Hæstiréttur íslands
Mál nr. 155/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2012. |
|
Nr. 155/2012. |
Ákæruvaldið (Kolbrún
Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni G.
Björgvinsson hrl.) |
Kynferðisbrot.
X
var sakfelldur í héraði fyrir kynferðislega áreitni samkvæmt 199. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa strokið fætur A, maga, rass og bak
utan klæða og nokkru síðar káfað á kynfærum hennar innanklæða. Var refsing X
ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö
ár. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna
hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til
Hæstaréttar 7. mars 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu
ákæruvalds er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða og að refsing hans
verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða
dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan
áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera
óraskaður.
Ákærði, X, greiði áfrýjunarkostnað
málsins, 426.888 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
Bjarna G. Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 9. febrúar 2012.
Mál þetta,
sem dómtekið var 12. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni
12. ágúst 2011, á hendur X, kt. [...], [...], [...],
„fyrir kynferðislega áreitni en til vara brot gegn blygðunarsemi, með því að
hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. maí 2011, [...], [...], farið inn í
svefnherbergi A, þar sem hún lá í rúmi sínu, strokið fætur hennar, maga, rass
og bak utan klæða og nokkru síðar káfað á kynfærum hennar innanklæða.“
Í
ákæruskjali er brot ákærða talið varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, en til vara við 209. gr. sömu laga og er þess þar krafist að ákærði
verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu
ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af bæði aðal- og varakröfu
ákæruvalds, en ella dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess
krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs
verjanda ákærða, verði greidd úr ríkissjóði.
I
Samkvæmt
frumskýrslu lögreglustjórans á [...], dags. 24. maí 2011, fór rannsóknarlögreglumaður
að heimili brotaþola, A, vegna tilkynningar um kynferðisbrot, sunnudaginn 22.
maí s.á., kl. 13:18. Í skýrslunni er frásögn A rakin og kemur þar fram að hún
hafi verið að skemmta sér um nóttina ásamt þremur vinkonum sínum á [...] á [...]
og hitt þar m.a. ákærða. Ákærði og félagi hans hafi síðan slegist í för með
henni og tveimur vinkvenna hennar að heimili hennar, þar sem hún hafi matreitt pizzu á meðan vinkonur hennar hafi ræðst við í eldhúsinu en
mennirnir setið í sófa í stofunni. Að því loknu hafi hún dregið sig í hlé inn í
herbergi og reynt án árangurs að ná símasambandi við sambýlismann sinn. Hún
hafi þá tekið inn eina töflu af kvíðastillandi lyfi, Alprazolam
Mylan 0,5 mg, lagst alklædd ofan á rúmið og sofnað. Í
gegnum svefninn hafi hún síðan orðið vör við það að einhver væri að strjúka
henni. Viðkomandi hafi ekkert sagt en af lyktinni af honum hafi henni verið
ljóst að um ákærða væri að ræða. Henni hafi virst sem hann væri að leita leiða
til að komast inn fyrir föt hennar. Hún hafi verið milli svefns og vöku og
upplifað að hún gæti ekki gert eða sagt neitt. Hann hafi farið en síðan komið
aftur og þá hafi hún í gegnum svefninn fundið hann meðal annars fara með hendi
í klof hennar innanklæða. Þá hafi hún náð að rífa sig upp í gegnum svefninn,
öskrað á hann, tekið sæng sína og farið yfir í barnaherbergi andspænis
hjónaherberginu, ásamt hundi sínum. Þetta hafi verið um 5-6 leytið að morgni að
því er hún telji. Er hún hafi vaknað að nýju um kl. 9:30 hafi ákærði sofið
fullklæddur í sófa í stofunni. Hafi hún þá lokað sig inni í hjónaherberginu með
því að stilla skúffu úr fataskáp fyrir hurðina, sem ekki sé hægt að læsa. Þá
hafi hún heyrt einhvern umgang og síðan heyrt ákærða yfirgefa húsið.
Í
frumskýrslu lögreglu greinir að hald hafi verið lagt á fatnað sem A hafi vísað
á sem þann fatnað sem hún hafi klæðst um nóttina. Liggur fyrir í málinu skýrsla
um haldlagningu fatnaðarins, sem og upplýsingaskýrsla lögreglumanns um að ekki
hafi þótt ástæða til að rannsaka fatnaðinn með tilliti til lífsýna þar sem
ákærði hafi viðurkennt að hafa snert brotaþola. Í frumskýrslu lögreglu kemur
einnig fram að ekki hafi verið talin ástæða til þess að A undirgengist
læknisskoðun með hliðsjón af frásögn hennar og þar sem hún hafi verið búin að
baða sig áður en lögregla kom á vettvang. Þá liggja fyrir ljósmyndir teknar á
vettvangi, heimili A.
A lagði
fram kæru hjá lögreglu 23. maí 2011 og gaf þá jafnframt skýrslu vegna málsins.
Í málinu
liggja fyrir gögn, útprentuð af veraldarvefnum, með upplýsingum um eiginleika
og verkun lyfsins Alprazolam Mylan
0,5 mg. Þá liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns um mat á samverkandi
áhrifum lyfsins og áfengis á brotaþola umrædda nótt, sem nánar verður vikið að
síðar.
Loks liggur
fyrir í málinu vottorð hjúkrunarfræðings í áfallateymi [...] [...] [...],
dagsett 24. maí 2011, þar sem fram kemur að A hafi leitað sér hjálpar vegna
„árásar og nauðgunartilraunar“. Kemur fram m.a. í vottorðinu að A hafi verið í
miklu uppnámi og greinilega liðið illa. Hún hafi sagt frá reynslu sinni og
fundist það erfitt en jafnframt ákveðinn léttir. Hún hafi fundið fyrir miklum
streituviðbrögðum eftir atburðinn, en fyrir hafi hún sögu um kvíða sem hún hafi
þó náð að halda í skefjum. Er í vottorðinu lýst nánar frásögn A um líðan sína
og ráðleggingum og upplýsingum sem henni hafi verið veittar.
II
Að ósk
ákæruvaldsins var hinn 15. nóvember 2011 dómkvaddur sem matsmaður Magnús
Jóhannesson, sérfræðingur í lyflækningum og prófessor við læknadeild Háskóla
Íslands, til þess að leggja mat á áhrif þess á andlegt og líkamlegt ástand A,
að aðfaranótt 22. maí 2011 hafi hún innbyrt nokkurt magn áfengis og 0,5 mg af
lyfinu Alprazolam Mylan.
Nánar tiltekið var þess óskað að matsmaðurinn svaraði eftirgreindum spurningum:
„1. Lagt
verði mat á það hvaða áhrif það hafði á ástand A að taka inn 0,5 af lyfinu Alprazolam Mylan eftir að hafa
drukkið eitt hvítvínsglas, tvo hálfs líters bjóra og
þrjú skot af Opal líkjör. Lagt verði mat á hvort
áfengisneysla A jók sefandi áhrif lyfsins og einnig hvort fram hafi komið
sjaldgæfar aukaverkanir lyfsins á miðtaugakerfi hennar, s.s. æsingur,
árásargirni, ofskynjanir og minnisskerðing. Þá verði metið hvort magn lyfsins
og þess áfengis sem A neytti gæti nægt til að um ofskömmtun lyfsins hafi verið
að ræða.
2. Lagt
verði almennt mat á þýðingu þess að drekka áfengi ofan í töku á Alprazolam Mylan, þ.e. metnar
verði líkur á því að sefandi áhrif lyfsins aukist og einnig verði metnar líkur
á því að fram komi sjaldgæfar aukaverkanir á miðtaugakerfi s.s. æsingur,
árásargirni, ofskynjanir og minnisskerðing. Loks verði lagt almennt mat á það
hversu mikið magn af lyfinu þarf að taka til að um ofskömmtun sé að ræða og
hvort neysla áfengis hafi áhrif á það magn.“
Í matsgerð
hins dómkvadda matsmanns, dags. 30. desember 2011, er greint svo frá forsendum
hans og svörum við framangreindum spurningum:
„Málsatvik
eru í stuttu máli þau að kærandinn, A kt. [...] var í
gleðskap með öðru fólki aðfaranótt 22. maí 2011. Hún segist hafa neytt áfengis
á tímabilinu á að giska 11:30 til 03:30. Um var að ræða eitt hvítvínsglas og
eitt skot af epla snafsi fyrir eða um miðnætti en þá var haldið á [...] þar sem
hún drakk tvo 500 ml bjóra og 3-4 skot af Opal snafsi. Samkvæmt þessu má áætla að heildarmagn áfengis
sem hún drakk þessa nótt hafi numið 70-90 g af hreinum vínanda (etanóli) sem
dreifðist á 3-4 klst. Hún segist ekki hafa drukkið áfengi eftir að hún kom heim
til sín um kl. 03:30. Miðað við konu í eðlilegum holdum (ekki liggja fyrir
upplýsingar um líkamsþyngd) og dreifingu þessarar áfengisneyslu á 3-4 klst. er
ekki við því að búast að áfengismagn í blóði hafi farið mikið yfir 1. Við
þetta áfengismagn má búast við að konan hafi fundið fyrir talsverðum
áfengisáhrifum án þess að vera verulega drukkin og kemur þetta vel heim við
lýsingu hennar. Þetta passar líka ágætlega við það að hún bakaði pizzu handa gestum sínum eftir komuna heim til sín um kl.
03:30. Samkvæmt þessu var konan ekki undir verulegum áfengisáhrifum þessa nótt
og þau áhrif hafa verið farin að dvína þegar hið kærða atvik átti sér stað en
giska má á að það hafi gerst um kl. 05:30. Um kl. 04:30 fór konan inn í
svefnherbergi sitt og lagði sig eftir að hafa tekið inn eina 0,5 mg töflu af
lyfinu Alprazolam Mylan.
Konan tók lyfið vegna kvíða, það kemur fram að hún var vön þessu lyfi og tók þá
ýmist 0,25 mg eða 0,5 mg í senn. Ekki kemur fram hvort hún notaði lyfið daglega
en hér skiptir miklu máli að hún var vön lyfinu og þekkti verkanir þess. Ekki
var um mjög stóran skammt að ræða vegna þess að við kvíða eru gefnir skammtar
allt að 3 mg á dag (1 mg í einu, þrisvar á dag) og í vissum öðrum tilvikum eru
gefin allt að 6 mg á dag (2 mg í einu, þrisvar á dag). Lyfið alprazolam tilheyrir flokki bensódíazepína
sem eru róandi og kvíðastillandi en eitt elsta og best þekkta lyfið af þeim
flokki er díazepam (Valium).
Öll lyfin af þessum flokki hafa samverkun við áfengi sem lýsir sér þannig að
lyfin hafa kröftugri verkun ef áfengi er til staðar í líkamanum. Áfengi breytir
hins vegar ekki eðli þessarar verkunar lyfsins heldur gerir hana kröftugri.
Þetta kemur allt vel heim við lýsingu konunnar sem man allt sem gerðist og
gefur greinargóða lýsingu á atvikum; hún lýsir því einmitt að það að taka lyfið
ofan í áfengi hafði kröftugri verkun en hún var vön. Í lýsingu hennar er þó
hvergi að finna nein merki um eiturverkun eða þversagnakennd viðbrögð en það
fyrsta sem búast mætti við er minnisleysi, en hún man allt og gefur greinargóða
lýsingu á atburðum þessarar nætur. Tekið skal fram að þversagnakennd viðbrögð
eins og æsingur, árásargirni og ofskynjanir eru ákaflega sjaldgæf og koma sjaldan
fyrir nema við ofskömmtun eða eitrun af völdum þessara lyfja.
Þekkt eru
nokkur atriði sem auka líkur á þversagnakenndum viðbrögðum eftir töku lyfja af
þessum flokki en þau eru: Aldur undir 18 eða yfir 65 ára, verulegir
námsörðugleikar, hrörnunarsjúkdómur í heila, persónuleikaröskun (einkum þeir
sem missa stjórn á skapi sínu), alvarlegur geðsjúkdómur (geðrof, þunglyndi,
geðhvarfasýki). Ekki verður séð af meðfylgjandi gögnum að neitt af þessu eigi
við um konuna.
Svör við
spurningum saksóknarans.
1. Telja
má víst að A hafi verið undir allnokkrum áhrifum áfengis og lyfsins alprazólams þegar kærða atvikið átti sér stað enda eykur
áfengi áhrif þessa lyfs. Eins og lýst er hér að ofan er hins vegar ekkert í
gögnunum sem bendir til þess að þessi áhrif hafi verið þversagnakennd eða að um
ofskömmtun eða eitrun hafi verið að ræða. Hún man atburði næturinnar og greinir
skilmerkilega frá öllu og ég tel ekki ástæðu til að efast um frásögn hennar á
grundvelli ölvunar af völdum áfengis og lyfsins alprazólams.
2. Almennt
gildir að áfengi eykur verkanir alprazólams eins og
annarra lyfja af sama lyfjaflokki þ.e. bensódíazepín
lyfja og í fylgiseðlum er varað við neyslu áfengis samhliða notkun þessara
lyfja. Hér skiptir máli magn í líkamanum bæði af áfengi og viðkomandi lyfi.
Einnig skiptir miklu máli hvort viðkomandi einstaklingur er vanur lyfinu.
Viðbrögð við þessum lyfjum eru þar að auki talsvert einstaklingsbundin.
Þversagnakenndar aukaverkanir eins og ofskynjanir og árásargirni eru ákaflega
sjaldgæfar, ekki er vitað hve oft þær koma fyrir og skiptar skoðanir eru um
hvort þær séu háðar skömmtum þó svo að ýmislegt bendi til að þær komi frekar
eða jafnvel einungis fyrir við ofskömmtun. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir
liggja í þessu máli þarf miklu meira magn af áfengi og lyfinu til að valda
eitrun; til að valda hættulegri eitrun gæti þurft a.m.k. helmingi meira áfengi
en í tilvikinu sem um ræðir ásamt 5-10 sinnum hærri skammti af lyfinu alprazólam.“
III
Hér verða
framburðir ákærða og vitna fyrir dómi raktir eftir því sem þurfa þykir og eftir
atvikum getið um framburð þeirra hjá lögreglu.
Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa hitt A á
skemmtistað umrædda nótt, en þau A séu vel kunnug hvort öðru. Þau hafi setið
við borð ásamt fleirum og dansað, auk þess sem þau hafi spjallað saman tvö í
trúnaði. Á skemmtistaðnum hafi hann drukkið bjór og skot og verið orðinn nokkuð
ölvaður. Síðar um nóttina hafi hann gengið heim til A, ásamt fleirum, þar sem
boðið hafi verið upp á bjór og koníak og kvaðst hann minnast þess að hafa
drukkið vel af koníakinu. Hann hafi setið þar í stofu og spjallað við félaga
sinn, B og eitthvað við A. A hafi matreitt og boðið gestum upp á pizzu. Ákærði kvaðst þarna hafa verið orðið töluvert
ölvaður og telja að hann hafi dottað í stofunni. Hann hafi síðan þurft að nota
salerni og farið í því skyni inn svefnherbergi A, en A hafi fyrr um nóttina
vísað honum á salerni inn af svefnherbergi hennar þar sem salerni frammi á
ganginum hafi verið upptekið. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa orðið var
við neitt fólk í húsinu á þessum tímapunkti og kvaðst telja að B hafi verið
farinn. Aðspurður um minni sitt frá atburðum kvaðst ákærði ekki muna atburði í
smáatriðum og ekki gera sér grein fyrir hve langur tími leið frá því að hann
spjallaði síðast við A frammi þar til hann fór inn í svefnherbergi hennar, en
halda að hann hafi dottað í millitíðinni.
A hafi
legið í rúminu með lokuð augun á hliðinni er hann hafi komið inn í
svefnherbergið. Hann kvaðst ekki muna hvort hún hafi legið ofan á sænginni eða
undir henni. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að hún hafi sýnt nein
viðbrögð er hann kom inn. Ákærði kvaðst hafa notað salernið eins og til stóð,
en síðan kropið við hlið hennar þar sem hún lá í rúminu, lagt hönd á öxl hennar
og spurt hvernig henni liði. Aðspurður hvort hann hafi þá vakið hana, sagði
ákærði hana hafa verið sljóa og hann hafi ekki hrist hana til að vekja hana eða
neitt slíkt, en spjallað við hana. Aðspurður hvað þau hafi spjallað um sagðist
ákærði hafa vitnað í samtöl þeirra fyrr um kvöldið. Hann hafi spurt hvort hann
mætti leggjast hjá henni, því hann hafi verið þreyttur. Hún hafi játað því með
lokuð augun. Hún hafi legið á hliðinni og snúið að þeirri brún rúmsins sem sé
næst baðherberginu en hann hafi lagst í mitt rúmið, fyrir aftan hana. Ákærði
kvaðst ekki muna sérstaklega hvað gerðist þarna í rúminu en sagðist telja að
hann hafi sýnt henni blíðuhót. Beðinn að lýsa þeim blíðuhótum sagðist ákærði
telja að hann hafi tekið utan um hana og strokið henni, niður handlegg og niður
læri, en eftir þessu myndi hann þó ekki svo gjörla. Hann hafi talið sig vera
þarna í fullu samþykki A.
Aðspurður
hvort einhver samdráttur hafi verið á milli þeirra A þessa nótt eða áður,
svaraði ákærði því til að það hafi aldrei verið neitt kynferðislegt á milli
þeirra, en þau séu bæði létt í skapi og framkomu og hafi dansað saman og skemmt
sér þarna um nóttina. Hann kvaðst ekki hafa velt því fyrir sér hvort til
einhvers kynferðislegs gæti komið á milli þeirra og ekki hafa haft neinn
ásetning til slíks. Ákærði sagði ekkert annað hafa vakað fyrir sér, er hann
lagðist upp í rúm hjá A, en að sýna henni hlýju, í framhaldi af trúnaðarsamtali
sem þau hafi átt fyrr um nóttina. Hann tók jafnframt fram að hann hafi ekki
verið til neinna stórræða, sökum ölvunar, Aðspurður hvers vegna hann hafi lagst
upp í rúm hjá konu sem hann vissi að væri í sambúð, tók ákærði fram að A hafi
sagt honum fyrr um nóttina að sambúð hennar væri lokið.
Ákærði
kvaðst ekki muna glöggt hvar hann hafi strokið A, en minnast þess að hafa tekið
utan um hana og „sýnt henni einhver blíðuhót“. Aðspurður kvaðst hann ekki geta
útilokað að hafa strokið yfir rass, maga og brjóst hennar utan klæða, en kvaðst
fullviss um að hann hefði minnst þess ef hann hefði snert kynfæri hennar innan
klæða. Þau hafi bæði verið fullklædd.
Aðspurður
um ástand A og hvort hún hafi verið vakandi eða sofandi á meðan ákærði sýndi
henni blíðuhót sagðist ákærði telja hana hafa verið í „svipuðu ástandi“ og hann
sjálfur. Áður en hann lagðist upp í rúmið hjá henni hafi hann kropið við hlið
rúmsins og spjallað við hana, spurt hana hvort henni liði illa og hvort allt
væri í lagi. Honum hafi fundist hann fá svörun frá henni og því talið hana
vakandi. Nánar lýsti ákærði því svo að A hafi legið á hliðinni með lokuð augun,
en svarað spurningum hans játandi og neitandi með orðum. Hún hafi legið á brún
rúmsins og á einhverjum tímapunkti hafi hún oltið út á gólf, líklega vegna þess
hve þétt hann hafi legið upp að henni. Þau hafi bæði brosað því þetta hafi
verið hálf kjánalegt og A síðan lagst aftur upp í rúmið hjá honum.
Það næsta
sem ákærði kvaðst muna sé að A hafi staðið á gólfinu og gefið frá sér hljóð.
Hann sagðist ekki muna hvað hafi verið að gerast rétt áður en hún rauk á fætur,
en gera ráð fyrir því að hann hafi verið að sýna henni blíðuhót. Hún hafi
gripið með sér rúmteppi eða sæng og rokið fram úr herberginu með hurðaskellum.
Við þetta hafi ákærði hrokkið við og áttað sig á því að hann væri í einhverjum
aðstæðum sem hann skildi ekki en sem væru honum ekki þóknanlegar. Nánar
aðspurður um þær aðstæður vísaði ákærði til þess að hann hafi áttað sig á því
að hann hefði verið í rúmi með annarri konu en sinni eigin. Hann hafi gert sér
grein fyrir því að A væri í uppnámi en ekki skilið af hverju og ekki talið sig
hafa gert henni neitt til miska. Hann hafi farið fram í stofu, sest þar í sófa
og velt þessu fyrir sér en sofnað þar aftur, enda í engu ástandi til
heimferðar.
Er hann
hafi vaknað um morguninn hafi hann notað salerni á ganginum og síðan yfirgefið
húsið. Hann hafi gert ráð fyrir því að A væri sofandi enda ekki heyrt neitt í
henni. Það hafi ekki verið runnið af honum á þessum tímapunkti og hann því
lagst aftur til svefns er heim var komið. Er hann vaknaði aftur hafi hann
ítrekað ekið fram hjá húsi A í því skyni að reyna að ræða málið við hana, en
ekki hafi til þess komið þar sem allan daginn virst vera gestir hjá henni.
Næstu daga eða vikur hafi honum liðið eða eins og hann hefði framið glæp, enda
hafi honum hafi verið ljóst að henni liði illa og honum hafi þótt það miður.
Hann hafi farið fram á það í gegnum þriðja aðila að fá að hitta hana og hreinsa
andrúmsloftið en fengið þau boð að af því gæti ekki orðið í bráð.
Ákærði
kvaðst ekki minnast þess að hafa, eftir að hann fór inn í svefnherbergi A,
farið út úr herberginu og aftur þangað inn og sagðist ekki kunna neinar
skýringar á þeim framburði A.
Ákærði
kvaðst ekki hafa upplifað aðstæðurnar sem kynferðislegar þegar atburður þessi
átti sér stað, enda ekki haft neinn slíkan ásetning, en eftir á að hyggja hafi
hann áttað sig á að líta mætti svo á. Aðspurður hvort strokur hans og blíðuhót
gætu hafa verið af einhverjum öðrum hvötum en kynferðislegum sagðist ákærði
ekki geta svarað því, en hann hafi ekki haft neinn ásetning til slíks.
Framburður
ákærða fyrir dómi er í öllum aðalatriðum í samræmi við skýrslu sem hann gaf hjá
lögreglu vegna málsins 27. maí 2011. Þó er blæbrigðamunur á svörum hans hjá
lögreglu og fyrir dómi að tvennu leyti. Er framburður brotaþola um að hann hefði strokið henni utan
fata um læri, rass, maga og bak var borinn undir ákærða hjá lögreglu urðu svör
hans ekki skilin öðru vísi en svo að hann myndi eftir því, en fyrir dómi
svaraði hann á þá leið að hann drægi ekki þessa lýsingu brotaþola í efa, enda
þótt hann myndi ekki sérstaklega hvar hann hefði strokið henni. Þá bar ákærði
við skýrslugjöf hjá lögreglu um að hafa ýtt við A og farið að spjalla við hana
„af því að hann hafi verið í partí og þau að skemmta sér saman“ en fyrir dómi
voru svör hans á þá leið að hann hafi viljað kanna hvernig henni liði í
framhaldi af trúnaðarsamtali sem þau hefðu átt fyrr um nóttina.
Í framburði
ákærða hjá lögreglu kom fram að ástæða þess að hann hafi notað salerni inn af
svefnherbergi A um nóttina sé sú að honum hafi ekki tekist að kveikja ljós á
salerni því sem sé frammi á ganginum.
Brotaþoli, A, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst
þekkja ákærða ágætlega sem [...] [...], auk þess sem hann sé [...] [...] [...] [...]
og þau hafi [...] [...] [...] í gegnum tíðina. Umrætt kvöld hafi hún farið
ásamt vinkonum á skemmtistað, þar sem hún hafi m.a. hitt ákærða og dansað og
spjallað við hann ásamt fleirum. Aðspurð hvort hún hafi rætt það við ákærða að
henni og sambýlismanni hennar hafi orðið sundurorða þennan dag, kvaðst hún ekki
minnast þess að þau hafi rætt nein persónuleg mál en ekki geta útilokað það.
Við lokun
skemmtistaðarins hafi hún boðið tveimur vinkonum sínum, auk ákærða og félaga
hans með sér heim. Öll hafi verið undir áhrifum áfengis en enginn ofurölvi. Hún
hafi verið búin að drekka hvítvínsglas og skot áður en hún fór á [...], og
drukkið bjór og skot þar, en ekki fundist hún mjög ölvuð er hún gekk heim. Er
heim var komið, um kl. 3:00-3:40, hafi hún opnað vínskáp og boðið fólki að fá
sér úr honum og hafi allir þegið það. Vinkonur hennar, C og D, hafi setið í
eldhúsinu en ákærði og B setið í stofunni, meðan hún hafi útbúið pizzu og boðið fólkinu. Hún hafi ekki verið í neinum
samskiptum við ákærða umfram aðra eftir að heim var komið. Aðspurð kvað hún
aldrei neitt kynferðislegt hafa verið á milli þeirra ákærða og að ekkert í
samskiptum þeirra um nóttina eða fyrr hafi getað gefið honum tilefni til að
ætla eitthvað slíkt.
Eftir að pizzan hafði verið snædd, líklega milli kl. 4 og 5 um
nóttina, hafi hún farið inn í svefnherbergi sitt og reynt að hringja í
sambýlismann sinn en ekki fengið neitt svar. Hún hafi fengið einhverja
ónotatilfinningu vegna þessa og tekið eina töflu af kvíðastillandi lyfi sem hún
sé vön að taka eftir þörfum. Yfirleitt taki hún hálfa töflu og hún hafi aldrei
tekið lyfið saman við áfengi. Hún hafi lagst alklædd í rúm sitt og skoðað færð
á vef Vegagerðarinnar í farsíma sínum og taldi sig hafa sofnað þar innan fárra
mínútna.
Það næsta
sem hún muni sé að hún hafi orðið vör við snertingu og strokur aftan á baki og
læri. Nánar aðspurð um snertinguna kvað hún þetta hafa verið káf, það hafi
verið strokið utan á fötum en líka farið undir kjól hennar en höndin stoppað á
belti sem hún hafi haft um sig miðja. Strokið hafi verið um bak, læri, rass og
maga hennar.
Hún hafi
verið nokkra stund að átta sig á því hvað væri að gerast og orðið ofboðslega
hrædd og stjörf. Hún hafi legið á þeim helmingi rúmsins sem nær sé baðherbergi
sem liggi inn af svefnherberginu, snúið í átt frá baðherberginu að miðju
rúmsins og legið hálfpartinn á hliðinni og hálfpartinn á maganum ofan á
rúmfötum. Hún kvaðst ekki hafa opnað augun, en umlað og yppt öxlinni og við það
hafi strokurnar hætt. Ekkert hafi verið sagt af hálfu hvorugs þeirra. Hún hafi
vaknað alveg við þetta og strax áttað sig á að um ákærða væri að ræða af
lyktinni af honum og þungum andardrætti sem hún þekkti. Hann hafi ekki legið í
rúminu hjá henni í þetta skiptið heldur staðið eða kropið við hlið rúmsins.
Þetta hafi staðið stutt yfir og hún hafi heyrt hann yfirgefa herbergið. Þá hafi
hún skriðið undir sængina og rúmteppið og sofnað aftur.
Einhverju
síðar hafi hún vaknað við að ákærði hafi lyft sænginni af henni og lagst upp í
rúmið hjá henni. Hún hafi legið í sömu stellingu og fyrr, á vinstri hlið með
annan fótinn aðeins fram fyrir hinn og þannig snúið aðeins yfir á magann.
Ákærði hafi lagst þétt upp við bak hennar. Hann hafi aftur farið að strjúka
henni og káfa á henni, yfir læri og rass. Strokurnar hafi ekki bara verið fram
og til baka heldur hafi henni fundist hann vera að reyna að átta sig á fatnaði
hennar og kanna aðstæður, en hún hafi verið klædd í samfellu hnepptri í klofinu
innst fata, sokkabuxum og síðerma kjól með breitt belti um sig miðja. Hann hafi
síðan rennt hendinni eftir mjöðm hennar, ofan í sokkabuxur hennar og undir
samfelluna, inn á kynfæri hennar. Þetta hafi gerst í einni hreyfingu. Aðspurð
sagðist hún algjörlega sannfærð um að hann hafi farið með höndina inn á kynfæri
hennar og kvað það ekki hafa verið neinum vandkvæðum bundið sökum klæðnaðar
hennar eða stellingar.
Henni hafi
þá fundist eins og hún hefði verið slegin í höfuðið, stokkið upp úr rúminu og
öskrað af öllum lífs og sálar kröftum. Hún hafi síðan rokið út úr herberginu,
yfir í barnaherbergi sem sé andspænis svefnherberginu og tekið hund sinn með. Þar
hafi hún setið í rúmi en sofnað aftur. Er hún hafi vaknað morguninn eftir hafi
hún farið fram og séð ákærða sofa í sófa í stofunni. Hún hafi fyllst hræðslu,
farið inn í svefnherbergi sitt þar sem sími hennar var, lokað hurðinni og
dregið skúffu úr fataskáp fyrir hana, en ekki sé hægt að læsa hurðinni. Stuttu
síðar hafi hún heyrt ákærða yfirgefa húsið. Hún hafi þá hringt í sambýlismann
sinn, sem og barnsföður sinn og vinkonu sína.
A kvaðst
fullviss um að ákærði hafi komið að henni í tvö skipti. Snertingin hafi staðið
yfir í nokkrar mínútur í hvort skiptið. Hún kvaðst viss um að hvorugt þeirra
hafi sagt nokkuð og hann hafi ekki spurt hvort hann mætti leggjast upp í rúmið
hjá henni. Þá kvaðst hún fullviss um að hafa ekki oltið úr rúminu á gólfið.
Aðspurð um
ástand sitt og minni og þann framburð hennar hjá lögreglu að áhrif lyfsins hafi
verið mun meiri en venjulega, kvað A að henni hafi fundist hún mjög vel vakandi
„í höfðinu“ en fundist hún ekki geta gert neitt. Þetta hafi þó ekki verið sú
tilfinning að þyngsli væru í útlimum heldur hafi henni fundist hún frosin, eins
og hún gæti ekkert gert. Hún hafi spurt sig eftir atburðinn hvers vegna hún
hafi upplifað þessa tilfinningu sem hún kannaðist ekki við að hafa fundið áður
undir áhrifum lyfsins. Hún hafi þó ekki fundið þessi áhrif þegar hún stökk á
fætur. Hún kvaðst sannfærð um að áhrif lyfsins og áfengisins hafi ekki orðið
til þess að afbaka skynjun hennar af atburðinum og ekki lengur rekja
magnleysistilfinningu þá sem hún upplifði til áhrifa þeirra.
Aðspurð upplýsti
A að hún hafi orðið fyrir kynferðisbrotum snemma á æskuárum sínum sem hún hafi
aldrei rætt við fagaðila, en hafnaði því að þau atvik gætu hafa skekkt mynd
hennar af því sem gerst hefði umrætt sinn.
Aðspurð um
líðan meðan á atburði þessum stóð kvaðst A hafa verið ofboðslega hrædd. Hún
hafi ekki fyrr haft neina ástæðu til að óttast ákærða. Hún lýsti líðan sinni
eftir atburðinn og kvaðst í fyrstu hafa fundist hún sjálf og allt heimili sitt
skítugt, en síðan fundið fyrir reiði og tilfinningadoða. Hún hafi rætt við
áfallateymi á [...] [...] [...] í
eitt skipti skömmu eftir atburðinn, en ekki leitað sér annarrar aðstoðar. Hún
hafi lengi eftir atburðinn upplifað sig hrædda og óörugga, m.a. óttast að vera
ein heima með ólæstar dyr. Hún hafi einnig óttast að hitta ákærða og því
forðast að vera á almannafæri.
A gaf
tvívegis skýrslu hjá lögreglu, þann 23. og 31. maí 2011. Framburður hennar
fyrir dómi er í fullu samræmi við framburð hennar hjá lögreglu.
B gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst lítið muna eftir
atburðum sökum ölvunar. Hann kvaðst minnast þess að hafa verið að skemmta sér á
[...] ásamt ákærða og fleirum og dansað, m.a. við A. Síðan hafi verið farið í
partý til A eftir lokun [...] og hann snætt þar pizzu
og drukkið áfengi. Ölvunarástand ákærða hafi sennilega verið svipað og hans.
Hann kvaðst ekkert geta sagt til um ölvunarástand A. Hann kvaðst minnast þess
að hafa setið í sófa að sumbli með ákærða. Þeir hafi verið með flösku af
koníaki hjá sér og auk þess hafi hann drukkið bjór. Þeir ákærði hafi verið
búnir að ákveða það snemma um kvöldið að drekka saman. A hafi á einhverjum
tímapunkti setið í sófa á móti þeim. Aðspurður hvort hann hafi orðið var við
einhvern samdrátt milli ákærða og A, kvaðst vitnið ekki minnast þess, hann hafi
tekið því svo að þau væru kunningjar eða vinir.
B kvaðst
ekki muna glöggt hvort ákærði hafi verið vakandi eða sofandi er hann fór heim,
en þó telja að hann hafi kvatt ákærða og að þeir hafi þá aðeins verið tveir
eftir. Hann taldi rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hafi verið
kominn heim um hálfsex að morgni en það taki um 10-15 mínútur að ganga heim til
hans frá heimili A. Aðspurður kvaðst hann ráma í að það hafi verið eitthvert
bras að kveikja ljós á baðherbergi á ganginum heima hjá A.
E gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa verið með [...]
sinni [...] á [...] fram eftir nóttu en ekki farið með heim til hennar að því
loknu. Á [...] hafi þær vinkonurnar dansað og skemmt sér og ákærði verið þarna
ásamt vini sínum. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við neinn samdrátt milli A og
ákærða á [...]. Morguninn eftir hafi A hringt til hennar og verið í mjög miklu
uppnámi. Hún hafi farið heim til A, sem skýrt hafi frá því að ákærði hafi
leitað á hana þar sem hún svaf í rúmi sínu. Hún hafi sagst hafa vaknað við að
ákærði káfaði á henni þar sem hún var milli svefns og vöku, en hann hafi farið
fram og hún sofnað aftur. Síðar hafi hann komið aftur og káfað á henni og hún
þá náð að spretta fram úr, sótt hundinn sinn og lokað sig inni í herbergi barns
síns. A hafi verið í áfalli og grátið er hún hafi sagt vitninu frá þessu. Hún
kvaðst náin vinkona A og kvað hana hafa verið lengi að jafna sig en að henni virtist
líða mun betur í dag en skömmu eftir atburðinn.
D gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa verið ölvuð
en ekki þannig að hún myndi ekki atburði, þótt hún myndi kannski ekki öll
smáatriði. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við að neinn samdráttur væri milli
ákærða og A, hvorki á [...] né heima hjá A er þangað var komið. A hafi verið
undir áhrifum áfengis en alls ekki áberandi ölvuð. Hún kvaðst ekki þekkja
ákærða til að geta metið ölvunarástand hans, en hann hafi a.m.k. ekki verið svo
ölvaður að vandræði hlytust af.
Vitnið
kvaðst hafa verið að spjalla við vinkonu sína heima hjá A, fyrst í eldhúsinu en
síðan á baðherbergi á neðri hæð hússins. Ákærði hafi setið í stofunni. Er hún
og vinkona hennar hafi verið að yfirgefa húsið, eftir að hafa sótt yfirhafnir
sínar á efri hæð hússins, hafi hún séð ákærða koma út úr svefnherbergi A. Hann
hafi verið fullklæddur en verið að fitla eitthvað við belti sitt eða
buxnastreng. Henni hafi virst hann vera á leið að baðherbergi sem sé á ganginum
en þó ekki séð hann fara þar inn því hún hafi verið að ganga niður tröppur í
anddyri hússins. Henni hafi þótt þetta undarlegt en samt haldið áfram leið
sinni út úr húsinu. Daginn eftir hafi A hringt í hana og skýrt henni frá því að
ákærði hafi leitað á sig. Hún hafi virst róleg og ekki rætt atburðinn í
smáatriðum, en hringt til þess að upplýsa hana um til þess gæti komið að
lögregla myndi óska eftir því að hún gæfi skýrslu í málinu.
Aðspurð
kvaðst D ekki hafa heyrt neinn umgang á efri hæð hússins er hún hafi verið að
ræða við vinkonu sína á neðri hæðinni. Þær vinkonurnar hafi gengið heim snemma
morguns og kvaðst vitnið telja rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að það
gæti hafa verið rétt eftir kl. 6. Vitnið kvað þær A vera kunningja frekar en
nánar vinkonur.
C gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa verið ásamt A
að skemmta sér á [...] umrætt kvöld og hafa farið heim til hennar er [...] var
lokað. Ákærði hafi verið þarna á [...]. Hún hafi ekki orðið vör við neinn
samdrátt milli hans og A. Er heim til A hafi verið komið hafi þær D spjallað í
eldhúsinu, en síðan farið niður á neðri hæð hússins til að ræða saman í
trúnaði. Vitnið kvaðst hafa verið frekar ölvuð, en A hafi ekki virst mjög ölvuð
að hennar áliti. Hún kvaðst lítið þekkja ákærða en hann hafi ekki virst
óeðlilega drukkinn. Er þær D hafi yfirgefið húsið hafi hún ekki séð neinn á
ferli í húsinu, hvorki A, ákærða né neinn annan. Þá hafi verið komið fram undir
morgun og kvaðst vitnið telja rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að þetta
gæti hafa verið um sexleytið að morgni. Daginn eftir hafi hún frétt af
atburðinum frá vinkonu sinni, en A hafi fljótlega eftir það sagt henni sjálf
frá atburðinum. Hún hafi lýst atburðinum svo að hún hafi verið í rúmi sínu er
ákærði hafi komið og káfað á henni. A hafi verið í miklu uppnámi og liðið mjög
illa er hún skýrði vitninu frá þessu.
Vitnin B, D
og C gáfu öll skýrslur við rannsókn málsins og eru framburðir þeirra fyrir dómi
í samræmi framburð þeirra hjá lögreglu.
Magnús Jóhannsson, læknir og sérfræðingur í
lyfjum og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, sem dómkvaddur var sem
matsmaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað lyfið Alprazolam
Mylan vera notað bæði sem svefnlyf og kvíðastillandi
lyf og áhrif þess séu slævandi og róandi. Lyfið hægi á viðbrögðum fólks og sé
það notað með áfengi verði áhrif lyfsins sterkari, en eðli áhrifanna breytist
ekki. Áhrif séu í hámarki um 1-1,5 klukkustund eftir inntöku lyfsins og hann
hafi gengið út frá því við mat sitt að áhrif lyfsins á A hafi verið í hámarki
þegar umræddir atburðir hafi átt sér stað.
Magnús
staðfesti það sem fram kemur í matsgerð hans að hann telji enga ástæðu til að
ætla að það magn lyfsins og áfengis sem A segðist hafa innbyrt hafi haft áhrif
á upplifun hennar af atburðum og framburð hennar í málinu. Sá skammtur sem A
segðist hafa tekið, 0,5 mg, sé ekki stór, en algengur skammtur sé 1 mg í senn
þrisvar á dag við kvíða. Hún segðist auk þess vön lyfinu og þekkti því áhrif
þess. Ofskynjanir væru afar sjaldgæfar aukaverkanir lyfsins og A væri ekki í
þekktum áhættuhóp fyrir þær aukaverkanir. Þá sé minnisleysi yfirleitt fyrsta
einkenni ofskömmtunar en frásögn A bendi ekki til þess að hún hafi orðið fyrir
minnisskerðingu. Hann hafi farið yfir erlendar rannsóknir um það hvort áhrif
lyfsins geti verið ranghugmyndir eða ofskynjanir, en í þeim tilvikum sem hafi
verið til rannsóknar hafi verið um mun stærri lyfjaskammta að ræða.
Vitnið
kvaðst ekki telja að áhrif lyfsins hafi verið svo mikil að það skýri hvers
vegna A hafi ekki fundist hún getað aðhafst neitt, því ef svo hefði verið hefði
hún ekki getað hrist þau áhrif af sér og stokkið upp úr rúminu. Hræðsla sé
líklegri skýring að mati vitnisins, en áhrif lyfsins léttvæg í því sambandi.
Vitnið
kvaðst hafa tekið tillit til þess við matgerð sína að vitni vanmeti oft magn
áfengis sem það hafi drukkið.
F, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, gaf skýrslu fyrir
dómi og staðfesti vottorð sitt sem liggur fyrir í málinu. Hún kvaðst hafa ásamt
öðrum hjúkrunarfræðingi átt eitt viðtal við A þriðjudaginn 24. maí 2011.
Viðtalið hafi staðið í u.þ.b. tvær og hálfa klukkustund. A hafi sýnt dæmigerð
streituviðbrögð í viðtalinu. Hún hafi verið föl, sveitt, stressuð og iðað. Hún
hafi fellt tár, en harkað af sér og komið vitninu fyrir sjónir sem hún reyndi
að fjarlægjast tilfinningar sínar. Þessi viðbrögð samræmist að mati vitnisins
því að hún hafi orðið fyrir áfalli skömmu fyrir viðtalið.
Vitnið
kvaðst hafa starfað innan áfallateymis [...] [...] [...] í
eitt ár og fengið sérstaka fræðslu á sviði áfallahjálpar frá öðrum meðlimum
teymisins, sem sótt hafi sína fræðslu til utanaðkomandi aðila, s.s. Rauða
krossins, en auk þess sé fræðsla um áfallahjálp hluti af menntun hennar sem
hjúkrunarfræðings.
Vitnið greindi
frá því að A hafi lýst atburðinum nokkuð nákvæmlega en hún hafi ekki skráð hjá
sér frásögn hennar. A hafi nefnt að áfengi hafi verið haft um hönd og jafnframt
að hún hafi tekið inn kvíðastillandi lyf. Hún hafi sagst eiga við kvíða að
etja, en ekki lýst því nánar. Samkvæmt minni vitnisins hafi A lýst
kynferðislegri árás en ekki nauðgun. Nánar tiltekið hafi A lýst því að maður
hafi komið að henni þar sem hún lá í rúmi sínu og að hún hafi í fyrstu „frosið“
en síðan flúið í annað herbergi. Það að „frjósa“ séu ekki óalgeng viðbrögð
þolenda við streituvaldandi aðstæður. Vitnið kvað A á engan hátt hafa verið
leidda áfram með spurningum í viðtalinu og henni hafi verið frjálst hvort hún
segði frá atburðinum eða sleppti því.
IV
Ákærða er
gefin að sök kynferðisleg áreitni, en til vara brot gegn blygðunarsemi, með því
að hafa umrætt sinn farið inn í svefnherbergi A, þar sem hún lá í rúmi sínu,
strokið fætur hennar, maga, rass og bak utan klæða og nokkru síðar káfað á
kynfærum hennar innanklæða. Er brot ákærða aðallega talið varða við 199. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 209. gr. sömu laga.
Fyrir dómi
kvaðst ákærði ekki draga í efa að hann hafi strokið um fætur, maga, rass og bak
A utan klæða, líkt og greinir í ákæru, enda þótt hann segðist ekki minnast
þessa glöggt, en að hann neitaði engu að síður sök þar sem hann teldi ekki að
um kynferðislega áreitni eða blygðunarsemisbrot hafi verið að ræða. Ákærði
neitaði því alfarið að hafa snert bert hörund eða kynfæri A innan klæða. Af
hálfu ákærða er á því byggt að saknæmisskilyrði 199. gr., sbr. 18. gr.,
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 séu ekki uppfyllt þar sem hann hafi ekki
haft ásetning til kynferðislegra athafna, auk þess sem hann hafi talið A
samþykkja veru hans í rúminu hjá henni.
Um atburði
í svefnherbergi A eru ekki aðrir til frásagnar en hún og ákærði. Utan þess sem
framburðum þeirra ber ekki saman um það hvort ákærði hafi rennt hönd undir
fatnað inn á kynfæri hennar stangast framburðir þeirra á í nokkrum atriðum,
t.d. um það hvort þeirra hafi legið nær rúmbríkinni, hvort A hafi oltið fram úr
rúminu og lagst upp í það aftur, hvort eitthvað hafi verið sagt í herberginu af
hálfu annars hvors þeirra, þ. á m. hvort A hafi samþykkt að ákærði legðist upp
í rúm hjá henni og hvort ákærði hafi farið fram úr herberginu og komið aftur
eða hvort um samfellda atburðarrás hafi verið að ræða. Um þessi atriði nýtur
ekki við gagna sem stutt geta framburð annars hvors þeirra. Vitnið D bar þó um
að hafa séð ákærða koma út úr svefnherbergi A er hún var að yfirgefa húsið
þegar komið var fram undir morgun, en vitnið C sem yfirgaf húsið á sama tíma
bar ekki um að hafa orðið vitni að þessu. Þær D og C kváðust ekki hafa orðið
varar við neinn umgang eða læti á efri hæðinni meðan þær áttu í trúnaðarsamtali
á baðherbergi á neðri hæð hússins, sem ætla mætti að þær hefðu orðið varar við
ef A hefði flúið út úr svefnherbergi sínu með hurðaskellum, meðan þær voru enn
í húsinu. Þótt þessi framburður D kunni að veita stoð fyrir þeirri frásögn A að
ákærði hafi farið út úr herberginu og komið aftur er þessi framburður ekki
studdur öðrum gögnum málsins og verður því ekki til hans litið við mat á
trúverðugleika framburða ákærða og A.
Framburður
ákærða fyrir dómi samræmdist í öllum aðalatriðum skýrslu sem hann gaf hjá
lögreglu. Þó var nokkur blæbrigðamunur á framburði hans hvað tvö atriði varðar,
eins og rakið var hér fyrr í tengslum við frásögn af framburði ákærða. Þá gaf
sú lýsing sem ákærði gaf í fyrstu, bæði fyrir dómi og hjá lögreglu, að hann
hafi „spjallað“ við A, til kynna að áliti dómsins að um samræður milli þeirra
hafi verið að ræða sem A hafi tekið virkan þátt í. Þegar nánar var eftir því
gengið fyrir dómi hvað farið hefði þeim á milli var lýsing hans á nokkuð annan
veg. Þá hefur ákærði borið um að hafa drukkið töluvert magn áfengis, bæði á [...]
og á heimili A og að hafa verið orðinn mjög ölvaður og líklega búinn að sofna í
stofusófanum, áður en hann fór inn í svefnherbergi hennar. Hann ber sjálfur um
að minni hans um atburði sé gloppótt og bar framburður hans fyrir dómi þess
skýr merki að áliti dómsins. Til alls framanritaðs verður að líta við mat á
framburði hans.
Framburður A
fyrir dómi um atburði í svefnherberginu var skýr og trúverðugur að mati dómsins
og í fullu samræmi við framburð hennar hjá lögreglu. Ekkert í framburði vitna
bendir til þess að hún hafi verið sérlega ölvuð er hún dró sig í hlé inn í
svefnherbergi sitt, eftir að hafa útbúið og boðið gestum sínum upp á pizzu. Er ekkert fram komið sem varpað getur rýrð á þann
framburð hennar að hún muni vel eftir atburðum, enda þótt hún hafi neytt
áfengis fyrr um nóttina, tekið kvíðastillandi lyf og verið sofandi er þeir
atburðir hófust sem lýst er í ákæru. Er að áliti dómsins ekkert fram komið sem
varpað getur rýrð á það mat dómkvadds matsmanns að engin ástæða sé til að ætla
að áfengisneysla A samhliða inntöku hennar á 0,5 mg af lyfinu Alprazolam Mylan hafi haft áhrif
á skynjun hennar og upplifun af atburðinum.
Ákærða og A
ber saman um að enginn samdráttur hafi verið á milli þeirra, hvorki umrædda
nótt né fyrr. Samræmist það framburði vitna sem með þeim voru á [...] og
heimili A umrædda nótt.
Að áliti
dómsins getur sú háttsemi sem ákærði viðurkennir, þ.e. að hafa strokið um
fætur, maga, rass og bak A utan klæða, við þær aðstæður sem hún fór fram, í
svefnherbergi konunnar þar sem hún hafði lagst til svefns og ákærði lagst upp í
rúmið við hlið hennar, hlutlægt séð ekki hafa skýrst af öðrum hvötum en
kynferðislegum. Sú viðbára ákærða, að háttsemin hafi skýrst af umhyggju hans
fyrir henni í framhaldi af trúnaðarsamtali er að áliti dómsins í engu samræmi
við háttsemina og því einfaldlega ekki trúverðug.
Ákærði ber
því við að hann hafi talið sig hafa samþykki hennar fyrir veru sinni í rúminu,
enda hafi hún játað beiðni hans um að fá að leggjast hjá henni. Jafnvel þótt sá
framburður ákærða yrði lagður til grundvallar verður ekki hjá því litið að hann
hefur borið um að hún hafi legið þarna hreyfingarlaus, með lokuð augun og engin
viðbrögð sýnt er hann kom inn í herbergið. Þá hefur ákærði lítið sem ekkert
getað borið um atburði eftir að hann lagðist við hlið A, utan þess sem hann
kvaðst minnast þess að hún hafi á einhverjum tímapunkti oltið á gólfið en um
það standa orð hans gegn orðum hennar. Framburður A, vitna og ákærða sjálfs er
allur á einn veg um að enginn samdráttur hafi verið á milli þeirra þetta kvöld.
Verður því ekki séð að ákærði hafi með neinum rétti mátt telja sig hafa
samþykki hennar fyrir því að hann snerti líkama hennar. Framburður ákærða
sjálfs um að hafa áttað sig á því er A rauk á dyr að eitthvað hefði gerst sem
hefði sært hana styður einnig að áliti dómsins þá niðurstöðu að hann hafi
brotið gegn henni og mátt vera það ljóst.
Eins og
fyrr sagði neitar ákærði að hafa káfað á kynfærum A innanklæða, líkt og greinir
í ákæru. Eins og snertingu þessari hefur verið lýst af hálfu A var ekki um
langvarandi snertingu að ræða heldur kvað hún ákærða hafa rennt hendinni í
einni samfelldri hreyfingu ofan í streng á leggings-sokkabuxum
sem hún klæddist og inn fyrir samfellu við hægri mjöðm hennar og þaðan inn á
kynfæri hennar. Við það hafi henni fundist eins og slegið væri í höfuðið á
henni, hún hafi rokið á fætur, öskrað eitthvað og flúið út úr herberginu. Í
málinu nýtur ekki við annarra upplýsinga um fatnað A en lýsingar hennar
sjálfrar, en ekkert í framburði hennar um fatnaðinn og stellingu hennar í
rúminu bendir til þess að lýsing hennar á snertingu ákærða fái ekki staðist.
Ákærði ber við algjöru minnisleysi um atburði rétt áður en A rauk á fætur, en
kvaðst fyrir dómi reikna með að hann hafi haldið utan um hana og verið að „láta
vel að henni“. Framburður ákærða, sem er í fullu samræmi við framburð A
sjálfrar, um að hún hafi rokið á fætur og gefið frá sér hljóð, áður en hún rauk
á dyr og yfir í annað herbergi með hurðaskellum, styður að áliti dómsins að
eitthvað hafi þá gerst sem gefið hafi henni tilefni til slíkra viðbragða.
Framburður A um að þessi snerting hafi orðið til þess að rjúfa
vanmáttartilfinningu hennar sem staðið hafi yfir frá því að hún vaknaði við þær
strokur sem ákærði viðurkennir, er trúverðugur að mati dómsins og engin
sennilegri skýring fram komin sem skýrt getur þessi viðbrögð hennar. Eins og
fyrr kom fram þykir með mati dómkvadds matsmanns leitt í ljós að engin ástæða
sé til að ætla að áfengis- og lyfjaneysla hennar umrædda nótt hafi haft önnur
áhrif en slævandi, þ.e. engin áhrif á upplifun hennar og endurminningar. Þá er
að áliti dómsins engin ástæða til að ætla að kynferðisbrot sem A kunni að hafa
orðið fyrir mjög ung að árum hafi haft áhrif á upplifun hennar og framburð um
þann atburð sem hér er til umfjöllunar.
A tilkynnti
lögreglu samdægurs um kynferðisbrot ákærða og lagði fram kæru á hendur honum
daginn eftir. Frásögn hennar frá atburðum, sem fyrst er rakin í frumskýrslu
lögreglu, hefur frá upphafi verið á sama veg um meðal annars það atriði að
ákærði hafi strokið hönd inn á kynfæri hennar. Framburður hennar fékk einnig
stoð í framburðum vinkvenna hennar fyrir dómi sem báru um frásögn hennar og
andlegt ástand eftir umrædda nótt. Þá liggur fyrir að hún leitaði sér aðstoðar
hjá neyðarteymi vegna áfalla hjá [...] [...] [...] að
tveimur dögum liðnum og hefur hjúkrunarfræðingur sem tók á móti henni borið
fyrir dómi um að hún hafi þá verið haldin augljósum streitueinkennum.
Í ljósi
alls framanritaðs og í ljósi framburðar ákærða um algjört minnisleysi um atburði
rétt áður en A stökk á fætur, telur dómurinn ekki varhugavert að leggja
framburð A til grundvallar og telja hafið yfir skynsamlegan vafa, þrátt fyrir
neitun ákærða, að ákærði hafi rennt hönd inn fyrir fatnað hennar og strokið inn
á kynfæri hennar.
Samkvæmt
framanrituðu þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir
í ákæru, þó þannig að ósannað telst að hann hafi „káfað“ á kynfærum hennar líkt
og greinir í ákæru, heldur hafi verið um eina skammvinna stroku inn á kynfæri
hennar að ræða.
Samkvæmt
199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og því ákvæði var breytt með
lögum nr. 61/2007, felst kynferðisleg áreitni m.a. í því að strjúka, þukla eða
káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan og ennfremur í
táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess
fallið að valda ótta. Athafnir þessar eru ekki tæmandi taldar heldur einungis í
dæmaskyni, líkt og ráðið verður af orðalagi ákvæðisins sjálfs. Í athugasemdum
með þeirri grein frumvarps þess sem varð að lögum nr. 61/2007, sem breytti 199.
gr. almennra hegningarlaga, kemur fram að kynferðisleg áreitni sé háttsemi
kynferðislegs eðlis sem hvorki teljist samræði né önnur kynferðismök. Hún
felist í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum
siðum og samskiptaháttum. Um neðri mörk kynferðislegrar áreitni, þ.e. gagnvart
brotum gegn blygðunarsemi, segir í athugasemdunum að sé um líkamlega snertingu
að ræða sé háttsemin kynferðisleg áreitni, en jafnframt sé í frumvarpinu gert
ráð fyrir að neðri mörk hugtaksins kynferðislegrar áreitni verði rýmkuð þannig
að hugtakið verði ekki afmarkað við líkamlega snertingu heldur geti einnig
fallið undir það orðbragð og táknræn hegðum, líkt og nánar er útlistað í
athugasemdunum.
Að áliti
dómsins verður sú háttsemi ákærða sem sönnuð þykir í málinu, jafnt sú háttsemi
að strjúka A utanklæða um fætur, maga, rass og bak utan klæða, við þær aðstæður
sem hún fór fram, sem og sú háttsemi að strjúka kynfæri hennar innanklæða, að
teljast kynferðisleg áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940. Telst brot ákærða því réttilega heimfært til þeirrar lagagreinar í
ákæru og kemur varakrafa ákæruvaldsins um heimfærslu háttseminnar til 209. gr.
sömu laga því ekki til umfjöllunar.
Samkvæmt
framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverð brot.
Ekki þykir ástæða til að draga í efa þá skýringu ákærða að hann hafi lagt leið
sína inn í svefnherbergi A til þess að nota salerni þar, og verður við ákvörðun
refsingar hans miðað við að ásetningur hans til háttseminnar hafi ekki kviknað
fyrr en inn í svefnherbergið var komið, sbr. 6. tölul.
1 mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af framangreindu og þeirri
háttsemi sem ákærði er hér sakfelldur fyrir þykir refsing hans hæfilega ákveðin
þriggja mánaða fangelsi. Með hliðsjón af hreinum sakaferli ákærða þykir rétt að
fresta fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum,
haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með
síðari breytingum.
Með
hliðsjón af úrslitum málsins verður ákærði dæmdur til að greiða allan
sakarkostnað.
Samkvæmt
yfirliti ákæruvaldsins nam kostnaður af matsgerð dómkvadds matsmanns 127.764
krónum. Auk þeirrar fjárhæðar verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun
skipaðs verjanda síns, Bjarna G. Björgvinssonar hrl., vegna vinnu hans fyrir
dómi og sem tilnefndur verjandi við rannsókn málsins hjá lögreglu, sem þykja
hæfilega ákveðin í einu lagi 577.300 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá
verður ákærði dæmdur til að greiða kostnað af réttargæslu brotaþola. Þóknun
skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðbjarna Eggertssonar hdl., sem jafnframt
var tilnefndur réttargæslumaður hennar við rannsókn málsins, þykir hæfilega
ákveðin í einu lagi 188.250 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en auk þess
nemur útlagður kostnaður réttargæslumannsins vegna flugs 29.450 krónum. Alls
verður ákærði því dæmdur til að greiða 922.764 krónur í sakarkostnað.
Dómur þessi
er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt
meðdómsmönnunum Ásmundi Helgasyni héraðsdómara og Ingiríði Lúðvíksdóttur settum
héraðsdómara, kl. 15:00 fimmtudaginn 9. febrúar 2012 í dómsal Héraðsdóms
Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum.
Dómsorð:
Ákærði, X,
sæti fangelsi í 3 mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún
niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði
greiði sakarkostnað að fjárhæð 922.764 krónur, en þar af nema málsvarnarlaun
skipaðs verjanda hans, Bjarna G. Björgvinssonar hrl., 577.300 krónum og þóknun
skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðbjarna Eggertssonar hdl., 188.250
krónum, hvort tveggja með virðisaukaskatti og útlagður kostnaður
réttargæslumannsins 29.450 krónur.