði ákærði að hann hefði ekki drukkið eftir klukkan fjögur um nóttina áður og kvaðst hann vera undrandi á því að það hefði mælst í honum vínandi. Spurður hvernig hann hefði farið á lögreglustöðina á Brekkustíg sagði ákærði að hann hljóti að hafa farið gangandi. Jafnframt sagði ákærði að það væri stórgóð kenning að hann hefði ekið bifreið konu sinnar, fyrst að lögreglustöðinni á Brekkustíg en síðan að lögreglustöðinni á Hringbraut, en hún væri ekki rétt. Skýrslutökunni lauk kl. 13:32.
Ákærði var yfirheyrður aftur kl. 15:38, eftir dvöl í fangaklefa, og liggur fyrir í málinu hljóðupptaka af framburði ákærða. Ákærði sagði þá að hann hefði vaknað snemma um morguninn og farið á lögreglustöðina á Brekkustíg og rætt við lögreglumann. Hann hefði svo farið á lögreglustöðina á Hringbraut til að fá afhenta haldlagða muni. Hann kvaðst hafa neytt áfengis aðfaranótt miðvikudags, þ.e. sólarhring áður, og það hefði því komið honum verulega á óvart að það hefði mælst vínandi í honum. Spurður hvernig hann hefði farið á Brekkustíg kvaðst hann hafa ekið bifreið konu sinnar. Hann hefði rætt við lögreglumann þar og svo ekið að lögreglustöðinni á Hringbraut og lagt bifreiðinni við stöðina. Ákærði kvaðst hafa verið grunlaus um að áfengi myndi mælast í honum og að hann hefði ekki fundið til áfengisáhrifa.
II.
Ákærði sagði fyrir dómi að eiginkona hans hefði keyrt hann upp á lögreglustöðina á Brekkustíg þar sem hann hefði rætt við lögreglumann út af haldlögðum munum, sbr. II. ákærulið. Þau hefðu svo farið á Esso og þaðan á lögreglustöðina á Hringbraut. Á meðan hefði eiginkona hans farið að versla smáræði í Nettó. Ákærði hefði átt einhver orðaskipti við Maríu Pálsdóttur lögreglukonu og hún hefði ekki viljað afhenda honum umbeðna muni og hún hefði grunað hann um ölvunarakstur. Ákærði hefði orðið afundinn við hana og sagt í hæðni að það þyrfti einbeittan brotavilja til að keyra að tveimur lögreglustöðvum og það hefði verið litið á það sem játningu af hans hálfu. Ákærði hefði svo verið lokaður inni í fleiri klukkutíma og honum verið hótað að hann yrði innilokaður í sólarhring ef hann myndi ekki viðurkenna umferðarlagabrot. Ákærði hefði svo ákveðið að skrifa undir lögregluskýrslu til að komast heim, en það hefðu verið mistök af hans hálfu. Um áfengisdrykkju sína sagði ákærði að hann hefði síðast neytt áfengis sólarhring áður. Ákærði kvaðst ekki vefengja niðurstöðu rannsókn á blóðsýni sem tekið var af ákærða.
Vitnið María Pálsdóttir lögreglukona kvaðst hafa fundið áfengislykt af ákærða þegar vitnið ræddi við hann. Vitnið hefði spurt ákærða hvort hann hefði komið akandi og ákærði játað því. Aðspurður hefði ákærði sagt að hann hefði síðast drukkið áfengi um sólarhring áður. Þá sagði vitnið að það hefði aldrei hótað ákærða fangavist og það vissi ekki til þess að neinn hefði gert það.
Vitnið Arnar Már Jónsson lögreglumaður skýrði frá því að María Pálsdóttir lögreglukona hefði kallað á vitnið og beðið það um að vera viðstatt þegar ákærði var látinn blása í öndunarmæli. Vitnið hefði svo athugað hvort það hefðu verið áfengisumbúðir í bifreið ákærða og þá hefði ákærði greint frá því að hann hefði komið akandi frá lögreglustöðinni á Brekkustíg og sagt að það væri kaldhæðni að þetta væri önnur lögreglustöðin sem hann hefði komið á. Vitnið neitaði því að ákærða hefði verið hótað vistun í fangaklefa í sólarhring.
Vitnið Sigvaldi Lárusson lögreglumaður sagði að þegar vitnið hefði komið á lögreglustöðina á Hringbraut hafi verið búið að handtaka ákærða vegna gruns um ölvunarakstur. Vitnið hefði svo tekið af honum skýrslu og ákærði sagt að hann hefði ekið bifreiðinni og að hann hefði talað eitthvað um að það þurfi einbeittan brotavilja til að aka á milli tveggja lögreglustöðva. Aðspurt kannaðist vitnið ekki við að sagt hefði verið við ákærða að hann yrði lokaður í fangaklefa ef hann myndi ekki játa á sig ölvunarakstur.
Vitnið Jóhannes Harðarson lögreglumaður kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða og honum hefði ekki verið hótað að hann þyrfti að dvelja í fangaklefa í sólarhring ef hann myndi ekki játa og ekkert verið gefið í skyn með slíkt. Innt eftir ástæðu þess að ákærði var ekki látinn undirrita lögregluskýrslu í málinu sagði vitnið að það hefði gleymst að prenta út og leggja fyrir hann mætingarskýrslu. Ákærði hefði því ekki lesið skýrsluna yfir. Framburður ákærða hefði hins vegar verið tekinn upp og samantektarskýrsla lögreglu verið byggð á hljóðupptökunni.
Vitnið A, eiginkona ákærða, kvaðst hafa keyrt ákærða umrætt sinn á eina lögreglustöð og svo á aðra. Á seinni stöðinni hefði vitnið látið ákærða fá lykil að bifreiðinni og sagt að hann gæti sest inn í bifreiðina ef vitnið yrði ekki komið aftur úr versluninni Nettó áður en ákærði væri búinn á lögreglustöðinni. Á meðan vitnið hefði verið í versluninni hefði ákærði svo hringt og sagt að lögreglan hefði stöðvað hann og hann yrði laus kl. 13. Vitnið hefði því farið heim með börnin. Um klukkan tvö hefði svo verið hringt í vitnið og sagt að ákærði væri á lögreglustöðinni og hann yrði laus kl. 16 og vitnið mætti sækja bifreiðina.
III.
Ákærði neitar sök og segir að A hafi ekið bifreiðinni. A kom fyrir dóm og sagði það sama, en við mat á sönnunargildi vitnisburðar hennar verður að líta til þess að hún er eiginkona ákærða.
Eins og að framan greinir hafa fjórir lögreglumenn borið um það fyrir dómi að ákærði hefði viðurkennt að hafa ekið umrætt sinn frá lögreglustöðinni að Brekkustíg og að lögreglustöðinni á Hringbraut. Teknar voru tvær skýrslur af ákærða hjá lögreglu og í þeirri seinni játaði ákærði að hafa ekið bifreiðinni. Samantektarskýrsla lögreglu um játningu ákærða er ekki undirrituð. Hins vegar liggur fyrir hljóðupptaka af framburði ákærða þar sem hann játar hreinskilnislega að hafa ekið bifreiðinni og að hann hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir því að það myndi mælast vínandi í blóði hans þar sem langt hefði liðið frá því hann neytti síðast áfengis. Er ekkert á hljóðupptökunni sem gefur ástæðu til að ætla að hann hafi verið á einhvern hátt þvingaður til játningar. Með vísan til alls framangreinds verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í III. ákærulið og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæði í ákæru.
Refsing og sakarkostnaður.
Ákærði er fæddur [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann á árinu 2002 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás, en það brot hefur ekki áhrif á refsiákvörðun nú. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Jafnframt skal ákærði sviptur ökurétti í átta mánuði frá birtingu dóms að telja.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað vegna IIII. ákæruliðar er um að ræða kostnað vegna blóðtökuvottorða og matsgerðar, 82.360 krónur, sem ákærða ber að greiða. Ákærði hefur verið sýknaður af ákærulið I og því verður kostnaður vegna læknisvottorðs, 28.000 krónur, felldur á ríkissjóð. Þá verður ákærða gert að greiða, með hliðsjón af sýknu í I. ákærulið, 2/3 af þóknun verjanda, sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 480.038 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, en 1/3 hluti fellur þá á ríkissjóð. Þá ber ákærða að greiða útlagðan ferðakostnað verjanda, 29.360 krónur.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, skal sæta fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði er sviptur ökurétti í átta mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 82.360 krónur í sakarkostnað vegna blóðtökuvottorða og matsgerðar og 2/3 af þóknun verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 480.038 krónur, en 1/3 hluti skal greiddur úr ríkissjóði. Þá ber ákærða að greiða ferðakostnað verjanda, að fjárhæð 29.360 krónur. Annar sakarkostnaður, 28.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði.