Hæstiréttur íslands
Mál nr. 328/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 22. júní 2007. |
|
Nr. 328/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 1. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég tel að ekki séu nú fremur en áður uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrir því að beita varnaraðila gæsluvarðhaldi vegna þeirra sakargifta sem að honum beinast í þessu máli. Engin ný gögn eru komin fram sem breyta fyrri niðurstöðum mínum um þetta. Með þeim röksemdum sem fram koma í sératkvæðum 30. mars 2007 í máli nr. 178/2007 og 11. maí 2007 í máli nr. 255/2007 tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2007
Ár 2007, miðvikudaginn 20. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X [kennitala] [heimilisfang] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. ágúst 2007, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að málið hafi borist ríkissaksóknara þann 23. maí 2007. Niðurstaða geðheildbrigðisrannsóknar á ofangreindum X var kynnt embættinu þann 31. maí s.á. og með ákæru dagsettri sama dag höfðaði ríkissaksóknari opinbert mál á hendur X fyrir nauðgun. Er brot ákærða talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál ákærða var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. júní sl. Ákærði neitaði sök. Aðalmeðferð fer fram í dag, 20. júní 2007.
Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 19. mars sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna skv. a. Lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en frá 28. mars sl. á grundvelli almannahagsmuna skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sem framlengt var með dómi Hæstaréttar þann 11. maí sl. til dagsins í dag.
Með vísan til rannsóknargagna liggur kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot það sem tilgreint er í ákæru, en það getur varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Virðist sem tilviljun ein hafi ráðið því hver hafi orðið fyrir brotinu.
Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkis almannahagsmunir standa til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á er þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi, sbr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Vísast að öðru leyti til fyrri úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur og dóma Hæstaréttar um gæsluvarðhald ákærða.
Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 19. mars sl. fyrst vegna rannsóknarhagsmuna skv. a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 en frá 28. mars sl. á grundvelli almannahagsmuna skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra í málinu var gefin út 31. maí sl. og aðalmeðferð málsins stendur nú yfir fyrir dómi. Brot það sem að ákærða er gefið að sök varðar allt að 16 ára fangelsi skv. 194. gr. almennra hengningarlaga nr. 19/1940. Mál ákærða sætir nú dómsmeðferð og þess að vænta að dómur verði kveðinn upp fljótlega. Með hliðsjón af alvarleika brotsins er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald ákærða. Er því fallist á kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald hans en eftir atvikum þykir rétt að það standi ekki lengur en til miðvikudagsins 1. ágúst 2007, kl. 16.00.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X [kennitala] [heimilisfang] skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. ágúst 2007, kl. 16.00.