Hæstiréttur íslands

Mál nr. 652/2011


Lykilorð

  • Fjármögnunarleiga
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 24. maí 2012.

Nr. 652/2011.

Lýsing hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Smákrönum ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.

Einar Hugi Bjarnason hdl.)

Fjármögnunarleiga. Lánssamningur. Gengistrygging.

S ehf. höfðaði mál gegn L hf. og krafðist endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt á grundvelli fjármögnunarleigusamnings aðila á milli. Ekki var fallist á með S ehf. að samningur aðila hefði verið lánssamningur og þá einkum með vísan til þess að ósannað var talið að samist hefði um að S ehf. eignaðist hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans. Þóttu ákvæði laga nr. 38/2001 því ekki girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. L hf. var því sýknað af kröfum S ehf. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. desember 2011. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerði stefndi, sem þá hét Hreinsun og ráðgjöf ehf., fjármögnunarleigusamning við áfrýjanda í maí 2004 um smákrana, sem keyptur var í Englandi. Aðilarnir gerðu sambærilega samninga um tvo aðra smákrana í nóvember 2006 og ágúst 2007. Þeir gerðu síðan 31. október 2007 samninginn, sem mál þetta fjallar um, um fjórða smákranann.

Svo sem nánar er lýst í héraðsdómi er síðastnefndi samningurinn í 35 greinum. Samkvæmt yfirskrift hans er hann fjármögnunarleigusamningur og gengistryggður. Þar er tiltekið að áfrýjandi sé leigusali og stefndi leigutaki. Í 1. gr. segir að hið leigða sé Unic URW 506 smákrani, í 3. gr. að stefndi sé seljandi hins leigða og í 15. gr. að áfrýjandi sé eigandi þess. Í 2. gr. samningsins kemur fram að leigugrunnur sé 7.594.500 krónur með virðisaukaskatti. Fjárhæð án virðisaukaskatts er tilgreind 6.100.000 krónur og er sú fjárhæð einnig umreiknuð í erlenda gjaldmiðla, japönsk yen og svissneska franka, sem fjárhæðir í samningnum eru tengdar við. Stefndi ber því við að þessi samningur við áfrýjanda sé samkvæmt efni sínu í raun lánssamningur og hafi því verið óheimilt að binda fjárhæð greiðslna hans við gengi erlendra gjaldmiðla. Á þeim grunni höfðaði stefndi mál þetta 8. september 2010 til að endurheimta fjárhæð, sem hann taldi sig hafa ofgreitt áfrýjanda af þessum sökum.

Áður en málið kom til aðalmeðferðar í héraði var 20. október 2011 kveðinn upp í Hæstarétti dómur í máli nr. 282/2011. Í því máli höfðu aðilar gert samning, sem nefndur var fjármögnunarleigusamningur, en greindi á um hvort hann væri það í raun eða lánssamningur. Að virtum skilmálum í þeim samningi var í dóminum komist að þeirri niðurstöðu að heiti samningsins væri nafnið tómt og hafi þar í raun verið veitt lán til kaupa á vinnuvél, sem kosið hafi verið að klæða í búning leigusamnings. Að gengnum þessum dómi sendi héraðsdómari málsaðilum orðsendingu 7. nóvember 2011, þar sem óskað var eftir samantekt um málsástæður í þessu máli, sem fordæmi hafi ekki fengist um með dóminum. Fyrir Hæstarétti hefur málið einkum verið flutt með tilliti til þessa.

II

Samningurinn, sem mál þetta varðar, er í ýmsum atriðum frábrugðinn samningnum, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011. Þannig eru stöðluð ákvæði samningsins í þessu máli skýr og eiga eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Þá er í samningi málsaðila fjallað um leigu og er áfrýjandi þar ítrekað nefndur leigusali. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi eru á hinn bóginn nokkur ákvæði í samningnum, sem eru hliðstæð samningnum sem dómur í máli nr. 282/2011 tók til. Þannig er áfrýjanda heimilað að reikna leigugjald til samræmis við breytingar, sem kunna að verða á millibankavöxtum af japönskum yenum og svissneskum frönkum, stefndi ber sem leigutaki áhættu af því að hið leigða farist, skemmist eða rýrni og honum er að auki skylt að greiða fjárhæð, sem svarar til leigu til loka samningstíma að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningnum verður rift. Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu er ekki annað leitt í ljós en að samningurinn sé um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans bendir til. Af þessum sökum girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfu stefnda.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Lýsing hf., er sýkn af kröfu stefnda, Smákrana ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 16. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Smákrönum ehf., Álfhólsvegi 85, Kópavogi, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 8. september 2010.

Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda samtals 1.076.183 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. september 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

Stefnandi er fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Erlings Snæs Erlingssonar og Hildar Bjargar Ingibertsdóttur. Fyrirtækið var stofnað á árinu 2003 undir heitinu Hreinsun og ráðgjöf ehf. Nafni félagsins var breytt hinn 8. apríl 2009 í núverandi heiti.

Stefnandi kveður að í byrjun árs 2004 hafi Erlingur Snær rekist á tímaritsgrein í erlendu fagtímariti þar sem sagt var frá sölu á fyrsta UNIC smákrananum til Evrópu. Fyrirsvarsmenn stefnanda fóru til Englands að skoða UNIC smákrananna hjá dreifingaraðila tækjanna, og ákváðu að festa kaup á einum slíkum. Jafnframt var ákveðið að stefnandi yrði umboðs- og söluaðili UNIC á Íslandi. Seinni hluta árs 2006 var kraninn endurnýjaður og sambærilegur krani fenginn með auknum aukabúnaði. Haustið 2007 var annar sambærilegur smákrani keyptur.

Haustið 2007 ákváðu fyrirsvarsmenn stefnanda að kanna þann möguleika að kaupa stærri smákrana til landsins en þá sem þegar voru í notkun hjá félaginu. Stefnandi kveður að haft hafi verið samband við dreifingaraðila kranans á Englandi þar sem þeim var boðinn til kaups UNIC krani að gerðinni URW 506. Hins vegar kostaði kraninn talsverða fjármuni og því ljóst að fjármagna þyrfti kaupin að hluta til með lánsfé. Af þessum sökum kveðst stefnandi hafa haft samband við stefnda sem féllst á að veita honum peninga til kaupanna.

Svo samdist um milli stefnanda og stefnda að sá fyrrnefndi legði til 2.500.000 kr. til kaupanna, en það sem eftir stæði u.þ.b. 3.600.000 kr. fengi stefnandi hjá stefnda. Ákveðið var að stefnandi myndi sjá um kaupin að öllu leyti, þ.e.a.s. að greiða dreifingaraðilanum á Englandi kaupverðið og allan kostnað sem hlytist af því að koma krananum til landsins, þ.m.t. flutningsgjöld, tolla o.fl.

Hinn 9. október 2007 millifærði stefndi 3.600.000 kr. inn á bankareikning stefnanda, og daginn eftir millifærði stefnandi kaupverð kranans, 5.954.445 kr., út af sama bankareikningi inn á reikning breska fyrirtækisins UNIC Cranes (Europe). Eimskip hf. flutti kranann til landsins og greiddi stefnandi allan flutningskostnað, 235.489 kr. hinn 23. október 2007.

Stefnandi kveður að hinn 30. október 2007 hafi hann sent, að beiðni stefnanda, reikning, með reikningsnúmerinu 1054, á þann síðarnefnda fyrir heildarkaupverði kranans, 6.100.000 kr. auk virðisaukaskatts að fjárhæð 1.494.500 kr., samtals 7.594.500 kr. Daginn eftir, eða 31. október 2007, var undirritaður svonefndur fjármögnunarleigusamningur milli stefnanda og stefnda sem ber númerið 144120-121. Sama dag gaf stefndi út staðgreiðslureikning/kvittun sem send var stefnanda þar sem fram kemur að stefnandi hafi greitt leigugreiðslu við undirritun fjármögnunarleigusamningsins, samtals 2.500.000 kr., auk virðisaukaskatts að fjárhæð 612.500 kr., samtals 3.112.500 kr. Einnig var þennan sama dag millifært af reikningi stefnda inn á áðurnefndan bankareikning stefnanda 882.000 kr. Sú fjárhæð er virðisaukaskattur af lánsfjárhæðinni, 3.600.000 kr.

Stefnandi kveður að staðreynd málsins sé sú, að stefnandi leitaði til stefnda til að fá lán fyrir hluta kaupverðs kranans en óskaði alls ekki eftir því að fá kranann leigðan. Það hafi verið að frumkvæði stefnda sem samningurinn var færður í búning fjármögnunarleigusamnings, enda hafi stefndi séð um alla skjalagerð vegna lánsins. Um þetta atriði er ágreiningur. Stefndi tekur fram að ef stefnandi hefði óskað eftir láni hefði hann fengið það, enda bauð stefndi upp á hefðbundin veðlán á þessum tíma sem stefnandi hefði getað nýtt sér. Stefnanda hafi einnig staðið til boða að taka kaupleigusamning þar sem hann yrði eigandi að tækinu í lok leigutímans. Stefnandi hafi hins vegar frekar viljað nýta sér leiguformið enda hafi hann haft góða reynslu af því, sbr. það að fyrsti fjármögnunarleigusamningur málsaðila var gerður hinn 18. maí 2004, svo aftur hinn 24. okt. 2006 og 4. maí 2007. Hinn umþrætti samningur er því fjórði fjármögnunarleigusamningurinn sem var gerður á milli aðila.

Stefnandi kveðst ávallt hafa staðið í skilum með greiðslur samkvæmt samningnum. Þó hafi í fjögur skipti verið gerðar skilmálabreytingar á láninu sem fólust m.a. í tímabundinni greiðsluraðabreytingu þar sem samið hafði verið um að stefnandi greiddi, gegn gjaldi, ákveðið hlutfall af mánaðargreiðslum um tiltekinn tíma. Þessar breytingar voru gerðar að ósk stefnanda sökum þess að mánaðarleg greiðslubyrði samningsins hafði hækkað verulega og langt umfram það sem greiðsluáætlun lánsins gerði ráð fyrir.

Með bréfi stefnanda til stefnda, dags. 6. ágúst 2010, var þess beiðst að stefndi léti í ljós afstöðu sína til endurgreiðslu vegna þess sem ofgreitt hefði verið vegna ofangreinds fjármögnunarleigusamnings. Þá tilkynnir stefnandi stefnda um þá ákvörðun sína í bréfinu að geymslugreiða afborganir af fjármögnunarleigusamningnum inn á reikning hjá viðskiptabanka sínum þar til viðkomandi samningur yrði endurreiknaður. Tekið var sérstaklega fram að ef engin viðbrögð yrðu við bréfinu innan 10 daga frá dagsetningu þess yrði leitað atbeina dómstóla. Engin viðbrögð urðu af hálfu stefnda við bréfinu. Stefnandi leitar því til dómstóla með mál sitt.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda í málinu er reist á því að stefnandi hafi greitt stefnda meira en honum hafi borið á grundvelli lánssamnings aðila (fjármögnunarleigusamnings), nr. 144120-121, dags. 31. október 2007. Um sé að ræða mánaðarlegar afborganir samkvæmt samningnum sem tekið hafi mið af gengisbreytingu erlendra gjaldmiðla, þ.e. svissnenskum franka (CHF) og japönsku jeni (JPY). Lánssamningurinn, sem sé að fjárhæð 7.594.500 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti hafi því verið „gengistryggður“, þ.e. verðtryggður miðað við gengisbreytingar framangreindra gjaldmiðla. Þá hafi verið gerð greiðsluáætlun samfara gerð lánasamningsins þar sem mánaðarlegar afborganir séu tilteknar í íslenskum krónum.

Eftir heiti VI. kafla laga nr. 38/2001, sem 13. gr. til 16. gr. þeirra heyra til, taki hann til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Að mati stefnanda sé af þessum sökum óhjákvæmilegt að fjalla nokkuð ítarlega um það álitaefni hvort sá samningur sem um sé deilt í málinu sé í raun lánssamningur eða leigusamningur. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að umræddur samningur sé í raun lánssamningur en ekki leigusamningur.

Leigusamningar hafi í fræðilegri umfjöllun verið skilgreindir þannig að um sé að ræða gagnkvæma samninga, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðila, leigutaka, tiltekin afnot gegn endurgjaldi. Lánssamningar hafi hins vegar verið skilgreindir þannig að um sé að ræða samning sem skuldbindi lánveitanda til að afhenda öðrum aðila, lánþeganum, peninga eða aðra tegundarákveðna muni gegn því að lánþeginn endurgreiði síðan sama fjölda sömu tegundar en ekki nákvæmlega sömu verðmætin og hann fékk í hendur. Í lögum um neytendalán nr. 121/1994 sé lánsamningur skilgreindur með þeim hætti að um sé að ræða samning þar sem lánveitandi veiti eða lofi að veita neytanda lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og neytandi lofi að greiða samkvæmt ákvæðum samningsins, sbr. c.-lið 4. gr. laganna. Líkt og nánar verður rakið flokkist svonefndir fjármögnunarleigusamningar til neytendalána samkvæmt síðastnefndum lögum.

Fjármögnunarleigusamningar, ásamt kaupleigu- og rekstrarleigusamningum, falli undir hugtakið eignarleigusamningur. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi, sé tekið fram að eignarleiga merkji í lögunum leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1989 sé fjármögnunarleiga skilgreind með eftirfarandi hætti: „Fjármögnunarleiga er merkir í lögum þessum þá samningsstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hefur afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarétti leigusala. Eignarréttur helst þó hjá leigusala.“ [undirstr. lögmanns] Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1989 sé kaupleiga skilgreind með eftirfarandi hætti: „Kaupleiga er merkir í lögum þessum þá samningsstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hefur afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala og jafnframt veitt leigutaka sjálfkrafa rétt til að eignast hið leigða í lok leigutíma.“ [undirstr. lögmanns]

Líkt og ráða megi af framangreindum skilgreiningum sé hinn formlegi eignarréttur í báðum tilvikum hjá leigusala út leigutímann, sbr. undirstrikanir lögmanns. Munurinn á kaupleigu og fjármögnunarleigu felist því fyrst og fremst í því að í lok síðustu leigugreiðslu samkvæmt kaupleigusamningi skuli stefndi gefa út afsal til skuldara, en þegar um fjármögnunarleigusamninga sé að ræða hafi skuldari í lok leigutíma val um það hvort hann greiði tiltekna lágmarksleigu áfram (framhaldsleiga) eða kaupi tækið á verði sem sé ákveðið hlutfall af upphaflegum leigugrunni. Hvort sem um sé að ræða kaupleigu- eða fjármögnunarleigu þá greiði skuldari öll gjöld af lausafénu (bifreiðagjöld, þungaskatt, o.s.frv.), ásamt öllum kostnaði vegna viðgerða og skemmda. Þá greiði skuldari í báðum tilvikum iðgjöld vegna vátrygginga af viðkomandi lausafé.

Þá sé það einnig staðreynd að bókhaldsleg og skattaleg meðhöndlun fjármögnunarleigusamninga og kaupleigusamninga er mismunandi. Í raunveruleikanum sé það svo að þeir sem hafi skattskyldan rekstur hafa notfært sér fjármögnunarleiguna en þeir sem ekki hafi skattskyldan rekstur með höndum hafa nýtt sér kaupleigu. Skattalegt hagræði þeirra sem hafi með höndum skattskyldan rekstur af því að gera fremur fjármögnunarleigusamning en kaupleigusamning felist í því að þegar fyrrnefndir samningar eru gerðir sé öll leigugreiðslan gjaldfærð og tækið því í raun afskrifað (gjaldfært) að fullu á leigutímanum. Þetta hafi þá kosti í för með sér að greiðsla á tekjuskatti frestist ef leigutíminn er styttri en venjubundinn afskriftartími atvinnutækis. Þá hafi fjármögnunarleiga þann kost að hún lækki bókhaldslegan hagnað og þ.a.l. greiði fyrirtæki lægri skatta. Þessu til viðbótar komi sú staðreynd að viðkomandi fjármögnunarfyrirtæki greiði kaupverð tækisins með virðisaukaskatti. Endurgreiðslur reiknist af kaupverði án virðisaukaskatts en virðisaukaskattur leggist á hverja afborgun. Skuldarinn fái svo virðisaukaskattinn endurgreiddan sé hann með virðisaukaskattskyldan rekstur. Þá telji mörg fyrirtæki það einnig til kosta fjármögnunarleigu að ekki þurfi að binda rekstrarfé og eiginfjár- og veltuhlutfall fyrirtækisins raskist ekki.

Ofangreindu til frekari rökstuðnings vísast til almennra athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi þar sem fram komi að það sé fyrst og fremst vegna skattareglna sem reynst hafi nauðsynlegt að skilgreina svonefnda kaupleigu sérstaklega þannig að ljóst sé í lögum hver sé greinarmunurinn á fjármögnunarleigu og hinni sérstöku tegund fjármögnunarleigusamninga, sem kaupleigan sé, innan þessa flokks eignarleigusamninga. Þá segi þar orðrétt: „Verði hins vegar stefnt að því að gera skattalega meðferð fjármögnunarleigu ætíð hina sömu, óháð því hvaða skilmálar eru í fjármögnunarleigusamningunum, verður hinn sérstaki greinarmunur, sem hér er gerður á fjármögnunarleigu og kaupleigu, óþarfur í lögum og mundi skýrast af samningnum sjálfum.“

Lög nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi voru felld úr gildi með lögum nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Stefnandi telur hins vegar að framangreindar skilgreiningar séu til skýringar á framangreindum hugtökum, enda hafi hugtökin ekki verið skilgreind í þeim lögum sem tóku við af lögum nr. 19/1989. Lög nr. 123/1993 hafi svo verið felld niður við gildistöku laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Hæstiréttur Íslands hafi í málum nr. 92/2010 og 153/2010 kveðið skýrt á um að þeir samningar sem þar var deilt um og báru yfirskriftina kaupleigusamningar hafi í raun verið lánssamningar en ekki leigusamningar. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að sömu sjónarmið eigi við um fjármögnunarleigusamninga og kaupleigusamninga, þ.e.a.s. að í raun sé um lánssamning en ekki leigusamning að ræða. Vísast um þetta til þess sem að framan segir um að raunverulegur munur á þessum samningstegundum sé lítill sem enginn en felist einkum í mismunandi skatta- og bókhaldlegri meðferð hvors samnings fyrir sig.

Til frekari stuðnings málsástæðu sinni um að sá samningur sem um er deilt í málinu sé lánssamningur en ekki leigusamningur bendir stefnandi á eftirfarandi atriði:

o    Í greiðsluyfirliti sé rætt um afborganir og sýnt hverjar yrðu eftirstöðvar eftir hverja greiðslu. Þá sé í samningnum gengið út frá því að stefnandi yrði eigandi tækisins gegn greiðslu á 3% af upphaflegum leigugrunni eftir að hafa innt af hendi 60 mánaðarlegar afborganir, sem svo hafi verið nefndar bæði í greiðsluyfirliti og greiðsluseðlum frá stefnda. Framangreint eigi vitaskuld almennt ekki við í leigusamningum.

·         Í skilmálum samningsins sé ákvæði um vexti sem greiða skyldi samhliða afborgunum og tekið fram að Libor vextir á samningsdegi séu 1,46% auk 3,50% álags. Stefnandi telur að þetta atriði vegi afar þungt við mat á því hvort um lánssamning eða leigusamning sé að ræða, enda tíðkist vaxtaákvæði í lánssamningum en eigi engan veginn við í leigusamningum.

·         Í þjónustugjaldskrá stefnda komi fram að heimilt sé að greiða upp aðra samninga en rekstrarleigusamninga með tilteknu uppgreiðslugjaldi sem sé mismunandi hátt eftir því hve langur tími er eftir af viðkomandi samningi. Þetta bendi eindregið til þess að um lánssamning sé að ræða, fremur en leigusamning.

·         Í skilmálum samningsins sé gengið út frá því að við vanefndir gæti stefndi rift samningnum og allt í einu krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstímans, sbr. 28. gr. og 30. gr. skilmála samningsins. Stefnandi byggir á því að þessi staðreynd eigi að leiða til þess að túlka beri umræddan samning sem lánssamning fremur en leigusamning, enda sé það svo þegar um leigusamninga sé að ræða að við riftun slíkra samninga falli eðli máls samkvæmt niður skylda leigutaka til áframhaldandi greiðslu á leigu, þó leigusali geti eftir atvikum krafið hann um bætur vegna missis hagnaðar að því afstöðnu.

·         Í 17. gr. skilmála samningsins sé tekið fram að leigutaki beri áhættuna af því ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar eftir að seljandi hefur afhent hið leigða eða áhættan flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 39/1922 og/eða öðrum réttarreglum. Stefnandi telur að þetta bendi eindregið til þess að fremur sé um lánssamning en leigusamning að ræða. Í þessu sambandi skuli á það minnt að leigusali samkvæmt leigusamningi beri að jafnaði áhættuna af þeim atvikum sem nefnd eru hér að ofan eftir að afhending hafi farið fram.

·         Þá vísar stefnandi til þess að eignarleigusamningar falli undir lög nr. 21/1994 um neytendalán. Í þessu sambandi vísast til d-liðar 1. mgr. 2. gr. laganna þar sem tekið sé sérstaklega fram að leigusamningar séu undanþegnir lögunum, nema eignarleigusamningar. Þessi staðreynd hljóti að vega þungt við mat á því hvort í reynd sé um lánssamning eða leigusamning að ræða, enda augljóst að löggjafinn telji ástæðu til þess að flokka eignarleigusamninga fremur sem lánssamninga en leigusamninga.

·         Þá skipti einnig verulegu máli við úrlausn þessa álitaefnis að átta sig á því að stefnandi hafi alls ekki leitað til stefnda til að taka á leigu frá stefnda UNIC smákrana, sem sá síðarnefndi hafi þá þegar átt, heldur hafi stefnandi valið tækið hjá erlendum söluaðila kranans, og samið um kaup á því við starfsmann þess fyrirtækis, þar á meðal um verð og greiðslukjör, án þess að stefndi kæmi þar nærri.

Þegar allt framangreint sé virt telur stefnandi ótvírætt að stefndi hafi í raun veitt honum lán til kaupa á UNIC smákrana, sem stefndi hafi kosið í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af stefnanda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í viðkomandi tæki og eftir atvikum með frekari tryggingum eða ábyrgðum. Af þessum sökum telur stefnandi það ótvírætt að leggja verði til grundvallar að samningurinn sem hér um ræði sé lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.

Stefnandi rökstyður kröfu sína aðallega með vísan til þess að verðtrygging sem miði skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. CHF og JPY í tilviki stefnanda, sé ólögmæt samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Lánssamningurinn (fjármögnunarleigusamningurinn) sé, að mati stefnanda, án nokkurs vafa í íslenskum krónum sem hafi verið gengistryggður miðað við framangreindar myntir. Þar sem slík gengistrygging sé ólögmæt samkvæmt tilgreindum lagaákvæðum hafi allar greiðslur til stefnda, sem tóku mið af breytingum á höfuðstóli lánsins, á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar, verið ranglega af stefnanda hafðar. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 beri stefnda að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann hafi þannig ranglega af stefnanda haft.

Stefnandi vísar til þess að í framangreindum fjármögnunarleigusamningi komi höfuðstólsfjárhæð lánsins fram í íslenskum krónum. Þá hafi mánaðarlegar greiðslur einnig verið tilteknar í íslenskum krónum í greiðsluáætlun stefnda. Þannig séu allar upphæðir sem samningurinn grundvallist á tilteknar í íslenskum krónum. Þar að auki vísar stefnandi til þess að lánsfjárhæðin hafi verið greidd honum í íslenskum krónum, en ekki erlendum gjaldmiðli, enda ekki staðið stefnanda til boða og hafi ekki tíðkast í sambærilegum viðskiptum. Loks beri að nefna að öll innheimta hafi farið fram í íslenskum krónum og stefnandi hafi ávallt greitt af láninu í íslenskum krónum.

Hafi stefndi ætlað að hafa samninginn í erlendri mynt hafi honum verið í lófa lagið að tilgreina hina erlendu mynt sem höfuðstólsfjárhæð. Þá hafi stefnda jafnframt verið í lófa lagið að greiða stefnanda höfuðstólsfjárhæðina í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikning hafi staðið til að lána erlenda gjaldmiðla en ekki íslenskar krónur sem hafi tekið mið af gengisbreytingu erlendra gjaldmiðla. Hvað allt framangreint varði sé a.m.k. ljóst að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að umrætt lán til stefnanda hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum.

Þá byggir stefnandi á því að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu séu ófrávíkjanleg. Í 2. gr. laganna er mælt fyrir um hvaða ákvæði laganna séu frávíkjanleg, en þar segi að ákvæði II. kafla (almennir vextir) og IV. kafla (vextir af skaðabótakröfum) gildi því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Þá segi að einnig verði vikið frá öðrum ákvæðum laganna „að því marki sem þar er kveðið á um“, en hér sé átt við 6. og 12. gr. laganna. Þó sé ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara. Af skýringu 2. gr. leiði því að öll önnur ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg, þar á meðal ákvæði VI. kafla um verðtryggingu. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að óheimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 14. gr. þar sem kveðið sé á um að eingöngu sé heimilt að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birti mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Sé því óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum miðað við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Loks vekur stefnandi sérstaka athygli á því að refsiákvæði 17. gr. laganna væri með öllu þýðingarlaust ef ákvæði 13. og 14. gr. væru frávíkjanleg.

Til stuðnings framangreindu vísar stefnandi sérstaklega til dóma Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 þar sem fjallað sé með ítarlegum og rökstuddum hætti um sams konar ágreiningsefni, þ.e.a.s. verðtryggingu sem miði skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í báðum þessum málum hafi Hæstiréttur komist að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að slík verðtrygging sé ólögmæt samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum um verðtryggingu í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að ákvæði fjármögnunarleigusamningsins um gengistryggingu séu ógild og því beri að fallast á framsettar kröfur hans á hendur stefnda.

Stefnandi vísar til þess að í framangreindum dómum hafi verið talið, við mat á því hvort um gengistryggt lán sé að ræða, að einvörðungu skyldi horft til samnings aðila enda geti niðurstaða málsins ekki ráðist af því hvort stefndi hafi fjármagnað lánafyrirgreiðslu sína á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði. Samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum, sem aðilar þessa máls hafi gert, sé ljóst að umrætt lán sé í íslenskum krónum, þ.e. 7.594.500 kr. Þá hafi afborganir verið innheimtar í íslenskum krónum. Sé það því engum vafa undirorpið að lánssamningur aðila samkvæmt framangreindum fjármögnunarleigusamningi teljist vera í íslenskum krónum í skilningi 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í ákvæðinu segi m.a. að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og að um heimildir til verðtryggingar fari skv. 14. gr. sömu laga. Í 1. mgr. síðarnefnda ákvæðisins sé heimild til verðtryggingar takmörkuð við vísitölu neysluverðs, sbr. þó 2. mgr. 14. gr. þar sem heimilt sé að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Samkvæmt skýrum texta fyrrgreindra ákvæða sé því óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Brjóti því gengistrygging fjármögnunarleigusamningsins í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001.

Með hliðsjón af öllu framangreindu sé ljóst að stefnda beri á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft, enda um ólögmæta verðtryggingu lánsfjár að ræða í samningi milli aðila. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á kröfur stefnanda.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 2., 13., 14., 17. og 18. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, m.a. um endurheimtu ofgreidds fjár, brostnar forsendur og reglna um ógild samningsákvæði. Varðandi vaxtakröfu stefnanda er vísað til ákvæða laga nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Um skilgreining á fjármögnunarleigusamningi. Í upphafi telur stefndi rétt að gera grein fyrir hugtakinu fjármögnunarsamningur. Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga en eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma.

Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarksleigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því, að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir það tímamark hafi leigutaki að jafnaði rétt til áframhaldandi leigu munar gegn lækkuðu leigugjaldi. Í lögum um eignarleigustarfsemi, sem nú hafi verið afnumin, sé fjármögnunarleiga skilgreind sem sú starfsemi skv. eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala en eignarréttur haldist þó hjá leigusala.

Eins og í öðrum leigusamningum helst eignarrétturinn hjá leigusala þegar um fjármögnunarleigusamning sé að ræða og leigutaki skili hinu leigða í lok leigutíma nema hann kjósi frekar að nýta sér framhaldsleigurétt.

Stefnandi hefur lagt fram dómskjal nr. 19 þar sem fram komi samanburður á fjármögnunarleigu og kaupleigu. Um nánari samanburð á þessum tveimur samningsformum vísast í það dómskjal. Til viðbótar við þetta megi nefna að erlenda fjárhæðin komi fram í 2. gr. gengistryggðra fjármögnunarleigusamninga stefnda en ekki sé um slíka tilgreiningu að ræða í bílasamningum stefnda (kaupleigusamningum).

Vaxtalögin eigi ekki við: Stefndi telur að gildissvið vaxtalaga sé skilgreint með víðtækum hætti í 1. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu nái lögin yfir vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við geti átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið sé eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar. Samkvæmt 2. gr. gildi lögin einnig um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Í VI. kafla laganna, sem fjalli um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, sé gildissvið kaflans skilgreint með þrengri hætti en fram komi í 1. gr. laganna. Öfugt við önnur ákvæði laganna, sem taki til vaxta á peningakröfum á sviði fjármunaréttar, takmarkist verðtryggingarákvæði laganna við sparifé og lánsfé í íslenskum krónum Ákvæði 13. og 14. gr., sem banni gengistrygginguna, taki því, skv. orðalagi sínu, einungis til sparifjár og lánsfjár í íslenskum krónum en ekki til annars konar samninga eins og leigusamninga. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur og annars eðlis en hefðbundið peningalán.

Stefndi byggir á því að til þess að samningsskuldbinding geti fallið undir 1. mgr. 13. gr. vaxtalaga þurfi að vera um hefðbundin peningalánaviðskipti að ræða. Hugtakið lánsfé sé ekki skilgreint í vaxtalögum og ekki sé að finna neinar leiðbeiningar í greinargerð um hvað átt sé við með lánsfé í skilningi laganna. Hefðbundin orðskýring vísi til ,,peninga sem fengnir eru að láni“ eða hefðbundinna peningalána. Skuldbindingin felist þá í afhendingu á lánsfé í gjaldgengri mynt, en ekki afhendingu annarra verðmæta eins og fasteignar eða lausafjár. Fjármögnunarleigusamningur feli í sér leigu á tækjum en ekki afhendingu á peningum og geti því ekki fallið undir ákvæði VI. kafla laganna.

Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að gengistryggja samninginn vegna þess að um sé að ræða leigusamning en leigusamningar falli ekki undir ákvæði VI. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 þar sem gengistrygging lánssamninga sé bönnuð. Meginregla í leigurétti er að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Meginregla þessi komi m.a. fram í 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Þá byggir stefndi á því að ákvæði 13. gr. vaxtalaga, feli í sér undantekningu frá meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi og verði því að beita þröngri lögskýringu á ákvæði greinarinnar. Stefndi byggir hér einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu skv. efni sínu.

Í dómum Hæstaréttar nr. 153/2010 og 92/2010, sem kveðnir voru upp þann 16. júní sl. (hér eftir nefndir dómar Hæstaréttar frá 16. júní sl.), var fjallað um lögmæti gengistryggingar svonefndra bílasamninga sem séu eitt form kaupleigusamninga. Í þeim dómum hafi verið kveðið á um það að gengistrygging lánsfjár sé óheimil því slík verðtrygging lánsfjár sé ekki heimiluð í vaxtalögunum. Í dómunum hafi m.a. verið komið inn á það að skv. þeim kaupleigusamningum sem í hlut áttu hafi eignarrétturinn færst til leigutaka í lokin og hafi það verið eitt af þeim atriðum sem dómurinn hafi talið að benti til þess að um dulbúna  lánssamninga væri að ræða. Í tilviki hins umþrætta fjármögnunarleigusamnings horfi þetta á annan hátt við, því þar færist eignarrétturinn ekki yfir í lokin, heldur taki við framhaldsleiga og sé því ekki um sambærilegt tilvik að ræða.

Af dómaframkvæmd megi ráða að við mat á lögmæti verðtryggingar verði að gera greinarmun á hreinum fjárskuldbindingum eða peningalánaviðskiptum annars vegar og gagnkvæmum samningum hinsvegar, en hvað síðarnefnda atriðið varði eigi báðir samningsaðilar að inna af hendi framlög á tilteknu tímamarki eftir samningsgerð, t.d. húsaleigusamningar, verksamningar og kaupsamningar um fasteignir. Lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafi í dómum ekki verið talin ná til þeirra gagnkvæmu samninga, sem hér sé vitnað til. Í þessu sambandi megi nefna eftirfarandi dóma Hæstaréttar Íslands: Hrd. 1978:903 (verksamningar), Hrd. 1979:167 (verksamningur), Hrd. 1979:1251 (kaupsamningur), Hrd. 1980:1291 (leigusamningur) og Hrd. 1986/:742 (kaupsamningur um fasteign). Í framangreindum dómum, þar sem aðilar höfðu samið um ákveðin vísitöluákvæði í gagnkvæmum samningum, hafi ákvæðin verið látin standa þrátt fyrir önnur strangari ákvæði laga um vísitölur og verðtryggingar.

Fjármögnunarleigusamningur er leigusamningur en ekki lánssamningur: Stefndi kveður að leigusamningur sé gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun, gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Um sé að ræða gagnkvæman samning þar sem báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur. Stefndi vísar til dóms Hæstaréttar nr. 224/1996 frá 13. mars 1997 sem varði fjármögnunarleigusamning. Í dómasafni Hæstaréttar sé hann flokkaður sem: Leigusamningur. Fjármögnunarleiga. Gengistrygging. Stefndi telur að þetta bendi til þess að Hæstiréttur flokki fjármögnunarleigusamninga sem leigusamninga.

Lánssamningur sé það kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka skv. ákvæðum lánssamningsins. Þeir lánssamningar sem falli undir vaxtalögin nr. 38/2001 séu lánssamningar um peninga, eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna en þar komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar.

Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum, hér að framan, megi ráða að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Fjölmörg önnur atriði megi nefna því til stuðnings að um sé að ræða leigusamning en ekki lánssamning og megi í því sambandi m.a. nefna eftirfarandi atriði:

-          Heiti samningsins, þ.e. ,,fjármögnunarleigusamningur“, bendi til þess að um sé að ræða leigusamning en ekki lánssamning.

-          Í gegnum allan samninginn sé talað um ,,leigusala“ og leigutaka“ og bendi það til þess að um sé að ræða leigusamning en ekki lánssamning.

-          Orðnotkun í samningnum bendi eindregið til að um sé að ræða leigusamning en ekki lánssamning. Sem dæmi um þetta megi nefna að gerð sé grein fyrir leigumun sem hinu leigða í 1. gr. samningsins og leigugrunn í 2. gr. samningsins. Í 4. gr. sé fjallað um grunnleigutíma og í 5. gr. sé fjallað um greiðslutilhögun leigu. Í 6. gr. sé gerð grein fyrir grunnleigutíma og framhaldsleigu. Á bakhlið samningsins sé sama orðnotkun og á framhlið og þannig ávallt gengið út frá því að um leigusamning sé að ræða.

-          Virðisaukaskattur leggist ofan á einstakar leigugreiðslur leigusamningsins en slíkt tíðkist aldrei í lánssamningum.

Skattyfirvöld geri skýran greinarmun á meðhöndlun virðisaukaskatts í kaupleigusamningum annars vegar og fjármögnunarleigusamningum hins vegar. Ákvarðandi bréf RSK gefi skýrt til kynna að skv. réttum skilningi laga um virðisaukaskatt skuli innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningum en líta skuli á greiðslur skv. kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum. (Sjá um þetta í ákvarðandi bréfi RSK nr. 273/1991).

-          Þegar um lánssamning sé að ræða eignist viðkomandi hið keypta gegn greiðslu kaupverðs. Grundvallarmunur sé á skattalegri meðferð kaupverðs og leigu. Kaupverð beri að eignfæra og gjaldfæra á þeim árum, sem eign sé notuð við öflun tekna, sem fyrningu, en leigu megi gjaldfæra, um leið og notkunin á sér stað. Samkvæmt þessu teljist kaupleiga vera eignakaup skv. lögum. Muni keyptir á kaupleigu beri því að eignfæra og fyrna í rekstri eins og venjulega rekstrarfjármuni. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði, helst eignarréttur hjá leigusala og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. 

Í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2009 komi skýrt fram á bls. 6 í reikningnum að leiga af krönum sé gjaldfærð undir liðnum annar  rekstrarkostnaður sem sýni að farið sé með þessar greiðslur sem leigugreiðslur. Í sama reikningi megi sjá í efnahagsreikningi að smákraninn sé ekki bókaður sem eign hjá félaginu. Í stefnu sé því haldið fram af stefnanda að um dulbúinn lánssamning sé að ræða en ekki leigusamning. Stefndi telur að þessi málsástæða hans standist engan veginn í ljósi þess að hann færir samninginn sem leigusamning í ársreikningi sínum og gjaldfæri leigugreiðslurnar. Gjaldfærsluleiðin sé einmitt einn helsti kostur fjármögnunarleigusamninga, þ.e. að geta gjaldfært leigugreiðslur í gegnum rekstrarreikning og að fjármögnunin sé utan efnahagsreiknings. Stefnandi geti ekki komist upp með það að kalla fjármögnunarleigusamninginn ýmist leigusamning eða lánssamning eftir því hvað honum henti hverju sinni.

-          Eignarréttur haldist hjá leigusala allan grunnleigutímann og á framhaldsleigutímabilinu og því sé ekki um lánssamning að ræða. Auk þess hafi leigusali sem eigandi hins leigða þær heimildir sem teljist til grunneignarréttar eins og að geta selt eða veðsett eignarrétt sinn. Þessi atriði bendi til þess að um leigusamning sé að ræða en ekki lánssamning.

-          Áður hafi komið fram í greinargerð þessari að löggjafinn líti á eignaleigu sem leigustarfsemi en ekki lánastarfsemi, sbr. tilvitnun í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 en þar komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í 1. mgr. 20. gr. sömu laga komi skýrt fram að löggjafinn líti ekki á fjármögnunarleigu sem útlánastarfsemi. Í 1. mgr. 20. gr. sé fjallað um ýmsar tegundir af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Í 2. tl. séu taldir upp þættir sem falli undir útlánastarfsemi og sé fjármögnunarleiga ekki talin þar á meðal. Í 3. tl. sé fjármögnunarleiga hins vegar tilgreind sérstaklega sem ein tegund af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða og bendi þetta til þess að löggjafinn telji fjármögnunarleigustarfsemi ekki vera lánastarfsemi. Framangreindar tilvitnanir í lög um fjármálafyrirtæki bendi skýrlega til þess að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur.

                Stefnandi nefnir ýmis atriði sem hann telji að styðji að fjármögnunarleigusamninga eigi að flokka sem lánssamninga frekar en sem leigusamninga. Hvað varði sum af þessum atriðum þá telur stefnandi sig hafa stuðning fyrir þeirri skoðun sinni í dómum Hæstaréttar frá 16. júní sl. Þau atriði sem stefnandi byggi þetta á séu m.a. eftirfarandi: 

·         Stefnandi telur að þar sem í skilmálum samnings séu ákvæði um vexti, bendi það til þess að um lánssamning sé að ræða.

Stefndi kveður að í fjármögnunarleigusamningnum sé byggt á ákveðnum leigugrunni sem taki mið af breytingum út frá gengi tiltekinna gjaldmiðla og LIBOR vöxtum. Leigutaki greiði leigugreiðslur á grundvelli þess leigugrunns auk virðisaukaskatts á hverja greiðslu. Vaxtaákvæðið sé einn þáttur í heildarleiguverðinu. Heildarleiguverðið eigi síðan að miðast við það að þegar tiltekinn lágmarksleigutími sé liðinn hafi leigusali fengið greitt til baka, því sem næst, kaupverðið ásamt kostnaði og þeirri ávöxtun sem leigusalinn telji sig þurfa. Tekið skuli fram að ákvæði um vexti séu ekki sett inn á reikninga þá sem stefndi sendir stefnanda með greiðsluseðlum, sbr. dskj. nr. 11. Stefndi telur að þegar horft sé til þeirra sjónarmiða sem hér hafi verið rakin bendi vaxtaákvæði samningsins ekki til þess að um lánssamning sé að ræða, frekar en leigusamning.

·         Stefnandi bendir á að í skilmálum samnings sé gengið út frá því að við vanefndir geti stefndi rift samningnum og allt í einu krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstímans. Telji stefnandi þetta benda til þess að um lánssamning sé að ræða.

Stefndi kveður að ákvæðið um að við riftun af hálfu leigusala geti hann krafið leigutaka um alla ógjaldfallna leigu sé að finna í 1. tl. 30. gr. samningsins. Jafnvel þó að slíkt ákvæði sé óhefðbundið í leigusamningum sé ekkert sem banni það að hafa slíkt ákvæði í leigusamningi. Horfa þurfi á þetta ákvæði í tengslum við önnur ákvæði í 30. gr. samningsins og það að við riftun fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Þannig sé t.d. kveðið á um það í 4. tl. 30. gr. samningsins að frá skuld leigutaka við Lýsingu skv. tl. 1-3 skuli draga verðmat hins leigða. Taka þurfi mið af því við skýringu á þessu ákvæði að oft og tíðum séu leiguhlutir sérhæft lausafé sem úreldist og erfitt sé að endurleigja og því sé nauðsynlegt að hafa inni ákvæði í samningum á þá leið að leigutaki verði að greiða ógjaldfallna leigu til að minnka líkur á því að leigusali verði fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna vanefnda leigutaka.

Stefndi telur að líta megi á heimildarákvæðið í 1. tl. 30. gr. samningsins og uppgjör skv. því sem mögulegar skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa. Undir þá túlkun sé tekið í ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra nr. 656/1994. Þá telur stefndi að með því að beita heildstæðu mati á 30. gr. samningsins, standist sú fullyrðing stefnanda ekki að 1. tl. 30. gr. bendi til þess að um lánssamning sé að ræða.

·         Í stefnu er því haldið fram að í samningnum sé gengið út frá því að stefnandi verði eigandi tækisins gegn greiðslu á 3% af upphaflegum leigugrunni eftir að hafa innt af hendi 60 mánaðarlegar afborganir). Hér fari stefnandi með rangt mál því að í fjármögnunarleigusamningi aðila sé ekki gengið út frá greiðslu lokagjalds, heldur sé þar gengið út frá því að við lok grunnleigutímans hefjist framhaldsleiga, sbr. 6. gr. samningsins. Í dómum Hæstaréttar frá 16. júní sl. hafi verið komið inn á það atriði að þegar kaupleigusamningar ættu í hlut, yrði leigutaki eigandi í lok samningstímans án sérstakrar greiðslu. Hér skilji á milli eins og sýnt hafi verið fram á í þessari málsgrein.

Stefndi kveður RSK gera greinarmun á lokaverði skv. fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusamningum. Í ákvarðandi bréfi RSK nr. 273/1991 komi fram að ef samið er um sölu í lok fjármögnunarleigusamnings sé söluverð að sjálfsögðu háð samningum milli aðila í einstökum tilvikum og ríkisskattstjóra sé ljóst að oft geti söluverð til leigutaka í lok leigutíma verið lægra en markaðsverð sams konar eða sambærilegra tækja. Þar komi einnig fram að öðru máli gegni um kaupleigusamninga. Þar sé ekkert söluverð tilgreint þar sem sala sé talin hafa farið fram strax í upphafi kaupleigusamnings og virðisaukaskatti þá skilað af samningsfjárhæðinni í heild. Til viðbótar við það sem komið hafi fram um að ekkert ákvæði sé um lokagjald í samningi aðila megi nefna að það sé ekki óalgengt í viðskiptalífinu að í leigusamning aðila séu sett ákvæði um: forkaupsrétt- forleigurétt eða kauprétt. Þrátt fyrir tilveru slíkra ákvæða breytist ekki eðli leigusamnings aðila úr því að vera leigusamningur, yfir í það að vera lánssamningur. Ef beiðni komi fram um það frá aðila að fá að kaupa leiguhlut við lok grunnleigutíma sé það skoðað í hverju tilviki og í því sambandi sé m.a. skoðað hvort viðkomandi viðskiptamaður sé með aðra samninga hjá stefnda í vanskilum, en sé um slíkt að ræða sé yfirleitt ekki orðið við beiðni viðskiptamanns um að hann fái að kaupa hlutinn.

·         Stefnandi leggi mikið upp úr því að hann hafi haft frumkvæði að því að kaupa hið leigða hjá erlendum söluaðila en stefndi hafi ekki komið þar að. Í dómum Hæstaréttar frá 16. júní sl. hafi verið komið inn á það að eignaleigufyrirtækin hafi ekki komið að vali á þeim bifreiðum sem þar áttu í hlut. 

Stefndi telur að þetta atriði geti ekki skipt máli í því sambandi hvort líta beri á samning aðila sem leigusamning eða lánssamning. Í þessu máli sé aðstaðan ólík því sem hafi verið í hinum tilvitnuðu dómum Hæstaréttar því að stefndi hafi keypt leiguhlutinn beint af stefnanda og leigt honum hann síðan með fjármögnunarleigusamningi. Slíkt afbrigði af fjármögnunarleigusamningi sé algengt hér heima og erlendis og sé á ensku kallað ,,sale and leaseback“. Þetta afbrigði sé einkum notað þegar losa þurfi um fjármagn sem bundið sé í fastafjármunum til að breyta því í handbært fé.

·         Stefnandi heldur því fram að hann verði eigandi leigumunar eftir að hafa greitt 60 afborganir og gegn greiðslu á lokagjaldi og það bendi til þess að um lánssamning sé að ræða frekar en leigusamning. Tekið skuli fram að í dómum Hæstaréttar frá 16. júní sl. hafi verið um ólíkt tilvik að ræða þar sem í hlut áttu kaupleigusamningar þar sem gengið hafi verið út frá því að leigutaki yrði eigandi bifreiðarinnar án sérstakrar greiðslu eftir að hafa greitt síðustu samningsgreiðsluna.

Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnanda og bendir á að ekki sé um það að ræða að stefnandi verði sjálfkrafa eigandi hins leigða í lok samningstímans eins og í tilviki kaupleigusamninga þeirra sem fjallað hafi verið um í dómum Hæstaréttar frá 16. júní sl. Í fjármögnunarleigusamningi aðila sé samið um framhaldsleigu í 6. gr. samningsins og sé hún ótímabundin en þó geti leigutaki sagt upp framahaldsleigunni með eins mánaðar fyrirvara. Leigugreiðslur á framhaldsleigutíma séu mun lægri en á grunnleigutíma. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumuninn á framhaldsleigu allt þar til að leigumunurinn sé orðinn úr sér genginn eða ónothæfur. Ekkert ákvæði sé um það í hinum umþrætta fjármögnunarleigusamningi að stefndi geti eignast leigumun gegn ákveðnu lokagjaldi í lok upphaflegs grunnleigutíma. Að þessu leyti séu samningar um fjármögnunarleigu augljóslega líkari leigusamningum, en kaupleigusamningar, sem svipi að þessu leyti meira til hefðbundinna lánsviðskipta.

                Við túlkun og mat á því hvort hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur eða lánssamningur beri að horfa á samninginn heildstætt og varast beri að láta einstök atriði hafa úrslitaáhrif hvað þetta varði. Af upptalningunni í þessum kafla leiði að mun fleiri atriði bendi til þess að um leigusamning sé að ræða frekar en lánssamning.

                Meginreglan um samningsfrelsi í viðskiptum:  Í reglunni um samningsfrelsi felist m.a. að aðilar samnings eigi forræði á því, hvers efnis sá samningur sé, sem þeir geri, þ.e. hvernig þeir ráðstafi réttindum sínum með samningum og undir hvaða skuldbindingar þeir gangist.

                Meginreglan um samningsfrelsi aðila í viðskiptum geri það að verkum að gengisviðmiðun sé heimil nema skýrt sé tekið fram í lögum að svo sé ekki. Ekkert lagaákvæði sé í íslenskum lögum sem banni slíka gengisviðmiðun í leigusamningum og sé hún því heimil. Reglur um takmörkun á samningsfrelsi í viðskiptum hafi stundum verið settar til að tryggja neytendasjónarmið. Slík takmörkun eigi ekki við í tilviki gengistryggðrar fjármögnunarleigusamninga þar sem leigutakar séu lögaðilar sem geri sér fulla grein fyrir gengisáhættu.

                Forsendur við gerð fjármögnunarleigusamningsins: Stefndi telur að við túlkun á því hvort um leigusamning eða lánssamning sé að ræða verði að taka mið af forsendum samningsaðila við samningsgerðina.

                Þá telur stefndi að forsenda stefnanda og vilji hafi verið að um yrði að ræða fjármögnunarleigusamning sem hann gæti fært sem leigusamning í bókhaldi sínu og notið skattalegs hagræðis af því, á sama hátt og hann hafi gert með þá þrjá fyrri fjármögnunarleigusamninga sem hann hafi tekið hjá stefnda frá árinu 2004. Skattalega hagræðið hafi stefnandi því þekkt mjög vel, sbr. umfjöllun í stefnunni. Stefnandi hafi síðan nýtt sér þetta skattalega hagræði eins og fram hafi komið í framlögðum ársreikningi hans.

                Stefndi byggir á því að við gerð fjármögnunarleigusamningsins hafi báðum aðilum verið það ljóst að gengisáhætta hafi fylgt því að hafa samninginn gengistryggðan og hafi stefnandi tekið mið af því þegar hann valdi að gera gengistryggðan fjármögnunarleigusamning.

                Það var forsenda af hálfu stefnda að þar sem um gengistryggðan leigusamning væri að ræða, skyldu endurgreiðslur bundnar gengi á hinum erlendu myntum sem stefnandi hafði valið og að vextir skyldu taka mið af LIBOR vöxtum með nánar tilgreindu álagi. Stefnanda hafi mátt vera ljós þessi forsenda. Um hafi verið að ræða verulega forsendu sem hafi verið ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að ganga til samningsgerðarinnar. Gengistryggingin hafi haft úrslitaáhrif á samning aðila um vaxtakjör. Sjáist það vel á þeirri staðreynd að mun hærri vextir hafi ávallt verið hjá stefnda á þeim samningum sem ekki séu gengistryggðir.

                Hvað forsendur varði sé í öðru lagi á því byggt að stefnandi hafi þekkt forsenduna hvað varði gengistrygginguna og vitað að hún hafi verið ákvörðunarástæða fyrir vaxtakjörum samningsins. Verði að telja að góður og gegn lántaki hefði fyllilega gert sér grein fyrir því að gengistrygging fjármögnunarleigusamningsins væri forsenda þeirra vaxtakjara sem í boði voru.

                Hvað forsendur varði sé í þriðja lagi byggt á því að það sé sanngjarnt og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að gengistrygging sé reiknuð á fjármögnunarleigusamning aðila. Önnur niðurstaða leiddi til þess að gæðum væri mjög misskipt á milli aðila samningssambandsins. Eins og fram hafi komið hafi gengistryggingin verið forsenda þess að hægt hafi verið að bjóða jafn lága vexti og raun hafi verið og verði niðurstaðan sú að bannað verði að reikna gengistryggingu á samninginn fái lántaki fjármögnun á kjörum sem engum öðrum bauðst, á kostnað lánveitenda. Þá yrði um óeðlilegan hagnað lántaka að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum.

                Stefndi telur að þegar framangreindar forsendur séu hafðar í huga, og með því að beita sanngirnismælikvarða við túlkun á samningi aðila, sé rétt að miða við að fjármögnunarleigusamningur aðila sé leigusamningur, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að reikna upp með gengistryggingu þeirri sem aðilar hafi samið um.

                Heimilt að víkja frá ákvæðum vaxtalaga til hagsbóta fyrir skuldara: Ef dómurinn telur af einhverjum ástæðum að fjármögnunarleigusamningur aðila eigi undir lög um vexti og verðtryggingu byggir stefndi á því að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara, sbr. og heimild í lokamálsgrein 2. gr. vaxtalaga. Tekið skuli fram að þessi málsástæða hafi ekki verið höfð upp í málum er vörðuðu gengistryggingu bílasamninga og dómar gengu um í Hæstarétti hinn 16. júní sl.

                Stefndi bendir á að það sé hagsmunamál greiðanda af láni að inna af hendi jafn lágar vaxtagreiðslur og kostur sé. Þegar stýrivextir á Íslandi hafi farið hækkandi, hafi myndast umtalsverður vaxtamunur á milli skuldbindinga í íslenskum krónum og skuldbindinga í erlendum myntum. Með vaxandi vaxtamun hafi verið mikilvægt fyrir lántakendur að eiga þess kost að taka lán í erlendum myntum með lágum vöxtum. Við erlendar lántökur hafi þó einnig spilað inn í gengismunur sem geti haft í för með sér gengistap eða gengishagnað. Lántakendur í erlendum myntum hafi gert sér grein fyrir þeim áhættuþætti. Stefndi hafi boðið leigutökum sínum að velja á milli þess að láta leigugreiðslur taka mið af íslenskum vöxtum eða erlendum vöxtum með tilheyrandi gengisáhættu. Hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur hafi verið undirritaður hinn 31. okt. 2007 þegar vel hafi árað í íslensku efnahagslífi og krónan var sterkur gjaldmiðill. Í línuritinu hér að neðan megi sjá hvernig gengisvísitala íslensku krónunnar þróaðist á árinu 2007:

Description: image.png

                Af línuritinu megi ráða að krónan hafi styrkst á árinu 2007. Hinn 3. jan. 2007 hafi gengisvísitala krónunnar verið 125,95 en hinn 31. okt. hafi hún verið orðin mun sterkari og hafi þá gildi gengisvísitölunnar verið komið í 116,11.

                Í gögnum málsins megi sjá á línuritum hvernig CHF og JPY hafi þróast á árinu 2007 í samanburði við krónu. Þar hafi einnig verið um það að ræða að íslenska krónan hafi verið að styrkjast gagnvart erlendu myntunum.

                Í þessu sambandi verði einnig að skoða þann vaxtamun sem hafi verið á óverðtryggðum vöxtum Lýsingar við lántöku samanborið við þá erlendu vexti sem tekið hafi verið mið af í fjármögnunarleigusamningi aðila. Þennan mun megi sjá í neðangreindri töflu:

Tafla 1: Samaburður á innlendum og erlendum vöxtum 31. okt. 2007.

Grunnvextir

Vaxtaálag

Vextir með álagi

JPY

0,63%

3,5%

4,13%

CHF

2,29%

3,5%

5,79%

Meðalvextir af JPY og CHF

1,46%

3,5%

4,96%

Óverðtr. vextir Lýsingar

17,45%

17,45%

Vaxtamunur á erlendum og innlendum vöxtum

12,49%

                Sökum þess að íslenska krónan hafði verið að styrkjast á árinu 2007 fram að þeim degi sem fjármögnunarleigusamningurinn hafi verið gerður og þess að vaxtamunurinn hafi verið 12,49% á milli vaxta Lýsingar af óverðtryggðum lánum, samanborið við LIBOR vexti af CHF og JPY, hafi stefnandi valið að hafa samninginn gengistryggðan vegna þess að hann hafi talið að það væri honum til hagsbóta. Þegar stefnandi hafi tekið þessa ákvörðun hafi hann gert sér grein fyrir því að með þessu væri hann að taka gengisáhættu en hann hafið talið hana réttlætanlega út frá þeim sjónarmiðum sem reifuð hafa verið í þessum kafla.

                Stefndi bendir á að á árinu 2007 hafi verið mjög vinsælt að taka lán í erlendum myntum á Íslandi og hafi ástæðan verið sú að menn hafi haft trú á íslensku krónunni og vextir á henni hafi verið háir, samanborið við erlenda vexti. Í innlendum dagblöðum hafi birst greinar þar sem gerð hafi verið grein fyrir þessu. Einnig hafi verið fjallað um þetta ítrekað í útvarpi og sjónvarpi. (Sjá hér fylgiskjal 27). Stefnandi hafi tekið mið af þessu og tekið á árinu 2007 tvo gengistryggða fjármögnunarleigusamninga hjá stefnda.

                Sökum þessara sjónarmiða byggir stefndi á því að heimilt hafi verið að gengistryggja fjármögnunarleigusamning aðila með heimild í 2. gr. vaxtalaga enda hafi það verið til hagsbóta fyrir stefnanda.

                Evrópuréttur – (frelsi til fjármagnsflutninga). Ef dómurinn telur af einhverjum ástæðum að fjármögnunarleigusamningur aðila eigi undir lög um vexti og verðtryggingu byggir stefndi einnig á því í greinargerð þessari að 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2010 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir nefndur ,,EES samningurinn“) en sá samningur hafi verið lögleiddur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Tekið skuli fram að þessi málsástæða hafi ekki verið höfð upp í málum er vörðuðu gengistryggingu bílasamninga og dómar gengu um í Hæstarétti þann 16. júní sl.

                Nánar tiltekið styður stefndi kröfur sínar við 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993. Með þeim hafi meginmál EES samningsins verið lögleitt og mælt fyrir um að lög og reglur skuli skýrðar, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES samninginn. Í þessu sambandi sé einnig rétt að vekja athygli á markmiði EES samningsins um myndun einsleits markaðssvæðis, sbr. og 1. gr. samningsins, og skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. og 3. gr. hans. Þessar skyldur nái til allra eininga ríkisvaldsins, einnig dómstóla.

                Í þriðja hluta EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, sé kveðið á um hin svokölluðu fjögur frelsi, það er: 1) frelsi til fólksflutninga, 2) frelsi til að veita þjónustu, 3) frelsi til fjármagnsflutninga og 4) staðfesturétt. Það sé frelsið til fjármagnsflutninga sem stefndi telur að eigi við í þessu sambandi. Vísað er til 40. gr. EES samningsins sem kveði á um að engin höft skuli vera á milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir séu í aðildarríkjum EB eða EFTA né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð sé notað til fjárfestingar. Með ákvæðinu sé verið að vernda markaðsaðgang einstaklinga og lögaðila á þessu sviði, sbr. t.d. dóm EFTA dómstólsins í málum nr. E-10/04 Piazza, málsgrein 32 og E -1/04 Fokus Bank, málsgrein 25. Stefndi telur að ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga um bann við gengistryggingu brjóti gegn framangreindu ákvæði um frelsi til fjármagnsflutninga.

                Við mat á því hvort bann við gengistryggingu í vaxtalögunum brjóti gegn reglunni um frelsi til fjármagnsflutninga beri að hafa í huga hvernig fyrirtæki stefnda fjármagni sig þegar gerðir séu gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar eins og hinn umþrætti samningur í máli þessu. Það sem efnislega eigi sér stað sé að stefndi fjármagni sig í erlendri mynt. Þessum myntum breyti stefndi svo í íslenskar krónur áður en lánið er greitt út. Lánið sé svo innheimt í íslenskum krónum, því breytt í erlenda mynt á gengi greiðsludaga og fjármögnunaraðilum greitt. Því sé hér í raun um lán í erlendri mynt að ræða með því eina fráviki að stefndi selji og kaupi viðkomandi gjaldmiðla í stað lántaka. Slík framkvæmd sé hefðbundin fjármálaþjónusta við lántaka. Í dómskjali 26 sé sýnt fram á að stefndi hafi keypt erlendar myntir vegna hins umþrætta samnings. Ástæðan fyrir kaupunum sé sú að stefndi býr við gjaldmiðlaáhættu sem komi til vegna þess að á bak við gengistryggða eignaleigusamninga sé fjármögnun í erlendri mynt. Þegar afborganir áttu sér síðar stað af samningnum, þá hafi stefndi keypt gjaldeyri sem nam jafnhárri upphæð í myntum og útgefnir leigureikningar hljóðuðu upp á. Reikningur sem búið var að gefa út hafi því ekki lengur verið gjaldeyrisáhætta heldur krafa í íslenskum krónum. Stefndi hafi þannig reynt að halda því sem næst 100% gjaldeyrisjafnvægi og sent skýrslu um gjaldeyrisjöfnuð mánaðarlega til Seðlabanka Íslands.

                 Í samræmi við samþykkt verkferils stefnda sé gerð dagleg afstemming á gjaldeyrisjafnvægi milli eigna og skulda í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi leitist við að halda jafnvægi á milli eigna og skulda frá degi til dags og einnig innan hvers dags og sé þetta partur af lögboðinni áhættustýringu hans. Um þessa lögboðnu stýringu vegna gjaldeyrisjöfnunar sé fjallað í reglum nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, sem settar séu með stoð í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í lögunum nr. 161/2002 sé sérstakur viðauki sem varði útreikning á eiginfjárkröfu vegna gjaldeyrisáhættu. Að síðustu megi hér nefna reglur um gjaldeyrisjöfnuð nr. 707/2009 sem settar hafi verið með stoð í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Með því að túlka 13. og 14. gr. vaxtalaga á þann hátt að í þeim felist bann við gengistryggingu sé í raun komist að þeirri niðurstöðu að lánveitanda sem vilji lána í erlendum myntum hér á landi, sé óheimilt að gengisbreyta láninu áður en það sé greitt út og innheimta það í íslenskri mynt. Þannig virðist gerð sú krafa að lántakinn fái hina erlendu mynt afhenta og þurfi jafnframt að greiða til baka í henni. Þetta gerir það að verkum að umtalsverður kostnaður og fyrirhöfn lendi á lántaka. Þannig virðist hann þurfa í upphafi að hafa sjálfur fyrir því að gengisbreyta láninu, með þeim kostnaði sem því fylgi. Jafnframt þurfi hann mánaðarlega að gengisbreyta íslenskum krónum, yfir í viðkomandi erlenda greiðslumynt til að geta greitt afborganir viðkomandi láns. Með því að leggja þennan kostnað og fyrirhöfn á lántaka, sé veiting erlendra lána hér á landi gerð erfiðari og minna aðlaðandi fyrir lánveitendur og lántaka. Þetta geri það líka að verkum að minni líkur séu á því að lánastofnanir innan EES svæðisins bjóði þjónustu hér á landi. Undir þetta sjónarmið stefnda sé tekið í dómi héraðsdóms Suðurlands frá 29. okt. 2010, í máli nr. E-2601/2010, en þar sé komist að þeirri niðurstöðu að ekki skipti máli að lántaki hafi greitt lánið út í íslenskum krónum enda megi telja að hann hafi hlotið af því nokkurt hagræði og jafnframt losnað undan kostnaði sem fylgi gjarnan kaupum og sölu á gjaldeyri. Ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga um bann við gengistryggingu geri það líka að verkum að innlendar lánastofnanir sem hafi fjármagnað sig með erlendum lánum en greiði út lán í íslenskum krónum geti ekki tryggt raungildi lánsfjárhæðarinnar með sama hætti og þeir sem fjármagna sig í íslenskum krónum. Slíkum aðilum sé þar með gert erfiðara um vik en ella að bjóða upp á lán í íslenskum krónum sökum þess að þeir eigi erfiðara með að tryggja verðgildi útlánasafnsins. Þannig verði öll áhættustýring sem gangi út á jafnvægi milli erlendra og innlendra eigna erfiðari. Þetta sé líklega til þess fallið að draga úr áhuga aðila á að sækja sér fjármagn til annarra ríkja innan EES þar sem þeim sé gert erfiðara um vik að verja sig fyrir breytingum á ytri aðstæðum en aðilum sem fjármagni sig á innlendum markaði. Stefndi telur að þetta feli í sér hindrun á frjálsu flæði fjármagns og fari þar með gegn 40. gr. EES samningsins.

                Þá sé minnt á það að frelsi til fjármagnsflutninga sé einnig lántakendum til hagsbóta, eins og fram hafi komið hjá EFTA dómstólnum. Það auki samkeppni og gefi þeim kost á auknu vali og lægri kostnaði. Það sýni þversögn í löggjöf að banna gengistryggingu lána en heimila að lán séu miðuð við einstaka erlenda hlutabréfavísitölu eða safn af erlendum hlutabréfavísitölum, sbr. heimild í 2. mgr. 14. gr. vaxtalaga, en slík tenging feli bæði í sér gengis-og markaðsáhættu. 

                Jafnvel þó að lánveitingar í erlendum myntum séu ekki bannaðar á Íslandi séu líkur á að bann vaxtalaganna við gengistryggingu íslenskra lána feli í sér hindrun á flæði fjármangs milli Íslands og annarra EES ríkja. Þetta geti t.d. takmarkað áhuga á lánveitingum frá aðilum sem staðsettir séu í öðrum aðildarríkjum EES.

                Stefndi bendir á að svipuð sjónarmið og hér hafa verið rakin megi finna í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins í máli nr. E-1/00 Lánasýsla ríkisins gegn Íslandsbanka-FBA. Í álitinu komi fram að innlendar lagareglur sem letji einstaklinga og lögaðila til að eiga lánsviðskipti við erlenda aðila teljist hindrun á frjálsu flæði fjármagns og almennt þurfi ekki að sýna fram á að tiltekin hindrun hafi merkjanleg áhrif. Nægjanlegt sé að sýna fram á að hún geti hugsanlega haft slík áhrif. EES samningurinn geri ráð fyrir hlutleysi varðandi þá mynt sem notuð sé í lögmætum lánsviðskiptum, a.m.k. þegar um myntir aðildarríkja EES sé að ræða. Jafnframt falli undir fjármagnsflutninga þær aðferðir sem þurfi til útfærslu á framkvæmd þeirra, s.s. tryggingar fjárskuldbindinga, val á mynt láns eða viðmið varðandi endurgjald. Um þetta megi vísa í dóm EFTA dómstólsins í máli E-10/04 Piazza, dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-222/97 Trummer and Mayer og í viðauka og orðskýringa við tilskipun 88/361/EEC (sem sé að finna í Viðauka XII við EES samninginn). Verði að telja að hið sama eigi við innan EES, enda beri að túlka reglur ESB og EES til samræmis, m.a. á sviði frjálsra fjármagnsflutninga, eins og fram hafi komið hjá EFTA dómstólnum t.a.m. í máli E-10/04 Piazza, málsgrein 33 og máli E-1/04 Fokus Bank, málsgrein 23.         

                Á grundvelli þeirra röksemda sem komið hafa fram í þessum kafla telur stefndi að bann 13. og 14. gr. vaxtalaga við gengistryggingu lána hafi í för með sér brot á 40. gr. EES samningsins. Stefndi vill í þessu sambandi einnig vísa til þeirrar skyldu samningsaðila EES samningsins að gera allt sem þeir geti til að standa við skuldbindingar sínar skv. 3. gr. samningsins. Til viðbótar við þetta megi nefna að skv. 3. gr. laga nr. 2/1993 skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Íslenskir dómstólar hafa hingað til seilst nokkuð langt í túlkun íslenskra laga til samræmis við ákvæði EES samningsins. Þannig hafi ákvæði hans verið túlkað sem sérregla sem hafi gengið framar skýru ákvæði annarra laga í dómi Hæstaréttar nr. 477/2002.

                Mótmæli við málsástæðum stefnanda: Í stefnu eru fjölmargar málsástæður settar fram sem mörgum hverjum hefur verið svarað fyrr í greinargerð þessari. Þó séu nokkrar málsástæður sem enn sé ósvarað og komi andsvör við þeim fram í þessum kafla.

                Stefnandi heldur því fram að um dulbúinn lánssamning sé að ræða. Þetta standist engan veginn eins og sýnt hafi verið fram á í umfjöllun um muninn á leigusamningum og lánssamningum fyrr í greinargerð þessari.

                Í stefnu sé því haldið fram að í þjónustugjaldskrá stefnda komi fram að heimilt sé að greiða upp aðra samninga en rekstrarleigusamninga með tilteknu uppgreiðslugjaldi og að þetta bendi til þess að um lánssamning sé að ræða, fremur en leigusamning. Stefndi neitar því að í þjónustugjaldskrá komi fram að heimilt sé að greiða upp aðra samninga en rekstrarleigusamninga með tilteknu uppgreiðslugjaldi. Tilgreint ákvæði sé aðeins til viðmiðunar í þeim tilvikum sem stefndi samþykkir að viðkomandi leigutaki megi greiða leiguna á einu bretti út samningstímann. Ekkert heimildarákvæði sé um uppgreiðslu í fjármögnunarleigusamningnum sjálfum. Það sé meginregla í leigurétti að leigutaki þurfi að fá samþykki leigusala ef hann vilji ljúka samningnum fyrr en skv. upphaflegum gildistíma hans. Það sama eigi við um lánssamninga ef ekkert er kveðið á um það í samningi aðila, þar þurfi því líka heimild lánveitanda fyrir uppgreiðslu. Við mat á því almennt hvort leyfa eigi uppgreiðslu samnings sé horft til þess hvernig sambandi við frumlánveitenda stefnda sé háttað og eftirspurn eftir fjármagni á markaði, þ.e. hvort hægt sé að koma uppgreiðslufjárhæðinni ,,aftur í vinnu“ ef uppgreiðsla sé heimiluð.

                Á bls. 7 í stefnu kemur fram að í 17. gr. skilmála samningsins sé tekið fram að leigutaki beri áhættuna af því ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar eftir að seljandi hafi afhent hið leigða. Stefnandi telji að þetta bendi til þess að fremur sé um lánssamning að ræða en leigusamning sökum þeirrar meginreglu leiguréttar að leigusali beri áhættuna af þeim þáttum sem að framan hafi verið lýst. Stefndi mótmælir þessari túlkun og bendir á að frá framangreindri meginreglu verði að sjálfsögðu vikið með samkomulagi aðila eins og gert sé í þessu tilviki. Í fjármögnunarleigusamningi sem þessum sé mun nærtækara að umráðamaður tækis beri ábyrgðina á framangreindum þáttum og leiði þetta til þess að hann passi betur upp á tækið. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á það að leigutaki beri ábyrgð á því að greiða vátryggingariðgjöld af tækinu, sbr. 23. gr. samningsins. Það að hann beri framangreinda ábyrgð á tækinu verði til þess að hann passi betur upp á að tækið sé ávallt vátryggt og að tryggingar verði ekki felldar niður vegna vanskila.

                Stefnandi vísar til þess í stefnu að eignarleigusamningar falli undir lög nr. 21/1994 um neytendalán, sbr. d-lið 1. mgr. 2. gr. laganna. Þetta telur stefnandi að bendi til þess að löggjafinn telji ástæðu til þess að flokka eignaleigusamninga fremur sem lánssamninga en leigusamninga. Stefndi telur að þessi málsástæða stefnanda geti engan veginn staðist. Í tilvitnaðri grein laganna sé verið að fjalla um hvaða samningar falli ekki undir lögin og séu þar leigusamningar sérstaklega undanskildir. Fyrirvari sé þó gerður um það í ákvæðinu að undir þessa undantekningu um leigusamninga falli ekki eignaleigusamningar. Ákvæðið undirstrikar hins vegar að eignaleigusamningar séu leigusamningar með því að taka sérstaklega fram að aðrir leigusamningar falli ekki undir ákvæðið. Það sé engan veginn hægt að gagnálykta út frá þessu og halda því fram að sökum þessa hafi löggjafinn flokkað alla eignaleigusamninga sem lánssamninga. Greina þurfi innihald hvers samnings til að komast að niðurstöðu hvað þetta varði. Í dómum Hæstaréttar hafi þannig kaupleigusamningar Lýsingar og SP – Fjármögnunar, við einstaklinga, taldir vera kaupleigusamningar sem í raun væru dulbúnir lánssamningar. Rekstrarleigusamningar, sem sé ein tegund eignaleigusamninga, geti hins vegar ekki undir nokkrum kringumstæðum talist vera lánssamningar og það sama eigi við um hinn umþrætta fjármögnunarleigusamning aðila. Hér verði einnig að horfa til 1. gr. laganna um neytendalán en þar komi fram að lögin taki til lánssamninga sem lánveitandi geri í atvinnuskyni við neytendur. Í 4. gr. laganna sé neytandi skilgreindur sem einstaklingur sem eigi lánsviðskipti sem lögin nái til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu. Stefnandi í máli þessu sé lögaðili en ekki neytandi og samningurinn sé gerður í atvinnuskyni af hans hálfu og því eigi lögin um neytendalán ekki við í þessu sambandi.

                Framangreind tilvísun í d. lið 2. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán breyti engu um það að fjármögnunarleigusamningar séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Ákvæðið hafi eingöngu í för með sér að eignaleigufyrirtækjum sé skylt að gæta að ákvæðum þeirra laga við gerð eignaleigusamninga þegar gagnaðilar þeirra séu neytendur, m.a. um upplýsingaskyldu. Áður hafi komið fram í greinargerð þessari að fjármögnunarleigusamningar séu eingöngu gerðir við lögaðila í rekstri sem geti nýtt sér kosti samningsformsins um gjaldfærslur o.fl. Ákvæði neytendalánalaga geti ekki breytt eðli eignaleigusamninga gagnvart gildissviði annarra laga, eins og vaxtalaga nr. 38/2001. Tekið skuli fram að í lögum um neytendalán sé ekki að finna neina takmörkun á heimild til verðtryggingar eða heimild til að stofna til skuldbindinga í erlendum myntum.

                Stefnandi hefur krafist dráttarvaxta af allri stefnufjárhæðinni frá 6. sept. 2010 með tilvísun í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi mótmælir þessari kröfu sérstaklega og telur hana ólögmæta og bendir á að hann hafi ekki verið krafinn um greiðslu á stefnukröfum fyrr en með stefnu í máli þessu sem þingfest var hinn 9. sept. sl. Tekið skuli fram að í innheimtubréfi stefnanda frá 6. ágúst sl. hafi engar skilgreindar fjárhagslegar kröfur verið.

                Tilvísun til réttarreglna: Vísað er til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. gr., 13. gr. og 14. gr. þeirra laga. Einnig er vísað til lokamálsgreinar 2. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 varðandi það að ávallt sé heimilt að víkja frá ákvæðum vaxtalaga til hagsbóta fyrir skuldara.

                Stefndi vísar til þeirrar meginreglu í leigurétti að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Stefndi byggir hér einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu skv. efni sínu.

                Vísað er til 1. og 4. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994 varðandi það að lögin eigi ekki við fjármögnunarleigusamninga.

                Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

                Vísað er til 3. tl. 1. mgr. 3. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. mgr. 20. gr. sömu laga varðandi skilgreiningu á eignaleigu og það að fjármögnunarleiga feli ekki í sér útlánastarfsemi.

                Vísað er til 3. og 40. gr. l. nr. 2/1993 varðandi það að við túlkun á 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 verði að horfa til EES réttar.

Niðurstaða

                Ágreiningur málsins lýtur að því hvort samningur nr. 144120-121, er málsaðilar gerður 31. október 2007, sé lánssamningur og falli þar af leiðandi undir gildissvið laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og stefnandi heldur fram eða leigusamningur þannig að ákvæði laga nr. 38/2001 eigi ekki við, svo sem stefndi telur. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Nefndur samningur ber nafnið Fjármögnunarleigusamningur. Í upphafi nefnds samnings kemur fram að stefndi er leigusali og stefnandi (áður Hreinsun og tæki ehf.) er leigutaki. Samkvæmt 1. gr. er hið leigða Unic URW 506 smákrani fnr: DA0011, árg:2007, skv. reikn. seljanda nr. 1054, dags. 30.10.2007. Í 2. gr. samningsins kemur fram að leigugrunnur sé 7.594.500 kr. með virðisaukaskatti. Fjárhæð án vsk. er þar tilgreind sem 6.100.000 kr. og er sú fjárhæð einnig umreiknuð í þær erlendu myntir sem samningurinn samanstendur af. Samkvæmt 3. gr. samningsins er Hreinsun og tæki ehf. (nú stefnandi) tilgreindur sem seljandi tækisins. Samkvæmt 4. gr. er grunnleigutími samningsins 5. nóvember 2007 til 4. nóvember 2012. Í 5. gr. samningsins kemur fram að leigugreiðsla við undirritun sé 2.500.000 kr. án vsk. Í 6. gr. segir að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum grunnleigutíma (5. nóvember 2012), samtals 5.633 kr. án virðisaukaskatts. Í 10. gr. samningsins er m.a. tekið fram að gengið sé miðað við samningsdag 30. október 2007. Þá er tekið fram í ákvæðinu að Libor vextir á samningsdegi séu 1,46% auk 3,50% álags. Þetta eru hinir sérstöku skilmálar samningsins.

                Í almennum skilmálum samningsins segir í 12. gr. að að loknum grunnleigutíma framlengist leigusamningurinn ótímabundið skv. 6. gr. samningsins. Í sömu grein er tekið fram að leigutaki geti þó sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða.

                Í 13.-14. gr. kemur fram að stefndu sé heimilt að endurreikna leiguna miðað við breytingar á gengi og LIBOR vöxtum. Í 15. gr. samningsins er tekið fram að stefndi er eitt eigandi hins leigða. Samningnum fylgdi greiðsluáætlun. Þar eru allar fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum og sundurliðaðar í greiðslu höfuðstóls, vexti, afborgunarhlutfall og eftirstöðvar. 

Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 282/2011: Íslandsbanki hf. gegn þrotabúi AB 258 ehf., var ágreiningur um hvort svokallaður samningur um fjármögnunarleigu væri leigusamningur eða lánssamningur. Engu skiptir þótt það mál sé höfðað sem ágreiningsmál við gjaldþrotaskipti, en ekki einkamála. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að umræddur samningur væri lánssamningur. Í samningi þeim sem hér er til umfjöllunar eru oft og tíðum notuð önnur hugtök en í samningi Íslandsbanki hf. Þó er um efnislega sambærileg ákvæði að ræða. Aðstæður samningsaðila voru sambærilegar það er að segja, að í báðum tilvikum áttu fyrirtækin (Hreinsun og tæki ehf./stefnandi og Kraftvélar ehf.) frumkvæðið að kaupum á vélunum og annaðist stefnandi innflutning þeirra og greiddi aðflutningsgjöldin. Stefnandi leitaði einungis til stefnda um fjármögnun á hluta verðsins.

Hinn umdeildi samningur málsaðila er ekki svo skýr sem skyldi, fremur en samningur sá er lá fyrir í Hæstaréttarmálinu nr 282/2011. Samkvæmt 3. gr. samningsins er Hreinsun og tæki ehf. (nú stefnandi) tilgreint sem seljandi þótt samningurinn sé ekki um kaup samkvæmt heiti hans. Í 2. gr. samningsins er leigugrunnur tilgreindur 6.100.000 kr. og að viðbættum virðisaukaskatti samtals 7.594.500 kr. Í samningi Íslandsbanka hf. er talað um kaupverð eða samningsfjárhæð. Þessi hugtök skipta ekki máli, því í báðum tilvikum er verið að tala um höfuðstólinn. Þegar um leigusamninga er að ræða þarf ekki að tilgreina höfuðstól, en slíkt þarf eðli máls samkvæmt að gera í lánssamningum eins og gert er í samningnum. Í samningi Íslandsbanka hf. er bæði upphaf vaxta og gengið miðað við útborgunardag eins og segir í samningum. Í 10. gr. samnings stefnda er upphaf vaxta og gengis miðað við samningsdag sem er 30. október 2007. Fyrir liggur að þann dag var lánið borgað út. Því er hér um sama atriði að ræða, en önnur hugtakanotkun. Þessi ákvæði samrýmast mun betur lánasamningum en leigusamningum.

Þegar vikið er að almennu skilmálunum þá liggur fyrir að afborganir stefnanda af samningnum báru vexti, en slíkt samrýmist ekki eðli leigusamninga. Samkvæmt 17. gr. samningsins ber leigutaki, þ.e. stefnandi, áhættuna af því að leigða ferst, skemmist eða rýrnar, en ákvæðið samrýmist vart því að um leigusamning geti verið að ræða. Um efnislega sambærileg ákvæði er að ræða. Í 28. gr. og 30. gr. samningsins er kveðið á um riftun og uppgjör og fellur greiðsluskylda stefnanda þá ekki niður. Þessi ákvæði eru efnislega þau sömu og í nefndum dómi Hæstaréttar og taldi Hæstiréttur að þau samrýmdust á engan hátt reglum um uppgjör við slit á fjármögnunarleigusamningum. Í 12. gr. hins umdeilda samnings er kveðið á um að að loknum grunnleigutíma framlengist samningurinn ótímabundið og í 6. gr. hans er kveðið á um að mánaðarleg framhaldsleiga sé 5.633 kr. frá 5. nóvember 2012. Stefnandi heldur því fram að þrátt fyrir þetta samningsákvæði hafi verið samið um það frá upphafi að stefnandi myndi eignast kranann í samningslok gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu. Því til sönnunar bendir stefnandi á upplýsingar sem fram koma á heimasíðu stefnanda. Þar segir, þegar verið er að kynna fjármögnunarleigusamninga, að í lok grunnlegutímans, sem venjulega sé 30 til 60 mánuðir, eigi viðskiptamaðurinn kost á því að kaupa tækið eða leigja það áfram. Síðar á sömu heimasíðu er kveðið á um að kaupverðið sé yfirleitt 3% af upphaflegum leigugrunni. Í öðru lagi bendir stefnandi á að á greiðsluseðlum þeim sem hann hafi fengið frá stefnanda sé lokagjald tilgreint. Í þriðja lagi bendir stefnandi á, að á yfirliti frá stefnda, dags. 31. ágúst 2010 (dskj. 18) sem varðar samning þann sem hér er til umfjöllunar, komi fram að lokagjaldið sé 3% og tilgreint sem 272.396 kr. Þegar á þetta er litið er fallist á það með stefnanda að samið hafi verið svo um, þrátt fyrir ákvæði 24. gr. samningsins frá 31. október 2007, að stefnandi eignaðist kranann gegn fyrir fram ákveðinni greiðslu í lok samningstímans.

Með vísan til þess sem að framan greinir svo og sjónarmiða sem koma fram í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 282/2011, er samningur aðila eftir efni sínu ekki leigusamningur heldur lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Þar með er óheimilt að verðtryggja lánið, sem er í íslenskum krónum, með því að binda það við erlent gengi. Málsástæða stefnda um að samningafrelsi ríki í viðskiptum og þær forsendur sem lágu fyrir við gerð samningsins, er haldlaus í máli þessu.

Þá breytir skattalega meðferð stefnanda á samningnum í framtalsskilum sínum, og hvort virðisaukaskattur hafi verið greiddur, ekki eðli samningsins og getur ekki miðað við það sem að framan er rakið gert samninginn að leigusamningi.

Þá byggir stefndi á því að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 2. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 enda sé það gert til hagsbóta fyrir skuldara. Það hafi stefndi gert í máli þessu. Stefndi hefur sönnunarbyrði fyrir því að hagstæðari kosturinn hafi orðið ofan á fyrir stefnanda. Hinn umræddi lánssamningur var gerður 31. október 2007 og var þá þegar farið að gæta óstöðugleika á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og tæpu ári síðar féll gengi krónunnar mjög mikið. Við mat á því hvort lánskjör hafi verið stefnanda til hagsbóta í samanburði við annan kost sem honum stóð til boða getur engum úrslitum ráðið hvort svo kunni að hafa verið á því tímamarki sem lánið var tekið. Matsgerð sú er stefndi aflaði undir rekstri málsins styrkir varla málatilbúnað stefnanda. Því er málsástæðu þessari hafnað.

Þá er því hafnað að ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 stangist á við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-rétti og er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 225/2011, en þar hafnaði Hæstiréttur Íslands kröfu stefnda um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í ágreiningi málsaðila.

Með vísan til þess sem að framan greinir er krafa stefnanda tekin til greina, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Stefnda ber að greiða dráttarvexti, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Engin efni eru til að hafa upphafstíma annan en krafist er í málinu. Stefnda ber að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Lýsing hf. greiði stefnanda, Smákrönum ehf., 1.076.183 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. september 2010 og til greiðsludags og  2.000.000 kr. í málskostnað.