Hæstiréttur íslands
Mál nr. 358/1999
Lykilorð
- Skattur
- Endurgreiðslukrafa
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2000. |
|
Nr. 358/1999. |
Dreifing ehf. (Hreinn Loftsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Skattar. Endurgreiðslukrafa. Fyrning.
Sérstakt jöfnunargjald, svokallað U-gjald, sem nam 50% á tollverð innfluttrar vöru, var lagt á við innflutning vara, sem unnar voru úr kartöflum, á grundvelli reglugerðar landbúnaðarráðherra. Félagið D, innflytjandi franskra kartaflna, taldi að í stað þess að leggja á U-gjald hafi á tímabilinu september til desember 1991 verið lagt sérstakt tryggingagjald undir bókstafnum ,,B” á hluta innfluttra kartöfluvara. Höfðaði D mál gegn íslenska ríkinu vegna þessa til endurgreiðslu ofgreidds fjár. Héraðsdómari taldi að fjögurra ára fyrningarfrestur gilti um kröfuna, sbr. 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og hefði krafan því verið fyrnd er málið var höfðað. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest og íslenska ríkið sýknað af kröfum D.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 9. september 1999. Hann krefst þess að stefndi greiði 3.273.750 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá síðasta degi hvers mánaðanna september, október, nóvember og desember 1991 til greiðsludags. Til vara er krafist vaxta af tilgreindum fjárhæðum samkvæmt 7. gr. sömu laga frá sömu mánuðum til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Staðfesta ber héraðsdóm með vísan til forsendna hans.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Dreifing ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 22. október 1998.
Stefnandi er Dreifing ehf., kt. 490287-1599, Vatnagörðum, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi greiði stefnanda 3.273.750 krónur, eða lægri fjárhæð að mati dómsins, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga 25/1987, ásamt síðari breytingum samkvæmt töflu hér að neðan. Dráttarvaxta er krafist til greiðsludags, frá síðasta degi hvers mánaðar af þeirri fjárhæð, sem greind er fyrir aftan mánuðinn.
|
Sept.1991 |
576.450 krónur. |
|
Okt.19911 |
563.975 krónur. |
|
Nóv.1991 |
2.463.075 krónur. |
|
Des. 1991 |
3.273.750 krónur. |
Til vara er krafist vaxta af greindum upphæðum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga 25/1987 fyrir þann tíma, sem dráttarvextir yrðu ekki dæmdir. Þess er krafist, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 25/1987.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
I.
Málsatvik.
Stefnandi er innflutningsfyrirtæki og hefur um 30 ára skeið flutt inn til landsins vörur unnar úr kartöflum. Að stærstum hluta er um að ræða vörur frá fyrirtækinu McCain Foods, Ltd., Florenceville, New Brunswick í Kanada. Sérstakt jöfnunargjald, eða svokallað U-gjald, var lagt á þennan innflutning fyrirtækisins samkvæmt reglug. nr. 223/1987, en sú gjaldtaka hækkaði verulega með reglug. nr. 109/1988. Með stefnu í tveimur málum hefur stefnandi gert kröfu um endurgreiðslu vegna þessarar gjaldtöku á nefndan innflutning stefnanda á árunum 1988-1995. Við undirbúning og yfirferð vegna stefnugerðar í þeim málum hafi komið í ljós, að í stað þess að leggja U-gjald, það er 50% á tollverð innfluttrar vöru, hafi á tímabilinu september til desember 1991 verið lagt sérstakt tryggingagjald undir bókstafnum ,,B” á innfluttar kartöfluvörur, sem flokkuðust undir tollskrárnúmer 710-1000. Er stefnandi gerði sér fyrst grein fyrir gjaldtöku þessari sumarið 1997 sneri hann sér til tollyfirvalda um leiðréttingu, en fékk þau svör, að ekki kæmi til leiðréttingar, þar sem svo langur tími væri liðinn frá gjaldtöku þessari.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því, að óheimilt hafi verið að innheimta sérstakt tryggingagjald merkt bókstafnum B, líkt og stefndi gerði á tímabilinu september til desember 1991. Þessi gjaldtaka hafi einvörðungu verið á innflutning kartöfluvara, sem flokkaðist undir tollskrárnúmer 710-1000. Gögn málsins beri með sér, að stefndi hafi vitað um hina ólögmætu gjaldtöku og staðið hafi til að endurákvarða tollverð innflutningsskýrslna, en frá því hafi verið horfið. Framlögð skjöl í málinu bendi til þess, að innflutningsskýrslur hafi verið reiknaðar með leiðréttum tollverðum ásamt svokölluðu U1-gjaldi (50% ofan á tollverð), en ekkert hafi orðið af slíkri endurákvörðun. Skjöl málsins sýni, að tryggingagjaldið nemi hærri fjárhæðum, en orðið hefði með álagningu U-gjaldsins. Skjöl og útreikningar stefnda virðist benda til, að honum hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um hina óheimilu gjaldtöku, þó að hann aðhefðist ekkert til að leiðrétta hana gagnvart stefnanda. Það sé grundvallarregla íslensks réttar, að slík gjaldtaka sé óheimil, nema hún styðjist við skýra lagaheimild, en hana skorti í máli þessu. Styðjist krafa stefnanda við almennar reglur íslensks kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.
Stefnandi byggir á því, að krafa hans sé ekki fyrnd að neinu leyti. Á því er byggt, að 7. gr. 1aga nr. 14/1905 eigi við, þar sem fram komi, að ef skuldari dregur sviksamlega dul á, eða vanrækir að skýra frá atvikum, er krafan byggist á, byrji fyrningarfrestur að líða þann dag, er kröfuhafinn fékk vitneskju um þessi atvik. Verði að líkja aðstöðu stefnda við þá stöðu, sem lýst er í greininni, sbr. það sem áður segi um fyrirhugaða endurákvörðun tollverðsins. Hafi stefnanda ekki verið kunnugt um þessi atvik, fyrr en síðla sumarið 1997 við undirbúning málshöfðunar til endurgreiðslu svokallaðra U-gjalda á kartöfluinnflutning stefnanda á árunum 1988-1995.
Verði ekki fallist á, að 7. gr. eigi við samkvæmt orðanna hljóðan, byggir stefnandi á því, að rétt sé að skýra hana rýmkandi lögskýringu. Ef sú staða, sem uppi er í máli þessu, hefði verið í ,,huga” löggjafans við setningu fyrningarlaga, sé ólíklegt annað en að löggjafinn hefði látið sambærilega reglu og 7. gr. gilda um slíkar kröfur. Ekki verði talið, að það löggjafarsjónarmið hafi verið ráðandi að girða skyldi svo fyrir lögmætar endurkröfur borgaranna á hendur ríkinu, að ómögulegt yrði fyrir þá að leita réttar síns, eins og hér kynni að vera um að ræða, yrði fyrningarfrestur talinn hefjast við greiðsludag tryggingagjaldsins. Fái þetta sjónarmið stuðning af eðlisrökum þeim, er 7. gr. sé byggð á, sem séu þau, að fyrningarfrestur eigi ekki að byrja að hefjast, ef kröfuhafi verður talinn hafa verið grandlaus um rétt sinn og grandleysi hans megi rekja til atvika, sem skuldari ber ábyrgð á.
Þá er á því byggt, að fyrningarfrestur endurkröfu stefnanda sé tíu ár, sbr. aðalreglu fyrningarlaga 14/1905, sem fram komi í 2. tölul. 4. gr.
Með vísan til III. kafla vaxtalaga 25/1987 telur stefnandi, að dráttarvexti beri að greiða frá þeim tíma, er hin ólögmætu gjöld voru innt af hendi. Er sérstaklega vísað til 9. gr. laganna, sem annað hvort eigi við samkvæmt efni sínu eða lögjöfnun. Endurgreiðsluskylda stefnda skapist, þegar hin ólögmæta gjaldtaka fer fram. Gera verði þá kröfu til handhafa ríkisvalds, að þeim séu ljós takmörk sín. Þeir eigi að þekkja lögin og fara eftir þeim. Hafi stefnda borið að hafa frumkvæði að endurgreiðslu, sbr. reglu þá, er nú hafi verið staðfest í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Stefnandi hafi verið í góðri trú og enga ástæðu haft til að gera sérstaka fyrirvara við greiðslur sínar. Þá bendi margt til þess, að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst, að álagning tryggingagjaldsins væri ólögmæt.
Verði ekki talið, að 9. gr. eigi við samkvæmt efni sínu byggir stefnandi á lögjöfnun frá þeirri grein, enda aðstaðan sambærileg og alls ekki ósanngjarnt, að stefndi greiði dráttarvexti vegna ólögmætrar innheimtu sinnar. Eigi borgararnir að geta treyst því, að innheimta opinberra gjalda sé lögmæt. Eigi stefndi að bera hallann af því, ef svo er ekki.
Varakrafa um vexti hljóði upp á vexti samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá þeim dagsetningum, sem dráttarvaxta er krafist, til þeirrar dagsetningar, er dráttarvextir yrðu dæmdir.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda er á því byggt, að ekki sé ekki rétt, svo sem stefnandi heldur fram, að umrætt gjald hafi verið lagt sérstaklega á stefnanda sem tiltekið gjald eða skattur af hálfu tollyfirvalda. Gjaldið hafi verið reiknað sem tiltekin fjárhæð á einingarverð og sé skilgreint sem ársgjald slysatryggingar ökumanns ýmissa ökutækja með vísan til þágildandi laga nr. 67/1971 um almannatryggingar. Að blanda þeim gjöldum saman við aðflutningsgjöld kunni að hafa verið vegna rangs skilnings stefnanda sjálfs eða Tollvörugeymslunnar.
Stefnandi hafi greitt hið umdeilda gjald athugasemdalaust og án fyrirvara, þó að svo virðist sem um ranga tilgreiningu hafi verið að ræða og í raun mistök. Virðist stefnandi hafa staðið í þeirri trú, að annað hvort væri um að ræða toll af vörunni, ígildi jöfnunargjalds eða hækkun umræddra liða vegna hækkunar á tollverði, eftir því sem frekast verður ráðið af útskýringum í stefnu. Hafi stefnandi því bersýnilega greitt gjaldið í þeirri trú, að skylt væri í fjölmörg skipti og þannig talið félagið vera að greiða aðflutningsgjöld. Í gögnum málsins komi fram, að gjaldinu hafi í einhverjum tilvikum verið skipt út fyrir 50% jöfnunargjald á kartöflur í tollflokki 0710.1000. Ef staðið hefði til að hækka tollverð á innflutningi af kartöflum virðist að minnsta kosti ljóst, að ekki hafi verið farið rétt að með því að skipta á svokölluðu B-gjaldi og jöfnunargjaldi, heldur hefði borið að endurskoða tollverð og reikna aðflutningsgjöld miðað við það. Stefnandi beri ábyrgð á aðflutningsskýrslum þeim, er hann framvísaði við tollafgreiðslu, sbr. 16. gr. tollalaga nr. 55/1987, og auk þess hafi hann getað nýtt sér málskotsleiðir þeirra laga, til að fá leiðréttar aðflutningsskýrslur eða tollverð.
Krafa stefnanda sé um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Kröfur um endurgreiðslu ofgreidds fjár fyrnist á fjórum árum frá því tímamarki, er greiðslan var innt af hendi, en unnt hafi verið að krefjast endurheimtu kröfunnar strax og hún hafði verið innt af hendi, eftir atvikum með málsókn. Telur stefndi, að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda, þar sem réttur til endurheimtu sé niður fallinn vegna fyrningar. Vísist í því sambandi til 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 1. gr., l. mgr. 5. gr. og 11. gr. þeirra laga. Svo sem fram komi í stefnu og gögnum málsins hafi hið umdeilda B-gjald verið innt af hendi á tímabilinu frá september til desember 1991. Hinn fjögurra ára fyrningarfrestur hafi því löngu verið liðinn, er mál þetta var höfðað þann 15. október 1998. Beri því þegar af framangreindum ástæðum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda og vísist meðal annars til Hrd. 10. desember 1998 í málinu nr. 146/1998.
Hafi verið um að ræða gjald, sem átt hafi að koma í stað 50% jöfnunargjalds, hafi verið skylt að greiða það af viðkomandi vöru. Hafi stefnandi bersýnilega talið, að rétt álagning þess gjalds skilaði sér í þessu formi, enda komi fram í úttektarskýrslum, sem fylgi úttektarbeiðnum, að mun hærri verð hafi verið tilgreind á vörunni, þar sem einnig hafi verið ráðgert, að 50% jöfnunargjaldið yrði greitt. Stefnandi hafi engin rök fært fyrir því, að það gjald hafi verið ólöglega álagt. Miðað við skýrslur þessar, sem sýni hærra tollverð, en raun varð á, er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að umrætt B-gjald hafi reynst hærra en 50% jöfnunargjaldið, sem greiða hafi átt í raun á þessu tímabili, en einnig verði til þess að líta, að á þessu tímabili sýni gögn málsins, að raunverulegt verð fyrir vörusendingar hafi átt að vera mun hærra. Það leiði til þess, að hverfandi líkur séu á, að gjaldið hafi náð því að jafna önnur aðflutningsgjöld, svo og virðisaukaskatt, sem greiða hafi borið, en stefnandi hugsanlega vangreitt.
Stefndi byggir einnig á því, að gjaldið hafi verið innt af hendi án athugasemda og fyrirvaralaust, sem girði fyrir rétt stefnanda til endurgreiðslu. Þá hafi stefnandi sýnt af sér stórkostlegt tómlæti og aðgæsluleysi, sem verði að teljast óafsakanlegt, þegar í hlut eigi einkahlutafélag (áður hlutafélag) og þar með bókhaldsskyldur aðili, sem einkum fáist við innflutning vara og ætla megi, að gjörþekki til innflutningsmála og réttarreglna þar að lútandi. Enn byggir stefndi á því, að hið svokallaða B-gjald hljóti að hafa verið lagt á viðskiptamenn félagsins og því hafi félagið fengið gjaldið greitt til baka í raun. Séu löglíkur fyrir því og viðskiptavenja, þannig að telja verði, að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Umrætt B-gjald virðist hafa verið greitt við tollafgreiðslu varanna og komi því álagning stefnanda á þær, eftir að það hafði verið innt af hendi. Krafa stefnanda nú, að svo löngum tíma liðnum, geti því ekki skoðast sem annað en auðgunarkrafa.
Stefndi mótmælir því eindregið að 7. gr. fyrningarlaga geti stutt kröfur stefnanda. Ekki hafi verið tekið á móti greiðslu hins umþrætta gjalds á grundvelli svika eða neinnar þeirrar háttsemi, sem líkja mætti við svik. Er málatilbúnaði þessa efnis eindregið vísað á bug sem röngum. Komi hvergi fram, að einhver starfsmaður tollyfirvalda hafi sýnt af sér slíka háttsemi. Viðtakendum gjaldsins hafi ekki verið skylt að tilkynna stefnanda um atvikm sem krafan byggist á, enda virðist hafa verið um að ræða greiðslur fyrir misskilning eða að stefnandi hafi talið rétt, að hækkun á tollverði færi fram með þessum hætti, þegar hann leysti út vöruna í tollvörugeymslu. Stefnda hafi ekki verið kunnugt um mistökin eða á grundvelli hvaða atvika greiðslurnar byggðu, enda hafi þær verið færðar af stefnanda og í tollvörugeymslu. Standi því engin rök til þess að byggja á 7. gr. fyrningarlaga í málinu. Stefndi mótmælir því einnig, að 7. gr. verði skýrð rýmkandi skýringu, enda um að ræða undantekningarreglu sem skýra beri þröngt. Engin skilyrði séu til lögjöfnunar frá ákvæðinu. Gera verði þá kröfu til borgarans, sér í lagi þegar um er að ræða bókhaldsskylda aðila í atvinnustarfsemi, sem gjörþekki til innflutningsmála og réttarreglna um greiðslu aðflutningsgjalda, svo og kæruheimilda þar að lútandi, að gripið sé til þeirra úrræða, sem næst standa og í tíma. Fremur verði að telja stefnanda ábyrgan fyrir því að hafa ekki kannað aðflutningsskýrslur og bókhald sitt nægjanlega, þannig að krafan yrði höfð uppi í tíma.
Eftir athugun af hálfu stefnda vegna málsóknarinnar hafi komið í ljós, að stefnandi hafi að minnsta kosti fengið endurgreiddar 585.225 krónur þann 18. maí 1994, en þá hafi krafan verið ófyrnd. Hafi þá verið endurgreiddur mismunur á vangreiddu jöfnunargjaldi og ofgreiddu B-gjaldi. Sú endurgreiðsla virðist hins vegar ekki hafa hreyft við stefnanda að kanna nánar bókhald sitt eða aðflutningsskýrslur vegna innflutnings á kartöflum og hvort mistök af þessu tagi hefðu átt sér stað í öðrum tilvikum. Engin skylda hafi hvílt á stefnda að hrinda af stað rannsókn á því, hvort sama væri uppi í öðrum tilvikum, en sækja hafi þurft um endurgreiðslu. Stefnanda hafi því verið kunnugt um, að færsla sem þessi og greiðsla hafði átt sér stað, hvort sem litið sé til þessarar endurgreiðslu sérstaklega eða almennt til þekkingar stefnanda á eigin aðflutningsskýrslum, bókhaldi sínu og því hvaða aðflutningsgjöld væru lögð á vöruna. Hafi stefnandi augljóslega getað gripið til tiltækra úrræða strax og gjöldin höfðu verið innt af hendi. Sé bersýnilega röng staðhæfing í stefnu um, að þetta hafi uppgötvast sumarið 1997, en hún sé rauði þráðurinn í öllum málatilbúnaði stefnanda. Frá þessum degi, er umsókn um endurgreiðslu var móttekin og afgreidd, hafi ekkert verið aðhafst af stefnanda og endurgreiðslukrafa fyrnd, þó að miðað yrði við það tímamark.
Auk þeirra gagna sem lögð voru fram við þingfestingu málsins, hafi stefnandi lagt fram bréf, dagsett 15. desember 1998, þar sem aukið sé við málsástæður frá því sem greinir í stefnu. Samkvæmt 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skuli málsástæður koma fram í stefnu. Mótmælir stefndi því, að málsástæður í nefndu bréfi fái komist að. Í því bréfinu komi í raun fram önnur málsútlistun, en lagt er upp með í stefnu, þar sem stefnandi virðist ætla að reka málið sem skaðabótamál. Valdi það frávísun málsins ex officio, þar sem stefnandi hafi með þessu raskað grundvelli málsins algerlega og kröfur hans þannig ósamrýmanlegar.
Til stuðnings varakröfu, er í fyrsta lagi byggt á, að ekki verði betur séð, en að hin ofgreiddu gjöld hafi þegar verið endurgreidd að hluta til. Beri því að minnsta kosti að sýkna stefnda um endurgreiðslu á 585.225 krónum og lækka kröfur stefnanda um þá fjárhæð. Þá byggir stefndi á því, að ekki verði endurgreiddar aðrar fjárhæðir en þær, sem nema myndu mismun á því, sem umrætt B-gjald hefði verið hærra en jöfnunargjald, er það kom í staðinn fyrir, og öðrum aðflutningsgjöldum.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Engin rök séu til þess að dæma stefnanda dráttarvexti af endurgreiddum fjárhæðum. Bendi stefndi einnig á, að dráttarvaxtakrafa, sem og varakrafa um vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, séu vanreifaðar og ódómhæfar, þar sem kröfurnar uppfylli ekki það lágmarksskilyrði, að upphafsdagur vaxta sé tilgreindur. Beri því að vísa kröfum um dráttarvexti eða vexti frá dómi ex officio, sbr. l. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er einnig á því byggt, að vaxtakröfur séu við þessar aðstæður órökstuddar og af þeim beri að sýkna. Verði ekki á þetta fallist, telur stefndi, að einungis séu rök til að dæma stefnanda dráttarvexti frá dómsuppkvaðningu, eða í fyrsta lagi frá þingfestingardegi, komi til þess, að fallist verði á kröfur hans að einhverju leyti. Vísi stefndi til vaxtalaga nr. 25/1987 sjónarmiðum sínum til stuðnings, einkum 3. og 4. mgr. 9. gr. Jafnframt er á því byggt, verði ekki á framangreint fallist, að vextir, eldri en frá 15. október 1994, séu fallnir niður fyrir fyrningu, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905.
IV.
Niðurstaða.
Með bréfi, dagsettu 15. desember 1998, boðaði stefnandi, að hann hygðist gera kröfum greiðslu skaðabóta vegna umþrættrar gjaldtöku á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, að svo miklu leyti sem ekki yrði fallist á endurkröfu stefnanda. Samkvæmt e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, koma fram í stefnu, svo og önnur atvik, sem þarf að greina, til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Þá kemur fram í f-lið nefndrar greinar, að í stefnu skuli vera tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna, sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á.
Enda þótt stefnandi hafi boðað ofangreinda kröfugerð með umræddu bréfi, hefur hann ekki látið af henni verða, hvorki með framhaldsstefnu né sérstakri bókun þar um. Eru því eigi efni til að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi af þeirri ástæðu, að málið hafi verið lagt fyrir dóminn á öðrum grunni, en í stefnu greinir.
Krafa stefnanda er um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda telst fyrningarfrestur frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf. Ráðið verður af dómafordæmum, að 5. tölul. 3. gr. fyrningarlaga var talin gilda um endurkröfur vegna ofgreiddra tolla og gjalda, áður en lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda öðluðust gildi í janúar 1996. Í 4. gr. þeirra laga kemur fram, að fyrningarfrestur er fjögur ár frá því greiðsla átti sér stað. Segir í greinargerð með lögunum, að fyrningarfrestur á kröfum þeim, er lögin taka til, sé óbreyttur frá því, sem áður gilti. Með vísan til þessa er ljóst, að hinn fjögurra ára fyrningarfrestur 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 gildir um kröfu þá, er mál þetta snýst um. Eru engin efni að mati dómsins til að fallast á með stefnda, að svik hafi verið höfð í frammi af hálfu stefnda, þannig að 7. gr. fyrningarlaga geti hér átt við. Var krafa stefnanda því löngu fyrnd, er mál þetta var höfðað. Ber þar af leiðandi að sýkna stefnanda af kröfum stefnda, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður þeirra í millum falli niður.
Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Dreifingar ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.