Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Þriðjudaginn 16

 

Þriðjudaginn 16. maí 2006.

Nr. 236/2006.

101 Fasteignafélag ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Vatni og landi ehf. og

(enginn)

Landsbanka Íslands hf.

(Reinhold Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Ekki var talið að V og L hefðu sýnt fram á að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt þannig að 101 F yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar gagnvart þeim í máli sem 101 F hafði höfðað á hendur V, L og fleirum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2006, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar til handa varnaraðilum í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn þeim og fleirum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu um málskostnaðartryggingu verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Vatn og Land ehf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Ekki verður fallist á með héraðsdómara að röksemdir þær og sönnunargögn, sem varnaraðilar færðu fram í héraði og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði, leiði að því fullnægjandi líkur að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Verða enda engar ályktanir dregnar um greiðslugetu sóknaraðila af samkomulagi, sem hann gerði við aðra stefndu í málinu um að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Hefur því ekki verið sýnt fram á að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt þannig að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu. Verður kröfu varnaraðila því hafnað.

Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfum varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. og Vatns og lands ehf., um að sóknaraðila, 101 Fasteignafélagi ehf., verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilum og fleirum.

Varnaraðilar greiði í sameiningu sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2006.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. apríl sl.  Upphaflega  höfðaði stefnandi málsins, 101 Fasteignafélag ehf. mál á hendur Stafna á milli ehf., Frakkastíg ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. með stefnu birtri 11. janúar 2006.  Í málinu er gerð krafa um viðurkenningu Héraðsdóms Reykjavíkur á því að í gildi sé bindandi kaupsamningur milli stefnanda og stefndu á nánar tilgreindum fasteignum í Reykjavík gegn greiðslu að fjárhæð 1.375.000.000 kr. Við þingfestingu þess máls gerðu stefndu kröfu um málskostnaðartryggingu með vísan til b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991.  Í fyrirtöku málsins 25. janúar sl. varð samkomulag með aðilum, að stefnandi legði fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 5.000.000 kr. eigi síðar en 27. janúar sl. með bankabók sem afhent yrði dóminum.  Það gekk eftir.

Við fyrirtöku málsins 21. apríl sl. var lögð fram  sakaukastefna á hendur Vatni og landi ehf. og Landsbanka Íslands hf. og gerðu þá báðir sakaukastefndu kröfu um málskostnaðartryggingu og vísuðu til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Einnig vísuðuð þeir til þess að aðeins 500.000 kr. væru í stofnhlutafé hjá stefnanda, en hagsmunir málsins væru verulegir. Stefnandi mótmælti kröfunni um málskostnaðartryggingu og benti á að þegar væri fyrirliggjandi mjög há málskostnaðartrygging eða að fjárhæð 5.000.000 kr. sem stefnandi taldi dekka málskostnað, ef til kæmi.  Krafðist stefnandi úrskurðar um kröfu sakaukastefndu.

Með vísan til þess að þegar hefur verið sett málskostnaðartrygging vegna stefndu Stafna á milli ehf., Frakkastíg ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. álítur dómurinn að stefnanda beri einnig að setja málskostnaðartryggingu er sakaukastefndu krefjast.  Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að sú trygging sem þegar hefur verið sett eigi að leiða til höfnunar kröfunnar, þar sem sú trygging er byggð á samkomulagi málsaðila sem sakaukastefndu eiga ekki aðild að. Í ljósi þessa og einnig þess að fullnægt er skilyrðum b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991 ber, stefnanda 101 Fasteignafélagi ehf., að setja málskostnaðartryggingu svo sem í úrskurðarorði greinir.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ú r s k u r ð a r o r ð:

Stefnandi, 101 Fasteignafélag ehf. skal eigi síðar en þriðjudaginn 2. maí nk., setja tryggingu í formi peningagreiðslu, bankabókar eða bankaábyrgðar að fjárhæð 2.000.000 króna fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilunum, Vatni og landi ehf. og Landsbanka Íslands hf.