Hæstiréttur íslands

Mál nr. 707/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 707/2010.

MP banki hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

þrotabúi Icarusar ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kærumál. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að þrotabúi I ehf. yrði heimilað að leiða þrjú nafngreind vitni fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð í máli þess gegn M hf. Í héraðsdómi var talið að vitninu G væri ætlað að bera um umdeild málsatvik, vitnið M gæti upplýst um stefnu M hf. við hlutabréfakaup og vitninu S yrði ekki meinað að koma fyrir dóm til að staðfesta aðkomu sína að tilteknu skjali og svara spurningum varðandi efni þess. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2010, þar sem hrundið var mótmælum sóknaraðila gegn því að varnaraðila yrði heimilað að leiða þrjú nafngreind vitni fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði meinað að leiða þessi vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, MP banki hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar  30. nóvember sl., var þingfest 21. janúar sl.

Stefnandi er þrotabú Icarusar ehf. (áður Saxbygg ehf.), Borgartúni 33, Reykjavík.

Stefndi er MP Banki hf., Skipholti 50d, Reykjavík.

Í þinghaldi 30. nóvember sl. upplýsti lögmaður stefnanda að hann hygðist við aðalmeðferð málsins, sem fyrirhuguð er föstudaginn 3. desember nk., leiða vitnin Björn Inga Sveinsson, fyrrverandi fyrirsvarsmann stefnanda, Bárð Þór Sveinsson, starfsmann stefnda, Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi forstjóra stefnda, Guðmund A. Birgisson fjárfesti, Margeir Pétursson, fyrrverandi formann stjórnar stefnda, Símon Á. Gunnarsson, endurskoðanda hjá KPMG og endurskoðanda félagsins Icarusar ehf., og Einar Baldvin Stefánsson, forstöðumann lögfræðisviðs VBSÍ.

Lögmaður stefnda kvaðst ekki gera athugasemd við að Björn Ingi Sveinsson, Bárður Þór Sveinsson og Styrmir Þór Bragason komi fyrir dóminn til skýrslugjafar. Hann mótmælti því ekki að Einar Baldvin komi fyrir dóminn en telur skýrslu hans þýðingalausa fyrir málið. Hins vegar mótmælti hann því að Guðmunur, Margeir og Símon komi fyrir dóminn til skýrslugjafar.

Lögmaður stefnanda upplýsti að Guðmundi A. Birgissyni fjárfesti sé ætlað að bera um tilraun sína til að selja bréf í MP banka. Hann geti því borið um hvort hlutabréf í MP banka hafi verið velkomin greiðsla á þeim tíma sem um ræðir og hvort stefndi hafi talið eftirsóknarvert á þeim tíma að kaupa eigin bréf eins og stefndi heldur fram í greinargerð. Sé honum þar með ætlað að bera um umdeild málsatvik.

Lögmaður stefnanda upplýsti að Margeir Pétursson hafi verið formaður  stjórnar stefnda á þeim tíma sem um ræðir og geti upplýst um stefnu bankans á þeim tíma um áform um stækkun bankans og stefnu bankans varðandi það að eignast bréf í sjálfum sér.

Þá upplýsti lögmaður stefnanda að Símoni Á. Gunnarssyni, væri ætlað að staðfesta dómskjal nr. 26 og bera um fjárhagsstöðu stefnanda á umræddum tíma.

Lögmaður stefnda mótmælti því að Guðmundur, Margeir og Símon komi fyrir dóminn og gefi skýrslu um það sem lögmaður stefnanda hafi upplýst að ætlunin sé að spyrja þá um.

Mótmæli sín rökstyður lögmaður stefnda með því að Guðmundur A. Birgisson sé ekki vitni í skilningi einkamálalaga þar sem það sem hann eigi að gefa skýrslu um snerti ekki málsatvik eða þau viðskipti sem um er deilt í máli þessu.

Lögmaður stefnda telur að það sem spyrja eigi Margeir Pétursson um, þ.e. um stækkun bankans, snerti ekki málsatvik í þessu máli og sé óviðkomandi því sem að um er deilt í málinu.  Hann sé því ekki vitni eins og það sé skilgreint í einkamálalögunum.

Lögmaður stefnda telur dómskjal nr. 26 vera sérfræðiskýrslu sem aflað hafi verið einhliða.  Sá sem hana samdi, Símon Á. Gunnarsson, sé ekki vitni í skilningi einkamálalaganna og geti ekki borið um fjárhagsstöðu stefnanda á umræddum tíma.  Hann sé sérfræðivitni og fyrrverandi endurskoðandi félagsins. Lögmaður stefnanda vísaði í 51. gr. einkamálalaganna og til þess að stefndi byggi á því í greinargerð sinni að umdeild greiðsla hafi ekki skert greiðslugetu stefnanda verulega og stefnandi verið gjaldfær, sem stefnandi mótmælir.

Lögmaður stefnanda mótmælir öllum rökum lögmanns stefnda og krefst þess að tilgreindir aðilar fái að gefa skýrslu fyrir dómi.

Lögmönnum aðila var gefinn kostur á að rökstyðja mál sitt frekar. Var málið síðan tekið til úrskurðar um framangreindan ágreining.

Í greinargerð stefnda er fullyrt að mikil verðmæti hafi falist í hlutbréfum í bankanum og þau hafi því verið velkomin greiðsla á umræddri skuldbindingu Saxbygg ehf. Stefnandi fullyrðir hins vegar að greiðslan hafi verið innt var af hendi með þessum hætti þar sem aðrir kostir hafi ekki verið til staðar vegna bágrar fjárhagsstöðu stefnanda og stefndi hafi tekið við umræddum bréfum án vonar um að geta selt þau öðrum á hærra verði. Eins og áður greinir er Guðmundi A. Birgissyni fjárfesti ætlað að bera um tilraun sína til að selja bréf í MP banka. Kveður stefnandi hann því geta borið um hvort hlutabréf í MP banka hafi verið velkomin greiðsla á þeim tíma sem um ræðir og hvort stefndi hafi talið eftirsóknarvert á þeim tíma að kaupa eigin bréf eins og stefndi heldur fram í greinargerð. Fallast ber á með stefnanda að vitninu sé þar með ætlað að bera um umdeild málsatvik í máli þessu. Ber því að fallast á að stefnanda sé heimilt að leiða umrætt vitni fyrir dóm til skýrslugjafar.

Margeir Pétursson var formaður stjórnar stefnda á umræddum tíma. Enda þótt hann hafi sem slíkur ekki komið beint að viðskiptum málsaðila verður að telja að hann sem formaður stjórnar á umræddum tíma geti upplýst um stefnu bankans varðandi kaup á hlutabréfum í bankanum. Ber því þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu stefnanda um að leiða hann sem vitni fyrir dóminn.

Stefnandi hefur lagt fram sem dómskjal nr. 26 bréf Símonar Á. Gunnarssonar endurskoðanda þar sem hann svarar beiðni stefnanda um að taka saman áætlaðan efnahagsreikning Saxbygg ehf. miðað við 24. nóvember 2008. Framlagningu þessa skjals hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Þá er upplýst að Símon hafi verið endurskoðandi félagsins Icarusar ehf. Telja verður að vitninu verði ekki meinað að koma fyrir dóm til að staðfesta aðkomu sína að skjalinu og svara spurningum varðandi efni þess. Það kemur hins vegar til skoðunar síðar hvert sönnunargildi skjalið hefur eða hvort það hefur þýðingu í málinu.

Samkvæmt framansögðu er stefnanda heimilt að leiða vitnin Guðmund A. Birgisson, Margeir Pétursson og Símon Á. Gunnarsson fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð máls þessa.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stefnanda, þrotabúi Icarusar ehf., er heimilt að leiða vitnin Guðmund A. Birgisson, Margeir Pétursson og Símon Á. Gunnarsson fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð máls þessa.