Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-119
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Útburðargerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ingveldur Einarsdóttir.
2. Með beiðni 20. september 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 16. september 2022 í máli nr. 550/2022: A gegn B á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði með beinni aðfarargerð borinn út úr fasteign gagnaðila.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að leyfisbeiðandi skyldi borinn út úr fasteigninni. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að gagnaðili hefði verið svipt sjálfræði tímabundið til þriggja ára og hefði önnur af tveimur dætrum hennar verið skipuð lögráðamaður hennar. Gagnaðili var ein þinglýstur eigandi að fasteigninni. Andmæli leyfisbeiðanda voru í meginatriðum á því reist að þrátt fyrir að gagnaðili væri þinglýstur eigandi að fasteigninni væri réttur hennar hvergi nærri nógu skýr og ljós til þess að gerðin mætti fara fram. Krafa gagnaðila var tekin til greina enda töldust réttindi hennar nægilega ljós og ekkert athugavert við að gerðin næði fram að ganga, sbr. 1. mgr. 78. gr. og 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Fyrir liggur að gerðin fór fram 12. október 2022.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða héraðsdóms sé bersýnilega röng að formi og efni. Í stað þess að lagt hafi verið mat á hvort réttur gagnaðila væri svo skýr að jafna mætti til þess að dómur hefði gengið um hann hafi verið farin sú leið að greiða efnislega úr álitaefnum. Þá telur leyfisbeiðandi að með héraðsdómi hafi verið leyst úr ágreiningi og vafaatriðum sem eigi undir skipti til slita á fjárfélagi aðila. Leyfisbeiðandi byggir á að málið hafi almenna þýðingu þar sem niðurstaða þess feli í sér að sambýlismaki, sem er þinglesinn eigandi fasteignar, geti óháð rétti maka síns til eignarinnar fengið hann borinn út og selt eignina.
6. Þegar af þeirri ástæðu að gerðin hefur farið fram getur úrlausn í málinu ekki haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Beiðninni er því hafnað.