Hæstiréttur íslands

Mál nr. 553/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 28. október 2011.

Nr. 553/2011.

Vera Ósk Steinsen

(sjálf)

gegn

David Louis Chatham Pitt

Jóhönnu Snjólaugu Swift

Önnu Elínu Pitt Nielsen

Peter Frank Pitt

(Helgi Jóhannesson hrl.)

dánarbúi Álfheiðar Bjarkar Einarsdóttur

Sigrúnu Margréti Einarsdóttur

Sigrúnu Önnu Elínu Stefánsdóttur

Kristínu Lilju Steinsen

Halldóri Steini Steinsen

Rut Steinsen

Sigrúnu Önnu Bogadóttur

Boga Kristni Bogasyni

Alex Einarssyni

Ólafíu Láru Einarsdóttur

Sævari Hólm Einarssyni

Lindu Rut Einarsdóttur

Vali Boga Einarssyni og

Boga Gísla Ísleifi Einarssyni

(Ragnar H. Hall hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli V á hendur D o.fl. var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til þess að dómkröfur V uppfylltu ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og gætu því ekki orðið grundvöllur úrskurðarorðs í héraði.

                                      Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 29. september 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili þess „að fá að setja fram leiðréttingarskjal á kröfum sínum sem var hafnað í fyrri málsmeðferð.“ Til vara krefst hún þess að málskostnaður í héraði falli niður. Í báðum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir David Louis, Jóhanna Snjólaug, Anna Elín og Peter Frank krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir dánarbú Álfheiðar Bjarkar, Sigrún Margrét, Sigrún Anna Elín, Kristín Lilja, Halldór Steinn, Rut, Sigrún Anna, Bogi Kristinn, Alex, Ólafía Lára, Sævar Hólm, Linda Rut, Valur og Bogi Gísli Ísleifur krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Dómkröfur sóknaraðila eru ruglingslegar og ómarkvissar. Meðal annars fela þær að nokkru leyti í sér kröfur um að viðurkenndar verði málsástæður sem sóknaraðili hefur uppi. Kröfurnar uppfylla ekki skilyrði í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, og geta ekki orðið grundvöllur úrskurðarorðs í héraði. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Vera Ósk Steinsen, greiði varnaraðilum, David Louis Chatham Pitt, Jóhönnu Snjólaugu Swift, Önnu Elínu Pitt Nielsen og Peter Frank Pitt hverju um sig 25.000 krónur í kærumálskostnað og dánarbúi Álfheiðar Bjarkar Einarsdóttur, Sigrúnu Margréti Einarsdóttur, Sigrúnu Önnu Elínu Stefánsdóttur, Kristínu Lilju Steinsen, Halldóri Steini Steinsen, Rut Steinsen, Sigrúnu Önnu Bogadóttur, Boga Kristni Bogasyni, Alex Einarssyni, Ólafíu Láru Einarsdóttur, Sævari Hólm Einarssyni, Lindu Rut Einarsdóttur, Vali Boga Einarssyni og Boga Gísla Ísleifi Einarssyni hverju um sig 15.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2011.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 4. desember 2009, var dánar­bú Svövu Storr, sem andaðist 22. ágúst 2009, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 25. febrúar 2011, var ágrein­ings­efni þessa máls skotið til úrlausnar dómsins. Málið, sem var þingfest 15. apríl sl., var tekið til úrskurðar um kröfu varnaraðila um frávísun, 1. september sl., að loknum munnlegum málflutningi.

 Sóknaraðili, Vera Ósk Steinsen, krefst þess aðallega að farið verði eftir erfða­skrá Svövu Storr frá 1997 í einu og öllu samkvæmt túlkun sóknaraðila og búskipti gerð endanleg með skiptingu innbús á Laugavegi til stjúpbarnabarna. Það er að stjúp­barna­börn fá innbú og fasteignir samkvæmt sameiginlegri erfðaskrá Storr-hjónanna frá 1976, afkomendur systkina Svövu skipti verðbréfum og banka­inni­stæðum, sem séu í hennar nafni, samkvæmt erfðaskrá 1997, lið 4 og 7, en munir og eigur sem ánefndir séu sér­stökum einstaklingum fari til þeirra.

 Til vara krefst sóknaraðili þess að verðbréfum og bankainnistæðum, á nafni Svövu Storr, verði haldið utan endanlegra búskipta á þeim forsendum að Svava, stjúp­barn og stjúpbarnabörn hafi öll fengið erlenda fjármuni að gjöf í kringum andlát Ludvigs Storr, gjöf eða arf, greitt af þeim gjafaskatt og ekki sanngjarnt að skipta aftur gjafafé Svövu, sem hluta hjúskapareignar, þegar gjafafé barns og barnabarna Ludvigs sé sleppt í þessum endanlegu búskiptum. Að Svava megi láta skyldmenni sín fá fé sitt (verðbréf og bankainnistæður) með erfðaskrá 1997 á sömu forsendum og hún fékk sitt 1977, sem séreign vegna þess að hægt sé að sanna, með framvísun skattskýrslna frá 1978, að þetta gjafafé sé meginuppistaða peningalegrar eignar hennar í dag.

 Til þrautavara krefst hún þess að búskiptin séu reiknuð út á þávirði, eigi að styðjast við þá túlkun varnaraðila að Svava megi ekki arfleiða meira en 1/3 virði búshluta síns (50% alls bús) samkvæmt sameiginlegri erfðaskrá hjónanna frá 1976.

 Sóknaraðili krefst þess að kostnaður af þessu búskipta- og dómsmáli greiðist af þeim fjármunum sem eru til skipta, nema dómari telji að kostnaður skuli dreifast á annan hátt á málsaðila.

 Varnaraðilar, David L. C. Pitt, Snjólaug Swift, Elín Pitt Nielsen og Peter F. Pitt, krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

 Til vara krefjast þeir þess að við skipti á dánarbúi Svövu Storr, kt. 210217-4019, verði farið eftir frumvarpi að úthlutunargerð sem lagt var fram á skiptafundi í dánarbúinu, 17. febrúar 2011.

 Þá krefjast þau málskostnaðar úr hendi sóknaraðila bæði vegna aðal- og varakröfu.

 Varnaraðilar, dánarbú Álfheiðar Einars­dóttur, Sigrún Einarsdóttir, Sigrún Stefáns­dóttir, Kristín Lilja Steinsen, Halldór Steinn Steinsen, Rut Steinsen, Sigrún Anna Bogadóttir, Bogi Kristinn Bogason, Alex Einars­son, Ólavía Einarsdóttir, Sævar Einars­son, Linda Einarsdóttir, Valur Einarsson og Bogi Gísli Ísleifur Einarsson, krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

 Til vara krefjast þau þess að kröfum sóknaraðila verði alfarið hafnað.

 Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar úr hendi sóknaraðila sér að skaðlausu.

Málavextir

 Ludvig Storr, fæddur 21. október 1897, var tvíkvæntur. Fyrst kvæntist hann Elínu Sigurðar­dóttur, en hún lést 22. september 1944. Einkabarn þeirra var Anna Dúfa Storr, fædd 3. ágúst 1923 en látin 27. ágúst 1989. Börn Önnu Dúfu eru varnaraðilarnir Anna Elín Pitt Nielsen, David L.C. Pitt, Jóhanna Snjólaug Swift, og Peter Frank Pitt.

Í desember 1948 kvæntist Ludvig Svövu Einarsdóttur (Svövu Storr). Ludvig lést 19. júlí 1978 en Svava 22. ágúst 2009. Þeim varð ekki barna auðið. Hinn 20. ágúst 1976 gerðu þau með sér gagn­kvæma og sameiginlega erfðaskrá. Í 3. gr. hennar segir: „Það okkar, sem lengur lifir, getur eftir skipti á búi hins ráðstafað einum þriðja hlut (1/3) bús síns með erfðaskrá, utan þeirra eigna sem getur um í 2. grein hér að framan. Að öðru leyti skal, eftir lát hins langlífara, allur arfur eftir okkur bæði renna til Önnu Dúfu Pitt eða niðja hennar, ef hún lifir ekki, og verða séreign þeirra.“

 Í 2. gr. erfðaskrárinnar segir enn fremur: „Lifi Svava eiginmann sinn Ludvig er það sam­eigin­leg ósk þeirra, að hún fái að sitja í óskiptu búi, til andláts síns eða svo lengi sem hún óskar, hvað snertir heimili þeirra að Laugavegi 15, Reykjavík, bæði hvað varðar íbúð­ina svo og alla þá innanstokks- og lausafjármuni, sem þar eru og tilheyra heimil­inu. Um aðrar eignir, sem tilheyra búshluta Ludvigs skal fara eftir lögerfða­reglum.“

 Í 5. gr. erfðaskrárinnar stendur: „Ef Svava lifir lengur en Ludvig skal henni óheimilt að ráðstafa meiru en einum þriðja (1/3) hluta bús síns með erfðaskrá eða gjafagerningum.“

 Samkvæmt 6. gr. gátu hvorki Ludvig né Svava breytt erfða­skránni nema með sam­þykki hins. Við lát Ludvigs höfðu ekki verið gerðar neinar breytingar á erfða­skránni.

 Ludvig Storr andaðist 19. júlí 1978 eins og áður segir. Meðal gagna málsins er óundirrituð skiptagerð, dags. 7. desember 1979, vegna dánar- og félagsbús Ludvigs en með leiðréttri erfðafjárskýrslu, dags. 10. júlí 1980, var hluta fasteignar­innar að Laugavegi 15, Reykjavík, ráðstafað til Framfara- og menningarsjóðs Ludvigs Storr en 1/3 hlutar lóðar að Hverfisgötu 70, hlutabréfum í Klapparstíg 16 hf., hluta­bréfum í Verslunarbanka Íslands hf. og frímerkjasafni ráðstafað til Önnu Dúfu Storr.

 Með bréfi skiptaráðandans í Reykjavík, dags. 23. júlí 1980, var Svövu Storr veitt heimild til setu í óskiptu búi. Svava gerði fimm erfðaskrár, svo vitað sé, eftir lát eign­manns síns. Sú síðasta er dagsett 7. febrúar 1997 en með þeirri erfðaskrá eru hinar fyrri felldar úr gildi.

 Með síðustu erfðaskránni var eignarhlut Svövu í þar greindum fasteignum ráðstafað til Elínar Pitt Nielsen. Samkvæmt 3. gr. erfðaskrárinnar skal innbú skiptast milli afkomenda Önnu Dúfu Storr. Samkvæmt 4. gr. erfðaskrárinnar skyldi annað lausafé, þar með talið verðbréf og bankainnstæður, að frátalinni bifreið, skiptast jafnt milli Álfheiðar Einarsdóttur, Sigrúnar Einarsdóttur, Sigrúnar Stefáns­dóttur, Halldórs Steinsen og Boga Einarssonar. Þá kemur fram í 7. gr. erfðaskrárinnar að sé einhver framan­greindra erfingja fallinn frá við andlát Svövu skuli hluti hins látna erfingja ganga til niðja hans.

 Aðrir varnaraðilar þessa máls en afkomendur Önnu Dúfu Storr, eru erfingjar Svövu Einarsdóttur Storr samkvæmt síðustu erfðaskrá hennar.

 Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 4. desember 2009, var bú Svövu Storr tekið til opinberra skipta, að kröfu Sýslumannsins í Reykjavík og búinu skipaður skipta­stjóri. Á skiptafundi, 17. febrúar 2011, lagði skiptastjóri fram frumvarp að úthlutun úr búinu samkvæmt 77. gr. laga nr. 20/1991. Í frumvarpinu eru tilgreindar eignir búsins og hvernig beri að skipta þeim milli erfingja miðað við þá erfðagerninga sem fyrir liggja og erfðalög. Átján, af nítján erfingjum búsins, samþykktu frumvarpið á fund­inum. Einungis sóknaraðili þessa máls, Vera Ósk Steinsen, andmælti frum­varp­inu og gerði þá kröfu að til úthlutunar samkvæmt lið 4.2 í frumvarpinu kæmu 203.562.636 krónur í stað 40.450.303 króna sem gengju til erfingjanna, Álfheiðar Einars­dóttur, Sigrúnar Einars­dóttur, Sigrúnar Stefánsdóttur, Halldórs Steinsen, Boga Einarssonar eða afkom­enda þeirra og úthlutun samkvæmt lið 4.3. lækkaði til samræmis við þessa breytingu. Í bréfi sínu til dómsins kvaðst skiptastjóri hafa reynt að jafna þennan ágreining. Þar sem það hafi reynst árangurslaust vísi hann ágreiningnum til héraðsdóms í sam­ræmi við ákvæði 3. mgr. 79. gr. og 122. gr. laga nr. 21/1991 um skipti á dánar­búum o.fl.

Málsástæður og lagarök varnaraðilanna Önnu Elínar, Davids, Jóhönnu Snjó­laugar og Peters Franks, fyrir kröfu sinni um frávísun

 Varnaraðilar byggja á því að samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum skuli, í máli sem þessu, í kröfugerð sóknaraðila koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggist styðja málstað sinn við. Við mat á því hvort sóknaraðili hafi sett kröfur sínar í málinu fram með nægilega skýrum og greinar­góðum hætti verði að líta til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda sé vísað til þess í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 að við meðferð frávísunar­krafna skuli farið eftir lögum um meðferð einkamála í héraði.

 Að mati varnaraðila fullnægi málatilbúnaður sóknaraðila í engu þeim lág­marks­kröfum sem verði að gera til mála af þessu tagi. Skiptastjóri búsins hafi útbúið frum­varp að úthlutunargerð í samræmi við 77. gr. laga nr. 20/1991. Þar komi fram hvernig hann telji rétt að skipta eignum búsins með hliðsjón af erfða­lögum og þeim erfða­gern­ingum sem fyrir liggi. Aðeins sóknaraðili hafi mótmælt því frumvarpi á skipta­fundi. Ágreiningur þessa máls lúti einungis að frumvarpinu sjálfu en hvorki þeim eignum sem í dánarbúinu séu og til skipta komi, né fjárhags hinnar látnu frá fyrri tíð.

 Varnaraðilar telja málatilbúnað sóknaraðila með öllu óskiljanlegan. Hann til­greini ekki neinar fjárhæðir í kröfugerð sinni, það er hvaða breytingar sóknaraðili telji að eigi að gera á frumvarpi skiptastjóra að úthlutunargerð úr búinu. Rök­stuðn­ingur fyrir kröfunum sé einnig óskiljanlegur. Ekki sé útskýrt, með lögfræðilegum rökum, hvers vegna líta eigi fram hjá sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá þeirra Ludvigs og Svövu frá 20. ágúst 1976 við skipti á dánarbúi Svövu nú, auk ýmissa fleiri atriða sem á vanti til að greinar­gerðin teljist fullnægja lágmarkskröfum um skýrleika skv. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í greinar­gerð­inni séu samhengislausar hugleiðingar án nokkurrar tengingar við þær laga­reglur sem fara beri eftir við skipti á dánarbúinu. Af þessum sökum hljóti að verða að vísa málinu frá dómi.

Málsástæður og lagarök annarra varnaraðila fyrir kröfu sinni um frávísun

 Aðrir varnaraðilar en afkomendur Ludvigs byggja einnig á því að samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 skuli í greinargerð sóknaraðila máls sem þessa koma fram „til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við“. Hér standi svo á að ágrein­ings­efnið varði frumvarp til úthlutunar úr dánarbúi og sé ágreiningnum vísað til héraðs­dóms samkvæmt fyrirmælum 79. gr. laganna. Af þeim sökum hljóti kröfugerð í slíku máli að snúast um það hvort breyting eða breytingar skuli gerðar á frumvarpinu eða ekki. Ekki hafi verið neinn ágreiningur um það við skiptameðferð búsins, að skilyrði til að leggja fram slíkt frumvarp væru fyrir hendi.

 Í 3. mgr. 130. gr. nefndra laga segi að með kröfu um frávísun máls sem þessa skuli farið eftir almennum reglum um meðferð einka­mála. Af því leiði að kröfugerð sóknaraðila verði að uppfylla almenn skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfugerð sóknaraðila þeki heila blaðsíðu. Þrátt fyrir það uppfylli hún ekki þessi lagaskilyrði.

 Til dæmis megi nefna að ekki sé tilgreint að hverjum kröfurnar beinast, sbr. a-lið 1. mgr. 80. gr. Að auki sé ekki gerð bein krafa um breytingu eða breytingar á frum­varpi til úthlutunar úr dánarbúinu, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. Málsástæður séu ekki settar fram með þeim hætti sem áskilinn sé í e-lið 1. mgr. 80. gr. Samkvæmt lagaákvæðinu skuli slík lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé. Lýsing málsástæðna í greinargerð sóknaraðila sé að mestu leyti samhengislaus og ekki verði ráðið af greinargerðinni hvert samhengi þeirra við dómkröfurnar geti verið. Þar fyrir utan skorti á að gerð sé grein fyrir þeim lagaákvæðum eða réttarreglum sem kröfurnar séu reistar á, sbr. f-lið 1. mgr. 80. gr. Vissulega séu í greinargerðinni tilgreind ýmis ákvæði erfðalaga, en samhengi þeirra tilvitnana við kröfugerð sóknar­aðila sé ekki skýrt með viðhlítandi hætti.

Niðurstaða

 Í þessu máli þarf einungis að taka afstöðu til þeirrar kröfu varnaraðila að málinu verði vísað frá dómi.

 Varnaraðilar benda á sem sjálfstæða ástæðu til frávísunar að sóknaraðili tilgreini ekki á hendur hverjum hún gerir kröfur. Í bréfi skiptastjóra, þar sem hann vísar ágreiningnum til héraðsdóms, kemur fram að hann telji dánarbúið ekki þurfa að eiga aðild að málinu. Við þingfestingu málsins ákvað dómari aðildina þannig að Vera Ósk yrði sóknaraðili og aðrir erfingjar varnaraðilar. Það var því ljóst frá þingfestingu málsins hvernig aðild þess væri og þykir það ekki geta valdið frávísun að sóknaraðili tilgreindi ekki í greinargerð sinni til sóknar gegn hverjum hún beindi kröfum sínum.

 Krafa sóknaraðila er þríþætt. Hún krefst þess aðallega að við búskiptin verði farið í einu og öllu eftir erfðaskrá Svövu Storr frá 1997 eins og sóknaraðili túlkar erfða­skrána og búskipti gerð endanleg með skiptingu innbús á Laugavegi til stjúp­barna­barna. Það er að stjúp­barna­börn (börn Önnu Dúfu Storr) fái innbú og fasteignir samkvæmt sameiginlegri erfðaskrá Storr-hjónanna frá 1976, afkomendur systkina Svövu skipti verðbréfum og banka­inni­stæðum sem séu í hennar nafni samkvæmt erfða­skrá 1997, lið 4 og 7, en munir og eigur sem ánefndir séu sérstökum einstakl­ingum fari til þeirra.

 Til vara krefst sóknaraðili þess að verðbréfum og bankainnistæðum, á nafni Svövu Storr, verði haldið utan endanlegra búskipta á þeim forsendum að Svava, stjúp­barn og stjúpbarnabörn hafi öll fengið erlenda fjármuni að gjöf í kringum andlát Ludvigs Storr, gjöf eða arf, greitt af þeim gjafaskatt og ekki sanngjarnt að skipta aftur gjafafé Svövu, sem hluta hjúskapareignar, þegar gjafafé barns og barnabarna Ludvigs sé sleppt í þessum endanlegu búskiptum. Að Svava megi láta skyldmenni sín fá fé sitt (verðbréf og bankainnistæður) með erfðaskrá 1997 á sömu forsendum og hún fékk sitt 1977, sem séreign vegna þess að hægt sé að sanna, með framvísun skattskýrslna frá 1978, að þetta gjafafé sé meginuppistaða peningalegrar eignar hennar í dag.

 Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að búskiptin séu reiknuð út á „þávirði“, eigi að styðjast við þá túlkun varnaraðila að Svava megi ekki arfleiða meira en 1/3 virði búshluta síns (50% alls bús) skv. sameiginlegri erfðaskrá þeirra hjóna frá 1976.

 Skiptastjóri vísaði ágreiningnum til héraðsdóms í samræmi við ákvæði 3. mgr. 79. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í 1. mgr. 79. gr. segir að komi fram mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunar á skiptafundi samkvæmt 78. gr. og þau varði önnur atriði frumvarpsins en þau sem hlutaðeigandi erfingi hafi þegar glatað rétti til að mótmæla, samkvæmt 2. mgr. 71. gr., skuli skiptastjóri krefja þann svara sem hafi mót­mælin uppi um hverjar breytingar hann telji eiga að gera á frum­varpinu.

 Varnaraðilar byggja kröfu sína um frávísun í öðru lagi á því að sóknaraðili geri ekki beina kröfu um breytingar á frumvarpi til úthlutunar úr dánarbúinu. Að mati dómsins verður orðalagið „breytingar ... á frumvarpinu“ í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánar­búum ekki túlkað þannig að sóknaraðili verði undan­tekn­inga­laust að hafa reiknað út tölulega niðurstöðu þeirra breytinga sem hann telur að verði að gera á frumvarpi til úthlutunar. Nægjanlegt sé að nokkuð skýrt megi lesa úr kröfugerð erfingjans hvaða breytinga hann krefst á frumvarpinu. Málinu verður því ekki vísað frá á þeim grunni að sóknaraðili hafi ekki reiknað út í smá­atriðum hvaða breytingar verði á úthlutun til hvers erfingja, yrði fallist á kröfur hennar, enda sést skýrt af aðalkröfu sóknaraðila hvernig hún telur að skipta eigi búinu og þar með hvaða breytinga hún krefst á frum­varp­inu.

 Í bréfi skiptastjóra er ágreiningurinn afmarkaður þannig að sóknaraðili, Vera Ósk Steinsen, hafi krafist þess að frumvarpinu yrði breytt á þann veg að til úthlutunar samkvæmt lið 4.2 í frum­varp­inu kæmu 203.562.636 krónur í peningum í stað 40.450.303 króna og úthlutun samkvæmt lið 4.3. lækkaði til samræmis við þessa breyt­ingu. Skiptastjóri skýrir þessa tölulegu breytingu ekki frekar.

 Af frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar úr búinu sést að innistæða á fjár­vörslu­reikn­ingi þess nemur, þegar frumvarpið er samið, 203.562.636 kr. Á þennan fjár­vörslu­reikning hafa verið lagðar allar innistæður af bankareikningum í eigu búsins svo og þau verðbréf sem var mögulegt að innleysa. Af frum­varpinu sést einnig að þau verð­mæti, sem skiptastjóri úthlutar þeim erfingjum sem Svava tilgreinir í 4. gr. erfða­skrár sinnar og afkomendum þeirra, nema 40.450.303 kr.

 Aðal­krafa sóknaraðila varðar það að skipt verði milli erfingja Svövu samkvæmt 4. gr. erfðaskrár hennar og afkomenda þeirra þeim verð­bréfum og banka­inni­stæðum sem séu í hennar nafni. Það eru þau verðmæti sem nema 203.562.636 krónum i frumvarpinu. Því þykir aðalkrafa sóknar­aðila vera innan þeirra marka, sem skipta­stjóri setti málinu í bréfi sínu, 22. febrúar 2011, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991.

 Sóknaraðili krefst þess til vara að verðbréfum og bankainnistæðum, á nafni Svövu Storr, verði haldið utan endanlegra búskipta. Þegar litið er til þess að til skipta á dánarbúi hlýtur að koma öll skír eign þess þykir ekki fært að krefjast þeirra málsúrslita að hluta af eign búsins verði haldið utan skiptanna. Af þeim sökum verður að vísa vara­kröfu sóknaraðila frá dómi.

 Að mati dómsins verður dánarbúi ekki skipt samkvæmt því verðmæti sem eignir þess höfðu einhvern tíma í fortíðinni. Þykir því ekki heldur fært að krefjast slíkra málsúrslita vegna ágreinings um skipti á dánarbúi. Af þeim sökum verður þrauta­varakröfunni einnig vísað frá dómi.

 Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga um skipti á dánarbúum gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt XVII. kafla laganna leiði ekki annað af ákvæðum laganna. Því verður allur málatil­bún­aður sóknar­aðila í ágreiningsmálum, sem eru rekin samkvæmt þeim kafla, að upp­fylla skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig verður röksemdafærsla sóknar­aðila að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði. Greina má, úr öllu því sem sóknar­aðila liggur á hjarta, eina og eina máls­ástæðu, það er að segja staðhæfingu um atvik sem sókn­ar­aðili telur hafa þau réttaráhrif að krafa hennar verði tekin til greina. Megnið af röksemda­færslu hennar er þó verulega samhengislaust og er alls ekki sett þannig fram að sjá megi hvaða lagarök og máls­ástæður eigi að leiða til þess að fallist verði á hverja kröfu hennar um sig. Því verður að fallast á það með varnar­aðilum að tilgreining sóknaraðila á málsástæðum og lagarökum fullnægi ekki lág­marks­kröfum 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika, svo og að tilgreiningin sé svo ruglingsleg að varnaraðilum veitist erfitt að grípa til varna. Af þessum sökum verður að vísa frá dómi öllum kröfum sóknar­aðila í þessu máli.

 Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sókn­araðili dæmdur til að greiða varnaraðilum málskostnað eins og nánar greinir í dóms­orði. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

 Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Öllum kröfum sóknaraðila, Veru Óskar Steinsen, er vísað frá dómi.

 Sóknaraðili greiði varnaraðilunum David Pitt, Snjólaugu Swift, Elínu Pitt Nielsen, Peter F. Pitt, dánarbúi Álfheiðar Einars­dóttur, Sigrúnu Einarsdóttir, Sigrúnu Stefánsdóttur, Kristínu Lilju Steinsen, Halldóri Steini Steinsen, Rut Steinsen, Sigrúnu Önnu Bogadóttir, Boga Kristni Bogasyni, Alex Einars­syni, Ólavíu Einarsdóttur, Sævari Einarssyni, Lindu Einarsdóttur, Val Einarssyni og Boga Gísla Ísleifi Einars­syni, hverjum um sig 20.000 krónur í málskostnað, eða samtals 360.000 krónur.