Hæstiréttur íslands

Mál nr. 855/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kröfulýsing
  • Riftun


Föstudaginn 9. janúar 2015

Nr. 855/2014.

Halldór Pétursson

(Jón G. Briem hrl.)

gegn

þrotabúi Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Riftun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að krafa hans í þrotabú K yrði annars vegar tekin inn á kröfulýsingarskrá og hins vegar samþykkt, þ.e. að fallist yrði á riftun á kaupsamningi milli H og K um tiltekna fasteign sem K seldi síðar G. Hæstiréttur taldi að eins og kröfugerð H væri háttað hefði hann ekki lögvarða hagsmuni af því að sérstaklega yrði leyst úr fyrri þætti hennar. Að því er varðaði kröfu H um að fallist yrði á riftun á kaupsamningnum taldi Hæstiréttur að þrotabú K hefði á skiptafundi ákveðið að nýta heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að taka við réttindum og skyldum K samkvæmt samningnum og hefði H verið bundinn af þeirri ákvörðun. Hefði H þannig ekki verið heimilt að slíta samningnum á grundvelli 1. mgr. 93. gr. sömu laga. Var kröfu H um riftun á kaupsamningnum því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila „um að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 21. janúar 2014 verði tekin inn á kröfuskrá og samþykkt, það er að fallist verði á riftun á kaupsamningi 10. nóvember 2010 um fasteignina Baugholt 14 í Reykjanesbæ“. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt framansögðu er kröfugerð sóknaraðila tvíþætt. Lýtur fyrri þáttur hennar að því að krafa hans um riftun á kaupsamningi 10. nóvember 2010 um fasteignina Baugholt 14 í Reykjanesbæ verði tekin á skrá um lýstar kröfur á hendur varnaraðila, en sá síðari að krafan verði samþykkt. Eins og kröfugerð sóknaraðila er háttað hefur hann ekki lögvarða hagsmuni af því að leyst sé sérstaklega úr fyrri þætti hennar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir keypti Kristjana Heiður Gunnarsdóttir áðurgreinda fasteign af sóknaraðila samkvæmt kaupsamningi 10. nóvember 2010. Með kaupsamningi 6. apríl 2011 seldi Kristjana Heiður eignina Guðmundu Pálsdóttur. Á þeim samningi er að finna samþykki sóknaraðila sem þinglýsts eiganda eignarinnar, staðfest með eiginhandarundirritun hans sjálfs. Þar sem ekki hafa verið færðar sönnur á að undirritunin sé fölsuð, eins og sóknaraðili heldur fram, verður litið svo á að hann hafi samþykkt söluna fyrir sitt leyti.

 Sóknaraðili reisir kröfu sína um riftun á kaupsamningnum frá 10. nóvember 2010 á því að varnaraðili hafi ekki nýtt sér rétt til að ganga inn í samninginn þrátt fyrir áskorun sína þess efnis 27. desember 2013. Því telur varnaraðili sig hafa rétt til að slíta samningnum á grundvelli 1. mgr. 93. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. þeirra laga var varnaraðila heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt kaupsamningnum. Á skiptafundi 30. apríl 2014 lýsti skiptastjóri varnaraðila því yfir að krafa sóknaraðila yrði ekki tekin á skrá yfir lýstar kröfur „að svo stöddu“, en taldi engu að síður rétt „að ná samkomulagi“ við hann um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt samningnum. Með þessu verður talið að varnaraðili hafi ákveðið að nýta heimild sína til að taka við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt samningnum og hafi sóknaraðili verið bundinn af þeirri ákvörðun eins og atvikum var háttað. Verður kröfu hans um riftun samningsins því hafnað.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað í héraði skal vera óraskað. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Kröfu sóknaraðila, Halldórs Péturssonar, um riftun á kaupsamningi 10. nóvember 2010 um fasteignina Baugholt 14 í Reykjanesbæ er hafnað.

Staðfest er ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað í héraði.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2014.

                Mál þetta var þingfest 14. október 2014 og tekið til úrskurðar 12. nóvember sl.

                Sóknaraðili er Halldór Pétursson, Klapparbraut 9, Garði.

                Varnaraðili er þb. Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur, Hlíðarvegi 52, Reykjanesbæ.

                Sóknaraðili krefst þess að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 21. janúar 2014 verði tekin inn á kröfuskrá og samþykkt, það er að fallist verði á riftun á kaupsamningi um fasteignina Baugholt 14, Reykjanesbæ. Þá er krafist málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað með álagi.

I

                Með kaupsamningi 10. nóvember 2010 keypti Kristjana Heiður Gunnarsdóttir fasteignina Baugholt 14 í Reykjanesbæ af sóknaraðila. Með kaupsamningi 6. apríl 2011 seldi Kristjana Heiður fasteignina til Guðmundu Pálsdóttur. Sóknaraðili samþykkti kaupsamninginn fyrir sitt leyti með sérstakri áritun á samninginn. Þann 13. september 2012 höfðaði sóknaraðili mál á hendur Kristjönu Heiði Gunnarsdóttur og krafðist þess að henni yrði gert að þola riftun á kaupsamningi um Baugholt 14. Dómur héraðsdóms gekk í málinu 27. maí 2013 og var Kristjana Heiður sýknuð af kröfu sóknaraðila þar sem skilyrði riftunar þóttu ekki vera fyrir hendi. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar Íslands 10. júlí 2013 og krafðist þess að Kristjana Heiður yrði dæmd til að þola riftun á kaupum um fasteignina Baugholt 14 samkvæmt kaupsamningi 10. nóvember 2010.

                Þann 27. september 2013 gerðu Kristjana Heiður Gunnarsdóttir og Guðmunda Pálsdóttir sátt í héraðsdómsmálinu nr. 152/2013 þar sem segir að stefnda Guðmunda greiði til Kristjönu Heiðar 3.500.000 krónur sem fullnaðargreiðslu vegna kaupa Guðmundu á fasteigninni Baugholti 14. Skyldi greiða inn á reikning lögmannsstofunnar Lögheima ehf. Tekið er fram að greiðslan sé skilyrt því að Kristjana Heiður gefi út afsal fyrir eigninni og að áhvílandi veðskuldum, sem séu kaupanda óviðkomandi verði aflétt í samræmi við kaupsamning. Þá segir að greiðslan falli í gjalddaga þann dag þegar ágreiningur á milli Kristjönu Heiðar og sóknaraðila hafi verið leystur. Orðrétt segir í sáttinni: „Felur þetta nánar tiltekið í sér, að þegar fyrirliggjandi er skv. Hæstaréttardómi í máli á milli aðilanna (nr. 468/2013) eða samkomulagi á milli aðila, hver greiðsluskylda stefnanda er til afsalshafa, fellur krafan í gjalddaga.“

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. nóvember 2013 var bú Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur tekið til gjaldþrotaskipta og Sveinn Guðmundsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri í búinu. Þrotabúið tók við aðild að framangreindu Hæstaréttarmáli. Þann 12. desember 2013 gekk dómur í Hæstarétti og var dómur héraðsdóms látinn óraskaður.

                Í greinargerð sóknaraðila segir að lögmaður hans hafi sent skiptastjóra þrotabús Kristjönu Heiðar fyrirspurn í bréfi 27. desember 2013 í samræmi við 91. gr. laga nr. 21/1991 um það hvort þrotabúið muni nýta sér rétt til að ganga inn í kaupsamning þrotamanns við sóknaraðila um Baugholt 14. Hafi því ekki verið svarað, en að loknum tímafresti sem hafi verið veittur í bréfinu hafi verið send kröfulýsing 21. janúar 2014 sem hafi verið móttekin af skiptastjóra 23. s.m. Í kröfulýsingunni sé krafist riftunar á kaupunum og að skiptastjóri staðfesti hana. Krafan hafi ekki verið tekin inn á skrá yfir lýstar kröfur í búið.

                Samkvæmt fundargerð skiptafundar í þrotabúinu 4. mars 2014 var fjallað um skrá yfir lýstar kröfur á fundinum. Lögmaður sóknaraðila mætti til fundarins. Á fundinum var fjallað um kröfulýsingu sóknaraðila í búið með þeirri niðurstöðu að skiptastjóri tæki sér frest til að ákveða framhald málsins. Í fundargerð skiptafundar í búinu 30. apríl 2014 segir um sömu kröfu að skiptastjóri hafi verið búinn að ákveða að taka kröfulýsingu sóknaraðila ekki að svo stöddu inn á kröfuskrá þar sem hún væri bæði óljós og ekki nægjanlega vel rökstudd. Þá vísaði skiptastjóri einnig til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 468/2013. Loks segir í fundargerð skiptafundar 15. september 2014 að þrotabúið eigi eftir að greiða sóknaraðila eftirstöðvar kaupverðs, 1.120.000 krónur, að frádregnum tildæmdum málskostnaði, 864.750 krónur eða samtals 255.250 krónur, að teknu tilliti til vaxta og gegn útgáfu afsals fyrir eigninni. Þá segir eftirfarandi orðrétt í fundargerðinni: „Jón Briem, hrl. umboðsmaður kröfuhafans Halldórs Péturssonar krafðist þess að staðfest verði að kaup á milli þrotaaðila og hans séu niður fallinn og vísar í því sambandi til kröfulýsingar dags. 21. janúar 2014. Skiptastjóri tók þá ákvörðun að ótækt væri að taka kröfu hans til greina bæði að formi og efni og vísar í afstöðu sína frá fyrri skiptafundum.“

                Með tölvupósti til skiptastjóra 8. september 2014 var staðfest að greiðsla að fjárhæð 3.500.000 krónur verði greidd þrotabúi Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur við útgáfu afsals fyrir Baugholti 14 gegn því skilyrði að veðböndum á 3. og 4. veðrétti verði aflétt af eigninni.

                Með bréfi 16. september 2014 krafðist skiptastjóri þrotabúsins úrlausn héraðsdóms um ágreining um þrjár lýstar í búið, það er kröfu sóknaraðila máls þessa, svo og kröfur Jónasar A. Jónassonar og Lögmanna Laugardal á hendur búinu. Umboðsmaður kröfuhafa síðarnefndu krafnanna mættu ekki við þingfestingu málsins og tilkynnti 30. október síðastliðinn að fallið yrði frá kröfunum.

II

                Sóknaraðili kveðst byggja á því að í kröfulýsingu hans séu uppfyllt öll skilyrði sem sett séu í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hafi skiptastjóri staðfest móttöku hennar í samræmi við 3. mgr. nefndrar greinar og samkvæmt því hafi krafan borist innan kröfulýsingarfrests. Sóknaraðili kveðst telja að því sé engin heimild fyrir því að taka kröfuna ekki inn á kröfuskrá.

                Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 beri skiptastjóra, fallist hann ekki á kröfulýsingu að hluta eða öllu leyti, að tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu sína með minnst viku fyrirvara fyrir skiptafund sem fjallar um kröfuskrá. Það hafi ekki verið gert. Fyrir skiptafundinn 4. mars 2014 hafi ekki legið fyrir að krafa sóknaraðila væri ekki á kröfuskrá og ekki hafi heldur komið fram afstaða skiptastjóra til hennar á fundinum. Hvorttveggja hafi komið fram á skiptafundi 30. apríl 2014 með eftirfarandi bókun: „Þá var skiptastjóri búinn að ákveða að taka ekki inn á kröfulýsingarskrána „kröfulýsingu“ Halldórs Péturssonar að svo stöddu þar sem hún hafi bæði verið óljós og ekki nægjanlega vel rökstudd með hliðsjón af meginreglum laga nr. 21/1991.“ Því sé mótmælt að þessi rök skiptastjóra geti leitt til þess að ekki skuli taka kröfuna inn á kröfuskrá. Kröfulýsingin sé skýr um meginatriðið. Með henni sé krafist staðfestingar á niðurfellingu kaupsamnings.

Meginregla sé samkvæmt 91. gr. laga nr. 21/1991 að gagnkvæmir samningar þrotamanns falli niður við töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Hins vegar sé þrotabúi heimilt að taka við réttindum samkvæmt slíkum samningum en þá verði það að aðhafast eitthvað ákveðið í því skyni. Þar sem óvissa um þetta geti valdið viðsemjanda þrotamanns óþægindum geti hann krafist svars um það hvort þrotabúið nýti heimild sína. Þrotabúið hafi hvorki aðhafst neitt í þá veru að taka við réttindum samkvæmt kaupsamningnum né svarað innan hæfilegs frests hvort það mundi nýta sér heimildina. Byggi sóknaraðili á því að samningurinn sé fallinn niður í samræmi við meginreglu 91. gr. laga nr. 21/1991 um að gagnkvæmir samningar þrotamanns falli niður við töku bús hans til gjaldþrotaskipta og einnig vegna þess að skiptastjóri hafi ekki svarað innan hæfilegs tíma fyrirspurn um hvort þrotabúið hygðist taka við réttindum samkvæmt samningnum. Í bréfi 27. desember 2013 hafi verið gefinn 24 daga frestur til svars. Byggt sé á því að skiptastjóri hafi þá þegar vitað hverjir væru stærstu kröfuhafar í þrotabúinu þannig að hann hafi þá getað ráðfært sig við þá, teldi hann þess þörf. Það hafi líka verið eðlilegt að frestlok yrðu innan kröfulýsingarfrests til að sóknaraðili gæti lýst kröfu sinni innan frestsins ef þörf krefði. Byggt sé á því að gefinn frestur hafi verið hæfilegur. Vísað sé til 1. mgr. 93. gr. laga nr. 21/1991 um heimild til að slíta samningnum gangi þrotabúið ekki inn í hann. Samningnum sé slitið með kröfulýsingunni. 

III

                Varnaraðili kveðst byggja á því að bréf sóknaraðila sem sé nefnt kröfulýsing sé þannig úr garði gerð að ekki sé fært að taka hana á kröfuskrá. Framsetning sem kröfulýsing sé óljós þegar sóknaraðili fari með einföldum hætti fram á það að skiptastjóri samþykki að kaupin á milli aðila hafi fallið niður. Ljóst megi vera að skiptastjóri geti ekki með framangreindum hætti fallist á þessa beiðni sóknaraðila í bréfi 21. janúar síðastliðinn. Skiptastjóri geti skapað sér ábyrgð gagnvart öðrum kröfuhöfum hefði hann fallist á slíka eftirgjöf. 

                Samkvæmt greinargerð sóknaraðila liggi fyrir að hann byggi kröfu sína ekki á meintum eftirstöðvum kaupverðs heldur byggi á því að hann eigi rétt á því að beiðnin verði tekin á kröfuskrá. Skiptastjóri telji ekki tækt að taka erindi sóknaraðila til greina þó svo hann kjósi að kalla það kröfulýsingu. Skiptastjóri hafi tilkynnt afstöðu sína strax á fyrsta skiptafundi 4. mars, en tekið sér frest til að ákveða framhald málsins til að skoða erindi sóknaraðila nánar. Á skiptafundi 30. apríl hafi skiptastjóri talið að ekki væri fært að taka erindi sóknaraðila á kröfuskrá sem kröfulýsingu að svo stöddu þar sem það væri bæði óljóst og ekki nægjanlega rökstutt með hliðsjón af meginreglum laga. Þrátt fyrir allt hafi skiptastjóri verið tilbúinn til að ná samkomulagi við sóknaraðila eins og fram komi í fundargerð skiptafundar 30. apríl 2014. Á skiptafundi 15. september sama ár hafi verið ljóst að ekki væri hægt að jafna ágreining eða ná samkomulagi við sóknaraðila og hafi skiptastjóri vísað í fyrri afstöðu sína þar sem enginn frekari rökstuðningur hafi verið lagður fram af hálfu sóknaraðila.

                Sóknaraðili byggi að því er virðist á 91. gr. laga nr. 21/1991 þar sem skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu innan hæfilegs frests þá sé samningurinn fallinn niður. Taka verði tillit til þeirrar staðreyndar sem komi fram í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 468/2013 að samningurinn sé ekki riftanlegur eins og sóknaraðili hafi reynt að fá viðurkennt í málinu. Þá liggi fyrir að eftirstöðvar kaupverðs, að teknu tilliti til málskostnaðar sem fallið hafi á sóknaraðila, geri það að verkum að mögulega skuldi sóknaraðili þrotabúinu að teknu tilliti til vaxta. Með öðrum orðum sé samningurinn uppfylltur samkvæmt efni og eftir sé að gefa út afsal og aflétta veðböndum af hálfu sóknaraðila. Verði því ekki annað séð en að sóknaraðili eigi í reynd ekki kröfu á þrotabúið. Þá sé krafa sóknaraðila byggð á misskilningi varðandi skýringu á nefndri lagagrein. Í 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 segi að þrotabúi sé heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamanns eftir gagnkvæmum samningi. Verði að líta svo á að þarna sé aðallega um að ræða samning um atvinnustarfsemi sem þrotamaður hafi stundað. Geti verið um að ræða hagsmunamál fyrir búið að geta gengið inn í slíka samninga til þess að geta notið þeirra réttinda sem slíkur samningur kunni að veita og til þess að geta haldið áfram rekstri meðan hagkvæmt eða nauðsynlegt þyki.

                Þá verði heldur ekki annað séð en að með þeirri framkvæmd að búið hafi ráðstafað eigninni til þriðja aðila með fullri vitneskju sóknaraðila fyrir frestdag, og þar sem skiptastjóri rengi ekki þá sölu, hafi búið með því í reynd viðurkennt að það gengi ekki inn í kaupsamning milli aðila og þurfi það ekki frekari staðfestingar við. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi samþykkt samninginn sérstaklega sem þinglýstur eigandi.

Kröfuna um álag á málskostnað kveðst varnaraðili byggja á þeirri staðreynd að sókn þessi sé með öllu tilhæfulaus og án þess að nokkur lagagrundvöllur sé til staðar til sóknar í málinu af hálfu sóknaraðila. Því sé krafist álags á málskostnað, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um málskostnað er að öðru leyti byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

                Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að svofelld krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 21. janúar 2014 verði samþykkt af skiptastjóra þrotabús Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur og tekin á kröfuskrá: „Krafa um riftun á kaupsamningi dagsettum 10.11.2010 um fasteignina Baugholt 14, Reykjanesbæ, sem þrotamaður keypti af umbj. mínum.“  

                Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal sá sem halda vill uppi kröfu á hendur þrotabúi lýsa henni fyrir skiptastjóra. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal kröfulýsing vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð. Tiltaka skal kröfur svo skýrt sem verða má, fjárhæð kröfu og vaxta og hverrar stöðu sé krafist að krafan njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðunar á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu, lausn undan tiltekinni skyldu við búið, skyldu til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni. Í kröfulýsingu skal greina málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur þrotabúinu á og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Að mati dómsins uppfyllir kröfulýsing sóknaraðila, sem varðar kaupsamnings hans og þrotamanns, framangreind skilyrði 117. gr. laga nr. 21/1991.

                Í kröfulýsingu sóknaraðila til skiptastjóra segir meðal annars að með bréfi 27. desember 2013 hafi lögmaður sóknaraðila beint fyrirspurn til skiptastjóra varnaraðila um það hvort þrotabúið hygðist ganga inn í kaupsamning um fasteignina Baugholt 14, Reykjanesbæ og gefið 24 daga frest til að svara fyrirspurninni. Þar sem svar hafi ekki borist verði að túlka það sem svo að búið hyggist ekki ganga inn í kaupsamninginn. Síðan segir orðrétt: „Þess er því óskað að þér staðfestið sem fyrst að kaupin séu fallin niður.“ 

                Fyrir liggur að sóknaraðili og Kristjana Heiður Gunnarsdóttir gerðu 10. nóvember 2010 með sér kaupsamning um fasteignina Baugholt 14. Með kaupsamningi 6. apríl 2011 seldi Kristjana Heiður eignina til Guðmundu Pálsdóttur. Þann 13. september 2012 höfðaði sóknaraðili mál á hendur Kristjönu Heiði og krafðist riftunar á kaupsamningi þeirra um fasteignina. Úr þeirri kröfu var leyst með dómi Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2013 og síðar dómi Hæstaréttar Íslands 12. desember 2013 í málinu númer 468/2013. Var riftunarkröfu sóknaraðila hafnað á báðum dómstigum og honum gert að greiða varnaraðila samtals 864.750 krónur í málskostnað. 

                Í máli því sem hér er til úrlausnar lýtur umdeild krafa sóknaraðila að því að kaupsamningi hans og Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur um fasteignina Baugholt 14 verði rift. Hin lýsta krafa er þó einvörðungu rökstudd með staðhæfingu sóknaraðila um að kaupsamningurinn hafi fallið niður samkvæmt 93. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem því hafi ekki verið lýst yfir af skiptastjóra búsins að þrotabúið ætlaði að nýta sér heimild samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 til að taka við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt samningnum. Samkvæmt þessu lýsir sóknaraðili kröfu um riftun í þrotabúið en byggir kröfu samkvæmt kröfulýsingu ekki á þeirri málsástæðu heldur því að kröfulýsingin hafi verið fullnægjandi og að kaupsamningur um fasteignina sé fallinn niður.

Ekki er deilt um það að kaupandi hefur ekki að fullu og öllu efnt títtnefndan kaupsamning um Baugholt 14. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands er við það miðað að ógreiddar eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar nemi 1.120.000 krónum en fjárhagslegir hagsmunir sóknaraðila eru í reynd mun minni nú ef tekið er tillit til kostnaðar sem fallið hefur á sóknaraðila vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Að þessu virtu og því sem að framan greinir þykir ljóst að þrotabúið hafi hvorki hagsmuni né heimild til riftunar kaupsamningsins eins og sóknaraðili krefst. Þá fellst dómurinn á það með varnaraðila að þrotabúið geti bakað sér bótaábyrgð gagnvart öðrum kröfuhöfum yrði fallist á kröfu sóknaraðila. Með vísan til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar Íslands færu lok fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila í tilviki sem þessu fram með innheimtu á ógreiddum eftirstöðvum kaupverðsins og eftir atvikum aðför og nauðungarsölu en ekki riftun. Þá er það mat dómsins að ekki reyni á túlkun á 91. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. í máli þessu þar sem hin umdeilda krafa sóknaraðila varðar eins og fram er komið riftun á tilteknum samningi en sóknaraðili gerir ekki kröfu um að þrotabúið gangi inn í gagnkvæman samning þrotamanns, sbr. ákvæði 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991. Slík ákvörðun er samkvæmt nefndu ákvæði háð mati skiptastjóra í hverju tilviki.

                Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að hafna kröfu sóknaraðila um að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 21. janúar 2014 verði tekin inn á kröfuskrá og samþykkt, það er að fallist verði á riftun á kaupsamningi um fasteignina Baugholt 14 í Reykjanesbæ.

                Eftir þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað. Varnaraðili krefst álags á málskostnað með vísan til þess að málssóknin sé tilhæfulaus. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að dæma aðila til að greiða gagnaðila sínum álag á málskostnað ef sakir hans samkvæmt 1. mgr. greinarinnar eru miklar. Á það við ef mál er höfðað að þarflausu eða án tilefnis eða að kröfur eru hafðar uppi, staðhæfingar og mótbárur sem hann vissi eða mátti vita að voru rangar eða haldlausar. Svo sem að framan greinir lýtur krafa sóknaraðila að riftun á kaupsamningi frá 10. nóvember 2010. Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í títtnefndu máli nr. 468/2013 milli sóknaraðila og Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur var sóknaraðila eða mátti vera ljóst að lagaskilyrði stæðu ekki til þess að krafa hans yrði tekin til greina. Verður samkvæmt því fallist á kröfu varnaraðila um álag á málskostnað samkvæmt heimild í 2. mgr., sbr. a. og c. liði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þykir málskostnaður varnaraðila hæfilega ákveðinn 400.000 krónur að virðisaukaskatti meðöldum.

                Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

                Kröfu sóknaraðila, Halldórs Péturssonar, um að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu 21. janúar 2014 verði tekin inn á kröfuskrá og samþykkt, það er að fallist verði á riftun á kaupsamningi 10. nóvember 2010 um fasteignina Baugholt 14 í Reykjanesbæ, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Kristjönu Heiðar Gunnarsdóttur, 400.000 krónur í málskostnað.