Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Geðrannsókn
  • Dómkvaðning matsmanns


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. janúar 2009.

Nr. 34/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Geðrannsókn. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóm, þar sem hafnað var kröfu L um að X skyldi sæta geðrannsókn og að dómkvaddur yrði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta geðrannsókn og dómkvaddur yrði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hans tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta geðrannsókn og að dómkvaddur verði geðlæknir til að framkvæma þá rannsókn.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að 14. janúar kl. 13:05 hafi lögregla verið kvödd til rannsóknar á brennu að Tryggvagötu 10 í Reykjavík. Er komið hafi verið á vettvang hafi slökkviliðið verið að slökkva eld í húsinu og sýnilegt að allmikið tjón væri á húsinu og eldurinn hefði breiðst nokkuð víða.

Samkvæmt framburði A fyrrum eiginkonu kærða, hafi kærði áreitt hana mikið fyrir brunann.

Kærði hafi verið handtekinn kl. 13:50 þann 14. janúar. Við skýrslutöku af honum þann 15. janúar hafi hann sagst hafa drukkið vodka og tekið inn þrennskonar lyf, m.a. geðlyf eftir að hann vaknaði kl. 6 að morgni 14. janúar. Hann hafi reiðst A eftir að hafa talað við hana og lögmann hennar hjá Alþjóðahúsi og hafi hann þá verið á gangi á Grettisgötu. Hann hafi farið að Tryggvagötu 10 og komist inn á ganginn þar og vitað af bensíni á plastbrúsa á gangi 2. hæðar. Hafi hann hellt bensíni í miðjan stiga upp á aðra hæð, tekið dagblöð í andyrinu sem þar hafi verið, kveikt í þeim og kastað upp blautan stigann svo eldur hafi orðið af. Kærði segist hafa gengið úr skugga um að enginn hefði verið á efri hæð hússins þegar hann kveikti í. Þegar eldur hafi orðið nokkur hafi hann lokað aðaldyrum hússins og farið.

Samkvæmt læknisvottorði sem dagsett sé þann 15. janúar ráðleggi læknir að geðrannsókn fari fram á kærða vegna sögu hans um alkóhólisma og geðræn vandamál, líklega þunglyndi samkvæmt þeim lyfjum sem hann segist nota. Óljóst hafi verið hvort kærði gerði sér grein fyrir alvarleika málsins við gerð læknisvottorðsins og hafi hann þá ekki játað verknaðinn.

Telji lögreglustjórinn að ætlað brot kærðu kunni að varða við 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Samkvæmt framansögðu telji Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu nauðsynlegt að sakborningur sæti sérstakri geðrannsókn með tilliti til 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til að leidd verði í ljós atriði sem geri dómara fært að meta sakhæfi hans.

Vísað er til framangreinds, hjálagðra gagna, 2. mgr. 77. gr., sbr. 128. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Ekki þykir af framlögðum gögnum sýnt að uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 88/2008 til að verða við kröfu um að kærða verði gert að sæta sérstakri geðrannsókn. Verður kröfu lögreglustjórans þar að lútandi því hafnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði, X, sæti geðrannsókn