Hæstiréttur íslands

Mál nr. 107/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Veikindalaun


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. september 2004.

Nr. 107/2004.

Örn Sævar Daníelsson

(Skúli Pálsson hrl.)

gegn

Olíudreifingu ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Sjómenn. Veikindalaun.

Ö sem hafði verið sagt upp störfum hjá O ehf., var boðin tímabundin ráðning sem annar stýrimaður og yfirstýrimaður í afleysingum á skipi í eigu félagsins frá 1. júlí til ársloka 2002. Í málinu krafðist Ö launa úr hendi O ehf. í 6 mánuði með vísan til þess að hann hafi veikst og orðið óvinnufær meðan hann var enn starfsmaður O ehf. Talið var nægilega í ljós leitt að Ö hafi veikst 25. desember 2002 og orðið óvinnufær vegna hjartasjúkdóms. Var ekki fallist á að Ö hafi einhvern tíman á tímabilinu frá 17. janúar til 2. febrúar 2003 orðið óvinnufær á ný. Var krafa Ö því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jónatan Þórmundsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.436.672 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð Ugga Agnarssonar sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum.

Áfrýjandi mun hafa starfað hjá stefnda í tæpan áratug er stefndi sagði honum upp störfum með bréfi 30. apríl 2002. Mun uppsögnin hafa komið í kjölfar þess að stefndi ákvað að hætta siglingum olíuskipsins Kyndils. Nokkru síðar var áfrýjanda þó boðin tímabundin ráðning hjá stefnda sem annar stýrimaður og yfirstýrimaður í afleysingum á skipinu. Gerðu aðilar með sér skriflegan tímabundinn ráðningarsamning 12. september 2002 er gilti frá 1. júlí til ársloka 2002. Áfrýjandi var afskráður af skipinu 17. desember 2002. Áfrýjandi heldur því fram að 25. desember 2002 hafi hann veikst hastarlega og telur hann sig eiga rétt til launa úr hendi stefnda í 6 mánuði á grundvelli 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, ákvæða í hinum tímabundna ráðningarsamningi og þágildandi kjarasamningi milli Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins annars vegar og Skipstjóra- og stýrimannafélags Íslands hins vegar. Aðilar deila ekki um túlkun þessara samninga varðandi rétt áfrýjanda til launa í veikindum. Hins vegar er ágreiningur um það hvort sannað sé að áfrýjandi hafi veikst og orðið óvinnufær meðan hann var enn starfsmaður stefnda. Áfrýjandi vísar um veikindi sín og óvinnufærni til framlagðra læknisvottorða. Stefndi kveður vottorðin ekki vera fullgilda sönnun um veikindi áfrýjanda 25. desember 2002 og til loka þess árs. Nefnir hann að vottorðin hafi verið gefin út nokkru eftir að ráðningartímabili lauk og beri ekki með sér að áfrýjandi hafi leitað til viðkomandi lækna á því tímabili. Þá stangist þau á innbyrðis og kveði raunar ekki nægilega skýrt á um veikindi áfrýjanda. Vottorðin hafi ekki heldur verið staðfest fyrir dómi, auk þess sem eitt þeirra sé útgefið að gengnum hinum áfrýjaða dómi. Til stuðnings varakröfu sinni bendir stefndi sérstaklega á að sé talið að áfrýjandi eigi rétt til launa vegna veikinda við starfslok nái sá réttur ekki lengra en til þess tíma er hann varð vinnufær aftur. Af læknisvottorðum megi draga þá ályktun að áfrýjandi hafi orðið vinnufær einhvern tíman á tímabilinu frá 17. janúar til 2. febrúar 2002, en orðið svo óvinnufær aftur 3. febrúar sama árs. Auk þess mótmælir stefndi kröfu áfrýjanda um upphafstíma dráttarvaxta sem miða beri við þingfestingardag málsins í héraði.

Meðal gagna málsins er ódagsett vottorð Ólafs Ólafssonar læknis þar sem fram kemur að áfrýjandi hafi tilkynnt lækni um veikindi 25. desember 2002. Samkvæmt vottorðinu skoðaði Ólafur áfrýjanda 16. janúar 2003. Er áfrýjandi sagður hafa verið óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms frá 25. desember 2002 og verði svo um óákveðinn tíma. Þá kemur fram í vottorði Jóns Gunnars Hannessonar læknis, 29. apríl 2003, að áfrýjandi hafi tilkynnt honum um veikindi 3. febrúar 2003 og hafi skoðun farið fram sama dag. Er staðfest að áfrýjandi hafi verið óvinnufær þann dag, en tekið fram að óvíst sé hvenær hann verði vinnufær. Er því bætt við að áfrýjandi muni að líkindum framvegis vera ófær til að starfa á sjó. Í öðru vottorði síðastnefnds læknis, 10. nóvember 2003, segir að áfrýjandi sé haldinn hjartasjúkdómi og hafi af þeim sökum verið óvinnufær með öllu frá og með 25. desember 2002. Eins og fram komi í sjúkragögnum frá Landspítalanum hafi hann slæman hjartasjúkdóm, Cardiomyopathiu en einnig hjartabilun. Hann hafi verið hjartaþræddur en í þeirri þræðingu hafi ekki komið fram miklir gallar á æðum. Þá hafi áfrýjandi dvalið á Reykjalundi til endurhæfingar og stundað sjúkraþjálfun. Ástand hans hafi ekki lagast það mikið að hann teljist vinnufær og horfur séu slæmar að því leyti. Eins og að framan greinir hefur áfrýjandi lagt fyrir Hæstarétt vottorð frá Ugga Agnarssyni lækni, 13. febrúar 2004. Þar kemur fram að áfrýjandi hafi greinst með óreglulegan hjartslátt og mæðieinkenni við komu á Landspítalann um jólin 2002. Við hjartaómun 27. desember það ár hafi komið fram merki um hjartastækkun og atrial fibrillation, ásamt vægum miturlokuleka og minni háttar ósæðalokuleka. Er sjúkrasögu áfrýjanda lýst, meðal annars lyfjagjöf, endurhæfingu hans á Reykjalundi og hjartaþræðingu á Landspítala í maí 2003. Þá segir að áfrýjandi hafi síðast komið til skoðunar á spítalanum 3. desember 2003, frekari hjartaómskoðun sé æskileg, en áfrýjandi hafi verið metinn varanlegur öryrki vegna veikinda sinna.

Ekki er deilt um að þau fjögur læknisvottorð sem lögð hafa verið fram í málinu stafi frá tilgreindum þremur læknum. Samrýmast vottorðin hvert öðru en þau eru annars vegar reist á skoðunum viðkomandi lækna á áfrýjanda og hins vegar á sjúkraskýrslum hans. Samkvæmt efni vottorðanna verður að telja nægilega í ljós leitt að 25. desember hafi 2002 áfrýjandi veikst þannig að hann hafi orðið óvinnufær vegna hjartasjúkdóms. Enda þótt í vottorði Jóns Gunnars Hannessonar 29. apríl 2003 sé kveðið á um að áfrýjandi hafi verið óvinnufær frá 3. febrúar þess árs ber að líta til þess að læknirinn skoðaði áfrýjanda fyrst þann dag og staðfestir vottorðið veikindi áfrýjanda frá þeim tíma og óvinnufærni hans í framtíðinni, líkt og önnur vottorð. Staðfesta raunar öll vottorðin óvinnufærni áfrýjanda til framtíðar vegna hjartasjúkdóms. Verður því ekki fallist með stefnda að leiða megi af læknisvottorðunum að áfrýjandi hafi einhvern tíman á tímabilinu frá 17. janúar til 2. febrúar 2003 orðið vinnufær á ný. Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda höfuðstól kröfu hans ásamt dráttarvöxtum frá 1. janúar 2002.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Olíudreifing ehf., greiði áfrýjanda, Erni Sævari Daníelssyni, 1.436.672 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2003 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19.  janúar 2004.

          Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Erni S. Daníelssyni, kt. 271142-4399, Safamýri 53, Reykjavík, gegn Olíu­dreif­ingu ehf., kt. 660695-2069, Gelgjutanga í Reykjavík, með stefnu sem birt var 16. maí 2003.

          Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.436.672 kr. auk dráttarvaxta, eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands hverju sinni, frá 1. janúar 2003 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins.  Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

          Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.  Til vara að stefnu­krafa verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Helstu málavextir eru að með bréfi, dags. 30. apríl 2002, sagði stefndi upp starfs­samningi milli aðila þessa máls „frá og með næstu mánaðamótum að telja".  Af hálfu stefnda segir að ráðið hafi uppsögn að fyrirsjáanlegt hafi verið að stefndi hætti rekstri olíu­skipsins Kyndils vegna fyrirhugaðrar sölu skipsins; hluta af áhöfninni hafi þó verið boðin tímabundin ráðning til ársloka 2002 með skertu starfshlutfalli, þ.á m. stefnanda.

          Fyrir liggur að aðilar gerðu með sér tímabundinn starfssamning frá 1. júlí 2002 til 31. desember sama ár, þar sem stefnandi var ráðinn sem annar stýrimaður og yfirstýrimaður í afleysingum á olíuskipi stefnda.  Í samningi þessum segir um laun og kjör:

Starfsmaður fær föst laun á mánuði, 2. stýrimaður 216.265 kr.

Fasta mánaðarlega greiðslan er miðuð við 160 skráningardaga á ársgrundvelli, þar af allt að 10 dögum á námskeiðum eða við önnur störf í landi utan þess.  Daglaun reiknast 15.931 kr. sem 2. stýrimaður og 17.992 kr. sem yfirstýrimaður.

Föstu mánaðarlaunin innifela allar greiðslur til starfsmanns nema desemberuppbót og orlofs­uppbót eru ekki innifaldar í föstum launum starfsmanns.  Launin eru leiðrétt miðað við siglingatíma í júlí og desember ár hvert.

Laun greiðast mánaðarlega á launareikning starfsmanns.

Launaliður þessa samnings tekur breytingum skv. kjarasamningi milli félags íslenskra skip­stjórnarmanna og Samtaka atvinnulífsins um kaup og kjör skipstjóra og stýri­manna á kaupskipum.

Starfsmanni ber að sinna þeim störfum sem hann er ráðinn til og yfirmaður felur honum.  Vinnuveitanda er heimilt að flytja starfsmann á milli deilda og/eða vinnu­staða, sé um samskonar starf að ræða og starfsmaður er ráðinn til að gegna.

Þá segir í 4. gr. samningsins:

Önnur réttindi starfsmanns eru eftir ákvæðum sjómannalaga og gildandi kjara­samnings Samtaka atvinnulífsins og félags íslenskra skipstjórnarmanna um kaup og kjör skipstjóra og stýrimanna á kaupskipum.  Starfsaldurstengd réttindi miðast við að upp­haf starfs hafi verið 01.02.1993.

          Í málinu liggur fyrir læknisvottorð frá Jóni Gunnari Hannessyni lækni, dags. 10. nóvember 2003, er lagt var fram í réttinum 11. sama mánaðar.  Þar segir:

Örn Daníelsson ... [er] haldinn hjartasjúkdómi og hefur af þeim sökum verið óvinnu­fær með öllu frá og með 25. desember 2002.  Eins og fram kemur í sjúkragögnum á Land­spítalanum hefur Örn slæman hjartasjúkdóm, Cardiomyopathiu en einnig hjarta­bilun og ofan á þetta bætist offita.  Hann var hjartaþræddur fyrir tæpu ári en í þeirri þræð­ingu komu ekki fram stórir gallar í æðum.  Sjúkdómurinn er því greindur sem Cardiomyopathia og hjartabilun.  Örn tekur ýmis lyf eins og Digoxin Cordaron, Lasix, Kaleorid, Kóvar, Ramase og fleira.  Örn hefur dvalið á Reykjalundi til endurhæfingar og stundað sjúkraþjálfun og eigin þjálfun í framhaldinu.  Ástand hans hefur ekki lagast það mikið að hann teljist vinnufær og sýnist mér sem horfur séu slakar til þess að komast aftur úr á almennan vinnumarkað.  Þetta er þó ekki að fullu rannsakað ...

Stefnandi byggir á því að hafa veikst hastarlega 25. desember 2002.  Læknir hafi úr­skurð­að hann óvinnufæran og líklegt að hann færi ekki á sjó framar.  Eigi hann við svo búið réttindi í samræmi við 4. gr. samnings aðila - enda hafi hann unnið hjá stefnda í tæplega tíu ár - og í engu megi lögum samkvæmt skerða rétt sjómanna sem samið hafi verið um í kjarasamningum.  Starfsaldur veiti honum sex mánaða veik­inda­frí á launum, sem stefndi hafi þó alfarið hafnað.  Vegna neitunar stefnda sé launa­krafan að fullu gjaldfallin.

          Fjárkröfu sína í málinu kveðst stefnandi miða við mánaðarlaun sín svo sem þau hafi verið ákveðin í ráðningarsamningi, auk 3,9% hækkun hinn 1. janúar 2003 eða 224.699 kr. á mánuði.  Tölulega sé krafan þannig:

          Höfuðstóll 224.699 kr. í 6 mánuði                                                                              1.348.194 kr.

          Orlofsuppbót                                                                                                                     10.000 kr.

          Desemberuppbót                                                                                                              15.500 kr.

          Lífeyrisiðgjald 6%                                                                                                             82.422 kr.

          Styrktarsjóðsgjald                                                                                                              4.121 kr.

          Orlofssjóðsgjald                                                                                                                 3.435 kr. 

          Samtals dómkrafan                                                                                                      1.463.672 kr.

Stefndi byggir á því að hafa efnt greiðsluskyldu sína við stefnanda samkvæmt starfs­samningi og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Við stefnanda hafi verið gerður tíma­bundinn starfssamningur er gilti frá 1. júlí 2002 til 31. desember 2002 og hafi laun verið gerð upp við hann í samræmi við starfssamninginn.  Engin fyrirheit hafi verið gefin um áframhaldandi starf, en stefnandi hafi verið afskráður í frí 17. desember 2002.  Hafnað hafi verið kröfu stefnanda um laun í veikindum í sex mánuði, en stefnda hefði borist læknisvottorð frá stefnanda seinni hluta janúar 2003. Í vottorðinu segi að skoðun læknisins hafi farið fram 16. janúar 2003.  Annað læknisvottorð hafi verið lagt fram við þingfestingu málsins og þá fyrst kynnt stefnda.  Þar segi að stefn­andi hafi verið óvinnufær frá 3. febrúar 2003.

          Af hálfu stefnda er bent á að gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur í sam­ræmi við kröfur 6. gr. sjómannalaga.  Almennur uppsagnarfrestur eigi ekki við þar sem samið hafi verið um ráðningartímabil samkvæmt heimild í 2. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga.

          Til stuðnings varakröfu sinni í málinu vísar stefndi til þess að með samanburði á fram­lögðum læknisvottorðum í málinu megi gera ráð fyrir að stefnandi hafi verið vinnu­fær einhvern tímann á tímabilinu frá 17. janúar til 2. febrúar, en svo orðið óvinnu­fær aftur frá 3. febrúar 2003.  Og væri talið að stefnandi ætti rétt á veik­inda­launum vegna óvinnufærni við starfslok, þá hafi því tímabili lokið er hann varð vinnu­fær aftur.

Niðurstaða: Óumdeilt er að tímabundinn starfssamningur aðila rann út 31. desember 2002.  Stefnandi staðhæfir að hafa veikst hastarlega 25. desember 2002.  Ekki liggja þó fyrir í málinu nein gögn um að læknisskoðun hafi farið fram fyrr en 16. janúar 2003.  Staðhæfingum lækna í læknisvottorðum um að stefnandi hafi orðið óvinnufær með öllu frá og með 25. desember 2002, er andmælt af hálfu stefnda.  Er viðkomandi læknar álykta að stefnandi hafi veikst þennan dag og verið óvinnufær fram yfir áramót 2002/2003 og þannig innan tímamarka starfssamnings aðila, sé einvörðungu byggt á frá­sögn stefnanda.

          Þar sem viðhlítandi gögn liggja ekki fyrir í málinu að stefnandi hafi verið óvinnu­fær vegna veikinda umrætt tímabil verður að fallast á kröfur stefnda.

          Rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

          Páll Þorsteinsson héraðsdómari  kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

          Stefndi, Olíudreifing ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Arnar Sævars Daníelssonar.

          Málskostnaður fellur niður.