Hæstiréttur íslands

Mál nr. 566/2016

Á eyrunum ehf. (Guðjón Ármannsson hrl.)
gegn
Kirkjumálasjóði (Ingi Tryggvason hrl.)

Lykilorð

  • Fasteign
  • Jörð
  • Veiðiréttur
  • Lax- og silungsveiði
  • Sameign

Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvort jörðin Traðir á Snæfellsnesi, sem var í eigu Á ehf., ætti veiðirétt í Staðará eða hvort veiðirétturinn tilheyrði óskipt jörðinni Staðastað í eigu K. Fyrir lá að Traðir og Traðabúð hefðu lengst af verið hjáleigur frá heimajörðinni Staðastað og þær ekki notið annarra hlunninda en þeirra sem sérstaklega hafði verið getið í heimildum, þar á meðal í landamerkjaskrá frá árinu 1884, og hefði réttur til lax- og silungsveiði í Staðará ekki verið á meðal þeirra. Í landskiptum árið 1939 var hjáleigunum skipt út úr Staðastað og þær sameinaðar í eina jörð undir nafninu Traðir. Við skiptin kom í hlut Traða afmarkað ræktarland og engjaland en beitiland í óskiptri sameign með Staðastað. Þá var kveðið á um að veiði í Staðará og reki fyrir landi jarðanna skyldi áfram fylgja Staðastað eins og verið hefði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með því að beitiland Staðastaðar og Traða skyldi samkvæmt framansögðu vera í óskiptri sameign beggja jarðanna og sameignarlandið náði að Staðará hefði það fyrirkomulag um veiðiréttinn, sem mælt hafði verið fyrir um í landskiptagerðinni 1939, ekki verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 4. gr. þágildandi laga nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði um jafnan veiðirétt þeirra, sem land ættu í óskiptri sameign. Þá var vísað til þess að í byggingarbréfi frá árinu 1947, sem umboðsmaður kirkjujarða í Snæfellsnessýslu gaf út til þáverandi ábúanda jarðarinnar Traða og var staðfest og áritað í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, hefði verið kveðið á um að Tröðum fylgdi veiðiréttur í Staðará að sínum hluta í samræmi við ákvæði laga. Talið var að með þessu hefði landeigandi og þar til bærir handhafar ríkisvaldsins fært skipan veiðiréttar í Staðará fyrir sameiginlegu landi jarðanna í lögmætt horf. Að virtum gögnum málsins var ekki séð að á því sameignarfyrirkomulagi hefði síðar verið gerð breyting af hálfu þeirra sem til þess væru bærir og stæði það því óbreytt. Samkvæmt framansögðu var Á ehf. sýknaður af kröfu K um viðurkenningu á því að allur veiðiréttur í Staðará fyrir landi Staðastaðar tilheyrði óskipt þeirri jörð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda um að allur veiðiréttur í Staðará fyrir landi jarðarinnar Staðastaðar tilheyri óskipt þeirri jörð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

I

Jörðin Staðastaður á Snæfellsnesi hefur um aldir verið kirkjustaður og prestssetur og tilheyrðu henni lengst af nokkrar hjáleigur og þeirra á meðal Traðir og Traðabúð. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1714 sagði meðal annars um Staðastað að hann væri kirkjustaður og beneficium. Þar sagði einnig: „Kvaðir öngvar eður ískyldur að fornu eður nýju ... Lax og silúngsveiði í Staðará; er laxveiðin mjög lítil en silúngsveiði stundum merkilega góð.“ Um Traðir sagði meðal annars: „Heimaland staðarins. Hjer hefur bygð verið um lángvarandi aldur ... Fóðrast kann á öllu heimabýlinu iv kýr, xxx ær, xvi lömb, ii hestar. Þetta því so, að engi, sem jörðin á fyrir sunnan Staðará, getur hún ekki brúkað fyrir fólkleysi síðan mannfallið 1708. Hagar eru óskiptir við heimastaðinn ... Engi, sem þessari jörð hefur fylgt fyrir sunnan Staðará, og fyr er getið að landsetarnir ei hafi megnað að verja síðan bóluna, er ein orðsökin til hvar fyrir landskuldin er aftur færð, og er það ekki reiknað hjer að framan til að setja þar á kvikfje.“ Um Traðabúð sagði að hún væri „afgömul hjáleiga af áðurskrifuðu staðarins heimalandi Tröðum ... Kvaðir sömu sem segir heima á Tröðum ... Bæði heimajörðin Traðir og þessi hjáleiga nýta sjer af sölvafjörunni slíkt sem þeir geta, en ekki er hún til þess að hún geti í burtu selt.“ Í jarðabókinni var hvorki getið um veiðirétt Traða né Traðabúða í Staðará.

Í ritinu Jarðatal á Íslandi sem út kom 1847 sagði meðal annars um Staðastað að brauðið væri „metið á 105 rd. ... hagar góðir á svo nefndum Melum, hinum megin  Staðarár, en örðugt er og óhaganlegt að reka búsmala yfir ána kvöld og morgna ... Eingjavegur er örðugur og yfir Staðará að sækja ... Laxveiði í Staðará launar töluverðan kostnað, manna- og hesta níðslu um hásláttinn ... Staðarhjáleigurnar eru byggðar þannig: ... Traðir 2v, 1½ kúg.; Traðarbúð 1v 20 f., 1 kúg.“. Ekki var þarna getið um veiðirétt Traða og Traðabúða í Staðará.

Í „skrá yfir landamerki allra Staðastaðarkirkjujarða“ frá 20. ágúst 1884 var merkjum Staðastaðar gagnvart aðliggjandi jörðum lýst og þau sögð vera frá „samnefndri Markrúst niður á Sandi, upp undan Rifsskéri ... Þaðan á Staðastaður með hjáleigum sínum: Árnesi, Bolavöllum, Tröð og Traðabúð, sem allar eiga óskipt land í Staðastaðarlandi, land og reka með sjó, allt inn að áðurnefndri Markrúst ... Framanskrifuð landamerkjalýsing er ... byggð á landamerkjaskrá þeirri, sem frá fornu stendur rituð í embættisbókum prestakallsins, og veit ég engan ágreining um nein þau landamerki, sem þar eru greind.“

Aðgreining í aðal- eða heimajarðir annars vegar og hjáleigur hins vegar þekktist hér á landi allt frá 13. öld og þegar framangreind landamerkjaskrá fyrir Staðastað var gerð 20. ágúst 1884 voru í gildi lög nr. 1 frá 12. janúar það ár um bygging, ábúð og úttekt jarða. Í þeim var hvorki að finna skilgreiningu á hugtakinu jörð né hjáleigu en um hjáleigur sagði í 2. mgr. 1. gr. laganna að þær mætti leggja niður og undir heimajörðina eða til annarrar hjáleigu hennar. Jarðir voru á þessum tíma almennt skilgreindar sem býli með afmörkuðu landi og metið til dýrleika. Hjáleigur voru hins vegar hlutar úr jörðum með sérstöku túni og ef til vill afmörkuðum engjum en sameiginlegu beitilandi með heimajörðinni. Þá var og lagt til grundvallar að væri hjáleigu úthlutað landi úr heimajörðinni að fullu væri hún þar með orðin sjálfstætt býli eins og hver önnur jörð, en meðan það hefði ekki verið gert mætti eigandinn leggja hana undir heimajörðina eða aðra hjáleigu þegar hann vildi.  

Samkvæmt framansögðu voru Traðir og Traðabúð hjáleigur frá heimajörðinni Staðastað við gerð landamerkjaskrárinnar 1884, lutu eignarhaldi þess sama og heimajörðin, voru án sérstakra landamerkja, höfðu afmörkuð tún og engi en óskipt beitiland með heimajörðinni. Hjáleigurnar nutu ekki annarra hlunninda en þeirra sem sérstaklega var getið og var réttur til lax- og silungsveiði í Staðará ekki á meðal þeirra en hann tilheyrði samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins Staðastað. Þá bera gögn málsins ekki með sér að á næstu áratugum eftir gerð landamerkjaskrárinnar hafi orðið önnur breyting á þeirri skipan en sú að í fasteignamati frá 1916 til 1918 var tekið fram að Traðir og Traðabúð væru byggðar hjáleigur frá Staðastað og að Tröðum fylgdi dálítil silungsveiði, án þess þó að inntak þess veiðiréttar væri frekar skilgreint. Þegar þetta fasteignamat fór fram voru í gildi lög nr. 22/1915 um fasteignamat. Samkvæmt 1. gr. þeirra skyldi allar jarðeignir, lóð og hús á landinu meta til peningaverðs tíunda hvert ár, þó svo að fyrsta mat eftir lögunum skyldi fara fram árin 1916 til 1918 og því næst 1930 og svo hvert ár er ártalið stæði á tug. Við matið skyldi samkvæmt 4. gr. laganna hver jörð sem hefði sérstök bæjarhús og afskipt tún og engi metin út af fyrir sig hvort sem jörðin hefði áður talist lögbýli eða hjáleiga.

II

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi voru hjáleigurnar Traðir og Traðabúð  lausar til ábúðar í ársbyrjun 1938 og tók Jónas Gíslason við ábúð þeirra þá um vorið. Með bréfi til sóknarprestsins að Staðastað 19. ágúst 1939 mun dóms- og kirkjumálaráðuneytið sem fyrirsvarsmaður kirkjujarða hafa lagt fyrir prestinn að sjá til þess að skipti færu fram á landi Staðastaðar í samræmi við þágildandi landskiptalög nr. 57/1927. Í bréfi Jónasar til ráðuneytisins 3. desember 1941 kom fram að í bréfinu 19. ágúst 1939 hafi verið við það miðað að útskipt land Traða og Traðabúða skyldi ekki ná að Staðará og allur veiðiréttur fylgja Staðastað. Tröð og Traðabúð var í framhaldinu skipt út úr Staðastað í landskiptum er fóru fram 13. september 1939 og yfirlandskiptum 6. október 1941 sem staðfestu undirlandskiptin. Var það niðurstaða skiptanna í fyrsta lagi að hjáleigurnar fengu afmarkað tún eða ræktarland sem var um 11 ha að stærð með nánar tilgreindri afmörkun. Í öðru lagi fengu þær afmarkaða engjabletti sem áður höfðu fylgt býlunum. Voru þeir í undirlandskiptagerðinni sagðir neðarlega á Staðastaðarengjum og hefði verið ákveðið að sameina þá þannig að slægjulandið yrði upp frá Vatnsflóa milli Stóru-Furu og lækjarins Balta, en landamerki að norðan væru frá vörðu sem hlaðin hefði verið á vestari bakka Stóru-Furu, sjónhending í Stekkhól að Balta. Í þriðja lagi að vegna staðhátta gæti skipting beitilands ekki komið til mála og skyldi hið sameinaða nýja býli, Traðir og Traðabúð, því hafa óskipt beitiland við Staðastað fyrir 4 nautgripi, 7 hross og 120 fjár. Í undirlandskiptagerðinni sagði að veiði í Staðará og reki fyrir landi jarðanna skyldi áfram fylgja Staðastað eins og verið hefði. Eftir landskiptin hafa hjáleigurnar Traðir og Traðabúð gengið undir nafninu Traðir enda er um eina jörð að ræða.

III

Þann 23. mars 1942 gerði sýslumaðurinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslum sem umboðsmaður kirkjujarða í Staðarsveit kunnugt að hann byggði „Jónasi Gíslasyni til heimilis á Tröðum ... til löglegrar ábúðar og erfðaleigu til stofnunar nýbýlis kirkjujarðirnar Traðir og Traðarbúð ... frá fardögum 1939 að telja ... Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus ... Jarðirnar Traðir og Traðarbúð hafi framvegis, uns öðruvísi kann að verða ákveðið af ráðuneytinu, beitiland sameiginlegt í óskiptu með prestssetursjörðinni Staðarstað. Staðarstaður hafi framvegis fjörubeit fyrir landi Traðar og Traðarbúðar, þannig að fjörubeit verði sameiginleg fyrir Traðir og Traðarbúð og Staðarstað, og skal staðnum tryggð fjárgata að sjó til fjörubeitar eða umferðarréttur með fé til og frá fjörubeit.“ Byggingarbréfið var staðfest í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 7. apríl 1942 með þeirri breytingu að „ábúandi hafi rekarétt þann fyrir landi jarðarinnar, sem honum ber samkvæmt lögum.“ Bréfið undirritaði ábúandinn Jónas Gíslason degi síðar og var því þinglýst.

Við framangreind landskipti kom í hlut hins sameinaða nýja býlis Traða og Traðabúðar afmarkað ræktarland og engjaland en beitiland í óskiptri sameign með Staðastað. Mörk engjalandsins voru samkvæmt landskiptagerðum skýr og afmörkun ræktarlandsins þar bar með sér að það náði ekki að Staðará. Um mörk hins sameiginlega beitilands sem hjáleigurnar skyldu eiga í óskiptu með Staðastað sagði á hinn bóginn ekkert í landskiptagerðunum. Samkvæmt því sem fram kom við flutning málsins fyrir Hæstarétti er ágreiningslaust með aðilum að beitiland þetta náði fyrir landskiptin að Staðará beggja vegna árinnar en af hálfu stefnda er því haldið fram að óvíst sé hvort svo hafi verið eftir skiptin. Fyrir þeirri staðhæfingu hefur stefndi sönnunarbyrði og er ekkert í gögnum málsins sem rennir stoðum undir staðhæfingu hans um óvissu í þeim efnum. Þá er hafnað þeirri málsástæðu stefnda að Tröðum og Traðabúð hafi við landskiptin einungis verið veitt beitarítak í beitilandi Staðastaðar enda berum orðum tekið fram í landskiptagerð að beitiland væri óskipt fyrir jarðirnar.

Við landskiptin voru í gildi lög nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði og samkvæmt 4. mgr. 2. gr. þeirra mátti ekki skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma. Þó mátti skilja rétt til stangarveiði við landareign um tiltekið tímabil sem ekki mátti vera lengra en 10 ár, nema leyfi ráðherra kæmi til og veiðimálastjóri og veiðimálanefnd mælti með því að leyfi yrði veitt. Það fyrirkomulag veiðiréttar sem mælt var fyrir um í landskiptagerðinni 1939 fól ekki í sér breytingu á þeirri skipan sem samkvæmt gögnum málsins hafði tíðkast um aldir. Til þess er á hinn bóginn að líta að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 61/1932 kom fram sú regla að væri landareign eða veiðiréttur í sameign væri öllum sameigendum veiði jafnheimil. Með því að beitiland Staðastaðar og Traða skyldi samkvæmt niðurstöðu landskiptanna vera í óskiptri sameign beggja jarðanna og sameignarlandið náði að Staðará var það fyrirkomulag um veiðiréttinn, sem mælt var fyrir um í landskiptagerðinni 1939, ekki í samræmi við reglu 1. mgr. 4. gr. laga nr. 61/1932 um jafnan veiðirétt þeirra, sem land áttu í óskiptri sameign, en sambærileg regla hafði áður verið í 1. mgr. 122. gr. vatnalaga nr. 15/1923.

IV

Umboðsmaður kirkjujarða í Snæfellsnessýslu byggði 14. júlí 1947 eins og í byggingarbréfi sagði „Guðmundi Jónssyni, til heimilis á Tröðum ... kirkjujarðirnar Traðir og Traðarbúð ... frá fardögum 1946 að telja ... Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus, sem hér segir, samkv. landskiptagerð frá 13. sept. 1939 og yfirlandskiptum frá 6. okt. 1941, með þeim breytingum, að nýbýlinu fylgir reki fyrir þegar útskiptu landi jarðarinnar og veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkvæmt því, sem lög ákveða. Ennfremur er sú breyting gerð að ítala nýbýlisins í sameiginlegu beitilandi Staðarstaðar og Traða verði 10 nautgripir, 4 hross og 120 fjár ... Jarðirnar Traðir og Traðarbúð hafi framvegis, unz öðruvísi kann að verða ákveðið af ráðuneytinu, beitiland sameiginlegt í óskiptu með prestsetursjörðinni Staðarstað. Staðarstaður hafi framvegis fjörubeit fyrir landi Traðar og Traðarbúðar, þannig að fjörubeit verði sameiginleg fyrir Traðir og Traðarbúð og Staðarstað, og skal staðnum tryggð fjárgata að sjó til fjörubeitar eða umferðarréttur með fé til og frá fjörubeit ... Nýbýlinu fylgir reki fyrir útskiptu landi jarðarinnar. Nýbýlinu fylgir veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkv. því, sem lög ákveða.“ Byggingarbréfið undirritaði Guðmundur Jónsson 14. júní 1948 með svofelldri athugasemd: „Undirritaður áskilur sér rétt til að krefjast lands og hlunninda fyrir Traðir og Traðarbúð eftir því sem þeim ber að réttu og lögin heimila.“ Þá var byggingarbréfið áritað í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 2. september 1949 með svofelldri athugasemd: „Byggingarbréf þetta staðfestist hér með, að því tilskildu, að framanritaður ábúandi færi túngirðingu jarðarinnar að austanverðu, eins og landskiptagerð frá 13. sept. 1939 og yfirlandskiptagerð frá 6. okt. 1941 mælir fyrir um.“

Þegar byggingarbréfið 1947 var gefið út var eignarhald Staðastaðar og nýbýlisins Traða og Traðabúðar á hendi þess sama og var dóms- og kirkjumálaráðuneytið þar í fyrirsvari. Ákvæði bréfsins um að nýbýlinu fylgdi veiðiréttur í Staðará að sínum hluta í samræmi við ákvæði laga fól í sér breytingu á þeirri skipan sem gilt hafði í þeim efnum um aldir og var síðast áréttuð í landskiptunum 1939. Verður að leggja til grundvallar að með þeirri yfirlýsingu í byggingarbréfinu að beitiland Traða og Traðabúða skyldi vera sameiginlegt og í óskiptu með Staðastað og samhliða henni sú yfirlýsing að nýbýlinu fylgdi „veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkvæmt því, sem lög ákveða“ hafi landeigandi og þar til bærir handhafar ríkisvaldsins fært skipan veiðiréttar í Staðará fyrir sameiginlegu landi jarðanna í lögmætt horf og til samræmis við fyrirmæli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði um jafnan veiðirétt þeirra sem landareign eða veiðirétt eiga í óskiptri sameign. Af gögnum málsins verður ekki séð að á því sameignarfyrirkomulagi hafi síðar verið gerð breyting af hálfu þeirra sem til þess væru bærir og stendur það því óbreytt. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda um viðurkenningu á því að allur veiðiréttur í Staðará fyrir landi Staðastaðar tilheyri óskipt þeirri jörð. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Á eyrunum ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Kirkjumálasjóðs.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. maí 2016.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 22. janúar 2014. Stefnandi er Kirkjumálasjóður, Laugavegi 31, Reykjavík, en stefndi er Á eyrunum ehf., Lýsudal, Snæfellsbæ.

Stefnandi krefst þess aðallega viðurkennt verði með dómi að rétt landamerki milli jarðarinnar Staðastaðar í Snæfellsbæ, landnr. 136234, og heimalands jarðarinnar Traða, Snæfellsbæ, landnr. 136240, séu samkvæmt landskiptum 13. september 1939, sem staðfest voru með yfirmati 6. október 1941. Landamerkin afmarkist með þessum hnitpunktum (ísnet93):

 

Nr. punkts:           Hornhnit:

1                             309867 m             484327 m

2                             310274 m             484577 m

3                             310372 m             484382 m

4                             309944 m             483968 m

5                             309881 m             484077 m

6                             309940 m             484128 m

Á milli punkta 3 og 4 fylgi merkin fjöru.

 

Til vara sé þess krafist að viðurkennt verði með dómi að allur veiðiréttur í Staðará fyrir landi jarðarinnar Staðastaðar, Snæfellsbæ, landnr. 136234, þ.m.t. beggja vegna árinnar frá Snæfellsnesvegi (þjóðvegi) niður að sjó, tilheyri óskipt jörðinni Staðastað.

Jafnframt sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krafðist þess í greinargerð sinni að máli þessu yrði vísað frá dómi, en til vara krafðist hann sýknu. Til stuðnings frávísunarkröfu sinni vísaði stefndi til þess að dómkröfur stefnanda væru ekki tækar til efnisúrlausnar, þar sem kröfugerðin og málatilbúnaður stefnanda uppfyllti ekki áskilnað laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Var málið sérstaklega flutt um þann þátt málsins og með úrskurði uppkveðnum 23. febrúar 2015 var talið að ekki væru slíkir annmarkar á kröfugerðinni að frávísun gæti varðað. Var kröfu stefnda þar um því hafnað.

Stefndi krefst þess því nú að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Dómari og lögmenn fóru í vettvangsskoðun 11. apríl sl., daginn fyrir aðalmeðferð málsins.

II.

Um aldir voru jarðirnar Traðir og Traðarbúð hjáleigur frá prestsetursjörðinni Staðastað á Snæfellsnesi. Jarðanna er allra getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Um Staðastað segir m.a: „Kvaðir öngvar eður ískyldur að fornu eður nýju. ... Lax og silúngsveiði í Staðará; er laxveiði mjög lítil en silungsveiði stundum merkilega góð.“ Um Traðir segir m.a. í Jarðabókinni: „Trader. Heimaland staðarins. Hjer hefur bygð verið um lángvarandi aldur.“ Um Traðarbúð segir m.a: „Tradabud, afgömul hjáleiga af áðurskrifuðu staðarins heimalandi Tröðum.“ Í lýsingu á Tröðum og Traðarbúð er hvergi minnst á lax- og silungsveiði í Staðará.

Í Jarðatali á Íslandi eftir J. Johnsen er lýst hlunnindum jarðarinnar Staðastaðar og þar segir m.a: „Laxveiði í Staðará launar töluverðan kostnað, manna- og hestaníðslu um hásláttinn ... Staðarhjáleigurnar eru bygðar þannig: ... Traðir 2 v., 1 1/2 kúg.; Traðarbúð 1 v. 20 f., 1 kúg., ... “ Ekkert er þar minnst á að hjáleigurnar eigi lax- og silungsveiði í Staðará.

Hinn 20. ágúst 1884 var undirritað landamerkjabréf fyrir allar Staðastaðarkirkjujarðir. Í bréfinu er fyrst lýst ytri merkjum prestsetursins Staðastaðar. Að lokinni merkjalýsingu jarðarinnar segir í bréfinu: „Þaðan á Staðastaður með hjáleigum sínum: Árnanesi, Bolavöllum, Tröðum og Traðabúð, sem allar eiga óskipt land í Staðastaðarlandi.“

Í fasteignamati fyrir Traðir frá 1916 segir að jörðin sé hjáleiga frá Staðastað en um landamerki er vísað til landamerkjabréfs frá 20. ágúst 1884.

Í ársbyrjun 1938 voru hjáleigurnar Traðir og Traðarbúð lausar til ábúðar og hinn 26. janúar það ár var lagt fram í hreppsnefnd Staðarsveitar bréf nýbýlastjórnar ríkisins þar sem óskað var umsagnar hreppsnefndarinnar um hvorum þeirra tveggja sem sótt höfðu um ábúðarréttinn bæri heldur að byggja hjáleigurnar til nýbýlamyndunar. Í umsögn sinni mælti hreppsnefndin með öðrum umsækjandanum og segir síðan: „Þó vill hreppsnefndin eindregið taka það fram að land Staðastaðar sé ekki skert um of, og að Staðastaður hafi minnst 200 m breiða spildu vestan Staðarár alla leið til sjávar vegna fjörubeitar þar fyrir sauðfé.“

Vorið 1938 tók Jónas Gíslason við ábúð jarðanna Traða og Traðarbúðar. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til sóknarprestsins að Staðastað, dags. 19. ágúst 1939, var lagt fyrir prestinn að sjá til þess að landskipti færu fram á landi Staðastaðar í samræmi við gildandi landskiptalög.

Hinn 13. september 1939 komu úttektarmenn Staðarsveitar saman til þess að framkvæma landskiptin, sbr. beiðni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, í því skyni „að skipta hjáleigunum, Tröðum og Traðarbúð út úr landi Staðarstaðareignarinnar“. Auk úttektarmanna voru mættir við skiptin prófasturinn í Snæfellsnesprófastsdæmi, sóknarpresturinn á Staðastað og Jónas Gíslason ábúandi Traða og Traðarbúðar. Segir í bókun matsnefndarinnar að samkvæmt bréfi ráðuneytisins eigi landskiptin að fara fram á grundvelli landskiptalaganna nr. 57/1927. Þær niðurstöður nefndarinnar um landskiptin sem hér skipta máli voru eftirfarandi: „Tekið fyrir að skoða tún þau, er áður fylgdu nefndum hjáleigum, og hefur núverandi notandi þeirra, Jónas Gíslason, girt þau, ásamt meira landi að stærð ca. 10,5 ha., og áleit matsnefnd að færa þyrfti girðinguna að austanverðu, til þess að greiður gangur yrði fyrir Staðarstað meðfram Staðará, og til notkunar fjörubeitar, sem liggur neðan við Traðartún, og setti nefndin niður merki þar, sem hún ákvað hvar girðingin skyldi vera, en auk þess lands, sem búið er að girða, mældi matsnefndin rúman ha. land vestan við girðinguna, sem var ákveðið að fylgdi ræktunarlandinu og setti merki við, og hefir þá býlið fulla 11 ha. lands til ræktunar.“ Þá var ákveðið að engjaland (slægjuland) Traða og Traðarbúðar yrði „uppfrá Vatnsflóa milli Stóru-Furu og lækjarins Balta, landamerki að norðan frá vörðu sem hlaðin var á vestri bakka Stóru-Furu sjónhending í Stekkhól að „Balta““. Eftir umfjöllun nefndarinnar  um engjablettina segir svo í matsgerðinni: „Skiptingu beitilandsins álitu matsmenn að ekki gæti komið til mála, vegna staðhátta og ákváðu, að hið sameinaða nýja býli, Traðir og Traðarbúð, skyldi hafa óskipt beitiland við Staðastað fyrir 4 nautgripi, 7 hross og 120 fjár, og álíta það nægilegt bú fyrir meðalfjölskyldu, eins og nú er háttað búnaði hér í sveit.“ Loks segir svo: „Veiði í Staðará og reki fyrir landi jarðanna fylgir áfram Staðarstað eins og verið hefir.“

Hinn 6. október 1941 fór fram yfirmat vegna landskiptanna, þar sem Jónas Gíslason, ábúandi á nýbýlinu, sætti sig ekki við landskiptin. Í yfirmatinu segir um þetta: ,,Jónas Gíslason kveðst krefjast þess, að undirlandskiptagjörðinni verði algerlega hrundið. Telur hann að skipti á túni og engjum hafi í raun og veru verið gjörð fyrir ævalöngu. Hins vegar kveðst hann sérstaklega krefjast skipta á beitilandi.“ Niðurstaða yfirmatsins var sú ,,að hjáleigurnar, Traðir og Traðarbúð, gætu eigi átt ríkari rétt til ræktunarlands, engja og annarra landsnytja en undirlandskiptagjörðin frá 13. sept. 1939 skipti út til þeirra.“ Skiptagerðin frá 1939 skyldi því standa óbreytt. Segir meðal annars svo í forsendum nefndarinnar: „Matsmennirnir skoðuðu tún og land það, sem girt er með túninu að Tröðum og Traðarbúð, svo og umhverfi þess. Sáu þeir merki þau, sem skiptamennirnir settu hinn 13. september 1939. Lýstu aðilar því yfir, að þau væru óhreyfð. Eru merki þessi nákvæmar tiltekin þannig: Af túni eða landi Traðar og Traðarbúðar, innan heimagirðingar að austan, takist spilda, er afmarkist af línu, er liggi um eystra túngarðsbrotið, sem þar er, frá sjó í girðinguna að ofan. Viðbótin við landið í túngirðingunni að vestan liggi vestur af línu milli áðursettra merkjavarða, og upp frá sjó að línu úr efri vörðunni að núverandi túngirðingu í stefnu á Djúpagil.“ Eftir stutta umfjöllun um engjablettina segir svo: „Eftir að hafa athugað eftir föngum land og staðháttu alla, þá urðu matsmennirnir sammála um að eigi væru nein tök á að skipta beitilandi milli jarðanna.“

Ábúandinn Jónas Gíslason ritaði dómsmálaráðuneytinu bréf, dags. 3. desember 1941, og mótmælir þar enn skiptunum. Lætur hann þess getið að byggingarbréfið, sem búið sé að útbúa, muni sýslumaður ekki undirrita nema Jónas afsali sér með öllu veiðirétti í Vatnsflóaósi. Þessu mótmælir hann og segir þann veiðirétt hafa ætíð fylgt hjáleigunum og þær verði ekki sviptar þeim rétti. Þær eigi þennan veiðirétt, þ.e. í Vatnsflóaósi, hlutfallslega á við Staðastað.

Eftir landskiptin hafa hjáleigurnar Traðir og Traðarbúð gengið undir nafninu Traðir, enda um eina jörð að ræða.

Hinn 23. mars 1942 gaf sýslumaðurinn í Snæfells- og Hnappadalssýslu, sem umboðsmaður kirkjujarða, út byggingarbréf fyrir jörðinni Tröðum til Jónasar Gíslasonar. Var jörðin leigð frá fardögum 1939. Í byggingarbréfinu sagði að Traðir skyldu þar til annað væri ákveðið eiga sameiginlegt beitiland í óskiptu með Staðastað, en ekki var þar sérstaklega vikið að veiðirétti. Hins vegar var sérstaklega tekið fram að nýbýlið Traðir ætti hvorki rétt til varphlunninda né til reka fyrir Traða- og Traðarbúðarlandi. Byggingarbréfið var staðfest í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 7. apríl 1942.

Hinn 14. júlí 1947 gaf sýslumaðurinn í Snæfells- og Hnappadalssýslu út byggingarbréf til nýs ábúanda Traða, Guðmundar Jónssonar. Í byggingarbréfinu sagði að landamerki jarðanna væru ,,samkv. landskiptagerð frá 13. september 1939 og yfirlandskiptum frá 6. okt. 1941, með þeim breytingum, að nýbýlinu fylgir reki fyrir þegar útskiptu landi jarðarinnar og veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkv. því sem lög ákveða“. Jafnframt sagði í byggingarbréfinu, undir liðnum aðrir skilmálar, að jörðin Traðir skyldi þar til annað væri ákveðið eiga sameiginlegt beitiland í óskiptu með Staðastað. Loks er þar ítrekað að Tröðum fylgi „veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkv. því sem lög ákveða“. Byggingarbréfið var staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 2. september 1949 ,,að því tilskildu að ábúandi færi túngirðingu jarðarinnar að austanverðu, eins og landskiptagerð frá 13. sept. 1939 og yfirlandskiptagerð frá 6. okt. 1941, mælir fyrir um“.

Hinn 1. desember 1962 var undirrituð yfirlýsing allra hlutaðeigandi um landamerki jarðanna Staðastaðar og Traða annars vegar og hins vegar nærliggjandi jarða er lönd eiga að Staðastað. Sagði í yfirlýsingunni að með henni væru öll fyrri merki úr gildi fallin. Í landamerkjalýsingunni var í engu vikið að merkjum Staðastaðar og Traða innbyrðis. Landamerkjalýsing var undirrituð af ábúendum Staðastaðar og Traða.

Hinn 31. desember 1969 tók gildi auglýsing um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 69/1969. Var þar staðfest eldri skipan um að landbúnaðarráðuneytið færi m.a. með mál er vörðuðu þjóðjarðir og kirkjujarðir. Ný auglýsing um sama málefni tók svo gildi 1. febrúar 2004. Kom þar fram að landbúnaðarráðuneytið færi með mál er varðaði jarðir í eigu og umsjá ríkisins, þ.m.t. kirkjujarðir.

Með bréfum ábúenda Staðastaðar og Traða til landbúnaðarráðuneytisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hinn 31. desember 1974 var þess óskað að fram færu „alger landskipti“ milli jarðanna.

Með leigusamningi, dags. 25. og 30. september 1991, leigði landbúnaðarráðherra Bjarna A. Einarssyni jörðina Traðir. Um merki jarðarinnar segir svo í samningnum: „Hinn leigði hluti jarðarinnar afmarkast að sunnan af sjó, að vestan af landamerkjum Neðri-Hóls og Traða, að norðan af girðingu sem liggur með þjóðvegi og frá þjóðvegi í Staðará til sjávar.“ Þá sagði einnig í samningnum að ,, ... í leigu skv. samningi þessum fylgir veiði í Staðará, neðan girðingar, á móti Staðarstað, sem nánar verður kveðið á um af leigusala með sérstöku bréfi“.

Þáverandi sóknarprestur og staðarhaldari á Staðastað mótmælti leigusamningnum í bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dags. 15. júní 1992, þ.e. hvað veiðiréttinn varðaði. Nokkrum dögum síðar, eða 23. júní 1992, ritaði landbúnaðarráðuneytið bréf til nýs ábúanda á jörðinni, Bjarna, þar sem fram kemur  að ráðuneytið hafi ákveðið, með vísan til framangreinds ákvæðis í leigusamningnum, að umræddum veiðirétti verði árið 1992 hagað með eftirfarandi hætti: „Frá vesturbakka Staðarár er heimilt að stunda veiði með allt að tvær stangir samtímis til 1. september 1992. Jafnframt skal vera heimilt að leggja eitt net síðsumars skv. lax- og silungsveiðilögum og reglum veiðifélagsins.“

Með kaupsamningi, dags. 11. og 12. mars 1999, keyptu Bjarni A. Einarsson og eiginkona hans, Una Jóhannesdóttir, jörðina Traðir. Í samningnum segir að kaupendur kaupi jörðina ,,með öllum mannvirkjum, svo sem húsum, ræktun, girðingum og öðru sem er í eigu ríkisins á jörðinni, ásamt öllum þeim gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgja og fylgja ber, að engu undanskildu. ... Um landamerki jarðarinnar vísast til landamerkjaskrár Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu“. Í kaupsamningnum var ekki minnst sérstaklega á að veiðiréttur fylgdi jörðinni.

Jörðin Traðir var seld nauðungarsölu 28. febrúar 2012 og var uppboðskaupandi Landsbankinn hf. Eignaðist bankinn jörðina samkvæmt uppboðsafsali, dags. 6. júní 2012.

Með kaupsamningi, dags. 28. maí 2013, seldi Landsbankinn hf. stefnda jörðina. Í 5. gr. samningsins segir orðrétt: „Kaupanda er kunnugt um þann vafa sem uppi er um hvort veiðiréttindi fylgi jörðinni og sættir sig við það. Kaupandi staðfestir að hann muni enga kröfu gera á hendur seljanda þó staðfest verði að engin veiðiréttindi fylgi jörðinni.“

Við aðalmeðferð málsins gaf forsvarsmaður stefnanda, Gunnar F. Jónasson, aðilaskýrslu, auk þess sem teknar voru vitnaskýrslur af Benedikt Guðbjartssyni, Reynold Kristjánssyni, Guðjóni Skarphéðinssyni og Bjarna Antoni Einarssyni.

III.

Til stuðnings fyrri dómkröfu sinni vísar stefnandi til þess að engin gögn séu til um það að Traðir hafi nokkru sinni átt land að Staðará, eins og fullyrt sé í leigusamningi landbúnaðarráðuneytisins frá 1991. Þvert á móti bendi öll gögn sem fyrir liggi til þess að Staðastaður hafi átt landspilduna frá heimalandi Traða og að ánni. Sé þetta skýrlega tilgreint í landskiptagerðinni frá 1939, sem yfirmatið hafi staðfest að öllu leyti. Leigusamningur stjórnvalds um jörð geti aldrei vikið til hliðar landamerkjum eins og þeim sé lýst í landskiptagerð, sem gerð hafi verið á grundvelli gildandi laga og staðfest í yfirmati.

Í yfirlandskiptagerðinni frá 1941 segir um merki hins útskipta heimalands: ,,Eru merki þessi nákvæmar tiltekin þannig: Af túni eða landi Traðar og Traðarbúðar, innan heimagirðingar að austan, takist spilda, er afmarkist af línu, er liggi um eystra túngarðsbrotið, sem þar er, frá sjó í girðinguna að ofan.“ Á þeim tíma muni túnið að Tröðum hafa verið þó nokkuð vestar en það sé nú og hafi því alls ekki náð að Staðará. Seinna muni ábúandi að Tröðum hins vegar hafa aukið við ræktunina til austurs og þar með farið í raun inn á land Staðastaðar án heimildar. Fyrrgreind afmörkun á landi Traða hafi verið staðfest í yfirmati og þar segir einnig: „Hins vegar ber nytjanda Traðar og Traðarbúðar, Jónasi Gíslasyni, að færa á sinn kostnað girðinguna inn á tiltekna merkjalínu að austan við úrskipt land sitt. Skal því verki lokið inna 3ja vikna frá þessum degi.“ Þetta muni ábúandinn aldrei hafa gert. Stefnandi telji samkvæmt þessu liggja fyrir að land Traða hafi aldrei legið að Staðará.

Stefnandi bendi á að landamerkjum milli Staðastaðar og heimalands Traða sé nægilega skýrt lýst í landskiptagerðinni frá árinu 1939, yfirmatinu 1941 og öðrum fyrirliggjandi gögnum, þannig að krafa hans um landamerkin nái fram að ganga. Hnitsettur uppdráttur stefnanda, sem krafa hans byggist m.a. á, sé í samræmi við landskiptagerðina frá 1939 og sé því fullnægjandi sönnun þess hvernig landamerkin liggi.

Til stuðnings annarri kröfu sinni kveðst stefnandi vísa til þess að samkvæmt landskiptagerðinni frá 1939 og yfirmatinu 1941 hafi verið ákveðið að allur veiðiréttur í Staðará skyldi áfram fylgja Staðastað, eins og verið hefði fyrir landskiptin. Hafi sú niðurstaða verið í fullu samræmi við það að jörðin Traðir hefði ekki þá fengið neitt land að Staðará frekar en áður. Eftir það hafi engar þær ákvarðanir verið teknar, alla vega ekki svo bindandi sé fyrir stefnanda, sem hafi breytt niðurstöðu landskiptanna hvað þetta varði.

Meginreglur um rétt til fiskveiða í ám og vötnum hafi um aldir verið skýrar hér á landi á þann veg að landeigandi eigi einkarétt til fiskveiði í landi sínu nema forn venja leiði til annars. Þessi skýra meginregla hafi verið lögfest í Jónsbók, þar sem kveðið hafi verið á um það í 56. kap. Llb að landeigandi ætti einn rétt til fiskveiða á og fyrir jörð sinni. Í 6. kap. Llb hafi komið fram að fiskveiðiréttur fylgdi ábúð jarðar nema hann væri sérstaklega frá skilinn í samningi. Leiguliði ætti því rétt til allrar veiði sem landi fylgdi nema rétturinn væri sérstaklega undanskilinn í samningi. Með lögum nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði hafi þessi meginregla, um rétt landeiganda annars vegar og ábúanda hins vegar, verið áréttuð í 1. og 3. mgr. 2. gr. laganna. Til viðbótar hafi verið ákveðið í 4. mgr. 2. gr., sem hafi verið nýmæli hvað fiskveiðirétt varðaði, að eigi mætti skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti frá landareign. Í 4. gr. laganna hafi verið fyrirmæli um það hvað skyldi gilda ef landareign eða veiðiréttur væri í óskiptri sameign. Skyldi sameigendum þá öllum veiði jafnheimil, sbr. 1. mgr. 4. gr., en ef landareign í sameign væri skipt eftir merkjum, afnotaskiptum eða eignar ætti hver sameigandi veiði fyrir sínu landi.

Stefnandi telji gögn málsins skýr um það að við landskiptin 1939 hefði veiðiréttur í Staðará um aldir óskiptur tilheyrt Staðastað sem hlunnindi. Í ljósi gildandi lagaákvæða á hverjum tíma hafi þessi skýri réttur Staðastaðar til allrar veiði í Staðará ekki verið byggður á neinu öðru en því að Staðastaður hafi frá upphafi talist eiga landið meðfram ánni. Það land hafi því aldrei tilheyrt hjáleigunum Tröðum og Traðarbúð þótt land jarðanna teldist í óskiptri sameign. Í því sambandi verði þó að hafa í huga að Traðir og Traðarbúð hafi verið hjáleigur frá Staðarstað, sem hafi verið höfuðbólið og því haft stöðu samkvæmt því gagnvart hjáleigunum. Við þetta bætist að hafi land meðfram ánni einhvern tímann tilheyrt hjáleigunum hefði borið lögum samkvæmt að láta veiðiréttinn fylgja ábúðinni eða skilja hann skýrt undan, eins og heimilt hafi verið allt fram að gildistöku lax- og silungsveiðilaganna frá 1932. Engin gögn bendi til þess að veiðiréttur í Staðará hafi nokkru sinni verið undanskilinn ábúð á Tröðum/Traðarbúð. Þvert á móti séu öll tiltæk gögn skýr um að veiðirétturinn hafi einungis fylgt Staðastað af þeirri ástæðu einni að Staðastaður teldist eigandi landsins meðfram ánni.

Réttarstaðan hafi því í raun verið skýr við landskiptin 1939, þegar ákveðið hefði verið að stofna nýbýli á hjáleigunum. Enda hafi það verið niðurstaða landskiptanna að land meðfram Staðará, eins og því sé nánar lýst í landskiptagerðinni, tilheyri Staðastað. Megi ráða það af landskiptagerðinni að 2. mgr. 4. gr. lax- og silungsveiðilaganna hafi hér skipt máli vegna þess að ábúandinn væri þegar búinn að girða landið í samræmi við afnot milli jarðanna. Þótt landið hefði á sínum tíma verið í óskiptri sameign bendi öll gögn til þess að skipting afnota hafi verið skýr og að Traðir og Traðarbúð hafi aldrei haft afnot af neinu landi sem legið hafi að Staðará. Þegar af þeirri ástæðu hafi það orðið niðurstaðan við landskiptin að allur veiðiréttur tilheyrði eftir sem áður Staðastað.

Þegar gert hafi verið byggingarbréf fyrir Traðir við Jónas Gíslason árið 1942 hafi ekki verið vikið að veiðirétti í Staðará, enda hafi hann aldrei verið til staðar. Þegar ábúandaskipti hafi orðið á Tröðum nokkrum árum síðar hafi af óskiljanlegum og óskýrðum ástæðum verið getið um veiðirétt Traða í Staðará og í byggingarbréfinu frá 1947 vísað til þess sem um hann gilti lögum samkvæmt. Ljóst sé að þetta ákvæði byggingarbréfsins hafi í raun verið markleysa því að til þess að Traðir gætu átt veiðirétt í Staðará þá hefði jörðin orðið að eiga samkvæmt landskiptunum land að Staðará. Það hafi jörðin ekki átt og þar með hafi leitt af sjálfu sér að jörðin ætti ekki heldur neinn veiðirétt í ánni. Hafi ákvæði þágildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 112/1941 verið jafn skýr og áður hvað þetta varðaði. Jörð hafi orðið að eiga land að á til að eiga veiðirétt í henni. Engu breyti í þessu sambandi þótt dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi staðfest umrætt byggingarbréf árið 1949. Hvorki byggingarbréfið sjálft né staðfesting ráðuneytisins á því hafi getað stofnað til veiðiréttar sem hvorki studdist við lög né skjallegar heimildir. Stefnandi fullyrði því að byggingarbréfið hafi ekki stofnað til veiðiréttar í Staðará til handa Tröðum og jörðin geti því ekki byggt neinn rétt á því.

Í leigusamningum frá 1991, þar sem Bjarna Einarssyni hafi verið leigð jörðin Traðir, hafi landamerkjum jarðarinnar að austan verið lýst þannig að þau væru við Staðará til sjávar. Þessi lýsing sé einfaldlega röng og samræmist ekki gögnum málsins. Merki jarðarinnar hafi ekki breyst eftir landskiptin 1939, en þá hafi hið útskipta land ekki náð austur að Staðará. Þá hafi einnig verið tiltekið í leigusamningnum að með „í leigu skv. samningi þessum fylgir veiði í Staðará, neðan girðingar, á móti Staðarstað, sem nánar verður kveðið á um af leigusala með sérstöku bréfi“. Um þetta ákvæði sé það sama að segja og ákvæðið um veiðirétt í byggingarbréfinu frá 1947, að þar sem enginn veiðiréttur hafi tilheyrt Tröðum hafi eigandi jarðarinnar ekki getað selt hann á leigu. Þetta sé því í raun merkingarlaust ákvæði. Röng fullyrðing í leigusamningnum geti hvorki breytt landamerkjum jarðarinnar Traða né fært veiðirétt undir jörðina, í báðum tilfellum á kostnað Staðastaðar.

Í eignarheimild stefnda fyrir jörðinni Tröðum sé tekið sérstaklega fram að ágreiningur sé um veiðirétt jarðarinnar í Staðará og komi í ljós að veiðirétturinn sé enginn þá eigi stefndi engan bótarétt á hendur seljanda af þeim sökum. Þannig hafi stefndi keypt jörðina Traðir vitandi af þessum ágreiningi og sætt sig við að missa meintan veiðirétt, sem stefnandi haldi fram að jörðin hafi aldrei átt, án nokkurra bóta. Stefnandi telji þessa staðreynd skipta miklu og benda til þess að forsvarsmaður stefnda hafi frá upphafi gert sér grein fyrir að veiðiréttur jarðarinnar væri enginn. Þá hafi komið fram að í kauptilboði, sem hafi verið undanfari kaupsamnings stefnda um jörðina, hafi seljandi látið þess getið að enginn veiðiréttur tilheyrði Tröðum.

Ábúendur og síðar eigendur Traða hafi um árabil í heimildarleysi hagnýtt sér meintan veiðirétt á grundvelli ákvæða í byggingarbréfi og leigusamningi, sem stefnandi telji lögleysur. Stefndi hafi sömuleiðis nýtt meintan veiðirétt þótt kaupsamningur hans geri skilmerkilega grein fyrir því að óvissa sé um þann rétt. Vegna þessa taki stefnandi fram að hvað sem þessari óheimilu hagnýtingu meints veiðiréttar líði fyrr og síðar þá hafi hvorki stefndi né fyrri eigendur Traða áunnið sér veiðirétt í Staðará fyrir hefð, enda sé ekki um slíkt að ræða gegn betri vitund um betri rétt þriðja aðila. Fyrri ábúendur hafi verið leigjendur Traða allt fram til ársins 1999, þegar jörðin hafi fyrst verið seld, og fengið meintan veiðirétt með byggingarbréfi og leigusamningi. Í 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905 komi skýrt fram að hafi hefðandi fengið hlut á leigu geti slík umráð ekki stofnað til hefðar. Stefndi hafi enn síður hefðað sér veiðirétt því að hann hafi keypt jörðina fyrst á árinu 2013, með skýrum fyrirvara um ágreining um veiðiréttinn.

IV.

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda um afmörkun á svokölluðu „heimalandi“ Traða sé efnislega röng. Ljóst sé að allt frá því að landbúnaðarráðuneyti hafi verið sett á stofn hafi það ráðuneyti ávallt farið með málefni jarða í umsjón ríkisins, þar með talið kirkjujarða. Hafi þessi skipan verið staðfest með reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969. Á grundvelli þeirra reglna hafi íslenska ríkið og landbúnaðarráðuneytið haft fulla heimild að lögum til að breyta afmörkun á ræktarlandi Traðajarðarinnar.

Í leigusamningi landbúnaðarráðherra við Bjarna Einarsson og Unu Jóhannesdóttur frá 30. september 1991 komi fram að ræktað land jarðarinnar sé 21,4 ha. Í samningnum hafi hinn leigði hluti jarðarinnar verið afmarkaður þannig að suðurmerki réðust af sjó, vesturmerki af landamerkjum gagnvart Neðri-Hól, norðurmerki af girðingu við þjóðveg og austurmerki af Staðará. Samkvæmt gildandi skráningu fasteignamatshluta Þjóðskrár sé ræktarland Traða enn tilgreint sem 21,4 ha. Sé þannig byggt á því að landbúnaðarráðherra hafi í síðasta lagi við undirritun leigusamningsins 1991 fellt úr gildi þá afmörkun ræktarlands Traða sem leitt hafi af yfirlandskiptunum 1941. Málsástæðu stefnanda um að merkjum jarðarinnar sé ranglega lýst í leigusamningnum frá 1991 sé þannig mótmælt.

Í öðru lagi sé byggt á því að það land sem afmarkað sé í kröfugerð stefnanda sé miklu minna að flatarmáli en það land sem nytjað hafi verið frá Tröðum á seinni hluta síðustu aldar. Í því sambandi sé bent á að við lok ábúðar Guðmundar Jónssonar hafi ræktarland jarðarinnar samkvæmt fasteignamati verið 21,4 ha. Þá sé vísað til þess að mannvirki tilheyrandi Tröðum hafi m.a. staðið utan við það land sem afmarkað sé í kröfugerð stefnanda. Vísist þar m.a. til þess veiðihúss sem reist hafi verið á bakka Staðarár. Sé byggt á því að eignarhald stefnda að landi neðan þjóðvegar og allt austur að Staðará styðjist þannig í öllu falli við hefð. Byggt er á því að afmörkun lands í leigusamningi 1993 sé í samræmi við landnotkun fyrri ábúenda Traða, þ.e. að því er varðar landið sunnan girðingar við þjóðveg.

Ítrekuð sé sú staðreynd að í það minnsta frá árinu 1990 hafi ræktarland Traða verið tilgreint í fasteignamati sem 21,4 ha. Í stefnu komi fram að það land sem afmarkað sé í dómkröfu stefnanda sé einungis 11,9 ha. Kröfulínur séu þar dregnar þvert á tún og girðingar og óháð staðsetningu mannvirkja. Vísað sé til þess að það sé stefnandi sem beri sönnunarbyrði fyrir þeim landamerkjalínum sem felist í kröfugerð hans. Sú sönnun hafi fráleitt tekist að mati stefnda, en eins og að framan sé rakið sé nánast engan rökstuðning að finna í stefnu fyrir legu umræddrar kröfulínu. Að mati stefnda samræmist kröfulínan hvorki niðurstöðu yfirlandskiptanna 1941 né seinni tíma heimildum um afmörkun á landi Traða.

Í þriðja lagi sé byggt á því að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti. Málefni prestsetra hafi farið frá ríkisvaldinu yfir til forvera stefnanda, Prestsetrasjóðs, hinn 31. janúar 1994, sbr. lög nr. 137/1993 um prestsetur. Frá þeim tíma hafi ábúendur og eigendur Traða nýtt landið neðan þjóðvegar í samræmi við leigusamninginn frá 1991. Þá hafi opinber skráning staðfest það að Tröðum fylgi tvöfalt meira ræktarland en leiði af niðurstöðu yfirlandskipta frá 1941. Að mati stefnda séu kröfur stefnanda hvað sem öðru líði fallnar niður fyrir tómlæti. Sú afmörkun ræktarlands Traða sem fram komi í leigusamningum 1991 staðfesti hvaða land hafi verið talið tilheyra Tröðum sunnan girðingar við þjóðveg.

Stefndi telji málarekstur stefnanda óþarfan og ótímabæran. Standi vilji stefnanda til þess að sett verði niður endanleg landamerki milli Staðastaðar og Traða standi honum sú leið fær að krefjast landskipta í samræmi við ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941. Í ljósi þess að stefnandi byggi á yfirlandskiptunum frá 1941 standi væntanlega ekki ágreiningur um að Traðir eigi hlutdeild í öllu beitarlandi sem sé innan sameiginlegra landamerkja Staðastaðar og Traða. Oft hafi komið fram hugmyndir um fullnaðar landskipti milli jarðanna. T.a.m. hafi ábúendur Staðastaðar og Traða sameiginlega óskað eftir því árið 1974 að fram færu „alger“ landskipti á landi jarðanna. Nú virðist stefnandi hins vegar telja að málarekstur fyrir dómstólum sé hinn rétti farvegur málsins.

Stefndi telji ljóst að jörðinni Tröðum fylgi veiðiréttur í Staðará og sé því hafnað öllum málsástæðum stefnanda sem byggist á því að jörðin sé án veiðiréttar. Því til stuðnings sé í fyrsta lagi vísað til byggingarbréfs Traða frá 1947, en þar segi berum orðum að jörðinni fylgi veiðiréttur í Staðará. Byggingarbréfið hafi verið gefið út af landbúnaðarráðuneytinu og staðfest af dóms- og kirkjumálaráðherra. Ítrekað sé að lögformlegt fyrirsvar kirkjujarða hafi á þessum tíma verið á hendi landbúnaðarráðherra. Þá hafi málefni prestsetra verið á borði dómsmálaráðuneytisins. Hafi því íslenska ríkið og viðkomandi ráðuneyti haft fulla heimild til þess að fella úr gildi það ákvæði landskiptanna frá 1939 og 1941 að Tröðum fylgdi ekki veiðiréttur í Staðará. Í þessu sambandi megi vísa til bréfs landbúnaðarráðuneytisins frá 20. ágúst 1992, en þar komi fram að ráðuneytið telji að réttindi samkvæmt byggingarbréfinu frá 1947 hafi ekki verið bundin við ábúð Guðmundar Jónssonar. Við fráfall Guðmundar hafi ekki verið gerðar neinar breytingar á réttindum jarðarinnar né hafi ráðuneytið „afsalað réttmætu tilkalli jarðarinnar til hlunninda sem jörðinni höfðu verið fengin“. Í bréfi ráðuneytisins frá 23. júní 1992 komi sama sjónarmið fram en þar segi að á grundvelli byggingarbréfsins frá 1947 fylgi Tröðum „veiðiréttur í Staðará fyrir útskiptu landi, þ.e. neðan girðingar á móti Staðarstað fyrir úrskiptu landi“.

Í öðru lagi sé byggt á því að jörðinni Tröðum tilheyri einnig land sunnan þjóðvegar, allt austur að Staðará, sbr. þá afmörkun sem sett hafi verið fram í leigusamningi landbúnaðarráðuneytis við nýjan ábúanda Traða árið 1991. Því landi fylgi veiðiréttur á grundvelli 1. mgr. 5. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006, en þar segi að eignarlandi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum.

Í þriðja lagi sé byggt á því að sú niðurstaða yfirlandskiptanna árið 1941 að jörðinni Tröðum fylgi ekki veiðiréttur í Staðará hafi verið í andstöðu við ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941 og þágildandi ákvæði laga um lax- og silungsveiði nr. 61/1932, sbr. einnig lög nr. 112/1941. Helgist það ekki síst af því að óumdeilt sé að við yfirlandskiptin 1941 hafi einungis verið skipt út ræktar- og engjalandi fyrir Traðir. Sérstaklega hafi verið tekið fram að beitarland yrði áfram óskipt milli Staðastaðar og Traða. Stefndi byggi á því að það land sem liggi næst Staðará hafi árið 1941 fyrst og fremst verið beitarland. Jörðin Traðir hafi því í öllu falli átt hlutfallslegan veiðirétt í Staðará vegna hins sameiginlega beitarlands. Rúmum þremur mánuðum áður en yfirlandskipti fóru fram hafi tekið gildi landskiptalög nr. 46/1941. Í 1. mgr. 3. gr. laganna segi að ekki megi gera staðbundin skipti á veiði í vötnum nema á engan eiganda sé hallað eða samþykki allra eigenda komi til. Með vísan til þess byggi stefndi á því að yfirlandskiptamönnum hafi beinlínis verið óheimilt að svipta jörðina Tröðum veiðirétti í Staðará nema beint samþykki landbúnaðarráðherra lægi fyrir.

Niðurstaða yfirlandskiptamanna um veiðirétt Traða hafi einnig farið í bága við ákvæði 4. mgr. 2. gr.  og 4. gr. þágildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932. Í 4. mgr. 2. gr. laganna hafi verið kveðið á um að eigi mætti skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign, hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma. Þá hafi komið fram í 4. gr. laganna að væri landareign eða veiðiréttur í óskiptri sameign væri sameigendum öllum veiði jafnheimil. Ákvæði um bann við aðskilnaði veiðiréttar frá landareign hafi upphaflega verið að finna í 121. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Í 1. gr. þeirra laga hafi landareign verið skilgreind sem land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Að mati stefnda felist í þessum lagaákvæðum að óheimilt hafi verið að svipta lögbýlið Traðir veiðirétti í yfirlandskiptunum 1941. Sé niðurstaða yfirlandskiptanna að þessu leyti markleysa og að vettugi virðandi. Jónas Gíslason, ábúandi Traða, hafi strax vakið athygli á því að þessi niðurstaða stæðist ekki ákvæði lax- og silungsveiðilaga. Í bréfi hans til dómsmálaráðuneytisins hinn 3. desember 1941 hafi hann bent á að veiðirétturinn hefði ætíð fylgi hjáleigum Staðastaðar. Hafi hann þar meðal annars tekið fram: ,,Skv. lögum um lax- og silungsveiði er ekki hægt að svipta hjáleigurnar veiðirjetti. Þær eiga þann rjett hlutfallslega á við Staðastað.“ Ekki verði betur séð en að landbúnaðarráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafi fallist á þessa röksemd með því að tiltaka sérstaklega í byggingarbréfi árið 1947 að Tröðum fylgdi veiðiréttur í Staðará.

Í fjórða lagi sé byggt á því að fasteignamat Traða og Traðarbúðar sýni berlega að jörðinni hafi ávallt fylgt lax- og silungsveiðiréttindi í Staðará. Í gerðarbók fasteignamatsnefndar frá 1916 komi fram að meðal hlunninda Traða og Traðarbúðar sé silungsveiði. Þannig sé ljóst að tilgreining lax- og silungsveiðihlunninda í fasteignamati Traða eigi sér langa sögu. Í stefnu komi fram að tilgreining veiðiréttinda Traða í fasteignamati byggist á svokölluðu aðalmati, sem framkvæmt hafi verið á tímabilinu 1965 til 1970. Miðað við skráningu í gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916 sé ljóst að þessi skráning eigi sér eldri sögu. Í bókinni Hlunnindajarðir á Íslandi, sem komið hafi  út árið 1982, komi jafnframt fram að jörðunum fylgi bæði lax- og silungsveiðiréttur. Í formála bókarinnar segi að bókin byggist m.a. á skráningu hlunninda í fasteignamati. Í leigusamningi fyrir Traðir frá árinu 1991 sé tekið upp sundurliðað fasteignamat jarðarinnar, miðað við desember 1990. Séu þar lax- og silungsveiðiréttindi sérmetin hlunnindi jarðarinnar. Núgildandi skráning sé á sama veg.

Í fimmta lagi sé vísað til þess að hinn 31. mars 1980 hafi landbúnaðarráðherra staðfest samþykkt fyrir Veiðifélag Staðarár og Hagavatns. Í samþykktunum sé jörðin Traðir sérstaklega tilgreind sem jörð sem land eigi að vatnasvæði Staðarár og Hagavatns. Hafi umrædd samþykkt verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 31. mars 1980. Samkvæmt þessu sé opinber skráning öll á einn veg um að Tröðum fylgi veiðiréttur í Staðará.

Í sjötta lagi sé vísað til byggðasögu og örnefnaskrár um að almennt virðist hafa verið viðurkennt að Tröðum fylgdi veiðiréttur í Staðará. Í umfjöllun um Traðir í byggðasögunni Byggðir Snæfellsness, sem út hafi komið árið 1977, segi að jörðinni fylgi veiðiréttur í Staðará. Þá segi í örnefnaskrá Traða frá árinu 1979 að jörðinni fylgi lax- og silungsveiði, sem þyki góð hlunnindi. Skrásetjari hafi verið Bragi Jónsson frá Hoftúnum í Staðarsveit.

Í áttunda lagi sé byggt á því að veiðiréttur Traða í Staðará geti hvað sem öðru líði grundvallast á hefð. Af bréfum sóknarpresta Staðastaðar til dómsmálaráðuneytisins og biskups á seinni hluta síðustu aldar megi jafnframt sjá að ábúendur Traða hafi ávallt stundað veiðar í Staðará. Í bréfi til dómsmálaráðuneytisins árið 1982 hafi Þorgrímur Sigurðsson t.a.m. lýst yfir áhyggjum sínum af því að hlunnindi Staðastaðar væru að tapast á grundvelli hefðarréttar annarra. Eftir að Bjarni Einarsson hafi komið að Tröðum hafi hann nýtt sér veiðiréttinn og leigt hann m.a. út. Það hafi einnig gert Guðmundur Jónsson á Tröðum. Byggt sé á því að uppfyllt séu ákvæði 1.-3. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 um eignarhefð. Til vara sé byggt á því að uppfyllt séu ákvæði 8. og 9. gr. hefðarlaga um afnotahefð. Sé þannig byggt á því að meintur veiðiréttur Staðastaðar hafi á grundvelli hefðar flust frá þeirri jörð yfir til Traðajarðarinnar. Áréttað sé að framangreint komi ekki til skoðunar nema dómurinn hafi hafnað öðrum málsástæðum stefnda.

V.

Fyrri viðurkenningarkrafa stefnanda

Með kröfu þessari leitast stefnandi við að fá staðfest með dómi að rétt landamerki milli jarðarinnar Staðastaðar og heimalands jarðarinnar Traða á grundvelli niðurstöðu landskiptagerðar frá 13. september 1939, sem staðfest hafi verið með yfirmati 6. október 1941, afmarkist með sex tilgreindum hornhnitpunktum, en á milli punkta 3 og 4 fylgi merkin fjöru. Hvergi er hins vegar í kröfugerðinni vísað til staðhátta í landslagi og engin tilraun gerð til að rökstyðja tilgreiningu hornpunktanna með hliðsjón af þeirri takmörkuðu lýsingu sem þó er að finna í skiptagerðunum á því hvar austurmörk „ræktunarlands“ fyrir jörðina Traðir, áður Traðir og Traðarbúð, skuli liggja. Að þessu virtu, og eftir að hafa skoðað aðstæður á staðnum í vettvangsgöngu hinn 11. apríl 2016, er það niðurstaða dómsins, þrátt fyrir fyrri niðurstöðu um að hafna kröfu stefnda um frávísun þessarar kröfu frá dómi, að kröfugerð stefnanda sé að þessu leyti svo óljós og ónákvæm að ekki sé unnt að leggja efnisdóm á hana, eins og hún er fram sett. Verður því ekki hjá því komist að vísa kröfu þessari frá dómi ex officio, með vísan til d-liðs 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Seinni viðurkenningarkrafa stefnanda

Í landskiptagerðinni frá 1939, sem staðfest var með yfirmatinu 1941, var tiltekið skýrlega að veiði í Staðará og reki fyrir landi jarðanna skyldi áfram fylgja Staðastað, eins og verið hefði. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að á árinu 1714 hafi réttur til lax- og silungsveiði tilheyrt Staðastað, en í engu er þar getið um slíkan rétt til handa hjáleigunum Tröðum og Traðarbúð. Í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 er og tiltekið að Staðastað fylgi lax- og silungsveiði. Engra slíkra gagna nýtur við um rétt hjáleiganna til veiða í Staðará en fram kemur í óstaðfestu endurriti úr fasteignamatsbók fyrir þær jarðir, sem sagt er vera frá árinu 1916, að Tröðum fylgi dálítil silungsveiði, án þess að það sé þar tilgreint neitt frekar. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja verulegar líkur á að veiðiréttur í Staðará fyrir landi Staðastaðar og hjáleiganna Traða og Traðarbúðar hafi fyrir umrædd landskipti fylgt jörðinni Staðastað og að þannig hafi því verið háttað er vatnalögin nr. 15/1923 tóku gildi. Þar sem stefndi hefur ekki sýnt fram á hið gagnstæða verður hér við það að miða. Samkvæmt því leiddi framangreind niðurstaða landskiptanna um veiðirétt Staðastaðar ekki til neinnar breytingar frá því réttarástandi sem til staðar hafði verið við gildistöku framangreindra laga, þegar fyrst var lögleitt bann við aðskilnaði veiðiréttar frá landareign, sbr. 2. mgr. 121. gr. laganna. Verður því ekki á það fallist með stefnda að þessi niðurstaða yfirlandskiptanna hafi brotið gegn slíku banni, sem þá kom fram í 4. mgr. 2. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/1932. Þar sem ekki var verið að svipta jörðina Traðir veiðirétti gat framangreind niðurstaða ekki heldur brotið gegn 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, svo sem stefndi byggir á.

Stefndi byggir sýknukröfu sína vegna þessarar dómkröfu stefnanda og á því að í byggingarbréfi fyrir nýbýlinu Tröðum og Traðarbúð frá árinu 1947 hafi verið tekið fram berum orðum að því fylgdi veiðiréttur í Staðará. Hafi íslenska ríkið haft fulla heimild til að fella úr gildi það ákvæði landskiptanna frá 1939 og 1941 að veiðiréttur í Staðará skyldi fylgja Staðastað. Fyrir liggur að með umræddu byggingarbréfi, sem útgefið var af sýslumanninum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, sem umboðsmanni kirkjujarða í Staðarsveit, og staðfest af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var tekið fram að nýbýlinu fylgdi „veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkv. því sem lög ákveða“. Þá var ákvæði um það í leigusamningi, sem landbúnaðarráðuneytið, sem forsvarsaðili kirkjujarða á þeim tíma, gerði við Bjarna Anton Einarsson um Traðir m/Traðarbúð hinn 30. september 1991, að með í leigunni fylgdi veiði í Staðará, neðan girðingar, á móti Staðastað, sem nánar yrði kveðið á um í sérstöku bréfi. Eins og áður er rakið hefur allt frá gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 verið í gildi bann við aðskilnaði veiðiréttar að nokkru eða öllu leyti frá landareign, sbr. 4. tl. 2. gr. laga nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði, sem giltu við gerð ábúðarsamningsins, og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970, er giltu við gerð leigusamningsins. Verður ekki annað séð en að íslenska ríkinu hafi, þrátt fyrir að vera eigandi bæði hinnar leigðu jarðar Traða og Traðarbúðar og prestsetursins Staðastaðar, verið óheimilt, með tilliti til framangreindra lagaákvæða, að ráðstafa hluta veiðiréttar Staðastaðar frá jörðinni á þennan hátt. Samkvæmt því verður ekki talið að veiðirétturinn hafi með réttu færst yfir til jarðarinnar Traða og Traðarbúðar með framangreindum samningum. Leiðir og af þeirri niðurstöðu að veiðiréttur Staðastaðar gat aldrei hafa fylgt með þegar jörðin Traðir var fyrst seld nauðungarsölu til Landsbankans hf. og í kjölfarið seld stefnda með kaupsamningi, dags. 28. maí 2013.

Loks verður ekki á það fallist með stefnda að veiðiréttur Traða í Staðará geti hvað sem öðru líður grundvallast á hefð, enda hefur af dómstólum verið litið svo á að framangreint bann í lögum um lax- og silungsveiði standi því í vegi, sbr. síðast dóm Hæstaréttar í máli nr. 530/2015.

Með vísan til alls framangreinds, og þar sem engu breytir í því tilliti hvort jörðin Traðir sé sérstaklega tilgreind í samþykkt fyrir Veiðifélag Staðarár og Hagavatns eða hvort veiðiréttar Traða í Staðará hafi verið getið í byggðasögu og örnefnaskrá á áttunda áratugnum, er það niðurstaða dómsins að allur veiðiréttur fyrir landi Staðastaðar, beggja vegna árinnar, tilheyri óskipt þeirri jörð. Samkvæmt því verður dómkrafa stefnanda þar um tekin til greina.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum ásamt því að telja verður að veruleg vafaatriði hafi verið uppi í málinu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri þess.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan, en hann tók við rekstri málsins er hann var skipaður dómstjóri 1. mars 2015.

Dómsorð:

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að rétt landamerki milli jarðarinnar Staðastaðar og heimalands jarðarinnar Traða, Snæfellsbæ, séu samkvæmt landskiptum 13. september 1939, sem staðfest voru með yfirmati 6. október 1941, og að þau afmarkist með tilgreindum hnitpunktum.

Viðurkennt er að allur veiðiréttur í Staðará fyrir landi jarðarinnar Staðastaðar, landnr. 136240, þ.m.t. beggja vegna árinnar frá Snæfellsnesvegi (þjóðvegi) niður að sjó, tilheyri óskipt jörðinni Staðastað.

Málskostnaður fellur niður.