Hæstiréttur íslands
Mál nr. 286/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 29. maí 2008. |
|
|
Nr. 286/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
|
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. júní 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. júní nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær um kl. 18:40 hafi kærði verið handtekinn við Þjóðarbókhlöðuna í Reykjavík, grunaður um innbrot í íbúð að Y í Reykjavík 14. maí sl., þar sem stolið hafi verið tveimur fartölvum, myndavél og peningaveski með um 1.000 evrum. Kærði hafi viðurkennt innbrotið hjá lögreglu. (mál lögreglu nr. 007-2008-34697).
Kærði sé nú undir rökstuddum grun um að hafa framið eftirfarandi brot:
Mál 007-2008-8375
Mánudaginn 4. febrúar sl. hafi lögreglunni borist tilkynning um þjófnað í verslun 10-11 í Austurstræti í Reykjavík. Tilkynnandi hafi skýrt lögreglu frá því að hann hefði séð kærða ganga út úr versluninni með matvörur innanklæða. Kærði neiti sök, hann hafi haft umræddar vörur á sér er hann hafi komið inn í verslunina.
Mál 007-2008-10318
Mánudaginn 11. febrúar sl. hafi verið tilkynnt um þjófnað á seðlaveski úr bifreið við Rafstöðvarveg í Reykjavík, sem í voru talsverð veðmæti, þ. á m. GSM-farsími og greiðslukort. Þjófnaður þessi muni hafa átt sér stað 6. febrúar sl. Í ljós hafi komið að greiðslukort kæranda hefði verið notað í þrjú skipti, samtals að fjárhæð kr. 20.223. Í tveimur tilvikum hafi kennsl verið borin á kærða úr myndavélakerfum tveggja verslana, þar sem hann hafi verið að nota umrætt greiðslukort. Kærði segist ekki muna eftir umræddum atvikum, en hafi borið kennsl á sjálfan sig á umræddum myndum.
Mál 007-2008-10895
Miðvikudaginn 13. febrúar sl. hafi verið tilkynnt um tilraun til ætlaðra fjársvika í versluninni Adam og Eva að Hverfisgötu í Reykjavík. Kærði sé grunaður um að hafa stolið greiðslukorti fyrr sama dag í húsnæði menntasviðs Reykjavíkurborgar (mál nr. 007-2008-10856) og reynt að nota það í umræddri verslun. Muni kærði hafa reynt að greiða fyrir vörur og óskað eftir að taka kr. 5.000 umfram greiðslufjárhæð. Starfsmaður hafi veitt athygli að kærði væri ekki korthafi og kallað til lögreglu. Kærði játi sakargiftum.
Mál 007-2008-10856
Fimmtudaginn 14. febrúar sl. hafi verið tilkynnt um þjófnað á kortaveski og tveimur GSM-farsímum úr húsnæði menntasviðs Reykjavíkurborgar að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík. Umrætt veski og annar GSM-farsíminn hafi verið í eigu starfsmanns og hinn síminn í eigu Reykjavíkurborgar. Kærði hafi játað sakargiftum og borið kennsl á sjálfan sig af myndbandsupptöku.
Mál 007-2008-13042
Föstudaginn 22. febrúar sl. hafi lögregla haft afskipti af kærða á Háteigsvegi í Reykjavík. Kærði hafi haft í umrætt sinn í fórum sínum 0,28 grömm af kannabisefni. Kærði hafi viðurkennt vörslurnar.
Mál 007-2008-15077
Föstudaginn 29. febrúar sl. hafi verið tilkynnt um stuld á bifreiðinni Z. Hinn 4. mars sl. hafi bifreiðin fundist en kærandi hefði þá ekið á eftir manni nokkrum, sem lagt hefði bifreiðinni við Þ í Reykjavík. Í ljós hafi komið að um kærða væri að ræða sem kærandi hafi borið kennsl á sem ökumann bifreiðarinnar í umrætt sinn. Kærði hafi játað sakargiftum.
Mál 007-2008-15258
Föstudaginn 29. febrúar sl. hafi lögreglan fengið tilkynningu um þjófnað úr póstkassa við Æ í Reykjavík. Í eftirlitsmyndavélakerfi megi sjá kærða brjóta upp umræddan póstkassa og taka þaðan póst. Kærði viðurkenni sök, hafi hann sagst hafa ætlað að stela útsendum ávísunum (örorkubótum) frá félagsmálastofnun.
Mál 007-2008-17258
Laugardaginn 8. mars sl. hafi lögregla haft afskipti af kærða á Grettisgötu í Reykjavík. Kærði hafi í umrætt sinn haft í fórum sínum 0,09 grömm af marihuana. Kærði hafi viðurkennt vörslurnar.
Mál 007-2008-18235
Mánudaginn 10. mars sl. hafi verið brotist inn í bifreiðina Ö þar sem hún stóð við hús nr. [...] við Hringbraut í Hafnarfirði. Úr bifreiðinni hafi verið stolið tveimur veskjum. Hinn 11. mars sl. hafi A verið handtekin með veskin á sér. Hafi hún skýrt lögreglu frá því að hún ásamt kærða hafi brotist inn í bifreiðina. Kærði neiti sök.
Mál 007-2008-17960
Mánudaginn 10. mars sl. hafi verið brotist inn í bifreiðina V þar sem hún stóð við Hafnarfjarðarkirkju. Úr bifreiðinni hafi verið stolið GPS-staðsetningartækjum og persónuskilríkjum. Hinn 11. mars sl. hafi A verið handtekin með umrædd persónuskilríki. Hafi hún sagst vera geyma skilríkin fyrir kærða. Kærði neiti sök.
Mál 007-2008-18272
Þriðjudaginn 11. mars sl. hafi lögreglu borist tilkynning um innbrot í bifreiðina U þar sem hún hafi staðið við hús nr. [...] við Rauðarárstíg í Reykjavík. Hafi tilkynnandi skýrt frá því að brotist hefði verið inn í bifreiðina á tímabilinu frá 1. febrúar til 11. mars og þaðan stolið rafhlöðuborvél, heftibyssu og pinnabyssu, auk tveimur farangursspjöldum. Þennan sama dag hafi A verið handtekin. Í fórum hennar hafi fundist umrædd farangursspjöld. Hafi A skýrt frá því að hún væri að geyma þýfi fyrir kærða, þ. á m. farangursspjöldin. Kærði neiti sök.
Mál 007-2008-20844
Laugardaginn 22. mars sl. hafi lögreglunni borist tilkynning um þjófnað í verslun Nóatúns við Nóatún í Reykjavík. Í eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar hafi sést til kærða stinga inn á sig kjötvörum. Kærði játi ætlað brot.
Mál 007-2008-22987
Mánudaginn 31. mars sl. hafi verið tilkynnt um þjófnað úr bifreið við T í Reykjavík. Kærandi hafi m. a. sagst hafa séð mann nokkurn, sem hann hefði grunaðan um verknaðinn, skömmu áður ganga inn í verslun Select við Suðurfell. Í ljós hafi komið að umrædd lýsing ætti við kærða, sem hafi verið handtekinn, en hann hafi haft í fórum sínum muni sem stolið hefði verið úr téðri bifreið, þ. á m. IPod-spilara. Kærði játi sakargiftum. Enn fremur hafi kærði haft ávana- og fíkniefni meðferðis, sem hann hafi jafnframt játað að eiga.
Mál 007-2008-29917
Laugardaginn 26. apríl sl. hafi lögreglunni borist tilkynning um nytjastuld á bifreiðinni S, frá bílasölunni Bílahornið. Sé kærði sagður hafa fengið bifreiðina til reynsluaksturs þennan dag um kl. 12. Um kl. 17 hafi lögreglan haft afskipti af B og C á bifreiðinni við R í Hafnarfirði. Hafi þau skýrt frá því að kærði hafi sótt þau á bifreiðinni og að hann væri staddur í verslunarmiðstöðinni Firðinum við Fjarðargötu. Ekki hafi verið tekin skýrsla af kærða vegna málsins.
Mál 007-2008-27786
Föstudaginn 18. apríl sl. hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um þjófnað á tveimur gaskútum við Ú í Kópavogi. Tilkynningunni hafi fylgt að tveir menn á bifreiðinni Q hefðu sést taka kútana ófrjálsri hendi og aka á brott. Lögreglan hafi stöðvað akstur umræddrar bifreiðar, en annar mannanna reynst vera kærði. Í bifreiðinni hafi fundist þrír gaskútar, en þriðja kútnum muni hafa verið stolið frá P í Kópavogi. Enn fremur hafi komið í ljós að tilkynnt hefði verið um nytjastuld bifreiðarinnar deginum áður. Kærði neiti sök í ætluðu þjófnaðarbroti og beri að maður sá, sem hann hefði verið með, hefði stolið þeim. Sá maður hafi játað ætlað brot. Kærði neiti jafnframt sök um ætlaðan nytjastuld og hafi sagst hafa fengið bifreiðina að láni.
Mál 007-2008-34636
Miðvikudaginn 14. maí sl. hafi lögreglu borist tilkynning um þjófnað í Nuddskóla Íslands að Asparfelli 12 í Reykjavík. Stolið hafi verið svörtu leðurbelti. Kærði viðurkenni ætlað brot.
Mál 007-2008-32732
Hinn 5. apríl sl. hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um innbrot í íbúð að O í Reykjavík, þar sem töluvert miklum verðmætum hafi verið stolið, þ. á m. greiðslukortum. Hinn 30. apríl hafi verið brotist inn í húsnæði að Ó í Reykjavík þar sem stolið hefi verið ýmsum varningi að verðmæti um 600.000 krónur, auk greiðslukorta. Hinn 8. maí sl. hafi verið tilkynnt um innbrot að N í Kópavogi þar sem stolið hefði verið handtösku, sem hafði að geyma m.a. greiðslukort. Lögreglunni hafi verið að berast á undanförnum dögum ábendingar um misnotkun á ofangreindum kortum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Fyrir liggi í gögnum málsins myndir af kærða þar sem hann noti eitt af hinum stolnu kortum í hraðbönkum Landsbanka Íslands hf. að Álfabakka, í Grafarvogi og í Háaleiti, þriðjudaginn 6. maí sl. Rannsókn málsins sé á frumstigi, en verið sé að afla gagna um misnotkun kortanna. Kærði hafi ekki verið yfirheyrður um málið.
Auk ofangreindra ætlaðra brota kærða hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerið út ákæru á hendur honum 20. febrúar sl. vegna sjö þjófnaðarbrota, fjögurra fjársvikabrota og fíkniefnabrots. Flest af brotum kærða hafi átt sér stað í janúar á þessu ári.
Telja megi kærða vera vanaafbrotamann í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hafi frá árinu 1979, samkvæmt sakavottorði, hlotið rúmlega 30 refsidóma, einkum og sér í lagi fyrir auðgunarbrot, nú síðast árið 2005. Samtals nemi dæmd fangelsisrefsing kærða tæpum 23 árum.
Rannsókn framangreindra mála sé vel á veg komin. Við rannsókn þeirra hafi komið í ljós að kærði sé í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Það sé því afar brýnt að kærði sæti síbrotagæslu svo unnt verði að ljúka málum hans hjá lögreglu og fyrir dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til framanritaðs og framlagðra gagna verður að telja ljóst að veruleg hætta sé á því að kærði muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. júní nk. kl. 16.00.