Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2002


Lykilorð

  • Víxill


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. janúar 2003.

Nr. 399/2002.

Guðjón Ármann Jónsson

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Búnaðarbanka Íslands hf.

(Brynjólfur Kjartansson hrl.)

 

Víxilmál.

B hf. höfðaði mál á hendur G til greiðslu á víxilskuld. Var víxillinn gefinn út og framseldur af G, en samþykktur af J hf. Var víxillinn til tryggingar á yfirdrætti á tékkareikningi í B hf. G krafðist sýknu á þeim grundvelli að B hf. hafi skort heimild til að fylla út víxileyðublaðið auk þess sem réttur B hf. hafi fallið niður fyrir vangeymslu. Með dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var G gert að greiða B hf. stefnufjárhæðina með vísan til þess að B hf. hafi haft heimild til að rita útgáfudag og gjalddaga á víxileyðublaðið í samræmi við yfirlýsingu þar um, sem hafi verið fest við víxilinn. Væri ósannað B hf. hafi farið út fyrir heimild sína. Væru engin rök til að líta svo á að víxillinn hafi verið sýningarvíxill og víxilréttur B hf. því ekki fyrndur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 1. júlí 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 14. ágúst sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði áfrýjandi öðru sinni 27. ágúst 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Guðjón Ármann Jónsson, greiði stefnda, Búnaðarbanka Íslands hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2002

I

          Málið er höfðað  8. desember sl. og dómtekið 5. apríl sl.

          Stefnandi er  Búnaðarbanki Íslands hf., Austurstræti 5, Reykjavík.

          Stefndi er Guðjón Ármann Jónsson, Ljárskógum 29, Reykjavík.

          Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 9.950.115 krónur

með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. apríl 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

II

          Stefnandi kveður skuld stefnda við sig vera samkvæmt víxli að fjárhæð 10.000.000 króna.  Víxillinn hafi verið gefinn út í Reykjavík 12. janúar 1999 af stefnda, sem einnig hafi framselt hann, og samþykktur til greiðslu í Búnaðarbanka Íslands hf. í Kópavogi 10. apríl 2000 af Jöfri hf., sem ekki sé stefnt.  Stefnandi kveður víxil­inn vera tryggingarvíxil, sem standi til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi í Bún­aðarbanka Íslands hf. í Kópavogi og hafi verið nauðsynlegt að nota víxilinn vegna vanskila á yfirdrættinum.  Víxillinn sé án afsagnar og hafi hann því ekki verið afsagður. 

          Stefnandi rekur málið samkvæmt ákvæðum 17. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála og vísar máli sínu til stuðnings til ákvæða víxillaga nr. 93/1933.

III

          Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að víxileyðublað hafi verið afhent stefn­anda 12. janúar 1999 og hann hafi þá fært útgáfudaginn inn á það til að það yrði full­gildur víxill.  Gjalddagi hafi þá ekki verið tilgreindur, þ.e. víxillinn hafi verið með gjald­daga við sýningu, sbr. 2. mgr. 2. gr. víxillaga.  Útgáfustaðar hafi ekki verið getið á víxlinum og því sé Reykjavík tilgreindur útgáfustaður, sbr. 4. mgr. 2. gr. víxillaga, en sá staður sé ritaður við nafn stefnda sem útgefanda víxilsins.  Með víxlinum fylgdi yfirlýsing um heimild til útfyllingar en gildistíma hennar var ekki getið og byggir stefndi á því að það hafi átt að leiða til þess að víxillinn varð sýningarvíxill.  Það hafi því borið að sýna hann innan árs frá útgáfudegi, sbr. 1. mgr. 34. gr. víxillaga.  Þetta hafi ekki verið gert þar eð stefnandi hafi sett gjalddaga á víxilinn, 10. apríl 2000.  Stefnanda hafi hins vegar borið að setja gjalddaga í síðasta lagi 12. janúar 2000 og höfða síðan mál á hendur stefnda innan árs frá þeim gjalddaga til að slíta fyrningu gagn­vart honum, sbr. 2. mgr. 70. gr. víxillaga.  Þetta hafi stefnandi ekki gert heldur höfðað mál á hendur stefnda 17. mars 2001, er síðar var fellt niður 29. nóvember sama ár. 

          Samkvæmt framansögðu byggir stefndi á því að mál hafi ekki verið höfðað innan eins árs frá þeim lengstu tímamörkum, sem útfyllingarheimildin hafi náð til og hafi því stefnandi glatað víxilrétti á hendur sér fyrir vangeymslu og fyrir að hafa farið út fyrir umboð sitt, sbr. 10. gr. víxillaga.

          Þá byggir stefndi á því að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu á vist­un­ar­stað, sbr. 91. gr. víxillaga.  Þetta leiði til þess að víxilréttur sé niður fallinn fyrir van­geymslu samkvæmt 1. mgr. 53. gr. víxillaga, sbr. 4. gr., 38. gr. og 2. mgr. 46. gr. sömu laga.  Engu breyti hér um þótt á víxilinn sé skráð "án afsagnar".

          Loks bendir stefndi á að sér hafi ekki borist innheimtubréf vegna víxilsins og  af­rit af slíku bréfi sé ekki á meðal gagna málsins.  Fyrsta formlega tilkynningin um að víxill­inn væri í vanskilum hafi verið stefnan í fyrra máli stefnanda gegn sér.

III

          Meðal gagna málsins er ljósrit af víxlinum eins og hann var þegar hann var af­hentur stefnanda 12. janúar 1999.  Þar er hvorki skráður á hann útgáfudagur né gjald­dagi.  Við víxilinn er fest svohljóðandi yfirlýsing um heimild til útfyllingar:  "Viðfest víxil­eyðublað er hér með afhent Búnaðarbanka Íslands hf. til tryggingar yfir­drátt­ar­skuld samþykkjanda á tékkareikningi hans nr. 897 við bankann.  Víxileyðublaðið er út­fyllt með fjárhæð kr. 10.000.000 og áritað af samþykkjanda og útgefanda (og ábek­ingum), en óútfyllt hvað varðar útgáfudag og gjalddaga.  Verði vanskil á yfir­drátt­ar­skuld­inni er Búnaðarbanka Íslands hf. heimilt að breyta skuldinni ásamt drátt­ar­vöxtum og kostnaði í víxilskuld með útfyllingu þessa víxileyðublaðs að því er varðar út­gáfudag og gjalddaga og gera það þannig að fullgildum víxli.  Útfyllingarheimild þessi er óafturkallanleg og gildir til 12.07.2001."  Þessi yfirlýsing er dagsett í Kópa­vogi 12. janúar 1999 og undirrituð af stefnda og samþykkjanda víxilsins.

          Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að stefnandi hafi fært dag­setn­ing­una 12. janúar 1999 inn á víxilinn sem útgáfudag þann sama dag en ekki fært inn á hann gjalddagann og hafi það átt að leiða til þess að víxillinn varð gjaldkræfur við sýn­ingu.  Hér að framan var gerð nánari grein fyrir því til hvers þetta átti að leiða að mati stefnda.

          Eins og fram kemur í framangreindri yfirlýsingu, sem fest er við víxilinn, hafði stefn­andi heimild til að færa inn á víxileyðublaðið útgáfudag og gjalddaga og gera það þannig að fullgildum víxli.  Í 10. gr. víxillaga segir að sé víxill eigi ritaður að fullu, er hann er gefinn út, og sé hann seinna fylltur út á annan veg en um hafði verið samið, verði það eigi borið fyrir við víxilhafa, nema hann hafi vitað betur, er hann fékk víxilinn, eða sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. 

          Samkvæmt framangreindri yfirlýsingu hafði stefnandi heimild til að skrá á víxil­inn útgáfudag og gjalddaga og er ósannað að hann hafi við útfyllingu víxilsins farið út fyrir heimild sína samkvæmt yfirlýsingunni.  Það eru því engin rök til að líta svo á að víxillinn sé sýningarvíxill og er þeim málsástæðum stefnda hafnað, sem lúta að því að víxil­réttur stefnanda á hendur honum sé fyrndur.

          Á víxilinn er ritað "án afsagnar" og undirritað af stefnda og þurfti því stefnandi ekki að afsegja víxilinn.  Greiðslustaður víxilsins var Búnaðarbanki Íslands hf. í Kópa­vogi og er ekki annað fram komið í málinu en að hann hafi verið þar á gjalddaga.  Breytir engu um þessa niðurstöðu þótt sýnt hafi verið fram á af hálfu stefnda að víxill­inn hafi verið stimplaður 27. mars 2001 í stimpilvél í Búnaðarbankanum í Austurstræti í Reykjavík.  Þeirri málsástæðu stefnda að víxilréttur stefnanda á hendur honum hafi fallið niður vegna þess að víxillinn var ekki sýndur til greiðslu á vistunarstað er því hafnað.

          Samkvæmt framansögðu verður krafa stefnanda tekin til greina og stefndi auk þess dæmdur til að greiða honum 300.000 krónur í málskostnað.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

          Stefndi, Guðjón Ármann Jónsson, greiði stefnanda, Búnaðarbanka Íslands hf., 9.950.115 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. apríl 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.