Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2006


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2006.

Nr. 420/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Romas Kosakovskis

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Upptaka.

R var sakfelldur fyrir að hafa flutt til landsins verulegt magn af vökva, sem innihélt amfetamínbasa, og brennisteinssýru án tilskilinna leyfa. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð hefði verið hægt að framleiða 17,49 kg af amfetamíni með 10% styrkleika úr efnunum. Með héraðsdómi var R gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Við ákvörðun refsingar í Hæstarétti var litið til þess hversu mikið magn mátti fá úr innfluttum efnum og til þess að R hefði tekið að sér innflutning efna sem hefði augljóslega verið vandlega skipulagður. Var brot hans talið stórfellt og átti hann sér engar málsbætur. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þótti refsing R hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð og að gæsluvarðhaldsvist dragist frá dæmdri refsivist.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða. Ákærði er með þessu sakfelldur fyrir að hafa flutt til landsins verulegt magn af vökva, sem innihélt amfetamínbasa, og brennisteinssýru án tilskilinna leyfa. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hefði verið unnt að framleiða 2383 g af hreinu amfetamínsúlfati úr efnunum eða 17,49 kg af amfetamíni með 10% styrkleika. Þótt af matsgerðinni og af gögnum, sem ákærði hefur lagt fyrir Hæstarétt, megi ráða að nokkur rýrnun geti orðið við framleiðsluna er við ákvörðun refsingar til þess að líta hversu mikið magn mátti fá úr innfluttum efnunum. Ákærði tók að sér innflutning efnanna en hann var augljóslega vandlega skipulagður. Brot hans er stórfellt og á hann sér engar málsbætur, en skýringar hans eru fráleitar. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 27. febrúar 2006.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Romas Kosakovskis, sæti fangelsi í fjögur ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 27. febrúar 2006.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 347.979 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2006.

Mál þetta sem dómtekið var 29. júní sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 17. maí 2006 á hendur „Romas Kosakovskis, litháískum ríkisborgara, fæddum 4. desember 1976, með lögheimili í Litháen, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 26. febrúar 2006, í ágóðaskyni staðið að ólögmætum innflutningi á 2.040 ml (1.913,4 g) af vökva sem innihélt amfetamínbasa og án tilskilinna leyfa flutt inn 678 ml af brennisteinssýru (sulphuric acid), til söludreifingar hér á landi. Efnin, sem unnt er að framleiða 2.383 g af amfetamínsúlfati úr, flutti ákærði til  Íslands frá Litháen í gegnum London sem farþegi með flugi FI-451 og fundu tollverðir þau í flöskum í farangri ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hengingarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. a., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. 6. gr. laga nr. 10/1997 og 7. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 að því er varðar innflutning á brennisteinssýru.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að framangreind efni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

Verjandi ákærða krefst að ákærði verði sýknaður af öllu kröfum ákæruvaldsins í málinu, en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Komi til þess að ákærða verði ákveðin óskilorðsbundin fangelsisrefsing er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist frá 27. febrúar 2006 til uppkvaðningar dóms komi til frádráttar dæmdri refsivist. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins, þar með talið fyrir verjendastörf á rannsóknarstigi.

Málsatvik.

Samkvæmt skýrslu fíkniefnadeildar tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli voru tollverðir við eftirlit með farþegum sem komu með flugi FI-451 frá Heatrow flugvelli í London sunnudaginn 26. febrúar sl. kl. 16.15 þegar ákærði kom þar í gegnum grænt tollhlið. Hafi farangur hans verið gegnumlýstur og síðan tekinn til nánari skoðunar í leitarklefa tollgæslu. Í farangri hans hafi fundist 1000 ml Olmela Tequila flaska og 750 ml flaska merkt, Rabenhorst Weizengras. Á tekíla flöskunni hafi ekki verið innsigli og hafi ákærði því verið beðinn að opna flöskuna. Hafi hann neitað því og sagt að þetta væri gjöf til vinkonu hans sem hann hefði kynnst á netinu og héti A. Ákærði hafi einnig neitað að opna Weizengras flöskuna. Í farangri ákærða hafi einnig verið fjórar Perrier vatnsflöskur og hafi ákærði drukkið úr einni þeirra. Á flöskunum hafi komið fram að þær ættu að innihalda 330 ml hver. Hins vegar hafi ein þeirra reynst vega 400 g og hafi hún verið með innsigli. Hinar, sem hafi verið án innsiglis, hafi virst óáteknar og reynst vega 730 og 735 g. Þar sem þyngd flasknanna hafi ekki verið í samræmi við innihaldið og á þær vantað innsigli hafi verið ákveðið að handtaka ákærða.

Flöskurnar fimm, sem voru óáteknar, voru sendar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði til rannsóknar á innihaldi þeirra og er álit rannsóknarstofunnar dagsett 16. mars 2006. Þá liggur frammi álit sömu rannsóknarstofu sem fjallaði meðal annars um hver þyngd amfetamínsins yrði ef því væri breytt í duft án útþynningar, dagsett 10. apríl 2006. Fram kemur að innihald flöskunnar, sem merkt var Olmeca Tequila Blanco, hafi verið 1000 ml (936,9 g) og reynst innihalda amfetamín. Hafi efnapróf bent til að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínbasa og að heildarmagn hans væri 95% af þunga sýnisins. Svari það til 1.213 g af hreinu amfetamínsúlfati. Í flöskunni, sem merkt hafi verið Weizengras coctail, Rabenhorst, hafi verið 700 ml  (657,5 g) af vökva sem reyndist innhalda amfetamín. Hafi efnapróf bent til að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínbasa, og að heildarmagn hans væri 85% af þunga sýnisins. Svari það til 761 g af hreinu amfetamínsúlfati. Þá hafi 340 ml (319 g) af vökva verið í einni sódavatnsflöskunni. Hafi vökvinn reynst innihalda amfetamín, að mestu á formi amfetamínbasa, en heildarmagn hans væri  94% af þunga sýnisins, sem samsvari 409 g af hreinu amfetamínsúlfati. Þá hafi 338 ml (513,3 g) af vökva verið í annarri sódavatnsflöskunni. Hafi flaskan reynst innihalda brennisteinssýru og hafi styrkur hennar reynst 62% miðað við þyngd. Loks hafi þriðja Perrierflaskan reynst innihalda 340 ml (514,8 g) af vökva. Hafi innihaldið reynst vera brennisteinssýra og hafi styrkur hennar reynst 62% miðað við þyngd.

Þá segir í matsgerð rannsóknarstofunnar frá 10. apríl 2006 að við breytingu á amfetamínbasa í vökvaformi í amfetamínsúlfat sé óhjákvæmilegt að eitthvað lítilsháttar tapist af efninu. Fari það eftir uppskriftinni sem notuð sé og þekkingu og þjálfun þess sem framkvæmi verkið hve mikið komist til skila. Þá kemur og fram að amfetamínsúlfat sé salt af amfetamínbasa og brennisteinssýru en brennisteinssýran leggi til þann hluta efnisins sem nefndur sé súlfat. Hreint amfetamínsúlfat innihaldi 73,4% af amfetamínbasa og sé vatnsleysanlegt. 2383 g af hreinu amfetamínsúlfati, sem sé það magn sem búa megi til úr því magni af amfetamínbasa sem tollgæslan lagði hald á umrætt sinn, samsvari 17,49 kg af 10% sterku amfetamínsúlfati.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 26. febrúar 2006. Hann sagðist vera saklaus af því sem borið væri á hann. Ákærði kvaðst hafa verið að koma frá Kaunas í Litháen til að ferðast um Ísland í fjóra daga. Hann sagði það misskilning, sem eftir honum hefði verið haft við komuna til landsins, að hann ætlaði að gefa vinkonu sinni umrædda Tequilaflösku. Sagðist hann hafa ætlað að drekka innihaldið sjálfur en gefa vinkonu sinni eitthvað af því. Jafnframt er haft eftir honum í lögregluskýrslunni: „Það er engin stelpa til“. Nánar sagði hann að það hefði ekki verið ákveðið að þau myndu hittast því verið gæti að hún væri að vinna og gæti því ekki hitt ákærða. Kvaðst ákærði hafa kynnst stúlkunni á einkamálasíðu á netinu tveimur eða þremur vikum áður en þar væri hana að finna sem A 23. Hann vissi ekkert annað um hana en  að hún væri 23 ára, héti A og væri búsett og í vinnu hérlendis. Um flöskurnar, sem hann var með í fórum sínum við komuna til landsins, sagði hann að um hefði verið að ræða eina flösku af Tequila, eina flösku af blönduðum ávaxtadrykk og fjórar sódavatnsflöskur. Eina þeirra hefði hann þegar verið búinn að drekka.

Þá var ákærði yfirheyrður 2. mars sl. Kvaðst hann þá hafa keypt flöskurnar sex á útimarkaði í Kaunas, fimmtudaginn eða föstudaginn áður en hann kom til Íslands, og borgað fyrir þær 60 litas, um 1.300 íslenskar krónur. Hefði sölumaðurinn verið á fertugsaldri, lágvaxinn og frekar grannvaxinn. Sagðist ákærði hafa drukkið úr einni flöskunni, fundist bragðið undarlegt en ekki hugsað frekar um það. Kvaðst hann enn vera veikur í maga vegna þessa. Ákærði sagðist hafa keypt flöskurnar í góðri trú um að innihald þeirra væri vín og vatn. Ákærði kvaðst vera bílasali. Hafi hann yfirleitt haft 1.000 til 5.000 evrur í mánaðarlaun og fyrstu tvo mánuði ársins hafi hann þénað um 6.000 evrur. Ákærði kvaðst hvorki selja fíkniefni né neyta þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa hlotið dóm fyrir afbrot. Hann viðurkenndi svo aðspurður að hafa fengið tveggja ára dóm fyrir rán árið 1993 en hann hefði aldrei setið inni.

Loks var rætt við ákærða hjá lögreglu 17. mars 2006. Var ákærða þá sagt að rannsóknarlögregla hefði ekki fundið A 23 á heimasíðu þeirri sem ákærði gaf upp. Var hann þá inntur eftir því hvernig hann hefði ætlað að finna hana og sagði hann þá tilganginn með ferðinni ekki hafa verið þann að hitta þessa stúlku. Hann hefði hins vegar verið tilbúinn að hitta hana ef það tækist. Kvaðst hann ekki hafa spurt hana hvar hún ynni.

Framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði, Romas Kosakovskis, sagðist hafa farið frá Litháen um London til Keflavíkur til að vera í fríi í fjóra daga á Íslandi. Hafi eini tilgangur ferðar hans verið að skoða landið og hafi hann ekki skipulagt að hitta neinn hér á landi. Tilgangurinn hafi því ekki verið sá að hitta hér A þótt það hefði getað orðið. Kvaðst ákærði hafa spjallað við hana og margar aðrar konur á spjallvef. Hafi hann séð að hún byggi á Íslandi en hann hafi ekki fengið neinar frekari upplýsingar um hana. Hefði hann hugsað sér að kanna hvort þau gætu hist hér og fengið sér drykk saman eða eytt einhverri stund saman. Hann kvaðst ekki þekkja neinn annan á Íslandi. Spurður hvort hann hefði með einhverjum hætti undirbúið komu sína hingað til lands, eins og til dæmis að panta hér gistingu, sagði ákærði að hann hefði látið taka hér frá gistingu og eins hefði hann athugað með skoðunarferðir sem hann gæti farið í. Spurður hvort það væri þá rangt, sem fram kæmi í skýrslu hans hjá lögreglu 26. febrúar 2006, að hann hefði ekki verið búinn að panta herbergi áður en hann lagði af stað, sagði ákærði að hann hefði verið búinn að taka frá herbergi. Eins og sjá mætti af útprentunum af netinu, sem liggi fyrir í málinu, hefði hann athugað með gistimöguleika á netinu og þar hefði komið fram að herbergi væru laus. Hefði hann því talið sig geta gengið út frá því að viðkomandi herbergi væru til reiðu þegar hann kæmi til landsins. Aðspurður um ástæðu þess að hann hefði verið með tvo farsíma meðferðis kvað ákærði skýringuna þá að hann ferðist alltaf með auka farsíma ef hinn skyldi bila.

Ákærði kvaðst hafa keypt flöskurnar, sem fundust í farangri hans, á tilteknum markaði í heimabæ hans, Kaunas í Litháen. Hann hafi verið þar staddur og ákveðið að kaupa sódavatn. Honum hafi þá einnig dottið í hug að kaupa þar Tequila því honum finnist sá drykkur góður. Hafi sölumaðurinn þá gert sér það tilboð að ef hann keypti hvort tveggja, það er einn pakka af sódavatni og Tequila, gæti ávaxtadrykkur fylgt með í kaupunum. Ákærði kvaðst hafa ætlað að drekka þetta sjálfur og ef hann hitti stúlkuna að deila þá drykknum með henni. Aðspurður hvort hann hefði skoðað flöskurnar og innsigli þeirra eftir kaupin kvaðst hann hafa skoðað þær á svipaðan hátt og menn geri þegar þeir kaupi slíka drykki. Ákærði kvað Tequilaflöskuna hafa litið út fyrir að vera eðlilega innsiglaða og að hann hafi ekki haft neinar grunsemdir um að ekki væri allt með felldu. Ákærði kvaðst ekki áður hafa séð sölumanninn en sá hafi verið um 1,65 m á hæð, dökkhærður og grannvaxinn. Teldi hann ólíklegt að hann myndi þekkja sölumanninn aftur ef hann sæi hann. Kaunas væri um 700.000 manna bær og væri vinsælt að versla þar á mörkuðum. Umræddur markaður hefði verið til lengi. Hann væri opinn daglega og þar væru yfir 100 sölumenn. Ákærði kvaðst hafa komið umræddum flöskum fyrir á milli fata í tösku sinni. Vatnsflöskurnar hefðu verið keyptar fjórar saman í pakka.

Ákærði skýrði frá því að eftir að hann hefði verið stöðvaður af tollvörðunum hafi þeir stungið upp á að hann drykki úr einni flöskunni. Hefði hann því opnað eina flöskuna og drukkið úr henni. Spurður um ástæðu þess að hann hefði ekki greint frá þessu við skýrslutöku hjá lögreglu sagði hann lögreglumanninn, sem skýrsluna tók, ekki hafa viljað skrá þetta eftir honum. Kvaðst ákærði hafa fundið fyrir magaverkjum daginn eftir og hafi læknir, sem vitjaði hans í gæsluvarðhaldinu, greint blóð í þvagi hans. Hann hafi þó ekki getað gefið sér neitt annað ráð en að hann skyldi drekka mikið af vatni.

Ákærði lýsti samskiptum, sem hann átti við tollverði um innihald flasknanna, með þeim hætti að hann hafi fyrst verið beðinn um að setja töskuna í gegnumlýsingartæki. Eftir að hún hafi verið farin þar í gegn hefði tollvörðurinn opnað hana. Þegar hann hafi séð flöskurnar hafi hann tekið þær og sett þær til hliðar. Að því búnu hafi hann tekið öll föt, snyrtivörur og annað sem þar var, úr töskunni og skoðað það vandlega. Eftir að hafa spurt ákærða nokkurra spurninga hafi vörðurinn sagt honum að pakka niður. Hafi ákærði þá sett dótið sitt aftur í töskuna og lokað henni. Þá hefði maður komið út úr öðru herbergi, beðið hann að setja farangurinn aftur á borðið, og farið að skoða Tequilaflöskuna. Ákærði kvaðst hafa sagt þeim aðspurður að þetta væri Tequila. Þeir hafi þá tekið upp úr töskunni aðra flösku og kvaðst ákærði hafa upplýst að í henni væri safi. Ekkert hafi hins vegar verið spurt um sódavatnið. Að lokinni líkamsleit á honum hafi þeir beðið ákærða að afhenda allar flöskurnar og hafi þeir svo stillt þeim upp í röð frá honum. Tollvörður hefði reynt að opna Tequilaflöskuna en ekki getað það. Ákærði kvaðst þá hafa spurt af hverju hann væri að opna flöskuna en tollvörðurinn hefði ekki getað svarað á skiljanlegri ensku en beðið síðan ákærða að opna hana. Kvaðst ákærði þá hafa svarað að ef opna þyrfti flöskuna skyldi tollvörðurinn gera það sjálfur. Eftir að tollvörðurinn hefði verið búinn að hrista flöskuna og reyna án árangurs að opna kvaðst ákærði þá hafa boðist til að reyna að opna hana. Þegar ekkert hafi heldur gengið hjá honum að skrúfa tappann lausan hafi hann loks stungið upp á að notaður yrði tappatogari, en ekki hafi verið hægt að greina á flöskunni hvort toga ætti tappann úr flöskunni eða skrúfa hann lausan. Vörðurinn hafi skoðað hinar flöskurnar og tekið sýni af þeim. Kona frá tolleftirlitinu hefði komið og spurt hvað væri í flöskunum og kvaðst ákærði hafa svarað að þetta væru drykkir. Hún hefði þá spurt hvort hann vildi drekka og ákærði sagt já. Hefði hún sagt honum að drekka þá. Kvaðst ákærði hafa tekið þá flösku sem næst honum var, sem var sódavatnsflaska, opnað hana og drukkið úr henni. Viðbrögð tollvarðanna við þessu hafi virst þau að þau væru undrandi og jafnvel að þeim hafi verið brugðið þegar hann drakk. Hafi þau ekki reynt að stöðva hann og frekar virst vilja neyða hann til að drekka. Hefði hann svo spurt tollverðina hvers vegna honum væri haldið og hafi þau þá svarað því til að þau gætu ekki opnað flöskuna og að þau væru ekki viss um þessa drykki. Hafi þau jafnframt sagst ætla að hringja í lögregluna nema hann vildi segja þeim eitthvað. Ákærði kvaðst hafa svarað að hann væri þreyttur eftir flugið og að þau skyldu þá bara hringja í lögregluna.

Spurður hvort ekki væri rétt eftir honum haft, í skýrslu tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, að hann hefði neitað að opna Tequilaflöskuna því hún væri gjöf til vinkonu hans, A, sagðist ákærði hafa svarað því til að hann ætlaði að deila drykknum með A. Einnig hafi hann þá svarað því til að kannski vildi hún ekki drekka Tequila og að þá myndi hann drekka það sjálfur. Þá hefði hann og spurt hvað ætti að gera við flöskuna eftir að búið væri að opna hana. Inntur eftir því hvort ekki hefði verið eðlilegt að opna flöskuna strax, fyrst hann ætlaði hvort sem var að drekka hana sjálfur, sagði ákærði að það hefði litið öðru vísi út gagnvart stúlkunni hefði hann komið með opna flösku. Hann hefði þá litið út eins og bjáni. Ákærði kvaðst hafa talið sig eiga rétt á að vita hvers vegna þeir vildu opna flöskuna því hvað ætti hann að gera við flöskuna eftir að hún hefði verið opnuð?

Nánar aðspurður sagði ákærði að þegar leitað hafi verið á honum í byrjun hefðu flöskurnar verið skildar eftir fyrir utan og tollverðir svo komið með þær inn í herbergið. Þá hefði verið búið að taka vatnsflöskurnar úr kassanum. Flöskurnar hafi svo verið settar á borðið þegar komið var með þær og hann spurður hvort hann vildi drekka. Hefði hann þá tekið flöskuna sem var næst honum í röðinni á borðinu og drukkið úr henni. Hafi fjarlægðin að flöskunni verið 30 til 40 sm.

Aðspurður um persónulega hagi sína sagði ákærði að hann ynni við að kaupa notaða tjónabíla og selja aftur, eftir að gert hefði verið við þá. Hann byggi hjá foreldrum sínum í Kaunas, væri fráskilinn, og þar ætti hann 8 ára gamla dóttur. Ákærði kvaðst ekki hafa lent í útistöðum við lög í Litháen. Nánar aðspurður kvað hann þó rétt að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir slagsmál og rán, en hann hefði í raun verið dæmdur saklaus. Síðan þá hefði hann ekki verið fundinn sekur um lögbrot og hann hefði aldrei setið í fangelsi.         

Jakob Líndal Kristinsson, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands, vann ásamt Ingibjörgu Snorradóttur þær matsgerðir er varða innihald þeirra flaskna sem fundust í farangri ákærða. Lýsti hann hlutfalli amfetamínbasa í sýnunum með sama hætti og fyrr hefur verið rakið. Sagði hann að amfetamínbasa væri breytt í amfetamínsúlfat með brennisteinssýru. Þegar efnunum væri blandað með hjálp leysiefna, svo sem metanóls eða etanóls, félli út hvítt efni, amfetamínsúlfat. Brennisteinssýra væri nauðsynleg til að breyta amfetamínbasa í amfetamínsúlfat. Þá rakti Jakob þá útreikninga, varðandi þyngd efnisins eftir að því væri breytt í duft, sem tilgreindir eru í matsgerðinni, sem dagsett er 10. apríl 2006. Sú niðurstaða, sem þar sé tilgreind, væri hámarksmagn amfetamínsúlfats úr þeim amfetamínbasa sem lagt var hald á eða samtals 2.383 g af hreinu amfetamínsúlfati. Átt væri við hversu mikið gæti orðið til af dufti sem innihéldi 10% styrkleika með tilliti til amfetamínbasa, en sá styrkleiki væri nokkuð algengur styrkleiki í þeim efnasýnum sem rannsóknarstofan fengi til rannsóknar. Mörg þeirra væru á bilinu 5 til 15 eða 20%. Hann kvað ávallt eitthvað tapast við umbreytingu efnisins í amfetamínsúlfat en bara örfá prósent ef maður kynni til verka. Jafnvel þeir sem væru vel þjálfaðir næðu ekki hámarksnýtni, ávallt færi eitthvað til spillis, hugsanlega allt upp í 5%. Mætti því gera ráð fyrir að ekki hefði náðst að framleiða jafn mörg grömm af amfetamínsúlfati og fyrrgreint hámark segi til um. Jakob kvað þann skammt sem reyndist vera í einni af umræddum flöskum, hvort heldur væri flösku með brennisteinssýru eða amfetamínbasa, vera margfaldan banvænan skammt. Hann kvað erfitt að sjá af útliti flasknanna að ekki væri um vatn að ræða. Amfetamínbasinn hefði verið nánast litlaus. Brennisteinssýru gæti maður heldur ekki greint frá vatni með því að horfa á hana því hún væri nánast litlaus.

Vitnið, Ingibjörg Halla Snorradóttir, lyfjafræðingur á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, kvaðst hafa unnið að greiningu á fyrrgreindum efnum, ásamt Jakobi Líndal Kristinssyni, og hafi í því sambandi verið fylgt hefðbundnum og viðurkenndum aðferðum og stöðlum á rannsóknarstofum. Hún skýrði frá að þurft hafi að beita afli og nota áhöld til að opna flöskurnar. Aðspurð hvort líklegt sé eða mögulegt að nýta amfetamínbasa til annars en framleiðslu amfetamíns sagði vitnið að hugsanlegt væri að neyta hans í vökvaformi en það væri ekki kræsilegur drykkur. Hins vegar sæi hún ekki fyrir sér að hægt væri að nota hann í þágu iðnaðar eða í einhverjum öðrum tilgangi en til að neyta hans eftir að honum hafi verið umbreytt í amfetamínduft.

Vitnið, Guðmundur Þór Brynjarsson varðstjóri, kvaðst hafa séð flöskur við gegnumlýsingu á farangri ákærða og því óskað eftir því við hann, þegar hann var búinn að taka við farangrinum, að hann framvísaði skilríkjum og hafi jafnframt óskað eftir að fá að skoða innihald farangursins betur. Hafi taskan verið opnuð og innihaldið skoðað lauslega. Hafi ákærði þá strax teygt sig í sódavatnsflösku af tegundinni Perrier og farið að drekka þar úr henni. Strax hafi verið ákveðið að fara afsíðis og inn í leitarklefa, sem sé þar við hliðina, þar sem farangurinn hafi verið skoðaður nánar og jafnframt framkvæmd líkamsleit á ákærða. Ákærði hafi komið með þeim inn í klefann um leið og taskan var færð þangað. Hafi hann haldið á sódavatnsflöskunni og drukkið áfram úr henni. Ekki hafi verið búið að taka flöskurnar upp úr töskunum þegar þetta var. Ákærði hefði gripið flöskuna og farið að drekka úr henni áður en þeir hafi farið inn í leitarherbergið. Kvaðst vitnið ekki hafa séð hvort ákærði hefði valið einhverja sérstaka flösku þegar hann greip hana. Ákærði hefði sagt að tilgangur farar hans til Íslands væri að ferðast um landið. Vitnið kvaðst hafa veitt því athygli að Tequilaflaskan væri án innsiglis og því hafi hann farið að skoða hana betur og í framhaldi af því beðið ákærða um að opna hana. Ákærði hafi þá neitað því og sagt að hann ætlaði að gefa vinkonu sinni, A, flöskuna en hann hefði kynnst henni á netinu. Hafi ákærði virst fremur órólegur og sagst vera sveittur. Hafi hann ýtt á eftir að þeir kláruðu leitina því hann vildi gjarnan komast á hótelið í sturtu og síðan ætlaði hann að mæla sér mót við þessa A þegar hann væri kominn á hótelið. Ákærði hefði ekki heldur viljað opna djúsflöskuna. Þegar þau hafi farið að skoða þær þrjár sódavatnsflöskur sem voru óopnaðar hafi komið í ljós að einhvers konar filma eða innsigli var ofan á stútnum, undir áltappanum, sem þeim hefði þótt óeðlilegt. Einnig hefði verið þyngdarmunur á flöskunum. Ákærði hafi verið beðinn um að opna stærri flöskurnar tvær, það er Tequilaflöskuna og djúsflöskuna, en hann hafi neitað því. Undir lokin, þegar ákærði vissi að lögreglan væri á leiðinni, hefði hann eitthvað reynt að opna flöskurnar því þá hafi hann séð að hann færi ekkert lengra.

Vitnið, Þorsteinn Haraldsson yfirtollvörður, kvaðst hafa komið að málinu til aðstoðar er ákærði var kominn inn í leitaraðstöðu. Í framhaldi af því hafi ákærði verið færður í sérstakan leitarklefa þar við hliðina. Hafi þótt sérstök ástæða til að skoða betur tvær áfengisflöskur sem komið hefðu fram og ákærði hefði neitað að opna. Ákærði hefði ekki gefið neina skýringu á neitun sinni á meðan vitnið var viðstatt heldur aðeins neitað að opna þær. Hins vegar hafi honum verið tjáð, þegar hann kom á staðinn, að ákærði hefði áður gefið skýringu á því hvers vegna hann vildi ekki opna flöskurnar. Meðan á þessari athugun stóð hefði ákærði öðru hvoru verið að súpa af vatnsflösku sem hann hafi haldið á þegar vitnið kom á staðinn. Vitnið kvað ákærða hafa verið mjög órólegan, svitnað áberandi mikið, og gefið til kynna í orðum og látbragði að hann vildi hraða skoðuninni sem mest því hann vildi komast á hótel til að geta farið í sturtu. Hafi þetta eindregið virkað þannig á sig að ákærða hefði liðið mjög illa yfir þeim afskiptum sem höfð voru af honum umrætt sinn. Þorsteinn kvað sínum afskiptum hafa lokið þegar starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík komu og höfðu afskipti af ákærða. Ákærða hefði, rétt áður en lögreglumenn komu á vettvang og búið var að gera honum grein fyrir að hann væri ekkert að fara, verið rétt ein flaskan og ítrekað við hann hvort hann vildi reyna að opna hana því ekki virtist hægt að opna neina þeirra. Ákærði hefði þá tekið við flöskunni, tekið utan um tappann og virst reyna að snúa hann til. Að því búnu hafi hann rétt hana aftur til baka og hrist hausinn. Vitnið kvaðst ekki kannast við að ákærða hefði verið boðið af tollvörðunum að drekka úr flösku. Ákærði hefði þegar haldið á flösku og ekki drukkið úr neinni annarri flösku eftir það. Aðspurður, hvort einhvern tímann hafi komið fyrir að tollverðir hefðu skorað á farþega að drekka úr flösku sem grunur léki á að hefði að geyma fíkniefni í vökvaformi, kvaðst vitnið ekki telja að slíkt hefði gerst eða kæmi til álita. Í þessu tilviki hafi verið kominn upp sterkur grunur um að innihald flasknanna væri ólöglegt og því hafi aldrei getað komið til greina að óska eftir því að ákærði drykki úr flöskunum.

Vitnið, Ester Pálmadóttir yfirtollvörður, kvað Guðmund Þór hafa komið til sín og sagt ákærða vera með flösku sem hann vildi ekki opna. Vitnið kvaðst hafa farið inn í leitarklefann og rætt við ákærða og skoðað farangur hans ásamt hinum tollvörðunum. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða halda á sódavatnsflösku þegar þetta var. Aðspurð um ástand ákærða sagði hún að hann hafi virst stressaður. Hann hafi svitnað mikið og ekki litið mjög vel út, en hann hafi þó virst alveg skýr í hugsun. Vitnið kvað ákærða hafa gefið þá skýringu á því hvers vegna hann vildi ekki opna umrædda flösku að Tequilaflaskan væri gjöf handa vinkonu hans sem hann ætlaði að hitta. Tollvörðunum hafi ekki tekist að opna flöskuna, og ekki heldur djúsflöskuna sem ákærði hefði sagt einhvers konar heilsudrykk. Hafi hann sagst ekki vita hvað væri í flöskunum. Aðspurð hvar flöskurnar hafi verið, þegar hún kom fyrst að, sagði hún að sig minnti að Tequilaflaskan hafi þá verið komin upp á borðið. Pakkningin utan af Perrierflöskunum hefði verið með en hún myndi ekki hvort þá hafi verið búið að taka þær úr pakkningunni. Vitnið sagði að þau hafi fljótlega komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri eingöngu eitthvað bogið við Tequilaflöskuna og djúsflöskuna heldur virtust Perrierflöskurnar líka eitthvað grunsamlegar. Kvaðst hún því hafi látið taka flöskuna af ákærða, sem hann hefði haldið á, því að sjálfsögðu vildu þau ekki að hann drykki úr henni ef innihaldið væri eitthvert eitur. Aðspurð sagði vitnið að hafi ákærði teygt sig í sódavatnsflösku á borðinu hafi það ekki gerst þegar hún var þar stödd því hann hafi haldið á flöskunni þegar hún kom fyrst að. 

Vitnið, Þórbjörn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, sagði að ekki hefði fundist vísbending um hver A væri. Ákærði hefði gefið honum upp aðgangsorð inn á svæði sitt á spjallsíðunni og kvaðst vitnið hafa farið þar inn daglega meðan á rannsókninni stóð, en aldrei fundið þessa konu. Mjög margir væru á lista á síðunni. Spurður um hvernig staðið hefði verið að yfirheyrslum yfir ákærða sagði vitnið að allar spurningar við yfirheyrslur hefðu verið túlkaðar á litháísku og svörin af litháísku yfir á íslensku. Að yfirheyrslu lokinni hafi túlkurinn tekið skýrslurnar, þegar búið var að prenta þær út, og lesið þær yfir fyrir ákærða og þýtt yfir á litháísku. Vitnið kvað ekki hafa verið grennslast sérstaklega fyrir um útimarkaðinn þar sem ákærði kvaðst hafa keypt flöskurnar.

Vitnið, Húnbogi Jóhannsson lögreglumaður, kvaðst hafa verið sendur ásamt lögreglumanni á Keflavíkurflugvöll og hitt ákærða í leitarklefa hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Líkamlegt ástand ákærða hafi virst eðlilegt og ákærði virst rólegur. Ekkert hafi bent til að hann væri eitthvað veikur eða slappur.

Vitnið, Svanur Elísson rannsóknarlögreglumaður, kvað ekki hafa verið unnt að opna umræddar flöskur með höndunum. Hann kvaðst þá hafa gert gat til að skoða innihaldið. Ekkert óvenjulegt hefði verið við tappana annað en að þeir hafi verið pikkfastir. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neitt óvenjulegt við vatnsflöskuna sem ákærði hefði drukkið úr. Hann kvaðst heldur ekki hafa orðið var við neinn mun á  Perrierflöskunum fyrir utan þyngdarmuninn. Flöskurnar hafi svo verið sendar óopnaðar á rannsóknarstofuna.  

Vitnið, Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, kvað ákærða hafa virst sallarólegur eftir handtökuna og engin veikindamerki á honum að sjá. Vitnið kvað rétt bókað eftir ákærða í lögregluskýrslunni 26. febrúar sl. þar sem hann segir „það er engin stelpa til“. Einnig hafi ákærða verið kynnt efni skýrslunnar áður en hann skrifaði undir.

Niðurstaða.

Fyrir liggur samkvæmt niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði að hinar fimm óopnuðu flöskur sem fundust við leit í farangri ákærða reyndust allar hafa að geyma vökva sem ekki samsvaraði þeirri  innihaldslýsingu sem á þeim var. Reyndist  flaska, sem samkvæmt álímdum miða átti að innihalda drykkinn Olmeca Tequila Blanco, í raun hafa að geyma amfetamín í formi amfetamínbasa, flaska, sem átti að innihalda einhvers konar ávaxtadrykk með heitinu Weizengras Coctail, hafði í raun að geyma amfetamín í formi amfetamínbasa, og þrjár flöskur sem áttu að innihalda sódavatn af tegundinni Perrier, reyndust þess í stað hafa að geyma amfetamín í formi amfetamínbasa í einni þeirra en tvær höfðu að geyma brennisteinssýru. Með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákæru, og þar sem ekkert liggur fyrir um að ákærði hafi haft leyfi til innflutnings á brennisteinssýru, liggur fyrir að öll þau efni sem fundust í umræddum flöskum hafa verið flutt inn með ólöglegum hætti, eins og nánar er tilgreint í ákæru.

Ákærði, Romas Kosakovskis, hefur frá upphafi neitað sök. Hefur hann fyrir dómi borið því við að hann hafi ekki haft neina vitneskju um raunverulegt innihald umræddra flaskna. Hann hafi keypt þær á útimarkaði í heimabæ sínum, Kaunas, og talið sig þá vera að kaupa flösku af Tequila, flösku af ávaxtasafa og síðan hafi hann fengið sódavatnið í kaupbæti.

Það er mat dómsins að framangreind skýring ákærða á tilvist flasknanna í farangri hans sé með ólíkindum, sérstaklega þegar litið er til þess að um sex flöskur var að ræða af þremur mismunandi tegundum. Hlyti það og að teljast ótrúleg tilviljun að umræddar flöskur skyldu þá einmitt innihalda efni sem notuð eru saman til framleiðslu á amfetamíni í neysluformi, auk þess sem ein þeirra virðist hafa innihaldið skaðlaust efni, líklega sódavatn.

Ákærði hefur fyrir dómi haldið því fram að eftir að hann hafi verið stöðvaður af tollvörðunum hafi þeir stungið upp á að hann drykki úr einni flöskunni. Hafi verið búið að stilla flöskunum upp í röð á borði í leitarklefanum og eftir áskorun þeirra hafi hann tekið flöskuna, sem var næst honum í röðinni á borðinu, og drukkið úr henni. Þessi framburður ákærða stangast á við vitnisburð tollvarðanna, Guðmundar Þórs Brynjarssonar og Esterar Pálmadóttur, og einnig að hluta til við framburð vitnisins, Þorsteins Haraldssonar, sem áður hefur verið rakinn. Verður því að leggja hér til grundvallar framburð þeirra um að ákærði hafi, að eigin frumkvæði, gripið til sódavatnsflöskunnar strax eftir að afskipti tollvarðanna af honum hófust og hann hafði opnað tösku sína í tollhliði.

Þegar litið er til þeirrar umsagnar vitnisins, Jakobs Kristinssonar, fyrir dómi, um að innihald hverrar flösku sem hann rannsakaði, hvort sem var af amfetamínbasa eða brennisteinssýru, hafi verið margfaldur banvænn skammtur, verður að teljast mjög ólíklegt að um einskæra tilviljun geti hafa verið að ræða þegar ákærði greip til þeirrar einu flösku í farangri hans sem ekki hafði að geyma banvæn efni. Er það mat dómsins að viðbrögð hans að þessu leyti bendi til vitneskju hans um innihald flasknanna og hafi jafnvel verið undirbúin með það í huga að villa um fyrir tollvörðum. Viðbrögð hans að öðru leyti eftir að afskipti tollvarða af honum hófust, og ótrúverðugar skýringar hans á því hvers vegna hann neitaði að verða við óskum þeirra, um að opna Tequilaflöskuna, benda og til hins sama. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið verður að telja þann framburð ákærða, að hann hafi ekki haft neina vitneskju um það hvað umræddar flöskur höfðu að geyma, mjög ótrúverðugan.

Þegar allt framangreint er virt heildstætt, og jafnframt horft til misvísandi framburðar ákærða um ætlun hans að hitta hérlendis stúlkuna A,  telur dómurinn að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi vitað eða alla vega mátt vita hvaða efni raunverulega voru í umræddum flöskum og að tilgangur hans með ferðinni hafi verið að flytja þau til landsins í ágóðaskyni. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem tilgreind er í ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsivert brot hérlendis. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði stóð í ágóðaskyni að innflutningi mikils magns fíkniefna sem við athugun á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist vera af miklum styrkleika. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 27. febrúar 2006 til dagsins í dag.

Með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákæru eru gerð upptæk þau efni sem þar eru tilgreind og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 1.059.953 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Daða Kristjánssyni, fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Romas Kosakovskis, sæti fangelsi í 2 ½ ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 27. febrúar 2006 til dagsins í dag.

Upptækir skulu gerðir til ríkissjóðs 2.040 ml af vökva, sem inniheldur amfetamínbasa, og 678 ml af brennisteinssýru, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 1.059.953 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.