Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2017

Byko ehf. og Norvik hf. (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)
gegn
Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu (Gizur Bergsteinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

B ehf. og N hf. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu þeirra um dómkvaðningu matsmanns var hafnað. Var krafan sett fram undir rekstri máls S gegn B ehf. og N hf., þar sem þess var krafist að N hf. yrði gert að greiða 650.000.000 krónur í stjórnvaldssekt vegna brota gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og var matsgerðinni meðal annars ætlað að leiða í ljós að háttsemi B ehf. hefði ekki verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ágreiningur aðila lyti öðrum þræði að því hvort B ehf. hefði brotið gegn fyrrgreindu ákvæði. Fyrir lægi dómur Hæstaréttar þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að háttsemi B ehf. hefði á ákveðnu tímabili brotið gegn fyrrgreindu ákvæði og hefði sá dómur fullt sönnunargildi um það atriði þar til hið gagnstæða væri sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem kveðið væri á um það í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 að dómari legði sjálfur mat á atriði sem krefðust lagaþekkingar, og ekki yrði séð að annarrar sérþekkingar væri þörf til að leysa úr fyrirliggjandi ágreiningsatriðum, væri matsgerðin tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. fyrrgreindra laga. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Í máli því, sem rekið er fyrir héraðsdómi milli málsaðila, greinir þá á um hvort samskipti sóknaraðilans Byko ehf. við Húsasmiðjuna hf. og fleiri fyrirtæki, sem fjallað var um í ákvörðun varnaraðilans Samkeppniseftirlitsins 15. maí 2015 og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september sama ár,  hafi falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu í áðurgreindri ákvörðun sinni að Byko ehf. hefði með háttsemi sinni brotið gegn þeirri lagagrein og gerði móðurfélagi þess, sóknaraðilanum Norvik hf., að greiða 650.000.000 krónur í sekt vegna brotsins. Áfrýjunarnefndin staðfesti þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að um brot hefði verið að ræða, en lækkaði sektina í 65.000.000 krónur og gerði báðum sóknaraðilum að greiða hana. Er ágreiningur milli málsaðila um hvort sú háttsemi Byko ehf., sem hér um ræðir, hafi varðað sekt og þá hve há sektin skuli vera.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir fyrrgreindri matsbeiðni sóknaraðila. Í beiðninni er tekið fram að með henni „hyggjast matsbeiðendur leiða í ljós að sú framkvæmd sem viðhöfð var við verðkannanir Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. hafi ekki verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði, umfram þær leiðir sem viðskiptavinum stóðu til boða. Þá hyggjast matsbeiðendur sanna að hún hafi ekki gert það í raun. Loks hyggjast matsbeiðendur sanna að verðmyndun á markaðnum sýni að samkeppni hafi ríkt milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. á því tímabili sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins ... tók til.“ Taka þær spurningar, sem hinum dómkvadda matsmanni er ætlað að svara, mið af þessu þríþætta markmiði beiðninnar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði voru átta starfsmenn sóknaraðilans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. sakfelldir fyrir brot gegn 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. 10. gr. laganna, með dómi Hæstaréttar 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015. Í dóminum er því meðal annars slegið föstu að samskiptin milli fyrirtækjanna tveggja, sem fjallað var um í áðurgreindum úrlausnum samkeppnisyfirvalda, hafi á ákveðnu tímabili falið í sér samstilltar aðgerðir sem hafi haft það að markmiði að raska samkeppni milli þeirra og því brotið gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga.

II

Í einkamáli lýtur sönnun einkum að því að leiða í ljós hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Ef dómari telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar getur hann meinað aðila um sönnunarfærslu samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laganna. Í IX. kafla sömu laga er fjallað um matsgerðir. Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Ef ekki verður farið svo að kveður dómari eftir 1. mgr. 61. gr. einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með mati.

Aðili að einkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á. Það er því hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema formskilyrði síðari málsliðar 1. mgr. 61. gr. séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðnin lúti einvörðungu að atriðum, sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 61. gr. Í síðastnefnda tilvikinu yrði matsgerð ávallt tilgangslaus til sönnunar í skilningi 3. mgr. 46. gr.

Eins og áður greinir lýtur ágreiningur aðila í máli því, sem þeir reka sín á milli, öðrum þræði að því hvort háttsemi sóknaraðilans Byko ehf., sem fjallað var um í áðurgreindum úrlausnum samkeppnisyfirvalda, hafi falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga. Eðli máls samkvæmt á úrlausn þess ágreinings undir dómstóla og hefur Hæstiréttur sem fyrr segir komist að þeirri niðurstöðu í sakamáli að háttsemin hafi á ákveðnu tímabili falið í sér slíkt brot. Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefur sá dómur fullt sönnunargildi um það atriði þar til hið gagnstæða er sannað. Í samræmi við fyrri málslið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 er með matsbeiðni sóknaraðila farið fram á að maður með annars konar sérþekkingu en þá, sem dómari býr yfir, veiti svör við þessu og öðrum áþekkum álitaefnum án þess að það sé rökstutt frekar. Sökum þess að kveðið er á um það í 2. mgr. 60. gr. þeirra að dómari leggi sjálfur mat á atriði, sem krefjast lagaþekkingar, og ekki verður séð að annarrar sérþekkingar sé þörf til að leysa úr þeim  ágreiningsatriðum aðila, sem hér um ræðir, yrði hin umbeðna matsgerð tilgangslaus til sönnunar samkvæmt framansögðu. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laganna verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Byko ehf. og Norvik hf., greiði í sameiningu Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu hvoru fyrir sig 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2017.

I.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 16. febrúar 2017 að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnendur eru Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið en stefndu eru Byko ehf. og Norvik hf. Þetta mál var upphaflega höfðað af Samkeppniseftirlitinu gegn stefndu, en í þinghaldi 22. september 2016 var málið nr. E-683/2016, Byko ehf. og Norvik hf. gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu, sameinað þessu máli.

Stefnandi Samkeppniseftirlitið krefst þess að stefnda Norvik hf. verði gert að greiða 650 milljóna króna sekt, er renni í ríkissjóð, og að ógilt verði ákvæði í úrskurði áfrýjunar­­nefndar samkeppnis­mála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 um að stefndu skuli greiða sekt í ríkis­sjóð að fjárhæð 65 milljónir króna og að sektin skuli greiðast eigi síðar en einum mánuði frá dag­setningu úrskurðarins. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda Samkeppniseftirlitsins en til vara að krafa stefnanda um greiðslu sektar í ríkissjóð verði lækkuð stórlega. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda.

Stefndu gera eftirfarandi dómkröfur á hendur stefnendum:

Aðallega að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála dags. 28. september 2015 í máli nr. 6/2015, sem staðfesti að hluta ákvörðun stefnanda Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 frá 15. maí 2015 um að stefndi Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og stefndu Byko ehf. og Norvik hf. var gert að greiða 65 milljónir króna í stjórnvaldssekt, svo og að felld verði úr gildi ákvörðun stefnanda Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 frá 15. maí 2015. Þá krefjast stefndu þess að stefnandi íslenska ríkið greiði stefnda Norvik hf. 65 milljónir króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi til greiðsludags.

Til vara krefjast stefndu þess að ákvæði úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 6/2015 um að stefndu skuli greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 65 milljónir króna verði fellt úr gildi að öllu leyti eða sektarfjárhæðin lækkuð verulega; og stefnandi íslenska ríkið greiði stefnda Norvik hf. mismun á 65 milljónum króna og þeirri sekt sem ákvörðuð er með dómi, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefndu, sem hér eftir verða nefndir matsbeiðendur, um dómkvaðningu matsmanns. Matsbeiðendur krefjast þess að matsmaður verði dómkvaddur í samræmi við matsbeiðni þeirra. Stefnendur, sem hér eftir verða nefndir matsþolar, krefjast þess að synjað verði um dómkvaðningu auk málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins.

II.

Í matsbeiðni er rakið að ágreiningur málsaðila sé margþættur og snúist meðal annars um það hvort sú háttsemi sem hafi verið til umfjöllunar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2015 hafi falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og þá hvort um sé að ræða alvarleg brot.

Matsbeiðendur byggi meðal annars á því í stefnu að háttsemi þeirra hafi ekki brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Matsbeiðendur vísa til þess að upplýsingaskipti aðila á markaði fyrir grófvörur á byggingavörumarkaði hafi eingöngu verið um gildandi, opinber verð. Upplýsingaskiptin hafi því ekki gert það auðveldara fyrir fyrirtækin að fylgjast með verðum hvort annars en þau hafi verið fyrir viðskiptavini fyrirtækjanna, umfram þær leiðir sem viðskiptavinum hafi staðið til boða til að afla sér upplýsinga. Matsbeiðendur byggi einnig á því í stefnu að verði talið um brot að ræða geti þau ekki talist alvarleg. Ljóst sé að ekki geti verið um markmiðsbrot að ræða og ætluðum brotum hafi ekki verið hrint í framkvæmd.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 360/2015 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi tiltekinna starfsmanna matsbeiðanda Byko ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og að sú háttsemi hafi falið í sér alvarleg brot gegn lögunum. Matsbeiðendur hafi ekki verið aðilar að umræddu máli fyrir Hæstarétti og hafi því hvorki haft forræði á sakarefninu né sönnunarfærslu.

Matsbeiðendur telji að háttsemin geti ekki talist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga þar sem hún hafi hvorki verið til þess fallin að hafa áhrif á verð á markaði né gert það í raun. Bæði þessi atriði hafi verulega þýðingu við mat á því hvort háttsemi hafi verið í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga og þá á alvarleikastigi slíks ætlaðs brots. Háttsemi sem ekki sé til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði, umfram þær aðferðir sem viðskiptavinum hafi staðið til boða, geti ekki talist hafa það að markmiði að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga eða 53. gr. EES-samningsins, eða styrkja stöðu fyrirtækisins. Þá geti slík háttsemi ekki talist alvarlegt brot gegn ákvæðinu.

Matsbeiðendur hyggist leiða í ljós með matsbeiðninni að sú framkvæmd sem hafi verið viðhöfð við verðkannanir matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. hafi hvorki verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði, umfram þær leiðir sem viðskiptavinum hafi staðið til boða, né gert það í raun. Þá ætli matsbeiðendur að sanna að verðmyndun á markaðnum sýni að samkeppni hafi ríkt milli matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. á því tímabili sem ákvörðun matsþola Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 hafi tekið til.

Þótt í matsspurningum sé miðað við það tímabil sem sé lagt til grundvallar í ákvörðun matsþola Samkeppniseftirlitsins felist ekki í því viðurkenning á réttmæti þess tímabils. Sé um brot að ræða byggi matsbeiðendur á því að ætlað brotatímabil sé til muna styttra. Með þessari tilhögun matsspurninga fáist svör við áhrifum háttseminnar á öllu því tímabili sem matsþoli Samkeppniseftirlitið byggi á að leggja beri til grundvallar.

Þess sé óskað að matsmaður svari eftirfarandi spurningum:

1.       ,,Var sú framkvæmd við verðkannanir sem viðhöfð var af hálfu Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. sem lýst var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði fyrir þær grófvörur á byggingavörumarkaði sem framkvæmdin tók til, sbr. tilgreiningu varanna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, umfram það ef aðilarnir hefðu nýtt sér þær leiðir til upplýsingaöflunar um verð sem viðskiptavinum stóðu til boða?

2.       Hafði sú framkvæmd við verðkannanir sem viðhöfð var af hálfu Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. sem lýst er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, áhrif á verðmyndun á markaði fyrir þær grófvörur á byggingavörumarkaði sem framkvæmdin tók til, sbr. tilgreiningu varanna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, umfram það ef aðilarnir hefðu nýtt sér þær leiðir til upplýsingaöflunar um verð sem viðskiptavinum stóðu til boða?

3.       Gefur verðmyndun á markaði fyrir þær grófvörur á byggingavörumarkaði sem framkvæmdin tók til, sbr. tilgreiningu varanna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, á því tímabili sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins tekur til, til kynna að samkeppni í verðlagningu hafi ríkt milli Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf.?“

III.

Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður matsbeiðanda til þeirrar meginreglu að aðilar máls hefðu rétt á að afla matsgerðar. Þessi meginregla kæmi skýrt fram í dómaframkvæmd og ætti sér stoð í meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 145/2008 og 162/2016. Vegna þessa eigi matsbeiðendur rétt á að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem þeir telji málstað sínum til framdráttar, þar á meðal matsgerð, enda beri matsbeiðendur kostnað og áhættu af matinu. Þessu til samræmis sé skilyrði 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um skýrleika spurninga, ekki beitt með ströngum hætti, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 533/2013. Þá sé nægilegt að matsspurningar lúti öðrum þræði að atriðum sem dómara sé ekki ætlað að meta, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 487/2012. Matsmenn svari þeim matsspurningum sem þeim sé kleift að svara og verði ekki synjað um dómkvaðningu matsmanns nema unnt sé að slá því föstu fyrir fram að matsmönnum yrði ókleift að svara matsspurningunum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 79/2012 og 487/2012. Loks beri dómara að beita heimild 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 af varfærni, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 472/2009.

Lögmaður matsbeiðanda byggði á því að tilgangur og orðalag matsspurninganna væri skýr. Í málum sem snúi að ógildingu á úrlausnum samkeppnisyfirvalda sé aðilum frjálst að afla matsgerðar til að hnekkja þeim atriðum sem byggt hafi verið á í viðkomandi úrlausnum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 205/2011. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2015 sé lagt til grundvallar að sú framkvæmd sem hafi verið viðhöfð hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á samkeppni. Matsspurningar nr. 1 og 2 lúti að því að hnekkja þeirri niðurstöðu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 virðist vera lagt til grundvallar að verðkannanir séu lögmætar. Hvort það leiði aftur til þess að fella beri úrskurð áfrýjunarnefndarinnar úr gildi sé lagaatriði. Matsspurning nr. 3 lúti að því að hnekkja þeirri niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar að ólögmætt samráð hafi átt sér stað. Sú niðurstaða nefndarinnar sé byggð á ýmsum gögnum málsins. Hvaða áhrif svar við þeirri matsspurningu hafi á það heildarmat sé háð sönnunarmati dómara við efnisúrlausn málsins.

Lögmaður matsbeiðenda kvað að matsbeiðni væri nægilega snemma fram komin. Skýr áskilnaður væri gerður í stefnu og greinargerð matsbeiðenda um öflun matsgerðar. Gagnaöflun hafi ekki verið lýst lokið í málinu sökum þess að dómur Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 hafi verið talinn hafa þýðingu fyrir gagnaöflun. Sá dómur standi dómkvaðningu ekki í vegi. Dómurinn sé bindandi fyrir ákæruvaldið og sakborninga málsins, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar þessa máls hafi ekki átt aðild að málinu. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar hafi dómurinn sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greini þar til hið gagnstæða sé sannað. Markmið matsbeiðenda sé að hluta til að sanna hið gagnstæða. Loks verði að líta til hagsmuna matsbeiðenda. Þær stjórnvaldsákvarðanir sem málið snúist um séu gríðarlega íþyngjandi, en sektarfjárhæð teljist til refsingar í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

IV.

Fram kom hjá lögmanni matsþola við munnlegan flutning málsins að matsþolar byggi á því að í 10. gr. samkeppnislaga sé lýst háttsemi sem hafi það að markmiði að raska samkeppni, þ.e. að hafa áhrif á verðmyndun á markaði. Þau brot sem ákvæðið lýsi séu því markmiðsbrot, gagnstætt því sem matsbeiðendur byggi á.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 komi fram að samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga nægi að samráð fyrirtækja á sama sölustigi, þar á meðal samstilltar aðgerðir þeirra, hafi það að markmiði að samkeppni sé takmörkuð eða henni verði raskað til þess að refsað verði fyrir það, að því tilskildu að um saknæma háttsemi sé að ræða. Af þessu leiði að sé um slíka háttsemi að ræða þá sé markmið hennar að raska samkeppni. Ekki skipti máli hvort háttsemin hafi gert það í raun. Í dóminum komi einnig fram að hin tíðu og reglubundnu samskipti milli matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. hafi falið í sér samstilltar aðgerðir og því brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Enda þótt matsbeiðendur hafi ekki verið aðilar að því máli geti matsgerð ekki orðið til þess að sanna að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðinu.

Matsspurning nr. 1 snúi að því hvort háttsemi hafi falið í sér markmiðsbrot. Matsspurning nr. 2 lúti að því hvort háttsemin hafi haft áhrif á markaði. Svar við því skipti ekki máli, þar sem um markmiðsbrot sé að ræða. Loks lúti matsspurning nr. 3 að því hvort brot matsbeiðanda Byko ehf. hafi verið alvarlegt eða ekki.

V.

Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna. Þessi sjónarmið koma skýrt fram t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands 18. mars 2016 í máli nr. 162/2016, 15. desember 2015 í máli nr. 801/2015, 7. apríl 2008 í máli nr. 145/2008 og 2. apríl 2004 í máli nr. 96/2004, sem staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna.

Samkvæmt matsbeiðni ætla matsbeiðendur að sanna að sú framkvæmd sem hafi verið viðhöfð við verðkannanir matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. hafi hvorki verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði né gert það í raun og að sanna að verðmyndun á markaðnum sýni að samkeppni hafi ríkt milli matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. Fram kom nánar hjá lögmanni matsbeiðenda við munnlegan flutning málsins að matsspurningum nr. 1 og 2 væri ætlað að hnekkja þeirri niðurstöðu í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2015 að sú framkvæmd sem hafi verið viðhöfð hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á samkeppni. Matsspurningu nr. 3 væri ætlað að hnekkja þeirri niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar að ólögmætt samráð hafi átt sér stað.

Með dómi Hæstaréttar 1. desember 2016 í málinu nr. 360/2015 voru átta starfsmenn matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. fundnir sekir um brot gegn tilteknum stafliðum 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Í dómi Hæstaréttar er því slegið föstu að tilgangurinn með þeim samskiptum milli matsbeiðanda Byko ehf. og Húsasmiðjunnar sem greindi í fyrsta kafla ákæru hefðu augljóslega verið að fá gleggri mynd af verðum keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þeirra en kostur var fyrir fyrirtækin, hvort um sig, með því að kynna sér einungis verðin með þeim aðferðum sem neytendum stóðu til boða. Taldi rétturinn að þessi samskipti fælu í sér brot gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga.

Ekki er um það deilt að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2015 tekur að mestu til sömu háttsemi og þeirrar sem fjallað var um í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar. Þrátt fyrir að aðilum sé heimilt að öllu jöfnu að freista þess að færa fram sönnur á að málsatvik séu með öðrum hætti en þeim sem hefur verið slegið föstum í dómi, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, verður ekki litið svo á að sú staða sé uppi hér. Ekki er að mati dómsins hægt að játa aðilum óheftar heimildir til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna undir þessum kringumstæðum en ekki verður betur séð en að Hæstiréttur hafi komist að þeirri lagalegu niðurstöðu að með þeirri háttsemi sem hér um ræðir hafi verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga. Slíkri niðurstöðu verður ekki haggað með matsgerð dómkvadds matsmanns og því verður beiðninni hafnað.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.

Málskostnaður vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms.