Hæstiréttur íslands
Mál nr. 379/2016
Lykilorð
- Samningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. maí 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.529.831 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. ágúst 2015 til 9. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að staðfest verði kyrrsetningargerð nr. 20/2015 sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði 9. september 2014 í nánar tilgreindri innstæðu að fjárhæð 2.576.498 krónur. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvik eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var fyrirsvarsmaður stefnda ráðinn framkvæmdastjóri áfrýjanda frá 1. júní 2015. Starfaði hann sem slíkur þar til hann lét af störfum 24. ágúst 2015 í kjölfar ágreinings við hluthafa. Þann sama dag greiddi framkvæmdastjórinn fyrir hönd áfrýjanda reikning stefnda vegna launa framkvæmdastjórans fyrir september, október og nóvember 2015. Taldi hann greiðsluna vera í samræmi við samning hans við áfrýjanda. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að enginn samningur hafi komist á sem réttlætt hafi þessa greiðslu og krefst endurgreiðslu hennar.
Í málinu liggur fyrir samningur sem dagsettur er 1. júní 2015 um ráðningu og ráðningakjör framkvæmdastjórans. Undir þann samning ritaði, auk framkvæmdastjórans, stjórnarformaður áfrýjanda fyrir hönd stjórnar félagsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ljóst að þáverandi umboðsmaður eigenda helmings hlutafjár í áfrýjanda, en annar þeirra sat í stjórn félagsins ásamt umboðsmanninum, kom að gerð samningsins. Breyting var gerð á samningi þessum sem dagsett er 24. júlí sama ár og er hún undirrituð af sömu aðilum og undir upphaflega samninginn rituðu. Ekki liggur fyrir að fyrrgreindur umboðsmaður hafi komið að breytingu þessari. Enda þótt ekki liggi óyggjandi fyrir hvenær upphaflegi samningurinn og breytingar á honum voru undirritaðar er óumdeilt að fyrirsvarsmaður stefnda tók við starfi framkvæmdastjóra 1. júní 2015 og starfaði sem slíkur þar til hann lét af störfum hjá áfrýjanda.
Samkvæmt 1. mgr. 18. greinar samþykkta fyrir áfrýjanda skyldi stjórn félagsins ráða framkvæmdastjóra og ákveða starfskjör hans. Í ljósi þeirra tölvupóstsamskipta sem gengu milli framkvæmdastjórans, stjórnarformanns áfrýjanda og fyrrgreinds umboðsmanns eigenda helmings hlutafjár í áfrýjanda í aðdraganda gerð samningsins dagana 1., 12., 24. og 30. júní 2015 mátti fyrirsvarsmaður stefnda ganga út frá því að stjórnarformaður áfrýjanda hefði tryggt sér umboð stjórnar félagsins til þess að skuldbinda það með þeim hætti sem gert var með samningnum, enda var samningurinn efndur samkvæmt efni sínu og verður ekki séð að stjórn áfrýjanda hafi gert athugasemdir við þessa ráðstöfun. Þá mátti framkvæmdastjórinn eins og á stóð enn fremur gera ráð fyrir að í umboði stjórnarformannsins fælist heimild til breytinga á samningnum. Í hinum umdeilda samningi var ákvæði þess efnis að laun framkvæmdastjórans skyldu greidd samkvæmt reikningi stefnda og var sú greiðsla sem hér er deilt um innt af hendi með sama hætti og verið hafði frá upphafi ráðningar hans.
Að því gættu sem nú hefur verið rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, A ehf., greiði stefnda, B slf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 2016.
Mál þetta var þingfest 30. september 2015 og tekið til dóms 14. apríl 2016. Stefnandi er A ehf., [...], Reykjavík, en stefndi er B slf., […], Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.529.831 krónu ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 24. ágúst 2015 til 9. september 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Ennfremur að staðfest verði kyrrsetning sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði þann […] 2015, kyrrsetningargerð nr. […] í innistæðu að fjárhæð 2.576.498 krónur á bankareikningi gerðarþola nr. […] í útibúi Landsbanka Íslands, [...].
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að kyrrsetningargerð nr. […] verði felld úr gildi. Þá verði stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
I
Í málinu er deilt um lögmæti greiðslu stefnanda til fyrirsvarsmanns stefnda, C, en hann gegndi um tíma framkvæmdarstjórastöðu hjá stefnanda. Málavextir eru að mestu óumdeildir.
A ehf. er í eigu þriggja einstaklinga, hjónanna D og E, sem hvort um sig eiga 25% hlut í félaginu, og sonar þeirra, F, sem á 50% eignarhlut. Hluthafarnir mynduðu þriggja manna stjórn félagsins. Um tíma starfaði F sem framkvæmdastjóri félagsins þótt enginn væri skráður sem slíkur. Öllum starfsmönnum var kunnugt um verulegt ósætti F við foreldra sína.
Í júnímánuði 2014 náðu hluthafar samkomulagi um að F yrði skráður sem framkvæmdastjóri og að gerður yrði við hann ráðningarsamningur. Jafnframt var ákveðið að fjölga stjórnarmönnum í fimm og tók G hdl., sem var lögmaður félagsins, sæti í stjórn sem stjórnarformaður. Fyrirsvarsmaður stefnda, C, sem hafði sinnt ákveðnum verkefnum hjá stefnanda frá 2008, tók einnig sæti í stjórn sem meðstjórnandi. Umræður um ráðningarsamning við F gengu illa vegna þess að hluthafinn D vantreysti F vegna [...] hans.
Þann 30. desember 2014 veittu hluthafarnir D og E H hrl. fullt umboð til þess að koma fram fyrir þeirra hönd í öllum málum sem tengdust 50% eignarhlut þeirra í stefnanda. Jafnframt tók H sæti í stjórn félagsins.
Stjórnarformaður, G hdl., og H hrl. hófu viðræður við F um að annað hvort yrði fyrirtækið selt eða að hann keypti hlut foreldra sinna. Þessar viðræður skiluðu ekki árangri. Áfengisneysla F á vinnustað jókst og viðvera hans varð stopul. Leiddi það til þess að stjórnarformaður sendi F áminningu 8. maí 2015, tilkynningu 11. maí 2015 um að F væri sendur í launalaust leyfi og loks sendi stjórnarformaður F tilkynningu um uppsögn 28. maí 2015.
C, fyrirsvarsmaður stefnda, tók formlega við framkvæmdastjórastarfinu 1. júní 2015. Stjórnarformaður og H hrl. gerðu starfssamning við C 1. júní 2015 og var hann undirritaður af C og stjórnarformanni. Samið var um fastar mánaðarlegar verktakagreiðslur og skyldu þær lagðar inn á reikning stefnda B slf. Síðan segir í samningi aðila í grein 2.1: „Samkomulag er um það með A og framkvæmdastjóra að verði samningi þessum slitið án sakar af hálfu framkvæmdastjóra skal hann fá greitt áfram í þrjá mánuði án þess að verða skyldur til að vinna það tímabil hjá A.“
Þann [...] júlí 2015 sendi F C tölvupóst þar sem segir m.a. að eftir nokkra sólarhringa gæti C orðið atvinnulaus. Boðaði F komu sína á starfsstöð stefnanda og sagði í póstinum að hann mundi henda starfsfólki stefnanda út. Hálftíma eftir að póstur barst kom F á skrifstofu stefnanda. Lagði hann hendur á einn starfsmann fyrirtækisins sem leiddi til afskipta lögreglu og handtöku hans. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur […] hlaut F dóm vegna þessa atviks fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kjölfar þessarar uppákomu og í því skyni að róa starfsfólk og ennfremur með hagsmuni hluthafa í huga ákvað framkvæmdastjóri í samráði við stjórnarformann að gera breytingar á ráðningarsamningi starfsmanna sem fól í sér að kæmi F til starfa sem framkvæmdastjóri væri starfsmönnum heimilt að láta af störfum þegar í stað og halda launum út uppsagnarfrest. Sams konar samningur var gerður við C og er hann dagsettur 24. júlí 2015 með yfirskriftina breyting á verksamningi A við C sem annast framkvæmdastjórn fyrirtækisins, svohljóðandi: „Í ljósi þess atviks sem varð á skrifstofu fyrirtækisins [..] 2015 þegar F, hluthafi og fyrrverandi framkvæmdastjóri, lagði hendur á I og veitti henni áverka og hafði fram hótanir hefur verið ákveðið að þér sé frjálst að láta af störfum samkvæmt verksamningi þínum við fyrirtækið án fyrirvara en halda verkþóknun út umsaminn verktíma en þó eigi lengur en sem svarar þriggja mánaða þóknun. Þessi heimild er háð því skilyrði að F eða aðili honum tengdur taki við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, ígildi framkvæmdastjóra eða hafi á annan hátt afskipti af daglegum rekstri þess. Þá nýtur þú sömu heimildar komi til þess að G hætti stjórnarstörfum hjá fyrirtækinu.“
Þessi breyting á verksamningi er undirrituð af C og stjórnarformanninum G hdl.
D og C ákváðu að hittast á skrifstofu fyrirtækisins 18. ágúst 2015. Í stað D kom F og var augljóslega undir áhrifum áfengis. Sagði hann C að hann væri rekinn og lagði hendur á C. Öryggisvörður frá […], sem var á staðnum eftir atburðinn [...] júlí 2015, greip inn í og hélt F þar til lögregla kom.
Í þessari heimsókn sinni skildi F eftir á skrifstofunni tilkynningu til fyrirtækjaskrár, dags. 17. ágúst 2015, þar sem fram kemur að stjórn sé nú skipuð hluthöfum einum og að F hafi prókúru fyrir félagið.
Í kjölfar þessa hættu allir starfsmenn fyrirtækisins og fengu greidd fyrirfram laun í uppsagnarfresti. C var einnig greitt samkvæmt samningi sínum við stefnanda sem var þóknun í þrjár mánuði, samtals að fjárhæð 6.529.834 krónur, sem er stefnufjárhæð. Fjárhæðin var lögð inn á reikning stefndu samkvæmt samningi aðila.
II
Stefnandi kveður mál þetta snúast um endurheimtu á ólögmætri greiðslu sem forsvarsmaður stefnda, C, hafi látið einhliða og heimildarlaust millifæra mánudaginn 24. ágúst 2015 af reikningi stefnanda nr. […] í Landsbanka Íslands við Hagatorg, Reykjavík, inn á reikning stefnda nr. […] í útibúi Landsbanka Íslands, Fjarðargötu 9, Hafnarfirði.
Nánar kveður stefnandi málavextir þá að framangreindur forsvarsmaður hafi á þessum tíma, auk þess að vera 99% eigandi, verið stjórnarformaður og framkvæmdastjóri stefnda, sem sé samlagsfélag. Hann hafi líka verið skráður prókúruhafi stefnanda og setið þar í stjórn. Honum hafi verið kunnugt um að allir hluthafar stefnanda höfðu allt frá 17. ágúst 2015 reynt að skipta út stjórn og breyta prókúru en við þær breytingar hefði hann bæði misst stjórnarsæti sitt og prókúru. Þáverandi stjórnarformaður stefnanda, G hdl., sem og fyrrnefndur forsvarsmaður stefnda, C, en hvorugur hafi átt hlut í félaginu, hafi þráast við að virða vilja 100% eigenda félagsins og víkja. Hafi þeir borið fyrir sig meinta formgalla á tilkynningum til hlutafélagaskrár ríkiskattstjóra. Ákvörðun um hina háu greiðslu, sem nú sé krafist endurgreiðslu á, hafi verið tekin án samþykkis eða heimildar stjórnar stefnanda.
Greiðslan sé því ólögmæt, enda brjóti hin óvenjulega ráðstöfun í bága við samþykktir félagsins, einkum 18. gr. samþykktanna, þar sem umboð framkvæmdastjóra sé bundið við daglegan og venjulegan rekstur. Greiðsla af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir, sem að auki hafi gengið beint til fyrirtækis forsvarsmannsins, sé augljóslega langt utan þeirrar heimildar og hefði borið að leita ákvörðunar stjórnar um svo háa og óvenjulega greiðslu. Efnislega samhljóða ákvæði sé einnig að finna í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þótt þar sé kveðið enn fastar að orði. Stefnandi bendir einnig á almennar vanhæfisreglur sem og sértækar vanhæfisreglur laga um einkahlutafélög, einkum 48. gr. laganna sem kveði skýrt á um vanhæfi framkvæmdastjóra ef hann hefur verulegra hagsmuna að gæta sem fara í bága við hagsmuni félagsins.
Að lokinni millifærslunni hafi forsvarsmaður stefndu haldið á brott úr starfsstöð stefnanda og haft á brott með sér starfsfólkið sem hann hafði einnig borið á heimildarlausar greiðslur.
Enginn samningur liggi að baki greiðslunni þó að óundirrituð drög að verktakasamningi við forsvarsmann stefnda hafi legið fyrir en í þeim drögum sé m.a. gert ráð fyrir því að ráðning hans yrði einungis tímabundin til þriggja mánaða, þ.e. júní, júlí og ágúst 2015, og að um samninginn yrði fjallað og hann samþykktur af stjórn fyrirtækisins í samræmi við samþykktir félagsins. C hafi starfað hjá fyrirtækinu áður við önnur verkefni og hafi verið gert ráð fyrir því að hann hyrfi til fyrri starfa þegar afleysingu hans væri lokið.
Stefnandi mótmælir því að nokkur réttur verði byggður á fyrrgreindum ósamþykktum samningsdrögum en vekur á hinn bóginn athygli á því að einungis sé þar gert ráð fyrir tímabundnum þriggja mánaða gildistíma sem hefði þá væntanlega lokið í lok ágúst miðað við dagsetningu samningsdraganna 1. júní 2015.
Vegna stjórnarsetu sinnar hafi forsvarsmanni stefnda, C, verið kunnugt um að hvorki hafði verið boðað til né haldinn stjórnarfundur í félaginu vegna samningsgerðar við hann, né heldur vegna ákvörðunar um hina umþrættu greiðslu. Greiðslan geti því ekki hafa byggst á samningi.
Athygli veki að reikningur, sem sé vegna framkvæmdastjórnar fyrir ágúst 2015, sé dagsettur og greiddur 17. ágúst 2015, sama dag og tilkynnt hafi verið til hlutafélagaskrár um nýja stjórn, prókúru og fleiri breytingar á félaginu. Styrki það enn frekar það sem áður segir um heimildarleysi, grandsemi og ólögmæti þeirrar greiðslu sem mál þetta snúist um. Tilefni greiðslunnar svo löngu fyrir mánaðamót hljóti að skýrast af því að forsvarsmanninum hafi verið kunnugt um breytingarnar á félaginu þann sama dag.
Forsvarsmaðurinn hafi því efnislega verið umboðslaus þegar hann greiddi eigin fyrirtæki ríflega sex og hálfa milljón króna. Greiðslan sé auk þess ólögmæt þar sem enginn samningur hafi verið að baki og vegna galla á fyrrgreindri ákvarðanatöku.
Stefnandi telur að hann eigi rétt á endurgreiðslu hinnar ólögmætu greiðslu með vísan í almennar reglur fjármuna- og kröfuréttarins.
Verði eigi á það fallist byggir stefnandi kröfu sína á því að forsvarsmaður stefndu hafi með háttsemi sinni valdið sér tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á og vísar hann m.a. til almennu sakarreglunnar í því sambandi. Gildir þá einu hvort horft sé til bótaskyldu innan eða utan samninga.
Í málinu er þess jafnframt krafist að staðfest verði kyrrsetning sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði þann […] 2015, kyrrsetningargerð nr. […]. Í gerðinni hafi verið kyrrsett innistæða á bankareikningi gerðarþola nr. […] í útibúi Landsbanka Íslands, Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, en þá hafi verið á reikningnum 2.576.498 krónur. Gerðin hafi því verið árangurslaus að hluta. Stefnandi telur að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1991 hafi verið fyrir hendi við kyrrsetninguna. Ekki sé vitað um aðrar eignir stefnda og hefði því verið veruleg hætta á að hinir kyrrsettu fjármunir hefðu ekki verið fyrir hendi til fullnustu kröfu stefnanda ef beðið hefði verið aðfararhæfs dóms. Vísað er um þennan þátt málsins til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., einkum 5. og 36. gr. laganna.
Stefnandi vísar til almennra reglna fjármuna, kröfu- og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar innan samninga og utan. Krafa um vexti byggist á 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og krafan um dráttarvexti á 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er vísað til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., aðallega 5. og 36. gr. laganna.
III
Stefndi lýsir málavöxtum svo að A ehf. hafi verið í eigu þriggja einstaklinga, hjónanna D og E, sem hvort um sig eigi 25% hlut í félaginu, og sonar þeirra F sem eigi 50% eignarhlut. Hafi hluthafarnir myndað þriggja manna stjórn félagsins. Fyrri hluta ársins 2014 og raunar töluvert lengur hafi enginn verið skráður framkvæmdastjóri hjá stefnanda. Engu að síður hafi F starfað sem slíkur og E starfað þá sem bókari. Öllum starfsmönnum hafi verið kunnugt um verulegt ósætti F við foreldra sína.
Fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið kunnugt um að F vildi komast á launaskrá sem framkvæmdastjóri hjá félaginu en hafi virst eiga afar erfitt með að færa launakjör sín í tal við aðra stjórnarmenn. Engu að síður hafi F falið lögmanni fyrirtækisins að semja fyrir sig ráðningarsamning, sem var gert, en aftur virtist útilokað fyrir hann að taka upp málið við foreldra sína sem mynduðu meirihluta stjórnar. Náðst hafi samkomulag við aðra hluthafa um að F yrði skráður framkvæmdastjóri félagsins frá 1. júlí 2014 og í framhaldinu yrði gerður við hann ráðningarsamningur. Jafnframt hafi verið ákveðið að fjölga stjórnarmönnum tímabundið í fimm og tók G, lögmaður félagsins, sæti í stjórninni sem stjórnarformaður og fyrirsvarsmaður stefnda.
Umræða um ráðningarsamning hafi gengið illa og vildi hluthafinn D, sem talaði fyrir sig og E, einungis ráða F til nokkurra mánaða og bar m.a. við óhóflegri áfengisneyslu F. Stjórnarformaður hafi í þessu ljósi viljað boða til stjórnarfundar og útkljá málið þar. Hafi F hvað eftir annað komið í veg fyrir það en stjórnarformaður talið sig þurfa að taka tillit til þeirra ástæðna sem F færði fram, sem einkum voru sagðar gífurlegar annir við daglega stjórn félagsins. Meðal starfsmanna hafi hins vegar verið vel þekkt staðreynd að F mætti stopult til vinnu og lyktaði stundum illa. Hafi starfsmenn séð til hans þar sem hann læddist út um hliðardyr þegar þeir mættu til vinnu á morgnana og hafði hann þá greinilega sofið á vinnustaðnum. Þá hafi starfsmenn tekið eftir að F sinnti helst símsvörun og að einhverju leyti útgáfu reikninga sem voru í stórum stíl endursendir fyrirtækinu sem rangir. Meðal starfsmanna hafi þessi hegðun verið talin undarleg og ekki í samræmi við það hlutverk sem framkvæmdastjóra fyrirtækis sé ætlað.
Veturinn 2014/2015 hafi stjórnarformanni gengið sífellt verr að ná til F. Hafi stjórnarformanni virst að framkvæmdastjóri væri ekki að sinna sínu hlutverki og ljóst að starfsmönnum leið verulega illa. Hafi framkvæmdastjórinn mætt mjög stopult, látið sig hverfa, ekki svarað símtölum eða tölvupósti. Oft hafi starfsfólki virst hann undir áfengisáhrifum. Stjórnarformaður hafi hitt F síðast að máli 22. apríl 2015 á skrifstofu fyrirtækisins. Stjórnarformaður hafi greint fyrirsvarsmanni stefnda frá því að sterk áfengislykt hefði verið af framkvæmdastjóranum og hefði hann óskað eftir, eins og hann hafði margoft nefnt við hann áður, að hann leitaði sér aðstoðar. Eftir þetta hafi F hvorki svarað símtölum né tölvupósti frá stjórnarformanni. Þá hafi hann hætt því sem næst alfarið að mæta til starfa eða eiga samskipti við starfsfólk eða birgja fyrirtækisins.
Á fundi með starfsmönnum í byrjun maí 2015 hafi stjórnarformanni orðið ljóst að við þetta ástand yrði ekki unað. Afréð hann að senda F áminningu. F hafi í engu sinnt áminningunni og í bréfi sem stefnuvottar afhentu að […] hinn […] 2015 hafi F verið sendur í ótímabundið launalaust leyfi. H hrl., lögmanni D og E, hafi verið greint frá þessum ráðstöfunum og gerði hann engar athugasemdir við þær. Engin viðbrögð hafi komið frá F vegna þessa og hafi honum verið send tilkynning með stefnuvotti um uppsögn 28. maí 2014. hafi það verið gert af stjórnarformanni að höfðu samráði við H. Í kjölfarið hafi H og stjórnarformaðurinn sammælst um að fá fyrirsvarsmann stefnda til að takast á hendur framkvæmdastjórastarfið til bráðabirgða.
Formlega hafi fyrirsvarsmaður stefnda tekið við framkvæmdastjórastarfinu frá og með 1. júní 2015. Hinn 1. júní 2015 hafi fyrirsvarsmaður stefnda óskað eftir því við H og stjórnarformann að gerður yrði við sig starfssamningur og sent þeim drög að slíkum samningi. H hafi sent fyrirsvarsmanni stefnda og stjórnarformanni breytingar við þann samning 12. júní 2015. Þessar breytingar hafi fyrirsvarsmaðurinn fallist á með einni breytingu þess efnis að ráðningartími yrði til 1. nóvember 2015. Hafi þeir rætt við H og stjórnarformann um samninginn símleiðis og hafi þeir báðir verið einhuga um að samninginn mætti undirrita eins og hann lægi nú fyrir. Samkvæmt upplýsingum fyrirsvarsmanns stefnda ræddu H og stjórnarformaður saman í síma um málið og var einhugur með þeim að samningurinn yrði undirritaður eins og hann lægi fyrir. Hafi stjórnarformaður í kjölfarið undirritað samninginn. Samkvæmt þessu hafi það verið skoðun fyrirsvarsmanns stefnda að fulltrúar meirihluta stjórnar hefðu sammælst um samninginn. Megi það glöggt sjá þegar breytingar H séu lesnar yfir að samningurinn taki að öllu leyti tilliti til þeirra.
Stefndi segir að fyrirsvarsmaður stefnda hafi tekið þegar til starfa og sinnt starfi sínu af mikilli trúmennsku og náð fljótlega ásamt starfsmönnum að byggja upp betra samband við viðskiptavini.
Hinn [...] 2015 hafi F sent fyrirsvarsmanni stefnda tölvupóst svohljóðandi:
„Hæ C,
Eftir nokkra sólarhringa gætir þú orðið atvinnulaus... ef þú ert undir það búinn væri gott ef þú myndir skila inn bílnum hið fyrsta þannig að ekki þurfi að tilkynna bílinn stolinn líkt og ég hef lent í.
Ef þú vilt gera hluti með öðrum hætti þá getur þú hringt í mig. Ef ég heyri ekkert frá þér á næstu sólarhringum verður þú að axla ábyrgð gjörða þinna...
Á eftir mun ég henda starfsfólki úr vinnunni án þinna atbeina.... ef þú hefur athugasemdir við það er þér velkomið að hringja í […]...
Ekki haga þér eins og […].... PLÍS... þar er ekki best fyrir okkur...“
Um hálftíma eftir að tölvupósturinn var sendur stefnda hafi F birst á skrifstofu stefnanda og gengið rakleitt að skrifstofu I, bókara fyrirtækisins, og tilkynnt að hún væri rekin og eigi að koma sér út strax. I hafi svarað því til að slíkum tilmælum taki hún við frá framkvæmdastjóra og stjórn fyrirtækisins. Hafi F þá lagt hendur á I sem hafi leitt til þess að haft hafi verið samband við lögreglu sem kom fljótt á staðinn, handtók F og færði hann í fangageymslu. Vegna ölvunar var hann látinn sofa úr sér á lögreglustöðinni.
Eins og nærri megi geta hafi starfsfólki verið brugðið við þessa uppákomu. Hafi það helst viljað hætta störfum þegar í stað vegna framkomu F. Í því skyni að róa starfsfólk og fá það til áframhaldandi starfa og þannig bjarga hagsmunum hluthafa hafi framkvæmdastjóri ákveðið í samráði við stjórnarformann að gera breytingar á ráðningarsamningi starfsmanna sem fól í sér að kæmi F eða annar aðili á hans vegum til starfa hjá fyrirtækinu sem framkvæmdastjóri væri því heimilt að láta af störfum þegar í stað en skyldi halda launum út uppsagnarfrest. Þá hafi stjórnarformaður ákveðið að beiðni framkvæmdastjóra að sams konar regla skyldi gilda um hann. þ.e. að honum væri heimilt að hætta störfum kæmi F aftur að fyrirtækinu sem framkvæmdastjóri eða skuggastjórnandi. Hafi verið um að ræða nánari útfærslu á þegar gerðum starfssamningi við framkvæmdastjóra en grein 2.1 í samningnum sé svohljóðandi:
„Samkomulag er um það með A og framkvæmdastjóra að verði samningi þessum slitið án sakar af hálfu framkvæmdastjóra skal hann fá greitt áfram í 3 mánuði án þess að verða skyldur til að vinna það tímabil hjá A.“
Hafi þetta ákvæði verið orðað af H hrl.
Starfsfólk hafi haldið áfram störfum sínum og fyrirsvarsmaður stefnda sent F tölvupóst 28. júlí 2015 og varað hann við að koma aftur að skrifstofum fyrirtækisins. Hinn 13. ágúst 2015 hafi stefnda borist tilkynning frá H hrl. um að hann hefði sagt sig einhliða úr stjórn stefnanda.
Hinn 14. ágúst 2015 hafi fyrirsvarsmaður stefnda haft samband við D í því skyni að átta sig betur á stöðu mála innan hluthafahópsins. Að mati hans hafi D verið afar óöruggur og engu getað svarað, hvorki um stöðu fyrirsvarsmanns stefnda, né næstu skref hluthafa í málinu. Fyrirsvarsmanni stefnda og D hafi komið saman um að hittast á skrifstofu stefnanda þriðjudaginn 18. ágúst 2015 kl. 9 árdegis. D hafi hins vegar ekki mætt á skrifstofu stefnanda, heldur F. Hafi hann verið undir augljósum áhrifum áfengis. F hafi veifað þar pappírum og sagt að fyrirsvarsmaður stefnda væri rekinn. Umræddir pappírar hafi verið tilkynningar til fyrirtækjaskrár sem höfðu verið mótteknar af hálfu fyrirtækjaskrár 17. ágúst 2015. Voru þær undirritaðar af öllum hluthöfum stefnanda.
Í kjölfarið hafi F lagt hendur á fyrirsvarsmann stefnda og reynt að ýta honum út af skrifstofunni. Öryggisvörður frá […] hafi hins vegar náð að halda F og hafi lögregla verið kölluð til.
Afrit þeirra tilkynninga, sem F hafi lagt fram þegar hann kom á skrifstofu stefnanda, skyldi hann eftir en þar sé gert ráð fyrir þeim breytingum að stjórnarformaður og fyrirsvarsmaður stefndu hverfi úr stjórn félagsins og jafnframt að staða framkvæmdastjóra verði lögð niður en F gerður að prókúruhafa.
Eftir að F hafði verið fjarlægður af skrifstofu stefnanda hafi fyrirsvarsmaður stefnda látið stjórnarformann vita af háttsemi F. Jafnframt hafi hann greint honum frá þeim tilkynningum sem F hafði skilið eftir. Stjórnarformaðurinn hafi komið á skrifstofuna og rætt við starfsfólk en tilkynnt fyrirsvarsmanni stefnda að í ljósi þeirrar tilkynningar sem lægi fyrir myndi hann tilkynna úrsögn sína úr stjórn. Stefndi hafi óskað eftir að stjórnarformaður léti það bíða uns hann hefði náð samtali við D. Hafi stjórnarformaður fallist á að bíða með úrsögn fram á mánudag. Í kjölfar þessa hafi starfsmenn undirritað sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kom að þau muni umsvifalaust láta af störfum komi F aftur til starfa hjá stefnanda.
Samkvæmt því sem stjórnarformaður hafi sagt fyrirsvarsmanni stefnda hafi hann haft samband við hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra vegna tilkynningarinnar. Sagðist hann hafa frétt af breytingum á stjórn með óvenjulegum hætti og spurt hvort hluthafafundur hefði verið haldinn án þess að stjórn félagsins hefði komið að því máli. Muni þetta símtal hafa orðið til þess að skráning á tilkynningum fór ekki fram hjá fyrirtækjaskrá.
Samkvæmt því sem stjórnarformaður hafi greint fyrirsvarsmanni stefnda frá hafi honum borist tölvubréf frá H hrl. 26. ágúst 2015, sem áður hafði sagt sig frá þjónustu við hjónin D og E, þar sem hann hafi tilkynnt að hann væri nú lögmaður hjónanna og F. Hafi hann framvísað sérstöku umboði þar að lútandi.
Þegar umboðið barst hafi fyrirsvarsmaður stefnda þegar látið af störfum líkt og allir aðrir starfsmenn. Það hafi allir starfsmenn gert í ljósi háttsemi F gagnvart starfsmönnum. Létu allir starfsmenn af störfum og skilaði stefndi lyklum og öðrum upplýsingum til H hrl., lögmanns hluthafa.
Í ljósi aðstæðna hafi framkvæmdastjóri ákveðið í samráði við stjórnarformann að gera upp laun til starfsmanna og sína þóknun á uppsagnarfresti. Hafi það verið mat beggja að ella fengjust laun ekki greidd nema að undangengnum dómsmálum. Hafi starfsmenn haft vitneskju um slíka framkomu af hálfu F í a.m.k. í tveimur tilvikum á árunum 2014 og 2015.
Eins og sjá megi af málavaxtalýsingu hafi mikið gengið á hjá stefnanda undanfarin ár og sé hegðun hluthafans F gagnvart starfsfólki algerlega óafsakanleg. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi verið með gildan verksamning vegna starfa sinna hjá stefnanda og hafi samningssambandi við hann verið slitið án þess að hann hefði nokkuð til saka unnið, enda sé engu slíku haldið fram í réttarstefnunni. Þvert á móti hafi fyrirsvarsmaðurinn unnið mikið starf við að koma stefnanda á réttan kjöl eftir óstjórn F. Þau skilyrði sem hafi verið sett í grein 2.1 í samningnum hafi því verið til staðar, sbr. og viðauka við þann samning. Fyrirsvarsmanni stefnda hafi því verið heimilt að láta af störfum, fá þóknun greidda í þrjá mánuði og óskylt að vinna hjá stefnanda út uppsagnarfrestinn.
Þá sé afar algengt að stjórnarformaður riti undir samning við framkvæmdastjóra í umboði stjórnar. Slíkt umboð hafi hann frá meirihluta stjórnar, enda hafi H haft umboð D eins og rakið sé í málavaxtalýsingu. Beri sérstaklega að líta til þess að H hafi gert ýmsar breytingar á upphaflegum samningsdrögum sem allar hafi verið samþykktar af stjórnarformanni og stefnda. Þá hafi hann lýst sig samþykkan samningnum, bæði í símtali við stefnda og stjórnarformann. Einnig beri að hafa í huga að útilokað hafi verið að ná sambandi við stjórnarmanninn og fyrrverandi framkvæmdastjóra, F. Loks skuli á það bent að stefndi sat einnig í stjórninni.
Í ljósi þess aðdraganda sem samningslitin höfðu og lýst hefur verið hér að framan hafi fyrirsvarsmaður stefnda haft fyllstu ástæðu til að ætla að honum yrði ekki greidd þóknun þegar hann hætt störfum hjá stefnanda. Fyrir liggi að stefnandi hafi í tvígang neitað að greiða starfsmönnum laun á uppsagnarfresti. Honum hafi því fyllilega verið heimilt, að höfðu samráði við stjórnarformann, að láta greiða sér þóknunina sem eingreiðslu við lok starfa sinna.
Eins og fram komi í málavaxtalýsingu verði fyrirsvarsmanni stefnda fyrst ljóst 18. ágúst 2015 að svo virðist sem hluthafarnir þrír hafi ákveðið að víkja honum úr stöðu framkvæmdastjóra. Af þeim sökum sé umfjöllun í réttarstefnu um reikning, dags. 17. ágúst 2015, röng. Hann hafi hins vegar talið sig eiga rétt á skýringum og reynt hvað eftir annað að hafa tal af D en án árangurs.
Þegar greiðslur til stefnda hafi verið inntar af hendi hafi fyrirsvarsmaður hans sem framkvæmdastjóri haft prókúru fyrir stefnanda. Staðhæfing þess efnis að hann hafi verið efnislega umboðslaus sé merkingarleysa og hafi ekkert gildi í þessu sambandi. Samkvæmt lögum hafi fyrirsvarsmaður stefnda verið réttur handhafi prókúru og skráður framkvæmdastjóri. Hann hafi því haft formlega heimild til þessara ráðstafana í samráði við stjórnarformann. Stefnandi eigi því ekki rétt til endurgreiðslu á grundvelli almennra reglna fjármuna- og kröfuréttarins. Því síður hafi stefndi valdið stefnanda tjóni með umræddum greiðslum, enda hafi stefnanda borið að inna greiðslurnar af hendi samkvæmt ákvæði verksamnings. Tilvísun til skaðabótaábyrgðar stefnda eigi því ekki við, enda ekki studd neinum sérstökum málsástæðum eða lagarökum.
Stefndi vísar til reglna kröfu- og fjármunaréttar svo og reglna samningaréttar. Þá er vísað til laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Hér að framan er það rakið að óvenjulegt ástand ríkti á starfsstöð stefnanda. G hdl., lögmaður félagsins, var fenginn af hálfu hluthafanna D og E, sem héldu á helmingshlut í félaginu, til þess að taka sæti í stjórn stefnanda sem stjórnarformaður. Síðar fengu þau einnig hæstaréttarlögmanninn H til að gæta hagsmuna sinna varðandi rekstur fyrirtækisins. Hann tók einnig sæti í stjórn stefnanda.
Þegar fyrirsvarsmaður stefnda, C, tók við framkvæmdastjórastöðunni 1. júní 2015 var ástand ótryggt hjá stefnanda. F, sem er helmingseigandi stefnanda, hafði verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri félagsins, og öll samskipti við hann gengið illa eins og rakið er hér að framan. Hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda að tilefni hafi verið til að segja framkvæmdastjóranum upp störfum og að það hafi verið löglega gert. Fallist er á með stefnda að framangreindar ráðstafanir hafi verið gerðar með hagsmuni hluthafa í huga og að C hafi verið fenginn til starfans í þeim tilgangi.
Í kjölfar þess var gerður samningur 1. júní 2015 við fyrirsvarsmann stefnda þar sem kemur fram í grein 2.1 að verði starfssamningnum við fyrirsvarsmann stefnda slitið án sakar af hálfu framkvæmdastjórans skuli hann fá greitt áfram í þrjá mánuði þóknun án þess að vera skyldugur til að vinna það tímabil hjá stefnanda. Þessi samningur var undirritaður af fyrirsvarsmanni stefnda og stjórnarformanni stefnanda en ekki er deilt um í málinu að umboðsmaður D og E, H hrl., kom að gerð samningsins og samþykkti hann fyrir þeirra hönd.
Framangreint ákvæði starfssamningsins var áréttað með yfirlýsingu sem stjórnarformaður og fyrirsvarsmaður stefndu rituðu undir 24. júlí 2015. Var þar áréttað að fyrirsvarsmanni stefnda væri heimilt að hætta störfum og fá umsamda verkþóknun í þrjá mánuði ef F eða aðili honum tengdur tæki við framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Líta verður svo á að samningur fyrirsvarsmanns stefndu 1. júní 2015 við stefnanda og árétting hans 24. júlí 2015 hafi verið skuldbindandi fyrir stefnanda. Samningurinn 1. júní 2015 var gerður af til þess bærum aðilum í stjórn stefnanda, stjórnarformanni og fulltrúa hluthafa sem héldu á 50% eignarhlut. Nægilega er komið fram, og því ekki mótmælt af hálfu stefnanda, að ekki náðist í F á þessum tíma og var samningurinn í raun gerður til þess að aflétta því neyðarástandi sem ríkti í málefnum stefnanda með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi.
Samkvæmt samningnum var fyrirsvarsmanni stefnda heimilt að láta af störfum þegar ljóst var að F kæmi til starfa sem framkvæmdastjóri stefnanda og jafnframt að fá greitt við brottför þóknun fyrirfram fyrir þrjá mánuði. Samningsbundin greiðsla til handa fyrirsvarsmanni stefnda var innt af hendi samkvæmt óskilyrtum samningi hans við til þess bæra aðila í stjórn stefnanda og hefur þeim samningi ekki verið hnekkt. Greiðslan fór því ekki í bága við 18. gr. samþykktar félagsins eða í bága við ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
Er því ekki hald í þeirri málsástæðu stefnanda að fyrirsvarsmaður stefnda hafi verið umboðslaus á þessum tíma og að ákvörðun um greiðslu til hans hafi verið tekin án samþykkis eða heimildar stjórnar stefnanda. Órökstudd er með öllu skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda B slf. og kemur hún því ekki til skoðunar.
Niðurstaða málsins er því sú að stefnandi eigi ekki endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Verður stefndi því alfarið sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu ber að fella úr gildi kyrrsetningu sem fram fór hjá stefndu 9. september 2015.
Samkvæmt þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, B ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A ehf., í máli þessu.
Felld er úr gildi kyrrsetning samkvæmt kyrrsetningargerð nr. […] í innistæðu að fjárhæð 2.576.498 krónur á bankareikningi stefndu nr. […] í útibúi Landsbanka Íslands, Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði þann 9. september 2015.
Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.