Hæstiréttur íslands

Mál nr. 300/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


                                     

Þriðjudaginn 13. maí 2014.

Nr. 300/2014.

Ikaup ehf.

(Eyjólfur Ármannsson hdl.)

gegn

Húsfélaginu Hamraborg 10

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að hvoru aðila um sig ætti að bera sinn kostnað af rekstri málsins í kjölfar þess að það var fellt niður.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2014, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður og kveðið á um að hvor þeirra ætti að bera sinn kostnað af því. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kæra er hér að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ikaup ehf., greiði varnaraðila, Húsfélaginu Hamraborg 10, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2014.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 11. apríl 2014, var höfðað 19. desember 2013. Stefnandi er húsfélagið Hamraborg 10 í Kópavogi. Stefndi er Ikaup ehf., Suðurhólum 26, Reykjavík.

                Í stefnu málsins hafði stefnandi uppi kröfu um að stefnda yrði gert að loka dyraopi á milli eignarhluta síns nr. 0101 í fasteigninni Hamraborg 10, Kópavogi, og sameignarhluta hússins í samræmi við gildandi teikningu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur á dag frá uppkvaðningu dómsins þar til skyldunni væri fullnægt. Þá var krafist málskostnaðar. Af hálfu stefnda var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að stefndi yrði sýknaður af kröfu stefnanda. Í báðum tilvikum var krafist málskostnaðar.

                Í þinghaldi 4. mars 2014 lagði stefndi fram ný gögn. Nánar tiltekið teikningu sem samþykkt var hjá byggingarfulltrúa 3. mars 2014. Var málinu frestað til 20. mars 2014 svo að stefnandi gæti kynnt sér framlögð gögn. Ekki var mætt af hálfu stefnanda í þinghald þann dag og krafðist stefndi þess að málið yrði fellt niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Þá gerði stefndi kröfu um málskostnað og krafðist þess að í úrskurði um niðurfellingu málsins og um málskostnað til handa stefnda yrði kveðið sérstaklega á um skaðleysi stefnda vegna úrskurðar um málskostnað stefnanda þar sem stefndi eigi aðild að stefnanda, húsfélaginu, og væri hlutfallstala stefnda í sameign stefnanda 7,44%. Sama dag, rétt eftir þinghaldið, hafði lögmaður stefnanda samband við dómara og greindi frá því að hann hefði haft lögmæt forföll þar sem hann væri staddur á bráðamóttöku Landspítala. Dómari upplýsti að hann hefði gengið frá úrskurði strax eftir þinghaldið þess efnis að málið væri fellt niður og að málskostnaður hefði verið felldur niður. Í ljósi þessarar niðurstöðu taldi lögmaður stefnanda að svo komnu máli ekki ástæðu til að fara fram á endurupptöku. Síðar kom í ljós að stefndi afhenti dóminum kæru til Hæstaréttar, nánar tiltekið miðvikudaginn 2. apríl 2014, þar sem þess var krafist að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og stefnda dæmdur málskostnaður honum að skaðlausu. Dómurinn tilkynnti lögmanni stefnanda á föstudeginum að kæra hefði borist. Mánudaginn, 7. apríl sendi lögmaður stefnanda dómara læknisvottorð og beiðni um endurupptöku.

                Í þinghaldi 11. apríl 2014 var læknisvottorðið ásamt beiðni um endurupptöku lagt fram. Þar sem lögmaður stefnanda hafði lögmæt forföll skv. 97. gr. laga nr. 91/1991 í þinghaldi 20. mars 2014, og farið var fram á endurupptöku á málinu, ákvað dómari, með vísan til heimildar í 2. málsl. 2. mgr. 105. gr. og 1. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að fella úrskurð sinn frá 20. mars 2014 úr gildi og var meðferð málsins tekin upp á ný skv. 4. mgr. 97. gr. laga nr.  91/1991.

                Lögmaður stefnanda gerði í framhaldinu kröfu um að málið yrði fellt niður, sbr. c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda var þess jafnframt krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað en til vara að málskostnaður verði felldur niður, en stefndi gerði kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda, sbr. 2. mgr. 130. gr. nr. 91/1991.

                Lögmaður stefnda lagði þessu næst fram bókun. Í henni er því mótmælt að úrskurðurinn 20. mars 2014 verði felldur úr gildi, nema málskostnaður verði úrskurðaður stefnda í vil, en ef úrskurðurinn yrði felldur niður væri þess krafist að dómari ákvæði lagagrundvöll endurupptökunnar. Í bókun lögmanns stefnda segir jafnframt að endurupptökubeiðni væri of seint fram komin þar sem stefnandi hafi ekki lagt hana fram fyrr en 18 dögum eftir að málið var fellt niður og fimm dögum eftir að stefndi kærði úrskurð dómara. Þá var þess krafist, hafnaði dómari þeirri afstöðu stefnda að endurupptökubeiðni væri of seint fram komin, að dómari úrskurðaði um endur­upptökuna þannig að stefndi gæti kært hana til Hæstaréttar. Að lokum segir í bókuninni að stefndi muni fara fram á það að dómari víki sæti í málinu þar sem hann hafi þegar myndað sér skoðun um málskostnað.

                Um þessa bókun lögmanns stefnda er það að segja að áður en lögmaðurinn lagði fram bókunina var dómari þegar búinn að taka ákvörðun um að fella úrskurðinn frá 20. mars 2014 úr gildi og gera skilmerkilega grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli það hefði verið gert og var meðferð málsins tekin upp á ný, sbr. 4. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, eins og skýrt kemur fram í þingbók málsins. Ákvörðun um að fella úrskurð úr gildi skv. 2. málsl. 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, eða 1. mgr. 147. gr. sömu laga, tekur dómari með bókun í þingbók en ekki með úrskurði. Þá verður að hafna því að tómlæti lögmanns stefnanda leiði til þess að hann hafi ekki getað beiðst endurupptöku í málinu, enda var stefnandi með lögmæt forföll þegar málið var tekið til úrskurðar 20. mars 2014 og hann lét dómara vita af þeim við fyrsta tækifæri, rétt eftir þinghaldið. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarins taldi stefnandi ekki ástæðu til að málið yrði endur­upptekið en það breyttist vitaskuld við kæru stefnda. Þá verður dómari ekki vanhæfur í málinu þótt hann hafi neytt heimildar til að fella úrskurð sinn úr gildi, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 105. gr. og 1. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991.

                Eins og áður er rakið krefst stefnandi þess að málið verði fellt niður, sbr. c-lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Ágreiningur er um málskostnað og var sá ágreiningur tekinn til úrskurðar, en áður reifuðu lögmenn sjónarmið þeirra um hann. Fyrir liggur í máli þessu að um árabil hefur staðið ágreiningur um dyraop milli eignarhluta stefnda að Hamraborg 10 og sameignarhluta hússins. Stefnandi kveðst ítrekað hafa reynt að fá stefnda til að loka dyraopinu til samræmis við gildandi teikningar, en án árangurs. Stefnandi hafi því höfðað mál þetta og gert kröfu um að stefndi lokaði dyraopinu til samræmis við gildandi teikningu, samþykktri af byggingarnefnd Kópavogs 9. september 2010, en á þeirri teikningu er ekki gert ráð fyrir dyraopi inn í sameignar­hluta hússins. Undir rekstri þessa máls bar svo við að stefndi fékk samþykkta hjá byggingarfulltrúa Kópavogs nýja teikningu, dags. 27. febrúar 2014, þar sem gert er ráð fyrir dyraopi úr eignarhluta stefnda yfir í sameignar­hlutann. Samkvæmt framansögðu var málsókn stefnanda byggð á þágildandi teikningum, og því á rökum reist, en með teikningu samþykktri 3. mars 2014 var grund­vellinum kippt undan málsókn stefnanda og var honum ekki annað fært í stöðunni en að fella málið niður. Að virtum þessum atvikum og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 629/2007 er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Mál þetta er fellt niður.     

                Málskostnaður í máli þessu fellur niður.