Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. maí 2006.

Nr. 233/2006.

Helgi Jónsson

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Flugmálastjórn Íslands

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að lagt yrði lögbann við tilteknum athöfnum F. Kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sýslumaðurinn í Reykjavík leggi lögbann við því að varnaraðili rífi niður eða fjarlægi nánar tilgreint kennsluhúsnæði á Reykjavíkurflugvelli. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við fyrrgreindum athöfnum varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Hinn kærði úrskurður var, sem áður segir, kveðinn upp á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006. Ekki var sótt þing af hálfu sóknaraðila við uppkvaðningu úrskurðarins, en í kæru kemur fram að hann hafi fengið úrskurðinn afhentan 3. apríl 2006. Sóknaraðili hafði því að minnsta kosti á þeim tíma fengið vitneskju um efni úrskurðarins. Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 með áorðnum breytingum, verður að líta svo á að tveggja vikna frestur sóknaraðila til að kæra úrskurðinn hafi byrjað að líða þennan dag. Kæra, sem dagsett var 11. apríl 2006, barst héraðsdómi ekki fyrr en 18. sama mánaðar og var kærufrestur þá liðinn. Samkvæmt því verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Helgi Jónsson, greiði varnaraðila, Flugmálastjórn Íslands, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006.

I

          Málið barst dómnum 26. janúar sl.  Það var þingfest 10. febrúar sl. og tekið til úrskurðar 22. mars sl.

          Sóknaraðili er Helgi Jónsson, Bauganesi 44, Reykjavík.

          Varnaraðili er Flugmálastjórn Íslands, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

          Sóknaraðili krefst þess “að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lög­bann við því að varnaraðili rífi niður og eða fjarlægi kennsluhúsnæði á Reykja­víkur­flug­velli, hvort heldur að hluta eða að öllu leyti.  Húseignin er auðkennismerkt hjá FMR 202-9328 26 0101, skráð 188 fermetrar, nefnd sérh bygg-iðnaður.  Innifalið skráningunni er hús­eign sóknaraðila um 77 fermetrar að flatarmáli.”  Þá er krafist málskostnaðar.

          Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum úrskurðaður máls­kostnaður.

II

          Sóknaraðili kveður málavexti vera þá að hann eigi verkstæðishús á Reykja­víkur­flug­velli sem sé sambyggt við framangreint hús.  Kveðst sóknaraðili hafa orðið þess áskynja að varnaraðili áformi að rífa húsið.  Sóknaraðili hafi hagsmuni af því að það verði ekki gert án samráðs við hann til að tryggja að hans hús verði ekki fyrir skemmdum.  Hafi hann krafist þess 12. desember sl. að sýslumaður legði lögbann við niður­rifinu, en því hafi sýslumaður hafnað 17. janúar sl. og hann skotið synjuninni til dóms­ins eins og áður sagði.

          Varnaraðili kveðst hafa eignast húsið vorið 2003, en það hafi áður verið í eigu fyrir­tækis sóknaraðila.  Í október 2005 hafi borgaryfirvöld krafist þess að húsið yrði rifið vegna þess að það væri ónýtt.  Varnaraðili kveðst þegar hafa hafið undirbúning þess, en verið stöðvaður er sóknaraðili krafðist lögbanns á niðurrifið.

III

          Sóknaraðili byggir á því að hann eigi hluta af framangreindu húsnæði.  Það hafi allt upp­haflega verið nefnt Flugskóli Helga Jónssonar og hluti af því, þ.e. það sem nefnt er skóli og verksmiðjuhús, verið veðsett samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu 15. ágúst 1994.  Húsið skiptist hins vegar í þrjá hluta, skóla, verksmiðjuhús og verkstæði sem er í milli­bygg­ingu á milli skólans og verksmiðjunnar.  Á nauðungaruppboði hafi aðeins skólinn og verk­smiðjan verið seld en ekki milliherbergið og þar hafi sóknaraðili óáreittur haft starf­semi sína.  Varnaraðili hafi síðar eignast þá hluta hússins sem seldir voru nauðungarsölu en ekki verkstæðið.  Sóknaraðili byggir á því að með væntanlegu niðurrifi hússins sé brotið gegn lögmætum hagsmunum hans og beri því að leggja fyrir sýslumann að leggja lög­bann við niðurrifinu.

          Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hann eigi allt framangreint húsnæði og sé eignar­réttur hans skráður bæði í þinglýsingarbókum og hjá öðrum opinberum skrán­ing­ar­yfir­völdum.  Honum sé því heimilt að láta rífa húsið, auk þess sem honum sé það skylt samkvæmt fyrirmælum borgaryfirvalda.  Jafnvel þótt sóknaraðila tækist að sýna fram á að hann ætti hluta hússins myndi það ekki nægja til að orðið yrði við kröfu hans þar eða samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. verði lög­bann ekki lagt við athöfn ef réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi hagsmuni þess sem beiðist lögbanns, en þetta ákvæði eigi við eins og hér standi á.

IV

Meðal gagna málsins eru teikningar af umræddu húsi, auk þess sem lögmaður sóknar­aðila sýndi myndir af því við upphaf aðalmeðferðar.  Af teikningu má sjá að húsið er ein heild er skiptist nokkur rými, m.a. kennslustofu, “link” og verkstæði.  Ljós­mynd­irnar sýndu og að húsið er ein heild og tengt við flugskýli.  Þá hafa verið lögð fram afsöl er sýna að húsið hefur gengið kaupum og sölum sem ein fasteign allt frá árinu 1973 er sóknar­aðili keypti það.  Samkvæmt afsali til varnaraðila frá 2. maí 2003 er húsið tilgreint með sömu númerum og greinir í kröfugerð sóknaraðila.  Þá styðja þinglýsingarvottorð og vott­orð Fasteignamats ríkisins einnig þá niðurstöðu að húsið hafi, a.m.k. frá árinu 1973, verið ein fasteign.  Þessi síðastgreindu gögn bera ótvírætt með sér að eigandi hússins sé íslenska ríkið og varnaraðili fari með umráð þess.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dóms­ins að varnaraðili hafi sýnt fram á að hann eigi nefnt hús og megi því láta rífa það.  Eigi sóknaraðili á hinn bóginn einhver réttindi yfir því, að öllu leyti eða að hluta til, þá munu réttarreglur um skaðabætur tryggja hagsmuni hans og verður kröfu hans þar af leið­andi hafnað, sbr. 1. tl. 3. mgr. laga um kyrrsetningu og lögbann.

          Sóknaraðili skal greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

          Kröfu sóknaraðila, Helga Jónssonar, er hafnað og skal hann greiða varnaraðila, Flug­mála­stjórn Íslands, 150.000 krónur í málskostnað.