Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-19
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lax- og silungsveiði
- Veiðifélag
- Stjórnarskrá
- Félagafrelsi
- Eignarréttur
- Sameign
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 23. febrúar 2022 leita Ingibjörg Pálsdóttir og Fossatún ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. janúar sama ár í máli nr. 628/2020: Ingibjörg Pálsdóttir og Fossatún ehf. gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að selja veiðihús félagsins á leigu til almenns gisti- og veitingahúsarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.
4. Í dómi Landsréttar var meðal annars vísað til þess að með dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 hefði því verið slegið föstu að ákvörðun veiðifélags um ráðstöfun stangveiði á félagssvæði sínu og samhliða henni ákvörðun um gisti- og veitingarekstur í veiðihúsi á skilgreindum veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 félli ótvírætt innan þeirra marka sem lög settu starfsemi veiðifélaga, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Þá var vísað til þess að útleiga gagnaðila á veiðihúsi sínu utan veiðitímabils samræmdist e-lið sömu málsgreinar svo sem lögunum var breytt með lögum nr. 50/2015. Hún væri því félaginu heimil að lögum. Talið var að starfsemin væri í nægjanlegum tengslum við þau verkefni sem gagnaðila væru falin samkvæmt samþykktum. Landsréttur taldi jafnframt að ákvæði e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 væri í samræmi við tilgang laganna og þau markmið sem skylduaðild að veiðifélögum væri ætlað að tryggja. Var því ekki fallist á að útleiga veiðihúss gagnaðila gengi svo nærri félagafrelsi leyfisbeiðandans Ingibjargar samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða bryti gegn eignarrétti samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta viðauka við mannréttasáttmála Evrópu að hún væri óheimil. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila var því staðfest.
5. Leyfisbeiðendur byggja á að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það varði stjórnarskrárvernduð mannréttindi og svigrúm löggjafans við takmörkun þeirra. Málið lúti að réttarstöðu mikils fjölda manna sem eru skyldaðir til aðildar að veiðifélagi með lögum nr. 61/2006. Þá sé nauðsynlegt að fá úrlausn um hvort lög nr. 50/2015 sem breyttu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 samræmist réttindum leyfisbeiðenda. Skera þurfi úr um hvaða kröfur séu gerðar til löggjafans þegar til stendur að skerða stjórnarskrárvarin mannréttindi. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi meðal annars um félagafrelsi og takmarkanir sem verða gerðar á því. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 og er beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt.