Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2017

A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði

Reifun

Úrskurður héraðsdóms, þar sem A var sviptur sjálfræði í tólf mánuði, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tólf mánuði.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður styttri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                           

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017.

Með kröfu, sem barst dóminum 2. febrúar sl., hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...] í Reykjavík, verði, með vísan til a- og b-liða 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í 12 mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

I.

Sóknaraðili byggir kröfur um sviptingu sjálfræðis til tólf mánaða á a- og b-liðum 4. gr., sbr. 5. gr., lögræðislaga, nr. 71/1997. Krafan byggi jafnframt á því að varnaraðili eigi við alvarlegan heilsubrest að stríða, auk vímuefnafíknar og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum.

Sóknaraðili bendir á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Aðstæður allar þyki vera með þeim hætti að rétt sé að sóknaraðili standi að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé 32 ára karlmaður sem talinn er með undirliggjandi framheilaskaða, skerta vitræna getu og skertan skilning á aðstæðum ásamt því að vera hvatvís, hömlulaus og ófær um að halda sér frá neyslu fíkniefna. Varnaraðili eigi langa sögu um mikla andfélagslega hegðun, neyslu- og hegðunarvanda og ofbeldi en hann sé að upplagi misþroska. Vegna alvarlegs heilsubrests hans og ofnotkunar fíkniefna sé það mat sóknaraðila, sem  hljóti stoð í vottorðum geðlækna, að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum og að brýn þörf sé til að svipta hann sjálfræði sínu, sbr. a- og b-liði 4. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997.

Með beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B, lækni á geðdeild 32C á Landspítalanum, dagsett 12. janúar sl., læknisvottorð C, geðlæknis og yfirlæknis á bráðageðdeild 32C, dags. 30. janúar sl., og samantekt Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, dags. 31. janúar sl. Hvað varðar forsögu málsins og málsatvik vísar sóknaraðili til gagna málsins, sér í lagi framangreindra vottorða og gagna.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi alist upp við erfiðar heimilisaðstæður. Á unglingsaldri hafi verið framkvæmd ýmis próf á honum og niðurstaða þeirra hafi verið sú að hann glímdi við margþættan vanda sem hafði hamlandi áhrif á öll félagsleg samskipti hans. Ítarlega er rakið hversu mikil áhrif þetta hafði á líf varnaraðila og hvernig þessi geðrænu einkenni færðust í aukana og leiddu til þess að varnaraðili beitti ofbeldi í auknum mæli í samskiptum sínum í skóla og á heimili. Í kringum 14 ára aldur hafi varnaraðili byrjað að neyta vímuefna og fór hann á Stuðla og Háholt 15 ára gamall. Frá 16 ára aldri hafi vímuefnaneysla varnaraðila aukist og byrjaði hann að neyta örvandi efna og sterkra verkjalyfja. Frá 18 ára aldri hafi hann ítrekað leitað á göngudeild fíkniefnameðferðar og bráðamóttöku geðsviðs vegna fíknivanda síns. Varnaraðila hafi ítrekað verið boðnar meðferðir, m.a. á fíknideild, en hann hafi ekki stundað þær nema til mjög skamms tíma í hvert sinn.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir fjölmörg brot á almennum hegningarlögum, m.a. ofbeldisbrot, vopnalagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hafi hann því afplánað refsingu í fangelsi með reglulegu millibili. Þegar afplánun lauk í september 2010 hafi varnaraðila verið úthlutað íbúð í íbúðarkjarna fyrir geðfatlaða einstaklinga og hafi búið þar þar til í apríl 2011 þegar hann hafi verið fluttur á bráðaþjónustu geðdeildar eftir að hafa beitt starfsfólk sóknaraðila og aðra ofbeldi. Þar sem varnaraðili rauf skilorð með þessu hafi hann í framhaldinu verið fluttur í fangelsi til að afplána eftirstöðvar dómsins. Frá því að varnaraðili lauk afplánun haustið 2012 hafi hann leitað reglulega á bráðamóttöku Landspítalans og lagst inn á geðdeild. Hann hafi aftur verið dæmdur til fangelsisvistar og hafið afplánun í júní 2015 vegna ofbeldis- og fíkniefnabrota. Varnaraðili hafi fengið reynslulausn í júlí 2016 og var honum þá úthlutað félagslegu leiguhúsnæði auk þess sem hann fékk stuðning tveggja starfsmanna í 16 klst. á dag. Þar sem varnaraðili stóðst ekki skilorð reynslulausnar, sem fólst í því að neyta ekki fíkniefna, var honum gert að afplána eftirstöðvar refsingarinnar í ágúst sl. og lauk hann henni 15. september sl. Þegar afplánun lauk hafi varnaraðili verið fluttur aftur í félagslegt leiguhúsnæði sem hann hafði búið í áður. Hann hafi áfram fengið stuðning þar til hann byrjaði aftur að neyta fíkniefna nokkrum dögum seinna. Varnaraðili hafi dvalið í þessu húsnæði þar til 9. janúar 2017 þegar hann lagðist inn á bráðageðdeild 32C að ósk sóknaraðila þar sem markmiðið hafi verið afeitrun varnaraðila áður en hann fengi búsetu í öryggisíbúð. Við komu á geðdeild hafi varnaraðili óskað eftir því að fá lyf og orðið reiður og ógnandi þegar ekki hafi verið orðið við þeirri ósk. Hann hafi þá óskað eftir því að útskrifast af geðdeildinni. Það hafi verið niðurstaða lækna að varnaraðili gæti ekki útskrifast þar sem hann væri metinn hættulegur og í fráhvörfum. Þann 10. janúar sl. hafi varnaraðili því verið nauðungarvistaður í 72 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Í kjölfarið bað sóknaraðili um nauðungarvistun í 21 dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga, með beiðni, dags. 12. janúar sl. sem samþykkt var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 13. janúar sl.

Í nauðungarvistuninni hafi varnaraðili stöðugt óskað eftir meiri lyfjum. Eftir um vikudvöl á geðdeild hafi hann verið orðinn mun rólegri en þó gætti vanstillingar ef hann fékk ekki vilja sínum framgengt eða skildi ekki útskýringar. Sóknaraðili bendir á að varnaraðili skilji ekki af hverju hann sé nauðungarvistaður. Hann telji sig vel geta hætt neyslu vímuefna, þrátt fyrir forsögu hans. Þann 18. janúar sl. hafi komið í ljós að varnaraðili var með bráða lifrabólgu C. Því var talið nauðsynlegt að hann hætti inntöku allra lyfja vegna álags á lifrina. Hann sé nú byrjaður í upprætingarmeðferð vegna lifrarbólgu C. Í lok janúar sl. hafi hegðun varnaraðila versnað aftur og hafi hann orðið spenntur, ör og haft í hótunum en grunur leikur á að hann hafi neytt örvandi efna. Þörf hafi verið á að kalla til lögreglu í tvígang í lok síðasta mánaðar vegna hótana og ofbeldisfullrar hegðunar varnaraðila. Í síðara skiptið hafi hann verið fjarlægður af deildinni og vistaður í fangaklefa.

Nú telji sóknaraðili að ljóst sé að brýna nauðsyn beri til þess að svipta varnaraðila sjálfræði sínu svo unnt sé að veita honum þá viðeigandi aðstoð og utanumhald sem honum sé nauðsynleg til að halda jafnvægi og ná tökum á vímuefnafíkn sinni. Slíkt hafi verið ómögulegt hingað til sökum þess alvarlega heilsubrests og vímuefnafíknar sem varnaraðili glími við.

Þá vísar sóknaraðili til þess sem fram komi í vottorði C geðlæknis, dags. 30. janúar sl., að varnaraðili sé talinn með undirliggjandi framheilaskaða, skerta vitræna getu og skertan skilning á aðstæðum ásamt því að vera hvatvís, hömlulaus og ófær um að halda sér frá neyslu fíkniefna. Varnaraðili eigi langa sögu um mikla andfélagslega hegðun, neyslu- og hegðunarvanda og ofbeldi en hann sé að upplagi misþroska. Vegna gríðarlegrar ofnotkunar ávana- og fíkniefna sé hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum. Þegar hann sé í neyslu fíkniefna aukist mikið önnur geðræn einkenni. Jafnframt komi fram hjá geðlækninum að þegar varnaraðili sé í neyslu vímuefna sé hann hættulegur öðru fólki og einungis sé tímaspursmál hvenær hann muni skaða einhvern alvarlega. Þá styðji undirritaður læknir eindregið sviptingu sjálfræðis varnaraðila til 12 mánaða. Nauðsynlegt sé að svipta hann sjálfræði til þess að hægt sé að vista hann í öryggisíbúð með starfsfólki til stuðnings allan sólarhringinn. Vægari úrræði eru að mati læknisins fullreynd.

Sóknaraðili telur ljóst að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs heilsubrests og vímuefnafíknar og að skilyrði a- og b-liða 4. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, séu uppfyllt í þessu máli. Sóknaraðili telji því að fallast beri á kröfu sína um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið í 12 mánuði, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga.

Við aðalmeðferð málsins gaf áðurnefndur geðlæknir, C, yfirlæknir á bráðageðdeild 32C, símaskýrslu. Hún staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Ítrekaði hún að hún teldi nauðsynlegt vegna margþætts vanda varnaraðila að hann yrði sviptur sjálfræði til tólf mánaða. Lítill árangur hefði náðst til þessa, m.a. hafi þau búsetuúrræði sem reynd hafi verið ekki dugað til. Væri ljóst að varnaraðili þyrfti gríðarmikið aðhald og eftirfylgni vegna alvarlegs fíkniefnavanda síns. Hann gerði sér grein fyrir því að hann ætti við fíkniefnavanda að stríða en hefði ekki innsæi í vanmátt sinn og því hafi tekist svo illa til sem raun ber vitni. Taldi læknirinn að batahorfur hans réðust einkum af því að gripið væri til viðeigandi úrræða sem fælu í sér mikið aðhald en grunnforsenda væri að hann léti alfarið af notkun vímuefna. Taldi hún tólf mánuði vera lágmarkstíma sviptingar sem til greina kæmi enda væri um langtímavinnu að ræða og væri forsenda að hann væri alveg laus við fíkniefni og örvandi efni. Væri nú stefnt að því að vista varnaraðila í öryggisíbúð þar sem hann fær virkt aðhald allan sólarhringinn.

Varnaraðili kom fyrir dóminn. Hann kvaðst mótmæla kröfu sóknaraðila og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Kvaðst hann gera sér grein fyrir því að hann þarfnaðist mikils aðhalds og væri sáttur við þau búsetuúrræði sem stefnt væri að. Hins vegar væru persónulegar aðstæður hans þannig að um mikið inngrip sé að ræða í líf hans þessa stundina.

II.

Með framangreindu vottorði geðlækna og vættis C, geðlæknis og yfirlæknis, fyrir dómi, en einnig með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins, þykir sýnt að varnaraðili glímir við margþættan vanda sem felst, eins og áður segir, í alvarlegum heilsubresti og gríðarmiklum fíknivanda. Þar sem ljóst er að varnaraðila skortir innsæi í þarfir sínar og er ófær um að setja sér mörk nema í mjög skamman tíma telur dómurinn brýna þörf á að hann verði tímabundið sviptur sjálfræði. Ljóst er að virkt og stöðugt aðhald er forsenda þess að árangur geti náðst við meðhöndlum varnaraðila og eru því ekki síst hans eigin hagsmunir hér hafðir í huga. Telur dómurinn því uppfyllt skilyrði  a- og b-liða 4. gr., sbr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, til að verða við kröfu sóknaraðila um tímabundna sjálfræðissviptingu varnaraðila. Ekki  þykja efni standa til þess að marka sviptingunni skemmri tími.

Dómurinn bendir á að samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/1997 getur varnaraðili, þegar liðnir eru sex mánuðir frá upphafi sviptingar, borið fram kröfu við héraðsdómara um að sjálfræðissvipting þessi verði felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti telji hann skilyrði hennar ekki lengur fyrir hendi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í tólf mánuði.

Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.