Hæstiréttur íslands
Mál nr. 249/2016
Lykilorð
- Bifreið
- Manndráp af gáleysi
- Svipting ökuréttar
- Sakarkostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærði borinn sökum um að hafa síðdegis 26. desember 2015 ekið bifreið inn á einbreiða brú á Suðurlandsvegi yfir Hólá í Öræfasveit á móti annarri bifreið, sem var langt komin yfir brúna úr gagnstæðri átt, með þeim afleiðingum að árekstur varð á brúnni. Hlaut ökumaður hinnar bifreiðarinnar áverka við áreksturinn, sem leiddu hann til dauða. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi játaði ákærði þessa háttsemi. Eftir gögnum málsins voru vegmerkingar og aðrar aðstæður við slysstaðinn með þeim hætti að ákærða gat ekki dulist að aksturslag hans myndi óumflýjanlega leiða til hættu á árekstri ef önnur bifreið væri þegar komin inn á brúna úr gagnstæðri átt, svo sem hér var raunin. Aksturslag ákærða var þannig í andstöðu við þau ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987, sem greinir í ákæru, og hlaust af þessu gáleysi hans mannsbani, sem varðar við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Refsing hans er þar hæfilega ákveðin, þar á meðal niðurstaða dómsins um skilorðsbindingu hennar, svo og svipting ökuréttar.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða gert að bera samtals 5.967.664 krónur í sakarkostnað, sem fólst meðal annars í þóknun verjanda hans á rannsóknarstigi, 1.046.753 krónum, og verjanda fyrir dómi, 1.207.140 krónum. Þann hluta sakarkostnaðar verður ákærði að bera. Eins og atvikum er hér háttað er jafnframt rétt að fella á ákærða sakarkostnað vegna reiknings fyrir skoðun á líki þess látna, 24.000 krónur, vottorðs Veðurstofu, 10.500 krónur, og kostnaðar af töku blóðsýnis úr ákærða og rannsókn á því, 77.328 krónur. Annan sakarkostnað í héraði verður að fella á ríkissjóð.
Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, Chengtao Wang, greiði 2.365.721 krónu í sakarkostnað í héraði, en að öðru leyti fellur hann á ríkissjóð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.010.200 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, 930.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 16. mars 2016.
Mál þetta, sem þingfest var 26. febrúar 2016 og dómtekið 10. mars 2016, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurlandi þann 22. febrúar sl., sem barst dóminum 23. febrúar sl., á hendur Chengtao Wang, fd. [...], kínverskum ríkisborgara
„fyrir hegningar- og umferðarlagabrot:
með því að hafa, síðdegis laugardaginn 26. desember 2015, ekið bifreiðinni [...] austur Suðurlandsveg í Öræfasveit inn á einbreiða brú á Hólá, of hratt miðað við aðstæður þar sem snjór og krapi var á veginum og án nægjanlegrar aðgæslu þannig að hann hafði ekki fulla stjórn á bifreiðinni sem skall framan á vinstra framhorn bifreiðarinnar [...] sem ekið var í gagnstæða átt og átti skammt ófarið yfir brúnna, með þeim afleiðingum að ökumaður [...], A, fd. [...], hlaut mikla áverka á brjósti og lést skömmu síðar.
Teljast brot ákærða varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr., sbr. g. og h. lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök. Var honum skipaður verjandi að hans ósk Eva B. Helgadóttir hrl.
Við fyrirtöku málsins 10. mars sl. óskaði ákærði eftir að breyta afstöðu sinni til sakarefnisins og játaði hann skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Var málið þá tekið til dóms skv. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjandi og skipaður verjandi höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög, enda taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.
Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað.
Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað, sem og til þess að hann hefur játað brot sitt hreinskilnislega.
Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum ber að svipta ákærða ökurétti og er ökuréttarsvipting hans hæfilega ákveðin 10 mánuðir frá birtingu dómsins að telja.
Samkvæmt 216. gr. laga nr. 88/2008 teljast til sakarkostnaðar óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar sakamáls og meðferðar þess. Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laganna ber dómfelldum manni að greiða sakarkostnað, enda sé hann sakfelldur fyrir það brot eða þau brot sem honum eru gefin að sök.
Samkvæmt yfirliti Lögreglustjórans á Selfossi er útlagður kostnaður vegna rannsóknar á máli þessu alls kr. 4.228.779, að meðtöldum útlögðum kostnaði vegna skipaðs verjanda ákærða á rannsóknarstigi. Meðal hins útlagða kostnaðar eru kr. 540.835 vegna flutnings ökutækja af slysavettvangi, en ljóst er að óhjákvæmilegt var að flytja ökutækin á brott, án tillits til þess hvort um sakamálarannsókn væri að ræða. Þá er þar jafnframt að finna kostnað vegna líkflutnings, kr. 87.460, en ljóst er að það var óhjákvæmilegur kostnaður án tillits til þess hvort um sakamálarannsókn væri að ræða. Verður ákærða ekki gert að greiða þennan kostnað og ekki heldur kostnað vegna áverkavottorðs um hann sjálfan að fjárhæð kr. 47.100. Að öðru leyti verður ákærða gert að greiða útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti, en hvorki verður séð að stofnað hafi verið til óþarfa rannsókna eða kostnaðar við rannsókn lögreglu, né að kostnaður hafi orðið vegna vanrækslu eða skeytingarleysis, sbr. 3. ml. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008. Þá ber ákærða að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu B. Helgadóttur hrl., kr. 1.207.140 að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Chengtao Wang, sæti fangelsi í 3 mánuði.
Fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er sviptur ökurétti í 10 mánuði frá birtingu dómsins.
Ákærði greiði sakarkostnað, alls kr. 4.760.524, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu B. Helgadóttur hrl., kr. 1.207.140.