Hæstiréttur íslands
Mál nr. 589/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Kröfulýsing
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Föstudaginn 4. október 2013. |
|
Nr. 589/2013.
|
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Anton B. Markússon hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsing. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá héraðsdómi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu að tiltekinni fjárhæð sem T hafði lýst við slit K hf. sem T taldi sig eiga á hendur K hf. vegna andvirðis innstæðna sem T þyrfti að greiða innstæðueigendum tiltekinnar tegundar innlánsreikninga í K hf. Deila aðila laut að því annars vegar hvort krafa T við slit K hf. næði yfir kröfur þeirra innstæðueigenda sem ýmist ættu kröfu á hendur K hf. er skipað hefði verið í réttindaröð við slitin sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða hefðu ekki lýst kröfu við slitin. Hins vegar hvort unnt væri að viðurkenna kröfu T við slit K hf. þótt T hefði ekki greitt út til innstæðueigenda andvirði krafna þeirra á hendur K hf. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki verði kröfu því aðeins lýst og hún viðurkennd sem forgangskrafa við slit K hf. að kröfuréttarsamband hefði stofnast milli K hf. og þess sem kröfuna gerði. Af þeim sökum yrði kröfu T ekki lýst við slit K hf. sem kröfu er háð væri ókomnu skilyrði í merkingu 1. mgr. 157. gr. laga nr. 21/1991, þar sem skilyrðið um að T greiddi innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra vissi ekki að kröfuréttarsambandi sem stofnast hefði milli hans og K hf. Einnig var vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. 9. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tæki T yfir kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi kæmi til greiðslu úr T. Við það öðlaðist T kröfu á hendur K hf., að því tilskildu að kröfunni, sem T leiddi rétt sinn af, hefði áður verið lýst og hún viðurkennd við slit K hf. Að virtu því sem fram kæmi í lögskýringargögnum yrði ákvæði síðari málsliðar sömu málsgreinar ekki skýrt á þann veg að T öðlaðist annan og meiri rétt gagnvart K hf. við slit hans en þeir sem upphaflega áttu kröfu á hendur honum. Talið var að þar sem T hefði ekki greitt andvirði þeirra innstæðna, sem vísað var til í dómkröfum hans, hefði hann ekki lögvarða hagsmuni af að leyst væri úr þeim kröfum og var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu hans að fjárhæð 1.822.340.055 krónur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, aðallega að „skilyrði kröfunnar teljist komið fram þegar og að því marki sem sóknaraðili greiðir EDGE innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra, í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta“, en til vara „að framkomnu því skilyrði að sóknaraðili greiði EDGE innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra, hvort sem er í heild eða að hluta, í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999“. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 13. september 2013. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Í fyrri málslið 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 segir að komi til greiðslu úr sóknaraðila yfirtaki hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. Með 9. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., var svohljóðandi ákvæði bætt við málsgreinina: „Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 ... en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.“ Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 125/2008, var ekki gerð grein fyrir þessum síðari málslið 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 að öðru leyti en því að sagt var að þar væri kveðið á um að kröfur vegna innstæðna nytu rétthæðar við gjaldþrotaskipti samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki verður kröfu því aðeins lýst og hún viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðila að kröfuréttarsamband hafi stofnast milli hans og þess sem kröfuna gerir. Af þeim sökum verður kröfu sóknaraðila ekki lýst við slit varnaraðila sem kröfu, er háð sé ókomnu skilyrði í skilningi 1. mgr. 157. gr. laga nr. 21/1991, þar sem skilyrðið um að sóknaraðili greiði áðurgreindum innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra veit ekki að kröfuréttarsambandi sem stofnast hefur milli hans og varnaraðila.
Þar sem sóknaraðili hefur ekki greitt andvirði þeirra innstæðna, sem vísað er til í dómkröfum hans, hefur hann samkvæmt framansögðu ekki lögvarða hagsmuni af því að leyst sé úr þeim kröfum. Ber því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi eftir 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Sóknaraðili, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. ágúst 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 16. júlí 2012, með bréfi slitastjórnar Kaupþings banka hf., var þingfest 11. september það ár og tekið til úrskurðar 3. júlí 2013.
Sóknaraðili, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, kt. 510400-3560, Borgartúni 35, Reykjavík, krefst þess að viðurkennt verði að fjárkrafa hans, 1.822.340.055 kr., sem auðkennd er nr. 20100106-1162 í kröfuskrá varnaraðila, njóti stöðu sem forgangskrafa, skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, að fram komnu því skilyrði að sóknaraðili greiði Edge-innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra, hvort sem er í heild eða að hluta, í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu.
Varnaraðili, slitabú Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts.
Málavextir
Sóknaraðili er sjálfseignarstofnun, tryggingarsjóður, sem veitir meðal annars þeim sem eiga innstæðu á reikningi hjá fjármálafyrirtæki lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum aðildarfyrirtækja sjóðsins, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Kaupþing banki hf. var eitt aðildarfyrirtækja sjóðsins, sbr. 3. gr. laganna, áður en hann var tekinn til slitameðferðar.
Bankinn opnaði snemma árs 2008 útibú í Þýskalandi (Kaupthing Niederlassung Deutschland) og rak síma- og netbanka undir nafninu Kaupthing Edge Deutschland. Bankinn hóf, 17. mars 2008, að taka við innlánum á svokallaða Edge-innlánsreikninga, annars vegar bundna innlánsreikninga (e. fixed term deposit, þ. Festgeldkonto) og hins vegar óbundna innlánsreikninga (e. savings account, þ. Tagesgeldkonto). Samkvæmt samningsskilmálum skyldu vextir reiknaðir á tilteknum tíma og lagðir inn á hlutaðeigandi reikning.
Það er alkunna að í september og október 2008 urðu miklar hræringar á fjármálamörkuðum erlendis sem höfðu veruleg áhrif á starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. Helgina 4. og 5. október 2008 varð ljóst að þrír stærstu bankar landsins Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir gætu ekki tekist á við þennan vanda og væru ófærir um að standa við þær skuldbindingar sem á þeim hvíldu. Af þessum sökum meðal annars setti Alþingi, að kvöldi mánudagsins 6. október 2008, lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svonefnd neyðarlög. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að víkja stjórn fyrirtækisins frá.
Með 6. gr. laganna var bætt við 103. gr. laga nr. 161/2002 svohljóðandi málsgrein: Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með 9. gr. laganna var bætt við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 svohljóðandi setningu: Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
Fjármálaeftirlitið ákvað, 9. október 2008, að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka, víkja félagsstjórn frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi hina nýju lagaheimild. Á grundvelli sömu laga tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun, 22. október 2008, um að færa tilteknar eignir og skuldbindingar Kaupþings banka hf. inn í nýjan banka, Nýja Kaupþing banka. Innstæður í útibúum og höfuðstöðvum á Íslandi voru færðar í hann en innstæður í útibúum erlendis urðu eftir í gamla bankanum, sem er nú orðinn varnaraðili þessa máls.
Nokkru síðar, 30. október 2008, gaf Fjármálaeftirlitið út það álit, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, að þegar eftirlitið tók yfir stjórn bankans þremur vikum fyrr, 9. október, hafi hann ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu andvirðis innstæðna hjá honum. Við þessa yfirlýsingu varð virk skylda sóknaraðila til þess að greiða þeim sem áttu innstæðu á reikningum varnaraðila andvirði innstæðu sinnar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Hinn 24. nóvember 2008 fékk bankinn heimild til greiðslustöðvunar. Inntaki hennar var, með gildistöku laga nr. 44/2009, 22. apríl 2009, breytt því að þann dag hófst slitameðferð bankans og 25. maí 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur honum slitastjórn í samræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009. Við töku bankans til slita varð jafnframt virk skylda sóknaraðila gagnvart þeim sem áttu innstæðu á reikningum hjá honum.
Lög nr. 61/2009 tóku gildi, 29. maí 2009, en með þeim fékk varnaraðili sérstaka heimild til að greiða skuldir vegna innlána sem hafði verið veittur forgangsréttur. Í kjölfar þessarar heimildar voru innstæður á framangreindum Edge-innlánsreikningum varnaraðila í Þýskalandi greiddar innlánseigendum. Alls námu greiðslur um það bil 322.500.000 evrum sem voru greiddar um 34.000 innlánseigendum. Áunnir vextir af framangreindum innstæðum voru ekki greiddir þar sem slitastjórnin taldi réttaróvissu ríkja um hvort slíkar vaxtakröfur nytu forgangsréttar við slitameðferð varnaraðila. Í kjölfar dóma Hæstaréttar, 28. október 2011, breytti varnaraðili afstöðu sinni því að í þessum dómum staðfesti rétturinn þá túlkun héraðsdóms að gagnálykta bæri þannig frá 114. gr. laga nr. 21/1991 að vextir sem legðust á kröfu fram að úrskurðardegi nytu stöðu í kröfuröð sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laganna.
Slitastjórn varnaraðila lýsti eftir kröfum í slitabúið, 30. júní 2009, og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember 2009. Með kröfulýsingu, 29. desember 2009, lýsti sóknaraðili forgangskröfu undir 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, samtals að fjárhæð 391.879.915.830 kr. Lýst krafa byggðist á hugsanlegri greiðsluskyldu sóknaraðila á andvirði áfallinna vaxta á Edge-reikninga varnaraðila í Þýskalandi miðað við stöðu þeirra, 30. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið gaf út það álit að bankinn hafi verið ógjaldfær, 9. október sama ár. Miðaði sóknaðili upphaflega fjárhæð lýstrar kröfu við upplýsingar frá varnaraðila um heildarfjölda og heildarfjárhæð þeirra innlána sem bankinn taldi mögulegt að gætu talist innstæður í skilningi laga nr. 98/1999.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi, 7. apríl 2010, meðal annars vegna þess að varnaraðili hefði þá þegar greitt út innstæður vegna Edge-innlánsreikninga. Jafnframt hefði sóknaraðili ekki greitt Edge-innstæðueigendum úr sínum sjóðum og hefði því ekki tekið yfir neinar kröfur á hendur varnaraðila.
Sóknaraðili lækkaði fjárhæð kröfu sinnar tvisvar vegna frekari upplýsinga frá varnaraðila og í þriðja sinn við meðferð málsins fyrir dómi en heildarfjárhæð kröfunnar nemur nú 1.822.340.055 kr.
Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila til kröfunnar á kröfuhafafundi 18. maí 2010 og ítrekaði mótmæli sín á ágreiningsfundi, 27. júní 2012. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila um kröfu sóknaraðila leitaði varnaraðili, 16. júlí 2012, úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Ágreiningur málsaðila varðar þær kröfur sem varnaraðili á enn eftir að greiða vegna svokallaðra Edge-innlánsreikninga. Að sögn varnaraðila nam heildarstaða þeirra, 9. október 2008, 8.674.958,67 evrum. Miðað við gengi, 22. apríl 2009, samsvari sú fjárhæð 1.468.063.259 krónum. Slitastjórn varnaraðila hafi þegar greitt umtalsverðar fjárhæðir af höfuðstól krafna Edge-innstæðueigenda.
Sóknaraðili bendir á að í upphafi hafi slitastjórn varnaraðila hafnað því að vextir af Edge-innlánsreikningum teldust forgangskröfur í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórnin hafi síðar breytt afstöðu sinni að þessu leyti en þó aðeins þannig að þeir sem mótmæltu fyrri afstöðu slitastjórnarinnar teljist eiga forgangskröfur í bú varnaraðila. Slitastjórnin virðist því líta svo á að þeir sem ekki mótmæltu afstöðu slitastjórnarinnar hafi samþykkt að kröfur þeirra njóti stöðu sem almennar kröfur í skilningi 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þá sé jafnframt vitað að farist hafi fyrir hjá hluta Edge-innstæðueigenda að lýsa kröfum sínum sem forgangskröfum. Þær kröfur teljist því almennar kröfur á hendur búinu og nemi um 611.315.266 krónum.
Loks hafi ákveðinn hluti Edge-innstæðueigenda ekki lýst kröfum á hendur búinu vegna innstæðna sinna. Slitastjórn varnaraðila telji þær kröfur fallnar niður gagnvart búi varnaraðila sökum vanlýsingar. Fjárhæð þeirra, varlega áætluð, nemi um 8,75 milljónum evra.
Sóknaraðili telur ekki skipta máli að lögum hver staða kröfu Edge-innstæðueigenda sé gagnvart varnaraðila. Þannig geti sóknaraðili átt sjálfstæða kröfu á hendur varnaraðila án tillits til þess hvort innstæðueigendur lýstu kröfum, lýstu kröfum sínum sem almennum kröfum eða andmæltu ekki afstöðu slitastjórnar.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili vísar fyrst til þess að með áliti Fjármálaeftirlitsins, 30. október 2008, hafi stofnast sú skylda hans að greiða öllum þeim sem innstæðu áttu á reikningum varnaraðila andvirði innstæðu sinnar úr innstæðudeild sjóða sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Greiðsluskylda sóknaraðila hafi stofnast fyrr vegna Landsbanka Íslands hf. (LBI), sbr. álit Fjármálaeftirlitsins, 27. október 2008. Af þeim sökum hafi sóknaraðili talið sér bera að greiða innstæðueigendum þess aðildarfyrirtækis þá fjármuni og aðrar eignir sem voru til staðar í sjóðnum þann dag, sbr. ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011, um greiðslu úr innstæðudeild í kjölfar hruns íslensku bankanna haustið 2008 og síðar. Sóknaraðili telji greiðsluskyldu sína hafi orðið virka síðar vegna annarra aðildarfyrirtækja sóknaraðila, þar á meðal varnaraðila.
Ýmis atvik hafi orðið til þess að greiðsla sóknaraðila hafi tafist gagnvart innstæðueigendum LBI. Þannig megi í fyrsta lagi nefna að viðskiptaráðherra hafi þrisvar sinnum framlengt frest sóknaraðila til að greiða innstæðueigendum, vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum. Í öðru lagi hafi íslensk, hollensk og bresk yfirvöld reynt að ná samningum um svokallaða Icesave-reikninga en þeir samningar hafi ekki verið felldir endanlega fyrr en með þjóðaratkvæðagreiðslu, 9. apríl 2011. Í þriðja lagi hafi innstæðueigendur LBI ekki viljað taka við greiðslum sóknaraðila vegna ágreinings um aðferðir sóknaraðila við útgreiðslu.
Hvort sem innstæðueigendur LBI hafni greiðslum sóknaraðila endanlega eða taki við þeim sé ljóst að fljótlega muni sóknaraðili þurfa að greiða innstæðueigendum varnaraðila, enda hafi varnaraðili verið næsta aðildarfyrirtækið á eftir LBI til þess að teljast ófært um að inna af hendi andvirði innstæðu að mati Fjármálaeftirlitsins. Hafni innstæðueigendur LBI greiðslunum endanlega sé ljóst að sóknaraðili þurfi að greiða innstæðueigendum varnaraðila strax enda tímafrestir þegar útrunnir. Taki innstæðueigendurnir hins vegar við greiðslunum muni sóknaraðili nota það sem innheimtist af kröfum sínum við slitameðferð LBI til þess að greiða innstæðueigendum varnaraðila. Slitastjórn LBI hafi lýst því yfir að forgangskröfur slitabúsins muni greiðast að fullu og myndi því sóknaraðili endurheimta það fé sem hann greiddi og allar eignir sóknaraðila 30. október 2008, sem voru þá um 16 milljarðar króna, verða greiddar innstæðueigendum varnaraðila. Á hvorn veginn sem fari sé þannig útlit fyrir að umtalsverðir fjármunir verði í sjóðum sóknaraðila til að greiða innstæðueigendum varnaraðila í samræmi við þá lagaskyldu sem á sóknaraðila hvíli.
Kröfulýsing sóknaraðila, 29. desember 2009, með síðari breytingum, sé eðli málsins samkvæmt sjálfstæð og óháð kröfulýsingum innstæðueigenda. Þannig verði greiðsluskylda sóknaraðila gagnvart innstæðueigendum ávallt virk áður en kröfulýsingarfrestur aðildarfyrirtækja sé liðinn. Vegna innstæðna hjá varnaraðila hafi greiðsluskylda sóknaraðila orðið virk, 30. október 2008, en kröfulýsingarfrestur varnaraðila ekki runnið út fyrr en rúmu ári síðar, eða 30. desember 2009. Sóknaraðili geti því átt kröfu á hendur varnaraðila jafnvel þótt hluti krafna Edge-innstæðueigenda sé fallinn niður gagnvart varnaraðila vegna vanlýsingar, eða vegna þess að innstæðueigendur hafi lýst kröfum sínum ranglega sem almennum kröfum eða ekki mótmælt afstöðu slitastjórnar um stöðu vaxta af innstæðum.
Þannig yfirtaki sóknaraðili kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki við útgreiðslu og njóti krafa sjóðsins rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.
Sóknaraðili byggir á því að ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 væri með öllu þarflaust væri staðan sú að sjóðurinn ætti ekki sjálfstæða kröfu á hendur þrotabúi aðildarfyrirtækis heldur yrði að láta sér nægja framsal á kröfu hvers einstaks innstæðueiganda.
Samkvæmt lögum nr. 98/1999 hafi sóknaraðili ekki skýra heimild til að hafna greiðsluskyldu sinni á þeim grundvelli að kröfuhafi hafi ekki gætt réttar síns gagnvart þrotabúi aðildarfyrirtækis. Af þessu sé ljóst að sóknaraðili verði að lýsa kröfum vegna allra mögulegra innstæðna gagnvart aðildarfyrirtækjum í slitameðferð til þess að geta komið kröfu sinni að þegar komi til útgreiðslu úr sjóðum sóknaraðila. Gerði sóknaraðili það ekki gæti hann átt á hættu að greiða andvirði innstæðna innstæðueigendum sem ekki lýstu kröfum eða lýstu kröfum sínum ranglega gagnvart varnaraðila, án þess að geta komið kröfu sinni að gagnvart varnaraðila í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.
Krafa sóknaraðila sé skilyrt krafa og sé skilyrðið ókomið, þar sem sóknaraðili hafi ekki enn greitt innstæðueigendum varnaraðila og tekið yfir kröfur þeirra á hendur honum, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Víða í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem gildi til fyllingar ákvæðum um slitameðferð í lögum nr. 161/2002, sé gert ráð fyrir tilvist skilyrtra krafna í gjaldþrotameðferð, sbr. 1. mgr. 126. gr., 156. gr., 157. gr. og 163. gr. laganna. Af þeim sökum sé ekki tilefni til þess að hafna kröfu sóknaraðila heldur beri þvert á móti að viðurkenna hana sem skilyrta kröfu á grundvelli 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, einkum til ákvæða 9. og 10. gr. laganna, reglugerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síðari breytingum, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og almennra reglna eignar-, samninga- og kröfuréttar. Kröfu sína um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.
Málsástæður varnaraðila
Sóknaraðili hefur ekki greitt innlánseigendum lágmarkstryggingu
Varnaraðili leggur áherslu á að sóknaraðili hafi ekki greitt fyrrverandi innlánseigendum hjá varnaraðila þá lágmarksgreiðslu sem kveðið sé á um í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 og hafi þar af leiðandi ekki leyst til sín undirliggjandi kröfur og ekki fengið kröfuréttindi á hendur varnaraðila framseld í skilningi 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Með vísan til þessa telur varnaraðili ljóst að sóknaraðili eigi ekki réttmæta kröfu á hendur varnaraðila við slitameðferðina, samtals að fjárhæð 1.822.340.055 kr. og sé kröfunni því alfarið hafnað.
Um kröfu sóknaraðila
Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila byggi á mögulegri greiðsluskyldu sóknaraðila á áföllnum vöxtum af Edge-innlánsreikningum miðað við stöðu þeirra 30. október 2008 en í grunninn sé krafan þrískipt. Í öllum tilvikum grundvallist hún á sambærilegum fjárkröfum á hendur varnaraðila, það er áföllnum vöxtum Edge-innlánsreikninga í útibúi varnaraðila í Þýskalandi en staða krafnanna við slitameðferð varnaraðila sé ekki sú sama.
Krafa sóknaraðila byggist í fyrsta lagi á kröfum sem viðkomandi kröfuhafi, innstæðueigandi, lýsti við slitameðferðina sem forgangskröfu, skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, og var samþykkt sem slík. Í öðru lagi byggist krafa sóknaraðila á kröfum sem var lýst sem almennum kröfum, skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, eða voru endanlega samþykktar sem slíkar við slitameðferð varnaraðila og að lokum á kröfum sem ekki var lýst við slitameðferðina eða bárust eftir lok kröfulýsingarfrests og séu því ekki hluti af slitameðferð varnaraðila. Röksemdir varnaraðila fyrir því að hafna beri kröfu sóknaraðila taka mið af þessum mun á kröfunum.
Kröfur sem eru samþykktar sem forgangskröfur við slitameðferðina
Verði ekki fallist á að hafna kröfunni er því hafnað að krafan verði viðurkennd sem skilyrt krafa að því marki sem hún grundvallist á kröfum sem slitastjórn hafi þegar samþykkt sem forgangskröfur við slitameðferðina þar sem varnaraðili sé fær um að greiða andvirði þeirra og því muni ekki reyna á greiðsluskilyrði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.
Til stuðnings framangreindu bendir varnaraðili á að samkvæmt fjárhagsupplýsingum hans um stöðuna í lok árs 2012 séu eignir varnaraðila metnar á ríflega 857 milljarða króna, þar af sé handbært fé á innlánsreikningum ríflega 417 milljarðar króna. Heildarfjárhæð útistandandi forgangskrafna við slitameðferðina nemi samtals 123 milljörðum króna, sem sé mun lægri fjárhæð en handbært fé varnaraðila. Með vísan til þessa telji varnaraðili ljóst að við slitameðferðina sé til nægt handbært fé til að mæta samþykktum og umdeildum forgangskröfum og muni sóknaraðili því ekki þurfa að greiða, á grundvelli 9. og 10. gr. laga nr. 98/1999, andvirði krafna sem slitastjórn hafi þegar samþykkt sem forgangskröfur.
Verði krafa sóknaraðila engu að síður tekin til greina mun það að mati varnaraðila hafa þau réttaráhrif að sóknaraðili eignist forgangskröfu við slitameðferðina við hlið krafna sem hafi, endanlega, verið viðurkenndar með þá stöðu í forgangsröð krafna, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Að mati varnaraðila veiti lög nr. 21/1991 ekki heimild fyrir þeirri niðurstöðu, það er að sama krafan sé tvisvar sinnum samþykkt sem forgangskrafa, og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Kröfur sem eru samþykktar sem almennar kröfur við slitameðferðina
Varnaraðili hafnar því enn fremur að sóknaraðili eignist forgangskröfu í slitabú varnaraðila komi til þess að sóknaraðili þurfi að greiða andvirði þeirra krafna sem slitastjórnin hafi samþykkt sem almennar kröfur við slitameðferðina á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.
Að mati varnaraðila leiðir það af orðalagi 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 að sóknaraðili yfirtaki umræddar kröfur eftir greiðslu og njóti þá sömu réttarstöðu og kröfuhafinn njóti við slitameðferðina. Að öðrum kosti muni sóknaraðili njóta betri réttar en sá sem hann leiðir rétt sinn af, þ.e. af kröfuhafa kröfunnar sem sóknaraðili yfirtaki. Með vísan til þessa sé túlkun sóknaraðila á rétthæð kröfunnar, skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, hafnað enda sé hún andstæð ákvæðum laga nr. 21/1991 og meginreglu laganna um jafnræði kröfuhafa.
Varnaraðili bendir enn fremur á að samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 geti kröfuhafar ekki aukið við kröfu, þar með talið við rétthæð kröfu, eftir að kröfulýsingarfresti lýkur, sbr. 118. gr. laganna. Hið sama hljóti að gilda um aðila sem yfirtaki kröfu annars kröfuhafa, þ.e. sóknaraðila. Túlkun sóknaraðila sé því alfarið hafnað enda verði að skýra öll frávik og allar breytingar frá meginreglum laga nr. 21/1991 mjög þröngt og þær verði að byggja á skýrri lagaheimild.
Að mati varnaraðila komi lög nr. 21/1991 beinlínis í veg fyrir að sóknaraðili eignist forgangskröfu við slitameðferðina á þann hátt sem sóknaraðili haldi fram enda séu umræddar kröfur endanlega samþykktar sem almennar kröfur við slitameðferðina, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Að áliti varnaraðila beri að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins enda gildi lög nr. 21/1991 um meðferð og rétthæð kröfunnar og þeirra krafna sem krafan byggir á, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Með vísan til framangreinds verði sóknaraðili að bera hallann af því að þurfa að greiða andvirði krafna á grundvelli laga nr. 98/1999 og yfirtaka kröfurnar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991, þ.e. sem almennar kröfur, enda fráleitt að aðrir kröfuhafar við slitameðferðina þurfi að bera hallann af því að innstæðueigendur hafi ekki lýst kröfum sínum rétt.
Verði ekki fallist á framangreint og krafa sóknaraðila viðurkennd mun það að mati varnaraðila leiða til þess að sóknaraðili eignist forgangskröfu við slitameðferðina á grundvelli krafna sem voru ekki viðurkenndar með þeirri rétthæð við slitameðferðina eða var ekki lýst sem forgangskröfu af viðkomandi kröfuhafa og hafi hugsanlega verið efnd á bindandi hátt í samræmi við nauðasamning varnaraðila, sbr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Að áliti varnaraðila er útilokað að sóknaraðili geti eignast kröfu á þann hátt við slitameðferðina enda andstætt ákvæðum laga nr. 21/1991, sem gildi um rétthæð kröfunnar og þeirra krafna sem hún grundvallist á, og sé kröfunni því hafnað.
Kröfur sem er vanlýst við slitameðferðina
Varnaraðili hafnar því enn fremur að sóknaraðili eignist forgangskröfu við slitameðferðina á grundvelli vanlýstra krafna þótt skilyrði kröfunnar komi fram þar sem sóknaraðili muni ekki geta leyst umræddar kröfur til sín í skilningi 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.
Sóknaraðili geti aðeins eignast kröfu í slitabúið á grundvelli framsals kröfu sem var lýst við slitameðferðina, sbr. orðalag 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Af þessum sökum geti sóknaraðili ekki eignast kröfurétt á hendur varnaraðila á grundvelli vanlýstra krafna enda hafi kröfurnar fallið niður gagnvart varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Að mati varnaraðila verði sóknaraðili að bera hallann af því að viðkomandi kröfuhafar lýstu ekki kröfum sínum við slitameðferð varnaraðila, ekki aðrir kröfuhafar við slitameðferð varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir einnig umfjöllun í greinargerð sóknaraðila þess efnis að sóknaraðili muni hugsanlega eiga um 16 milljarða í sjóði til að greiða innstæðueigendum varnaraðila. Samkvæmt ársreikningi sóknaraðila vegna ársins 2009 séu sjóðir sóknaraðila tómir. Byggja beri á ársreikningi sóknaraðila frekar en einhliða fullyrðingum hans sem ekki séu studdar fullnægjandi gögnum heldur byggðar fyrst og fremst á mati.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili ljóst að ekki sé unnt að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem skilyrta forgangskröfu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Í þessu máli er sú spurning í reynd lögð fyrir dóminn hvaða merkingu eigi að gefa lagaákvæði sem sóknaraðili telur veita honum betri rétt en hann ætti samkvæmt rótgrónum lögum og meginreglum laga.
Sóknaraðili, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, krefst þess að viðurkennt verði að fjárkrafa hans, 1.822.340.055 kr., í slitabú varnaraðila, njóti stöðu sem forgangskrafa, skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, að fram komnu því skilyrði að sóknaraðili greiði Edge-innstæðueigendum andvirði innstæðna þeirra, hvort sem er í heild eða að hluta, í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
Málsaðilar virðast sammála um að ágreiningur þeirra sé tvíþættur. Hann varði það annars vegar hvort krafa sóknaraðila geti náð til þeirra innstæðueigenda sem eigi almenna kröfu í slitabú varnaraðila eða hafi ekki lýst kröfu sinni. Hins vegar varði ágreiningurinn það hvort sóknaraðili geti átt samþykkta kröfu á hendur varnaraðila þegar hann hafi ekki greitt innstæðueigendum varnaraðila.
Fyrra atriðið, það er hvort sóknaraðili geti lýst kröfu vegna innstæðueigenda sem eigi almenna kröfu í slitabú varnaraðila eða hafi ekki lýst kröfu, taki til þrenns konar tilvika. Það taki í fyrsta lagi til krafna sem var lýst sem forgangskröfum en slitastjórn samþykkti sem almennar kröfur, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Eins og áður greinir hafnaði slitastjórn varnaraðila því í upphafi að vextir af Edge-innlánsreikningum teldust forgangskröfur. Síðar breytti hún afstöðu sinni, þó þannig að aðeins þeir sem mótmæltu þeirri afstöðu hennar að vextir væru ekki forgangskröfur, teljast nú eiga forgangskröfu í slitabúið. Slitastjórnin lítur svo á að þeir sem ekki mótmæltu afstöðunni hafi samþykkt að kröfur þeirra njóti stöðu sem almennar kröfur.
Annar hluti eru kröfur þeirra innstæðueigenda sem lýstu kröfu en láðist að lýsa þeim sem forgangskröfum og eiga þeir því samþykktar almennar kröfur í slitabú varnaraðila. Í þriðja lagi eru kröfur þeirra sem ekki lýstu kröfum á hendur búinu vegna innstæðna sinna og varnaraðili telur að séu, sökum vanlýsingar, fallnar niður gagnvart sér.
Sóknaraðili segir ekki ágreining um það að sé kröfu ekki lýst innan kröfulýsingarfrests falli hún niður gagnvart fjármálafyrirtæki. Jafnframt sé ekki ágreiningur um það að kröfuhafi sem ætlist til þess að krafa hans njóti forgangs verði að krefjast þess berum orðum í kröfulýsingu. Lýsi hann kröfu án þess að krefjast forgangs njóti hún stöðu sem almenn krafa.
Ágreiningurinn birtist í því að sóknaraðili telur lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta gera ráð fyrir ákveðnu kerfi sem sé þannig að hann þurfi að greiða innstæðueigendum hvort sem þeir hafi lýst kröfum sínum í slitabú varnaraðila eða ekki og hvort sem þeir hafi lýst þeim sem almennum kröfum eða forgangskröfum. Hvort heldur sem er verði hann að greiða innstæðueigendunum og lög nr. 98/1999 geri ráð fyrir því að sérhver greiðsla sem sóknaraðili inni af hendi vegna þessarar skyldu njóti stöðu sem forgangskrafa við slitameðferð fjármálafyrirtækis.
Hér er ekki til úrlausnar hvaða skyldur hvíla á sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 98/1999 heldur einungis það hvaða rétt þessi lög veita sóknaraðila á hendur varnaraðila. Hér er því ekki til úrlausnar hvort innstæðueigandi hafi tvær leiðir til að fá kröfuna greidda, aðra þá að krefjast hennar beint úr sjóðnum en hina þá að lýsa henni í slitabúið og fá hana greidda úr búinu en nægi eignir þess ekki fái hann hana greidda úr sjóðnum.
Hér er til úrlausnar sú málsástæða sóknaraðila að hvort sem hann greiði innstæðueiganda sem krefjist greiðslu beint úr sjóðnum án þess að hafa lýst henni í slitabúið eða hafi lýst henni, en hún aðeins verið samþykkt sem almenn krafa, skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, hafi greiðsla sjóðsins til innstæðueigandans þau réttaráhrif að sjóðurinn eignist forgangskröfu í slitabúið.
Þessa málsástæðu byggir sóknaraðili á 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Fyrsti málsliður málsgreinarinnar var tekinn í lög með lögum nr. 39/1996, um breytingu á lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði, og haldið óbreyttum í lögum nr. 98/1999 en í honum segir: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.
Með 9. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlaganna) var þessari setningu bætt við 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999: Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
Fallast má á það með sóknaraðila að síðari hluti þessa málsliðar, að krafa sé aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar, eigi við þegar greiðsluskylda sjóðsins byggist á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og fyrri hlutinn miðist við greiðsluskyldu vegna töku bús fjármálafyrirtækis til slita. Hins vegar er ekki unnt að fallast á það með sóknaraðila að lesa beri 3. mgr. 10. gr. þannig að ákvæðið eigi að veita honum betri rétt en sá átti sem hann leiðir rétt sinn frá.
Að mati dómsins getur ekki nokkur krafa, sem á að lokum að greiðast úr þrotabúi eða slitabúi fjármálafyrirtækis, komist fram hjá lögboðnu gangverki gjaldþrotaskiptanna þar sem sérhver krafa er prófuð og metin af slitastjórn og öðrum kröfuhöfum og hugsanlega af dómstólum áður en hún er samþykkt. Skiptir þá ekki máli hvort kröfueigandinn sé neytandi og kunni hugsanlega jafnframt, með stoð í lögum nr. 98/1999, að geta krafið tryggingarsjóðinn um greiðslu kröfu sinnar.
Gjaldþrotaskipti eru sameiginleg fullnustugerð allra kröfuhafa og getur enginn, sem ætlast til þess að fá greiðslu úr búinu, komist fram hjá þessum prófunarferli. Slík undanþága væri ólíðandi fyrir aðra kröfuhafa sem leggja mikla vinnu og fé í að sýna fram á fjárhæð og stöðu kröfu sinnar.
Sóknaraðili skilur 1. málslið 3. mgr. 10. gr. þannig að hann geti eignast kröfu í slitabú fjármálafyrirtækis með því að greiða þeim sem á innstæðu í búinu þrátt fyrir að innstæðueigandinn hafi ekki lýst kröfu í búið. Sóknaraðili telur sig því geta, vegna þessa ákvæðis, eignast kröfu í búið án þess að hún hafi farið í gegnum prófunarferil gjaldþrotaréttar og verið samþykkt af slitastjórn.
Það er almenn regla kröfuréttar um framsal kröfu að sé skuldari, í þessu tilviki varnaraðili, ekki skuldbundinn framseljanda vegna þess að framseld krafa var ekki til í upphafi eða var fallin niður fái framsalshafi, í þessu tilviki sóknaraðili, ekki neinn rétt á hendur skuldaranum. Það er jafnframt almenn regla kröfuréttar að framsalshafi fái þann rétt á hendur skuldaranum sem framseljandinn átti en ekki meiri rétt. Almenna reglan er því sú að við framsal kröfu eykst skylda skuldarans ekki. Frá þessu er undantekning bundin viðskiptabréfum en hún er að auki bundin því skilyrði að framsalshafinn sé grandlaus um svonefnda mótbáru skuldarans. Þannig getur framsalshafi byggt á efni viðskiptabréfs hafi honum verið ókunnugt um að skuldari til dæmis skuldaði mun lægri fjárhæð en tilgreind er í bréfinu.
Sóknaraðili skilur 2. málslið 3. mgr. 10. gr. þannig að enda þótt krafa sem hann greiðir innstæðueiganda hafi einungis verið samþykkt sem almenn krafa í slitabú varnaraðila eignist sóknaraðili við framsalið forgangskröfu í búið, þannig að skyldur skuldarans, varnaraðila, aukist við framsalið.
Þegar lög nr. 98/1999 og lög nr. 125/2008, oft nefnd neyðarlög, voru sett var í íslenskri réttarskipan heildstætt kerfi réttarreglna um gjaldþrotaskipti, sem gildir einnig um slit fjármálafyrirtækja, og byggir á gömlum merg. Einn af hornsteinum þess kerfis er reglan um jafnræði kröfuhafa. Það er líka viðurkennd meginregla gjaldþrotaréttar að sá sem ekki lýsir kröfu sinni eða lýsir henni ekki rétt ber hallann af því en ekki aðrir kröfuhafar. Jafnframt giltu þá og gilda enn í íslenskri réttarskipan meginreglur kröfuréttar um framsal kröfu sem teygja rætur sínar enn dýpra í réttarsöguna.
Sóknaraðili telur að gefa beri ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, sbr. 9. gr. laga nr. 125/2008, merkingu sem stendur ekki aðeins þvert gegn þessum rótgrónu reglum heldur snýr rangsælis því gangverki sem stýrir gjaldþrotaskiptum svo og gangverki kröfuréttarins við framsal krafna.
Sóknaraðili byggir á því að hafi lagaákvæðið ekki þau réttaráhrif sem hann les úr því sé það tilgangslaust.
Í frumvarpi til laga nr. 39/1996 um breytingu á lögum nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði segir um 5. mgr. e-liðar 16. gr., sem varð að 5. mgr. 79. gr. laga nr. 43/1993, og er nú 1. málsliður 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, að ákvæðið þyki eðlilegt og þarfnist ekki skýringa. Hvað sem annars má lesa úr þessu um vilja löggjafans og tilgang ákvæðisins eru að minnsta kosti ekki berum orðum færð rök fyrir þeirri fyrirætlan að ganga fram hjá rótgróinni framkvæmd gjaldþrotaskipta og láta tryggingarsjóðinn eignast kröfu í slitabúið án þess að sú krafa sem sjóðurinn greiddi hafi verið samþykkt af slitastjórn.
Með lögum nr. 125/2008 voru sett brýn ákvæði til þess að bregðast mætti við þeim sérstöku aðstæðum sem þá voru á fjármálamarkaði og jafnframt var breytt fjórum lagabálkum, þar á meðal lögum nr. 98/1999.
Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 125/2008 er tekið fram að meðal helstu breytinga sem verði á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi sé sú tillaga að innstæður séu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Þessi tillaga samræmist þeirri breytingu sem gerð var á 103. gr. laga nr. 161/2002 en við hana var bætt svofelldri málsgrein: Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Enda þótt löggjafinn hafi af fremsta megni ætlað að tryggja að innstæðueigendur fengju innstæður sínar greiddar verður hvorki af almennum né sérstökum athugasemdum með frumvarpinu séð að ætlun löggjafans hafi verið að því kerfi, sem bæta átti 9. gr. laganna, nú 2. málslið 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, inn í, skyldi kollvarpað.
Þykir verða að túlka ákvæði 3. mgr. 10. gr. þannig að það grafi ekki undan því kerfi sem gildir um lýsingu krafna í slitabú og rétthæð þeirra sem og meginreglum kröfuréttar um framsal kröfuréttinda heldur fái merkingu sem getur samrýmst því heildarkerfi laga sem því var skeytt inn í og það þarf að haldast í hendur við.
Fram er komið að lögskýringargögn sýna ekki að það hafi verið ætlun löggjafans, hvorki með lögum nr. 39/1996 né lögum nr. 125/2008, að kollvarpa meginreglum gjaldþrotaréttar og kröfuréttar sem stýra lögskiptum þegar framseld er krafa sem framseljandi telur sig eiga í þrota- eða slitabú. Jafnframt útilokar það sóknaraðila ekki frá því að framfylgja lögfestu markmiði laga nr. 98/1999, sbr. 1. gr. þeirra, þótt þetta ákvæði verði túlkað til samræmis við margnefndar meginreglur enda bar honum, eins og nafn hans gefur til kynna, að eiga fé í sjóði til að mæta fjárhagslegum áföllum aðildarfyrirtækja sinna.
Að teknu tilliti til þess sem lesa má um vilja löggjafans, þess að ekki er vegið að markmiði laga nr. 98/1999, en þó einkum og sér í lagi að teknu tilliti til rótgróinna meginreglna gjaldþrota- og kröfuréttar, er það mat dómsins að lesa beri ákvæðið þannig að greiði sóknaraðili kröfu, sem hafi verið samþykkt sem forgangskrafa í slitabú aðildarfyrirtækis, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, yfirtaki sóknaraðili kröfurétt innstæðueigandans og eignist við það framsal ekki síðri rétt gegn slitabúinu en framseljandinn átti.
Að sögn sóknaraðila telur hann lög nr. 98/1999 ekki veita honum heimild til þess að hafna því að greiða kröfu á þeim grundvelli að kröfuhafi hafi ekki gætt réttar síns gagnvart þrotabúi aðildarfyrirtækis. Eins og áður segir er það ekki til úrlausnar hér hvaða skyldur lög nr. 98/1999 leggja á sóknaraðila. Að mati dómsins er það eins og áður hefur verið lýst í andstöðu við rótgróna réttarskipan að lesa ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 þannig að greiði sóknaraðili innstæðueiganda kröfu, sem ekki var lýst eða var af einhverjum ástæðum endanlega samþykkt sem almenn krafa í búið, hafi það þau réttaráhrif að hann eignist forgangskröfu í slitabú varnaraðila.
Af þessum sökum er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili eigi hvorki sjálfstæðan rétt til þess að lýsa forgangskröfu í slitabú varnaraðila á grundvelli kröfu sem kröfuhafi lét hjá líða að lýsa í búið, og er því fallin niður gagnvart því, né kröfu sem hefur endanlega verið samþykkt sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, og verður kröfu sóknaraðila því hafnað að því leyti sem hún varðar kröfur í þessari stöðu.
Varnaraðili hefur ekki enn greitt kröfur, sem var lýst vegna vaxta á Edge-reikninga, að fjárhæð ríflega 313 milljónir króna, sem hann hefur þó samþykkt sem forgangskröfur. Í lok árs 2012 voru eignir varnaraðila metnar á ríflega 857 milljarða króna, þar af var handbært fé á innlánsreikningum ríflega 417 milljarðar króna. Heildarfjárhæð ógreiddra forgangskrafna við slitameðferðina mun nema samtals 123 milljörðum króna, sem er mun lægri fjárhæð en handbært fé varnaraðila. Ógreiddar forgangskröfur vegna vaxta af Edge-reikningum nema aðeins broti af heildarfjárhæð ógreiddra, samþykktra forgangskrafna. Það þykir því afar ólíklegt að innstæðueigandi, sem hefur fengið vaxtakröfu í bú varnaraðila samþykkta sem forgangskröfu, muni krefja sóknaraðila um greiðslu. Yrði sú hins vegar raunin fengi sóknaraðili, miðað við þær meginreglur um framsal krafna sem hér hefur verið lýst svo og vegna réttaráhrifa 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, kröfuna framselda með þeirri stöðu í forgangsröð krafna sem innstæðueigandinn átti.
Þar sem réttur sóknaraðila í slitabú varnaraðila byggir alfarið á því honum sé framseld krafa, sem hefur verið samþykkt í búið sem forgangskrafa, er því hafnað að hann eigi sjálfstæðan rétt til þess að lýsa kröfu í bú varnaraðila vegna krafna sem samþykktar hafa verið sem forgangkröfur.
Öllum kröfum sóknaraðila er því hafnað.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, þykir rétt að hvor málsaðili um sig greiði sinn kostnað af málinu.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, á hendur varnaraðila, slitabúi Kaupþings hf., er hafnað.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.