Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Föstudaginn 8. júní 2012. |
|
Nr. 377/2012.
|
Íslandsbanki hf. og (Eva B. Helgadóttir hrl.) þrotabú Slitlagsviðgerða ehf. gegn Aflvélum ehf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Með úrskurði héraðsdóms var mál Í og þb. S ehf. á hendur A ehf. fellt niður og Í og þb. S ehf. gert að greiða A ehf. 1.045.500 krónur í málskostnað. Í málinu kröfðust Í og þb. S ehf. þess að þeim yrði gert að greiða lægri fjárhæð í málskostnað. Að virtum málarekstri aðila í þessu máli, svo og í fyrra máli milli sömu aðila, var málskostnaður í héraði ákveðinn 750.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómarinn Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson, settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. maí 2012, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila 1.045.500 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að málskostnaður í héraði verði lækkaður. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í hinum kærða úrskurði er lýst rekstri þessa máls og fyrra máls milli sóknaraðilans þrotabús Slitlagsviðgerðar ehf. og varnaraðila um sama sakarefni, en því máli var vísað frá dómi. Að öllu virtu verður málskostnaður í héraði ákveðinn 750.000 krónur.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Sóknaraðilar, Íslandsbanki hf. og þrotabú Slitlagsviðgerða ehf., greiði óskipt varnaraðila, Aflvélum ehf., 750.000 krónur í málskostnað í héraði.
Varnaraðili greiði sóknaraðilum hvorum um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. maí 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 2. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness, með birtingu stefnu þann 25. júní 2011, af Íslandsbanka fjármögnun hf., kt. 490503-3230, Kirkjusandi, Reykjavík og þb. Slitlagsviðgerða ehf., kt. 500308-0600, Bröttugötu 4a, Borgarnesi á hendur Aflvélum ehf., kt. 480104-2340. Vesturhrauni 3, Garðabæ. Undir rekstri málsins leiðrétti stefnandi Íslandsbanki fjármögnun kennitölu stefnanda þannig að hún væri 491008-0160.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Að stefndi greiði Íslandsbanka fjármögnun hf. kr. 29.178.093 með dráttarvöxtum samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. október 2009 til greiðsludags gegn afhendingu á malbiksviðgerðarvél sem stefndi afhenti Slitlagsviðgerðum ehf. í ágúst 2008 af gerðinni Savalco SR 1501.
Að stefndi greiði þrotabúi Slitlagsviðgerða ehf. kr. 19.920.347 með vöxtum í samræmi við 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 19.000.000 frá 28. ágúst 2008 til 24. september 2008 en af kr. 19.920.347 frá þeim degi til 8. október 2009. Krafist er dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalmeðferð máls þessa.
Stefndi krefst þess aðallega að öllum kröfum stefnenda verði vísað frá dómi, til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og til þrautavara að krafa stefnda að fjárhæð kr. 2.271.349,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af allri fjárhæðinni frá 26. september 2008 til greiðsludags komi til skuldajafnaðar við þá kröfu sem stefnanda, Íslandsbanka hf. kann að verða dæmd í máli þessu. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum að skaðlausu skv. málskostnaðarreikningi lögmanns stefnda.
Mál þetta var þingfest þann 29. júní 2011 þar sem krafist var málskostnaðartryggingar gagnvart Þb. Slitlagsviðgerða ehf. Mál þetta var tekið fyrir á reglulegu dómþingi alls átta sinnum. Þá var þinghald til málflutnings um kröfu stefnda um að stefnanda yrði gert að setja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 800.000 krónur. Fyrirhugað var að taka fyrir kröfu um málskostnaðartryggingu 18. ágúst 2011 en var frestað að beiðni lögmanns stefnda til 29. ágúst 2011. Var krafa stefnda samþykkt með úrskurði 7. september 2011. Málinu var frestað til 5. október 2011 þar til lægi fyrir að stefnandi þb.Slitlagsviðgerða ehf. hefði sent til dómsins tryggingu í samræmi við úrskurð frá 7. september 2011. Málinu var frestað að beiðni stefnda alls fjórum sinnum til framlagningu greinargerðar eða þann 2., 16., 23. og 30. nóvember 2011 en þann dag lagði stefndi fram greinargerð sína. Fór málið í úthlutun til dómstjóra þann sama dag. Boðað var til fyrirtöku 11. janúar sl. og var málinu frestað til 1. febrúar til frekari gagnaöflunar stefnenda og eftir atvikum til að leita sátta. Þeirri fyrirtöku var frestað utan réttar vegna sáttatilrauna og var málið síðan tekið fyrir þann 15. febrúar sl. Málinu var frestað til munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefnda til miðvikudagsins 2. maí 2012. Í því þinghaldi lýstu stefnendur því yfir að málið væri fellt niður. Var ágreiningur um þóknun aðila. Mál þetta varðaði kaup á slitlagsviðgerðartæki í febrúar 2008. Kvað lögmaður stefnenda málsókn þessa nauðsynleg þar sem að hið afhenda slitlagsviðgerðartæki væri gallað. Stefnendur kváðust hafa haft fundi með stefnda fyrir málshöfðun þessa og hefði stefndi ekki minnst á sjónarmið og málsástæður stefnda á þeim fundi, sem síðan sé orsök þess að mál þetta sé fellt niður.
Stefndi mótmælti því að slitlagsviðgerðartækið hafi skort þá kosti sem það átti að vera búið við afhendingu. Þá gerði stefndi athugasemdir við málsatvikalýsingu stefnenda. Krafðist stefndi að málinu yrði vísað frá dómi sökum vanreifunar og til vara sýknu af dómkröfum stefnenda. Lögmaður stefnda hefur lagt fram í málinu málskostnaðarreikning ásamt vinnuskýrslu og yfirliti yfir útlagðan kostnað. Þar kemur fram að krafist er þóknunar fyrir 57,25 vinnustund á tímabilinu 25. júní 2011 til 11. apríl 2012. Af 53,5 vinnustund er krafist 18.000 krónur fyrir hverja klukkustund og af 3,75 vinnustund er krafist 22.000 fyrir hverja klukkustund, eða samtals 1.045.500 krónur. Útlagður kostnaður nemur 20.000 krónum vegna móta á reglulegu þingi.
Stefnendur mótmæltu fjárhæð málskostnaðar vegna málsins. Hafi máli þessu áður verið vísað frá dómi sökum vanreifunar sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar sl. í máli E-3294/2010 og stefnandi í því máli, sem var þb. Slitlagsviðgerða ehf., verið dæmt til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað. Hafi stefndi því áður unnið að málinu og sé fjárhæð málskostnaðarkröfu stefnda alltof há með tilliti til áður útlagðrar vinnu.
Í ofangreindu máli, E-3294/2010 krafðist stefnandi aðallega að stefndi yrði dæmdur til að efna kaupsamning aðila samkvæmt efni sínu og afhenda stefnanda nýja og ónotaða malbiksvél af gerðinni Savalco sem henti til malbiksviðgerða hér á landi. Til vara krafðist stefnandi að stefndi yrði dæmdur til að þola riftun á sölu sinni á malbiksviðgerðarvél af gerðinni Savalco nr. GN-R57 til stefnda og endurgreiða stefnda 29.178.093 krónur ásamt tilgreindum vöxtum. Þá var krafist skaðabóta úr hendi stefnda vegna afnotamissis og greiðslu reiknings að fjárhæð 19.920.347 krónur ásamt tilgreindum vöxtum auk málskostnaðar. Krafðist stefndi frávísunar á málinu frá dómi og var krafa hans tekin til greina eins og að ofan greinir. Í ofangreindu máli var ýmist talað um tæki af gerðinni Savalco SR 1501 eða Savalvo nr. GN-R57 og var það misræmi ekki skýrt í stefnu. Í máli þessu eru dómkröfur nánast þær sömu og í ofangreindu máli en krafist er afhendingar á malbiksviðgerðarvél af gerðinni Savalco 1501. Þá hefur aðildin í máli þessu breyst þannig að Íslandsbanki fjármögnun, kt. 491008-0160, er einnig orðinn aðili að málinu ásamt þb. Slitlagsviðgerða ehf., kt. 500308-0600.
Samkvæmt málskostnaðaryfirliti stefnda hefur hann unnið við mál þetta frá 25. júní 2011 fram til 2. maí 2012. Hefur samtals verið unnið í 57,25 klukkustundir við málið auk útlagðs kostnaðar. Þrátt fyrir að stefndi hafi að einhverju leyti getað nýtt sér vinnu vegna fyrra málsins þá verður ekki annað séð af reikningsgerð hans en að sú vinna sem tilgreind er sé í samræmi við gögn málsins og málatilbúnað stefnenda. Þá hafa stefnendur ekki véfengt gjaldskrá lögmanns stefnda.
Að virtum atvikum málsins, umfangi þess og lyktum, þykir rétt að stefnendur greiði stefnda 1.045.500 krónur í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Mál þetta er fellt niður.
Stefnendur, Íslandsbanki hf., fjármögnun kt. 491008-0160 og þb. Slitlagsviðgerða ehf., kt. 500308-0600, greiði stefnda Aflvélum ehf. 1.045.500 krónur í málskostnað.