Hæstiréttur íslands
Mál nr. 713/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
|
|
Þriðjudaginn 11. desember 2012. |
|
Nr. 713/2012. |
Kaupþing hf. (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) gegn Handknattleikssambandi Íslands (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð.
HSÍ lýsti kröfu við slitameðferð K hf. sem slitastjórn félagsins samþykkti aðeins að hluta sem almenna kröfu. Deildu aðilar um það hvort stór hluti kröfu HSÍ, sem reist var á grundvelli samstarfssamnings aðila frá árinu 2008, væri styrkur sem félli undir hugtakið „gjöf“ samkvæmt 3. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og skyldi því flokkast sem eftirstæð en ekki almenn krafa. Í áðurgreindum samningi var ákvæði sem bar yfirskriftina „Styrkur bankans til HSÍ“ og var greiðslum samkvæmt því ákvæði skipt í tvennt. Var annars vegar um að ræða greiðslur vegna afmarkaðra verkefna sem fólu í sér margs konar skyldur HSÍ og hins vegar greiðslur sem ekkert sérstakt endurgjald kom fyrir. Laut krafa HSÍ í málinu að þeim greiðslum. Talið var að staðið hefði K hf. nær að færa sönnur fyrir ástæðum þess að samningurinn varð þess efnis, sem raun varð á, en það hafði K hf. ekki gert. Þá þótti ekki óvarlegt að ætla að samanlagt verðmæti skyldna HSÍ samkvæmt samningnum hefði verið meira fyrir K hf. en nam umsömdum greiðslum vegna þeirra. Þar sem K hf. hafði í engu upplýst hvert þetta verðmæti gæti hafa verið, varð að leggja til grundvallar að allar greiðslur samkvæmt samningnum hefðu í raun verið endurgjald fyrir þær skyldur sem samningurinn lagði HSÍ á herðar. Féll krafa HSÍ því ekki undir hugtakið gjöf í framangreindum skilningi og var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að flokka kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2012, þar sem viðurkennd var krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 12.000.000 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., svo og að varnaraðila væri heimilt að skuldajafna kröfu sinni við gagnkröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. áðurgreindra laga. Sóknaraðili krefst þess að af kröfu varnaraðila verði 2.000.000 krónur viðurkenndar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og honum heimilað að neyta skuldajafnaðar með þeim hluta hennar, en að öðru leyti verði henni veitt staða í réttindaröð eftir 114. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því krafa hans um málskostnað í héraði ekki frekar til álita.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerði sóknaraðili, sem þá hét Kaupþing banki hf., svonefndan samstarfssamning við varnaraðila og var hann dagsettur 15. janúar 2006. Við 3. grein samningsins, sem var ritaður á bréfsefni sóknaraðila, var fyrirsögnin: „Styrkur bankans til HSÍ“ og skiptist fyrsti hluti greinarinnar í tvo stafliði. Í a. lið hennar kom fram að sóknaraðili skyldi greiða varnaraðila 24.000.000 krónur í tólf jöfnum áföngum á þriggja mánaða fresti frá 1. janúar 2007 til 1. október 2009, en ekki var greint nánar frá því í hvaða skyni greitt yrði. Í b. lið sömu greinar sagði á hinn bóginn að sóknaraðila bæri að greiða varnaraðila 4.800.000 krónur „fyrir að vinna verk skv. 4. gr. samningsins“, en þá fjárhæð átti sóknaraðili að inna af hendi með tólf jöfnum greiðslum á sömu dögum og tilgreindir voru í a. lið 3. greinar. Í 4. grein samningsins voru í 15 stafliðum taldar upp „skyldur HSÍ“, svo sem sagði í fyrirsögn hennar. Í fjórum fyrstu liðunum var kveðið á um að merki sóknaraðila yrði á keppnisbúningum karlalandsliðsins í handknattleik, framanvert á treyju og „áberandi stærst þeirra auglýsinga“ sem þar yrðu, svo og á æfingagöllum, leikmannapeysum og úlpum. Í fimmta liðnum var mælt fyrir um að merki sóknaraðila yrði sett á áberandi stað á heimasíðu varnaraðila og tenging höfð þaðan til heimasíðu sóknaraðila. Í þeim sjötta var kveðið á um svonefndar gólfmerkingar og „rúllu-skilti“ sóknaraðila á öllum heimaleikjum karlalandsliðsins. Með sjöunda liðnum skuldbatt varnaraðili sig til þess hvorki að auglýsa né taka þátt í kynningu annarra fjármálafyrirtækja. Í áttunda og níunda liðnum var kveðið á um skyldu varnaraðila til að láta sóknaraðila í té 40 boðsmiða á alla landsleiki í handknattleik hér á landi og veita að auki viðskiptavinum sóknaraðila 20% afslátt af aðgöngumiðum á „völdum heimaleikjum“ karlalandsliðsins. Samkvæmt tíunda liðnum bar varnaraðila að gefa ungum viðskiptavinum sóknaraðila kost á því tvívegis á ári að hitta karlalandsliðið, fylgjast með æfingum þess og fá eiginhandaráritanir, en í þeim ellefta var mælt fyrir um að leikmenn og þjálfarar sama landsliðs myndu taka þátt í „kynningarstarfi bankans í sjónvarpi og blöðum“, þar á meðal í auglýsingum, sem sóknaraðila væri frjálst að nota án sérstakra greiðslna. Í tólfta og þrettánda liðnum kom fram að varnaraðili myndi hafa merki sóknaraðila á bréfsefni sínu og tæki einnig að sér að koma á framfæri kynningarefni þess síðarnefnda í tengslum við landsleiki. Í þeim fjórtánda sagði að kynna ætti sóknaraðila á kostnað hans „sem einn af aðalstyrktaraðilum“ varnaraðila í auglýsingum við sjónvarpsútsendingar landsleikja. Loks var í síðasta liðnum kveðið á um að varnaraðili héldi árlega svonefndan handboltaskóla fyrir unga leikmenn, sem yrði kenndur við báða aðilana sameiginlega, en þar fengju starfsmenn sóknaraðila tækifæri til að kynna starfsemi sína fyrir þátttakendum. Þá er þess að geta að í 8. gr. samningsins sagði eftirfarandi: „Skattalegar afleiðingar, sem þessi samningur leiðir til fyrir annan samningsaðila, skulu ekki hafa áhrif á hinn aðila samningsins.“
Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var staðhæft að sóknaraðili hafi samið framangreindan samning, svo og að sá háttur að skipta „þóknunum“ til sín í tvennt, annars vegar í styrk og hins vegar „auglýsingar“ eins og gert hafi verið með 3. og 4. grein hans, hafi verið „til aðgreiningar í bókhaldi“ sóknaraðila og hafi það ekki verið „sérstaklega rætt“ við varnaraðila, enda hafi þetta einu mátt gilda fyrir hann. Þessu til stuðnings lagði varnaraðili fram í héraði yfirlýsingu frá fyrrum markaðsstjóra sóknaraðila, sem var þó ekki staðfest fyrir dómi. Sóknaraðili hefur andmælt þessum staðhæfingum, en tekið um leið fram að varnaraðili hafi á engu stigi gert athugasemdir „við uppsetningu samningsins hvað varðar skiptingu á greiðslum í styrk annars vegar og auglýsingagreiðslur hins vegar“, svo sem komist var að orði í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi.
Í samræmi við ákvæði í 3. grein samningsins mun varnaraðili hafa sent sóknaraðila reikninga og greiðsluseðla vegna þeirra greiðslna, sem þar var kveðið á um, og virðist sem reikningarnir og seðlarnir hafi hverju sinni verið tveir, annars vegar vegna fjárhæðar, sem mælt var fyrir um í a. lið greinarinnar, og hins vegar í b. lið hennar. Í dæmaskyni hafa verið lögð fram í málinu gögn vegna greiðslna, sem voru á gjalddaga 1. júlí 2008, en samkvæmt reikningi fyrir greiðslu eftir b. lið 3. greinar samningsins var fjárhæð hennar 321.285 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, 78.715 krónum, eða alls 400.000 krónur. Reikningur fyrir greiðslu eftir a. lið sömu greinar, að fjárhæð 2.000.000 krónur, var á hinn bóginn án virðisaukaskatts.
Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Samkvæmt gögnum málsins er óumdeilt að sóknaraðili hafi á því stigi verið búinn að inna af hendi greiðslur til varnaraðila samkvæmt 3. grein samnings þeirra til og með gjalddaga 1. júlí 2008, en eftir það hafi frekari greiðslur ekki farið fram. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var sóknaraðila skipuð slitastjórn 22. apríl 2009, en í framhaldi af áðurnefndum aðgerðum Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var tilteknum eignum og skuldbindingum sóknaraðila ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. og liggur fyrir að upp frá því hafi sóknaraðili ekki haft á hendi almenna starfsemi sem fjármálafyrirtæki.
Varnaraðili lýsti 26. ágúst 2009 kröfu við slit sóknaraðila um fimm síðustu greiðslurnar samkvæmt samningi þeirra, sem voru á gjalddaga á tímabilinu frá 1. október 2008 til sama dags á árinu 2009, samtals að fjárhæð 12.000.000 krónur. Kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og jafnframt krafist „skuldajafnaðar á móti yfirdráttarheimild á reikningi“ varnaraðila, sem ekki var tilgreindur frekar. Ágreiningur reis um viðurkenningu kröfunnar, en að endingu tók sóknaraðili þá afstöðu að hann væri samþykkur því að 2.000.000 krónur af henni yrðu viðurkenndar á þann hátt, sem varnaraðili krafðist. Sóknaraðili lýsti sig jafnframt samþykkan því að afgangur kröfunnar, 10.000.000 krónur, yrði viðurkenndur við slitin, en með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991. Við þetta síðastnefnda felldi varnaraðili sig ekki og er það ágreiningsefni aðilanna til úrlausnar í málinu.
II
Svo sem nánar er lýst í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili málatilbúnað sinn á því að gera verði greinarmun á þeim greiðslum, sem honum bar að inna af hendi annars vegar samkvæmt a. lið 3. greinar samnings síns við varnaraðila og hins vegar eftir b. lið sömu greinar. Greiðslur eftir a. lið hafi verið styrkur, eins og beinlínis sagði í fyrirsögn greinarinnar, og verði að líta svo á að sóknaraðili hafi með þessu gefið fyrirheit um gjöf, sem standi í réttindaröð við slit hans eftir áðurnefndum 3. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991. Á hinn bóginn hafi verið tekið fram í b. lið 3. greinar að greiðslurnar, sem þar voru tilgreindar, kæmu „fyrir að vinna verk skv. 4. gr. samningsins“, en á þeim grunni telji sóknaraðili kröfu um þær njóta rétthæðar eftir 113. gr. sömu laga. Í málinu hefur sóknaraðili ekki borið fyrir sig að gagnkvæmar skyldur aðilanna hafi fallið niður við það að hann hafi látið af almennri starfsemi sem fjármálafyrirtæki í október 2008 og ekki þarfnast upp frá því auglýsinga eða annars þess, sem um ræddi í 4. grein samnings þeirra.
Varnaraðili hefur staðhæft eins og áður segir að sú aðgreining á greiðslum, sem fram kom í a. og b. lið 3. grein samningsins, hafi verið gerð að tilhlutan sóknaraðila og vegna þarfa hans án þess að um þetta hafi verið rætt milli þeirra. Þessari staðhæfingu, sem fær stuðning í framlagðri yfirlýsingu fyrrum starfsmanns sóknaraðila, hefur verið mótmælt, en þó með þeim hætti að sóknaraðili hefur sem fyrr greinir vísað jafnframt til þess að varnaraðili hafi aldrei hreyft athugasemdum vegna þessa efnis samningsins. Þótt varnaraðili hafi bersýnilega haft hag af því að 5/6 hlutar af heildargreiðslum frá sóknaraðila teldust í orði kveðnu styrkur, sem hann greiddi ekki virðisaukaskatt af, verður að líta til þess að samningurinn var ritaður á bréfsefni sóknaraðila og verður því að ætla að hann hafi fært texta samningsins í letur. Sóknaraðila hefði af þessum sökum staðið nær að færa sönnur fyrir ástæðum þess að samningurinn hafi að þessu leyti orðið þess efnis, sem raun varð á. Það hefur hann ekki gert.
Meðal þess, sem sóknaraðili átti að njóta eftir áðurnefndum ákvæðum 4. greinar samningsins, voru heimildir til að hafa auglýsingar á og við keppnisvelli, þar sem kappleikir karlalandsliðsins í handknattleik færu fram hér á landi, en alkunna er að slíkir leikir hafi iðulega verið sýndir í heild eða að hluta í sjónvarpi. Í sömu grein var einnig gert ráð fyrir annars konar auglýsingum, bæði óbeinum og beinum, en í gögnum málsins eru meðal annars fréttagreinar úr dagblöðum um kappleiki karlalandsliðsins ásamt ljósmyndum af leikmönnum í búningum með áberandi merki sóknaraðila, svo og auglýsingar frá honum um hamingjuóskir til liðsins vegna afreka á alþjóðlegum mótum með ljósmyndum af einstökum leikmönnum. Auk þessa skuldbatt varnaraðili sig til að láta sóknaraðila í té án frekara endurgjalds tiltekinn fjölda aðgöngumiða að landsleikjum í handknattleik, svo og til að veita viðskiptavinum þess síðarnefnda fimmtungs afslátt af miðaverði á völdum leikjum karlalandsliðsins, svo sem komist var að orði í samningnum. Ekki er óvarlegt að ætla að samanlagt verðmæti þessa hafi verið meira fyrir sóknaraðila en sem nam þeim 1.600.000 krónum, sem honum bar árlega að greiða varnaraðila samkvæmt b. lið 3. greinar samningsins. Með því að sóknaraðili hefur í engu upplýst hvert þetta verðmæti gæti nánar hafa verið verður að þessu virtu að leggja til grundvallar að allar greiðslur samkvæmt báðum stafliðum 3. greinar samningsins hafi í raun verið endurgjald fyrir skyldur varnaraðila eftir 4. grein hans.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað. Með vísan til röksemda, sem þar voru færðar fyrir því ákvæði, eru ekki efni til annars en að kærumálskostnaður falli einnig niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2012.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila, Kaupþings hf., Borgartúni 26, Reykjavík, til dómsins 6. október 2011 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Sóknaraðili er Handknattleikssamband Íslands, Engjavegi 6, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. október 2012.
Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði krafa hans skv. kröfulýsingu 26. ágúst 2009, að fjárhæð 12.000.000 kr., að fullu viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess einnig að viðurkennd sé heimild hans til að skuldajafna kröfunni við „kröfu um yfirdráttarskuld“ hjá varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila á þá leið að 2.000.000 kr. af lýstri kröfu sóknaraðila séu viðurkenndar sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, en að öðru leyti teljist krafan eftirstæð krafa skv. 114. gr. laganna. Þá krefst hann þess að heimild sóknaraðila til skuldajafnaðar verði viðurkennd einungis að því marki sem krafan nýtur stöðu almennrar kröfu. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Málsatvik
Atvik málsins eru ágreiningslaus.
Hinn 9. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnarinnar. Með úrskurði héraðsdóms 22. apríl 2009, sem er upphafsdagur slitameðferðar varnaraðila, var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til lánardrottna félagsins. Lauk kröfulýsingarfresti þann 30. desember 2009.
Með kröfulýsingu, móttekinni 2. september 2009, lýsti sóknaraðili heildarkröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð 12.000.000 kr. auk dráttarvaxta, en einnig var krafist skuldajafnaðar vegna yfirdráttar sóknaraðila á bankareikningi. Krafan var sögð grundvölluð á samstarfssamningi aðila 15. janúar 2008. Kom fram að skv. samningnum hafi varnaraðila borið að greiða sóknaraðila 2.400.000 kr. á fimm tilteknum gjalddögum á árunum 2008 og 2009 eða alls 12.000.000 kr., en sóknaraðili hefði staðið við sinn hluta samningsins.
Með bréfi slitastjórnar varnaraðila 19. júlí 2010 var 10.000.000 kr. af kröfu sóknaraðila hafnað þar sem um væri að ræða styrk sem félli undir 3. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991. Kröfunni var jafnframt hafnað að öðru leyti með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að samningur sá er krafan byggðist á hefði verið efndur af hálfu sóknaraðila.
Ágreiningur aðila var tekin fyrir á fundum 25. febrúar 2011 og 6. júní sama árs. Á síðarnefnda fundinum samþykkti varnaraðili kröfu sóknaraðila vegna auglýsinga að fjárhæð 2.000.000 kr. sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Með rafpósti varnaraðila 14. júní sama árs var sóknaraðila tilkynnt um að samþykkt krafa hans teldist tæk til skuldajafnaðar. Þriðji og síðasti ágreiningsfundur aðila var haldinn 17. ágúst sama árs. Var á þeim fundi ákveðið að vísa ágreiningi aðila til héraðsdóms svo sem áður greinir.
Sá samningur sem sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á ber heitið „Samstarfssamningur“, sbr. einnig 1. gr. hans, og er undirritaður 15. janúar 2006. Samningurinn er í átta greinum. Í 2. gr. kemur fram að samningurinn fjalli um samstarf aðila, eins og nánar sé lýst í 3. og 4. gr. hans. Þriðja grein samningsins ber heitið „Styrkur bankans til HSÍ“. Í a-lið greinarinnar segir að varnaraðili skuli greiða sóknaraðila alls 24.000.000 kr. á tólf nánar tilgreindum gjalddögum á tímabilinu 1. janúar 2007 til 1. október 2009. Í b-lið greinarinnar segir að fyrir að vinna verk skv. 4. gr. samningsins skuli varnaraðili greiða sóknaraðila 4.800.000 kr. á tólf nánar tilgreindum gjalddögum á tímabilinu 1. janúar 2007 til 1. október 2009. Í greininni er mælt fyrir um að heildargreiðslur skv. þessu nemi 28.800.000 kr. Þá segir að virðisaukaskattur sem sóknaraðila verði gert að greiða sé innifalinn í þessum greiðslum. Að lokum kemur fram að varnaraðili skuli greiða sóknaraðila á gjalddögum, en þó aldrei fyrr en að fengnum reikningi í samræmi við bókhaldslög og reglur.
Í 4. gr. samningsins er kveðið á um skyldur sóknaraðila í 15 liðum, svo sem þá að setja merki varnaraðila af ákveðinni stærð á leikbúninga íslenska landsliðsins í handbolta og æfingagalla, koma fyrir gólfmerkingum á landsleikjum, leggja varnaraðila til ákveðinn fjölda boðsmiða, láta nafn og merki varnaraðila koma fram á öllu bréfsefni sóknaraðila og kynna hann sem aðalstyrktaraðila í útsendinum í sjónvarpi. Skv. 7. gr. samningsins var varnaraðila heimilt að kynna samstarf aðila með þeim hætti sem hann kaus, svo sem í kynningarefni sínu eða á heimasíðu sinni. Í 8. gr. samningsins sagði m.a. að skattalegar afleiðingar, sem samningurinn leiddi til fyrir annan samningsaðila, skyldu ekki hafa áhrif á hinn aðila samningsins.
Í málinu liggja fyrir afrit nokkurra reikninga sem sóknaraðili gerði varnaraðila á grundvelli samningsins. Verður ráðið af reikningunum að virðisaukaskattur hefur einungis verið reiknaður af greiðslum skv. 4. gr. samningsins. Er þetta einnig í samræmi við yfirlýsingar lögmanna við munnlegan flutning málsins. Meðal gagna málsins er fyrri samstarfssamningur aðila fyrir árin 2004-2007. Ekki er ástæða til að rekja efni þess samnings.
Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóminn sem vitni Hafliði Kristjánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs varnaraðila. Ekki er ástæða til að rekja skýrslu hans sérstaklega.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili mótmælir því að ákvæði 3. gr. framangreinds samnings hafi falið í sér gjöf af hálfu varnaraðila. Sú aðgreining sem fram komi á framlagi varnaraðila skv. samningi aðila í styrki annars vegar og auglýsingar hins vegar hafi ekki verið í þágu sóknaraðila, hvorki er varði skattalega meðferð né á annan hátt. Greiðslum hafi einnig verið skipt upp í bókhaldi varnaraðila án samráðs við sóknaraðila. Báðum aðilum hafi hins vegar verið ljóst að sóknaraðili innti af hendi greiðslu sem fól í sér heimild til að nota þekkt andlit landsliðsmanna og sjónvarpsefni í því skyni að skapa jákvæða ímynd um vörumerki sitt. Varnaraðili hafi jafnframt látið gera auglýsingar og fleira efni í því skyni að koma því á framfæri að hann væri bakhjarl sóknaraðila og þátttakandi í velgengni landsliðsins. Þetta hafi tekist og hafi kannanir leitt í ljós að varnaraðili hafi fengið framlag sitt ríkulega ávaxtað. Sóknaraðili hafi þannig látið af hendi endurgjald og því ekki verið um gjöf að ræða. Sóknaraðili vísar til þess að orðið „gjöf“ komi hvergi fyrir í samningi aðila. Hvergi komi fram að styrkur falli undir hugtakið gjöf skv. 114. gr. laga nr. 21/1991 og skýring á þá leið fái ekki stoð í forsögu ákvæðisins. Því er mótmælt að styrkur í samstarfi, svo sem því sem um ræði í málinu, teljist gjöf. Orðalag samningsins hafi verið tæknilegt og snúið að bókhaldi varnaraðila en í raun ekkert haft með efni samningsins að gera. Líta beri á samninginn og það endurgjald sem um var að ræða.
Í greinargerð sinni skoraði sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram gögn um þýðingu samningsins fyrir varnaraðila, svo og áhrif sambærilegra samninga. Einnig skoraði sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram gögn um kostnað við gerð markaðsefnis síns sem tengist samningnum. Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir að þessum áskorunum hefði ekki verið mætt. Hélt lögmaðurinn því fram að kostnaður varnaraðila við auglýsingar og kynningarefni tengt samningnum hefði líklega numið margföldum þeim fjárhæðum sem renna áttu til sóknaraðila. Ætti varnaraðili að bera hallann af skorti af upplýsingum um þetta atriði málsins.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að krafa sóknaraðila skv. a-lið 3. gr. samningsins byggist á gjöf í skilningi 3. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili vísar í þessu sambandi til orðalags samningsins og uppsetningar. Þannig mæli samningurinn fyrir um endurgjald sóknaraðila skv. 4. gr. að því er varði þær greiðslur sem fram komi í b-lið. 3. gr. samningsins. Samningurinn geri hins vegar ekki ráð fyrir neinu slíku endurgjaldi að því varði a-lið 3. gr. samningsins og sé því þar um að ræða hreinan styrk varnaraðila til sóknaraðila. Ef ekki hefði verið um styrk að ræða hefði umrædd aðgreining verið tilgangslaus.
Varnaraðili mótmælir því að umrædd aðgreining í samningnum hafi verið án samráðs við sóknaraðila og átt að þjóna hagsmunum varnaraðila. Ekkert annað sé komið fram í málinu en að aðilar hafi verið sammála um umrædda framsetningu samningins. Varnaraðili vekur í þessu sambandi athygli á reikningum sóknaraðila og því að hann virðist ekki hafa staðið skil á virðisaukaskatti vegna þeirra greiðslna sem flokkaðar voru sem styrkur.
Varnaraðili mótmælir sem rangri yfirlýsingu tiltekins manns, sem sóknaraðili hefur lagt fram, þar sem fram kemur að notkun vörumerkis varnaraðila á búningum og á landsleikjum hafi verið hugsað sem endurgjald vegna „styrks“ skv. a-lið 3. gr. samningsins. Varnaraðili bendir einnig á í þessu sambandi að samningar séu grundvöllur alls viðskiptalífs og þá verði að túlka skv. orðanna hljóðan. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að efni samningsins sé annað en fram komi í beinum ákvæðum hans, en skv. þeim hafi ekki verið um að ræða endurgjald fyrir þær greiðslur sem skilgreindar séu sem styrkur. Ekki sé unnt að breyta efni samningsins að þessu leyti mörgum árum eftir gildistöku hans á grundvelli einhliða yfirlýsinga, enda væri með slíkri niðurstöðu vegið að öryggi og trausti í viðskiptum.
Varnaraðili telur að hugtakið „gjöf“ skv. framangreindu lagaákvæði verði ekki skýrt svo þröngt að það nái ekki yfir styrki. Þvert á móti beri að líta til tilgangs löggernings, þ.e. hvort vilji loforðsgjafa hafi staðið til þess að afhenda loforðsmóttakanda verðmæti án endurgjalds. Þegar litið sé á þetta sé ljóst að um gjöf hafi verið að ræða. Varnaraðili bendir einnig á að virðisaukaskattsskil sóknaraðila bendi til þess að hann hafi ekki talið sig veita neins konar þjónustu gegn þeim greiðslum sem hann þáði sem styrk, enda sé slík þjónusta virðisaukaskattskyld skv. 1. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Í máli þessu er ekki deilt um gildi samnings aðila 15. janúar 2006 eða efndir sóknaraðila á skyldum hans skv. þeim samningi. Í samræmi við þetta hefur varnaraðili viðurkennt 2.000.000 kr. af heildarkröfu sóknaraðila sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Svo sem áður greinir er þar um að ræða greiðslur fyrir auglýsingar o.fl. skv. b-lið 3. gr. samningsins sem sóknaraðili stóð skil á skv. því sem nánar var mælt fyrir um í 4. gr. samnings aðila. Ekki er deilt um heimild sóknaraðila til skuldajöfnunar vegna þessarar fjárhæðar eða að því marki sem krafa hans verður að öðru leyti viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Lýtur ágreiningur aðila þannig eingöngu að því hvort 10.000.000 kr. af áðurlýstri heildarkröfu sóknaraðila teljist gjöf í skilningi 3. töluliðar 114. gr. laganna þannig að um sé að ræða eftirstæða kröfu við slit varnaraðila, en umrætt ákvæði á við um slit varnaraðila skv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og greininni var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009.
A
Samkvæmt 3. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991 standa kröfur um gjafir að baki kröfum skv. 109.-113. gr. laganna, svo og kröfum skv. 1.-3. tl. greinarinnar, í skuldaröð við gjaldþrotaskipti. Við skýringu á hugtakinu „gjöf“ verður að leggja til grundvallar þá almennu skilgreiningu fjármunaréttar að um sé að ræða einhliða örlætisgerning gefanda. Jafnframt ber að hafa í huga meginreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við skipti þrotabús og að krafa sé ekki flokkuð sem eftirstæð krafa nema skv. skýrri heimild í lögum, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. ágúst 2010 í máli nr. 416/2010. Samkvæmt þessu getur ekki verið um að ræða gjöf í skilningi ákvæðsins nema ótvírætt liggi fyrir að um sé að ræða einhliða greiðslu þrotamanns án fjárhagslegs endurgjalds viðtakanda. Hins vegar ræður það ekki úrslitum þótt samningur sé að forminu til tvíhliða samningur. Er þá bæði litið til þess að samningur getur að þessu leyti verið til málamynda eða verið örlætisgerningur að hluta.
B
Eins og áður er lýst fjallaði samningur aðila 15. janúar 2006 um samstarf aðila, eins og það var nefnt í samningnum. Meginefni samningsins var samkomulag aðila um að varnaraðili kæmi með ýmsum hætti opinberlega fram sem styrktaraðili eða bakhjarl sóknaraðila, sem og íslenska landsliðsins í handknattleik, gegn því að varnaraðili innti af hendi þær fjárhæðir sem áður greinir. Í 3. gr. samningsins, sem bar yfirskriftina „Styrkur bankans til HSÍ“, var þessum greiðslum varnaraðila skipt í tvennt. Var annars vegar um að ræða greiðslur vegna þeirra afmörkuðu verkefna sem tilgreind voru í 4. gr. samningsins, sbr. b-lið greinarinnar. Hins vegar var um að ræða þær greiðslur skv. a-lið greinarinnar sem um er deilt í málinu.
Þótt ekkert sérstakt endurgjald sóknaraðila hafi verið tilgreint vegna greiðslna skv. a-lið 3. gr. samningsins, getur ekki farið á milli mála að fjárhagslegir hagsmunir varnaraðila af samningnum takmörkuðust ekki við þau afmörkuðu verkefni sóknaraðila sem skilgreind voru í 4. gr. hans. Af samningnum í heild og markmiðum hans verður ráðið að verðmæti hans fyrir varnaraðila hafi ekki síður falist í því að gera varnaraðila kleift að tengja sig og starfsemi sína við nafn sóknaraðila, svo og íslenska landsliðsins í handknattleik, með almennum hætti, sem og öðrum þeim aðferðum sem hann kysi, t.d. í kynningarefni sínu eða á heimasíðu. Fólst þannig í þessu samstarfi fjármálafyrirtækisins við íþróttahreyfingu hlutdeild í viðskiptavild þess síðarnefnda sem var til þess fallin að vera andlag gagnkvæmnra viðskipta. Samkvæmt þessu verður því ekki litið á loforð varnaraðila um styrk til handa sóknaraðila skv. 4. gr. samningsins sem einhliða örlætisgerning heldur lið í gagnkvæmu samningssambandi.
Samkvæmt gögnum málsins var í reikningum sóknaraðila, sem gerðir voru á grundvelli samningsins, aðeins tekið tillit til virðisaukaskatts vegna greiðslna skv. b-lið 3. gr. samningsins. Við greiðslur skv. a-lið var hins vegar ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Af ákvæðum samnings aðila, þar sem vikið er að skattalegri meðferð samningsins, er ljóst að þessi háttur á skilum virðisaukaskatts af hinum samningsbundnu greiðslum var alfarið á ábyrgð sóknaraðila. Er þannig ekkert komið fram sem styður fullyrðingar sóknaraðila á þá leið að umrædd skipting greiðslna hafi verið gerð að frumkvæði varnaraðila eða henni ætlað að gegna hlutverki í reikningsskilum hans. Tilhögun sóknaraðila á virðisaukaskattsskilum sínum getur hins vegar ekki ráðið úrslitum um hvort sá samningur sem hér um ræðir teljist örlætisgerningur eða samningur um gagnkvæmt endurgjald. Getur þetta atriði því ekki haggað framangreindri niðurstöðu um eðli samningssambands aðila.
Í málinu er ekki deilt um heimild sóknaraðila til að skuldajafna kröfu sinni að því marki sem hún er viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafa, af hálfu varnaraðila, ekki verið gerðar athugasemdir við tilgreiningu sóknaraðila á þeirri yfirdráttarskuld sem hann hyggst skuldajafna kröfu sinni við. Verður því að fullu fallist á kröfur sóknaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en kröfum varnaraðila hafnað.
Við ákvörðun málskostnaðar verður ekki fram hjá því litið að reikningsgerð sóknaraðila og skil hans á virðisaukaskatti skv. þeim voru til þess fallin að skapa vafa hvort samningur aðila 15. janúar 2006 væri að öllu leyti viðskiptalegs eðlis eða að hluta til örlætisgerningur, líkt og varnaraðili hefur haldið fram. Að þessu virtu og með vísan til grunnraka 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur B. Ólafsson hrl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Ragna Björk Ragnarsdóttir hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Krafa sóknaraðila, Handknattleikssambands Íslands, skv. kröfulýsingu 26. ágúst 2009, að fjárhæð 12.000.000 kr., er viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, Kaupþings hf. Jafnframt er viðurkennd heimild sóknaraðila til að skuldajafna kröfu sinni við kröfu varnaraðila vegna yfirdráttar á bankareikningum sóknaraðila hjá varnaraðila.
Kröfum varnaraðila er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.