Hæstiréttur íslands

Mál nr. 803/2017

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Agnes Björk Blöndal fulltrúi)
gegn
X (Þorgils Þorgilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. desember 2017 klukkan 14 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur                             

                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 18. desember 2017

Mál þetta barst dómnum í dag.

Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra krefst þess að varnaraðili, X, kt. [...], [...], 603 Akureyri, sæti gæslu­varðhaldi til föstudagsins 22. desember 2017 klukkan 16. Þá er þess krafist með vísan til b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, að varnar­aðila verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að gæslu­varð­haldi verði markaður skemmri tími en krafist er.

Sóknaraðili kveðst, ásamt lögreglunni á Vesturlandi og lögreglunni á höfuð­borgarsvæðinu, rannsaka innbrot og þjófnað í atvinnuhúsnæði að [...], Borgar­byggð, aðfaranótt hins 15. desember 2017, þar sem stolið hafi verið tölvum og tölvu­búnaði að verðmæti allt að 6.000.000 kr. Segir sóknaraðili að upplýsingar styðji grunsemdir um að varnaraðili hafi átt aðild að þessu innbroti. Fyrir liggi að hann hafi tekið á leigu bifreiðina [...] hjá bílaleigunni [...] og ekið henni í Borgarnes nóttina sem brotið hafi verið framið. Talið sé augljóst að bifreiðinni [...] hafi verið ekið í samfloti við sendibifreiðina [...], sem rökstuddur grunur liggi fyrir um að hafi verið notuð í tengslum við brotið. Á upptökum úr öryggismyndavélakerfum í Hvalfjarðargöngum sjáist að bifreiðunum tveimur hafi verið ekið með mjög skömmu millibili fram hjá gjaldskýli við göngin. Á upptökum úr öryggismyndavélakerfum við söluskála [...] í Borgarnesi sjáist ökumenn þessara tveggja bifreiða tala saman skömmu áður en innbrotið hafi verið framið. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi rafstraumur verið verið rofinn til tölvubúnaðar sem stolið hafi verið, milli kl. 2 og 2:30 aðfaranótt 15. desember s.l. sem sé skömmu eftir að varnaraðili sjáist ræða við ökumann bifreiðarinnar [...]. Sams konar bifreið hafi síðan verið ekið inn á [...] þessa sömu nótt.

Fallist verður á það með sóknaraðila með vísan til lýsingar hans á málavöxtum, sem studd er rannsóknargögnum, að rökstuddur grunur beinist að varnaraðila um verknað sem varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga og fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. málslið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður einnig að fallast á það með sóknaraðila að ætla megi að varnaraðili muni torvelda rannsókn, svo sem með því að hafa áhrif á samseka eða vitni, sbr. a. lið sömu málsgreinar sömu greinar. Ekki þykir sýnt að brot sem hann er grunaður um myndi aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Að þessu gættu verður fallist á kröfu sóknaraðila um gæslu­varðhald eins og greinir í úrskurðarorði. Þá verður fallist á kröfu um einangrun.

Erlingur Sigtryggsson kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. desember nk. klukkan 14 og einangrun í varðhaldinu.