Hæstiréttur íslands

Mál nr. 628/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


         

Þriðjudaginn 27. nóvember 2007.

Nr. 628/2007.

Ríkislögreglustjóri

(Björn Þorvaldsson, settur saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi til föstudagsins 21. desember 2007, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                  Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2007.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað verði með vísan til 110. gr., sbr. b.-lið 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að X, kennitala [...], verði bönnuð brottför af Íslandi í einn mánuð, eða til föstudagsins 21. desember n.k. kl. 16:00.

Í greinargerð Ríkislögreglustjórans kemur fram að fimmtudaginn 22. nóvember 2007 hafi embætti Ríkislögreglustjóra borist kæra Skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur kærðu, A ehf. og B, byggð á bráðabirgðaskýrslu Skatt­rann­sóknar­stjóra vegna meintra skatta- og bókhaldsbrota framin í rekstri A ehf., kt. [...], á rekstrarárinu 2006 og janúar til og með ágúst rekstrarárið 2007. Kærða sé skráð stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Skatt­rann­sókn­ar­stjóra hafi þann 5. nóvember s.l. borist upplýsingar sem hafi vakið grunsemdir um að kærða hygðist fara úr landi, sbr. meðfylgjandi afrit bréfs C til Skatt­rann­sóknarstjóra. Þá komi fram í bréfi Skattrannsóknarstjóra til embættis Ríkislögreglu­stjóra dags. 22. nóvember s.l. að samkvæmt upplýsingum frá D, for­ráða­manni E ehf., hyggðist B, eiginmaður kærðu, fara til Póllands 21. nóvember.

Meint brot kærðu séu eftirfarandi samkvæmt kæru frá Skattrannsóknarstjóra:

1.             Vanræksla á færslu bókhalds og varðveislu bókhaldsgagna. Möguleg brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr., laga um bókhald nr. 145/1994.

2.             Vanræksla á skilum skattframtals og vanframtaldar rekstrartekjur. Skattframtali A ehf. var ekki skilað gjaldárið 2007, vegna rekstrarársins 2006. Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu Skattrannsóknarstjóra nema vanframtaldar rekstrar­tekjur kr. 29.414.494, en möguleg rekstrargjöld kr. 11.907.834. Möguleg brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

3.             Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum, vanræksla á að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum, vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Möguleg brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

4.             Vanræksla á að standa skil á greinargerðum um reiknað endurgjald og skila­greinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af reiknuðu endurgjaldi, þ.m.t. tryggingagjalds. Vanræksla á að standa skil á skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna á lögmæltum tíma. Möguleg brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 11. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990.

Rannsókn málsins hafi verið sett í forgang hjá Ríkislögreglustjóra og hafi hafist um leið og kæran hafi borist. Fyrirhugað sé að flýta rannsókn málsins og ákvarðanatöku um útgáfu ákæru eins og kostur sé.  

Í þágu rannsóknar málsins þyki, með vísan til þess sem að framan er rakið, brýna nauðsyn bera til að dómari leggi fyrir kærðu að halda sig á Íslandi allt til föstudagsins 21. desember n.k. kl. 16:00

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggur fyrir kæra Skattrannsóknarstjóra vegna ætlaðra brota varnaraðila á almennum hegningarlögum, lögum um virðisaukaskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingargjald.  Sakarefnin eru skv. greinargerð Ríkislögreglustjóra umtalsverð og er varnaraðili því undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi.  Þá liggja fyrir grunsemdir um að kærða og fjölskylda hennar muni hugsanlega fara af landi brott á næstunni.   Er um það vísað til upplýsinga frá tengdaföður kærðu og fyrirsvarsmanni E ehf. 

Með vísan til þessa er hætta á að kærða fari af landi brott og komi sér þannig hjá rannsókn og eftir atvikum saksókn vegna hugsanlegra brota.  Fulltrúi Ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir að rannsókn málsins sé í forgangi og megi eftir atvikum ljúka henni innan tveggja eða þriggja vikna.  Með hliðsjón af því, sbr. 110 gr., sbr. b-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, verður fallist á kröfu Ríkislögreglustjóra um farbann yfir kærðu svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærðu, X, kt. [...], er bönnuð brottför af Íslandi til föstudagsins 21. desember n.k. kl. 16:00.