Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 19. janúar 2000. |
|
Nr. 22/2000. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Þórhalli Ölver Gunnlaugssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að Þ skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttadómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2000, sem barst réttinum 17. sama mánaðar ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2000, þar sem varnaraðila var með vísun til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. febrúar 2000 kl. 16, en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2000.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með vísan 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að ákærða, Þórhalli Ölver Gunnlaugssyni, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans, sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Með ákæru dagsettri 1. nóvember sl. höfðaði ríkissaksóknari opinbert mál á hendur Þórhalli Ölveri Gunnlaugssyni fyrir manndráp og þjófnað. Honum er gefið að sök að hafa aðfaranótt 14. júlí 1999 veist að Agnari Wilhelm Agnarssyni, f. 10. desember 1951 á heimili hans að Leifsgötu 28 í Reykjavík og banað honum með því að stinga hann hnífi eða hnífum mörgum sinnum í brjósthol, bæði framan og aftan frá. Er þetta brot talið varða við 211. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði sætir gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 í dag samkvæmt dómi Hæstaréttar uppkveðnum 3. desember sl.
Ákærði er undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi og telja verður brotið þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almanna hagsmuna. Aðalflutningur hefur þegar farið fram í máli ákæruvaldsins gegn Þórhalli Ölveri Gunnlaugssyni og er dóms að vænta 1. febrúar nk.
Að virtum gögnum málsins þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga vera fyrir hendi í máli þessu til að tekin verði til greina krafa ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir ákærða. Verður því ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 10. febrúar nk. kl. 16:00 en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans, sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, Þórhallur Ölver Gunnlaugsson, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 10. febrúar nk., kl. 16:00, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans.